Bára Huld Beck Sigurjón Ingi Sveinsson

„Ég á aldrei eftir að gleyma þessu“

„Þetta var ólýsanlegt,“ segir Sigurjón Ingi Sveinsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður sem var meðal þeirra fyrstu á vettvang brunans á Bræðraborgarstíg. „Það er mikill eldur,“ segir hann um það sem við blasti. „Við heyrum sprengingar og sjáum þrjár slasaðar manneskjur fyrir utan. Við lítum upp og sjáum manneskju í glugganum.“

Sigurjón Ingi Sveinsson fagnaði því ákaft er hann komst inn í slökkviliðið í mars árið 2017. Þetta var hans önnur tilraun því árið 2015 hafði hann, líkt og svo margir, fallið á hinu stranga hlaupaprófi sem umsækjendur þurfa að þreyta. Hann ákvað samstundis að búa sig undir að sækja um aftur. Það kom aldrei til greina að gefast upp. „Þvert á móti. Ég bætti bara í og var staðráðinn í að gera betur.“

Nú á vormánuðum hafði hann lokið öllum námskeiðum, sem ýmist tengjast sjúkra- eða slökkviliðsþáttum starfsins, sem og starfsþjálfun og var orðinn fullgildur starfsmaður slökkviliðsins. „Námið var gott en maður lærir rosalega mikið á því að sinna svo þessu starfi,“ segir Sigurjón. Fyrst var hann alltaf með reyndari mann sér við hlið, einhvern sem hafði langa starfsreynslu og kunni að takast á við verkefnin í margvíslegum aðstæðum. „Ég hafði auðvitað og hef enn ótal spurningar og það er alltaf eitthvað nýtt sem maður er að læra.“

Frá því að náminu lauk í vor hefur hann fyrst og fremst sinnt sjúkraflutningum fyrir Landspítalann sem eru töluverðir þar sem starfsemin er enn á tveimur stöðum í borginni; í Fossvogi og við Hringbraut.

Auglýsing

Starfið er fjölbreytt og engir tveir dagar eins. En 25. júní skar sig þó sérstaklega úr. Hann var á dagvakt og að störfum á sjúkrabíl sem kallast 701. Sá bíll er ávallt mannaður bráðatækni, en sjúkraflutningamenn með þá menntun tóku við af læknum á sjúkrabílunum fyrir nokkrum árum. „Þetta var meðal minna fyrstu vakta á honum.“

Dagvaktin hjá Sigurjóni og bráðatækninum Hannesi Páli Guðmundssyni hafði verið mjög þétt framan af degi. Það var að vanda í nógu að snúast í sjúkraflutningunum en einnig voru fjölmörg önnur verkefni sem aðrir á vaktinni sinntu. „Svo heyrum við að það er eitthvað að gerast á Bræðraborgarstíg,“ segir Sigurjón. Og fljótt var ljóst að um stórbruna var að ræða.

Frá Fossvogi og vestur í bæ

Annar sjúkrabíll var staddur við Landakot og þar með í grennd hússins sem var að brenna. Honum var ekið beinustu leið á vettvang. Frá sjúkraflutningamönnunum sem fyrstir mættu á staðinn fóru svo að berast frekari upplýsingar. „Fyrir utan að lýsa húsinu og hvar logaði sögðu þau að einhver hefði stokkið út og að fólk væri ennþá inni í húsinu. Þetta heyrum við öll á sjúkra- og slökkvibílunum og áttum okkur auðvitað samstundis á að það sem þarna er að gerast er mjög alvarlegt.“

Er útkallið kom höfðu Sigurjón og Hannes Páll nýlokið við flutning á sjúklingi að bráðamóttökunni í Fossvoginum. „Þar sem ég var á vakt á sjúkrabílnum var ég ekki með eldgallann minn þennan dag,“ segir Sigurjón. En það mátti engan tíma missa og með hraði var ekið vestur í bæ að logandi húsinu við Bræðraborgarstíg.

Heyrðu sprengingar

Það er frá fyrstu stundu að mörgu að huga. Gæta verður þess að slökkviliðsbílarnir komist að og því leggja þeir sjúkrabílnum í götunni skammt ofan við húsið. Þaðan fara þeir á harðahlaupum að því. „Þetta var ólýsanlegt. Það er mikill eldur. Við heyrum sprengingar og sjáum þrjár slasaðar manneskjur fyrir utan. Við lítum upp og sjáum manneskju í glugganum. Svo kemur dælubíllinn og út úr honum stökkva reykkafarar. Þetta allt og miklu fleira er að gerast á örfáum sekúndum.“

Sigurjón aðstoðar íbúa í risinu að brjóta gluggann.
Aðsend mynd

Skammt frá húsinu liggur ein alvarlega slösuð manneskja. Kona úr nágrenninu, með reynslu af bráðahjúkrun, er að veita henni aðhlynningu. Sigurjón og Hannes Páll taka við og nokkrum sekúndum síðar er annar sjúkrabíll kominn og sú slasaða flutt af vettvangi.

Þeir stökkva umsvifalaust að hinum tveimur sem mest eru slasaðir en annar þeirra hafði einnig gripið til þess ráðs að stökkva út um glugga á rishæðinni. Stuttu síðar eru þeir einnig fluttir á sjúkrahús.

Hljóp upp stigann

Enn sést maður í glugga á efstu hæðinni á norðurhlið hússins. Sigurjón snýr sér að því með aðstoð lögreglumanns að losa stiga af eina dælubílnum sem á þessum tímapunkti er kominn á vettvang. Stiginn er þungur og að lyfta honum og koma fyrir við húsvegginn er tveggja manna verk. Slökkviliðsmennirnir þrír sem komu á dælubílnum eru þegar farnir að sinna slökkvi- og björgunarstarfi. „Ég sá manninn þarna í glugganum og hljóp upp stigann til hans,“ rifjar Sigurjón upp. Hann var búinn að brjóta lítið gat á gluggann en brjóta þurfti meira svo að hann kæmist út og Sigurjón aðstoðaði hann við það. „Ég gat talað við hann, leiðbeint honum. Það var mjög mikill og þykkur reykur inni í herberginu hjá honum og það var skelfilegt fyrir hann að anda honum að sér.“

En Sigurjón er ekki í eldgallanum og því algjörlega óvarinn. Og því fer hann niður stigann aftur og Valur Marteinsson, slökkviliðsmaður af dælubílnum, fer upp og aðstoðar manninn niður.

Sigurjón
Bára Huld Beck

„Þetta er allt að gerast svo hratt,“ rifjar Sigurjón upp. Tíminn hafi virst standa í stað og biðin eftir frekari aðstoð sömuleiðis. „Það var skelfilegt að horfa upp á manneskju inní húsinu. Að sjá fólk stórslasað og í lífshættu.“

Sigurjón hefur unnið í rúm þrjú ár hjá slökkviliðinu og ýmsu kynnst í sínu starfi. En bruninn á Bræðraborgarstíg var engu öðru líkur. „Það er alveg á hreinu að þetta var erfiðasta útkall sem ég hef farið í og það á líklega við flesta aðra.“

Samstaða í hópnum

Slökkviliðsmenn standa þétt saman og veita hver öðrum stuðning í aðstæðum sem þessum. Sú samstaða reyndist ómetanleg á þessari stundu. „Við tókum stöðufund á vettvangi strax um kvöldið. Þar fórum við yfir næstu skref. Jón Viðar [Matthíasson slökkviliðsstjóri] vildi að við öll sem komum að þessu þennan dag myndum klára verkefnið í sameiningu. Og við gerðum það.“

Hópurinn, jafnt slökkviliðsmenn sem lögreglumenn og starfsmenn neyðarlínunnar kom svo aftur saman þegar næturvaktin hafði tekið við. „Við ræddum þetta, allir sögðu sína hlið. Það var alveg nauðsynlegt því hver og einn er svo upptekinn af sínu verkefni á vettvangi að maður getur ekki fylgst með öllu því sem aðrir eru að gera.“

Auglýsing

Þegar frá líður finnst Sigurjóni einnig gott að tala um það sem gerðist og þá kemur samstarfsfélaginn í sjúkrabílnum, bráðatæknirinn Hannes Páll sem var einnig að störfum á vettvangi, sterkur inn. „Þetta var alveg hræðilegt. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Ég á aldrei eftir að gleyma þessu. Á meðan ég var að sinna mínu starfi á vettvangi þá var adrenalínið alveg í botni. Ég kom ekki heim fyrr en um miðnætti og var þá alveg búinn á því.“

Daginn eftir mætti Sigurjón á sína vakt á sjúkrabílnum og tókst á við þau verkefni sem upp komu. Sú vakt var fremur róleg og segist hann því hafa náð að melta hlutina. „En maður þarf alltaf að vera tilbúinn í næsta dag. Þannig er þetta starf.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal