Aðsendar myndir

„Vissi að ég myndi bráðlega missa meðvitund ef ég kæmist ekki út“

„Reykur kom úr öllum áttum inn í herbergið,“ segir ungur maður sem greip til þess örþrifaráðs að stökkva út um glugga af rishæð hússins að Bræðraborgarstíg 1 er stórbruni varð þar í sumar. Reykurinn kom út úr veggjunum, undan hurðinni og upp í gegnum gólfið. Hann gat ekki beðið eftir björgun.

Hann er um þrí­tugt. Fæddur og upp­al­inn í Pól­landi. Fyrir rúm­lega fjórum árum, þegar atvinnu­leysi var mikið í heima­land­inu, ákvað hann að freista gæf­unnar og flytja til Íslands. Þá var næga vinnu að hafa hér. Ferða­þjón­ustan að springa út og ná met­hæðum og fjöldi fyr­ir­tækja spratt upp í kringum hana. Og í þeim geira fékk hann vinnu. Sam­starfs­menn­irnir voru bæði Íslend­ingar og útlend­ingar og hann kynnt­ist mörgum þeirra ágæt­lega.

75 þús­und fyrir lítið her­bergi

Fljót­lega eftir kom­una til lands­ins tók hann her­bergi á leigu á ris­hæð­inni að Bræðra­borg­ar­stíg 1. Leigan var 75 þús­und krónur á mán­uði, fyrir lítið svefn­her­bergi með aðgang að baði og eld­húsi. „Þetta var gott verð fyrir her­bergi í mið­borg Reykja­vík­ur,“ segir hann. Hann kynnt­ist sam­býl­ingum sínum mis­vel og segir ástæð­una þá að hann hafi aðeins litið á húsið sem sinn svefn­stað. Fyrir utan litla eld­húsið hafi ekki verið neitt sam­eig­in­legt rými í hús­inu til að safn­ast saman og spjalla. „Marga þekkti ég aðeins eins og hverja aðra nágranna. Við heilsuð­umst þegar við hitt­umst og spjöll­uðum lít­il­lega um dag­inn og veg­inn.“

Þess vegna kynnt­ist ekki mikið hann pólsku pör­unum tveimur sem bjuggu á sömu hæð enda höfðu þau aðeins búið í hús­inu í nokkra mán­uði ólíkt honum og nágrann­anum Vasi­le Ti­bor And­or ­sem höfðu leigt her­bergi hlið við hlið í nokkur ár. Hann spjall­aði þó annað slagið við þau. Þau hafi líkt og hann unnið mikið og verið að safna sér pen­ing, meðal ann­ars fyrir brúð­kaup­unum sín­um. 

Auglýsing

Þegar kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn braust út og skyndi­legur sam­dráttur varð í ferða­þjón­ust­unni missti hann vinn­una. Það var ástæðan fyrir því að þann 25. júní var hann heima á Bræðra­borg­ar­stígnum allan dag­inn. Her­bergið sem hann hafði fyrst og fremst notað sem svefn­stað til þessa var orðið að athvarfi hans í atvinnu­leys­inu.

Ekk­ert eft­ir­minni­legt henti framan af degi. Hann minn­ist þess ekki að hafa hitt nágranna sína og þegar leið á dag­inn ákvað hann að leggja sig.

Náði varla and­anum

Hann var sofn­aður er hann hrökk upp með and­fælum við öskur framan af gangi. Hann hent­ist á fætur og reif upp hurð­ina en það eina sem hann sá var kol­svartur reykur sem engin leið var að greina nokkuð í gegn­um.

Hann lok­aði hurð­inni í skyndi og það sem á eftir fór gerð­ist allt mjög hratt. Hann hafði lít­inn tíma til að hugsa hvaða val­mögu­leikar voru í stöð­unni. „Reykur kom úr öllum áttum inn í her­berg­ið,“ segir hann, út úr veggj­un­um, undan hurð­inni og upp í gegnum gólf­ið. Her­bergið fyllt­ist fljótt af reyk og það eina sem hann hugs­aði var að hann yrði að fá súr­efni til að missa ekki með­vit­und. „Ég náði varla and­an­um.“

Gat ekki beðið

Hann greip stól og braut glugg­ann. Tibor vinur hans í næsta her­bergi heyrði brot­hljóðið og tal­aði til hans í gegnum þunnan vegg­inn. „Bíddu róleg­ur, slökkvi­liðið er á leið­inn­i,“ rifjar hann upp að Tibor hafi sagt. „En ég gat ekki beð­ið. Ég vissi að ég myndi bráð­lega missa með­vit­und ef ég kæm­ist ekki út. Sá mögu­leiki að bíða í ein­hvern tíma var ekki í boði á þessum tíma­punkt­i“.

Hann lét sig falla út um glugga á risinu. Mynd: Skjáskot af myndbandi/Birt með leyfi viðmælanda

Þrátt fyrir að allt hafi gerst á ógn­ar­hraða, kannski á um mín­útu frá því að hann vakn­ar, man hann eftir að hafa hugsað að húsið væri gam­alt og úr timbri í hólf og gólf. Hann ótt­að­ist hrein­lega að húsið myndi fuðra upp – falla eins og spila­borg, segir hann.

Eftir að hafa brotið glugg­ann von­aði hann að það myndi duga. Að hann gæti stungið höfð­inu út, myndi ná and­anum og gæti þá jafn­vel beðið í smá stund eftir hjálp. „En reyk­ur­inn kom alls staðar inn af svo miklum krafti og svo hratt að það hjálp­aði mér ekk­ert að reyna að anda út um glugg­ann.“

Ákvað að klifra út

Reyk­ur­inn þétt­ist ennþá hraðar eftir að hann hafði brotið glugg­ann. Hann tók þá ákvörðun að klifra út. Það var eng­inn tími til að velta fyrir sér hvernig best væri að gera það. Eng­inn tími var til að meta aðstæð­ur. Hann greip um glugga­karm­inn og hékk utan á hús­inu um stund þar til hann sleppti tak­inu og féll niður á gang­stétt­ina.

Hann missti með­vit­und. Hann er ekki viss hvenær hann rank­aði við sér, hvort að það var um nótt­ina eða morg­un­inn eft­ir. Hann hafði andað að sér svo miklum reyk að hann kastaði stöðugt upp. „Það var ringul­reið í hausnum á mér. Ég vissi ekki hvað væri raun­veru­legt og hvað ekki. Ég átti erfitt með að trúa að því að þetta hefði allt saman gerst.“ 

Atburð­irnir síast inn

Það var ekki fyrr en hjúkr­un­ar­fræð­ingur sýndi honum for­síðu dag­blaðs dag­inn eftir að það rann upp fyrir honum að þetta hefði ekki bara verið slæm martröð. Húsið hefði raun­veru­lega brunn­ið. Hann fékk líka að vita að ein­hverjir hefðu dáið en hann vissi ekki hverj­ir. 

Þær fréttir bár­ust síð­ar. Að þrír nágrannar hans og land­ar, fólk sem hafði búið í her­bergjum á ris­hæð­inni, fólk sem hann þekkti, hefði dáið.

Sjúkraflutningamaður aðstoðar einn íbúann, sem var í herbergi við hlið unga mannsins sem stökk út, að brjóta rúðuna.
Aðsend mynd

Sjálfur skarst hann mikið á bæði höndum og fót­um. Hann hlaut einnig mörg höf­uð­kúpu­brot, fékk blóð­tappa í slagæð í lunga, stað­bundna heila­á­verka og reyk­eitr­un. Hann vill ekki gera mikið úr meiðslum sínum og vill ekki ræða sárs­auk­ann sem þeim fylgdi. Hann hafi lif­að. Aðrir hafi týnt lífi. Því fylgi óbæri­legur sárs­auki fyrir aðstand­end­ur.

Það þykir krafta­verki lík­ast að hann hafi ekki slasast meira í fall­inu. Að hann hafi verið útskrif­aður og fluttur á sjúkra­hótel aðeins viku eftir brun­ann. „Ég var í mjög góðu formi, fór þrisvar í viku í sund og út að hlaupa jafn oft. Það hefur lík­lega hjálpað mér.“

Hjartað fór að slá hraðar

Á sjúkra­hót­el­inu dvaldi hann í þrjár vikur og í kjöl­farið fór hann til for­eldra sinna í Pól­landi. Hann vildi vera nærri fólk­inu sínu. Lík­am­legi bat­inn hefur þegar verið mik­ill. Hann seg­ist vinnu­fær. En það er and­lega hliðin sem enn er að valda honum erf­ið­leik­um. „Einn dag­inn, þegar ég sá reyk koma frá kola­kynd­ing­unni í kjall­ar­anum í húsi for­eldra minna, fór hjartað skyndi­lega að slá hrað­ar. Ég fann það greini­lega. Mér líður ekki vel að sjá reyk og finna lykt­ina af honum í lok­uðu rými. Ósjálfrátt vaknar til­finn­ingin um að þurfa mögu­lega að berj­ast fyrir lífi mínu.

Ég hef heldur ekki sofið vel. Sér­stak­lega ekki fyrst eftir elds­voð­ann. Þá kom það oft fyrir að ég hrökk upp á nótt­unni. Bara það að rifja þetta upp núna hefur orðið til þess að bol­ur­inn minn er blautur af svita.

Það er mjög grunnt á minn­ing­unum um þetta. Þær eiga eftir að fylgja mér lengi. Ég efast um að þær muni nokkurn tím­ann yfir­gefa mig. Ég hugsa til fólks­ins sem missti ást­vini sína í eld­in­um. Hvað þau eru að ganga í gegn­um.“

Auglýsing

Elds­voð­inn gleypti allar hans eigur fyrir utan bíl­inn sem hann hafði lagt nokkur hund­ruð metrum frá hús­inu. Hann telur sig hafa átt rétt á ein­hverjum smá­vægi­legum fjár­styrk frá félags­þjón­ustu borg­ar­innar en að hann hafi ekki borið sig eftir hon­um. Sömu sögu er að segja um pólska sendi­ráðið og stétt­ar­fé­lagið sem hann var í. Hann hefði getað leitað þangað en gerði það ekki.

Til stendur að hann snúi aftur til Íslands. Flug­mið­inn er klár en hann er ekki viss um hvort það verði flog­ið. Kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn heldur áfram að setja strik í líf hans og ann­arra. „Ég vil finna mér vinnu á Íslandi og halda áfram að búa þar. Ég á mjög erfitt með að vera aðgerða­laus,“ segir hann og bætir svo við á íslensku: „Ég tala bara smá­vegis íslensku.“ Hann hlær að fram­burði sín­um. Orða­forð­inn er að hans sögn enn sem komið er mjög ein­fald­ur. „Mig langar að læra meiri íslensku svo ég eigi mögu­leika á fleiri störf­um.“

Hefði ekki átt að treysta öðrum

Um fimm mán­uðir eru liðnir frá brun­anum á Bræðra­borg­ar­stíg. Hvernig líður þér núna?

Hann dregur djúpt and­ann áður en hann svar­ar. „Þetta var mik­ill harm­leik­ur,“ segir hann og hugsar sig svo um áður en hann heldur áfram. „Ég hefði getað gert hlut­ina öðru­vísi. Ég hefði getað sett upp reyk­skynjara í her­berg­inu mínu. Ég hefði átt að vita að ég gæti ekki treyst öðr­um.“

Hann segir það líka hafa verið mis­tök af sinni hálfu að kaupa ekki trygg­ingu líka þeirri sem hann keypti vegna ferða­lags til áhættu­svæðis snemma á árinu. „En ég hugs­aði með mér að ég þyrfti ekki svona trygg­ingu á Íslandi. Hér gerð­ist ekk­ert slæmt. Þetta er sá per­sónu­legi lær­dómur sem ég verð að draga af þessu.“

Hlý hjörtu Íslend­inga

Á þess­ari stundu, þrátt fyrir allt sem gekk á, er þakk­læti honum ofar­lega í huga. „Ég fékk aldrei tæki­færi til að þakka öllum þeim sem aðstoð­uðu mig og önnur fórn­ar­lömb elds­ins með ýmsum hætti. Lög­reglan, slökkvi­lið­ið, sjúkra­flutn­inga­menn og allt fólkið hitt fólkið sem rétti fram hjálp­ar­hönd. Á meðan ég var á sjúkra­hús­inu þá fékk ég poka með fötum og nauð­syn­legum hrein­læt­is­vör­um. Við þetta hlýn­aði mér um hjarta­ræt­urn­ar, eftir að hafa misst næstum því aleig­una. Stuðn­ingur frá vinum og kunn­ingjum var líka ómet­an­leg­ur. Elds­voð­inn á Íslandi tók allt sem ég átti fyrir utan bíl­inn og skóna sem ég var í þegar ég stökk út. En á sama tíma þá komst ég að því að hjörtu fólks­ins sem býr hér eru allt annað en ísköld.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal