Mynd: Bára Huld Beck Stjórnarráðið

GRECO, samtök gegn spillingu, segja að Ísland verði að gera meira

Ísland þarf að gera meira til þess að koma í veg fyrir spillingu og efla heilindi hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds og innan löggæslustofnana, samkvæmt nýrri eftirfylgniskýrslu GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu.

Í skýrslunni er lagt mat á það hvernig íslensk stjórnvöld hafa til þessa brugðist við þeim 18 tillögum að úrbótum sem GRECO setti fram í skýrslu sinni um Ísland árið 2018. Búið er að koma til móts við fjórar þeirra með fullnægjandi hætti, að mati samtakanna. Sjö tillögur til viðbótar eru sagðar hafa verið innleiddar að hluta, en ekki er búið að innleiða breytingar til þess að mæta sjö tillögum sem lúta flestar að löggæslumálum.

Reglur um „snúningshurðina“ virðist „fremur veikar“

Í fréttatilkynningu frá GRECO segir að þrátt fyrir að samtökin kunni að meta heildræna nálgun sem íslensk stjórnvöld hafi tekið gagnvart því að byggja upp varnir gegn hagsmunaárekstrum á æðstu stöðum í stjórnsýslunni, vanti enn upp á nokkra hluti.

Sérstaklega nefnir GRECO að það skorti upp á leiðbeiningar til embættismanna um hvernig þeir skuli haga samskiptum sínum við þriðju aðila og hagsmunaverði. Þá segir einnig GRECO að þær reglur sem taki gildi núna um áramót og koma í veg fyrir að æðstu handhafar framkvæmdavalds (sem skilgreindir eru sem ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar) geti fært sig yfir í hagsmunagæslu innan við sex mánuðum frá starfslokum hjá hinu opinbera, virðist „fremur veikar“.

Auglýsing

Bæði virðast þær veikar, segir GRECO, hvað tímalengd „kælingartímabilisins“ varðar og einnig að því leyti að þær taki bara til starfa í hagsmunagæslu, en ekki annarra geira. 

GRECO segir þessa sex mánuði virðast of stutt tímabil til að reglurnar nái tilgangi sínum, sem er sá að fólk geti ekki yfirgefið ábúðarmikil störf í æðstu lögum hins opinbera til þess að fara í störf hjá einkaaðilum. 

Þetta er þó ein af fjórum tillögum sem GRECO telur að Ísland hafi innleitt og segjast samtökin fagna því að nú sé allavega búið að setja einhverjar reglur til þess að takmarka hreyfanleika úr æðstu stöðum yfir í einkageirann.

GRECO segist einnig harma að ekkert hafi þokast varðandi það að takast á við misræmi varðandi þær siða- og starfsreglur sem eiga við um æðstu handhafa framkvæmdavalds og þess hvernig þeim sem reglurnar eiga við sé veitt leiðsögn og trúnaðarráðgjöf um þær.

„Ísland verður að takmarka pólitísk afskipti“ af löggæslu

Hvað löggæslu varðar segir einfaldlega: „Ísland verður að takmarka pólitísk afskipti,“ í fréttatilkynningu GRECO. Því er bætt við að kynna þurfi til sögunnar gagnsæjar og sanngjarnar ráðningaraðferðir, auglýsa lausar stöður, setja upp kerfi um framgang í starfi og einnig viðmið um hvenær samningar skuli ekki endurnýjaðir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn löggæslumála á Íslandi.
Bára Huld Beck

GRECO segist kunna að meta aðerðir sem gripið hafi verið til innan lögreglu varðandi reglulega þjálfun og fræðslu lögregluliðsins varðandi mál tengd heilindum, en harmar að ekki sé búið að uppfæra siða- og starfsreglur lögreglu og Landhelgisgæslunnar.

Tékklistinn

Tillögur GRECO í skýrslunni árið 2018 voru níu talsins í hvorum flokki og hér að neðan má sjá þær og einnig hvaða tillögur samtökin telja Ísland vera búið að uppfylla.

 • Feitletraðar tillögur er búið að innleiða með fullnægjandi hætti, að mati GRECO.
 • Skáletraðar tillögur er búið að innleiða að hluta, að mati GRECO.
 • Þær sem eru í venjulegu letri eru óinnleiddar, að mati GRECO.

Tillögur GRECO til úrbóta varðandi æðstu handhafa framkvæmdavalds

 1. Unnin verði stefna til að bæta heil­indi og varnir gegn hags­muna­á­rekstrum hjá æðstu hand­höfum fram­kvæmd­ar­valds, þar á meðal með virkri ráð­gjöf, vöktun og eft­ir­fylgni.
 2. Siða­reglur fyrir æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds verði sam­ræmd­ar, unnið verði leið­bein­ing­ar­efni með skýr­ingum og raun­hæfum dæmum og hægt verði að leita ráð­gjafar um þær í trún­aði. Þá verði til staðar eft­ir­lits­að­ili með fram­kvæmd siða­regln­anna og við­ur­laga­kerfi komið á fót.
 3. Komið verði á fót skil­virkum ferlum til að efla vit­und æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds um opin­ber heil­indi, þar á meðal með reglu­legri fræðslu.
 4. Settar verði reglur um sam­skipti æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds við hags­muna­að­ila og aðra aðila sem leit­ast eftir því að hafa áhrif á und­ir­bún­ing lög­gjafar og önnur störf stjórn­valda.
 5. Reglur um auka­störf æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds verði end­ur­skoð­aðar og gerð skýr­ari grein fyrir því hvaða störf eru heimil og hver ekki.
 6. Settar verði skýr­ari reglur um gjafir og önnur fríð­indi fyrir æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds, þar sem gert yrði ráð fyrir skýrum far­vegi fyrir til­kynn­ing­ar, birt­ingu upp­lýs­inga og við­eig­andi ráð­gjöf til að tryggja að tekið sé á öllum teg­undum fríð­inda með við­un­andi hætti.
 7. Settar verði reglur um störf æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds eftir að störfum fyrir hið opin­bera lýk­ur.
 8. Hags­muna­skrán­ing­ar­kerfi æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds verði bætt, sér í lagi með því að taka til­lit til verð­mætis eigna þeirra, fjár­hæðar fram­laga til þeirra og skuld­bind­inga. Þá verði athugað hvort efni séu til að víkka skrán­ing­ar­skyld­una og láta hana ná yfir maka og börn á for­ræði við­kom­andi, með til­liti til þess að slíkar upp­lýs­ingar þyrfti ekki endi­lega að birta opin­ber­lega.
 9. Trú­verð­ug­leiki hags­muna­skrán­ing­ar­kerfis fyrir æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds verði auk­inn, með því að leit­ast við að tryggja að farið verði eftir reglum með eft­ir­liti, við­eig­andi ráð­gjöf og fræðslu og með því að setja á fót við­ur­laga­kerfi þegar skrán­ing er ófull­nægj­andi.

Tillögur GRECO til úrbóta á sviði lög­gæslu

 1. Tryggja verði lög­reglu full­nægj­andi aðbúnað svo hún geti sinnt störfum sínum með skil­virkum hætti, sér í lagi til að fram­fylgja stefnu­mótun á sviði heil­inda.
 2. Siða­reglur lög­reglu og Land­helg­is­gæsl­unnar verði upp­færðar með til­liti til hags­muna­á­rekstra og þátt­töku í stjórn­mála­starf­semi, þeim fylgi leið­bein­ingar með skýr­ingum og raun­hæfum dæmum um öll svið spill­ingar og hægt verði að leita ráð­gjafar um þær í trún­aði. Þá verði til staðar eft­ir­lits­að­ili með fram­kvæmd siða­regln­anna og við­ur­laga­kerfi komið á fót.
 3. Unnið verði fræðslu­efni til að efla vit­und um heil­indi og siða­reglur meðal starfs­manna lög­reglu og Land­helg­is­gæslu (þar sem fjallað verði um hags­muna­á­rekstra og varnir gegn spill­ing­u). Tekið verði til­lit til eðlis starf­anna, fjöl­breytni þeirra og veik­leika.
 4. Hlut­verk hæfn­is­nefndar við skipun í störf lög­reglu­manna verði eflt og komið verði á fót heil­inda­mati í tengslum við stöðu­veit­ingar innan lög­regl­unn­ar. Þá verði það gert að meg­in­reglu að lausar stöður innan lög­regl­unnar verði aug­lýstar og skipað í þær á grund­velli gagn­sæs fer­ils.
 5. Skýr, sann­gjörn og gegnsæ við­mið liggi fyrir við ákvörðun um að end­ur­nýja ekki skip­un lög­reglu­manna og starfs­manna Land­helg­is­gæslu og að skýrt ferli sé til staðar til að kæra slíka ákvörð­un.
 6. Komið verði á fót öfl­ugu reglu­verki um gjafir til lög­reglu­manna og starfs­manna Lands­helg­is­gæsl­unnar og önnur fríð­indi.
 7. Athugun verði gerð á auka­störfum lög­reglu­manna og starfs­manna Land­helg­is­gæslu og störfum sem þeir taka að sér eftir að þeir ljúka störfum hjá hinu opin­bera. Í ljósi nið­ur­staðn­anna verði komið á fót strang­ara reglu­verki sem dragi úr líkum á hags­muna­á­rekstr­um.
 8. Komið verði á fót mið­lægri ein­ingu eða ákveðnum aðila innan stofna­na­upp­bygg­ingu lög­regl­unnar sem verði falið það hlut­verk að ann­ast innra eft­ir­lit og rann­sókn­ir, undir ábyrgð rík­is­lög­reglu­stjóra, en emb­ætti rík­is­lög­reglu­stjóra á í fram­kvæmd að hafa skýrt leið­toga­hlut­verk þegar kemur að innri stefnu­málum lög­regl­unn­ar, þar á meðal í tengslum við heil­indi, áhættu­stjórnun og eft­ir­lit með lög­regl­unni. Þá þarf jafn­framt að end­ur­skoða valda­upp­bygg­ingu innan lög­regl­unnar til að tryggja skil­virka inn­leið­ingu stefnu­mót­unar án afskipta ráðu­neytis eða stjórn­mála.
 9. Settar verði skýrar reglur um vernd upp­ljóstr­ara hjá lög­reglu og Land­helg­is­gæslu til við­bótar til­kynn­ing­ar­skyldu sem er til staðar sam­kvæmt siða­reglum.

Í skýrslu GRECO segir að samtökin bjóði fulltrúa Íslands innan samtakanna upp á að skila inn frekari gögnum um eftirfylgni tillagnanna fram til 30. apríl árið 2022 og boðar að þá verði aftur lagt mat á stöðu mála með hliðsjón af þessum 18 tillögum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent