Bára Huld Beck Valur Marteinsson

„Við vissum að það væru fleiri inni“

Bruninn á Bræðraborgarstíg er „það langversta“ sem Valur Marteinsson, slökkviliðsmaður til þrjátíu ára, hefur lent í. Er hann kom á vettvang blasti við skelfileg sjón, húsið orðið nær alelda og fólk í gluggum á efstu hæð að berjast fyrir lífi sínu.

Þegar Valur Marteinsson mætti til vinnu í höfuðstöðvum Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu einn júnímorgun í sumar var hann að venju búinn undir langan og jafnvel strangan vinnudag. Morgunvaktin hefst klukkan 7.30 og stendur í tólf tíma og hann vissi sem var að hún gæti orðið annað hvort róleg eða annasöm eins og gengur og gerist.

Þegar hann rifjar daginn upp nú tæpum fimm mánuðum síðar fer ekki á milli mála í hvorn flokkinn hann fellur. „Ég þarf ekki annað en að láta hugann hvarfla að þessum sorgaratburði, þá sé ég þetta allt fyrir mér.“

Þetta var 25. júní. Dagurinn sem húsið á Bræðraborgarstíg 1 brann. Valur ók slökkviliðsbílnum sem kom fyrstur á vettvang. Við blasti skelfileg sjón, húsið orðið nær alelda og fólk í gluggum á efstu hæð að berjast fyrir lífi sínu.

Í eldsvoðanum fórust þrír. Tveir slösuðust alvarlega.

Auglýsing

Valur hefur starfað hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í meira en þrjá áratugi. Hann er því mikill reynslubolti og hefur komið að mörgum eldsvoðum og sinnt ótal sjúkraflutningum og öðrum verkefnum í gegnum tíðina. Þó að hann sé enn fullur starfsorku og með ómetanlega þekkingu í farteskinu, reiknar hann ekki með að starfa sem slökkviliðsmaður nema í nokkur ár í viðbót. Hann er að verða sextugur, einn fárra á þeim aldri í faginu. Í gegnum tíðina hefur hann miðlað af reynslu sinni til fjölda ungs fólks og nú nálgast sú stund að það taki alfarið við keflinu.

Einn í bílnum er útkallið kom

Morgunvaktin þann 25. júní hófst á ýmsum hefðbundnum störfum, að sögn Vals. Eftir hádegismatinn ætlaði hann ásamt félögum sínum á vaktinni í eftirlitsferð á dælubílnum. Slíkar ferðir eru farnar reglulega til að kanna eldvarnir og aðstæður í og við mannvirki á starfssvæði slökkviliðsins.

„Við vorum komnir út í bíl þegar beðið var um sjúkrabíl niður á Hringbraut,“ rifjar Valur upp. Um alvarlegt tilfelli var að ræða þar sem flytja þurfti sjúkling frá Landspítalanum á Hringbraut og upp í Fossvog. Beðið var um bráðatækni og þar sem varðstjóri Vals hefur slíka menntun var ákveðið að bæði sjúkrabíll og dælubílinn sem Valur ók færu með hraði niður á Hringbraut. Vegna þess hversu alvarlegar aðstæður voru var svo ákveðið að varðstjórinn og hinir úr teymi Vals færu með sjúkrabílnum upp í Fossvog og að Valur myndi fylgja þeim eftir á dælubílnum.

Þegar hann var kominn út á Snorrabrautina og sjúkrabíllinn kominn inn á Bústaðaveg, kom útkall.

Það er eldur á Bræðraborgarstíg.

Valur aðstoðar íbúa út um glugga á rishæðinni.
Aðsend mynd

„Ég velti því fyrir mér hvað ég eigi að gera og ákveð að setja ljósin á og fara á eftir þeim.“ Á umferðarljósunum til móts við slökkvistöðina í Skógarhlíð hoppuðu félagar hans út úr sjúkrabílnum og upp í dælubílinn, „og við snúum við og höldum strax á staðinn“.

Ljóst var allt frá því að fyrstu upplýsingar bárust frá neyðarlínunni að ástandið væri mjög alvarlegt. Eldur var sagður loga út um glugga og að fólk væri inni.

Ávallt reiðubúinn

Valur hefur það fyrir venju að klæðast alltaf slökkviliðsbúningnum þegar hann fer um á dælubílnum. Útaf því hafði hann ekki brugðið þennan dag. „Maður veit aldrei hvað getur komið upp og bílstjóri á dælubíl getur ekki klætt sig á leiðinni. Það eina sem ég átti eftir að gera var að renna kápunni upp.“

Á leiðinni á Bræðraborgarstíginn klæddu félagar hans sig í búningana. Umferðin var með skásta móti miðað við þennan tíma dags svo leiðin vestur í bæ var nokkuð greið. Allan tímann voru að berast frekari upplýsingar um eldsvoðann.

Fyrsti slökkvibíllinn á vettvang

Bíll Vals var fyrsti slökkvibíllinn á vettvang en þangað var þegar kominn sjúkrabíll og sjúkraflutningamennirnir byrjaðir að sinna slösuðum.

„Þegar við komum að húsinu þá er einn íbúinn nýbúinn að stökkva út um glugga,“ segir Valur. Sjúkraflutningamennirnir færðu hann frá húsinu vegna gríðarlegs hita sem frá því stafaði og hófu endurlífgun. Fjöldi fólks hafði safnast saman við húsið, bæði íbúar sem höfðu náð að koma sér út og nágrannar sem drifið hafði af og reyndu að aðstoða eftir fremsta megni.

„Ég ek eins nálægt húsinu og ég kemst, stekk út og dreg út slöngukeflið og fer að undirbúa dælingu,“ heldur Valur áfram. Félagar hans höfðu sett á sig reykköfunarbúnað og fóru strax inn í húsið og upp á aðra hæðina þar sem eldurinn var hvað mestur. „Það logaði út um glugga á framhliðinni. Og við sáum fólk í gluggunum,“ lýsir Valur. Félagar hans reyndu að komast til fólksins á þriðju hæðinni en stiginn á milli annarrar og þriðju hæðarinnar var þá þegar orðinn alelda.

Auglýsing

Annar íbúi á rishæðinni stökk út um gluggann á norðurgafli hússins rétt eftir að Valur mætti á staðinn og fyrir innan gluggann við hliðina sást maður. Á svipuðum tíma kom annar sjúkrabíll og í honum var slökkviliðsmaður en þar sem hann var að koma frá því að sinna sjúkraflutningi var hann ekki í klæddur búningi. „Ég var á dælunni og gat ekki mikið farið frá en slökkviliðsmaðurinn á sjúkrabílnum og lögreglumaður taka stigann niður af bílnum hjá mér og fara með hann og reisa upp að glugga mannsins sem við sáum enn inni.“

Í ofboði í leit að stiga

Áður höfðu viðstaddir í ofboði reynt að finna stiga í nágrenninu. Einn höfðu þeir fundið í næsta garði en sá reyndist of stuttur. Hann náði ekki upp að gluggunum á þriðju hæðinni. Innan gluggans á efstu hæðinni stóð Vasile Tibor Andor og náði vart andanum. Hann hafði samkvæmt leiðsögn starfsmanns neyðarlínunnar brotið lítið gat á rúðuna en treysti sér ekki í frekara brot þar sem nágranni hans og vinur lá slasaður á stéttinni fyrir neðan.

Sjúkraflutningamaðurinn fór upp stigann, braut stærra gat á rúðuna en þar sem hann var ekki varinn og eldurinn í húsinu að magnast bað Valur hann að koma niður og fór sjálfur upp. „Það er svartur reykur alls staðar í kringum hann og hann er kominn með annan fótinn út þegar ég tek á móti honum og hjálpa honum niður. Þarna mátti ekki miklu muna.“

Bára Huld Beck

Valur segir að Tibor hafi ítrekað sagt að það amaði ekkert að sér. Að það væru fleiri inni. Að hann hefði sagt vini sínum að stökkva ekki. Beðið hann að bíða. Hann hafði augljóslega meiri áhyggjur af öðrum en sjálfum sér. Hann var engu að síður fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann.

„Við vissum að það væru fleiri inni,“ heldur Valur áfram. Fleiri slökkviliðsmenn voru fljótt komnir á staðinn og fleiri reykkfarar fóru inn, m.a. um glugga á annarri hæðinni. Körfubíll var notaður til að komast upp á þak til að reyna að bjarga fólki þá leiðina út.

Grunur vaknaði strax

Slökkviliðsmennirnir höfðu að sögn Vals strax grun um að kveikt hefði verið í húsinu. Eldurinn hagaði sér þannig. „Það er nánast ekki sjens að hús verði svona hratt alelda nema að eitthvað óvenjulegt sé á seyði.“

Enda leiddi rannsókn á brunanum í ljós að eldurinn kviknaði af mannavöldum og að bensín hafði verið notað til verknaðarins.

„Þetta er með því verra sem maður hefur orðið vitni að,“ segir Valur en bætir svo við eftir umhugsun: „Þetta er það langversta.“

Bára Huld Beck

Hann vann um nokkurra mánaða skeið í slökkviliðinu í Kabúl í Afganistan, var fyrstur á vettvang Skeifubrunans mikla, hefur farið upp á þak húsa til að bjarga fólki og einnig hlúð að manneskjum sem bjargað var með naumindum út úr brennandi byggingum. En hann hefur ekki áður komið að logandi húsi þar sem fólk stekkur út um glugga til að reyna að bjarga lífi sínu. 


Þrautreyndur í sínu starfi var Valur einbeittur á vettvangi, þrátt fyrir hinar gríðarlega krefjandi aðstæður. „Maður fær einhverja rörsýn á verkefnið, gengur óhikað í það sem þarf. Það er enginn tími til að velta sér upp úr hlutunum. Ætli maður reyni ekki að útiloka ýmislegt til þess að geta sinnt sínu starfi.“ 

Ljóslifandi í minningunni


Við Bræðraborgarstíginn sinnti hann hverju verkefninu á fætur öðru langt fram á kvöld, mun lengur en vaktin átti að standa. Þegar slökkvistarfi var að mestu lokið, hópuðust allir viðbragðsaðilar sem komið höfðu á vettvang saman. Fólk horfðist í augu. Málin voru rædd. Allir fengu að segja það sem þeim lá á hjarta. „Þetta var mjög mikilvæg stund. Að hlusta á hina og ræða saman,“ segir Valur.


Með alla sína reynslu að baki tók bruninn á Bræðraborgarstíg engu að síður á hann. Það var sláandi að koma á svo skelfilegan vettvang. Hann getur því vel ímyndað sér áfallið sem yngra og reynsluminna fólk sem að björgunarstarfinu kom varð fyrir. „Þetta var mjög erfitt og gríðarlega sorglegt. Allt sem ég sá þarna er náttúrlega alveg ljóslifandi í minningunni.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal