Golli

Því þetta eru ekki „við“ og „þau“ – þetta erum við öll

„Sú staðreynd stendur eftir að það er stór gjá í okkar samfélagi sem þarf að brúa,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar, um það sem bruninn hörmulegi á Bræðraborgarstíg afhjúpaði. Hún vill að starfsemi þjónustumiðstöðva verði færð í auknum mæli inn í hverfin.

Þeir sátu oft á tröpp­unum fyrir utan hús­ið. Eldri menn að spjalla yfir kaffi­bolla. Heilsuðu nágrönnum sem áttu leið hjá. Einn þeirra hafði það til siðs að standa upp fyrir kon­unum og kinka kurt­eis­is­lega kolli. Þetta er í Gamla Vest­ur­bæn­um, þar sem þorps­stemn­ing rík­ir.

Þeir voru meðal þeirra sem mættu til kyrrð­ar­stund­ar­innar á rólu­vell­inum sem haldin var kvöldið eftir elds­voð­ann á Bræðra­borg­ar­stíg í sum­ar. „Við föðm­uðum þá að okk­ur,“ segir einn íbúi í nágrenn­inu. Menn­irnir höfðu búið í hús­inu sem varð eld­inum að bráð. Fleiri eft­ir­lif­endur mættu. Hlýddu á hug­vekju eins nágranna síns og lögðu eins og aðrir við­staddir blóm á göt­una til minn­ingar um ungu mann­eskj­urnar þrjár sem höfðu farist í elds­voð­an­um. „Ég vona að kyrrð­ar­stundin hafi verið græð­andi, að minnsta kosti að ein­hverju leyti, fyrir þá eins og okkur hin sem þarna vorum saman kom­in.“

Sam­fé­lagið í Gamla Vest­ur­bænum er sterkt og sam­hent. Þar hefur margt búið fólk kyn­slóð fram af kyn­slóð og tekið nýbúum hverf­is­ins opnum örm­um. Það er spjallað á götu­horn­um. Komið saman á rólu­völlum enda hverfið ætíð barn­margt.

Auglýsing

Börnin urðu sum hver vitni að því sem gerð­ist síð­degis 25. júní. Þetta var síðla dags og þau á leið heim. Reynt var að halda þeim frá vett­vangi en ein­hver sáu óhjá­kvæmi­lega út um glugga heim­ila sinna eða af svölum þeirra eld loga og reyk leggja frá hús­inu á horni Vest­ur­götu og Bræðra­borg­ar­stígs. Þau sáu sjúkra­bíl­ana koma. Slökkvi­bíl­ana. Lög­reglu­menn á vett­vangi. Heyrðu hróp og köll. Jafn­vel ösk­ur. Urðu vitni af geðs­hrær­ingu for­eldra sinna sem hlupu á vett­vang til að reyna að aðstoða. Hjálpa. Í aðstæðum sem ekk­ert þeirra hafði áður lent í.

Dæmi eru um að börn hafi átt erfitt með svefn í kjöl­far­ið. Sofið jafn­vel í föt­unum vikum sam­an. Vildu vera til­búin að hlaupa út ef það kvikn­aði í heim­ili þeirra.

Þeir sem fyrst komu á vett­vang brun­ans sáu fólk í gluggum á efstu hæð húss­ins. Og þegar tvö þeirra gripu til þess örþrifa­ráðs að brjóta rúður og stökkva út. Þó að slökkvi­lið hafi verið komið á stað­inn innan fárra mín­útna frá fyrstu til­kynn­ingu til neyð­ar­lín­unnar fannst þeim tím­inn nán­ast standa í stað. Mín­útur liðu eins og klukku­stund.

Samstöðufundur fór fram á Austurvelli eftir brunann og þangað mættu m.a. slökkviliðsmenn.
Lögreglan

Þegar slökkvi­starf­inu lauk seint um kvöldið fóru nágrann­arnir í Gamla Vest­ur­bænum að ráða ráðum sín­um, reyna að finna leiðir til að rétta þeim sem lifðu elds­voð­ann af hjálp­ar­hönd. Næstu dag­ana voru fleiri að hugsa á sömu nótum enda atburð­irnir átak­an­leg­ir. Minn­ing­ar­stund var haldin í Landa­kots­kirkju og hópur fólks, meðal ann­ars Pól­verjar, stóðu fyrir sam­stöðu­fundi á Aust­ur­velli.

Söfn­uðu nauð­synjum og útveg­uðu íbúð

Fyrir utan kyrrð­ar­stund­ina sem nágrann­arnir í Vest­ur­bænum skipu­lögðu í sam­ein­ingu hófu þeir að safna nauð­synj­um, hrein­læt­is­vörum, sæng­ur­fötum og klæðn­aði. Komust í sam­band við pólsk góð­gerð­ar­sam­tök og eft­ir­lif­endur sem sáu svo um að útdeila gjöf­unum til ann­arra sem höfðu misst allt sitt í elds­voð­an­um.

Þau aug­lýstu eftir íbúð fyrir eitt parið. Við­brögðin á Vest­ur­bæj­ar-grúbb­unum á Face­book létu ekki ekki á sér standa. Með þessum hætti fékk parið leigu­í­búð í nágrenn­in­u. Í marga daga lá megn bruna­lykt yfir hverf­inu. Í ákveð­inni vind­átt, nú tæpum fimm mán­uðum eftir elds­voð­ann, finnst hún enn­þá. 

Því þarna standa rústir húss­ins enn – huldar gráu neti – og minna alla sem ganga hjá á harm­leik­inn sem átti sér stað. ­Lyktin og húsa­rúst­irnar vekja líka sárar til­finn­ingar hjá mörg­um. Reglu­lega má sjá ný blóm, oft hvítar eða rauðar rós­ir, lagðar á gang­stétt­ina á horn­inu. „Alltaf þegar maður finnur þessa lykt og sér húsið þá rifj­ast þetta upp,“ segir einn nágrann­inn sem Kjarn­inn ræddi við. „Ég get því rétt ímyndað mér hvernig ást­vinum þeirra sem lét­ust líður þegar þeir sjá þetta og þeim sem lifðu af.“

Djúp­stæð áhrif

Sumir af við­mæl­endum Kjarn­ans kjósa að koma ekki fram undir nafni. Aðrir treysta sér alls ekki til að ræða það sem gerð­ist. Það segir sína sögu um það hversu djúp­stæð áhrif elds­voð­inn á Bræðra­borg­ar­stíg hafði á fólk – meðal ann­ars á það sem býr í nágrenn­inu og varð vitni að því sem gerð­is­t. Þeir sem bjuggu næst Bræðra­borg­ar­stíg 1 höfðu sumir hverjir sent athuga­semdir á borg­ar­yf­ir­völd og lýst áhyggjum sínum af hús­inu, við­haldi þess og aðbún­að­inum sem það taldi íbú­ana búa við. Nágrann­arnir höfðu svo oft í gegnum tíð­ina rætt málið sín á milli, hvað væri hægt að gera til að fá úrbæt­ur.

Bára Huld Beck

Nokkrum sinnum á síð­ustu árum hefur verið fjallað um aðbúnað leigj­enda í hús­inu. Einn þeirra lýsti því sem „óhæfum manna­bú­stað“ í sam­tali við Stund­ina árið 2015. Þá lýsti annar aðbún­aði í hús­inu í útvarps­þætti um svipað leyti. Þó að heim­il­is­fangið væri þar ekki nefnt átt­uðu þeir sem til þekktu sig á að Bræðra­borg­ar­stígur 1 umfjöll­un­ar­efn­ið.

En lítið sem ekk­ert var aðhafst. „Og það er það sem er svo ótrú­lega sár­t,“ segir einn nágrann­inn, „að hafa fylgst með þessu allan þennan tíma ... og svo ger­ist þetta.“

Hann brestur í grát. En heldur áfram: „Það er það sem situr í manni. Þetta er svo hræði­leg­t.“

End­ur­speglar hræði­legan veru­leika

Brun­inn afhjúpaði margt, segir annar við­mæl­andi Kjarn­ans. Hann afhjúpaði aðbúnað útlend­inga og hvernig komið er fram við þá á vinnu- og leigu­mark­aði og hann afhjúpaði þann skort á tengslum sem þeir hafa við aðra í okkar sam­fé­lagi. „Þetta end­ur­speglar svo hræði­legan veru­leika á Ísland­i,“ segir við­mæl­and­inn sem þekkir vel til aðstæðna fólks af erlendum upp­runa.

Face­book-grúbb­ur, þar sem inn­flytj­endur ræða sín á milli um allt milli him­ins og jarðar og veita hver öðrum stuðn­ing og aðstoð, log­uðu í kjöl­farið brun­ans á Bræðra­borg­ar­stíg og reynslu­sög­urnar streymdu inn. Sem dæmi greindi kona frá því hvernig hún hafði skyndi­lega misst leigu­hús­næði – án þess að hafa þing­lýstan leigu­samn­ing og þau rétt­indi sem hann trygg­ir. „Sú stað­reynd stendur enn eftir að það er stór gjá í okkar sam­fé­lagi sem þarf að vinna í að brú­a,“ segir Ásta Olga Magn­ús­dótt­ir, for­maður Íbúa­sam­taka Vest­ur­bæjar og full­trúi í íbúa­ráði Vest­ur­bæj­ar. Á dag­skrá næsta fundar ráðs­ins verður ályktun sem sam­þykkt var í lýð­ræð­is- og mann­réttinda­ráði borg­ar­innar í byrjun októ­ber þar sem fjallað var sér­stak­lega um brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg og úrbætur sem þurfa að eiga sér stað.

Auglýsing

Ásta Olga fagnar álykt­un­inni en vill leggja aukna áherslu á þá aðgerð sem snýr að fræðslu- og upp­lýs­inga­gjöf. Hún hefur trú á því að hægt sé að veita mun meiri stuðn­ing inni í hverfum borg­ar­innar en nú er gert.

Hún bendir til dæmis á að fyrir nokkrum árum hafi þrjár þjón­ustu­mið­stöðvar í Hlíð­um, Mið­borg og Vest­urbæ verið sam­ein­aðar í eina. Starf­semi hennar er nú til húsa á Lauga­vegi. Þannig fjar­lægð­ist hún kjarna sumra hverf­anna sem heyra undir hana. „Við þurfum að finna betri leiðir svo að nær­sam­fé­lagið geti tekið þátt, geti gripið inn í þegar það telur eitt­hvað bjáta á og viti hvert á að leita.“

Betur færi á því að meiri starf­semi mið­stöðv­anna yrði færð inni í hverf­in, að starf­semi þeirra í sam­vinnu við íbú­ana, væri áber­andi svo sem flestir þekktu til þeirra og treystu sér til að leita þang­að. „Það vilja allir eiga hlut­verk í sínu sam­fé­lagi. Fólki líður betur þegar það hefur til­gang og teng­ing­ar.“

Á jaðri jað­ars­ins

Í gegnum skóla­starf er margt gott gert þegar kemur að fjöl­menn­ingu að mati Ástu Olgu. Þar mynd­ast tengsl milli starfs­manna skól­anna, for­eldra og barna af ólíkum upp­runa. „En hvað með þá inn­flytj­endur sem eru ekki með börn?“ spyr hún. „Sá hópur er enn meira á jaðr­in­um, hann er á jaðri jað­ars­ins.“ Það var einmitt fólk úr þeim hópi sem bjó að Bræðra­borg­ar­stíg 1. „Þessi hópur hefur oft litla eða enga teng­ingu inn í sam­fé­lag­ið, er jafn­vel algjör­lega utan­veltu. Þetta er fólkið sem hefur verið að byggja öll húsin hér síð­ustu ár og vinna í þjón­ustu­stör­f­unum í ferða­þjón­ust­unni og á veit­inga­hús­un­um. En þau eru ein­hvern veg­inn alveg ósýni­leg.“

Bára Huld Beck

Ásta Olga segir að áhersla sé lögð á fjöl­skyldu­fólk í starfi á vegum borg­ar­innar sem sé auð­vitað jákvætt og þarft. „En þetta þarf að útvíkka. Það má ekki gleyma hin­um. Því þarna er risa­stóra gjá­in.“

Hún seg­ist gera sér grein fyrir því að nágrannar vilji ekki vera með nefið ofan í því hvað fólk í næstum húsum er að gera og hvernig það býr. En með því að finna og skil­greina leiðir til að setja ákveðin áhyggju- eða þörf úrlausn­ar­efni í far­veg – ramma sem allir skilja og treysta sér til að leita í – megi gera margt betur í sam­ein­ingu. „Þannig geta fleiri tekið þátt í þessu fræðslu- og tengsla­hlut­verki sem er svo mik­il­vægt í sam­fé­lagi manna.“

Standa fyrir utan sam­fé­lagið

Annað sem Ásta Olga stingur upp á er að þjón­ustu­mið­stöðvar inni í hverf­unum teng­ist betur sjálf­boða­liða­sam­tökum og félaga­sam­tökum sem standa ákveðnum hópum hvað næst. „Í þannig sam­tökum er oft mikil gróska og gott gras­rót­ar­starf. En þau upp­lifa engu að síður að þau standi fyrir utan sam­fé­lag­ið. Það væri mjög áhrifa­ríkt að tengj­ast þeim betur og nýta þeirra góðu krafta.“

Því þetta eru ekki „við“ og „þau“, bendir Ásta Olga á. „Þetta erum við öll.“

Elds­voð­inn varð á fimmtu­degi. Aðfara­nótt föstu­dags bauð Rauði kross­inn íbú­unum sem misst höfðu heim­ili sitt gist­ingu. En þegar hans neyð­ar­þjón­ustu sleppti voru ein­hverjir þeirra ráða­laus­ir. Það var komin helgi – þjón­ustu­mið­stöðin lokuð og sumir ekki komnir með næt­ur­stað.

Auglýsing

„Okkur fannst við vera úrræða­laus, ekki vita hvert við gætum bent þeim á að leita,“ segir Ásta Olga. Margir vildu hjálpa og lögðu sig fram við það, bæði stofn­an­ir, sam­tök og ein­stak­ling­ar, en engu að síður vant­aði þétt og skil­virkt utan­um­hald. Þarna hafði margt fólk af nokkrum þjóð­ernum misst heim­ili sitt og aleig­una hér á landi. Og þó að það hafi búið í sama húsi var það ekki endi­lega allt í nánum sam­skiptum sín á milli. Ýmis­legt sem gerð­ist í fram­hald­inu var því nokkuð til­vilj­ana­kennt. Mann­eskju­legri far­veg og skýrar leið­bein­ingar vant­aði.

„Hópar inn­flytj­enda eru ber­skjald­aðir gagn­vart mis­munun á hús­næð­is­mark­að­i,“ sagði í ályktun mann­rétt­inda-, nýsköp­unar og lýð­ræð­is­ráðs Reykja­víkur sem sam­þykkt var í haust og Ásta Olga vísar í. „Jað­ar­sett staða inn­flytj­enda sem tala ekki íslensku og hafa fá úrræði er mis­notuð í þessu sam­hengi og þeim gert að búa við óvið­un­andi húsa­kost. Það er með öllu óásætt­an­legt að þetta fái að við­gang­ast í okkar sam­fé­lag­i.“

Breyta þarf lögum og reglum

Hvatti ráðið til sam­tals milli rík­is­ins, Reykja­vík­ur­borgar og Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­unar og benti á að fara þurfi yfir lög og reglur og verk­lag þeirra stofn­ana sem bera ábyrgð á eft­ir­liti með bygg­ing­um, skerpa þurfi á ábyrgð og skýra eft­ir­lits­heim­ild­ir.

Breyt­ingar á reglu­verk­inu blasa við að mati Ástu Olgu. Hún er bjart­sýn á að þær verði að veru­leika. „Þetta eru engin geim­vís­indi. Það er búið að fara í gegnum mörg svipuð mál, leigu­mark­að­inn og aðbúnað útlend­inga, á hinum Norð­ur­lönd­un­um. Og það eru til rann­sóknir sem styðja við hvað þarf að ger­a.“ Hún seg­ist hafa mikla trú á sam­starfi og segir það lyk­il­at­riði í þeim breyt­ingum sem eru framund­an. „Ég myndi vilja sjá slökkvi­liðs­stjóra, borg­ar­stjóra og félags­mála­ráð­herra vinna saman – ekki full­trúa þeirra heldur þá sjálfa. Og varpa ein­fald­lega fram einni spurn­ingu: Hvenær?

Við vitum hvað þarf að gera ef raun­veru­legur vilji er fyrir hendi. Og nú þarf bara að byrj­a.“

Bára Huld Beck

Reynt að ná til allra

Slökkvi­lið höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins kallar Rauða kross­inn til þegar stór­bruni verð­ur. Rauði kross­inn sér um fyrstu áfalla­hjálp og útvegar gist­ingu fyrstu nótt­ina en í kjöl­farið eru stofn­anir á borð við þjón­ustu­mið­stöðvar kall­aðar til.

Sig­þrúður Erla Arn­ar­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Þjón­ustu­mið­stöðvar Vest­ur­bæj­ar, Mið­borgar og Hlíða, segir í skrif­legum svörum við fyr­ir­spurn Kjarn­ans að í kjöl­far brun­ans á Bræðra­borg­ar­stíg hafi verið „reynt eftir fremsta megni“ að ná í alla sem höfðu búið í hús­inu til að bjóða þeim þá þjón­ustu sem þeir áttu rétt á.

Það tókst hins vegar ekki. Og eitt af því sem flækti málin var vill­andi lög­heim­il­is­skrán­ing. Þegar brun­inn varð voru um 70 skráðir til heim­ilis að Bræðra­borg­ar­stíg 1 í ein­stak­lings­skrá Þjóð­skrár og 32 til við­bótar á kerfis­kenni­tölu­skrá (áður utan­garðs­skrá). Þjón­ustu­mið­stöðin hafði hins vegar í fyrstu ein­ungis vit­neskju um þá íbúa sem þegar nýttu hennar þjón­ustu. Í hús­inu reynd­ist svo einnig búa fólk sem var ekki með skráð lög­heim­ili þar. „Þetta jók vissu­lega flækju­stig máls­ins, þar sem ekki var vitað hverjir voru raun­veru­lega til heim­ilis í hús­in­u,“ segir Sig­þrúð­ur.

Ýmsum leiðum beitt

Til að hafa uppi á íbúum var meðal ann­ars haft sam­band við pólska sendi­ráðið og pólsku­mæl­andi starfs­maður þjón­ustu­mið­stöðv­ar­innar var í sam­skiptum við íbúa. Þá var óskað eftir því að íbúar sem náðst hafði í kæmu skila­boðum til ann­arra. „Í gegnum slíkar leiðir höfðum við uppi á ein­stak­lingum sem reynd­ust þurfa á aðstoð að halda,“ segir Sig­þrúð­ur. Upp­lýs­ingar bár­ust einnig um nokkra til við­bótar sem höfðu dvalist í hús­inu. Ekki tókst að hafa uppi á þeim og þeir leit­uðu ekki til þjón­ustu­mið­stöðv­ar­inn­ar.

Í heild­ina fengu tólf manns aðstoð hjá vel­ferð­ar­sviði Reykja­vík­ur­borgar eftir brun­ann. Þeim var boðið upp á við­tal við félags­ráð­gjafa og þeir sem ósk­uðu var útvegað gisti­heim­ili þeim að kostn­að­ar­lausu í tvær vik­ur. Að auki var gert ein­stak­lings­bundið mat á því hvort íbúar féllu undir reglur um fjár­hags­að­stoð frá Reykja­vík­ur­borg. Allir íbúar gátu fengið neyð­ar­greiðslur fyrir mat og lyfj­um. Sú greiðsla nam 20 þús­und krón­um.

Auglýsing

Sig­þrúður segir að tekju­lágum og þeim sem ekki hafi trygg­ingar sem bæti tjón, sé hægt að veita áfalla­að­stoð, sem nemi 100 þús­und krón­um. Einnig sé sá mögu­leiki fyrir hendi að sækja um styrk vegna ýmis konar ann­arrar þjón­ustu og fyrir til dæmis hús­bún­aði. Í til­felli þeirra sem Þjón­ustu­mið­stöðin náði til í kjöl­far brun­ans hafi þörf á slíku verð metin út frá stöðu hvers og eins.

Aðeins þrír þing­lýstir leigu­samn­ingar voru á Bræðra­borg­ar­stíg 1 er brun­inn varð, þar af tveir á ein­stak­linga. Aðrir íbúar voru ekki með slíka samn­inga sem er for­senda þess að geta sótt um húsa­leigu­bætur og sér­stakan hús­næð­is­stuðn­ing hjá Reykja­vík­ur­borg. Grunn­upp­hæð fjár­hags­að­stoðar til fram­færslu er enn­fremur hærri hjá þeim sem eru með þing­lýsta húsa­leigu­samn­ing.

Íbúum og vitnum veitt áfalla­hjálp

Brun­inn á Bræðra­borg­ar­stíg er með viða­mestu útköllum vegna hús­bruna sem við­bragðs­hópur Rauða kross­ins hefur sinnt á síð­ustu árum. Sál­rænn stuðn­ingur var veittur til íbúa á vett­vangi og hlúð að þeim. Þá höfðu aðstand­endur safn­ast saman við Land­spít­ala og fengu einnig stuðn­ing. Rauði kross­inn útveg­aði átta manns gist­ingu ýmist í eina eða tvær næt­ur. Þeim voru einnig útveguð föt. Fleiri fengu síðar einnig úthlutað fötum og sumir fengu sál­rænan stuðn­ing næstu vikur á eft­ir, bæði íbúar húss­ins og fólk sem varð vitni að elds­voð­an­um. Í heild aðstoð­aði Rauði kross­inn um fimmtán manns vegna atburð­anna á Bræðra­borg­ar­stíg, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Bryn­hildi Bolla­dótt­ur, upp­lýs­inga­full­trúa Rauða kross Íslands.

Hlut­verk Rauði kross­ins er að veita neyð­ar­að­stoð og að bregð­ast við beiðnum um aðstoð. Sam­tökin reyna að vera aðgengi­leg öllum á vett­vangi slysa og ham­fara og hafa á sínum snærum sjálf­boða­liða sem tala ýmis tungu­mál. Eftir að þeirra neyð­ar­að­stoð sleppir eru það aðr­ir, svo sem félags­þjón­usta sveit­ar­fé­laga, sem á að taka við.

Sig­þrúður segir að allir þeir sem sóttu um áfram­hald­andi áfalla­að­stoð eða sál­fræði­þjón­ustu eftir að aðstoð Rauða kross­ins sleppti hafi fengið slíkt.

Bára Huld Beck

Að hennar mati er það verk­lag sem er til staðar gott, að slökkvi­lið og Rauði kross­inn fari fyrst á vett­vang og að í kjöl­farið komi til þjón­usta Reykja­vík­ur­borg­ar. Hún bendir á að í starfs­manna­hópi þjón­ustu­mið­stöðv­ar­innar sé fólk sem tali tungu­mál þeirra sem sækja þangað þjón­ustu. Mik­il­vægt sé hins vegar að bæta vinnu­lag Þjóð­skrár varð­andi lög­heim­il­is­skrán­ingar og þann fjölda þeirra sem hægt er að skrá á hvert heim­il­is­fang. „Það myndi auð­velda alla þjón­ustu og auka rétt­indi þeirra sem eru búsettir í land­in­u.“

Bryn­hildur segir að sam­vinna Rauða kross­ins við stofn­anir líkt og lög­reglu, slökkvi­lið, félags­þjón­ustu og sendi­ráð sé almennt mjög góð. „Hér var um ein­hvern mann­skæð­asta bruna seinni ára að ræða og umfangið mikið auk þess sem þolend­urnir höfðu ekki jafn mikið tengsla­net hér á landi og margir aðr­ir.“

Getum öll gert betur

Hún segir Rauða kross­inn sjá aukna þörf fyrir stuðn­ing við inn­flytj­endur og að bundnar séu miklar vonir við fyr­ir­hug­aða ráð­gjafa­stofu inn­flytj­enda. „Við, stjórn­sýslan, stofn­anir félaga­sam­tök, fyr­ir­tæki og ein­stak­lingar getum öll gert mun betur í því að greiða leið inn­flytj­enda inn í sam­fé­lag­ið, inn í störf við hæfi, menntun og aðstoðað þau við að byggja upp félags­legt bak­land. Starf sjálf­boða­liða Rauða kross­ins eru einn mik­il­vægur hlekkur í því.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar