Golli

Bruninn á Bræðraborgarstíg

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg í sumar, sem kostaði þrjár ungar manneskjur lífið, er sá mannskæðasti sem orðið hefur í höfuðborginni. Um íkveikju var að ræða en fleiri þættir gerðu það að verkum að svo margir létu lífið. Bruninn afhjúpaði auk þess þær slæmu aðstæður sem útlendingar búa hér oft við. „Þetta endurspeglar hræðilegan veruleika á Íslandi.“

Þær ganga þétt sam­an, pískra sín á milli og hlæja. Á bak við þær er rólu­völlur og þar er hávaxið tré með breiða krónu. Þetta er selja, víði­teg­und sem á ættir að rekja til meg­in­lands Evr­ópu og Asíu. Og líkt og mörg tré á þessum slóðum hefur hún staðið þarna styrkum rótum í ára­tugi. Þótt vetur sé geng­inn í garð sam­kvæmt alm­an­ak­inu hafa lægð­irnar sem honum fylgja verið mis­kunn­samar að mestu það sem af er og á selj­unni eru enn lauf á stangli.

Það skrjáfar í þeim blöðum sem hún þegar hefur fellt undir smáum fótum er þær nema staðar við gang­braut­ina, líta til beggja hliða og bíða þess að bíl­arnir stöðvi. Krækja svo saman höndum og allt að því val­hoppa yfir göt­una af áhyggju­leysi sem aðeins börnum er gef­ið. Þær eru á að giska níu ára. Vin­konur í Gamla Vest­ur­bæn­um.

Þegar göt­unni sleppir og bíl­arnir halda áfram stoppa þær og horfa upp. Á gang­braut­ar­merk­inu hangir hvít kerta­lukt og neðan þess liggja blóm. Húsið sem við þeim blasir er hulið gráu neti. Umhverfis það er járn­girð­ing og innan hennar liggja gler­brot og brunnar spýt­ur. Blár kað­all, sem not­aður er til að halda net­inu föstu, hefur losnað á einum stað. Hann lafir niður með norð­ur­hlið húss­ins og á enda hans er bundin stór lykkja. Þetta minnir óþægi­lega á heng­ing­ar­snöru.

Auglýsing

Það er þó vart hægt að kalla þetta hús. Þetta eru rústir húss. Húss sem stóð á þessu götu­horni í 114 ár. Í því hafa mörg börn alist upp, setið yfir heima­lær­dómn­um, lært að tefla. Horft út um glugg­ana á efri hæð­unum til fjall­anna í fjarska. Í það lögðu Vest­ur­bæ­ingar leið sína í ára­tugi til að kaupa brauð­meti af Sveini bak­ara eða nýlendu­vörur af Hirti bróður hans. Í þá daga lagði lokk­andi ilm af nýbök­uðu frá því. Nú liggur þung bruna­lykt í loft­in­u. 

For­vitnin hefur borið ein­hverja ofur­liði og járn­grind­urnar við suð­ur­gafl húss­ins hafa verið færðar í sund­ur, nógu mikið svo hægt sé að smeygja sér á milli þeirra. Gluggi á jarð­hæð­inni, sem í er enn heil rúða, hefur verið spenntur upp. 

Það er greið leið inn.

Vin­kon­urnar ungu setur hljóðar á meðan þær virða fyrir sér rúst­irn­ar. Þetta er þó eflaust ekki í fyrsta skipti sem þær berja þær aug­um. Rúst­irnar hafa blasað við nágrönnum og öðrum veg­far­endum í tæpa fimm mán­uði. Kross­viðs­plötur eru fyrir sumum dyrum og glugg­um. Í þeim sem enn eru heilir eru dökkar gard­ínur dregnar fyr­ir. Húsið var á þremur hæðum en nú standa aðeins sperr­urnar eftir af ris­hæð­inn­i. 

Önnur stúlkn­anna lítur niður og bendir á blóm­in. Rekur svo augun í eitt­hvað smá­gert sem liggur á gang­stétt­inni. Tekur það upp, veltir því um í lóf­anum en festir það svo á járn­girð­ing­una. Að því búnu halda þær sína leið. 

Bára Huld Beck

Þetta er hjarta. Smátt rautt hjarta úr plasti sem hefur eflaust dottið af girð­ing­unni. En nú er það komið aftur á sinn stað.

Elds­voð­inn á Bræðra­borg­ar­stíg 1 í sum­ar, í hjarta Reykja­vík­ur, er sá mann­skæð­asti sem orðið hefur í höf­uð­borg­inni. Þrjár ungar mann­eskjur fórust, fólk sem hafði komið til Íslands frá heima­land­inu Pól­landi til að vinna. Það hafði séð hér tæki­færi til að bæta hag sinn til fram­tíð­ar. 

„Við erum öll mann­eskj­ur,“ stendur á pappa­spjaldi sem fest er á járn­girð­ing­una. Ís-­lend­ing­ur, út-­lend­ingur – „tveggja stafa mun­ur,“ er þar minnt á. „Við höfum nafn, eigum okkur menn­ingu, tón­list, ljóð, for­tíð, fjöl­skyld­ur, drauma og rétt­indi. Við erum brot­hætt. Við höfum hæfi­leika, sögur að segja. Við höfum þarf­ir. Við erum ein­stök.“

Fjöl­skyldur unga fólks­ins sem lést eru ekki til­búnar að segja sögur þeirra. Sárs­auk­inn er enn of mik­ill, segja þær. Fyrir því verður borin virð­ing í þess­ari umfjöllun og hvorki greint frá nöfnum þeirra né öðrum per­sónu­legum upp­lýs­ingum umfram það sem þegar hefur komið fram opin­ber­lega. 

Frá fjöl­skyldu­húsi til her­bergja­út­leigu 

Horn­húsið sam­anstendur af tveimur bygg­ing­um; tveggja hæða húsi við Vest­ur­götu og tví­lyftu timb­ur­húsi með risi við Bræðra­borg­ar­stíg.

Bræðra­borg­ar­stígur 1 var fjöl­skyldu­hús á árum áður. Á efri hæð­unum tveimur var búið en atvinnu­starf­semi fór fram á jarð­hæð­inni. Um ára­bil var það svo í útleigu og síð­ustu ár hafa her­bergi þess, hvert og eitt, verið leigð út, fyrst og fremst til erlendra verka­manna. Leigj­end­urnir á hvorri hæð fyrir sig deildu bað­her­bergi og eld­húsi og greiddu að minnsta kosti á bil­inu 75-90 þús­und krónur á mán­uði í leigu. Fæstir þeirra voru með þing­lýsta leigu­samn­inga og áttu því ekki rétt á húsa­leigu­bót­um.

Golli

Fjórtán íbúar voru heima er eldur kom upp síð­degis fimmtu­dag­inn 25. júní. Heims­far­aldur kór­ónu­veirunnar hafði sitt að segja um þann fjölda. Að minnsta kosti fjórir höfðu misst vinn­una og tveir voru heima í fjar­námi þar sem stað­nám hafði tíma­bundið verið lagt til hlið­ar. Aðrir voru í vakta­vinnu; höfðu ýmist lokið morg­un­vakt eða voru í vakta­frí­i. 

Í þeim hluta húss­ins sem stendur við Vest­ur­götu var leigð út íbúð á efri hæð­inni. Þar bjuggu tveir ungir menn og voru þeir báðir heima er eld­ur­inn kom upp. Í atvinnu­hús­næði á jarð­hæðum bygg­ing­anna beggja bjó fólk en óvíst hversu margt. Að minnsta kosti tveir voru heima. 

Á ris­hæð timb­ur­húss­ins við Bræðra­borg­ar­stíg bjuggu sex manns í fjórum her­bergj­um. Fimm þeirra voru heima er eld­ur­inn kom upp. 

Auglýsing

Á 2. hæð­inni bjuggu að því er Kjarn­inn kemst næst um níu manns í fimm her­bergjum og um helm­ingur þeirra var heima er eld­ur­inn kom upp.

Einn þeirra var Marek Moszczynski. 

Marek er rúm­lega sex­tug­ur. Hann er pólskur en hafði flutt til Íslands fyrir nokkrum árum og bjó á Bræðra­borg­ar­stígnum að minnsta kosti um hríð en með hlé­um. Hann hafði stundað hér vinnu en var orð­inn atvinnu­laus.

Fyrstu fréttir

„Slökkvi­lið höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins berst nú við mik­inn eld í húsi á horni Bræðra­borg­ar­stígs og Vest­ur­götu í Vest­urbæ Reykja­vík­ur,“ sagði í fyrstu fréttum Rík­is­út­varps­ins af elds­voð­an­um. „Reyk leggur nú yfir stóran hluta borg­ar­inn­ar.“

Fyrsta til­kynn­ing um brun­ann barst neyð­ar­línu klukkan 15.15. Á sömu mín­útu barst aðstoð­ar­beiðni frá sendi­ráði Rúss­lands í Garða­stræti vegna manns sem léti ófrið­lega við hús­ið. Lög­reglan fór þegar á vett­vang og hand­tók mann­inn. Fljót­lega var ljóst að hann var íbúi í hús­inu sem var að brenna skammt frá. Á milli Bræðra­borg­ar­stígs 1 og Garða­strætis 33, þar sem sendi­ráð Rúss­lands er til húsa, eru 500 metr­ar. Það tekur um 6 mín­útur að ganga þessa leið og um 2 til 3 að aka. Á hlaupum er hægt að kom­ast vega­lengd­ina á um þremur mín­út­u­m. 

Aðsend mynd

Sá hand­tekni var Marek Moszczynski. Þegar vakn­aði grunur um að hann væri valdur að brun­anum og um miðjan sept­em­ber var hann ákærður fyrir brennu, mann­dráp og til­raun til mann­dráps. Í ákæru hér­aðs­sak­sókn­ara er hann sak­aður um að hafa kveikt eld á gólfi her­bergis síns á annarri hæð­inni og undir stiga á sömu hæð, stiga sem lá upp á ris­hæð­ina. 

Talið er að bensín hafi verið notað til íkveikj­unn­ar. Eld­ur­inn er í ákæru sagður hafa breiðst hratt út um aðra og þriðju hæð­ina og að húsið hafi verið „nán­ast alelda“ er slökkvi­starf hófst. 

Sáu mann­eskjur í glugg­unum

Þeir sem fyrstir komu á vett­vang brun­ans, nágrannar og sjúkra­flutn­inga­menn, sáu fimm mann­eskjur í gluggum ris­hæð­ar­inn­ar. Þær voru fastar inni. Stig­inn, eina útgöngu­leiðin af hæð­inni, stóð í ljósum logum og reyk­ur­inn sveið í augu og háls. Og eld­ur­inn hélt áfram að magn­ast allt í kring. Reyk­ur­inn að þykkna. „Það var mik­ill eld­ur. Við heyrðum spreng­ingar og sáum þrjár slas­aðar mann­eskjur fyrir utan,“ lýsir sjúkra­flutn­inga­maður aðkom­unni. „Við litum upp og sáum mann­eskju í glugg­an­um.“

Í örvænt­ingu brugðu tvær þeirra á það ráð að brjóta glugga í her­bergjum sínum og stökkva út. Önnur þeirra, ung kona, lést skömmu síð­ar. „Ég gat ekki beð­ið,“ segir karl­mað­ur­inn sem einnig stökk. „Ég vissi að ég myndi bráð­lega missa með­vit­und ef ég kæm­ist ekki út.“ Hann hlaut alvar­lega áverka. En hann lifð­i. 

Hlaut alvar­leg bruna­sár

Sjúkra­flutn­inga- og slökkvi­liðs­mönnum tókst að bjarga karl­manni sem bjó í næsta her­bergi við hann út um glugga. Karl­maður sem bjó á annarri hæð­inni, þeirri hæð sem eld­ur­inn kvikn­aði, hlaut þriðja stigs bruna­sár á stórum hluta lík­am­ans og gekkst vik­urnar á eftir undir nokkrar aðgerð­ir. Hann var dögum saman á gjör­gæslu­deild og ekki útskrif­aður af Land­spít­alnum fyrr en eftir miðjan ágúst. Mað­ur­inn, sem er á sex­tugs­aldri, á frek­ari aðgerðir fyrir hönd­um.

Tvær mann­eskjur á ris­hæð­inni, karl og kona, komust ekki út í tæka tíð og létu lífið í elds­voð­an­um.

Aðsend mynd

Marek neitar sök. Sam­kvæmt mati geð­læknis var hann ósak­hæfur á verkn­að­ar­stundu. Verj­andi hans hefur farið fram á að þing­haldið verði lok­að. Tveir geð­læknar til við­bót­ar, svo­kall­aðir yfir­mats­menn, voru fengnir til að fara yfir geð­mat­ið. Þeir hafa ekki lokið þeirri vinnu og ákvörðun um hvort þing­haldið verður lokað hefur enn ekki verið tek­in. 

Óháð því hvort að kveikt var vilj­andi í voru fyrir hendi í hús­inu að Bræðra­borg­ar­stíg 1 fleiri sam­verk­andi þættir sem höfðu áhrif á elds­voð­ann og urðu til þess að hann varð jafn mann­skæður og raun ber vitni.

Húsið er gam­alt og úr timbri. Ein­angrun var að mestu leyti brenn­an­leg sem auð­veld­aði útbreiðslu elds­ins á milli hæða og her­bergja. Að innan var húsið almennt klætt með timbri á veggjum og í lofti. Búið var að mála mörgum sinn­um, ýmist með olíu- eða plast­máln­ingu. Allt jók þetta á bruna­á­lag­ið. 

Átján her­bergi og ein íbúð

Þá var búið að breyta notkun húss­ins. Á efri hæð­unum tveimur var hvert ein­asta her­bergi leigt út. Milli 15 og 20 manns bjuggu í þessum rýmum þegar mest lét. Á jarð­hæð­inni, sem er skráð sem atvinnu­hús­næði, hafð­ist einnig fólk við og svaf. Í fast­eigna­aug­lýs­ingu í upp­hafi árs kom fram að húsið væri „leigt út sem átján her­bergi og ein tveggja her­bergja íbúð“.

Á þeim hluta húss­ins sem brann voru engar sval­ir. Engir bruna­stig­ar. Aðeins ein flótta­leið var af ris­hæð­inni. Opn­an­leg fög á gluggum voru lítil og í her­bergjum var eng­inn hamar til að brjóta gler­ið. Á göngum voru slökkvi­tæki en þau höfðu ekki verið tekin út í lengri tíma. Engar bruna­æf­ingar höfðu farið fram í hús­inu í að minnsta kosti sex ár. 

Heyrðu aldrei í reyk­skynjara

„Hefði verið hægt að slökkva í þessu með slökkvi­tæki?“ spyr einn við­mæl­andi Kjarn­ans sem kom að rann­sókn brun­ans. „Á ein­hverju augna­bliki hefði það verið hægt.“

Ein­hverjir reyk­skynjarar voru í sam­eig­in­legum rýmum að Bræðra­borg­ar­stíg 1. En þeir eft­ir­lif­endur elds­voð­ans sem Kjarn­inn hefur rætt við og þeir sem skýrsla var tekin af hjá lög­reglu eftir brun­ann, heyrðu aldrei í þeim. „Það fór eng­inn reyk­skynj­ari í gang,“ segir einn íbú­inn. „Ég er alveg vis­s.“

Þeir átt­uðu sig ekki á því að kviknað væri í fyrr en þeir heyrðu skelf­ing­aróp sam­býl­inga sinna fram á gang­i. 

Auglýsing

Óháð lög­reglu­rann­sókn­inni sem þegar hefur leitt til ákæru á hendur Marek Moszczynski, hefur Hús­næð­is- og mann­virkja­stofnun rann­sakað elds­voð­ann þar sem sjónum er beint að hús­inu sjálfu, slökkvi­starf­inu og fleiri þátt­um. Sú skýrsla verður kynnt slökkvi­liðs­stjórum á næstu dögum og í kjöl­farið verða helstu nið­ur­stöður hennar birtar opin­ber­lega.

„Ef ein­hver segir að ekk­ert hefði verið hægt að gera til að bjarga lífum í brun­anum á Bræðra­borg­ar­stíg þá er það óábyrgt og hættu­leg­t,“ segir Benja­min Juli­an, starfs­maður stétt­ar­fé­lags­ins Efl­ing­ar. Flestir sem bjuggu í hús­inu voru í því félagi og nokkrir þeirra leit­uðu þangað eftir aðstoð. „Harm­leik­ur­inn á Bræðra­borg­ar­stíg getur farið á tvo vegu: Hann getur orðið harka­leg lexía fyrir okkur um að taka á rót vand­ans eða að við yppum öxlum og segj­um: Það er aldrei hægt að stoppa íkveikj­ur.“

Vand­inn sem Benja­min bendir á er sá oft á tíðum slæmi aðbún­aður sem erlent verka­fólk þarf að búa við í íslensku sam­fé­lagi. Tæpur ára­tugur er lið­inn síðan að afhjúpað var að mik­ill fjöldi fólks, mörg hund­ruð manns, byggi í iðn­að­ar­hús­næði og öðru óleyf­is­hús­næði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þannig var staðan árið 2014, áður en ferða­þjón­ustan sprakk út af krafti og bygg­ing­ar­iðn­að­ur­inn fór sam­tímis á flug. Starfs­manna­leigum óx fiskur um hrygg, milli­liðnum milli fyr­ir­tækja og vinnu­afls, þar sem dæmi er um að litið var á fólk sem „vör­ur“ og þær ítrekað orðið upp­vísar að því að brjóta á rétt­indum starfs­manna sinna. 

Rifu sig upp með rótum

Íslend­ingar hafa á síð­ustu árum upp­lifað mesta góð­ær­is­skeið allra tíma. Vöxtur í ferða­þjón­ustu var hraður og hann útheimti mikið vinnu­afl. Þetta vinnu­afl var ekki á lausu og því þurfti að sækja það að utan. Inn­flytj­endur voru því aflið sem knúði góð­ær­is­vél­ina. „Fjöld­inn allur af erlendu verka­fólki reif sig upp með rótum í heima­löndum sínum til þess að hlaupa undir bagga með okkur í upp­sveifl­unn­i,“ segir Anna Gunn­hildur Ólafs­dótt­ir, sviðs­stjóri félags- og þró­un­ar­sviðs Efl­ing­ar. 

Þetta er svo sá sam­fé­lags­hópur sem sam­dráttur í ferða­þjón­ustu á síð­asta ári kom einna verst niður á og einnig það fólk sem orðið hefur hvað harð­ast úti í efna­hag­skrepp­unni sem hófst með kór­ónu­veiru­far­aldr­inum og sér ekki fyrir end­ann á. 

„Yf­ir­maður minn öskr­aði á mig og spurði mig hvort ég vild­i þéna pen­inga eða borga skatta,“ segir kona sem starf­aði fyrir eig­end­ur Bræðra­borg­ar­stígs 1 fyrir nokkrum árum. Hún fékk aldrei neina launa­seðla, þekkti ekki rétt­indi sín og hafði ekki hug­mynd um að hún gæti gengið í stétt­ar­fé­lag. „Ég veit það aftur á móti núna, en því miður ekki þá.“ 

Gluggi á jarðhæðinni, sem í er enn heil rúða, hefur verið spenntur upp.
Golli

Ekki allra hagur að bæta úr

Mikil umræða skap­að­ist eftir elds­voð­ann á Bræðra­borg­ar­stíg og þess var kraf­ist að aðbún­aður erlends verka­fólks yrði bætt­ur. Lausnin felst í því að auka aðgengi að ódýru og öruggu hús­næði. Það er ekki til staðar og því þarf að byggja. Mál voru sett í nefnd og umræðan koðn­aði niður að mestu. „Ef það væri hagur allra að laga þetta yrði það gert,“ segir Benja­min. „En það er ekki allra hag­ur. Lyk­ill máls­ins er sá að það er fólk hér á landi sem græðir á þessu fyr­ir­komu­lag­i.“

Fyr­ir­komu­lagi sem gengur út á að fá hingað til starfa fólk sem er til­búið að vinna fyrir lægri laun en flestir Íslend­ing­ar, til­búið að sinna störfum sem Íslend­ingar hafa fæstir áhuga á. Og til að þessi for­múla gangi upp, svo að útlend­ing­arnir beri eitt­hvað úr být­um, þurfa þeir ódýrt hús­næði. Það hús­næði sem þeim býðst í dag á við­ráð­an­legu verði er meðal ann­ars iðn­að­ar­hús­næði eða lítil leigu­her­bergi eins og þau sem var að finna á Bræðra­borg­ar­stíg 1. Hús­næði sem upp­fyllir ekki alltaf kröfur um eld­varn­ir, þar sem margir ótengdir aðilar búa saman og deila eld­húsi og sal­ernum og nú á sama tíma og far­aldur bráðsmit­andi og hættu­legrar veiru gengur yfir heims­byggð­ina. 

Vilja ekki rífa húsið

Bruna­rúst­irnar standa enn á horni Bræðra­borg­ar­stígs og Vest­ur­götu. Bygg­ing­ar­full­trúi Reykja­víkur sendi eig­and­anum bréf í lok októ­ber þar sem honum var gert að sækja um nið­ur­rif og fjar­lægja það sem eftir stæði af hús­inu innan þrjá­tíu daga. Var honum gef­inn fimmtán daga frestur til að gera athuga­semd við ákvörð­un­ina. 

Hún barst bygg­ing­ar­full­trúa í síð­ustu viku. Í henni kemur fram að eig­and­inn vilji  ekki að húsið verði rifið strax. Það sé sönn­un­ar­gagn í vátrygg­inga­máli sem geti dreg­ist í marga mán­uði, jafn­vel ár. Ákveði yfir­völd engu að síður að rífa það verði farið í mál og þau krafin bóta. Lög­fræð­ingur bygg­ing­ar­full­trúa fer nú yfir málið og ákvörðun um næstu skref verður tekin í fram­hald­inu.

Bára Huld Beck

Í ítar­legri umfjöllun Kjarn­ans um brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg verður fjallað um húsið sjálft, eig­endur þess og sögu og við­brögð opin­berra stofn­anna og ann­arra við atburði sem á sér enga hlið­stæðu á síð­ari tím­um. Varpað er ljósi á fram­lag erlends verka­fólks í auk­inni hag­sæld íslensku þjóð­ar­inn­ar, á kjör þess og þær aðstæður sem það er látið búa við og hvernig þær aðstæður gátu skap­ast.

Fjallað er um sam­fé­lagið í Gamla Vest­ur­bænum sem stóð þétt saman og reyndi eftir fremsta megni að rétta fórn­ar­lömbun­um, sem mörg hver hafa lítið tengsla­net hér á landi, hjálp­ar­hönd og sagðar sögur þeirra sem komu fyrst á vett­vang brun­ans. 

Þunga­miðja umfjöll­un­ar­innar er frá­sagnir þeirra sem lifðu af. Fólks sem kom til Íslands í leit að betra lífi en glímir nú við afleið­ingar áfalls­ins sem á eftir að fylgja því alla ævi. „Ég hugsa stundum um það hvort að ég hefði getað leikið ofur­hetju og bjargað þeim,“ segir Vasile Tibor Andor sem komst út úr brenn­andi hús­inu á síð­ustu stundu. „En ég veit innst inni að ég gat það ekki. Að þegar ég vissi af eld­inum var það orðið of sein­t.“

Mynd­band: Golli. Mynd­ir: Golli og Bára Huld Beck

Lesa meira

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar