Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“

Skipulagsfulltrúi fellst ekki á að færa og snúa gömlu húsi á Bræðraborgarstíg, segir gólfsíða glugga áformaðrar nýbyggingar „einhæfa“, „stóreflis“ kvisti eins og húshlið að ryðjast upp á þak og framkomnar skýringarmyndir „fráhrindandi og kaldar“.

Horft frá bakgarði til vesturs.
Horft frá bakgarði til vesturs.
Auglýsing

Til­laga sem Yrki arki­tektar ehf. unnu fyrir Þorpið vist­fé­lag um upp­bygg­ingu á Bræðra­borg­ar­stíg 1 og 3 dregur upp mynd af „inn­hverfri“ bygg­ingu sem er „lík virki sem hrindir frá sér umhverf­in­u“. Útfærsla bygg­inga er bæði „um­fangs­mikil og nokkuð fram­andi“ með til­liti til byggða­mynsturs í gamla Vest­ur­bænum og þyrfti að opna sig mun betur út í umhverfið og sam­fé­lag­ið. Ekki er aug­ljóst að fall­ast á sam­ein­ingu lóð­anna tveggja og nauð­syn­legt er að vinna heild­ar­deiliskipu­lag yfir reit­inn á kostnað fram­kvæmda­að­ila.

Auglýsing

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn skipu­lags­full­trúa Reykja­víkur frá því um miðjan júní vegna fyr­ir­spurnar fram­kvæmda­að­ila um áform­aða upp­bygg­ingu á reitn­um. Kveikt var í horn­hús­inu að Bræðra­borg­ar­stíg 1 í fyrra­sumar með þeim afleið­ingum að þrjár ungar mann­eskjur sem þar bjuggu lét­ust. Um mann­skæð­asta elds­voða í sögu höf­uð­borg­ar­innar er að ræða.

Þá var húsið sem og Bræðra­borg­ar­stígur 3 í eigu fyr­ir­tæk­is­ins HD verks en um síð­ustu ára­mót keypti Þorpið vist­fé­lag þau með fyr­ir­ætl­unum um að sam­eina lóð­irnar og þróa innan þeirra BabaYaga-­systra­fjöl­býli að erlendri fyr­ir­mynd – sam­býli eldri kvenna sem vilja minnka við sig og sækja styrk í félags­legt sam­lag.

Þorpið hefur tví­vegis kynnt til­lögur að upp­bygg­ing­unni í formi fyr­ir­spurna til skipu­lags­full­trúa borg­ar­inn­ar, fyrst í des­em­ber í fyrra og aftur síð­asta vor. Í þeirri fyrri var kynnt áætlun um 26 íbúðir en í þeirri seinni 23 auk stórrar sam­eign­ar. Gert er ráð fyrir þyrp­ingu sam­fastra húsa á tveimur til fjórum hæðum auk ris­hæða á sam­einaðri lóð með lok­uðum bak­garði. Bygg­ing­ar­magn yrði aukið umtals­vert frá því sem var. Í síð­ustu viku sendu yfir 50 nágrannar sam­eig­in­lega áskorun til yfir­valda um að borgin eign­ist lóð­irnar og útvegi fram­kvæmda­að­ila aðra í stað­inn sem hæfi svo miklu bygg­ing­ar­magni. Vilja nágrann­arnir að byggt verði á lóð­unum af virð­ingu við fórn­ar­lömb brun­ans og í takti við hin sér­stæðu timb­ur­hús á svæð­inu. Vegna þeirra frétta óskaði Kjarn­inn eftir að fá sendar umsagnir skipu­lags­full­trúa um hina áform­uðu upp­bygg­ingu á lóð­un­um.

Lóðir númer 1 og 3 við Bræðraborgarstíg markaðar gulri útlínu.

Í seinni umsögn skipu­lags­full­trúa um til­lög­urn­ar, sem Ingvar Jón Bates Gísla­son arki­tekt vann fyrir hönd emb­ætt­is­ins, er farið yfir fjöl­mörg atriði sem þarf að hafa í huga við upp­bygg­ingu í gömlu og grónu hverfi sem auk þess nýtur verndar í aðal­skipu­lagi. Ígrunda þurfi slík áform út frá byggð­ar­mynstri, sér­kennum jafnt sem fag­ur­fræði­legum ein­kennum og jafn­framt hug­leiða mögu­legt for­dæm­is­gildi til­lög­unn­ar. „Al­mennt er mik­il­vægt að farið sé var­lega í breyt­ingar á hverri lóð svo sátt sé um í hverf­in­u.“

Þá eru gerðar fjöl­margar athuga­semdir við útlit hús­anna eins og það birt­ist í til­lög­unni, m.a. að ný tengi­bygg­ing með fram Bræðra­borg­ar­stígnum sé það stór að vart megi sjá upp­brot mis­mun­andi húsa og að skýr­ing­ar­myndir virki „fremur kaldar og frá­hrind­and­i“.

Einnig er bent á að þrátt fyrir lít­il­lega fækkun íbúða­ein­inga frá fyrri til­lögu, sem skipu­lags­full­trúi gaf umsögn um í jan­ú­ar, séu „nú­ver­andi hug­myndir um upp­bygg­ingu innan lóð­anna full umfangs­miklar að teknu til­liti til nágrenn­is­ins og byggða­mynstur­s“.

(T.v.) Bræðraborgarstígur nr.1 og nr.3 til suðurs 5. janúar 2021. Uppfærð tillaga hönnuða til hægri.

Til­laga Yrkis arki­tekta fyrir Þorpið vist­fé­lag gerir ráð fyrir nýrri horn­bygg­ingu á lóð Bræðra­borg­ar­stígs 1 í sam­felldu L-laga formi. „Ekki er að sjá að ætl­unin sé að byggja upp fyrrum tví­lyft timb­ur­hús með risi frá 1906 með horn­sneið­ingu, á horni Vest­ur­götu og Bræðra­borg­ar­stígs þrátt fyrir ábend­ingu skipu­lags­full­trúa þar um í fyrri umsögn, heldur byggja nútíma­legt hús, í raun eina nýbygg­ing­u,“ segir í umsögn skipu­lags­full­trúa. Sam­kvæmt til­lög­unni skarti nýbygg­ingin „stór­eflis kvistum sem skera sig mjög úr umhverf­inu og má með nokkrum rétti spyrja hvort um kvisti sé að ræða eða hvort sjálfar hús­hlið­arnar ryðj­ist upp á þak. Gólf­síðir gluggar í reglu­legri end­ur­tekn­ingu auka mjög á fram­and­leika við ríkj­andi byggða­mynstur á reitnum og hús gegnt nýbygg­ing­unn­i.“

Ekki er fall­ist á slíka ein­hæfni og lagt til að glugga­form taki mið af eldri byggð – að þau sýni til­breyt­ingu bæði í stærð og gerð. Stærð og form ein­stak­lings­í­búða taki mið af sér­hverju upp­broti hús­hliða „í stað fjöl­föld­unar íbúð­anna líkt og um nýja íbúða­blokk í nýju hverfi væri að ræða“.

Að mati skipu­lags­full­trúa verða hönn­uðir að rýna betur í leið­bein­ingar hans varð­andi stærðir og útlit nýbygg­inga með til­liti til stærðar og ald­urs húsa í næsta nágrenni.

Ásýnd byggðar séð frá Ránargötu til norðurs samkvæmt tillögu hönnuða. Á myndinni er búið að færa húsið að Bræðraborgarstíg 3 að lóðamörkum hornhússins. Mynd: Yrki

Þá gera til­lög­urnar ráð fyrir að húsið á Bræðra­borg­ar­stíg 3 verði „fært nær upp­runa­legu horfi” og hækkað um eina hæð. Í seinni til­lög­unni er að auki gert ráð fyrir að snúa hús­inu og flytja það innan lóð­ar, þétt að lóða­mörkum húss­ins að Bræðra­borg­ar­stíg 5.

Skipu­lags­full­trúi tekur jákvætt í hug­myndir hönn­uða að end­ur­byggja húsið í upp­runa­legri mynd með alda­móta­gluggum og hækka það með bygg­ingu kjall­ara. Hann fellst hins vegar ekki á að það verði fært innan lóð­ar­innar og því snú­ið. Hann segir það enn fremur verða að telj­ast „djarfa hug­mynd“ að bjóða upp á færslu húss og leggja við lóða­mörk nágranna að því er virð­ist án sam­ráðs við þá.

Á skýr­ing­ar­myndum hönn­uða má sjá að í lok­uðum bak­garði er gert ráð fyrir tölu­verðri notkun vænt­an­legra íbúa sam­lags­ins, svo sem aðstöðu undir útisnúrur frá þvotta­húsi, græn­met­is­garð og sól­ar­svæði, auk heits pott­ar, sem eru allt áhuga­verðar hug­myndir að mati skipu­lags­full­trúa.

Útfærsla á stærð bak­garðs­ins er hins vegar „nokkuð tak­mörkuð og aflok­uð“ segir í umsögn skipu­lags­full­trúa sem helgist af því bygg­ing­ar­magni sem til­lagan geri ráð fyr­ir. Huga þurfi því „vel að því við frek­ari útfærslu bygg­ing­ar­reits­ins að draga úr bygg­ing­ar­magn­i“.

Svona sjá hönnuðirnir útlit neðsta hluta Bræðraborgarstígsins fyrir sér. Mynd: Yrki

Innan reits­ins Stýri­manna­stígur – Vest­ur­gata – Bræðra­borg­ar­stígur – Rán­ar­gata, sem umræddar lóðir eru inn­an, eru þegar sam­tals 28 íbúðir á 14 lóð­um. Núver­andi með­al­nýt­ing­ar­hlut­fall innan reits­ins er 0,8. Í fyrri til­lögu Yrki arki­tekta kom fram að nýt­ing­ar­hlut­fall innan lóð­anna tveggja yrði 1,9. Horfið var svo frá því að gera kjall­ara þar sem sprengja þyrfti klöpp og fór það þá upp í 2,32. Miðað við bygg­ing­ar­magn sam­kvæmt seinni til­lög­unni yrði hlut­fallið í 2,29.

Í umsögn­inni er bent á að af upp­færðri til­lögu höf­unda megi ráða að á meðal ávinn­ings við sam­ein­ingu lóða sé að upp­færa eina stór­bygg­ingu í sömu hæð frá til­teknum við­mið­un­arfleti þvert á lóð­irn­ar. Á þetta fellst skipu­lags­full­trúi ekki og bendir á að í dag „stall­ist“ húsin milli lóð­anna eftir lands­lag­inu „sem byggir með afger­andi hætti undir þá til­finn­ingu að hús­in, sam­kvæmt núver­andi horfi, aðlag­ast umhverf­inu með áreynslu­lausum hætt­i“.

Teikning sem sýnir skipulag fjórðu hæðar húsaþyrpingarinnar. Mynd: Yrki

Skipu­lags­full­trúi bendir á að borg­ar­vernd­ar­stefna gild­andi aðal­skipu­lags geri götum og torgum hátt undir höfði, m.a. við end­ur­reisn eða end­ur­gerð þeirra. Vest­ur­gatan nr. 1 við Bræðra­borg­ar­stíg sé ein þeirra. „Al­mennt má segja að sá er mætir á reit sem þennan með fjöl­breyttu byggða­mynstri með það að mark­miði að byggja upp og bæta við, skal horfa til þess sem var og jafn­framt gæta þess að lofta um ef boðið er upp á aukið bygg­ing­ar­magn.“

Í umsögn hans um til­lögur að upp­bygg­ingu á lóðum 1 og 3 við Bræðra­borg­ar­stíg segir svo: „Hönn­uðir eru hvattir til að sýna fram á meira sann­fær­andi nýja bygg­ing­ar­list sem bland­ast betur við það gamla.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Smitum og innlögnum fjölgað í Danmörku
Sjáanleg áhrif afléttinga sóttvarnaaðgerða í nágrannalöndunum eru misjöfn sem helgast m.a. af hlutfalli bólusettra og fjölda sýna sem tekin eru. Í Englandi og Danmörku, sem fyrst riðu á vaðið, eru blikur á lofti.
Kjarninn 19. október 2021
Árni Finnsson
Á vonarvöl?
Kjarninn 19. október 2021
Sjókvíareldi á Vestfjörðum.
Framleiðsla í fiskeldi jókst um 169 prósent milli 2016 og 2020
Tekjur fiskeldisfyrirtækja hafa tvöfaldast frá 2016 og útflutningsverðmæti afurða þeirra hafa þrefaldast. Launþegum í geiranum hefur hins vegar ekki fjölgað nálægt því jafn mikið, eða um 32 prósent á sama tímabili.
Kjarninn 19. október 2021
Bensínverð ekki verið hærra síðan 2012
Verðið á heimsmarkaði með olíu hefur margfaldast frá vorinu 2020. Það hefur skilað því að viðmiðunarverð á bensíni á Íslandi hefur einungis einu sinni verið hærra í krónum talið.
Kjarninn 19. október 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Öllum sóttvarnaraðgerðum innanlands verði aflétt eftir mánuð
Frá og með morgundeginum mega 2.000 manns koma saman, grímuskyldu verður aflétt og opnunartímar skemmtistaða lengjast um klukkustund. Svo er stefnt á afléttingu allra aðgerða eftir fjórar vikur.
Kjarninn 19. október 2021
Þjóðhættir
Þjóðhættir
Þjóðhættir – Íslenskir fjárhundar og endurvinnsla textíls
Kjarninn 19. október 2021
Sjávarútvegurinn greiddi sér 21,5 milljarða króna í arð í fyrra
Hagur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, samtala arðgreiðslna og aukins eigin fjár þeirra, hefur vænkast um meira en 500 milljarða króna frá bankahrun. Geirinn greiddi sér meira út í arð í fyrra en hann greiddi í öll opinber gjöld.
Kjarninn 19. október 2021
Ásýnd fyrirhugaðrar uppbyggingar á Orkureitnum séð frá Suðurlandsbraut.
Reitir selja uppbyggingarheimildir á Orkureit á hátt í fjóra milljarða
Félagið Íslenskar fasteignir ehf. mun taka við uppbyggingunni á hinum svokallaða Orkureit á milli Ármúla og Suðurlandsbrautar af Reitum. Áætlaður söluhagnaður Reita af verkefninu er um 1,3 milljarðar króna.
Kjarninn 19. október 2021
Meira úr sama flokkiInnlent