„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“

„Ég upplifi þessar bætur sem áverka ofan á áfallið sem við, þau sem lifðum af, vorum þegar að ganga í gegnum,“ segir Vasile Tibor Andor sem lifði eldsvoðann á Bræðraborgarstíg af. „Flest okkar misstu allt sem við eigum og heilsu okkar, von og framtíð.“

Tibor starfar á Kaffibrennslunni á Laugavegi í Reykjavík.
Tibor starfar á Kaffibrennslunni á Laugavegi í Reykjavík.
Auglýsing

„Á morgun kemur í ljós hvort að ég geti fagnað hverjum degi aftur,“ sagði Vasile Tibor Andor við blaðamann Kjarnans daginn áður en dómur var kveðinn upp í manndrápsmálinu á Bræðraborgarstíg. Tibor hefur vart litið glaðan dag frá því 25. júní í fyrra, frá deginum sem kveikt var í heimili hans, hann varð innlyksa í eldhafinu í þrettán mínútur og óttaðist allan þann tíma um líf sitt. Hann horfði líka á nágrannakonu sína deyja í eldinum. Og sá á eftir vini sínum stökkva út um gluggann til að bjarga lífi sínu. Sá slasaðist alvarlega. Auk ungu konunnar sem Tibor sá falla örenda í gólfið á herbergisganginum á rishæðinni að Bræðraborgarstíg 1 létust tveir.

Auglýsing

Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Marek Moszczynski, sem ákærður var fyrir að hafa kveikt í og valda dauða unga fólksins, hefði sannarlega kveikt í en að hann hefði verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Hann mun því ekki fara í fangelsi heldur sæta gæslu á viðeigandi stofnun. Á þeirri dvöl eru engin tímamörk. Líkt og með aðra sjúkdóma verður hann útskrifaður þegar hann þykir hafa náð nægilega góðri heilsu.

Fjölskyldum fórnarlambanna og íbúum hússins sem voru innandyra er eldurinn kviknaði og lifðu af, voru dæmdar miskabætur. Í tilfelli Tibors var farið fram á 5 milljónir króna. Niðurstaða dómaranna er hins vegar sú að bætur til hans þyki „hæfilega ákveðnar“, eins og það er orðað, 500 þúsund krónur.

Tibor missti allt sitt í eldsvoðanum. Hann missti heimili sitt. Hann hlaut reykeitrun og brunasár. Það eru hins vegar afleiðingar á hans andlegu líðan sem hann glímir enn við. Það er því ekki jafn mikil bjartsýni og von í orðum hans nú og daginn fyrir dómsuppkvaðninguna.

Tibor var innlyksa í eldhafinu í þrettán mínútur. Á myndinni sést hvar sjúkraflutningamaður og slökkviliðsmaður bjarga honum út. Mynd: Aðsend

Það er ár liðið frá brunanum. „Að lifa eldsvoðann af hefur haft gríðarleg áhrif á mitt líf,“ segir hann í yfirlýsingu til réttargæslumanns síns sem hann hefur leyft Kjarnanum að vitna til. Allt frá því eldsvoðinn mannskæði varð hefur hann átt erfitt með að fóta sig frá degi til dags – að finna eitthvað jafnvægi í lífinu sem gæti talist „eðlilegt“.

En ég get samt ekki sofnað

Tibor sagði ítarlega frá hinum örlagaríka degi, 25. júní 2020, í viðtali við Kjarnann í haust. Hann endurtók svo reynslu sína sem vitni fyrir héraðsdómi í vor. Þá, líkt og nú, sagðist hann eiga erfitt með svefn. „Ég fæ enn endurteknar martraðir um að húsið standi í ljósum logum en að enginn sé vakandi til að heyra í reykskynjaranum,“ segir hann um líðan sína í dag. Þess vegna sefur hann ekki á nóttunni. Hann leggur sig frekar í nokkra tíma yfir daginn og svo aftur á milli 3 og 5 á nóttunni áður en hann fer í vinnuna á kaffihúsinu á Laugaveginum þar sem hann hefur starfað í nokkur ár. Hann segir svefnleysið taka mikinn toll af lífsgæðum hans. Læknir hafi ávísað honum svefnlyfjum. „Skammturinn er ein tafla fyrir svefn,“ segir hann. „Ég tek tvær, þrjár, fjórar og jafnvel fimm. En ég get samt ekki sofnað.“

Tibor á sjúkrabörum eftir björgun úr brennandi húsinu. Mynd: Aðsend

Tibor var inni í herbergi sínu á rishæð Bræðraborgarstígs 1 er hann heyrði öskur fram af gangi og fann skyndilega reykjarlykt. Hann opnaði hurðina og þá mætti honum þykkt, svart reykský og eldtungur við enda gangsins. Stiginn niður á næstu hæð, eina útgönguleiðin, var alelda. „Ég á mjög erfitt í hvert skipti sem ég opna hurðina úr herbergi mínu fram á gang,“ segir hann um líðan sína í íbúðinni sem hann leigir núna. Það sem hann sá einnig er hann opnaði herbergishurðina á Bræðraborgarstíg var nágrannakona hans. Eldurinn hafði læst sig í hana og hún hljóp eftir ganginum þar til hún féll hreyfingarlaus á gólfið. „Þessi sjón hefur grafið um sig í huga mér og ég sé hana fyrir mér í hvert skipti sem ég opna hurð,“ segir Tibor. „Stundum sækir að mér sú tilfinning að það sé einhver í ljósum logum fyrir utan herbergið mitt og ég verð að opna til að athuga hvort að það sé rétt.“

Tibor segist stöðugt berjast við grátinn. „Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið á kaffihúsinu þar sem ég vinn. Og ég get ekki grátið á almannafæri. Svo að ég finn mér afsökun til að vera einn og hleypi sorginni og óttanum út eins lengi og ég get. Svo set ég upp grímuna og fer aftur að vinna.“

Tibor hefur leitað til sálfræðings og fyrst í stað fannst honum það hjálpa. Í dag segist hann ekki vera í slíkri meðferð en gjarnan vilja hafa einhvern til að tala við þegar svartnættið verður hvað mest.

„Ég finn fyrir reiði og vonleysi þegar ég hugsa um stöðu mína og hinna tuttugu „útlendingana“ sem lifðu eldsvoðann af,“ skrifar Tibor í yfirlýsingu sinni. Að Bræðraborgarstíg 1 bjuggu fyrst og fremst erlendir verkamenn sem höfðu þó margir hverjir, ef ekki flestir, búið og unnið á Íslandi árum saman. Ástæðan fyrir því að hann setur orðið „útlendingur“ innan gæsalappa er að hans sögn sú að eftirlifendum brunans hafi mætt annað viðhorf þar sem þeir eigi ættir að rekja til annarra landa en Íslands. Viðbrögðin við ofanflóðum síðasta vetrar hafi til dæmis að hans mati verið allt önnur. „Þar misstu sumir heimili sín og urðu fyrir gríðarlegu áfalli vegna náttúruhamfaranna og samfélagið tók þeim opnum örmum með fullt af kærleik og skilningi og bauð þeim aðstoð.“ Honum finnst samanburðurinn á viðbrögðunum við þessum tveimur harmleikjum sláandi. „Ég sé ekki lengur eðlilega framtíð fyrir mig á Íslandi.“ Hann viti þó að skuggi áfallsins muni fylgja sér hvert sem hann fari.

Hver ber ábyrgð?

Þar sem Marek hafi verið dæmdur ósakhæfur finnst Tibor eins og enginn eigi að bera ábyrgð. Hann hafi vonast til að finna létti, geta skilið við hinar erfiðu tilfinningar en niðurstaðan bjóði ekki upp á það. Hversdagslegar kveikjur, sem minna hann stöðugt á harmleikinn, sækja stöðugt að honum. „Í hvert skipti sem síminn hringir og ég stekk upp og held að þetta sé reykskynjari. Að finna stöðugt reykjarlykt sem engin er. Að bregða við að heyra í slökkviliðsbíl eða sjúkrabíl í fjarlægð. Áður en dómurinn var kveðinn upp hafði ég sannfært sjálfan mig um að dómararnir myndu sakfella brennuvarginn og að þar með myndi málinu ljúka. En nú sé ég ekki fyrir endann á neinu. Enginn ber ábyrgð, engar afleiðingar fyrir brennuvarginn. Dómskerfið yppir bara öxlum og lífið á að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.“

„Ég finn fyrir reiði og vonleysi þegar ég hugsa um stöðu mína og hinna tuttugu „útlendingana“ sem lifðu eldsvoðann af,“ skrifar Tibor í yfirlýsingu sinni.  Mynd: Bára Huld Beck

Samhliða sakamálinu var farið fram á miskabætur fyrir Tibor og hin fórnarlömbin. Hann segist hafa gert sér grein fyrir því að þær yrðu ekki háar. Líkt og framar greinir var farið fram á 5 milljónir króna fyrir hans hönd. 500 þúsund þykja hins vegar hæfilegar bætur að mati dómaranna. „Þegar lögfræðikostnaður og skattar – já þetta er ekki prentvilla – skattar – hafa verið dregnir frá munu bæturnar jafnast á við tveggja vikna laun,“ skrifar Tibor í yfirlýsingu sinni. „Hið flókna kerfi að baki því að reikna út hvað er „réttlátt“ er, að mínu mati, óréttlátt kerfi sem þjónar fyrst og fremst stjórnvöldum til að spara skattgreiðendum pening. Ég upplifi þessar bætur sem áverka ofan á áfallið sem við, þau sem lifðum af, vorum þegar að ganga í gegnum. Flest okkar misstu allt sem við eigum og heilsu okkar, von og framtíð að auki.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent