Bára Huld Beck Sigurjón Ingi Sveinsson
Bára Huld Beck

„Ég á aldrei eftir að gleyma þessu“

„Þetta var ólýsanlegt,“ segir Sigurjón Ingi Sveinsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður sem var meðal þeirra fyrstu á vettvang brunans á Bræðraborgarstíg. „Það er mikill eldur,“ segir hann um það sem við blasti. „Við heyrum sprengingar og sjáum þrjár slasaðar manneskjur fyrir utan. Við lítum upp og sjáum manneskju í glugganum.“

Sig­ur­jón Ingi Sveins­son fagn­aði því ákaft er hann komst inn í slökkvi­liðið í mars árið 2017. Þetta var hans önnur til­raun því árið 2015 hafði hann, líkt og svo margir, fallið á hinu stranga hlaupa­prófi sem umsækj­endur þurfa að þreyta. Hann ákvað sam­stundis að búa sig undir að sækja um aft­ur. Það kom aldrei til greina að gef­ast upp. „Þvert á móti. Ég bætti bara í og var stað­ráð­inn í að gera bet­ur.“

Nú á vor­mán­uðum hafði hann lokið öllum nám­skeið­um, sem ýmist tengj­ast sjúkra- eða slökkvi­liðs­þáttum starfs­ins, sem og starfs­þjálfun og var orð­inn full­gildur starfs­maður slökkvi­liðs­ins. „Námið var gott en maður lærir rosa­lega mikið á því að sinna svo þessu starf­i,“ segir Sig­ur­jón. Fyrst var hann alltaf með reynd­ari mann sér við hlið, ein­hvern sem hafði langa starfs­reynslu og kunni að takast á við verk­efnin í marg­vís­legum aðstæð­um. „Ég hafði auð­vitað og hef enn ótal spurn­ingar og það er alltaf eitt­hvað nýtt sem maður er að læra.“

Frá því að nám­inu lauk í vor hefur hann fyrst og fremst sinnt sjúkra­flutn­ingum fyrir Land­spít­al­ann sem eru tölu­verðir þar sem starf­semin er enn á tveimur stöðum í borg­inni; í Foss­vogi og við Hring­braut.

Auglýsing

Starfið er fjöl­breytt og engir tveir dagar eins. En 25. júní skar sig þó sér­stak­lega úr. Hann var á dag­vakt og að störfum á sjúkra­bíl sem kall­ast 701. Sá bíll er ávallt mann­aður bráða­tækni, en sjúkra­flutn­inga­menn með þá menntun tóku við af læknum á sjúkra­bíl­unum fyrir nokkrum árum. „Þetta var meðal minna fyrstu vakta á hon­um.“

Dag­vaktin hjá Sig­ur­jóni og bráða­tækn­inum Hann­esi Páli Guð­munds­syni hafði verið mjög þétt framan af degi. Það var að vanda í nógu að snú­ast í sjúkra­flutn­ing­unum en einnig voru fjöl­mörg önnur verk­efni sem aðrir á vakt­inni sinntu. „Svo heyrum við að það er eitt­hvað að ger­ast á Bræðra­borg­ar­stíg,“ segir Sig­ur­jón. Og fljótt var ljóst að um stór­bruna var að ræða.

Frá Foss­vogi og vestur í bæ

Annar sjúkra­bíll var staddur við Landa­kot og þar með í grennd húss­ins sem var að brenna. Honum var ekið bein­ustu leið á vett­vang. Frá sjúkra­flutn­inga­mönn­unum sem fyrstir mættu á stað­inn fóru svo að ber­ast frek­ari upp­lýs­ing­ar. „Fyrir utan að lýsa hús­inu og hvar log­aði sögðu þau að ein­hver hefði stokkið út og að fólk væri ennþá inni í hús­inu. Þetta heyrum við öll á sjúkra- og slökkvi­bíl­unum og áttum okkur auð­vitað sam­stundis á að það sem þarna er að ger­ast er mjög alvar­leg­t.“

Er útkallið kom höfðu Sig­ur­jón og Hannes Páll nýlokið við flutn­ing á sjúk­lingi að bráða­mót­tök­unni í Foss­vog­in­um. „Þar sem ég var á vakt á sjúkra­bílnum var ég ekki með eld­gall­ann minn þennan dag,“ segir Sig­ur­jón. En það mátti engan tíma missa og með hraði var ekið vestur í bæ að log­andi hús­inu við Bræðra­borg­ar­stíg.

Heyrðu spreng­ingar

Það er frá fyrstu stundu að mörgu að huga. Gæta verður þess að slökkvi­liðs­bíl­arnir kom­ist að og því leggja þeir sjúkra­bílnum í göt­unni skammt ofan við hús­ið. Þaðan fara þeir á harða­hlaupum að því. „Þetta var ólýs­an­legt. Það er mik­ill eld­ur. Við heyrum spreng­ingar og sjáum þrjár slas­aðar mann­eskjur fyrir utan. Við lítum upp og sjáum mann­eskju í glugg­an­um. Svo kemur dælu­bíll­inn og út úr honum stökkva reykka­f­ar­ar. Þetta allt og miklu fleira er að ger­ast á örfáum sek­únd­um.“

Sigurjón aðstoðar íbúa í risinu að brjóta gluggann.
Aðsend mynd

Skammt frá hús­inu liggur ein alvar­lega slösuð mann­eskja. Kona úr nágrenn­inu, með reynslu af bráða­hjúkr­un, er að veita henni aðhlynn­ingu. Sig­ur­jón og Hannes Páll taka við og nokkrum sek­úndum síðar er annar sjúkra­bíll kom­inn og sú slas­aða flutt af vett­vangi.

Þeir stökkva umsvifa­laust að hinum tveimur sem mest eru slas­aðir en annar þeirra hafði einnig gripið til þess ráðs að stökkva út um glugga á ris­hæð­inni. Stuttu síðar eru þeir einnig fluttir á sjúkra­hús.

Hljóp upp stig­ann

Enn sést maður í glugga á efstu hæð­inni á norð­ur­hlið húss­ins. Sig­ur­jón snýr sér að því með aðstoð lög­reglu­manns að losa stiga af eina dælu­bílnum sem á þessum tíma­punkti er kom­inn á vett­vang. Stig­inn er þungur og að lyfta honum og koma fyrir við hús­vegg­inn er tveggja manna verk. Slökkvi­liðs­menn­irnir þrír sem komu á dælu­bílnum eru þegar farnir að sinna slökkvi- og björg­un­ar­starfi. „Ég sá mann­inn þarna í glugg­anum og hljóp upp stig­ann til hans,“ rifjar Sig­ur­jón upp. Hann var búinn að brjóta lítið gat á glugg­ann en brjóta þurfti meira svo að hann kæm­ist út og Sig­ur­jón aðstoð­aði hann við það. „Ég gat talað við hann, leið­beint hon­um. Það var mjög mik­ill og þykkur reykur inni í her­berg­inu hjá honum og það var skelfi­legt fyrir hann að anda honum að sér.“

En Sig­ur­jón er ekki í eld­gall­anum og því algjör­lega óvar­inn. Og því fer hann niður stig­ann aftur og Valur Mart­eins­son, slökkvi­liðs­maður af dælu­bíln­um, fer upp og aðstoðar mann­inn nið­ur.

Sigurjón
Bára Huld Beck

„Þetta er allt að ger­ast svo hratt,“ rifjar Sig­ur­jón upp. Tím­inn hafi virst standa í stað og biðin eftir frek­ari aðstoð sömu­leið­is. „Það var skelfi­legt að horfa upp á mann­eskju inní hús­inu. Að sjá fólk stórslasað og í lífs­hætt­u.“

Sig­ur­jón hefur unnið í rúm þrjú ár hjá slökkvi­lið­inu og ýmsu kynnst í sínu starfi. En brun­inn á Bræðra­borg­ar­stíg var engu öðru lík­ur. „Það er alveg á hreinu að þetta var erf­ið­asta útkall sem ég hef farið í og það á lík­lega við flesta aðra.“

Sam­staða í hópnum

Slökkvi­liðs­menn standa þétt saman og veita hver öðrum stuðn­ing í aðstæðum sem þess­um. Sú sam­staða reynd­ist ómet­an­leg á þess­ari stundu. „Við tókum stöðu­fund á vett­vangi strax um kvöld­ið. Þar fórum við yfir næstu skref. Jón Viðar [Matth­í­as­son slökkvi­liðs­stjóri] vildi að við öll sem komum að þessu þennan dag myndum klára verk­efnið í sam­ein­ingu. Og við gerðum það.“

Hóp­ur­inn, jafnt slökkvi­liðs­menn sem lög­reglu­menn og starfs­menn neyð­ar­lín­unnar kom svo aftur saman þegar næt­ur­vaktin hafði tekið við. „Við ræddum þetta, allir sögðu sína hlið. Það var alveg nauð­syn­legt því hver og einn er svo upp­tek­inn af sínu verk­efni á vett­vangi að maður getur ekki fylgst með öllu því sem aðrir eru að ger­a.“

Auglýsing

Þegar frá líður finnst Sig­ur­jóni einnig gott að tala um það sem gerð­ist og þá kemur sam­starfs­fé­lag­inn í sjúkra­bíln­um, bráða­tækn­ir­inn Hannes Páll sem var einnig að störfum á vett­vangi, sterkur inn. „Þetta var alveg hræði­legt. Það er ekki hægt að orða það öðru­vísi. Ég á aldrei eftir að gleyma þessu. Á meðan ég var að sinna mínu starfi á vett­vangi þá var adrena­línið alveg í botni. Ég kom ekki heim fyrr en um mið­nætti og var þá alveg búinn á því.“

Dag­inn eftir mætti Sig­ur­jón á sína vakt á sjúkra­bílnum og tókst á við þau verk­efni sem upp komu. Sú vakt var fremur róleg og seg­ist hann því hafa náð að melta hlut­ina. „En maður þarf alltaf að vera til­bú­inn í næsta dag. Þannig er þetta starf.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal