Golli Bræðraborgarstígur 1 Mynd: Golli
Golli

„Dóttir mín svaf í fötunum í margar vikur“

Í sumar varð hún vitni að því þegar fólk stökk út um glugga á brennandi húsi. Sá höndum veifað í glugga á herbergi sem var orðið fullt af reyk. Gekk fram hjá blóðblettum á götunni í marga daga á eftir. Finnur enn þann dag í dag brunalykt leggja frá húsinu. Hún er nágranni sem kom með þeim fyrstu á vettvang eldsvoðans á Bræðraborgarstíg og segir hér sögu sína.

Hún sleit barns­skónum í Vest­ur­bænum en bjó svo víða áður en hún á full­orð­ins­árum ákvað að setj­ast að í hverf­inu. Það var sam­fé­lagið sem dró hana til sín. Hið sam­henta, sterka sam­fé­lag sem hún hafði hvergi ann­ars staðar upp­lif­að. Þar sem þorps­stemn­ing ríkir enn – meira en hund­rað árum eftir að hverfið varð til.

 Nú hefur hún eign­ast börn sem njóta, líkt og hún gerði sjálf, töfr­anna í Gamla Vest­ur­bæn­um. Vin­átt­unnar og hlýj­unn­ar. „En við getum gert enn bet­ur,“ segir hún nú eftir allt sem á undan er geng­ið. „Við verðum að huga að okkar nágrönn­um, passa betur upp á hvert ann­að.“

Þann 25. júní varð hún vitni að því þegar fólk stökk út um glugga á brenn­andi húsi. Sá höndum veifað í glugga á her­bergi sem var orðið fullt af reyk. Gekk fram hjá blóð­blettum á göt­unni í marga daga á eft­ir. Finnur enn þann dag í dag bruna­lykt­ina leggja frá hús­inu í ákveð­inni vind­átt. Því þarna stendur það enn – hulið gráu neti – horn­húsið á Bræðra­borg­ar­stíg 1, og minnir alla sem ganga hjá á harm­leik­inn sem þar átti sér stað. Á elds­voð­ann sem þrír nágrannar hennar fór­ust í.Auglýsing

Hún var hik­andi að koma í við­tal. Ekki af því að hún vilji ekki segja frá því sem gerð­ist heldur af því að þetta snýst ekki um hana, segir hún. Þetta snýst um íbúa húss­ins, þá sem týndu lífi og ást­vini þeirra. „Ég skipti engu máli í þessu,“ segir hún. „Það sem átti sér stað var átak­an­legt fyrir svo marga og ég upp­lifði að fólkið sem þarna bjó ætti hér fáa að. Vissi ekki hvar það ætti að leita hjálpar eftir að hafa misst vini sína og aleig­una. Við reyndum okkar besta, fólkið hér í Vest­ur­bæn­um, til að styðja þau. En við sem sam­fé­lag þurfum að gera betur í að gæta hvers ann­ars, gera betur í því að leið­beina fólki um rétt sinn, hvar það getur fengið aðstoð.

Þannig að þess vegna skal ég segja frá því sem gerð­ist. Eins og ég man það.“

Margir nágrannar komu á vettvang eldsvoðans og reyndu að aðstoða eftir fremsta megni.
Aðsend mynd

25. júní 2020  

Hún er á leið­inni út í bíl þegar hún sér eins og gufustrók leggja upp frá húsi á móti. Hún kippir sér ekki upp við þetta í fyrstu, vissi sem var að nágrannar hennar eru að gera upp húsið sitt og grunar að þeir séu að háþrýsti­þvo eitt­hvað. En svo heyrir hún brot­hljóð og sér reyk leggja út um glugga á hús­inu ská­hallt á móti. Heyrir brot­hljóð og sé mann á þriðju hæð öskra á hjálp í miklum reykj­ar­mekki út um brot­inn glugg­ann. 

Það er kviknað í Bræðra­borg­ar­stíg 1 og það er fólk inni.

Án umhugs­unar hleypur hún á vett­vang. Hún hafði numið eitt ár í hjúkr­un­ar­fræði og unnið um nokk­urt skeið á Land­spít­al­anum og við­brögðin voru ósjálf­ráð: Að aðstoða fólk í neyð. „Maður hugsar ekk­ert heldur fer bara að gera allt sem maður get­ur. Allt sem maður hefur lært og kann.“

Þegar hún kemur að log­andi hús­inu er fyrsti sjúkra­bíll­inn að koma sem og fleiri nágrann­ar. Ein­hverjir fara þegar að leita að stiga í næstu húsa­görðum til að reyna að koma fólk­inu á ris­hæð­inni til hjálpar og aðrir koma síðar á hlaupum með einn upp göt­una. Einn fer í það að stöðva umferð að hús­inu. Það eru margir á hlaup­um. Það er hrópað og kall­að. Öskr­að. „Allir voru að reyna að gera eitt­hvað í þess­ari miklu ringul­reið þar sem allt var að ger­ast svo hratt en þó allt of hægt. Mér hefur aldrei fund­ist tím­inn eins lengi að líða.“

Hún snýr sér strax að fólk­inu sem hafði náð að forða sér út úr brenn­andi hús­inu. Reynir að koma því frá eld­inum og hug­hreysta það, veita því stuðn­ing. „Þau voru í mik­illi geðs­hrær­ingu, grétu og hróp­uð­u,“ rifjar hún upp.

Hún gefur sig strax að sjúkra­flutn­inga­mönn­unum tveimur sem eru komn­ir, kynnir sig, segir frá sinni menntun og býður fram aðstoð sína. Þar sem hún er að hlúa að fólk­inu sem komið var út sjá þau hendur í einum glugg­anum á efstu hæð­inni. Þau sjá hvar ein mann­eskja stekkur út um glugg­ann. 

Þegar hingað er komið í við­tal­inu hikar hún and­ar­tak. Minnir á að tíma­röð atburð­anna sé svo­lítið óljós. Þegar hún horfi til baka virð­ist eins og margt hafa gerst á sama tíma – í þeirri gríð­ar­legu ringul­reið sem ríkti.

Svo heldur hún frá­sögn­inni áfram.

Íbúi í risinu hangir utan á húsinu eftir að hafa ákveðið að stökkva út til að bjarga lífi sínu. Mynd: Skjáskot/Birt með leyfi viðkomandi íbúa

Hún fer ásamt sjúkra­flutn­inga­mönn­unum að sinna mann­eskj­unni sem stökk út en þá stekkur önnur mann­eskja út – hinum megin á hús­inu. Hún heldur áfram að hlúa að þeirri sem stökk fyrst en allt í einu eru margir sjúkra­flutn­inga­menn og slökkvi­liðs­menn mættir á stað­inn. Hún man ekki eftir að hafa heyrt í síren­un­um. Bara að ein­hver er kom­inn og tekur við. Er mjög ein­beitt – adrena­línið flæðir um æðarnar og hugs­unin er skýr þó að margt sé að ger­ast sam­tímis í kringum hana.

Strax og hún getur lætur hún slökkvi­liðs­menn vita að hún hafi séð mann­eskju í einum glugg­an­um. Að það sé mögu­lega ein­hver inni enn­þá. Skömmu síðar bjarga þeir mann­eskju út um glugga af þriðju hæð­inni. Og hún vonar að það sé sú sem hún sá veifa. 

Það er ekki fyrr en síðar um kvöldið að hún kemst að því að svo var ekki. Að mann­eskjan sem veif­aði hafði farist í elds­voð­an­um.

Það næsta sem hún gerir er að snúa sér aftur að fólk­inu sem hafði kom­ist út án mik­illa meiðsla. Aðrir voru komnir til að sinna hinum slös­uðu. Á auga­bragði fyllist allt af slökkvi­liðs- og sjúkra­flutn­inga­mönn­um. „Ég spurði eina kon­una sem hafði kom­ist út af sjálfs­dáðum hversu margir byggju í hús­inu. Hvað margir væru hugs­an­lega inni. Ég reyndi að safna eins miklum upp­lýs­ingum og ég gat og við létum svo slökkvi­liðs­menn­ina vita.“ 

Saman svip­uð­ust þær um eftir íbú­un­um, hún og kon­an. Hvar var mað­ur­inn sem bjó í her­berg­inu við hlið­ina? Hvar var faðir unga manns­ins? Hvar eru eldri menn­irnir sem sátu stundum fyrir utan húsið á dag­inn? „Við reyndum að finna þá sem konan sagði vanta, að kanna hvar allir væru –  reyndum að hafa upp á þeim.“

Á gang­stétt­inni situr mað­ur. Hann er einn. Hún fer til hans. Tekur utan um hann. Reynir að tala rólega til hans.  Auglýsing

„Ég upp­lifði akút aðstæður þegar ég vann á Land­spít­al­an­um. En þar var ég með allt teymið með mér, alla lækn­ana, alla hjúkr­un­ar­fræð­ing­ana, öll tæk­in. En ekk­ert af þessu var til staðar fyrstu mín­út­urn­ar. Mín­útur sem mér fannst vera eins og klukku­tími. Við, sem vorum þarna fyrst á vett­vang, urðum að ganga í allt sem við gát­um. Það var bara rosa­legt. Og þó að ég hafi reynt að gera allt sem ég gat fannst mér ég svo van­mátt­ug. Að sjá fólk inni. Að geta ekki bjargað því. Að vera ekki með stiga sem náði nógu hátt upp, að vera ekki með næg bjarg­ráð. Þetta er það hræði­leg­asta sem ég hef nokkru sinni upp­lifað og mun fylgja mér alla tíð.“

Húsið logar lengi og slökkvi­starfið heldur áfram fram eftir kvöldi. Starfs­menn Rauða kross­ins mæta á vett­vang og bjóða áfalla­hjálp. Nokkrir íbú­anna þiggja hana en þeir eru ekki allir á staðn­um. Sumir eru farn­ir. Aðrir voru ekki heima þegar elds­voð­inn varð. Hún talar við einn sem þannig er ástatt fyr­ir. Hann veit ekk­ert hvert hann á að leita aðstoð­ar. „Ég horfði þarna framan í full­orð­inn mann, sem hafði misst allt sitt, og var algjör­lega ráð­villt­ur.“

Hún fer með hann til lög­reglu­manns og biður hann að leið­beina hon­um. Hvar getur hann fengið húsa­skjól? Brýn­ustu nauð­synjar? Hún segir það sína til­finn­ingu að margir aðrir íbúar hafi verið í þeirri stöðu. Hafi ekki haft mikið tengsla­net, hafi ekki þekkt rétt sinn og vitað hvar aðstoð væri að fá og þá hvaða.

Bruninn á Bræðraborgarstíg fór ekki framhjá börnunum í hverfinu. Þau fylgdust mörg hver með slökkvistarfinu og öðru sem átti sér stað á vettvangi.
Lögreglan

„Ég fór heim. Ég veit ekki hvenær. Mætti dóttur minni og sagði henni rólega að allir hefðu nú verið fluttir á sjúkra­hús. Núna væri allt í lagi. Og að það væri allt í lagi með mig þó að ég væri með blóð á föt­un­um. En svo fór ég að hlaupa um allt hús, upp allan stiga­gang­inn að kanna reyk­skynjara og slökkvi­tæki. Ég var rosa­lega ör, adrena­línið var enn í botni og það þýddi ekk­ert fyrir mann­inn minn að segja mér að róa mig.“

Hún fór í sífellu út og aftur að hús­inu. Stóð þar og horfði á það. „Ég gat ein­hvern veg­inn ekki slitið mig frá þessu. Lík­lega tengd­ist þetta áfall­inu sem var að búa um sig innra með mér. Það er eins og þetta hafi verið hluti af ferl­inu – hluti af því að fara í gegnum þetta áfall. Nágranna­kona mín sá mig og ráð­lagði mér að fá áfalla­hjálp hjá Rauða kross­in­um. Mér fannst ég ekki þurfa áfalla­hjálp á þeirri stund­u.“

 Um kvöldið söfn­uð­ust nágrannar saman heima hjá konu í hverf­inu. Öllum fannst þarft og mik­il­vægt að setj­ast nið­ur. Vera til staðar og hlúa að hverju öðru og segja frá því sem hver og einn hafði upp­lif­að. „Allir vildu hjálpa öll­um. Það var mikil sam­heldn­i.“ 

Hún minn­ist þess ekki að hafa sofið mikið um nótt­ina. „Ég keyrði börnin í skól­ann og þegar þau voru farin út úr bílnum brotn­aði ég algjör­lega saman og hágrét. Réð ekki við mig. Það bara opn­uð­ust flóð­gátt­ir.“

Nágrannar og íbúar hússins sem lifðu af eldsvoðann komu oft að húsinu fyrst á eftir. Til að reyna að meðtaka fyllilega það sem gerst hafði.
Golli

Enn gat hún ekki slitið sig frá hús­inu á horn­inu. Þangað gekk hún og sett­ist á bekk. Horfði á bruna­rúst­irnar fyrir framan sig. Margir aðrir gerðu það sama, þeirra á meðal fólkið sem búið hafði í hús­inu. „Það var eins og við þyrftum öll að koma aftur og aftur á stað­inn til að með­taka allt sem gerð­is­t.“

Meðal þeirra sem komu voru konan sem hún hafði leitað að íbú­unum með og sú sem hún hafði eitt hvað mestum tíma með á vett­vangi dag­inn áður. Konan var komin að hús­inu á ný ásamt manni sín­um. Allar þeirra eigur höfðu orðið eld­inum að bráð. „Ég bauðst til að færa henni úlpu og húfu því það var svo­lítið nap­urt og hún ekki vel klædd. En þau afþökk­uðu, eins og þau vildu ekki láta hafa fyrir sér.“

 Hún bað þau um að hafa sam­band við sig ef það væri eitt­hvað sem hún gæti gert. Rauði kross­inn veitir aðeins neyð­ar­að­stoð og eftir nótt í hans skjóli vissu þau ekki hvert þau ættu að leita.

Vant­aði þau gist­ingu? Sæng­ur? Hrein­læt­is­vör­ur?

Fjöl­margir í hverf­inu lögðu sitt af mörkum – buðu fram aðstoð.

„Ætt­ingi minn rekur fyr­ir­tæki sem selur hrein­læt­is­vörur og ég spurði hvort að hann gæti aðstoð­að. Hann troð­fyllti tösku af alls konar nauð­synj­um; tann­burst­um, tann­kremi, rak­vél­um, sáp­um, sjampóum og fleiru.“

Þau sóttu þetta svo og útdeildu til ann­arra sem höfðu búið í hús­inu og þau voru í sam­bandi við. Íbúar í Vest­ur­bænum gerðu fleira til að reyna að aðstoða. Einn þeirra aug­lýsti til dæmis eftir íbúð handa íbúa sem var orð­inn heim­il­is­laus eftir elds­voð­ann og við­brögðin létu ekki á sér standa. 

Til samstöðufundar var boðað á Austurvelli í kjölfar brunans. Þangað mættu meðal annars slökkviliðsmenn úr Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Lögreglan

Brun­inn á Bræðra­borg­ar­stíg fór ekki fram­hjá börn­unum í hverf­inu. Þau fylgd­ust sum hver með út um glugga eða af svölum heim­ila sinna hvað gekk á. Sáu reyk­inn og eld­inn. Sáu slökkvi­lið­ið, lög­regl­una, sjúkra­bíl­ana. Og þetta tók á þau. „Dóttir mín svaf í föt­unum í margar vik­ur. Hún var svo hrædd um að það myndi kvikna í og vildi vera til­búin að hlaupa út. Við þurftum að sýna henni að reyk­skynj­ar­inn hjá okkur virk­aði og reyna að fá hana til að trúa því að hún væri örugg á okkar heim­il­i.“

Þessi áhrif sem elds­voð­inn hafði á börnin er skilj­an­leg­ur, segir hún. „Allur þessi reyk­ur. Og lyktin sem lá yfir öllu. Við finnum bruna­lykt­ina reyndar ennþá í ákveð­inni vind­átt. Bruna­rúst­irnar blasa þarna ennþá við.“

Lyktin og húsa­rúst­irnar vekja líka sárs­auka­fullar til­finn­ingar hjá mörg­um. Annað slagið má sjá ný blóm, oft hvítar rós­ir, lagðar á gang­stétt­ina á horn­inu. „Alltaf þegar maður finnur þessa lykt og sér húsið þá rifj­ast upp þau atvik sem sitja mest í manni. Ég get því rétt ímyndað mér hvernig ást­vinum þeirra sem lét­ust líður þegar þeir sjá þetta og þeim sem lifðu af.“

Eftir brun­ann átti hún erfitt með að vera í mann­mergð og inni í stórum versl­un­um. „Það þyrmdi oft yfir mig og tárin runnu hvar sem ég var stödd. En ég sótti áfalla­hjálp hjá Rauða kross­inum á end­anum sem hjálp­aði mér mik­ið.

Auglýsing

En þessi hræði­legi atburður er mér alltaf ofar­lega í huga. Það hefur hjálpað mér að tala um þetta. Ég á marga góða að í kringum mig sem ég hef getað rætt þetta við þegar mér finnst ég þurfa þess.

Ég flutti nýverið en ekki langt, bara nokkrum götum frá. Ég er ekk­ert farin úr Vest­ur­bæn­um. Sam­fé­lagið á þessum slóðum er alveg ein­stakt. Eftir brun­ann stoppum við nágrann­arnir oftar þegar við hitt­umst og tölum sam­an. Það er svo mikil vel­vild og hlýja. Og hug­ul­semi. Það eru ein­hverjir töfrar hérna.

Við höfum mörg rætt það að þó að hverfið sé sam­heldið og sterkt þá þurfum við að huga enn betur hvert að öðru. Við verðum að líta okkur nær. Ef íbúar allra hverfa myndu líta sér nær þá gætum við passað upp á fleiri. Við gætum passað upp á okkar fólk, okkar nágranna. Við þurfum öll að láta okkur hvert annað varða. Það eru skila­boðin sem ég vil senda. Byrj­aðu á hús­inu þínu eða göt­unni. Ef við gerum þetta öll búum við til betra sam­fé­lag á Ísland­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal