Golli Bræðraborgarstígur 1 Mynd: Golli

„Ég þarf hjálp til að vinna úr þessu“

Eftir að hafa flúið Afganistan og sest að á Íslandi leigði Alisher Rahimi íbúð á Bræðraborgarstíg. Eitt síðdegið í sumar var hann heima að læra þegar hann heyrði hávaða og fann reykjarlykt. Hann leit út um gluggann og sá hóp fólks standa á götunni. Í andlitum þess var örvænting. Sumir hrópuðu. Það var kviknað í.

Alisher Rahimi er frá Afganistan en þaðan flúði hann til Íslands einn síns liðs fyrir tveimur árum, þá sautján ára gamall. Þegar hann var kominn með dvalarleyfi og íslenska kennitölu benti ráðgjafi hjá félagsþjónustunni honum á að hann yrði að finna sér sjálfur húsnæði. Hann fór þá leið, eins og flestir, að leita að íbúð á Facebook. Þar sá hann auglýsta tveggja herbergja íbúð á annarri hæð á Bræðraborgarstíg 1, Vesturgötu megin, og hafði samband við leigusalann.

Hann fékk þær upplýsingar að leigan væri 200 þúsund á mánuði og að greiða þyrfti 400 þúsund krónur í tryggingu. Hann og vinur hans, sem einnig er frá Afganistan, ákváðu að deila íbúðinni og gerðu þinglýstan leigusamning.

En fljótlega fóru þeir að vera órólegir og fannst þeir ekki öruggir. Reglulega mátti heyra læti af jarðhæðinni á næturnar, stundum tengd slagsmálum, sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af. Þá var aðstaðan í íbúðinni ekki ásættanleg. Það vantaði hurð á annað svefnherbergið og eigandinn svaraði seint beiðni um úrbætur. Það sem hann lofaði að tæki eina viku átti eftir að taka 2 til 3 mánuði.

Auglýsing

Þeir ákváðu að segja upp húsnæðinu og finna sér annað. Aðeins nokkrum dögum áður en bruninn mikli varð höfðu þeir tilkynnt eigandanum um ákvörðun sína og ætluðu að flytja út mánuði síðar. Þar sem þeir voru með sérinngang í íbúðina kynntust þeir ekki öðrum í húsinu. Enda höfðu þeir nóg að gera. Voru báðir í námi og vildu einbeita sér að því. Það var lítill tími til annars.

Alisher hóf nám í Tækniskólanum í byrjun síðasta árs. „Ég er að læra íslensku,“ segir hann brosandi – á íslensku. Honum finnst íslenskan svolítið strembin en gerir ekki mikið úr því. „Ég er duglegur,“ segir hann – á íslensku – og bætir við að með því að leggja hart að sér uppskeri maður ríkulega. Síðustu mánuði hefur hann einnig verið í ökutímum. Á Íslandi hefur hann almennt kunnað vel við sig og hefur eignast nokkra góða vini.

25. júní 2020

Morgunmatur er að venju framarlega á dagskránni þegar Alisher vaknar þann 25. júní síðastliðinn. Að honum loknum sest hann við tölvuna sína. Fjarkennslustund er að hefjast. Það er heimsfaraldur og staðnám hefur verið lagt til hliðar um sinn. Eftir að kennslustundum dagsins lýkur og hann hefur fengið sér að borða tekur heimanámið við. Um tveimur tímum síðar, er hann er enn niðursokkinn í námsefnið, hrekkur hann upp við hávaða. Í fyrstu heldur hann að einhver sé að brjótast inn. En í kjölfarið finnur hann reykjarlykt. Honum bregður, hraðar sér að glugganum og sér þá reyk leggja með fram húsinu. Úti á götunni stendur hópur fólks og það er örvænting í andlitum þess. Sumir hrópa. Hann fer út í ofboði, verður að komast að því hvað gangi á. Lögreglumaður vindur sér strax upp að honum og spyr hvort einhver sé inni.

„Já, vinur minn er inni í herbergi,“ segir hann við lögreglumanninn sem biður hann að fara ekki aftur inn í íbúðina. Það sé kviknað í húsinu. Fólk hleypur um götuna. Það eru sjúkrabílar og slökkvibílar komnir á vettvang. Hann sá reykinn um leið og hann kom út en nú sér hann líka eldtungurnar. Þær koma út úr gluggum hins hluta hússins, þess hluta þar sem leigð eru út herbergi.

Allt í einu fer hann að skjálfa frá hvirfli til ilja. Hjartað hamast í brjósti hans og honum finnst eins og það sé að springa út úr brjóstkassanum. Er hann að fá hjartaáfall? „Ég hafði aldrei áður lent í aðstæðum sem þessum,“ rifjar hann upp. Skelfingin er ógurleg. „Komdu út, komdu út!“ hrópar hann til vinar síns af götunni. „Það er kviknað í!“

Alisher sér fólk í gluggunum á þriðju hæðinni. Vinur hans kemur hlaupandi út og sér þegar manneskja stekkur út um gluggann í örvæntingu sinni.

Íbúðin þeirra fylltist af reyk en eldurinn náði ekki að læsa sig í hana nema að litlu leyti. Þeir heyrðu aldrei í reykskynjara og efast reyndar um að slíkur hafi verið í íbúðinni.

Aðsend mynd

Alisher kom að húsinu daginn eftir og sá lögreglumann á vettvangi. Hann bað um að fá að fara inn í íbúðina og sækja tölvuna sína, bækur og aðrar eigur sem hann og gerði. Þannig tókst honum að bjarga ýmsu en reykjarlyktin fer ekki úr fötunum þeirra. Svo megnið af þeim gátu þeir ekki notað áfram. Vinirnir bjuggu í íbúðinni á Bræðraborgarstíg í nokkra mánuði. Þeir vildu flytja þaðan en hefðu ekki getað ímyndað sér að sá flutningur kæmi til með þeim hætti sem hann gerði.

Nú eru þeir fluttir í Breiðholtið. Þeir eru alsælir í íbúðinni sinni og bera leigusalanum sérstaklega vel söguna. Og þar eru reykskynjarar.

Fær martraðir

Þrátt fyrir öryggið sem góðu húsnæði fylgir fær Alisher stundum martraðir. Í þeim er kviknað í eldhúsinu eða einhvers staðar annars staðar í íbúðinni og hann hrekkur upp með andfælum. Það tekur hann smá stund að átta sig – að þetta hafi aðeins verið vondur draumur – en til öryggis fer hann stundum á fætur og litast um. Í sumar og snemma í haust, þegar fólk var enn að grilla undir berum himni, kipptist hann við er hann fann lyktina, spratt og fætur og fyrsta hugsunin sem kom upp í hugann var: Hvernig kemst ég út?

Eftir brunann fengu þeir fjárstuðning frá borginni sem dugði fyrir leigu í einn mánuð. Þeir fengu trygginguna, sem þeir höfðu greitt er þeir tóku íbúðina á Bræðraborgarstíg á leigu, endurgreidda. Svo fengu þeir miða til að kaupa föt í Rauða kross búðinni en þeir hafa ekki enn notað þá.

Erfitt að einbeita sér

Þar sem þeir fluttu á milli hverfa innan Reykjavíkur fluttust þeir líka á milli þjónustumiðstöðva borgarinnar. Núna eiga þeir að leita til þjónustumiðstöðvarinnar í Mjódd. COVID-19 hefur sett strik í reikninginn í því sambandi. „Þegar ég hitti nýja félagsráðgjafann minn ætla ég að biðja um að fá að komast til sálfræðings,“ segir hann. „Ég þarf hjálp til að vinna úr þessu. Mér gekk mjög vel í skólanum áður. Núna á ég stundum erfitt með að einbeita mér. „Þetta var hræðileg lífsreynsla og atburðirnir sitja enn í mér.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal