Bestseller og herforingjastjórnin í Myanmar

Getur hugsast að stærsti fataframleiðandi Danmerkur styðji, með óbeinum hætti, herforingjastjórnina, og mannréttindabrot í Myanmar? Ekki bara hugsanlegt, heldur staðreynd segir danski utanríkisráðherrann, sem varar fyrirtækið við.

bestseller
Auglýsing

Fyrirtækjanafnið Bestseller hljómar kannski ekki sérlega kunnuglega. Það gera hinsvegar búðaheitin Vero Moda, Jack & Jones, Only, Name It, Selected Homme og að minnsta kosti 15 til viðbótar. Þessar verslanir eiga það sameiginlegt að vera í eigu Bestseller fyrirtækisins.

Bestseller var stofnað árið 1975. Stofnendur voru hjónin Merete Bech Povlsen og Troels Holch Povlsen. Fyrst í stað einbeitti fyrirtækið sér að framleiðslu og sölu á kvenfatnaði. Reksturinn gekk frá upphafi vel og árið 1986 hófst framleiðsla á barnafötum og karlmannafatnaði tveimur árum síðar. 

Þúsundir verslana

Fyrirtækið stækkaði jafnt og þétt og verslanir Bestseller skipta nú þúsundum, Vero Moda verslanirnar eru rúmlega 8 hundruð og Jack & Jones 12 hundruð talsins. Talsverður hluti þessara verslana er undir stjórn móðurfyrirtækisins Bestseller en aðrar reknar með sérleyfi. Starfsfólk Bestseller er um það bil 17 þúsund og þar við bætist að minnsta kosti álíka fjöldi undirverktaka hjá fyrirtækinu. Bestseller á auk þess hlut í nokkrum stórum fyrirtækjasamsteypum, þar á meðal Bestseller Fashion Group China. Það fyrirtæki hannar og framleiðir fatnað sem seldur er í 5 þúsund verslunum í Kína.

Auglýsing
Bestseller er í dag meðal stærstu fyrirtækja í Danmörku. Árið 2000 tók Anders Holch Povlsen, sonur stofnendanna, við sem forstjóri og er nú eigandi fyrirtækisins. Hann og eiginkona hans Anne Storm Pedersen eru í hópi ríkustu íbúa Danmerkur.

Misstu þrjú börn  

Um páskana 2019 voru þau hjónin Anders Holch Povlsen og Anne Storm Pedersen, ásamt fjórum börnum sínum, í fríi á Sri Lanka. Að morgni páskadags réðust hryðjuverkamenn til atlögu á nokkrum stöðum í landinu, þar á meðal á hótelinu þar sem fjölskyldan bjó.

Hjónin Anders Holch Povlsen og Anne Storm Pedersen. Mynd: EPA

Hátt í 300 létust í þessum tilræðum og að minnsta kosti 500 særðust. Meðal þeirra sem létust voru þrjú börn Anders og Anne, dæturnar Alma og Agnes og sonurinn Alfred. Ári síðar eignuðust hjónin tvíbura. 

Fyrst til Suður- Evrópu og þaðan til Asíu

Í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar fluttist megnið af vestur- evrópskri fataframleiðslu til Suður- Evrópu. Þar var framleiðslukostnaðurinn, þar með talin launin, lægri. Síðar fluttist framleiðslan að stórum hluta til Asíu. Til Kína, Indlands, Pakistan, Bangladess, Tælands, Sri Lanka, og fleiri landa. 

Myanmar

Myanmar, sem líka gengur undir nafninu Búrma, hefur lengi verið mjög lokað land, áratugum saman undir stjórn herforingja. Um miðjan síðasta áratug varð nokkur breyting á, stjórnvöld í Myanmar vildu opna landið, eins og það var orðað. Til að skapa störf og afla gjaldeyristekna. Fjölmörg erlend fyrirtæki sáu sér hag í samstarfi við stjórnvöld, meðal þeirra var hið danska Bestseller. Í ársbyrjun 2019 var Bestseller með samninga um fataframleiðslu við 36 fataverksmiðjur og saumastofur, með samtals um 50 þúsund starfsmenn, mikill meirihluti konur.

Aung San Suu Kyi

Eins og áður var nefnt hefur herinn ráðið lögum og lofum í Myanmar áratugum saman. Kosningar hafa þar engu breytt. 

Í þessu sambandi má geta þess að fyrir kosningar í landinu árið 1990 var leiðtogi Lýðræðisfylkingarinnar, Aung San Suu Kyi, handtekin og sett í stofufangelsi. Lýðræðisfylkingin vann stórsigur í kosningunum, en herinn virti þau úrslit að vettungi og Aung San Suu Kyi mátti dúsa í stofufangelsi, í samtals 15 ár. Í árslok 2015 fóru fram kosningar í landinu og þar fékk Lýðræðisfylkingin mikinn meirihluta atkvæða. Herinn hélt eftir sem áður völdunum í landinu, að mestu leyti. Aung San Suu Kyi gat ekki orðið forseti eða forsætisráðherra vegna ákvæða í lögum, sem heimila ekki að einstaklingur sem á börn með erlent ríkisfang gegni slíku embætti. Tveir synir Aung San Suu Kyi sem hún eignaðist með breskum eiginmanni sínum, sem er látinn, eru breskir ríkisborgarar. Hún fékk því starfsheitið ríkisráðgjafi. Áfram var það þó herinn sem öllu réði. 

Mikil mótmæli hafa verið eftir að Aung San Suu Kyi var tekin höndum. Mynd: EPA

Enn var kosið til þings árið 2020 og þar vann Lýðræðisfylkingin öruggan sigur, fékk 396 þingsæti af 476 sætum á þinginu. Leppflokkur herforingjastjórnarinnar sakaði Lýðræðisfylkinguna um kosningasvindl og fyrsta febrúar síðastliðinn hrifsaði herinn völdin og Aung San Suu Kyi var enn á ný sett í stofufangelsi. 

Skýrsla Mannréttindaráðsins

Árið 2019 sendi Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna frá sér skýrslu. Tildrög hennar voru ofsóknir herstjórnarinnar i Myanmar gegn þjóðarbroti Rohingja. Talið er að fleiri en 700 hafi fallið í aðgerðum hersins og meira en hálf milljón flúið land, einkum til Bangladess. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur lýst Rohingjum, sem eru samtals innan við tvær milljónir, einum mest ofsótta minnihlutahópi í heiminum.

Auglýsing
Í skýrslunni kom fram að sterk tengsl væru milli hersins í Myanmar og stórrar fyrirtækjasamsteypu í landinu. Eigendur samsteypunnar eru einstaklingar og deildir innan hersins, þar á meðal yfirhershöfðinginn Min Aung Hlaing. Fyrirtækjasamsteypunni Myanmar Economic Holdings Limited, MEHL, er ætlað að útvega fjármagn til hersins og hershöfðingjanna, gjarna framhjá opinberu kerfi, þannig má komast framhjá reglum um gagnsæi. Í skýrslu Mannréttindaráðsins er því slegið föstu að MEHL stjórni stórum hluta efnahagslífsins í Myanmar. 

Bestseller og verksmiðjurnar

Í skýrslunni áðurnefndu koma fram nöfn að minnsta kosti tveggja mjög stórra fataverksmiðja sem framleiða mikið fyrir Bestseller. Þessar verksmiðjur, Guotai Guohua Garment og Saung Oo Shwe Nay, greiða háar fjárhæðir til MEHL, og þeir peningar eru að verulegu leyti tilkomnir vegna tekna frá Bestseller. MEHL á ennfremur landsvæðið sem áðurnefndar verksmiðjur standa á og verksmiðjurnar borga háa leigu fyrir afnot landsins. 

Efnahagsþvinganir, utanríkisráðherra og Bestseller

Síðastliðinn mánudag, 19. apríl, samþykkti Evrópusambandið hertar efnahagsþvinganir gegn Myanmar á grundvelli mannréttindabrota í landinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkar ákvarðanir eru teknar en þvinganirnar nú ganga lengra en áður. Eitt ákvæði í þessum þvingunaraðgerðum er að fyrirtæki innan ESB hætti viðskiptum við Myanmar. Jeppe Kofod utanríkisráðherra Dana gagnrýndi í liðinni viku Bestseller harðlega fyrir að hafa látið niðurstöður skýrslu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2019 sem vind um eyru þjóta. Það er fremur óvenjulegt að danskur utanríkisráðherra sé svo harðorður í garð eins fyrirtækis. Danska atvinnu- og eftirlitsstofnunin (Erhvervsstyrelsen) tekur sömuleiðis djúpt í árinni og hefur beinlínis í hótunum við Bestseller ef það hætti ekki samvinnu við fyrirtæki í Myanmar. Prófessor við Hafnarháskóla sagðist, í blaðaviðtali, ekki minnast þess að hafa séð jafn sterkt til orða tekið eins og í yfirlýsingu atvinnu- og eftirlitsstofnunarinnar. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að fylgjast með að samþykktum ESB varðandi efnahagsþvinganir sé framfylgt. Prófessorinn sagði að svo virtist sem Bestseller hefði talið hótanir og efnahagsþvinganir goluþyt sem liði hjá. „Nú ætti stjórnendum Bestseller að vera ljóst að hér verður kné látið fylgja kviði.“  

Segjast hafa látið athuga málið

Talsmaður Bestseller sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að eftir útkomu skýrslu Mannréttindastofnunarinnar árið 2019 hafi fyrirtækið látið kanna hvort tengsl væru milli hersins í Myanmar og verksmiðjanna sem Bestseller skiptir við. Talsmaðurinn sagði að sú könnun hefði ekki leitt í ljós að fataverksmiðjurnar greiddu stórfé til hersins. Í bréfi til Politiken frá Bestseller, fyrir nokkrum dögum, kom fram að fyrirtækið hafi nú ákveðið að ekki verði um frekari viðskipti við fataverksmiðjurnar í Myanmar að ræða fyrr en slíkt verði forsvaranlegt, etisk forsvarligt, eins og það var orðað. 

Auglýsing
Í viðtali við Politiken fyrir nokkrum dögum sagði Anders Holch Povlsen forstjóri og eigandi Bestseller að á næstu dögum, í síðasta lagi 10. maí, myndi fyrirtækið leggja fram alla pappíra sem varða viðskipti þess við fataverksmiðjur og önnur fyrirtæki í Myanmar. Hann lýsti einnig eftir leiðbeiningum frá Evrópusambandinu um hvernig fyrirtækjum eins og Bestseller bæri að bera sig að varðandi samskipti við framleiðendur í Myanmar. „Við berum mikla ábyrgð gagnvart þeim tugþúsundum íbúa Myanmar sem starfa beinlínis fyrir okkur og hafa af því sitt lifibrauð.“ 

Nánari útfærsla á þeim efnahagsþvingunum sem ESB hefur ákveðið verður væntanlega kynnt innan tíðar.     

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar