Golli

Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm

Fyrir 305 dögum var eldur kveiktur í 115 ára gömlu timburhúsi í hjarta Reykjavíkur með þeim afleiðingum að þrír ungir íbúar þess létust. Í dag, mánudag, hefjast réttarhöld yfir manninum sem grunaður er um íkveikjuna. Hann er ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps. Þrír geðlæknar hafa komist að því að hann hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Verði hann sakfelldur er það hins vegar dómara að kveða endanlega upp úr með það.

Marek Moszczynski er fæddur í Pól­landi í des­em­ber árið 1957. Hann flutti til Íslands fyrir nokkrum árum til að vinna og bjó, að minnsta kosti um hríð, í leigu­her­bergi í stóra timb­ur­hús­inu á horni Bræðra­borg­ar­stígs og Vest­ur­götu. Húsi sem þar hafði stað­ið, lengi vel til mik­illar prýði, frá árinu 1906. Í því bjó hann síð­asta sum­ar, þá orð­inn atvinnu­laus. En 64. afmæl­is­degi sín­um, um hálfu ári seinna, eyddi hann í fanga­klefa á Litla-Hrauni.

Síð­degis síð­asta fimmtu­dags júní­mán­aðar í fyrra, í þeirri himnesku lægð sem þá ríkti í far­aldri kór­ónu­veirunnar hér á landi, bár­ust tvær alvar­legar til­kynn­ingar til neyð­ar­lín­unnar nær sam­tím­is: Það var mik­ill eldur í húsi á Bræðra­borg­ar­stíg og karl­maður lét ófrið­lega við rúss­neska sendi­ráðið í Garða­stræti. Á milli þess­ara tveggja húsa er ekki löng leið, aðeins um 500 metr­ar. Og fljót­lega var ljóst að atburð­irnir tveir tengd­ust. Sá sem lög­reglan hand­tók við sendi­ráðið bjó að Bræðra­borg­ar­stíg – í hús­inu sem stóð í björtu báli að því er virt­ist á örskots­stundu.

Auglýsing

Hinn hand­tekni var Mar­ek. Þegar vakn­aði grunur um að hann hefði kveikt eld í hús­inu og notað til þess bens­ín, yfir­gefið það svo strax og lagt leið sína að sendi­ráð­inu í Garða­stræti.

Hann hefur verið í varð­haldi síðan eða í 304 daga. Hér­aðs­sak­sókn­ari ákærði hann í haust fyrir brennu, mann­dráp og til­raun til mann­dráps sem og fyrir brot gegn vald­stjórn­inni. Þá neit­aði hann sök.

Í þessa sömu 304 daga hafa ást­vinir þriggja ungra mann­eskja syrgt.

Á Íslandi til að vinna að bjart­ari fram­tíð

Þau voru öll frá Pól­landi en höfðu komið til Íslands til að vinna. Unnu við þrif og á mat­sölu­stað. Annað parið hafði búið á annarri hæð húss­ins fyrst í stað. En aðeins nokkrum vikum áður en það varð eldi að bráð hafði það flutt sig á ris­hæð­ina. Í stærra og bjart­ara her­bergi.

Þeir sem bjuggu í hús­inu, voru heima er eld­ur­inn kom upp en sluppu út, sumir slas­aðir og í áfalli, hafa einnig átt erfitt. Vakna enn á nótt­unni og finna bruna­lykt. Þó að eng­inn sé eld­ur­inn. Glíma við lík­am­lega áverka, meðal ann­ars afleið­ingar alvar­legra bruna­sára á stórum hluta lík­am­ans. Misstu allar sínar ver­ald­legu eig­ur. Heim­ili sitt. Og vini sína.

Blóm eru enn reglulega lögð fyrir utan rústirnar að Bræðraborgarstíg 1.
Golli

Allt þetta fólk mun bera vitni í rétt­ar­höld­unum yfir Marek sem hefj­ast í fyrra­málið í Hér­aðs­dómi Reykja­víkur og standa fram á föstu­dag. Og þar sem íbúar húss­ins voru af mörgum þjóð­ern­um, hafa ólík móð­ur­mál, verða rétt­ar­höldin túlk­uð, ýmist að hluta eða í heild, á þrjú tungu­mál: Pólsku, rúm­ensku og farsi.

Það er fleira sem er óvenju­legt við rétt­ar­höld­in. Í brun­anum lét­ust þrír. Marek er ákærður fyrir að vera valdur að dauða þeirra allra. Að því leyt­inu til er þetta því lík­lega stærsta mann­dráps­mál sem komið hefur fyrir íslenska dóm­stóla, segir Kol­brún Bene­dikts­dótt­ir, vara­hér­aðs­sak­sókn­ari sem mun sækja málið fyrir hönd ákæru­valds­ins.

En fyrir hvað er Marek ákærð­ur?

Brennu:

Í 164. grein almennra hegn­ing­ar­laga segir að hafi sá sem veldur elds­voða séð fram á að mönnum mundi vera af því ber­sýni­legur lífs­háski búinn, skuli refs­ing ekki vera lægri en tveggja ára fang­elsi.

Mann­dráp:

Í 211. Grein segir að „hver sem sviptir annan mann lífi skal sæta fang­elsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævi­lang­t“.

Til­raun til mann­dráps:

Varðar við 20. grein almennra hegn­ing­ar­laga þar sem seg­ir: Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refs­ing er lögð við í lögum þessum, og ótví­rætt sýnt þann ásetn­ing í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að fram­kvæmd brots­ins, hef­ur, þegar brotið er ekki full­komn­að, gerst sekur um til­raun til þess.

Ákæru­valdið krefst þess að Marek verði dæmdur til refs­ingar og greiðslu alls sak­ar­kostn­að­ar. Til vara er þess kraf­ist að honum verði gert að sæta örygg­is­gæslu á við­eig­andi stofnun eða væg­ari örygg­is­ráð­stöf­unum og til greiðslu alls sak­ar­kostn­að­ar.

Tilkynning um eldinn barst síðdegis þann 25. júní. Húsið varð fljótt alelda og margt fólk inni.
Aðsend

Sekt eða sýkna – sak­hæfi eða ósak­hæfi

Er málið var þing­fest fyrir Hér­aðs­dómi Reykja­víkur í lok sept­em­ber í fyrra lagði verj­andi Mar­eks, Stefán Karl Krist­jáns­son, fram mat geð­læknis um að hann hefði verið ósak­hæfur á verkn­að­ar­stundu. Stefán Karl fór einnig fram á það að þing­haldið yrði lokað þar sem lýs­ingar sem fram myndu koma í dóms­sal gætu reynst mikil þol­raun og ættu ekki erindi við almenn­ing. Dóm­stjóri hér­aðs­dóms­ins synj­aði þeirri beiðni í lok nóv­em­ber. Aðal­með­ferð máls­ins skyldi opin.

Þegar var farið fram á yfir­mat tveggja ann­arra geð­lækna á heilsu Mar­eks sem er eðli­legt í jafn umfangs­miklu og alvar­legu saka­máli og hér er á ferð­inni. Um sex mán­uðir liðu áður en nið­ur­staða yfir­mats­ins lág fyr­ir: Marek var að mati geð­lækn­anna tveggja ósak­hæfur á verkn­að­ar­stundu. Slík nið­ur­staða felur í sér að refs­ing, þ.e. fang­els­is­vist, komi til henn­ar, þjóni að mati lækn­anna ekki til­gangi í ljósi alvar­legra mein­semda á geði.

Geð­mat­ið, sem er í raun og veru geð­rann­sókn, breytir engu um fram­gang aðal­með­ferðar máls­ins í sjálfu sér þó að það verði þar til umfjöll­un­ar. Komi hins vegar til sak­fell­ingar munu dóm­ar­arnir þrír kveða upp úr með sak­hæfi eða ósak­hæfi. Því það er þeirra að vega og meta, og þá m.a. í ljósi nið­ur­staðna geð­rann­sóknar geð­lækn­anna þriggja, hvort að Marek væri fær um að taka út refs­ingu.

Verði hann sak­felldur fyrir eitt eða fleiri þeirra brota sem hann er ákærður fyrir og eru refsi­verð sam­kvæmt hegn­ing­ar­lög­um, og svo fund­inn ósak­hæf­ur, yrði hann dæmdur til að sæta örygg­is­gæslu sem að öllum lík­indum færi fram á rétt­ar­geð­deild. Lengd slíkrar örygg­is­gæslu fer eftir sjúk­dómi við­kom­andi og á hana eru ekki sett tíma­mörk.

Allt snýst þetta um hvort að dóm­ar­arnir munu telja Marek hafa vitað hvað hann var að gera þegar hann kveikti í, verði það sann­að. Vissi hann að með íkveikju ógn­aði hann lífi fólks? Eða var ástand hans með þeim hætti á verkn­að­ar­stundu að hann gerði sér ekki grein fyrir afleið­ingum gjörða sinna?

Stefán Karl verj­andi segir að Marek verði að minnsta kosti við­staddur upp­haf rétt­ar­hald­anna. Hvort hann verði í rétt­ar­sal allan þann tíma sem þau munu standa eigi eftir að koma í ljós. Stefán Karl fór fram á það við fyr­ir­töku máls­ins um miðjan mars að í rétt­ar­höld­unum yrðu lagðar fram lög­reglu­skýrslur tveggja ein­stak­linga sem hand­teknir voru á vett­vangi elds­voð­ans fyrir að tor­velda störf lög­reglu- og slökkvi­liðs svo kanna mætti hvernig þeir teng­ist mál­inu. „Já, ég vil vekja athygli á því,“ sagði Stefán Karl um þetta í sam­tali við Kjarn­ann fyrir helgi. Hann vildi hins vegar ekki upp­lýsa frekar um hver hann telji mögu­leg tengsl ein­stak­ling­anna tveggja vera við mál­ið. „Ég ætla bara að geyma það fyrir dóm­inn.“

Ákæru­valdið mun leiða um 35 vitni fyrir dóm­inn. Auk íbúa Bræðra­borg­ar­stígs 1 sem voru heima er elds­voð­inn varð verða lög­reglu­menn, full­trúi Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un­ar, lækn­ar, geð­læknar og aðrir sem komu að rann­sókn máls­ins meðal vitna. Aðstand­endur þeirra sem lét­ust eru ekki kall­aðir fyrir dóm og ekki heldur Krist­inn Jón Gísla­son, eig­andi HD verks, sem átti húsið síð­asta sumar og leigði her­bergi þess út, fyrst og fremst til erlendra verka­manna. Hús­næð­is- og mann­virkja­stofnun komst að því við rann­sókn sína á elds­voð­an­um, sem birt var í des­em­ber, að húsið á Bræðra­borg­ar­stíg 1 hefði verið „óbyggi­legt“ og að meg­in­á­stæða þess að elds­voð­inn varð jafn skæður og raunin varð var ástand húss­ins og hversu lélegar bruna­varnir í því voru. Þá höfðu verið gerðar breyt­ingar á því sem ekki voru til sam­ræmis við sam­þykktar teikn­ing­ar.

Allir sem lét­ust í elds­voð­anum bjuggu á þriðju hæð húss­ins, í ris­inu, og voru þar er eld­ur­inn kom upp. Tvö þeirra urðu inn­lyksa í eld­haf­inu en önnur kvenn­anna greip til þess örþrifa­ráðs að stökkva út um glugga her­bergis síns. Tveir af þeim sem komust lífs af slös­uð­ust alvar­lega. Annar þeirra bjó á annarri hæð húss­ins og hlaut alvar­leg bruna­sár á stórum hluta lík­am­ans. Hann hefur þurft að gang­ast undir fjölda aðgerða, m.a. húð­á­græðslu, síð­ustu mán­uði.

Hinn bjó í ris­hæð­inni og var sof­andi er eld­ur­inn kom upp. Hann lýsti því í við­tali við Kjarn­ann í vetur hvernig hann hrökk upp við öskur, hvernig her­bergið fyllt­ist af reyk og hvernig hann sá sér ekki aðra leið færa en að stökkva út um glugg­ann. Hann slas­að­ist alvar­lega í fall­inu, skarst á bæði höndum og fót­um, hlaut mörg höf­uð­kúpu­brot, fékk blóð­tappa í slagæð í lunga, stað­bundna heila­á­verka og reyk­eitr­un.

Sá fimmti sem var staddur á ris­hæð­inni þennan dag, Vasile Tibor And­or, var nýkom­inn heim eftir vakt á kaffi­húsi í mið­bæn­um. Hann var inni í her­bergi sínu að borða er hann heyrði öskur framan af gangi. Hann opn­aði hurð­ina og sá þykkt reyk­ský koma á móti sér og svo nágranna­konu sína koma út úr svörtum reykn­um. Hann sá hana falla í gólf­ið, hreyf­ing­ar­lausa. Enn meiri reykur og eld­tungur æddu á móti honum svo hann varð að hörfa. Í skýrslu HMS um brun­ann kom fram að Tibor hafi beðið í yfir þrettán mín­útur eftir björgun úr eld­haf­inu.

Í frétta­skýr­ingum Kjarn­ans um brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg, sem birtar voru í nóv­em­ber í fyrra, kom fram, m.a. í við­tölum við eft­ir­lif­end­ur, að bruna­varnir í hús­inu hefðu verið í skötu­líki. Eng­inn reyk­skynj­ari fór í gang, engin neyð­ar­út­gangur var af ris­hæð­inni og ekk­ert inni á her­bergjum til að brjóta sér leið út um glugg­ana. Þetta er í sam­ræmi við þá nið­ur­stöðu sem HMS komst að í rann­sókn sinni. Þar kom fram að það hafi verið eig­and­ans að tryggja bruna­varnir en að þær hafi ekki reynst í sam­ræmi við lög.

Aðeins einn reyk­skynj­ari fannst í rústum húss­ins. Hann var án raf­hlöðu.

Í dóms­mál­inu sem hefst á morgun er það í raun ekki undir hvert ástand húss­ins var. Það snýst um íkveikj­una. Lög­reglan á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er hins vegar með meint brot fyrr­ver­andi eig­anda á bygg­ing­ar­reglu­gerð til rann­sóknar og mun á næst­unni yfir­heyra eig­anda HD verks og aðra í tengslum við þá rann­sókn.

HD verk á ekki lengur horn­húsið á Bræðra­borg­ar­stíg og Vest­ur­götu. Það er komið í eigu Þorps­ins vist­fé­lags sem hefur uppi áform um upp­bygg­ingu á reitn­um. Félagið keypti húsið að Bræðra­borg­ar­stíg 3 og rúst­irnar á lóð númer 1 á 270 millj­ónir króna í byrjun árs.

Auglýsing

Run­ólfur Ágústs­son, verk­efna­stjóri Þorps­ins, sagði í sam­tali við Kjarn­ann um miðjan jan­úar að „auð­vitað myndum við helst vilja hefj­ast handa við að hreinsa strax“ og stefnt væri að því að sækja sem allra fyrst um leyfi til nið­ur­rifs­ins. En þarna standa rúst­irnar enn, vett­vangur mann­skæð­asta elds­voða sem orðið hefur í höf­uð­borg­inni, nágrönnum til mik­ils ama og óþæg­inda.

„Nýir eig­endur hafa ekki viljað hrófla við þessu á meðan þeir stóðu í samn­inga­við­ræðum við trygg­inga­fé­lag, vegna bóta og því sem reisa á í stað bruna­rúst­anna,“ segir Niku­lás Úlfar Más­son, bygg­inga­full­trúi Reykja­vík­ur, í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans. „Bygg­ing­ar­leyfi fyrir nið­ur­rifi hefur verið sam­þykkt og því beint til eig­enda að hefja nið­ur­rif sem allra fyrst.“

Nöfn þeirra sem lét­ust í brun­anum hafa verið fjar­lægð úr umfjöll­un­inni að ósk ætt­ingja þeirra. Nöfnin voru birt opin­ber­lega í ákæru­skjali í mál­inu og komu ítrekað fram við opna máls­með­ferð fyrir dómi.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar