Golli

Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm

Fyrir 305 dögum var eldur kveiktur í 115 ára gömlu timburhúsi í hjarta Reykjavíkur með þeim afleiðingum að þrír ungir íbúar þess létust. Í dag, mánudag, hefjast réttarhöld yfir manninum sem grunaður er um íkveikjuna. Hann er ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps. Þrír geðlæknar hafa komist að því að hann hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Verði hann sakfelldur er það hins vegar dómara að kveða endanlega upp úr með það.

Marek Moszczynski er fæddur í Póllandi í desember árið 1957. Hann flutti til Íslands fyrir nokkrum árum til að vinna og bjó, að minnsta kosti um hríð, í leiguherbergi í stóra timburhúsinu á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Húsi sem þar hafði staðið, lengi vel til mikillar prýði, frá árinu 1906. Í því bjó hann síðasta sumar, þá orðinn atvinnulaus. En 64. afmælisdegi sínum, um hálfu ári seinna, eyddi hann í fangaklefa á Litla-Hrauni.

Síðdegis síðasta fimmtudags júnímánaðar í fyrra, í þeirri himnesku lægð sem þá ríkti í faraldri kórónuveirunnar hér á landi, bárust tvær alvarlegar tilkynningar til neyðarlínunnar nær samtímis: Það var mikill eldur í húsi á Bræðraborgarstíg og karlmaður lét ófriðlega við rússneska sendiráðið í Garðastræti. Á milli þessara tveggja húsa er ekki löng leið, aðeins um 500 metrar. Og fljótlega var ljóst að atburðirnir tveir tengdust. Sá sem lögreglan handtók við sendiráðið bjó að Bræðraborgarstíg – í húsinu sem stóð í björtu báli að því er virtist á örskotsstundu.

Auglýsing

Hinn handtekni var Marek. Þegar vaknaði grunur um að hann hefði kveikt eld í húsinu og notað til þess bensín, yfirgefið það svo strax og lagt leið sína að sendiráðinu í Garðastræti.

Hann hefur verið í varðhaldi síðan eða í 304 daga. Héraðssaksóknari ákærði hann í haust fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps sem og fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá neitaði hann sök.

Í þessa sömu 304 daga hafa ástvinir þriggja ungra manneskja syrgt. Szczepan Marian Lakomy var 25 ára er hann lést. Kærasta hans, Justyna Swidzinska, var nokkrum mánuðum eldri. Isabela Kukla var 21 árs. Kærasti hennar bjó einnig á Bræðraborgarstígnum en hann var að heiman er bruninn varð.

Á Íslandi til að vinna að bjartari framtíð

Þau voru öll frá Póllandi en höfðu komið til Íslands til að vinna. Unnu við þrif og á matsölustað. Annað parið hafði búið á annarri hæð hússins fyrst í stað. En aðeins nokkrum vikum áður en það varð eldi að bráð hafði það flutt sig á rishæðina. Í stærra og bjartara herbergi.

Þeir sem bjuggu í húsinu, voru heima er eldurinn kom upp en sluppu út, sumir slasaðir og í áfalli, hafa einnig átt erfitt. Vakna enn á nóttunni og finna brunalykt. Þó að enginn sé eldurinn. Glíma við líkamlega áverka, meðal annars afleiðingar alvarlegra brunasára á stórum hluta líkamans. Misstu allar sínar veraldlegu eigur. Heimili sitt. Og vini sína.

Blóm eru enn reglulega lögð fyrir utan rústirnar að Bræðraborgarstíg 1.
Golli

Allt þetta fólk mun bera vitni í réttarhöldunum yfir Marek sem hefjast í fyrramálið í Héraðsdómi Reykjavíkur og standa fram á föstudag. Og þar sem íbúar hússins voru af mörgum þjóðernum, hafa ólík móðurmál, verða réttarhöldin túlkuð, ýmist að hluta eða í heild, á þrjú tungumál: Pólsku, rúmensku og farsi.

Það er fleira sem er óvenjulegt við réttarhöldin. Í brunanum létust þrír. Marek er ákærður fyrir að vera valdur að dauða þeirra allra. Að því leytinu til er þetta því líklega stærsta manndrápsmál sem komið hefur fyrir íslenska dómstóla, segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari sem mun sækja málið fyrir hönd ákæruvaldsins.

En fyrir hvað er Marek ákærður?

Brennu:

Í 164. grein almennra hegningarlaga segir að hafi sá sem veldur eldsvoða séð fram á að mönnum mundi vera af því bersýnilegur lífsháski búinn, skuli refsing ekki vera lægri en tveggja ára fangelsi.

Manndráp:

Í 211. Grein segir að „hver sem sviptir annan mann lífi skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt“.

Tilraun til manndráps:

Varðar við 20. grein almennra hegningarlaga þar sem segir: Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í lögum þessum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.

Ákæruvaldið krefst þess að Marek verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Til vara er þess krafist að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun eða vægari öryggisráðstöfunum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Tilkynning um eldinn barst síðdegis þann 25. júní. Húsið varð fljótt alelda og margt fólk inni.
Aðsend

Sekt eða sýkna – sakhæfi eða ósakhæfi

Er málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í lok september í fyrra lagði verjandi Mareks, Stefán Karl Kristjánsson, fram mat geðlæknis um að hann hefði verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Stefán Karl fór einnig fram á það að þinghaldið yrði lokað þar sem lýsingar sem fram myndu koma í dómssal gætu reynst mikil þolraun og ættu ekki erindi við almenning. Dómstjóri héraðsdómsins synjaði þeirri beiðni í lok nóvember. Aðalmeðferð málsins skyldi opin.

Þegar var farið fram á yfirmat tveggja annarra geðlækna á heilsu Mareks sem er eðlilegt í jafn umfangsmiklu og alvarlegu sakamáli og hér er á ferðinni. Um sex mánuðir liðu áður en niðurstaða yfirmatsins lág fyrir: Marek var að mati geðlæknanna tveggja ósakhæfur á verknaðarstundu. Slík niðurstaða felur í sér að refsing, þ.e. fangelsisvist, komi til hennar, þjóni að mati læknanna ekki tilgangi í ljósi alvarlegra meinsemda á geði.

Geðmatið, sem er í raun og veru geðrannsókn, breytir engu um framgang aðalmeðferðar málsins í sjálfu sér þó að það verði þar til umfjöllunar. Komi hins vegar til sakfellingar munu dómararnir þrír kveða upp úr með sakhæfi eða ósakhæfi. Því það er þeirra að vega og meta, og þá m.a. í ljósi niðurstaðna geðrannsóknar geðlæknanna þriggja, hvort að Marek væri fær um að taka út refsingu.

Verði hann sakfelldur fyrir eitt eða fleiri þeirra brota sem hann er ákærður fyrir og eru refsiverð samkvæmt hegningarlögum, og svo fundinn ósakhæfur, yrði hann dæmdur til að sæta öryggisgæslu sem að öllum líkindum færi fram á réttargeðdeild. Lengd slíkrar öryggisgæslu fer eftir sjúkdómi viðkomandi og á hana eru ekki sett tímamörk.

Allt snýst þetta um hvort að dómararnir munu telja Marek hafa vitað hvað hann var að gera þegar hann kveikti í, verði það sannað. Vissi hann að með íkveikju ógnaði hann lífi fólks? Eða var ástand hans með þeim hætti á verknaðarstundu að hann gerði sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna?

Stefán Karl verjandi segir að Marek verði að minnsta kosti viðstaddur upphaf réttarhaldanna. Hvort hann verði í réttarsal allan þann tíma sem þau munu standa eigi eftir að koma í ljós. Stefán Karl fór fram á það við fyrirtöku málsins um miðjan mars að í réttarhöldunum yrðu lagðar fram lögregluskýrslur tveggja einstaklinga sem handteknir voru á vettvangi eldsvoðans fyrir að torvelda störf lögreglu- og slökkviliðs svo kanna mætti hvernig þeir tengist málinu. „Já, ég vil vekja athygli á því,“ sagði Stefán Karl um þetta í samtali við Kjarnann fyrir helgi. Hann vildi hins vegar ekki upplýsa frekar um hver hann telji möguleg tengsl einstaklinganna tveggja vera við málið. „Ég ætla bara að geyma það fyrir dóminn.“

Ákæruvaldið mun leiða um 35 vitni fyrir dóminn. Auk íbúa Bræðraborgarstígs 1 sem voru heima er eldsvoðinn varð verða lögreglumenn, fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, læknar, geðlæknar og aðrir sem komu að rannsókn málsins meðal vitna. Aðstandendur þeirra sem létust eru ekki kallaðir fyrir dóm og ekki heldur Kristinn Jón Gíslason, eigandi HD verks, sem átti húsið síðasta sumar og leigði herbergi þess út, fyrst og fremst til erlendra verkamanna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun komst að því við rannsókn sína á eldsvoðanum, sem birt var í desember, að húsið á Bræðraborgarstíg 1 hefði verið „óbyggilegt“ og að meginástæða þess að eldsvoðinn varð jafn skæður og raunin varð var ástand hússins og hversu lélegar brunavarnir í því voru. Þá höfðu verið gerðar breytingar á því sem ekki voru til samræmis við samþykktar teikningar.

Allir sem létust í eldsvoðanum bjuggu á þriðju hæð hússins, í risinu, og voru þar er eldurinn kom upp. Tvö þeirra urðu innlyksa í eldhafinu en önnur kvennanna greip til þess örþrifaráðs að stökkva út um glugga herbergis síns. Tveir af þeim sem komust lífs af slösuðust alvarlega. Annar þeirra bjó á annarri hæð hússins og hlaut alvarleg brunasár á stórum hluta líkamans. Hann hefur þurft að gangast undir fjölda aðgerða, m.a. húðágræðslu, síðustu mánuði.

Hinn bjó í rishæðinni og var sofandi er eldurinn kom upp. Hann lýsti því í viðtali við Kjarnann í vetur hvernig hann hrökk upp við öskur, hvernig herbergið fylltist af reyk og hvernig hann sá sér ekki aðra leið færa en að stökkva út um gluggann. Hann slasaðist alvarlega í fallinu, skarst á bæði höndum og fótum, hlaut mörg höfuðkúpubrot, fékk blóðtappa í slagæð í lunga, staðbundna heilaáverka og reykeitrun.

Sá fimmti sem var staddur á rishæðinni þennan dag, Vasile Tibor Andor, var nýkominn heim eftir vakt á kaffihúsi í miðbænum. Hann var inni í herbergi sínu að borða er hann heyrði öskur framan af gangi. Hann opnaði hurðina og sá þykkt reykský koma á móti sér og svo nágrannakonu sína koma út úr svörtum reyknum. Hann sá hana falla í gólfið, hreyfingarlausa. Enn meiri reykur og eldtungur æddu á móti honum svo hann varð að hörfa. Í skýrslu HMS um brunann kom fram að Tibor hafi beðið í yfir þrettán mínútur eftir björgun úr eldhafinu.

Í fréttaskýringum Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg, sem birtar voru í nóvember í fyrra, kom fram, m.a. í viðtölum við eftirlifendur, að brunavarnir í húsinu hefðu verið í skötulíki. Enginn reykskynjari fór í gang, engin neyðarútgangur var af rishæðinni og ekkert inni á herbergjum til að brjóta sér leið út um gluggana. Þetta er í samræmi við þá niðurstöðu sem HMS komst að í rannsókn sinni. Þar kom fram að það hafi verið eigandans að tryggja brunavarnir en að þær hafi ekki reynst í samræmi við lög.

Aðeins einn reykskynjari fannst í rústum hússins. Hann var án rafhlöðu.

Í dómsmálinu sem hefst á morgun er það í raun ekki undir hvert ástand hússins var. Það snýst um íkveikjuna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar með meint brot fyrrverandi eiganda á byggingarreglugerð til rannsóknar og mun á næstunni yfirheyra eiganda HD verks og aðra í tengslum við þá rannsókn.

HD verk á ekki lengur hornhúsið á Bræðraborgarstíg og Vesturgötu. Það er komið í eigu Þorpsins vistfélags sem hefur uppi áform um uppbyggingu á reitnum. Félagið keypti húsið að Bræðraborgarstíg 3 og rústirnar á lóð númer 1 á 270 milljónir króna í byrjun árs.

Auglýsing

Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri Þorpsins, sagði í samtali við Kjarnann um miðjan janúar að „auðvitað myndum við helst vilja hefjast handa við að hreinsa strax“ og stefnt væri að því að sækja sem allra fyrst um leyfi til niðurrifsins. En þarna standa rústirnar enn, vettvangur mannskæðasta eldsvoða sem orðið hefur í höfuðborginni, nágrönnum til mikils ama og óþæginda.

„Nýir eigendur hafa ekki viljað hrófla við þessu á meðan þeir stóðu í samningaviðræðum við tryggingafélag, vegna bóta og því sem reisa á í stað brunarústanna,“ segir Nikulás Úlfar Másson, byggingafulltrúi Reykjavíkur, í svari við fyrirspurn Kjarnans. „Byggingarleyfi fyrir niðurrifi hefur verið samþykkt og því beint til eigenda að hefja niðurrif sem allra fyrst.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar