Bára Huld Beck Vasile Tibor Andor

„Ég vakna enn á nóttunni og finnst ég finna brunalykt og heyra öskur“

„Þetta var hræðilegt og þetta er enn erfitt fyrir svo marga,“ segir Vasile Tibor Andor sem bjó á Bræðraborgarstíg 1 er eldsvoðinn mikli varð í sumar. „Við sem lifðum af erum enn í áfalli og ráðvillt. Við erum að reyna að fóta okkur aftur, finna einhvers konar jafnvægi í hversdagsleikanum.“

Ég heiti Vasile Tibor Andor, fæddur í Rúmeníu 16. nóvember 1981. Pabbi minn og stjúpmóðir fluttu til Íslands árið 2010. Þá var ég í námi á Spáni en heimsótti þau, leist vel á allt og ákvað að sækja um vinnu og flytja hingað. Núna hef ég búið hérna í átta ár. Unnið á svínabúi, í fatahengi á skemmtistað og á veitinga- og kaffihúsum. Síðustu árin hef ég unnið á Kaffibrennslunni.

Ég á mér draum. Eða reyndar tvo! Mig langar að fara til Grikklands og ferðast um allt og vinna. Það yrði ævintýri. Mig dreymir líka um að klára að gera upp húsið mitt í Rúmeníu. Húsið sem afi átti. Það er í Transylvaníu – í litlu friðsælu sveitaþorpi sem er eins og úr gömlu ævintýri. Á sumrin er þar mjög heitt og á veturna ískalt. En ég elska snjóinn og þetta hús. Og veistu, það er 230 ára gamalt!

Hvað fleira viltu vita um mig? Kannski það að vinir mínir á Íslandi kalla mig Tibor. Og já, svo auðvitað um ástæðuna fyrir þessu viðtali. Ég sem sagt lifði af brunann á Bræðraborgarstíg. Þrír sem bjuggu í herbergjunum við hliðina á mér gerðu það ekki. Þetta var ungt fólk. Gott fólk. Þetta voru vinir mínir. Þau voru hingað komin til að vinna. Safna sér pening fyrir brúðkaupunum sínum. Fyrir framtíðinni.

Ég hugsa stundum um það hvort að ég hefði getað leikið ofurhetju og bjargað þeim. En ég veit innst inni að ég gat það ekki. Að þegar ég vissi af eldinum var það orðið of seint.

Það sem fyrir augu bar

Þetta er sagan hans Tibors. Unga, fíngerða mannsins með svarta hárið og brosið í dökku augunum. En stundum er þreyta í þeim. Hún kemur skyndilega. Jafnvel í miðri setningu. Því þó að hann telji nauðsynlegt að segja frá því sem gerðist á Bræðraborgarstígnum þá er það ekki auðvelt. Langt í frá. En hann heldur áfram, þó að þreytan komi í augun og segir frá því sem fyrir þau bar í einum voveiflegasta atburði sem átt hefur sér stað í Reykjavíkurborg síðari ár.

Auglýsing

Hvernig var að vinna á svínabúi í Borgarfirði? spyr ég Tibor þar sem við sitjum andspænis hvort öðru á annarri hæðinni á Kaffibrennslunni á Laugaveginum. Það er samkomubann og við pössum að hafa gott bil á milli okkar. Það sama gera viðskiptavinir á neðri hæðinni sem slæðingur er af þrátt fyrir ástandið. Að minnsta kosti ef marka má hversu títt má heyra starfsfólkið flóa mjólk í kaffidrykkina.

Tibor talar ágæta ensku. Hana lærði hann mestmegnis á Íslandi. Þegar hann talar um lífið í Rúmeníu, tímann á Spáni og konuna sem hann er nú trúlofaður, á hann auðvelt með að finna réttu ensku orðin.

„Mér fannst mjög fínt að vinna á svínabúinu, þetta var góð vinna þar sem ég gekk í öll störf. Ég var þar í tvö ár. Þá langaði mig að flytja til Reykjavíkur. Og pabba langaði að flytja frá Reykjavík svo hann fékk starfið mitt á svínabúinu. Þetta var góð lausn sem allir voru sáttir við,“ segir hann og brosir.

Viðráðanleg leiga og stutt í vinnuna

Þegar Tibor flutti til Reykjavíkur vildi hann búa sem næst vinnunni svo hann þyrfti ekki að vera á bíl. Húsið sem stendur á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu, tvílyfta timburhúsið sem skipasmiðurinn Otti Guðmundsson frá Engey lét reisa árið 1906, var því tilvalið. Það skipti hann líka máli að leigan var viðráðanleg, 80 þúsund á mánuði, því hann vildi leggja sem mest fyrir.

Hann flutti inn í herbergi á þriðju hæðinni – undir súðinni með útsýni til norðurs. Herbergið var lítið en á hæðinni var sameiginlegt baðherbergi og eldhús. Þetta dugði.

Engin leyndarmál

Sambýlingar komu og fóru, flestir voru þeir frá Póllandi og þó að samskipti hans við aðra íbúa hefðu verið kurteisleg þá voru þau oft einföld þar sem sumir kunnu ekki mikla ensku. Það var heilsast á göngum og í eldhúsi. Spurt hvernig fólk hefði það. Herbergin voru oftast aðeins athvarf til að halla sér milli vinnutarna og það gátu liðið dagar án þess að hann sæi nágranna sína. Hann heyrði þó oft í þeim. Þunnir timburveggir og gólf urðu til þess að enginn hefði getað átt stór leyndarmál í húsinu. Það þurfti ekki einu sinni að hækka róminn svo að heyra mætti orðaskil milli herbergja.

Tibor flutti til Íslands árið 2012 og hafði búið á Bræðraborgarstíg í sex ár þegar kviknaði í.
Bára Huld Beck

En stundum bjó sama fólkið í húsinu um lengri tíma og þá kynntist hann því betur. Þannig var því farið með nágrannann í herbergi 307. Þeir voru frá sitt hvoru landinu en á svipuðu reki og varð vel til vina. Á hæðinni fyrir neðan bjó svo lengi eldri maður. Sá var alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd ef á þurfti að halda. „Hann var afinn í húsinu,“ segir Tibor um greiðvikni mannsins. „Við hjálpuðumst öll að. Það var kannski ekki mikið samband á milli okkar allra en það var gott.“ 

Sex íbúar á rishæðinni

Á 3. hæðinni voru fjögur herbergi sem búið var í. Fyrir utan Tibor og vin hans í herbergi 307 bjuggu þar í júní tvö ung pör frá Póllandi. Bæði höfðu þau komið hingað til lands haustið áður. Annað parið hafði fyrst í stað búið á hæðinni fyrir neðan, þar sem fimm herbergi eru til útleigu, en síðar flutt upp í risið. Samtals bjuggu um mitt árið fimmtán manns á þessum efri hæðum hússins að Bræðraborgarstíg 1.

Svo er það jarðhæðin. Hún hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina. Fyrir nokkrum árum var þar rekinn leikskóli. Síðustu misseri hefur hún verið bústaður manna en þar sem sérinngangur var í það rými höfðu íbúar efri hæðanna lítið saman við þá sem á jarðhæðinni bjuggu að sælda.

Auglýsing

25. júní 2020

Að morgni 25. júní vaknar Tibor snemma og hefur sig til í vinnuna. Hann gengur varlega niður þrönga stigana af þriðju hæðinni, vitandi að enn eru margir í fastasvefni, og út í milt snemmsumarveðrið. Það er frelsistilfinning í loftinu. Dögum saman hefur ekkert smit af kórónuveirunni greinst í landinu og verulega hefur verið slakað á samkomutakmörkunum. Þetta hefur Tibor fundið á vinnustað sínum, Kaffibrennslunni. Brúnin hefur lyfst á viðskiptavinunum. Samtakamáttur þjóðar hefur skilað henni á þennan stað. Ferðamenn eru meira að segja farnir að sjást á stangli.

Tibor stendur fyrir utan hið 114 ára gamla hús sem hefur verið heimili hans síðustu árin og gengur svo niður Sveinsbrekkuna að Vesturgötu, brekkuna sem er kennd við bakarann Svein Hjartarson er bjó og rak landsþekkt bakarí að Bræðraborgarstíg 1 í áraraðir. Húsið var aðeins nokkurra ára gamalt þegar Sveinn og eiginkona hans Steinunn Sigurðardóttir keyptu það árið 1910. Þá og næstu áratugina mátti finna ilm af nýbökuðu brauði og kökum leggja frá jarðhæðinni í morgunsárið. En nú eru liðin mörg ár síðan glóðin í ofnum Sveins bakara kulnaði í síðasta sinn. 

Gangan í vinnuna tekur Tibor innan við korter. Hann gengur rösklega í gegnum gamla Vesturbæinn, hverfið sem hann er farinn að þekkja vel eftir að hafa búið þar í sex ár, og fyrr en varir er hann mættur á Kaffibrennsluna og farinn að skenkja gestum kaffi og rabba við þá um daginn og veginn. Tíminn líður hratt og áður en Tibor veit af er vaktinni lokið og hann heldur fótgangandi heim á leið. Í eldhúsinu á Bræðraborgarstígnum er kona sem leigir herbergi á hæðinni að hafa til mat. Þá blossar svengdin upp hjá Tibor og í stað þess að leggja sig strax, eins og hann hafði hugsað sér að gera, skreppur hann út í búð og kaupir sér súpu. Konan er enn í eldhúsinu er hann kemur til baka og hann fer inn í herbergið sitt til að hita súpuna. Á meðan hringir hann í kærustuna sína og þau ræða saman í stutta stund áður en hann tekur til við að borða.

En þá heyrir hann einhvern hrópa og í kjölfarið brothljóð. Tibor er vanur ýmsu eftir að hafa búið í húsi þar sem allt heyrist á milli herbergja og hæða og kippir sér ekki mikið upp við hávaðann í fyrstu en heyrir svo skyndilega hrópað á ensku: Eldur! Eldur! Á sama tíma heyrir hann brothljóð úr næsta herbergi.

Án þess að hugsa opnar hann herbergisdyrnar. Hann þekkir rödd nágrannakonu sinnar og heyrir að hún er í hættu. Þykkt reykský mætir honum á ógnarhraða og í gegnum það sér hann eld. Hann veltir því eitt andartak fyrir sér að reyna að komast inn í eldhúsið sem er skáhallt á móti, fara þaðan út um gluggann og niður á þakið í viðbyggingunni. En það er ógerlegt. Þá sér hann nágrannakonu sína koma út úr svörtu reykskýinu. Hún hefur líklega reynt að komast niður stigann en sú leið var orðin ófær vegna elds. Tibor sér hana falla í gólfið, hreyfingarlausa. Hann nær ekki til hennar. Reykurinn er kæfandi og hitinn frá eldinum þegar mikill. Hann lokar dyrunum að herbergi sínu, hellir vatni úr flösku í stuttermabol til að hafa fyrir vitum sínum vegna reyksins og hringir í neyðarlínuna. Hann tilkynnir hvar hann sé og að það sé kviknað í. Starfsmaður neyðarlínunnar segir honum að þegar hafi verið hringt og að slökkviliðið sé á leiðinni.

Tibor veit að vinur hans í næsta herbergi hefur brotið gluggann. Að hann sé að gera sig líklegan til að stökkva. Hann reynir að róa hann. „Gerðu það, ekki stökkva,“ segir Tibor í gegnum þunnan vegginn. „Bíddu aðeins lengur. Hugsaðu um fjölskylduna þína. Þú gætir dáið. Slökkviliðið er á leiðinni.“ En hann getur ekki beðið lengur. Það er orðið óbærilegt í herberginu. Tibor heyrir hann klifra út og skella svo á gangstéttinni fyrir neðan. Hann heyrir ekkert mannamál inni í húsinu lengur. Það eina sem hann heyrir er snarkið í eldinum. Hann hugsar með sér að líklega hafi aðrir sem hann vissi af á hæðinni einnig stokkið.

Það kemur reykur undan hurðinni á herbergi hans í gegnum bilið sem er á milli hurðar og þröskulds. Reykurinn verður sífellt meiri og óttinn í brjósti Tibors vex samhliða. Hann reynir að halda ró sinni en á orðið erfitt með að anda. Reykurinn er svo þykkur að það leka stöðugt tár úr augum hans. Það er orðið kolniðamyrkur í herberginu fyrir utan að hann sér glóð inni í veggjunum.

En hann óttast að ef hann myndi brjóta gluggann gæti eldurinn fengið meira súrefni og færst í aukana. Starfsmaðurinn hjá neyðarlínunni, sem hann er enn með í símanum, segir honum að brjóta gat á gluggann. Hann hikar, hann sér vin sinn liggja á gangstéttinni og vill ekki að glerbrotum rigni yfir hann. En svo verður hann að gera það. Það er hægara sagt en gert. Hann reynir að brjóta glerið með hnefanum. Það tekst ekki. Hann finnur í fljótu bragði ekkert til að nota sem barefli en grípur loks piparkvörn og tekst að gera lítið gat á tvöfalda rúðuna – rétt til að ná andanum.

Honum finnst heil eilífð líða og sú hugsun gerist æ ágengari að hann neyðist til að stökkva. Fyrir neðan er fólk úr nágrenninu búið að safnast saman og er að reyna að finna stiga sem nær upp á þriðju hæðina. Sá fyrsti sem kemur á vettvang er of stuttur. Tibor neitar áfram að brjóta gluggann og biður um að þeir sem séu á jörðu niðri komi upp og brjóti hann utan frá svo glerbrotin fari inn í herbergið.


Sjúkraflutningamaður aðstoðar Tibor við að brjóta gluggann og slökkviliðsmaður hjálpar honum út.
Aðsend mynd

Sjúkraflutningamaður, sem kominn er á vettvang, kemur loks með stóran stiga, fer upp og aðstoðar Tibor við að brjóta gluggann með kolli. Um leið og það gerist finnur Tibor reykinn þéttast umhverfis sig og eldtungur standa út úr veggjunum. En hann nær loks andanum. Sjúkraflutningamaðurinn hjálpar honum út og þá er slökkviliðið mætt á vettvang og slökkviliðsmaður tekur við og aðstoðar Tibor niður stigann.

Hann er kominn niður. Segir slökkviliðsmanninum að þrír séu mögulega enn á þriðju hæðinni. Aðeins fáum sekúndum eftir að Tibor fer út um gluggann er herbergið hans orðið alelda. Hann er lagður á sjúkrabörur og gefið súrefni og fluttur á Landspítalann.

Tibor veit ekki nákvæmlega hvað hann var lengi inni í herberginu eftir að hann varð eldsins var. Kannski í tíu mínútur, segir hann hugsi. Hlutirnir gerðust hratt en þó virtist heil eilífð líða áður en hann komst út um gluggann. Á sjúkrahúsinu þarf Tibor að fá tugi lítra af súrefni. Hann er með reykeitrun. Hugur hans er á fleygiferð. Hefði hann getað gert eitthvað öðruvísi? Hefði hann getað bjargað einhverjum? Hann hefur miklar áhyggjur af vini sínum sem stökk út og veit ekki hvort hann er á lífi. En svo heyrir hann sársaukaóp úr sjúkrarúmi nálægt sér og muldur og þekkir röddina. Þetta er vinur hans. Hann er á lífi.

Tibor var gefið súrefni og fluttur á Landspítalann. Mynd: Aðsend

Læknarnir ráðleggja Tibor að vera á sjúkrahúsinu um nóttina en hann getur ekki hugsað sér það. Eftir að hafa dvalið þar í 5-6 tíma hringir hann í stjúpmóður sína og biður hana að sækja sig. Honum er farið að líða betur og er útskrifaður.

En hann er allslaus. Fyrir utan símann sinn og peningaveskið hafði allt sem hann átti hér á landi orðið eldinum að bráð. Hann hafði búið í risherberginu á Bræðraborgarstíg 1 í sex ár. Og þó að nægjusemin hafi verið mikil hafði hann átt fartölvur, nokkur úr, nýtt rúm, nýjan fataskáp og ísskáp. Einnig hafði hann geymt töluvert reiðufé í litla herberginu sínu, fé sem hann hafði ætlað að nota til að endurbyggja hús afa síns. Ýmsir pappírar eyðilögðust líka. Vegabréfið þeirra á meðal.

Hann biður stjúpmóður sína að keyra að húsinu. Um leið og hann kemur að því sér hann að þriðja hæðin er gjörónýt. Hann veit að einhverjir fórust í eldinum. Hann hafði séð það með eigin augum. Hann veit líka að einhverjir voru fluttir á sjúkrahús en hann veit ekki hvernig þeim líður. Það eina sem hann veit er að vinur hans úr næsta herbergi er alvarlega slasaður.

Auglýsing

Smám saman kom í ljós hvað hafði raunverulega gerst. Að maður hefði verið handtekinn, grunaður um íkveikju. Að eldur hefði verið kveiktur á fleiri en einum stað á annarri hæðinni. Fleira átti eftir að koma í ljós við rannsókn á vettvangi. Meðal annars að bensín hafði verið notað til íkveikjunnar.

Eldurinn fór með veggjunum hringinn í kringum 3. hæðina, rifjar Tibor upp. „Ég veit ekki af hverju. Kannski hafði það eitthvað með klæðningu hússins að gera. Hann fór herbergi úr herbergi. Og hann kom síðast inn í mitt herbergi. Kannski af því að ég braut ekki gluggann, ég veit það ekki.“

Fékk íbúð vegna færri ferðamanna

Hann bjó hjá föður sínum og stjúpmóður í þrjá daga eftir brunann. Þá bauðst honum íbúð á hóteli í gegnum einn samstarfsmann sinn. Það eru fáir ferðamenn á landinu og mikið húsnæði í borginni því laust. Leigan átti að vera 150 þúsund á mánuði en eigandinn bauðst til að leigja Tibor hana á 110 þúsund.

Hann er mjög ánægður með litlu íbúðina. „Hún er stórkostleg,“ segir hann og það birtir yfir andlitinu. Þar er eldhúskrókur og gott baðherbergi og unnustan getur búið hjá honum. Aðstæðurnar eru mun betri en þær sem hann bjó við á Bræðraborgarstíg. Hann veit þó að þetta er aðeins tímabundið. Að um leið og ferðamennirnir koma aftur þarf hann að finna sér annað húsnæði.

Vill ekki þiggja ölmusu

Tibor á stundum erfitt með að finna ensku orðin til að lýsa atburðunum á Bræðraborgarstíg. En hann talar rólega. Vandar sig. Hann er klæddur í sömu buxurnar og hann var í þegar eldsvoðinn varð. „Ég ætlaði að henda þeim. Mér líkar þær og þær eru nokkurn veginn það eina sem bjargaðist af mínum eigum. Þær eru kannski til minningar um það sem gerðist,“ segir hann og leggur höndina á lærið. Hann er klæddur nýlegum svörtum jakka. Jakkinn er gjöf frá Íslendingi sem vildi hjálpa. Eitthvað til viðbótar af fötum, kodda og sæng var hann tilbúinn að þiggja en þó með semingi. Fólk bauð honum líka peninga en þá afþakkaði hann. Stoltið er mikið. „Ég er lifandi og ég get unnið fyrir mér,“ segir hann ákveðinn. Hann er tilbúinn að þiggja aðstoð frá hinu opinbera en ekki ölmusu. En þó að hann hafi búið hér í átta ár þekkir hann lítið hvernig kerfið virkar og hvert hann á að leita. Hann hefur hingað til ekki þurft á þeim upplýsingum að halda.

Tibor segist ekki vera tilbúinn til að þiggja ölmusu enda geti hann unnið fyrir sér.
Bára Huld Beck

Eftir brunann fannst honum hann afskiptur. Hann fór í viðtal við sjónvarpið eftir brunann og einnig við dagblað. Þá vissi hann að þrír vinir hans af 3. hæðinni hefðu dáið og að einn lægi alvarlega slasaður á sjúkrahúsi. Viðtölin reyndust honum erfið en honum fannst mikilvægt að segja hvað hafði gerst. Viðbrögðin frá opinberum aðilum voru hins vegar engin. Fyrir utan einstaklinga, sem buðu fram hjálp, m.a. viðskiptavini sem hann hafði kynnst á Kaffibrennslunni, þá hringdi enginn í tvær vikur.

 Lögreglan hafði tekið skýrslu af honum á sjúkrahúsinu en honum fannst allar spurningarnar snúast um manninn sem var grunaður um íkveikjuna. Ekkert var spurt um húsið sjálft og aðbúnað íbúanna. Og lögreglan hefur ekki haft samband aftur. Ræðismaður Rúmeníu á Íslandi hringdi ekki heldur. Ekki einu sinni til að spyrja hvernig hann hafði það eða til að ráðleggja honum hvert hann, sem hafði misst allt sitt, gæti leitað.

Tilviljanakennd viðbrögð

Honum finnst viðbrögð borgarinnar og margra annarra aðila hafa verið tilviljanakennd. Engin formleg viðbragðsáætlun hafi farið í gang þrátt fyrir að um stórslys hafi verið að ræða í miðri höfuðborginni sem hafði áhrif á tugi ef ekki hundruð einstaklinga.

Daginn eftir brunann mætti Tibor í vinnuna á Kaffibrennslunni. Einhverjir spurðu hvað hann væri að gera þarna, af hverju hann tæki sér ekki frí til að jafna sig en honum fannst gott að koma á meðal fólks – ef hann mætti ekki í vinnuna myndi honum líða verr. En svo sá hann dagblað og á forsíðunni var mynd af alelda húsinu á Bræðraborgarstíg. „Ég tengdi ekki alveg við þetta í fyrstu en svo hugsaði ég: Ég bjó í þessu húsi. Og klukkutíma eftir að ég mætti í vinnuna þurfti ég að fara.“ 

Þegar síminn fór loks að hringja

Einhver benti honum á að leita til Rauða krossins sem hann og gerði. Þar fékk hann inneignarmiða í Rauða kross-búðina til að kaupa sér föt. Hann fann hins vegar ekkert sem hann taldi sig geta notað. Hann skilaði því miðunum og sagðist heldur vilja að einhver sem þyrfti meira á þeim að halda fengi þá.

Eftir heimsóknina til Rauða krossins fór síminn loks að hringja. Hringt var frá þjónustumiðstöð miðborgar og honum boðin gisting á hóteli í tvær vikur. Hann var þá þegar kominn með leiguíbúð og þurfti ekki á því að halda. Hann fékk greitt jafnvirði tveggja vikna leigu en fyrir utan það var enga frekari fjárhagsaðstoð eða stuðning frá borginni að fá. „Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að ég hefði misst allt. Að ég yrði að nota launin mín til að kaupa mér föt og fleira. En þau gátu ekkert meira gert fyrir mig.“

Auglýsing

Efling er stéttarfélag Tibors og bauðst meðal annars til að greiða fyrir tíma hjá sálfræðingi. Atburðurinn var farinn að lita alla hans tilveru. Það var gott og þarft að ræða málin við fagmanneskju. Hann hafði sjálfur lært sálfræði á Spáni og átti í raun lítið eftir af náminu þegar hann varð að hætta því. Hann var því opinn fyrir hjálpinni sem sálfræðitímarnir veittu honum. Og hann komst yfir erfiðasta hjallann.

Árásin í Serbíu

Atburðirnir á Bræðraborgarstíg höfðu ýft upp annað áfall sem hann varð fyrir í Serbíu um aldamótin. Þangað flutti hann um tvítugt og hafði ásamt frænda sínum fengið starf sem kúasmali. Kýrnar voru í eigu fólksins í þorpunum á svæðinu og frændurnir gættu þeirra í sameiningu frá morgni til kvölds. Eitt sinn voru þeir úti með kýrnar er sprengju var varpað úr lofti rétt fyrir framan þá. Hún þeytti þeim um koll og vankaði og þegar þeir komust til sjálfra sín með ærandi suð fyrir eyrunum, sáu þeir að ein kýrin var dauð. „Þetta var auðvitað ekkert miðað við það sem gerðist á Bræðraborgarstíg. Þar dó fólk og ástvinir þeirra eru miður sín af sorg. Þar upplifðu margir skelfilega hluti sem eiga eftir að fylgja þeim allt lífið.“

Eftir loftárásina í Serbíu gat hann ekki hugsað sér að vera þar áfram. Við tók margra ára dvöl á Spáni þar sem Tibor stundaði ekki aðeins nám í sálfræði heldur aflaði sér einnig iðnmenntunar.

Hættur að flýja

En frá Íslandi ætlar hann ekki að fara þrátt fyrir allt það sem hann hefur gengið hér í gegnum. Hann ætlar ekki að flýja heldur halda áfram að starfa hér og búa í einhver ár. Draumurinn er að flytja svo í húsið í Transylvaníu, afahús. Búa til fallegan garð allt í kring og vonandi ala þar upp börn.

„Ég vakna ennþá á nóttunni og finnst ég finna brunalykt og heyra öskur. Ég sprett upp úr rúminu og fer jafnvel fram á gang til að athuga hvort það sé kviknað í, hvort allt sé í lagi. Stundum man ég ekki eftir þessu þegar kærastan mín rifjar það upp morguninn eftir. Þetta áfall er enn í líkamanum mínum. Ég veit ekki hvort það fer einhvern tímann en ég verð að læra að lifa með þessu.“

Vill stofna styrktarsjóð

Tibor er ekki bjartsýnn á að hann fái meiri stuðning frá hinu opinbera. Honum finnst óréttlátt eftir að hafa borgað skatta á Íslandi í mörg ár að kostnaður við tveggja vikna leigu sé allt og sumt. Verandi útlendingur nýtur hann ekki sama tengslanets á Íslandi og þeir sem hér eru fæddir. Hann segist feginn að faðir hans, stjúpmóðir og yngri bróðir búi hérna og að hann geti rætt það sem gerðist við þau en opinber aðstoð við að koma undir sig fótunum á ný eftir hræðilegan eldsvoða sem hann missti aleiguna í er af skornum skammti. Þess vegna langar hann að koma á fót sjóði fyrir þá sem lenda í svipaðri stöðu.

Hann segist vita um mörg hús þar sem útlendingar búa við ömurlegar aðstæður, deili jafnvel tugum saman einu baðherbergi og eldhúsi. „Þau eru um allt þessi hús. Og ef þau brenna þá tapa íbúarnir öllu.“

Tibor segist vita um mörg hús þar sem útlendingar búa við ömurlegar aðstæður, deili jafnvel tugum saman einu baðherbergi og eldhúsi.
Bára Huld Beck

Tibor fór á fund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra snemma í haust og talaði af mikilli hreinskilni um sinn aðbúnað og annarra útlendinga sem búa í borginni. Íslenskur vinur hans mætti svo nýverið á fund hjá mannréttindaráði borgarinnar fyrir hans hönd og sagði frá slæmri stöðu margra útlendinga.
En hlutirnir hreyfast of hægt að mati Tibors. Í uppsveiflu gerast stundum skuggalegir hlutir á húsnæðismarkaðnum. Leiguverð verður svo hátt að fólk hefur ekki efni á sæmilegum íbúðum heldur verður að láta sér duga lítil herbergi innan um fólk frá ýmsum löndum sem á fátt annað sameiginlegt en að búa og vinna á Íslandi. Við þessar aðstæður getur verið erfitt að mynda samstöðu og einnig að gera sér fulla grein fyrir réttindum sínum.

Vatnslaus í fleiri mánuði

Árið 2016, um tveimur árum eftir að Tibor flutti inn á Bræðraborgarstíginn, sprungu vatnslagnir í húsinu. Íbúarnir á þriðju hæðinni gátu ekki notað baðherbergið og eldhúsið hjá sér og höfðu ekki annan kost en að nota aðstöðuna á hæðinni fyrir neðan. Þetta þýddi að um 20 manns voru að deila tveimur baðherbergjum.

Þáverandi eigandi hússins var látinn vita en að tveimur árum liðnum var enn vatnslaust. Þá höfðu leigjendurnir á þriðju hæðinni tekið sig saman og hætt að borga leiguna. Vatnslagnirnar voru enn bilaðar er nýr eigandi keypti húsið. Sá var ekki á þeim buxunum að gera strax við heldur hótaði að henda Tibor út ef hann greiddi ekki leiguna aftur í tímann. Eigandinn hafði mann með sér til halds og trausts og Tibor segir að þó hann hafi haldið áfram að standa á sínu hafi þessi samskipti hrætt hann og setið í honum lengi.

Ólæti á jarðhæðinni

Að lokum náðist samkomulag, gert var við lagnirnar og leigjendurnir féllust á að borga hluta af leigu síðustu mánaða og fulla leigu frá viðgerðinni. Eftir tæplega þriggja ára baráttu var loks hægt að nota klósettið á rishæðinni á ný. Fleiri vandamál voru til staðar í húsinu. Ólæti voru tíð á jarðhæðinni. Lögreglan var oftsinnis kölluð út. „Ég hafði ekki hugmynd um að það væru svona mörg herbergi þar,“ segir Tibor þegar hann hugsar til baka. „Ég hitti spænska vinkonu mína um daginn sem sagðist hafa búið á jarðhæðinni. Ég trúði henni varla.“

Engin brunaæfing var haldin í húsinu allan þann tíma sem Tibor bjó þar. Ein útgönguleið var af þriðju hæðinni – tréstigi niður á aðra hæðina. Tibor segir engar neyðarútgangsmerkingar hafa verið á hæðunum tveimur. Á rishæðinni var gamalt slökkvitæki en það hafði ekki verið yfirfarið að því er Tibor best veit frá því hann flutti inn. Einnig var þar að finna annað lítið slökkvitæki, væntanlega úr bíl. Í eldhúsinu var ekkert eldvarnarteppi að sögn Tibors.

Heyrðir þú einhvern tímann í reykskynjara þennan dag þegar eldurinn kviknaði?

„Nei, aldrei,“ segir Tibor ákveðinn. „Það fór enginn reykskynjari í gang. Ég er alveg viss.“

Tibor reynir að lifa lífinu eins og afi hans kenndi honum: Lifðu hvern dag eins og hann sé þinn síðasti.
Bára Huld Beck

Opnanlega fagið í herbergisglugga Tibors var lítið og engan veginn hægt að skríða út um það. Engar svalir eða brunastigar voru utan á húsinu og engir brunakaðlar inni í því. Í glugganum var tvöfalt gler en enginn hamar í herberginu til að brjóta það, kæmi upp eldur. Þá segir Tibor að engar eldvarnahurðir hafi verið í öllu húsinu.

Þó að eigandinn hafi sýnt af sér ógnandi hegðun gagnvart Tibor í þau fáu skipti sem hann hitti hann, gat hann ekki ímyndað sér það sem átti eftir að gerast í kjölfar brunans. Hann fékk rukkun um leigu næsta mánaðar í heimabankann. Og einnig mánuðinn eftir það. Þrátt fyrir að Bræðraborgarstígur 1, húsið sem hann hafði búið í, væri brunnið til því sem næst kaldra kola. Það var ekki fyrr en fjallað var um málið í fjölmiðlum að rukkanirnar hurfu.

Minnist þeirra sem fórust

„Ég kem reglulega að húsinu og legg þar blóm. Þetta gerðist allt svo hratt. Ég hugsa stundum hvort að ég hefði getað leikið ofurhetju en ég veit innst inni að ég hefði ekki getað bjargað neinum. Það var of seint.

Þetta var hræðilegt og þetta er enn erfitt fyrir svo marga. Við sem lifðum af erum enn í áfalli og erum ráðvillt. Við erum að reyna að fóta okkur aftur, finna einhvers konar jafnvægi í hversdagsleikanum. Þó að við höfum búið saman áttum við ekki endilega margt sameiginlegt fyrir utan að kunna litla og jafnvel enga íslensku og að vita ekki hver réttur okkar er. Ég hefði viljað fá meiri aðstoð og leiðbeiningar. En í staðinn hefur mætt okkur þögn og ég kemst ekki hjá því að hugsa að kerfið hafi brugðist okkur. Að syrgja saman þegar svona mikill harmleikur verður er nauðsynlegt skref í sorgarferli samfélags. Það hefur ekki enn gerst og ég velti fyrir mér hvers vegna. Ein skýringin gæti verið tengslanetið okkar eða skortur á því réttara sagt.

Þetta er meðal þeirra hugsana sem fylla huga minn þegar ég er að reyna að sofna. Mig langar að fá svör, vita hvað gerðist og af hverju. Þrátt fyrir að sjálfsásakanir sæki enn að mér og ég spyrji sjálfan mig hvað ég hefði getað gert öðruvísi þá reyni ég að lifa lífinu eins og afi minn kenndi mér: Lifðu hvern dag eins og hann sé þinn síðasti.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal