„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð

Hver lögreglumaðurinn á fætur öðrum sagði í dag frá hrikalegri aðkomunni að brunanum á Bræðraborgarstíg. Hvernig ringulreið ríkti og að ofan á allt saman hafi par farið inn í logandi húsið. Parið, sem verjandi Mareks hefur beint sjónum að bar vitni í dag.

Bræðraborgarstígur 1 Mynd: Golli
Auglýsing

Þegar Marek Moszczynski var handtekinn við rússneska sendiráðið síðasta sumar náðu lögreglumennirnir engu sambandi við hann. Hann stóð hrópandi og barði á dyr hússins er þeir komu á vettvang og öskraði og sönglaði á víxl. Áður en þeir náðu að handtaka hann, eftir að hafa reynt að tala um fyrir honum, tók hann upp gúmmímottu af tröppunum þar sem hann stóð og sló báða lögreglumennina með henni. „Þegar við vorum að járna hann hélt hann á kveikjara í öðrum lófanum.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í skýrslutökum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag yfir lögreglumönnunum sem sinnt höfðu útkallsbeiðni sendiráðsins þann 25. júní í fyrra vegna manns sem léti þar ófriðlega. Þeir höfðu raunar verið á leið á vettvang eldsvoða á Bræðraborgarstíg 1 er ósk um hjálp barst frá rússenska sendiráðinu. „Fljótlega kom í ljós einhver tenging við Bræðraborgarstíg,“ sagði annar lögreglumannanna, „að hann ætti heima þar“.

Lögreglumennirnir tóku samskipti sín við Marek upp á búkmyndavélar og í dómsal í dag, á öðrum degi réttarhaldanna yfir Marek, var m.a. rætt um hvort sýna ætti upptökurnar í salnum og þá hvort að loka ætti þinghaldinu á meðan og fjölmiðlamönnum og öðrum gestum vísað út. Ákvörðun um það liggur enn ekki fyrir.

Auglýsing

Héraðssaksóknari ákærði Marek í haust fyrir brennu, manndráp og manndráp af gáleysi. Hann er sakaður um að hafa kveikt eld á tveimur stöðum í húsinu á horni Bræðraborgarstígs 1 og Vesturgötu, þar sem hann leigði herbergi. Þrennt lést í eldsvoðanum, allt ungt fólk frá Póllandi. Þrír geðlæknar hafa metið Marek ósakhæfan á verknaðarstundu og í gær lýstu íbúar hússins á þessum tíma hvernig hegðun hans hafði skyndilega breyst skömmu fyrir eldsvoðann og hann orðið árásargjarn og ör. Í einum vitnisburði dagsins í dag kom fram að hann hefði sagt einum sambýlingi sínum að hann ætlaði til Moskvu. Það er eina augljósa tengingin við rússneska sendiráðið sem fram hefur komið í réttarhöldunum til þessa.

Flest þeirra sautján vitna sem mættu fyrir dóminn í dag voru lögreglumenn. Auk þeirra bar brunaverkfræðingur vitni sem og sérfræðingur hjá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Meðal vitna voru einnig tveir karlmenn sem voru staddir í húsinu handan götunnar og urðu vitni að sérkennilegri hegðun Mareks og annar þeirra að því þegar reyk tók að leggja út um glugga á herbergi hans.

Mörg vitnanna lýstu vanmætti sínum í þeim hrikalegu aðstæðum sem voru á vettvangi eftir að eldurinn, sem breiddist hratt út, kom upp. Þau lýstu því hvernig þau þurftu að horfa á fólk í gluggum hússins, hrópandi á hjálp, en geta ekkert gert. Þau lýstu örvæntingarfullri leit að stigum til að ná til þeirra og hvernig fyrstu mínúturnar, áður en slökkvilið kom á vettvang, einkenndust af algjörri ringulreið.

Annar dagur réttarhaldanna

Þriðjudagurinn 27. apríl 2021.

Eftir bjartan dag í gær dró sólin sig í hlé í morgun. Það var allt að því svalt í morgunsárið og húfur jafn algengar á höfðum vegfarenda og sólgleraugu í gær.

Létt er yfir verjanda Mareks, Stefáni Karli Kristjánssyni, er hann mætir til dómshússins. Hann hefur sýnt það í réttarhöldunum hingað til að það er stutt í glensið. Segist hlæjandi ætla að verða eini maðurinn á Íslandi sem hafi aldrei farið í skimun vegna kórónuveirunnar.

Inn í þetta gáskafulla andrúmsloft dómsalarins kemur Marek í fylgd sömu tveggja lögreglumanna og í gær. Þetta eru vanir menn í fangaflutningum. Öruggir í fasi. Það er ekki látunum fyrir að fara og Marek er hinn rólegasti og kinkar brosandi kolli til verjanda síns og túlksins er hann sest á milli þeirra.

Hann dvaldi í fangelsinu á Hólmsheiði í nótt og verður vistaður þar á meðan réttarhöldunum stendur. Annars hefur hann undanfarna mánuði verið vistaður á Litla-Hrauni.

Það er kveikt á skjávörpunum. Skýrsla verður tekin af fyrsta vitni dagsins í gegnum fjarfundarbúnað. Svarta skikkjan með bláu boðungunum er dregin upp úr pússi sækjanda, Kolbrúnar Benediktsdóttur. Stefán Karl hefur líka sveipað sig skikkjunni áður en dómararnir þrír ganga inn og fá sér sæti undir jafnmörgum bogadregnum gluggum.

Fyrsta mál á dagskrá er að leggja fram gögn frá lögreglunni um útköll vegna Bræðraborgarstígs 1 á tveggja vikna tímabili áður en bruninn varð. Eftir þessum gögnum hafði Stefán Karl óskað og þau hefur Kolbrún nú afhent dómsformanninum, Barböru Björnsdóttur. Í gær voru tvær lögregluskýrslur yfir íslensku pari, karli og konu, sem handtekið var fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, lagðar fram.

Inngangar og hárprýði

Það eru einmitt þau tvö sem fyrst bera vitni í dag. Þau voru bæði búsett á jarðhæð hússins daginn sem eldurinn kviknaði og það eru þau sem Stefán Karl spurði vitni gærdagsins ítrekað út í. Hann heldur uppteknum hætti í dag. Spyr lögreglumennina um handtökuna og mörg vitni einnig um innganga hússins. Hvaða dyr hafi legið hvert. Miðað við teikningar af húsinu væru fleiri inngangar á efri hæðir. Þetta á eftir að verða fyrirferðarmikið umræðuefni í skýrslutökum dagsins.

„Heyrir þú í okkur og sérð?“ spyr Barbara karlmanninn sem birtist á skjánum. Er tækniatriðin eru komin á hreint er hann beðinn að segja frá því sem gerðist þennan dag. Hann segist hafa verið að hengja upp þvott á snúru í einu herberginu á jarðhæðinni er hann sá fólk fyrir utan. „Svo ég fer út og lít upp og sé allt alelda.“

Hann segist þá aftur hafa snúið inn til að vekja sambýliskonu sína. Hann fór út á ný og segir allt hafa gerst „svolítið hratt“. Lögreglan og sjúkrabílar voru komnir á staðinn – allur pakkinn, eins og hann orðar það. Hann segir marga viðstadda hafa verið í sjokki og hann hafi hlaupið með ruslagám að húsinu svo fólk sem var inni á efri hæðunum gæti hoppað niður. Miðað við lýsingu hans sá hann þegar kona af rishæðinni féll út um gluggann og á gáminn. „Þarna er ég staddur á nærbuxunum,“ heldur hann áfram svo hann ákveði að hlaupa inn í húsið og fara í föt. En þá er hann „keyrður niður“ af lögreglu, handtekinn og settur inn í lögreglubíl.

Lyfjaður og ruglaður

Sækjandi spyr hann hvort að hann muni eftir því að lögreglan hafi verið kölluð út vegna hans og þáverandi sambýliskonu hans, aðfaranótt 25. júní. „Ég man það ekki alveg. Óljóst. Ég var í neyslu á þessum tíma og minnið er blörrað. Ég var lyfjaður og ruglaður.“

Kolbrún segist hafa upplýsingar um að lögreglunni hefði borist tilkynning um að verið væri að ganga í skrokk á konu þessa nótt. Hann segist muna það óljóst en bendir á að lögreglan hafi nokkrum sinnum komið á því tímabili sem hann bjó að Bræðraborgarstíg.

„Þú sagðist hafa verið á nærfötunum. Er það ástæðan fyrir því að þú hljópst inn í brennandi hús?“ spyr Kolbrún. Hann segir eldinn hafa verið á efri hæðunum, ekki jarðhæðinni þar sem hann leigði.

Auglýsing

„Sástu hvar [nafn konunnar] var þegar þetta var allt að gerast?“ spyr Stefán Karl. Hann segist ekki getað staðsett hana allan tímann. „Streittist hún á móti?“ heldur Stefán Karl áfram. „Vildi hún ekki fara út úr húsinu?“ Maðurinn segist ekki vita hvernig það hafi verið. Hann hafi hins vegar viljað klæða sig og koma „dekkjunum og felgunum“, sem hann geymdi í herbergi sínu, út. Það hafi eftir á að hyggja verið algjört dómgreindarleysi. Hann hafi séð lögreglumenn handtaka hana, að hún hafi verið „tekin harkalega“.

Hún gat ekki kveikt í, hún var að vakna

Stefán Karl vitnar svo til lögregluskýrslu þar sem hann segir koma fram að lögreglan hafi séð hann bera dekk inn í húsið – ekki út úr því. Og inn í aðalhúsið, eins og hann orðar það. Þessu harðneitar maðurinn. „Af hverju átti ég að hlaupa með dekk inn í hús, spyr ég bara.“

Stefán heldur áfram að spyrja út í sambýliskonu mannsins á þessum tíma en þau eru nú skilin. „Ástandið á [henni], gæti hún hafa verið fær um það að hreinlega grípa til þess að kveikja í húsinu sjálf?“

Maðurinn svarar: „Hún gat ekki hafa kveikt í húsinu, hún var að vakna.“

Í gær spurði Stefán fjölda vitna um íslenskan mann og hvort að hann hefði verið snoðaður, jafnvel sköllóttur. Nú spyr hann vitnið, karlmanninn sem handtekinn var á vettvangi, hvort að hann hafi verið krúnurakaður á þessu tímabili. Því þarna er hann kominn, maðurinn sem Stefán spurði svo ítrekað út í í gær. „Ekki síðan ég var níu ára,“ svarar maðurinn að bragði. „Þá var ég síðast krúnurakaður.“

Hafði áhyggjur af ketti

Næsta vitni er kona um fertugt. Hún er sú sem einnig var handtekin á vettvangi. „Getur þú sagt okkur frá þessum degi?“ spyr Barbara dómari þegar konan hefur komið sér fyrir í vitnastúkunni. „Ég er sofandi og er vakin af mínum fyrrverandi,“ byrjar hún á að segja. „Þegar við komum út þá bara stendur allt í ljósum logum. Maður varð bara vitni af frekar óhugnanlegum hlutum. Fleira man ég svo sem ekki.“

Kolbrún sækjandi spyr hvort að hún hafi svo aftur farið inn í húsið. Hún segist hafa gert það til að athuga með aðra sem þar bjuggu og ekki síst kött vinkonu sinnar.

Hún segist svo hafa verið handtekin en ekki vitað fyrr en eftir á að það hafi verið fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu á vettvangi. „Ástandið á mér á þessum tíma var ekki gott,“ segir hún. „Þetta er hálfgert í móðu.“

Bræðraborgarstígur 1, hornhúsið við Vesturgötu. Mynd: Golli

Kolbrún spyr hana þvínæst um nóttina á undan. Hvort að hún muni að lögreglan hafi komið og haft afskipti af henni og sambýlismanninum. „Já, mig rámar í það.“

„Heimilisofbeldi?“ spyr Kolbrún þá. Konan kinkar kolli. Hún segist hafa farið að sofa fljótlega eftir að lögreglan var farin. „Ég fékk svo mikið höfuðhögg,“ útskýrir hún.

Enn er spurt um hárið á sambýlismanninum fyrrverandi. Hvernig það hafi verið á þessum tíma. „Hann var algjör lubbi,“ segir konan sem segist svo aldrei hafa komið upp á efri hæðir hússins og engan þekkt sem þar bjó.

Stefán Karl byrjar á að spyrja hana hvort að hún hafi eitthvað farið út úr húsinu frá því að lögreglan kom og þar til hún var vakin vegna brunans. Hún neitar því. Hann segir svo vitni hafa sagt að hún hafi ekki viljað fara út úr húsinu. „Auðvitað vildi ég fara út úr húsinu,“ segir hún þá.

Aldrei verið snoðaður

Og þá er enn og aftur komið á hári sambýlismannsins. Stefán spyr hvort að hann hafi verið hárprúður á þessum tíma. „Hann hefur aldrei verið snoðaður,“ svarar konan.

Svo spyr Stefán Karl: „Þú og [nafn mannsins], fóruð þið einhvern tímann á N1 og keyptuð bensín í brúsa?“

„Nei,“ svarar konan.

„Hvorki þú eða [hann] hafið tekið þátt í því að kveikja þennan bruna sem varð?“

Hún svarar þeirri spurningu einnig neitandi.

Glugginn

Næstur til að gefa vitni er smiður sem var að gera upp hús handan götunnar. Þar var hann staddur ásamt húsráðanda er þeir heyrðu „einhvern skarkala úti“. Þeir fóru út og sáu að verið var að henda sólgleraugum út um gluggann á annarri hæð hússins á móti. „Þar er maður sem ég hafði séð daginn áður fyrr utan húsið. Og hafði látið heldur skringilega. Maður hefur séð ýmislegt í þessu húsi,“ segir smiðurinn.

Örfáum mínútum síðar sjá þeir manninn koma út úr húsinu. Hann var með föt á herðatrjám á bakinu og gekk upp Bræðraborgarstíginn. „Fimm mínútum seinna ætla ég að halda áfram að vinna en þá sé ég að það er reykur út um þennan glugga. Þá hringdi ég á slökkviliðið. Á meðan ég er í símanum þá gýs eldur út um gluggann.“

Eftir að hafa hringt í Neyðarlínuna fór hann að húsinu og barði á glugga og einnig á útihurðina. Þær hafi verið læstar. Hann sá fólk koma út í glugga á efri hæðunum. Hann náði í stiga en sá var stuttur.

Smiðurinn talar hægt er hann lýsir því sem fyrir augu bar. „Fólk var stökkvandi út um gluggana þarna og alls konar. Maður var að horfa á þetta.“

Stefán Karl biður hann að fara ítarlega yfir tímalínuna. „Þú sérð aldrei ákærða í málinu kveikja beinínis í?“ spyr hann svo. „Nei, nei,“ svarar smiðurinn. „En þig grunar strax að...“ byrjar Stefán á að spyrja og vitnið svarar: „Manni getur ekki annað en grunað það sko. En ég sá hann ekki kveikja í.“

Mörg vitni dagsins lýstu björgunaraðgerðum á vettvangi. Mynd. Aðsend

Sá sem næstur sest í vitnastúkuna er eigandi hússins á móti Bræðraborgarstíg 1. Hann segir það sama og smiðurinn, að þeir hafi heyrt læti og séð dóti hent út um gluggann. Þeir hafi svo séð mann rjúka út með „klæði á öxlunum“. Hann hafi þá þurft að fara að sækja son sinn en þegar hann kom aftur hafi eldtungurnar staðið út um gluggann á herberginu sem dótinu var hent út um. „Það var mjög ljótt ástand. Blóð á götunni og allir í sjokki. Maður bara trúði þessu ekki.“

Maðurinn, sem er arkitekt, segist þekkja húsið að Bræðraborgarstíg 1. Hann hafi farið inn í það á sínum tíma. Þess vegna viti hann að það er bara einn inngangur fyrir efri hæðirnar og hann sé ekki sá sami og að jarðhæðinni.

Næstu vitni eru lögreglumenn. Þeir stíga hver á fætur öðrum í vitnastúkuna. Kynna sig með fullu nafni og lögreglunúmeri. Fyrstur er lögreglumaður sem kom ásamt félaga sínum fyrstur á vettvang brunans. „Við vorum fyrsti bíll,” segir hann. Þá hafi efri hæðirnar tvær þegar verið orðnar alelda. „Við sjáum fólk í gluggum að reyna að komast út.“

Voru föst uppi

Á rishæðinni voru karl og kona í glugganum „og hrópa niður“. Enginn slökkviliðsbíll var enn komin. „Við erum ekki með stiga. Það var lítið sem við gátum gert. Þau voru föst þarna uppi.“ Gríðarleg ringulreið hafi verið á vettvangi. „Fólk að hrópa og segja okkur að hjálpa þeim.“

Hann segir konuna hafa klifrað út um opnanlegt fag á glugganum og fólk hafi staðið niðri og hrópað til hennar að „hoppa niður en ég vissi að það gæti endað illa. Ég segi henni að bíða“.

Hann lýsir því svo að maður hafi sett ruslagám neðan við gluggann. Hann telur konuna hafa misst takið. Hún lést skömmu síðar af áverkum sem hún hlaut við fallið.

„Ég sá þennan mann aldrei meira,“ segir hann um karlmanninn sem sést hafði í glugganum líka. „Hann hvarf inn í reykinn og við gátum ekki hjálpað honum.“

Lögreglumaðurinn talaði við vitni, m.a. við nágranna handan götunnar sem hafi sagt: „Ég veit hver kveikti í húsinu.“

Eftir að hafa rætt við fleiri vitni vaknaði meiri grunur um að þetta hefði verið íkveikja. Hann ræddi við konu sem bjó á sömu hæð og maðurinn sem nágranninn lýsti. Hún sagði hann hafa látið skringilega og sagst vera á leiðinni til Moskvu. Að hann héti Marek. Stuttu síðar hafi hann fengið upplýsingar um útkall við rússneska sendiráðið. Lýsing á manni sem þar var handtekinn passaði við Marek. „Þannig að við fáum fljótlega upplýsingar sem beina okkur að Marek.“

Auglýsing

Sérsveitarmaður sest því næst í vitnastúkuna og lýsir hrikalegum vettvanginum. Að sjúkraflutningamenn og almennir borgarar hafi verið að hlúa að slösuðum. Verið að reyna endurlífgun. „Svo við förum að hlaupa um garða og kalla hvort að einhver sé með stiga.“ Hann hafi sjálfur farið í það að bjarga tveimur mönnum af þaki viðbyggingarinnar á Vesturgötu. Að því loknu fór hann að aðstoða sjúkraflutningamenn sem voru enn tiltölulega undirmannaðir. Tekist hafði að bjarga einum íbúa rishæðarinnar niður um stiga. Sá hafi verið „grjótharður“ og ekki viljað fara í sjúkrabíl. „Hann vildi frekar að einhverjir aðrir gerðu það“.

Þarna er hann að lýsa Vasile Tibor Andor sem beið í 13 mínútur í reykfylltu herbergi sínu eftir björgun. Hinum megin við húsið var félagi hans að eiga við fólk sem hlýddi ekki fyrirmælum. Karlmaðurinn hafi haldið á dekki „og reyndi að kasta því í mig“.

Íkveikja af ásetningi

Tveir lögreglumenn frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu komu fyrir dóminn í dag. Þeir fóru ítarlega yfir niðurstöðu rannsóknar á upptökum brunans sem hafi verið sú að um íkveikju með ásetningi hefði verið að ræða. Kveikt hefði verið í á tveimur stöðum. Útilokað sé að kviknað hafi í út frá rafmagni og þar sem upptakasvæði eldsins hafi verið á sitt hvorum staðnum og minni skemmdir á milli þeirra sé ljóst að eldurinn barst ekki frá einum staðnum til annars. „Það eina sem stóð eftir var að þarna hefði verið kveikt í af mannavöldum,“ segir annar þeirra.

Plastflaska hafi fundist í anddyri hússins. Búið var að stinga gat á tappann á henni og „okkur grunaði að í hefði verið eldfim efni,“ segir lögreglumaðurinn. Af henni fannst lykt sem benti til þess en hins vegar var hún búin að liggja „í einhverja daga“ í vatni eftir slökkvistarfið. Hún var send til rannsóknarstofu í eiturefnafræðum við Háskóla Íslands. Niðurstaðan þeirrar rannsóknar hafi hins vegar verið sú að ekki væri hægt að segja til um hvort að bensín eða annað eldhvetjandi efni hafi verið í flöskunni. Einhver snefill af efnum fannst en ekki nóg svo að hægt væri að segja með óyggjandi hætti að bensín hafi verið í henni. Hann segir það ekki skrítið þar sem hún lá í vatni eftir slökkvistarfið. „Bensín gufar tiltölulega fljótt upp.“

Hvað með matarolíu?

Stefán Karl vill vita hvort að það geti verið að matarolía skilji eftir sambærileg ummerki um íkveikju og bensín. Hann spyr að þessu þar sem Marek hafi átt viskí og matarolíu inni á herberginu sínu. Lögreglumaðurinn segir að slík olía gæti gert það, en að á þeim stöðum þar sem eldsupptökin voru hafi engar leifar af umbúðum um slíkt fundist.

„Ég er að hugsa upphátt,“ segir Stefán Karl svo og spyr hvort að ekki myndu sjást ummerki á fötum þess sem kveikti í með þessum hætti. Hann á eftir að spyrja fleiri lögreglumenn og rannsakendur að sömu spurningu. Því engin ummerki af þessu tagi hafa fundist í fatnaði Mareks, þrátt fyrir að hann hafi verið handtekinn innan við hálftíma eftir að eldurinn kviknaði. „Ég kveiki upp í eldstæðinu heima hjá mér en það eru ekki ummerki á mér eftir það,“ svarar Davíð Snorrason brunaverkfræðingur, sem fór fyrir rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á brunanum þeirri spurningu.

Þurfti læknisaðstoð

Yfirmaður á tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir m.a. í sínum vitnisburði að hann hafi farið niður á lögreglustöð kvöldið sem Marek var handtekinn. Tilgangurinn var að kanna hvort að ummerki, t.d. bensín eða sót, fyndist á honum. En Marek var í engu ástandi til slíkrar rannsóknar. „Hann var mjög ör. Ekki hægt að eiga við hann samræður eða samskipti á nokkurn hátt. Hann var búinn að maka saur á vegginn á fangaklefanum. Var nakinn.“ Því hafi verið hætt við þessa rannsókn þetta kvöld.

Annar lögreglumaður, sem einnig hitti Marek á lögreglustöðinni um kvöldið, segist hafa séð að hann þyrfti á læknisaðstoð að halda. Svo alvarlegt hafi ástand hans verið.

Plastflaskan umtalaða sem grunur lék á að í hefði verið bensín, var aldrei rannsökuð með tilliti til fingrafara. Stefán Karl vill vita af hverju og spyr hver hafi borið ábyrgð á rannsókn málsins? Einhver bendir á miðlæga deild lögreglunnar. Vitni dagsins segjast ekki geta svarað þeirri. Eitt vitnanna bendir á að flaskan sé enn til og að hana sé enn hægt að rannsaka frekar. Kolbrún upplýsir undir lok dags að einmitt það standi nú til.

Öðrum degi réttarhaldanna yfir Marek Moszczynski er lokið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköstin skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis.
Mölun karlkyns hænuunga „er hryllileg iðja“
Á Íslandi er heimilt að beita tveimur aðferðum við aflífun hænuunga; gösun og mölun. Báðum aðferðum er beitt á tugþúsundir unga á ári. „Allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir eftir að þeir klekjast út,“ segir formaður Samtaka grænkera.
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar