Bára Huld Beck Vasile Tibor Andor
Bára Huld Beck

„Ég vakna enn á nóttunni og finnst ég finna brunalykt og heyra öskur“

„Þetta var hræðilegt og þetta er enn erfitt fyrir svo marga,“ segir Vasile Tibor Andor sem bjó á Bræðraborgarstíg 1 er eldsvoðinn mikli varð í sumar. „Við sem lifðum af erum enn í áfalli og ráðvillt. Við erum að reyna að fóta okkur aftur, finna einhvers konar jafnvægi í hversdagsleikanum.“

Ég heiti Vasile Tibor And­or, fæddur í Rúm­eníu 16. nóv­em­ber 1981. Pabbi minn og stjúp­móðir fluttu til Íslands árið 2010. Þá var ég í námi á Spáni en heim­sótti þau, leist vel á allt og ákvað að sækja um vinnu og flytja hing­að. Núna hef ég búið hérna í átta ár. Unnið á svína­búi, í fata­hengi á skemmti­stað og á veit­inga- og kaffi­hús­um. Síð­ustu árin hef ég unnið á Kaffi­brennsl­unni.

Ég á mér draum. Eða reyndar tvo! Mig langar að fara til Grikk­lands og ferð­ast um allt og vinna. Það yrði ævin­týri. Mig dreymir líka um að klára að gera upp húsið mitt í Rúm­en­íu. Húsið sem afi átti. Það er í Tran­syl­vaníu – í litlu frið­sælu sveita­þorpi sem er eins og úr gömlu ævin­týri. Á sumrin er þar mjög heitt og á vet­urna ískalt. En ég elska snjó­inn og þetta hús. Og veistu, það er 230 ára gam­alt!

Hvað fleira viltu vita um mig? Kannski það að vinir mínir á Íslandi kalla mig Tibor. Og já, svo auð­vitað um ástæð­una fyrir þessu við­tali. Ég sem sagt lifði af brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg. Þrír sem bjuggu í her­bergj­unum við hlið­ina á mér gerðu það ekki. Þetta var ungt fólk. Gott fólk. Þetta voru vinir mín­ir. Þau voru hingað komin til að vinna. Safna sér pen­ing fyrir brúð­kaup­unum sín­um. Fyrir fram­tíð­inni.

Ég hugsa stundum um það hvort að ég hefði getað leikið ofur­hetju og bjargað þeim. En ég veit innst inni að ég gat það ekki. Að þegar ég vissi af eld­inum var það orðið of seint.

Það sem fyrir augu bar

Þetta er sagan hans Tibors. Unga, fín­gerða manns­ins með svarta hárið og brosið í dökku aug­un­um. En stundum er þreyta í þeim. Hún kemur skyndi­lega. Jafn­vel í miðri setn­ingu. Því þó að hann telji nauð­syn­legt að segja frá því sem gerð­ist á Bræðra­borg­ar­stígnum þá er það ekki auð­velt. Langt í frá. En hann heldur áfram, þó að þreytan komi í augun og segir frá því sem fyrir þau bar í einum voveif­leg­asta atburði sem átt hefur sér stað í Reykja­vík­ur­borg síð­ari ár.

Auglýsing

Hvernig var að vinna á svína­búi í Borg­ar­firði? spyr ég Tibor þar sem við sitjum and­spænis hvort öðru á annarri hæð­inni á Kaffi­brennsl­unni á Lauga­veg­in­um. Það er sam­komu­bann og við pössum að hafa gott bil á milli okk­ar. Það sama gera við­skipta­vinir á neðri hæð­inni sem slæð­ingur er af þrátt fyrir ástand­ið. Að minnsta kosti ef marka má hversu títt má heyra starfs­fólkið flóa mjólk í kaffi­drykk­ina.

Tibor talar ágæta ensku. Hana lærði hann mest­megnis á Íslandi. Þegar hann talar um lífið í Rúm­en­íu, tím­ann á Spáni og kon­una sem hann er nú trú­lof­að­ur, á hann auð­velt með að finna réttu ensku orð­in.

„Mér fannst mjög fínt að vinna á svína­bú­inu, þetta var góð vinna þar sem ég gekk í öll störf. Ég var þar í tvö ár. Þá lang­aði mig að flytja til Reykja­vík­ur. Og pabba lang­aði að flytja frá Reykja­vík svo hann fékk starfið mitt á svína­bú­inu. Þetta var góð lausn sem allir voru sáttir við,“ segir hann og bros­ir.

Við­ráð­an­leg leiga og stutt í vinn­una

Þegar Tibor flutti til Reykja­víkur vildi hann búa sem næst vinn­unni svo hann þyrfti ekki að vera á bíl. Húsið sem stendur á horni Bræðra­borg­ar­stígs og Vest­ur­götu, tví­lyfta timb­ur­húsið sem skipa­smið­ur­inn Otti Guð­munds­son frá Engey lét reisa árið 1906, var því til­val­ið. Það skipti hann líka máli að leigan var við­ráð­an­leg, 80 þús­und á mán­uði, því hann vildi leggja sem mest fyr­ir.

Hann flutti inn í her­bergi á þriðju hæð­inni – undir súð­inni með útsýni til norð­urs. Her­bergið var lítið en á hæð­inni var sam­eig­in­legt bað­her­bergi og eld­hús. Þetta dugði.

Engin leynd­ar­mál

Sam­býl­ingar komu og fóru, flestir voru þeir frá Pól­landi og þó að sam­skipti hans við aðra íbúa hefðu verið kurt­eisleg þá voru þau oft ein­föld þar sem sumir kunnu ekki mikla ensku. Það var heils­ast á göngum og í eld­húsi. Spurt hvernig fólk hefði það. Her­bergin voru oft­ast aðeins athvarf til að halla sér milli vinnutarna og það gátu liðið dagar án þess að hann sæi nágranna sína. Hann heyrði þó oft í þeim. Þunnir timb­ur­veggir og gólf urðu til þess að eng­inn hefði getað átt stór leynd­ar­mál í hús­inu. Það þurfti ekki einu sinni að hækka róm­inn svo að heyra mætti orða­skil milli her­bergja.

Tibor flutti til Íslands árið 2012 og hafði búið á Bræðraborgarstíg í sex ár þegar kviknaði í.
Bára Huld Beck

En stundum bjó sama fólkið í hús­inu um lengri tíma og þá kynnt­ist hann því bet­ur. Þannig var því farið með nágrann­ann í her­bergi 307. Þeir voru frá sitt hvoru land­inu en á svip­uðu reki og varð vel til vina. Á hæð­inni fyrir neðan bjó svo lengi eldri mað­ur. Sá var alltaf til­bú­inn að rétta fram hjálp­ar­hönd ef á þurfti að halda. „Hann var afinn í hús­in­u,“ segir Tibor um greið­vikni manns­ins. „Við hjálp­uð­umst öll að. Það var kannski ekki mikið sam­band á milli okkar allra en það var gott.“ 

Sex íbúar á ris­hæð­inni

Á 3. hæð­inni voru fjögur her­bergi sem búið var í. Fyrir utan Tibor og vin hans í her­bergi 307 bjuggu þar í júní tvö ung pör frá Pól­landi. Bæði höfðu þau komið hingað til lands haustið áður. Annað parið hafði fyrst í stað búið á hæð­inni fyrir neð­an, þar sem fimm her­bergi eru til útleigu, en síðar flutt upp í ris­ið. Sam­tals bjuggu um mitt árið fimmtán manns á þessum efri hæðum húss­ins að Bræðra­borg­ar­stíg 1.

Svo er það jarð­hæð­in. Hún hefur gegnt ýmsum hlut­verkum í gegnum tíð­ina. Fyrir nokkrum árum var þar rek­inn leik­skóli. Síð­ustu miss­eri hefur hún verið bústaður manna en þar sem sér­inn­gangur var í það rými höfðu íbúar efri hæð­anna lítið saman við þá sem á jarð­hæð­inni bjuggu að sælda.

Auglýsing

25. júní 2020

Að morgni 25. júní vaknar Tibor snemma og hefur sig til í vinn­una. Hann gengur var­lega niður þrönga stig­ana af þriðju hæð­inni, vit­andi að enn eru margir í fasta­svefni, og út í milt snemm­sum­ar­veðr­ið. Það er frels­is­til­finn­ing í loft­inu. Dögum saman hefur ekk­ert smit af kór­ónu­veirunni greinst í land­inu og veru­lega hefur verið slakað á sam­komu­tak­mörk­un­um. Þetta hefur Tibor fundið á vinnu­stað sín­um, Kaffi­brennsl­unni. Brúnin hefur lyfst á við­skipta­vin­un­um. Sam­taka­máttur þjóðar hefur skilað henni á þennan stað. Ferða­menn eru meira að segja farnir að sjást á stangli.

Tibor stendur fyrir utan hið 114 ára gamla hús sem hefur verið heim­ili hans síð­ustu árin og gengur svo niður Sveins­brekk­una að Vest­ur­götu, brekk­una sem er kennd við bak­ar­ann Svein Hjart­ar­son er bjó og rak lands­þekkt bak­arí að Bræðra­borg­ar­stíg 1 í árarað­ir. Húsið var aðeins nokk­urra ára gam­alt þegar Sveinn og eig­in­kona hans Stein­unn Sig­urð­ar­dóttir keyptu það árið 1910. Þá og næstu ára­tug­ina mátti finna ilm af nýbök­uðu brauði og kökum leggja frá jarð­hæð­inni í morg­unsár­ið. En nú eru liðin mörg ár síðan glóðin í ofnum Sveins bak­ara kuln­aði í síð­asta sinn. 

Gangan í vinn­una tekur Tibor innan við kort­er. Hann gengur rösk­lega í gegnum gamla Vest­ur­bæ­inn, hverfið sem hann er far­inn að þekkja vel eftir að hafa búið þar í sex ár, og fyrr en varir er hann mættur á Kaffi­brennsl­una og far­inn að skenkja gestum kaffi og rabba við þá um dag­inn og veg­inn. Tím­inn líður hratt og áður en Tibor veit af er vakt­inni lokið og hann heldur fót­gang­andi heim á leið. Í eld­hús­inu á Bræðra­borg­ar­stígnum er kona sem leigir her­bergi á hæð­inni að hafa til mat. Þá blossar svengdin upp hjá Tibor og í stað þess að leggja sig strax, eins og hann hafði hugsað sér að gera, skreppur hann út í búð og kaupir sér súpu. Konan er enn í eld­hús­inu er hann kemur til baka og hann fer inn í her­bergið sitt til að hita súp­una. Á meðan hringir hann í kærust­una sína og þau ræða saman í stutta stund áður en hann tekur til við að borða.

En þá heyrir hann ein­hvern hrópa og í kjöl­farið brot­hljóð. Ti­bor er vanur ýmsu eftir að hafa búið í húsi þar sem allt heyr­ist á milli her­bergja og hæða og kippir sér ekki mikið upp við hávað­ann í fyrstu en heyrir svo skyndi­lega hrópað á ensku: Eld­ur! Eld­ur! Á sama tíma heyrir hann brot­hljóð úr næsta her­bergi.

Án þess að hugsa opnar hann her­berg­is­dyrn­ar. Hann þekkir rödd nágranna­konu sinnar og heyrir að hún er í hættu. Þykkt reyk­ský mætir honum á ógn­ar­hraða og í gegnum það sér hann eld. Hann veltir því eitt and­ar­tak fyrir sér að reyna að kom­ast inn í eld­húsið sem er ská­hallt á móti, fara þaðan út um glugg­ann og niður á þakið í við­bygg­ing­unni. En það er óger­legt. Þá sér hann nágranna­konu sína koma út úr svörtu reyk­ský­inu. Hún hefur lík­lega reynt að kom­ast niður stig­ann en sú leið var orðin ófær vegna elds. Tibor sér hana falla í gólf­ið, hreyf­ing­ar­lausa. Hann nær ekki til henn­ar. Reyk­ur­inn er kæf­andi og hit­inn frá eld­inum þegar mik­ill. Hann lokar dyr­unum að her­bergi sínu, hellir vatni úr flösku í stutt­erma­bol til að hafa fyrir vitum sínum vegna reyks­ins og hringir í neyð­ar­lín­una. Hann til­kynnir hvar hann sé og að það sé kviknað í. Starfs­maður neyð­ar­lín­unnar segir honum að þegar hafi verið hringt og að slökkvi­liðið sé á leið­inni.

Tibor veit að vinur hans í næsta her­bergi hefur brotið glugg­ann. Að hann sé að gera sig lík­legan til að stökkva. Hann reynir að róa hann. „Gerðu það, ekki stökkva,“ segir Tibor í gegnum þunnan vegg­inn. „Bíddu aðeins leng­ur. Hugs­aðu um fjöl­skyld­una þína. Þú gætir dáið. Slökkvi­liðið er á leið­inn­i.“ En hann getur ekki beðið leng­ur. Það er orðið óbæri­legt í her­berg­inu. Tibor heyrir hann klifra út og skella svo á gang­stétt­inni fyrir neð­an. Hann heyrir ekk­ert manna­mál inni í hús­inu leng­ur. Það eina sem hann heyrir er snar­kið í eld­in­um. Hann hugsar með sér að lík­lega hafi aðrir sem hann vissi af á hæð­inni einnig stokk­ið.

Það kemur reykur undan hurð­inni á her­bergi hans í gegnum bilið sem er á milli hurðar og þrösk­ulds. Reyk­ur­inn verður sífellt meiri og ótt­inn í brjósti Tibors vex sam­hliða. Hann reynir að halda ró sinni en á orðið erfitt með að anda. Reyk­ur­inn er svo þykkur að það leka stöðugt tár úr augum hans. Það er orðið kolniða­myrkur í her­berg­inu fyrir utan að hann sér glóð inni í veggj­un­um.

En hann ótt­ast að ef hann myndi brjóta glugg­ann gæti eld­ur­inn fengið meira súr­efni og færst í auk­ana. Starfs­mað­ur­inn hjá neyð­ar­lín­unni, sem hann er enn með í sím­an­um, segir honum að brjóta gat á glugg­ann. Hann hik­ar, hann sér vin sinn liggja á gang­stétt­inni og vill ekki að gler­brotum rigni yfir hann. En svo verður hann að gera það. Það er hæg­ara sagt en gert. Hann reynir að brjóta glerið með hnef­an­um. Það tekst ekki. Hann finnur í fljótu bragði ekk­ert til að nota sem bar­efli en grípur loks pip­arkvörn og tekst að gera lítið gat á tvö­falda rúð­una – rétt til að ná and­an­um.

Honum finnst heil eilífð líða og sú hugsun ger­ist æ ágeng­ari að hann neyð­ist til að stökkva. Fyrir neðan er fólk úr nágrenn­inu búið að safn­ast saman og er að reyna að finna stiga sem nær upp á þriðju hæð­ina. Sá fyrsti sem kemur á vett­vang er of stutt­ur. Tibor neitar áfram að brjóta glugg­ann og biður um að þeir sem séu á jörðu niðri komi upp og brjóti hann utan frá svo gler­brotin fari inn í her­berg­ið.Sjúkraflutningamaður aðstoðar Tibor við að brjóta gluggann og slökkviliðsmaður hjálpar honum út.
Aðsend mynd

Sjúkra­flutn­inga­mað­ur, sem kom­inn er á vett­vang, kemur loks með stóran stiga, fer upp og aðstoðar Tibor við að brjóta glugg­ann með kolli. Um leið og það ger­ist finnur Tibor reyk­inn þétt­ast umhverfis sig og eld­tungur standa út úr veggj­un­um. En hann nær loks and­an­um. Sjúkra­flutn­inga­mað­ur­inn hjálpar honum út og þá er slökkvi­liðið mætt á vett­vang og slökkvi­liðs­maður tekur við og aðstoðar Tibor niður stig­ann.

Hann er kom­inn nið­ur. Segir slökkvi­liðs­mann­inum að þrír séu mögu­lega enn á þriðju hæð­inni. Aðeins fáum sek­úndum eftir að Tibor fer út um glugg­ann er her­bergið hans orðið alelda. Hann er lagður á sjúkra­börur og gefið súr­efni og fluttur á Land­spít­al­ann.

Tibor veit ekki nákvæm­lega hvað hann var lengi inni í her­berg­inu eftir að hann varð elds­ins var. Kannski í tíu mín­út­ur, segir hann hugsi. Hlut­irnir gerð­ust hratt en þó virt­ist heil eilífð líða áður en hann komst út um glugg­ann. Á sjúkra­hús­inu þarf Tibor að fá tugi lítra af súr­efni. Hann er með reyk­eitr­un. Hugur hans er á fleygi­ferð. Hefði hann getað gert eitt­hvað öðru­vísi? Hefði hann getað bjargað ein­hverj­um? Hann hefur miklar áhyggjur af vini sínum sem stökk út og veit ekki hvort hann er á lífi. En svo heyrir hann sárs­aukaóp úr sjúkra­rúmi nálægt sér og muldur og þekkir rödd­ina. Þetta er vinur hans. Hann er á lífi.

Tibor var gefið súrefni og fluttur á Landspítalann. Mynd: Aðsend

Lækn­arnir ráð­leggja Tibor að vera á sjúkra­hús­inu um nótt­ina en hann getur ekki hugsað sér það. Eftir að hafa dvalið þar í 5-6 tíma hringir hann í stjúp­móður sína og biður hana að sækja sig. Honum er farið að líða betur og er útskrif­að­ur.

En hann er alls­laus. Fyrir utan sím­ann sinn og pen­inga­veskið hafði allt sem hann átti hér á landi orðið eld­inum að bráð. Hann hafði búið í ris­her­berg­inu á Bræðra­borg­ar­stíg 1 í sex ár. Og þó að nægju­semin hafi verið mikil hafði hann átt far­tölv­ur, nokkur úr, nýtt rúm, nýjan fata­skáp og ísskáp. Einnig hafði hann geymt tölu­vert reiðufé í litla her­berg­inu sínu, fé sem hann hafði ætlað að nota til að end­ur­byggja hús afa síns. Ýmsir papp­írar eyðilögð­ust líka. Vega­bréfið þeirra á með­al.

Hann biður stjúp­móður sína að keyra að hús­inu. Um leið og hann kemur að því sér hann að þriðja hæðin er gjör­ó­nýt. Hann veit að ein­hverjir fór­ust í eld­in­um. Hann hafði séð það með eigin aug­um. Hann veit líka að ein­hverjir voru fluttir á sjúkra­hús en hann veit ekki hvernig þeim líð­ur. Það eina sem hann veit er að vinur hans úr næsta her­bergi er alvar­lega slas­að­ur.

Auglýsing

Smám saman kom í ljós hvað hafði raun­veru­lega gerst. Að maður hefði verið hand­tek­inn, grun­aður um íkveikju. Að eldur hefði verið kveiktur á fleiri en einum stað á annarri hæð­inni. Fleira átti eftir að koma í ljós við rann­sókn á vett­vangi. Meðal ann­ars að bensín hafði verið notað til íkveikj­unn­ar.

Eld­ur­inn fór með veggj­unum hring­inn í kringum 3. hæð­ina, rifjar Tibor upp. „Ég veit ekki af hverju. Kannski hafði það eitt­hvað með klæðn­ingu húss­ins að gera. Hann fór her­bergi úr her­bergi. Og hann kom síð­ast inn í mitt her­bergi. Kannski af því að ég braut ekki glugg­ann, ég veit það ekki.“

Fékk íbúð vegna færri ferða­manna

Hann bjó hjá föður sínum og stjúp­móður í þrjá daga eftir brun­ann. Þá bauðst honum íbúð á hót­eli í gegnum einn sam­starfs­mann sinn. Það eru fáir ferða­menn á land­inu og mikið hús­næði í borg­inni því laust. Leigan átti að vera 150 þús­und á mán­uði en eig­and­inn bauðst til að leigja Tibor hana á 110 þús­und.

Hann er mjög ánægður með litlu íbúð­ina. „Hún er stór­kost­leg,“ segir hann og það birtir yfir and­lit­inu. Þar er eld­hús­krókur og gott bað­her­bergi og unnustan getur búið hjá hon­um. Aðstæð­urnar eru mun betri en þær sem hann bjó við á Bræðra­borg­ar­stíg. Hann veit þó að þetta er aðeins tíma­bund­ið. Að um leið og ferða­menn­irnir koma aftur þarf hann að finna sér annað hús­næði.

Vill ekki þiggja ölm­usu

Tibor á stundum erfitt með að finna ensku orðin til að lýsa atburð­unum á Bræðra­borg­ar­stíg. En hann talar rólega. Vandar sig. Hann er klæddur í sömu bux­urnar og hann var í þegar elds­voð­inn varð. „Ég ætl­aði að henda þeim. Mér líkar þær og þær eru nokkurn veg­inn það eina sem bjarg­að­ist af mínum eig­um. Þær eru kannski til minn­ingar um það sem gerð­is­t,“ segir hann og leggur hönd­ina á lær­ið. Hann er klæddur nýlegum svörtum jakka. Jakk­inn er gjöf frá Íslend­ingi sem vildi hjálpa. Eitt­hvað til við­bótar af föt­um, kodda og sæng var hann til­bú­inn að þiggja en þó með sem­ingi. Fólk bauð honum líka pen­inga en þá afþakk­aði hann. Stoltið er mik­ið. „Ég er lif­andi og ég get unnið fyrir mér,“ segir hann ákveð­inn. Hann er til­bú­inn að þiggja aðstoð frá hinu opin­bera en ekki ölm­usu. En þó að hann hafi búið hér í átta ár þekkir hann lítið hvernig kerfið virkar og hvert hann á að leita. Hann hefur hingað til ekki þurft á þeim upp­lýs­ingum að halda.

Tibor segist ekki vera tilbúinn til að þiggja ölmusu enda geti hann unnið fyrir sér.
Bára Huld Beck

Eftir brun­ann fannst honum hann afskipt­ur. Hann fór í við­tal við sjón­varpið eftir brun­ann og einnig við dag­blað. Þá vissi hann að þrír vinir hans af 3. hæð­inni hefðu dáið og að einn lægi alvar­lega slas­aður á sjúkra­húsi. Við­tölin reynd­ust honum erfið en honum fannst mik­il­vægt að segja hvað hafði gerst. Við­brögðin frá opin­berum aðilum voru hins vegar eng­in. ­Fyrir utan ein­stak­linga, sem buðu fram hjálp, m.a. við­skipta­vini sem hann hafði kynnst á Kaffi­brennsl­unni, þá hringdi eng­inn í tvær vik­ur.

 Lög­reglan hafði tekið skýrslu af honum á sjúkra­hús­inu en honum fannst allar spurn­ing­arnar snú­ast um mann­inn sem var grun­aður um íkveikj­una. Ekk­ert var spurt um húsið sjálft og aðbúnað íbú­anna. Og lög­reglan hefur ekki haft sam­band aft­ur. Ræð­is­maður Rúm­eníu á Íslandi hringdi ekki held­ur. Ekki einu sinni til að spyrja hvernig hann hafði það eða til að ráð­leggja honum hvert hann, sem hafði misst allt sitt, gæti leit­að.

Til­vilj­ana­kennd við­brögð

Honum finnst við­brögð borg­ar­innar og margra ann­arra aðila hafa verið til­vilj­ana­kennd. Engin form­leg við­bragðs­á­ætlun hafi farið í gang þrátt fyrir að um stór­slys hafi verið að ræða í miðri höf­uð­borg­inni sem hafði áhrif á tugi ef ekki hund­ruð ein­stak­linga.

Dag­inn eftir brun­ann mætti Tibor í vinn­una á Kaffi­brennsl­unni. Ein­hverjir spurðu hvað hann væri að gera þarna, af hverju hann tæki sér ekki frí til að jafna sig en honum fannst gott að koma á meðal fólks – ef hann mætti ekki í vinn­una myndi honum líða verr. En svo sá hann dag­blað og á for­síð­unni var mynd af alelda hús­inu á Bræðra­borg­ar­stíg. „Ég tengdi ekki alveg við þetta í fyrstu en svo hugs­aði ég: Ég bjó í þessu húsi. Og klukku­tíma eftir að ég mætti í vinn­una þurfti ég að fara.“ 

Þegar sím­inn fór loks að hringja

Ein­hver benti honum á að leita til Rauða kross­ins sem hann og gerði. Þar fékk hann inn­eign­ar­miða í Rauða kross-­búð­ina til að kaupa sér föt. Hann fann hins vegar ekk­ert sem hann taldi sig geta not­að. Hann skil­aði því mið­unum og sagð­ist heldur vilja að ein­hver sem þyrfti meira á þeim að halda fengi þá.

Eftir heim­sókn­ina til Rauða kross­ins fór sím­inn loks að hringja. Hringt var frá þjón­ustu­mið­stöð mið­borgar og honum boðin gist­ing á hót­eli í tvær vik­ur. Hann var þá þegar kom­inn með leigu­í­búð og þurfti ekki á því að halda. Hann fékk greitt jafn­virði tveggja vikna leigu en fyrir utan það var enga frek­ari fjár­hags­að­stoð eða stuðn­ing frá borg­inni að fá. „Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að ég hefði misst allt. Að ég yrði að nota launin mín til að kaupa mér föt og fleira. En þau gátu ekk­ert meira gert fyrir mig.“

Auglýsing

Efl­ing er stétt­ar­fé­lag Tibors og bauðst meðal ann­ars til að greiða fyrir tíma hjá sál­fræð­ingi. Atburð­ur­inn var far­inn að lita alla hans til­veru. Það var gott og þarft að ræða málin við fag­mann­eskju. Hann hafði sjálfur lært sál­fræði á Spáni og átti í raun lítið eftir af nám­inu þegar hann varð að hætta því. Hann var því opinn fyrir hjálp­inni sem sál­fræði­tím­arnir veittu hon­um. Og hann komst yfir erf­ið­asta hjall­ann.

Árásin í Serbíu

Atburð­irnir á Bræðra­borg­ar­stíg höfðu ýft upp annað áfall sem hann varð fyrir í Serbíu um alda­mót­in. Þangað flutti hann um tví­tugt og hafði ásamt frænda sínum fengið starf sem kúa­smali. Kýrnar voru í eigu fólks­ins í þorp­unum á svæð­inu og frænd­urnir gættu þeirra í sam­ein­ingu frá morgni til kvölds. Eitt sinn voru þeir úti með kýrnar er sprengju var varpað úr lofti rétt fyrir framan þá. Hún þeytti þeim um koll og vank­aði og þegar þeir komust til sjálfra sín með ærandi suð fyrir eyr­un­um, sáu þeir að ein kýrin var dauð. „Þetta var auð­vitað ekk­ert miðað við það sem gerð­ist á Bræðra­borg­ar­stíg. Þar dó fólk og ást­vinir þeirra eru miður sín af sorg. Þar upp­lifðu margir skelfi­lega hluti sem eiga eftir að fylgja þeim allt líf­ið.“

Eftir loft­árás­ina í Serbíu gat hann ekki hugsað sér að vera þar áfram. Við tók margra ára dvöl á Spáni þar sem Tibor stund­aði ekki aðeins nám í sál­fræði heldur afl­aði sér einnig iðn­mennt­un­ar.

Hættur að flýja

En frá Íslandi ætlar hann ekki að fara þrátt fyrir allt það sem hann hefur gengið hér í gegn­um. Hann ætlar ekki að flýja heldur halda áfram að starfa hér og búa í ein­hver ár. Draum­ur­inn er að flytja svo í húsið í Tran­syl­van­íu, afa­hús. Búa til fal­legan garð allt í kring og von­andi ala þar upp börn.

„Ég vakna ennþá á nótt­unni og finnst ég finna bruna­lykt og heyra ösk­ur. Ég sprett upp úr rúm­inu og fer jafn­vel fram á gang til að athuga hvort það sé kviknað í, hvort allt sé í lagi. Stundum man ég ekki eftir þessu þegar kærastan mín rifjar það upp morg­un­inn eft­ir. Þetta áfall er enn í lík­am­anum mín­um. Ég veit ekki hvort það fer ein­hvern tím­ann en ég verð að læra að lifa með þessu.“

Vill stofna styrkt­ar­sjóð

Tibor er ekki bjart­sýnn á að hann fái meiri stuðn­ing frá hinu opin­bera. Honum finnst órétt­látt eftir að hafa borgað skatta á Íslandi í mörg ár að kostn­aður við tveggja vikna leigu sé allt og sumt. Ver­andi útlend­ingur nýtur hann ekki sama tengsla­nets á Íslandi og þeir sem hér eru fædd­ir. Hann seg­ist feg­inn að faðir hans, stjúp­móðir og yngri bróðir búi hérna og að hann geti rætt það sem gerð­ist við þau en opin­ber aðstoð við að koma undir sig fót­unum á ný eftir hræði­legan elds­voða sem hann missti aleig­una í er af skornum skammti. Þess vegna langar hann að koma á fót sjóði fyrir þá sem lenda í svip­aðri stöðu.

Hann seg­ist vita um mörg hús þar sem útlend­ingar búa við ömur­legar aðstæð­ur, deili jafn­vel tugum saman einu bað­her­bergi og eld­húsi. „Þau eru um allt þessi hús. Og ef þau brenna þá tapa íbú­arnir öllu.“

Tibor segist vita um mörg hús þar sem útlendingar búa við ömurlegar aðstæður, deili jafnvel tugum saman einu baðherbergi og eldhúsi.
Bára Huld Beck

Tibor fór á fund Dags B. Egg­erts­sonar borg­ar­stjóra snemma í haust og tal­aði af mik­illi hrein­skilni um sinn aðbúnað og ann­arra útlend­inga sem búa í borg­inni. Íslenskur vinur hans mætti svo nýverið á fund hjá mann­réttinda­ráði borg­ar­innar fyrir hans hönd og sagði frá slæmri stöðu margra útlend­inga.

En hlut­irnir hreyfast of hægt að mati Tibors. Í upp­sveiflu ger­ast stundum skugga­legir hlutir á hús­næð­is­mark­aðn­um. Leigu­verð verður svo hátt að fólk hefur ekki efni á sæmi­legum íbúðum heldur verður að láta sér duga lítil her­bergi innan um fólk frá ýmsum löndum sem á fátt annað sam­eig­in­legt en að búa og vinna á Íslandi. Við þessar aðstæður getur verið erfitt að mynda sam­stöðu og einnig að gera sér fulla grein fyrir rétt­indum sín­um.

Vatns­laus í fleiri mán­uði

Árið 2016, um tveimur árum eftir að Tibor flutti inn á Bræðra­borg­ar­stíg­inn, sprungu vatns­lagnir í hús­inu. Íbú­arnir á þriðju hæð­inni gátu ekki notað bað­her­bergið og eld­húsið hjá sér og höfðu ekki annan kost en að nota aðstöð­una á hæð­inni fyrir neð­an. Þetta þýddi að um 20 manns voru að deila tveimur bað­her­bergj­um.

Þáver­andi eig­andi húss­ins var lát­inn vita en að tveimur árum liðnum var enn vatns­laust. Þá höfðu leigj­end­urnir á þriðju hæð­inni tekið sig saman og hætt að borga leig­una. Vatns­lagn­irnar voru enn bil­aðar er nýr eig­andi keypti hús­ið. Sá var ekki á þeim bux­unum að gera strax við heldur hót­aði að henda Tibor út ef hann greiddi ekki leig­una aftur í tím­ann. Eig­and­inn hafði mann með sér til halds og trausts og Tibor segir að þó hann hafi haldið áfram að standa á sínu hafi þessi sam­skipti hrætt hann og setið í honum lengi.

Ólæti á jarð­hæð­inni

Að lokum náð­ist sam­komu­lag, gert var við lagn­irnar og leigj­end­urnir féllust á að borga hluta af leigu síð­ustu mán­aða og fulla leigu frá við­gerð­inni. Eftir tæp­lega þriggja ára bar­áttu var loks hægt að nota kló­settið á ris­hæð­inni á ný. Fleiri vanda­mál voru til staðar í hús­inu. Ólæti voru tíð á jarð­hæð­inni. Lög­reglan var oft­sinnis kölluð út. „Ég hafði ekki hug­mynd um að það væru svona mörg her­bergi þar,“ segir Tibor þegar hann hugsar til baka. „Ég hitti spænska vin­konu mína um dag­inn sem sagð­ist hafa búið á jarð­hæð­inni. Ég trúði henni varla.“

Engin bruna­æf­ing var haldin í hús­inu allan þann tíma sem Tibor bjó þar. Ein útgöngu­leið var af þriðju hæð­inni – tré­stigi niður á aðra hæð­ina. Tibor segir engar neyð­ar­út­gangs­merk­ingar hafa verið á hæð­unum tveim­ur. Á ris­hæð­inni var gam­alt slökkvi­tæki en það hafði ekki verið yfir­farið að því er Tibor best veit frá því hann flutti inn. Einnig var þar að finna annað lítið slökkvi­tæki, vænt­an­lega úr bíl. Í eld­hús­inu var ekk­ert eld­varn­ar­teppi að sögn Tibors.

Heyrðir þú ein­hvern tím­ann í reyk­skynjara þennan dag þegar eld­ur­inn kvikn­aði?

„Nei, aldrei,“ segir Tibor ákveð­inn. „Það fór eng­inn reyk­skynj­ari í gang. Ég er alveg vis­s.“

Tibor reynir að lifa lífinu eins og afi hans kenndi honum: Lifðu hvern dag eins og hann sé þinn síðasti.
Bára Huld Beck

Opn­an­lega fagið í her­berg­is­glugga Tibors var lítið og engan veg­inn hægt að skríða út um það. Engar svalir eða bruna­stigar voru utan á hús­inu og engir brunakaðlar inni í því. Í glugg­anum var tvö­falt gler en eng­inn hamar í her­berg­inu til að brjóta það, kæmi upp eld­ur. Þá segir Tibor að engar eld­varna­hurðir hafi verið í öllu hús­inu.

Þó að eig­and­inn hafi sýnt af sér ógn­andi hegðun gagn­vart Tibor í þau fáu skipti sem hann hitti hann, gat hann ekki ímyndað sér það sem átti eftir að ger­ast í kjöl­far brun­ans. Hann fékk rukkun um leigu næsta mán­aðar í heima­bank­ann. Og einnig mán­uð­inn eftir það. Þrátt fyrir að Bræðra­borg­ar­stígur 1, húsið sem hann hafði búið í, væri brunnið til því sem næst kaldra kola. Það var ekki fyrr en fjallað var um málið í fjöl­miðlum að rukk­an­irnar hurfu.

Minn­ist þeirra sem fór­ust

„Ég kem reglu­lega að hús­inu og legg þar blóm. Þetta gerð­ist allt svo hratt. Ég hugsa stundum hvort að ég hefði getað leikið ofur­hetju en ég veit innst inni að ég hefði ekki getað bjargað nein­um. Það var of seint.

Þetta var hræði­legt og þetta er enn erfitt fyrir svo marga. Við sem lifðum af erum enn í áfalli og erum ráð­villt. Við erum að reyna að fóta okkur aft­ur, finna ein­hvers konar jafn­vægi í hvers­dags­leik­an­um. Þó að við höfum búið saman áttum við ekki endi­lega margt sam­eig­in­legt fyrir utan að kunna litla og jafn­vel enga íslensku og að vita ekki hver réttur okkar er. Ég hefði viljað fá meiri aðstoð og leið­bein­ing­ar. En í stað­inn hefur mætt okkur þögn og ég kemst ekki hjá því að hugsa að kerfið hafi brugð­ist okk­ur. Að syrgja saman þegar svona mik­ill harm­leikur verður er nauð­syn­legt skref í sorg­ar­ferli sam­fé­lags. Það hefur ekki enn gerst og ég velti fyrir mér hvers vegna. Ein skýr­ingin gæti verið tengsla­netið okkar eða skortur á því rétt­ara sagt.

Þetta er meðal þeirra hugs­ana sem fylla huga minn þegar ég er að reyna að sofna. Mig langar að fá svör, vita hvað gerð­ist og af hverju. Þrátt fyrir að sjálfs­á­sak­anir sæki enn að mér og ég spyrji sjálfan mig hvað ég hefði getað gert öðru­vísi þá reyni ég að lifa líf­inu eins og afi minn kenndi mér: Lifðu hvern dag eins og hann sé þinn síð­ast­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal