Golli

Vildu bæta við hæð, byggja á milli og gera bílakjallara

Eigendur Bræðraborgarstígs 1 hafa á síðustu árum borið ýmsar tillögur að breytingum á húsinu undir borgina. Neikvætt var tekið í þær allar en engu að síður hafði notkun þess verið breytt er í því var kveikt í sumar. Nágrannar höfðu margoft kvartað vegna hússins. Árið 2015 sögðu yfirvöld heimildir skorta til að skoða íbúðarhús. Fimm árum síðar skortir þær enn.

Húsið að Bræðra­borg­ar­stíg 1, sem brann í júní í sum­ar, var byggt árið 1906 og sökum ald­urs fellur það undir ákvæði um frið­un. Ýmsar breyt­ingar hafa verið gerðar á því í tím­ans rás og „sumar miður smekk­leg­ar“ að mati Minja­stofn­un­ar. Á árunum 1929 til 1964 sam­þykktu yfir­völd meðal ann­ars stækkun og breyt­ingu á útliti þess hluta sem snýr að Vest­ur­götu og að gluggum yrði fjölgað og þeir stækk­að­ir. Þá var kvistum á ris­inu breytt, svo dæmi séu tek­in.

Síð­asta breyt­ingin sem sam­þykkt var af bygg­ing­ar­full­trúa Reykja­víkur var gerð árið 2000 er versl­un­ar­hús­næði jarð­hæð­ar­inn­ar, sem á árum áður hýsti vin­sælt bak­arí, var breytt í dag­vist­un­ar­rými fyrir börn. Nokkru síðar var þar opn­aður einka­rek­inn leik­skóli, Leik­skól­inn 101. Árið 2013 komu fram ásak­anir um harð­ræði starfs­fólks gegn börn­unum og leik­skól­anum var lok­að. Málið var síðar fellt niður þar sem það þótti ekki lík­legt til sak­fell­ing­ar. En leik­skól­inn var ekki opn­aður á ný.

Þó að breyt­ingin árið 2000 sé sú síð­asta sem bygg­ing­ar­full­trúi sam­þykkti hafa eig­endur húss­ins haft hug á mörgum öðrum síðan þá. Borg­ar­yf­ir­völd hafa hins vegar hafnað þeim hug­myndum öll­um.

Auglýsing

Árið 2010 átti fyr­ir­tækið HVH Verk ehf. bæði Bræðra­borg­ar­stíg 1 og 3. Fyr­ir­tækið fékk það ár leyfi til að breyta hluta húss­ins við Bræðra­borg­ar­stíg 3 í gisti­heim­ili. Í des­em­ber 2013, skömmu eftir að leik­skól­anum var lok­að, sendi nýr eig­andi hús­anna, HD Verk ehf., fyr­ir­spurn til yfir­valda um að breyta notkun jarð­hæðar Bræðra­borg­ar­stígs 1 og inn­rétta þar gisti­heim­ili með sjö her­bergjum og gisti­að­stöðu fyrir fjórtán gesti. Fyr­ir­spurnin var tekin fyrir hjá umhverf­is- og skipu­lags­ráði í byrjun árs 2014 en var hafnað með vísan til álits skipu­lags­full­trúa sem taldi áformin ekki falla að skipu­lagi svæð­is­ins.

Fín­gert byggða­mynstur

Haustið 2019 var sóst eftir því að sam­eina lóðir 1 og 3 við Bræðra­borg­ar­stíg, hækka húsin um eina hæð og byggja í opin rými á milli sem og bíla­kjall­ara undir hluta garðs­ins. Aukn­ing á bygg­ing­ar­magni var af lóð­ar­hafa metin um 600 til 800 fer­metrar auk bíla­geymsl­unn­ar. „Þar sem vöntun er á bíla­stæðum í hverf­inu væri kjörið að útbúa nettan bíla­kjall­ara neð­an­jarðar undir hluta garð­rým­is,“ sagði í fyr­ir­spurn eig­and­ans.

Í umsögn skipu­lags­full­trúa var m.a. vísað til þess að húsin væru innan svæðis sem nyti verndar vegna fín­gerðs byggða­mynsturs. Ekki væri fall­ist á svo umfangs­mikla stækkun og ekki heldur á sam­ein­ingu lóða og hug­myndir um bíla­kjall­ara „enda myndi hann hafa meiri háttar röskun í för með með sér og nei­kvæð áhrif á götu­mynd“.

Bræðraborgarstígur 1 árið 2013 þegar Leikskólinn 101 var þar til húsa.
GVA

Í maí síð­ast­liðnum bár­ust skipu­lags­yf­ir­völdum svo enn á ný fyr­ir­spurnir og nú í þremur lið­um: Um að inn­rétta litlar íbúðir á 1. hæð húss­ins við Bræðra­borg­ar­stíg 1, um bygg­ingu vinnu­stofa á 1. hæð í garð­inum við Bræðra­borg­ar­stíg 3 og um upp­bygg­ingu milli hús­anna tveggja. Erindið var tekið fyrir á fundi skipu­lags­full­trúa 12. júní og vísað til verk­efn­is­stjóra. Tæpum tveimur vikum síðar brann Bræðra­borg­ar­stígur 1 og þrjár mann­eskj­ur, sem allar bjuggu á ris­hæð­inni, lét­ust. Fyr­ir­spurn um breyt­ingar á húsi nr. 3 fékk nei­kvæða afgreiðslu á fundi skipu­lags­full­trúa 14. ágúst en fyr­ir­spurnir um breyt­ingar á Bræðra­borg­ar­stíg 1 og upp­bygg­ingu á milli lóð­anna voru dregnar til baka.

Leigj­end­urnir hræddir

Síð­ustu ár hafa nágrannar haft áhyggjur af hús­inu og íbúum þess og marg­sinnis vakið athygli borg­ar­yf­ir­valda á því. Við þeim hefur verið brugð­ist með kröfu­bréfum og eft­ir­lits­ferðum en bæði heil­brigð­is­eft­ir­lit og bygg­ing­ar­full­trúi segj­ast tak­mark­aðar heim­ildir hafa til skoð­unar á íbúð­ar­hús­næði án dóms­úr­skurðar sem ekki þótti til­efni til, í til­viki Bræðra­borg­ar­stígs 1, að fá.

Þá hefur einnig verið bent á aðstæður í hús­inu í fjöl­miðlum síð­ustu ár. Í ítar­legri umfjöllun Stund­ar­innar um einmitt þetta hús árið 2015 sagði deild­ar­stjóri hjá Heil­brigð­is­eft­ir­liti Reykja­víkur að lítið væri hægt að gera nema að ósk leigj­enda. Leigj­enda sem hann sagð­ist hafa heyrt að væru hræddir við að gera það af ótta við að missa hús­næð­ið.

Auglýsing

Árið 2016 barst Heil­brigð­is­eft­ir­liti Reykja­víkur (HER) fyr­ir­spurn frá nágranna sem lýsti áhyggjum af við­haldi húss­ins og taldi að verið væri að breyta því í gisti­heim­ili. HER upp­lýsti að það hefði engar upp­lýs­ingar um starf­semi í hús­inu né hefðu umsóknir um slíkt borist. HER þyrfti beiðni frá íbú­um/um­ráða­mönnum til að geta skoðað aðstæður inn­i. Í maí 2017 barst svo kvörtun frá nágranna sem lýsti áhyggjum af við­haldi húss­ins og að þar byggi margt fólk. Í svar­inu voru ítrek­aðar fyrri leið­bein­ingar um að íbú­i/ar þurfi að biðja um skoðun til að HER sé heim­ilt að skoða húsið að inn­an. Einnig var nágrann­inn upp­lýstur um að leyfi fyrir gisti­stað væri ekki fyrir hendi í hús­inu né fyrir annarri starfs­leyf­is­skyldri starf­semi.

Árið 2019: Kvart­anir hrúg­ast inn

Á nokk­urra mán­aða tíma­bili í fyrra bár­ust svo margar kvart­anir vegna Bræðra­borg­ar­stígs 1, sú fyrsta í apríl vegna slæmrar umgengni og rusls á lóð­inni. Nokkrum dögum síðar bár­ust tvær kvart­anir til við­bótar um sama efni. Starfs­menn Heil­brigð­is­eft­ir­lits­ins stað­festu efni kvart­an­anna og upp­hófst lang­dregið ferli með kröfu­bréfum á eig­anda húss­ins og eft­ir­lits­ferðum á vett­vang. Raf­geymar voru m.a. geymdir á lóð­inni, rusla­tunnur voru yfir­fullar og í eitt skipti sem starfs­menn HER komu í eft­ir­fylgni var kom­inn bygg­ing­ar­úr­gangur á lóð­ina.

Í lok júní sendi HER eig­and­anum enn eitt bréfið með loka­fresti til að hreinsa lóð­ina en að öðrum kosti yrði það gert á hans kostn­að. Enn ein kvörtunin átti eftir að ber­ast áður en lóðin var hreinsuð að fullu. Mál­inu lauk svo með bréfi frá lög­manni HD verks í lok ágúst. Ekki bár­ust kvart­anir til Heil­brigð­is­eft­ir­lits­ins eftir það né beiðnir frá íbúum um skoðun á hús­næð­inu.

Skjáskot/www.ja.is

Heim­ildir til að bregð­ast við kvört­unum sem þessum eru bundnar í lög um holl­ustu­hætti og meng­un­ar­varn­ir. Ef ekki gengur að fá úrbætur er hægt að beita dag­sektum og stöðva starf­semi eða notkun ef alvar­leg hætta er talin stafa af. „Ekki kom til þess er varðar Bræðra­borg­ar­stíg 1 og aðkomu HER,“ segir í skrif­legu svari Heil­brigð­is­eft­ir­lits­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Tvær kvart­anir vegna húss­ins hafa borist bygg­ing­ar­full­trúa Reykja­víkur á síð­ustu árum. Fyrir um fjórum árum gerði hann athuga­semd í kjöl­far kvört­unar við að for­skaln­ing á öðrum gafli þess væri laus. Í apríl í fyrra barst svo kvörtun frá nágrönnum sem töldu sig í hættu vegna húss­ins. Í henni kom fram að rign­ing­ar­vatn læki inn með glugg­um, að klæðn­ing væri dottin af að hluta, þak­skegg lekt og rennur brotn­ar. Nágrann­arnir ótt­uð­ust að þetta hefði eld­hættu í för með sér vegna raf­lagna inni í veggjum húss­ins.

Við þess­ari kvörtun var ekki brugð­ist. Bygg­ing­ar­full­trúi hefur ekki heim­ild til að fara inn í íbúð­ar­hús og kanna aðstæður án sam­þykkis hús­ráð­enda nema með dóms­úr­skurði. Á það úrræði hefur aldrei verið látið reyna og þótti ekki til­efni til þess í þessu til­viki.

Ólög­legt að breyta notkun hús­næðis

Þrátt fyrir að eig­endur Bræðra­borg­ar­stígs 1 hafi ekki fengið heim­ild yfir­valda til að breyta jarð­hæð­inni í gisti­heim­ili, líkt og þeir sótt­ust eftir á árunum 2013-14, hefur komið í ljós að rým­inu sem um ræðir var breytt og að þar hafð­ist við fólk og svaf. Hvort þar var um lang­tíma- eða skamm­tíma­leigu, þ.e. gisti­heim­ili, að ræða breytir engu um það að breyt­ing á hús­næði eða notkun þess án bygg­ing­ar­leyfis er óleyfi­leg.

Þó að í lögum segi ekki berum orðum að óheim­ilt sé að gista ann­ars staðar en í sam­þykktum íbúðum er „andi lag­anna sá að fólk sofi ekki nema í sam­þykktu íbúð­ar­hús­næði og njóti þess öryggis sem því á að fylgja,“ segir Niku­lás Úlfar Más­son bygg­ing­ar­full­trúi. Brot á lögum um mann­virki og reglu­gerðum þeim tengdum varða sektum eða fang­elsi allt að tveimur árum. Á efri hæð­unum tveimur á Bræðra­borg­ar­stíg 1 voru leigð út her­bergi. Ekk­ert í lögum bannar útleigu her­bergja í íbúð til lengri tíma en sé um skamm­tíma­leigu að ræða þarf leyfi sam­kvæmt reglu­gerð um veit­inga- og gisti­staði og til að fá slíkt þarf að fylgja ströngum kröfum um eld­varn­ir.

Auglýsing

Jón Viðar Matth­í­as­son, slökkvi­liðs­stjóri á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, vill ekki tjá sig um brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg 1, en spurður almennt út í umfang breyttrar notk­unar á hús­næði í óleyfi, segir hann að „því mið­ur“ sé slíkt algengt og með því sé „reynt að kom­ast fram­hjá ströngum skil­yrðum um bruna­varn­ir“.

Hann þekkir dæmi þess að menn hafi komið til slökkvi­liðs­ins með teikn­ingar af húsum sínum og spurt út í kröfur um eld­varnir á gisti­stöð­um. Þegar þeir hafi fengið svörin hafi runnið á þá tvær grím­ur, þeir aldrei sótt um leyfi til rekst­urs gisti­staðar en engu að síður hafið slíka starf­semi í leyf­is­leysi. Það hefur slökkvi­liðið sann­reynt í nokkrum til­vik­um. „Þegar reglur eru veikar og í þeim holur þá fyllir fólk upp í hol­urn­ar,“ segir Jón Við­ar, „því það hefur sýnt sig að refs­ingin við því er eng­in.“

Rann­sókn Hús­næð­is- og  mann­virkja­stofn­unar

Sam­kvæmt lögum um bruna­varnir skal Hús­næð­is- og mann­virkja­stofnun (HMS) rann­saka elds­voða þar sem mann­tjón verð­ur, kröfur eld­varna­eft­ir­lits og hvernig að slökkvi­starfi var stað­ið, óháð lög­reglu­rann­sókn. HMS hefur þegar fram­kvæmt sína rann­sókn á brun­anum á Bræðra­borg­ar­stíg. Ekki er um saka­mála­rann­sókn að ræða heldur er eld­ur­inn sjálfur til skoð­unar sem og bygg­ing­in. Skýrslan verður m.a. byggð á ítar­legum vett­vangs­rann­sóknum og fjölda við­tala við slökkvi­liðs­menn, íbúa húss­ins og fleiri. „Helsta mark­miðið er að draga lær­dóm af því sem gerð­ist og koma í veg fyrir að svip­aðir atburðir end­ur­taki sig,“ segir Þor­geir Óskar Mar­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri eld­varn­ar­sviðs HMS.

Aðsend mynd

Skýrslan verður birt opin­ber­lega á næstu dögum og Þor­geir vill ekki tjá sig um nið­ur­stöðu hennar fyrr en þá. Spurður almennt út í kröfur um bruna­varnir í íbúð­ar­húsum bendir hann m.a. á mann­virkja­lög og reglu­gerð um eld­varn­ir. „Þegar þú leigir út her­bergi í hús­inu þínu er ábyrgð þín á bruna­vörnum sú sama og á heim­ili þín­u,“ segir hann.

Sam­kvæmt reglu­gerð um eld­varnir skal eig­andi íbúðar sjá til þess að í henni og á hverri hæð sé að minnsta kosti einn CE-­merktur reyk­skynj­ari fyrir hverja 80 fer­metra og þeir stað­settir þannig „að til þeirra heyr­ist greini­lega í öllum svefn­her­bergjum þegar dyrnar eru lok­að­ar“.

Sam­verk­andi þættir

Eig­andi skal einnig sjá til þess að í íbúð­inni sé a.m.k. eitt slökkvi­tæki með ákveð­inni slökkvi­getu og að flótta­leiðir séu greið­fær­ar. Sam­kvæmt reglu­gerð­inni ber eig­andi mann­virkis ábyrgð á að það „full­nægi kröfum um bruna­varnir sem fram eru settar í lögum og reglu­gerðum og að bruna­varnir taki mið af þeirri starf­semi sem fer fram í mann­virk­inu eða á lóð þess á hverjum tíma“.

Ákværu­valdið telur sannað að kveikt var í Bræðra­borg­ar­stíg 1 á að minnsta kosti tveimur stöð­um: Í her­bergi á 2. hæð og við stiga sem lá upp í ris­ið. Þegar bensín er notað til íkveikju getur eldur breiðst hratt út. En óháð því hvort að kveikt var vilj­andi í voru fyrir hendi í hús­inu fleiri sam­verk­andi þættir sem höfðu áhrif á elds­voð­ann og urðu til þess að hann varð jafn mann­skæður og raun ber vitni.

Golli

Húsið er gam­alt og úr timbri. Ein­angrun var að mestu leyti brenn­an­leg, hálmur og spæn­ir, sem auð­veld­aði útbreiðslu elds­ins á milli hæða og her­bergja auk þess sem mjög erfitt getur reynst að slökkva í slíku.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans var húsið almennt klætt að innan með timbri á veggjum og í lofti. Þá var strigi strengdur í loftin líkt og tíðk­að­ist á miðri síð­ustu öld. Búið var að mála mörgum sinnum yfir hann, ýmist með olíu- eða plast­máln­ingu. Allt jók þetta á bruna­á­lag­ið.

Á þeim hluta húss­ins sem brann voru engar sval­ir. Engir bruna­stig­ar. Aðeins ein flótta­leið var af ris­hæð­inni, þ.e. stig­inn sem þangað lá af 2. hæð­inni. Opn­an­leg fög á gluggum voru lítil og í her­bergjum var eng­inn neyð­ar­hamar til að brjóta gler­ið. Á göngum voru slökkvi­tæki en þau höfðu ekki verið tekin út í lengri tíma. Engar merk­ingar um neyð­ar­út­ganga og flótta­leiðir héngu á veggjum eftir því sem Kjarn­inn kemst næst. Engar bruna­æf­ingar höfðu farið fram í hús­inu í að minnsta kosti sex ár. Reyk­skynjarar héngu í ein­hverjum rýmum en eng­inn þeirra fór í gang þegar eld­ur­inn kvikn­aði síð­degis þann 25. júní.

Alltaf eig­anda að tryggja öryggi

Í dag eru gerðar kröfur um að minnsta kosti tvær flótta­leiðir í íbúð­ar­hús­næði. Svalir má nota sem flótta­leið. „Einn helsti lær­dóm­ur­inn sem við getum dregið af þessum bruna er að það vantar svalir á mjög mörg hús í Reykja­vík,“ segir Niku­lás Úlfar bygg­ing­ar­full­trúi. „Það á jafn­vel við um flest gömlu timb­ur­húsin í borg­inn­i.“

Eru þá fjöl­mörg hús í borg­inni bruna­gildr­ur?

Niku­lás segir vanda­samt að svara þeirri spurn­ingu þar sem bygg­ing­ar­full­trúi og fleiri opin­berir aðilar hafi tak­mark­aðar heim­ildir til að hafa eft­ir­lit með innra skipu­lagi íbúð­ar­hús­næð­is. En að hans mati þurfi ríka ástæðu til þess að neita eig­endum um að gera svalir á hús sín þar sem flótta­leiðum er ábóta­vant. „Auð­vitað þarf að gera kröfu um að svalir séu fal­legar og í sam­ræmi við aldur og gerð við­kom­andi hús­s.“

Lögum og reglum sem lúta að eld­vörnum hefur margoft verið breytt á síð­ustu árum og ára­tug­um. Fyrir utan fjölda flótta­leiða er m.a. í dag gerð krafa um að mann­virki sé skipt í bruna­hólf þar sem hægt sé að dvelja um tíma þó að eldur logi í öðrum hluta bygg­ing­ar. Spurður hvort að litið sé svo á að reglu­gerð­ar­breyt­ingar sem þessar séu aft­ur­virkar bendir Niku­lás á að það sé alltaf á ábyrgð eig­anda húss að öryggi í því sé í lagi og í sam­ræmi við almennar kröf­ur. „Það er alltaf hús­eig­anda að tryggja að það sé ekki hættu­legt að búa í hús­næð­in­u.“

Golli

Niku­lás vill ekki tjá sig um mögu­lega ábyrgð eig­anda Bræðra­borg­ar­stígs 1 í elds­voð­an­um. Aðspurður minn­ist hann þess ekki að eig­andi húss hafi verið dreg­inn til ábyrgðar vegna skorts á bruna­vörnum í öðrum elds­voð­um.

Þegar hús­næði er að fullu í útleigu og ein­hver er far­inn að hafa af því tekjur væri æski­legt, að mati eft­ir­lits­að­ila sem Kjarn­inn hefur rætt við, að það væri skil­greint sem atvinnu­hús­næði og þá hægt að gera rík­ari kröfur um eld­varnir og eft­ir­lit. En þannig er það ekki í dag.

Jón Viðar slökkvi­liðs­stjóri hefur lengi barist fyrir því að reglum verði breytt svo að slökkvi­lið geti haft eft­ir­lit með íbúð­ar­hús­næði líkt og atvinnu­hús­næði. „Ef þú ferð yfir á rauðu ljósi á bílnum þínum og ert tek­inn þá borgar þú sekt,“ tekur hann sem dæmi til útskýr­ing­ar. „Og þar er alltaf verið að hækka sekt­ina af því að hún hefur fæl­ing­ar­mátt. Nákvæm­lega sama þarf að vera gagn­vart íbúð­ar­hús­næð­i.“

Krókar úti um allt

Í stað­inn er raun­veru­leik­inn enn sá að það hef­ur, hingað til, ekki haft neinar afleið­ingar að breyta hús­næði án leyfis og að van­rækja kröfur um eld­varnir þegar elds­voði á sér stað. Eig­andi mann­virk­is, sem er bruna­tryggð­ur, fær það bætt að fullu. Jón Viðar grípur aftur til sam­lík­ingar við bíl: „Ef þú lendir í slysi á bíl sem þú hefur breytt, til dæmis sett á hann krók, án þess að fara í breyt­inga­skoð­un, þá færðu jafn­vel ekki greitt að fullu út úr trygg­ing­um.“

En dæmi séu um að í húsum sé „búið að setja ofsa­lega marga króka út um allt án leyf­is“. Og þegar kviknar í slíku húsi á það að mati Jóns Við­ars að hafa ein­hverjar afleið­ingar fyrir eig­and­ann, rétt eins og það hefur fyrir öku­mann sem ekur yfir á rauðu ljósi. „Við­ur­lög virð­ast því miður það eina sem hefur fæl­ing­ar­mátt.“

Auglýsing

Þær breyt­ingar sem Jón Viðar vill að ráð­ist verði í á lögum og reglum hvað þetta varðar þurfa að hans mati ekki að vera íþyngj­andi fyrir hús­eig­end­ur. „Það eru ekki lög­reglu­menn á hverju götu­horni að sekta alla þá sem brjóta umferð­ar­regl­ur. En þegar öku­maður er grip­inn við brot þá fær hann sekt. Það sama þarf að gilda þegar eig­andi íbúð­ar­hús­næðis á í hlut.“

Jón Við­ar, líkt og fleiri sér­fræð­ingar sem Kjarn­inn hefur rætt við, telur eðli­legt að gera sömu kröfur um eld­varnir til þeirra sem leigja út hús­næði sitt til langs tíma og gert er þegar um gisti­heim­ili er að ræða. „Hvort að við­kom­andi er að leigja her­bergi eða íbúð út í innan við þrjá­tíu daga eða þrjá mán­uði á að mínu mati engu máli að skipta þegar kemur að bruna­vörn­um.“

Átta hús­eig­endum send bréf

Að Bræðra­borg­ar­stíg 1 voru um sjö­tíu manns skráðir með lög­heim­ili er brun­inn varð í lok júní. En íbú­arnir voru í raun mun færri. Rangar lög­heim­il­is­skrán­ingar eru stórt vanda­mál, ekki síst fyrir slökkvi­lið­ið. Í þeim felst einnig vís­bend­ing um að fólk sé skráð á eitt heim­il­is­fang en búi í reynd í atvinnu­hús­næði, þar sem ekki má skrá lög­heim­ili.

Bygg­ing­ar­full­trúi og Slökkvi­lið höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins sendu nýverið í sam­ein­ingu bréf til eig­enda átta húsa í Reykja­vík þar sem óeðli­lega margir, margir tugir á hverjum stað, voru skráðir til heim­il­is. Óskað var eftir upp­lýs­ingum um hvort hús­næði hefði verið breytt með ein­hverjum hætti sem gæti talist bygg­ing­ar­leyf­is­skylt og þá hvort að bruna­varnir væru í lagi. Húsin sem um ræðir eru af ýmsum toga, bæði íbúð­ar­hús­næði og atvinnu­hús­næði, og hafa öll ratað í skrár slökkvi­liðs­ins, m.a. vegna gruns um að bruna­vörnum sé ábóta­vant. Það get­ur, svo dæmi sé tek­ið, falist í ýmis­konar óleyf­is­fram­kvæmd­um, því að flótta­leiðum hafi verið fækkað og húsið þar með gert hættu­legt, sér­stak­lega ef þar búa mjög margir eins og lög­heim­il­is­skrán­ingar gefa til kynna.

Önnur úrræði en bréfa­skriftir sem þessar hafa emb­ættin ekki á þessu stigi máls, nema þá að fara fram á dóms­úr­skurð sem ekki hefur tíðkast hingað til. Hugað verður að næstu skrefum þegar við­brögð hafa borist frá eig­endum hús­anna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar