Bára Huld Beck Valur Marteinsson
Bára Huld Beck

„Við vissum að það væru fleiri inni“

Bruninn á Bræðraborgarstíg er „það langversta“ sem Valur Marteinsson, slökkviliðsmaður til þrjátíu ára, hefur lent í. Er hann kom á vettvang blasti við skelfileg sjón, húsið orðið nær alelda og fólk í gluggum á efstu hæð að berjast fyrir lífi sínu.

Þegar Valur Mart­eins­son mætti til vinnu í höf­uð­stöðvum Slökkvi­liðs­ins á höf­uð­borg­ar­svæð­inu einn júnímorgun í sumar var hann að venju búinn undir langan og jafn­vel strangan vinnu­dag. Morg­un­vaktin hefst klukkan 7.30 og stendur í tólf tíma og hann vissi sem var að hún gæti orðið annað hvort róleg eða anna­söm eins og gengur og ger­ist.

Þegar hann rifjar dag­inn upp nú tæpum fimm mán­uðum síðar fer ekki á milli mála í hvorn flokk­inn hann fell­ur. „Ég þarf ekki annað en að láta hug­ann hvarfla að þessum sorg­ar­at­burði, þá sé ég þetta allt fyrir mér.“

Þetta var 25. júní. Dag­ur­inn sem húsið á Bræðra­borg­ar­stíg 1 brann. Valur ók slökkvi­liðs­bílnum sem kom fyrstur á vett­vang. Við blasti skelfi­leg sjón, húsið orðið nær alelda og fólk í gluggum á efstu hæð að berj­ast fyrir lífi sínu.

Í elds­voð­anum fór­ust þrír. Tveir slös­uð­ust alvar­lega.

Auglýsing

Valur hefur starfað hjá Slökkvi­liði höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins í meira en þrjá ára­tugi. Hann er því mik­ill reynslu­bolti og hefur komið að mörgum elds­voðum og sinnt ótal sjúkra­flutn­ingum og öðrum verk­efnum í gegnum tíð­ina. Þó að hann sé enn fullur starfs­orku og með ómet­an­lega þekk­ingu í fartesk­inu, reiknar hann ekki með að starfa sem slökkvi­liðs­maður nema í nokkur ár í við­bót. Hann er að verða sex­tug­ur, einn fárra á þeim aldri í fag­inu. Í gegnum tíð­ina hefur hann miðlað af reynslu sinni til fjölda ungs fólks og nú nálg­ast sú stund að það taki alfarið við kefl­inu.

Einn í bílnum er útkallið kom

Morg­un­vaktin þann 25. júní hófst á ýmsum hefð­bundnum störf­um, að sögn Vals. Eftir hádeg­is­mat­inn ætl­aði hann ásamt félögum sínum á vakt­inni í eft­ir­lits­ferð á dælu­bíln­um. Slíkar ferðir eru farnar reglu­lega til að kanna eld­varnir og aðstæður í og við mann­virki á starfs­svæði slökkvi­liðs­ins.

„Við vorum komnir út í bíl þegar beðið var um sjúkra­bíl niður á Hring­braut,“ rifjar Valur upp. Um alvar­legt til­felli var að ræða þar sem flytja þurfti sjúk­ling frá Land­spít­al­anum á Hring­braut og upp í Foss­vog. Beðið var um bráða­tækni og þar sem varð­stjóri Vals hefur slíka menntun var ákveðið að bæði sjúkra­bíll og dælu­bíl­inn sem Valur ók færu með hraði niður á Hring­braut. Vegna þess hversu alvar­legar aðstæður voru var svo ákveðið að varð­stjór­inn og hinir úr teymi Vals færu með sjúkra­bílnum upp í Foss­vog og að Valur myndi fylgja þeim eftir á dælu­bíln­um.

Þegar hann var kom­inn út á Snorra­braut­ina og sjúkra­bíll­inn kom­inn inn á Bústaða­veg, kom útkall.

Það er eldur á Bræðra­borg­ar­stíg.

Valur aðstoðar íbúa út um glugga á rishæðinni.
Aðsend mynd

„Ég velti því fyrir mér hvað ég eigi að gera og ákveð að setja ljósin á og fara á eftir þeim.“ Á umferð­ar­ljós­unum til móts við slökkvi­stöð­ina í Skóg­ar­hlíð hopp­uðu félagar hans út úr sjúkra­bílnum og upp í dælu­bíl­inn, „og við snúum við og höldum strax á stað­inn“.

Ljóst var allt frá því að fyrstu upp­lýs­ingar bár­ust frá neyð­ar­lín­unni að ástandið væri mjög alvar­legt. Eldur var sagður loga út um glugga og að fólk væri inni.

Ávallt reiðu­bú­inn

Valur hefur það fyrir venju að klæð­ast alltaf slökkvi­liðs­bún­ingnum þegar hann fer um á dælu­bíln­um. Útaf því hafði hann ekki brugðið þennan dag. „Maður veit aldrei hvað getur komið upp og bíl­stjóri á dælu­bíl getur ekki klætt sig á leið­inni. Það eina sem ég átti eftir að gera var að renna káp­unni upp.“

Á leið­inni á Bræðra­borg­ar­stíg­inn klæddu félagar hans sig í bún­ing­ana. Umferðin var með skásta móti miðað við þennan tíma dags svo leiðin vestur í bæ var nokkuð greið. Allan tím­ann voru að ber­ast frek­ari upp­lýs­ingar um elds­voð­ann.

Fyrsti slökkvi­bíll­inn á vett­vang

Bíll Vals var fyrsti slökkvi­bíll­inn á vett­vang en þangað var þegar kom­inn sjúkra­bíll og sjúkra­flutn­inga­menn­irnir byrj­aðir að sinna slös­uð­um.

„Þegar við komum að hús­inu þá er einn íbú­inn nýbú­inn að stökkva út um glugga,“ segir Val­ur. Sjúkra­flutn­inga­menn­irnir færðu hann frá hús­inu vegna gríð­ar­legs hita sem frá því staf­aði og hófu end­ur­lífg­un. Fjöldi fólks hafði safn­ast saman við hús­ið, bæði íbúar sem höfðu náð að koma sér út og nágrannar sem drifið hafði af og reyndu að aðstoða eftir fremsta megni.

„Ég ek eins nálægt hús­inu og ég kemst, stekk út og dreg út slöngu­keflið og fer að und­ir­búa dæl­ing­u,“ heldur Valur áfram. Félagar hans höfðu sett á sig reykköf­un­ar­búnað og fóru strax inn í húsið og upp á aðra hæð­ina þar sem eld­ur­inn var hvað mest­ur. „Það log­aði út um glugga á fram­hlið­inni. Og við sáum fólk í glugg­un­um,“ lýsir Val­ur. Félagar hans reyndu að kom­ast til fólks­ins á þriðju hæð­inni en stig­inn á milli ann­arrar og þriðju hæð­ar­innar var þá þegar orð­inn alelda.

Auglýsing

Annar íbúi á ris­hæð­inni stökk út um glugg­ann á norð­ur­gafli húss­ins rétt eftir að Valur mætti á stað­inn og fyrir innan glugg­ann við hlið­ina sást mað­ur. Á svip­uðum tíma kom annar sjúkra­bíll og í honum var slökkvi­liðs­maður en þar sem hann var að koma frá því að sinna sjúkra­flutn­ingi var hann ekki í klæddur bún­ingi. „Ég var á dæl­unni og gat ekki mikið farið frá en slökkvi­liðs­mað­ur­inn á sjúkra­bílnum og lög­reglu­maður taka stig­ann niður af bílnum hjá mér og fara með hann og reisa upp að glugga manns­ins sem við sáum enn inn­i.“

Í ofboði í leit að stiga

Áður höfðu við­staddir í ofboði reynt að finna stiga í nágrenn­inu. Einn höfðu þeir fundið í næsta garði en sá reynd­ist of stutt­ur. Hann náði ekki upp að glugg­unum á þriðju hæð­inn­i. Innan glugg­ans á efstu hæð­inni stóð Vasile Tibor Andor og náði vart and­an­um. Hann hafði sam­kvæmt leið­sögn starfs­manns neyð­ar­lín­unnar brotið lítið gat á rúð­una en treysti sér ekki í frekara brot þar sem nágranni hans og vinur lá slas­aður á stétt­inni fyrir neð­an.

Sjúkra­flutn­inga­mað­ur­inn fór upp stig­ann, braut stærra gat á rúð­una en þar sem hann var ekki var­inn og eld­ur­inn í hús­inu að magn­ast bað Valur hann að koma niður og fór sjálfur upp. „Það er svartur reykur alls staðar í kringum hann og hann er kom­inn með annan fót­inn út þegar ég tek á móti honum og hjálpa honum nið­ur. Þarna mátti ekki miklu muna.“

Bára Huld Beck

Valur segir að Tibor hafi ítrekað sagt að það amaði ekk­ert að sér. Að það væru fleiri inni. Að hann hefði sagt vini sínum að stökkva ekki. Beðið hann að bíða. Hann hafði aug­ljós­lega meiri áhyggjur af öðrum en sjálfum sér. Hann var engu að síður fluttur með sjúkra­bíl á Land­spít­al­ann.

„Við vissum að það væru fleiri inn­i,“ heldur Valur áfram. Fleiri slökkvi­liðs­menn voru fljótt komnir á stað­inn og fleiri reykk­farar fóru inn, m.a. um glugga á annarri hæð­inni. Körfu­bíll var not­aður til að kom­ast upp á þak til að reyna að bjarga fólki þá leið­ina út.

Grunur vakn­aði strax

Slökkvi­liðs­menn­irnir höfðu að sögn Vals strax grun um að kveikt hefði verið í hús­inu. Eld­ur­inn hag­aði sér þannig. „Það er nán­ast ekki sjens að hús verði svona hratt alelda nema að eitt­hvað óvenju­legt sé á seyð­i.“

Enda leiddi rann­sókn á brun­anum í ljós að eld­ur­inn kvikn­aði af manna­völdum og að bensín hafði verið notað til verkn­að­ar­ins.

„Þetta er með því verra sem maður hefur orðið vitni að,“ segir Valur en bætir svo við eftir umhugs­un: „Þetta er það lang­versta.“

Bára Huld Beck

Hann vann um nokk­urra mán­aða skeið í slökkvi­lið­inu í Kabúl í Afganistan, var fyrstur á vett­vang Skeifu­brun­ans mikla, hefur farið upp á þak húsa til að bjarga fólki og einnig hlúð að mann­eskjum sem bjargað var með naum­indum út úr brenn­andi bygg­ing­um. En hann hefur ekki áður komið að log­andi húsi þar sem fólk stekkur út um glugga til að reyna að bjarga lífi sín­u. 



Þraut­reyndur í sínu starfi var Valur ein­beittur á vett­vangi, þrátt fyrir hinar gríð­ar­lega krefj­andi aðstæð­ur. „Maður fær ein­hverja rör­sýn á verk­efn­ið, gengur óhikað í það sem þarf. Það er eng­inn tími til að velta sér upp úr hlut­un­um. Ætli maður reyni ekki að úti­loka ýmis­legt til þess að geta sinnt sínu starf­i.“ 

Ljós­lif­andi í minn­ing­unni



Við Bræðra­borg­ar­stíg­inn sinnti hann hverju verk­efn­inu á fætur öðru langt fram á kvöld, mun lengur en vaktin átti að standa. Þegar slökkvi­starfi var að mestu lok­ið, hóp­uð­ust allir við­bragðs­að­ilar sem komið höfðu á vett­vang sam­an. Fólk horfð­ist í augu. Málin voru rædd. Allir fengu að segja það sem þeim lá á hjarta. „Þetta var mjög mik­il­væg stund. Að hlusta á hina og ræða sam­an,“ segir Val­ur.



Með alla sína reynslu að baki tók brun­inn á Bræðra­borg­ar­stíg engu að síður á hann. Það var slá­andi að koma á svo skelfi­legan vett­vang. Hann getur því vel ímyndað sér áfallið sem yngra og reynslu­minna fólk sem að björg­un­ar­starf­inu kom varð fyr­ir. „Þetta var mjög erfitt og gríð­ar­lega sorg­legt. Allt sem ég sá þarna er nátt­úr­lega alveg ljós­lif­andi í minn­ing­unn­i.“



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal