Mynd: Bára Huld Beck Spilling Mynd: Bára Huld Beck

Ein spillingarmæling sker sig úr og dregur Ísland niður listann hjá Transparency International

Mat tveggja íslenskra fræðimanna sem fjalla reglulega um stöðu íslensks stjórnkerfis fyrir þýska hugveitu er að spillingarvarnir á Íslandi komi ekki í veg fyrir mögulega spillingu. Hin Norðurlöndin koma betur út í sambærilegu mati eigin sérfræðinga. Ísland fær 44 stig en hin fá yfir 88 stig í þessari einu mælingu. Kjarninn rýndi í það hvernig spillingarvísitala Transparency International er sett saman.

Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, gefa á hverju ári út spillingarmælikvarðann Corruption Perceptions Index. Alls notast Transparency við þrettán alþjóðlegar úttektir til að reikna út vísitölu sína og Ísland er tekið tekið til athugunar í sjö af þessum mælikvörðum.

Ríki þurfa að vera metin í að minnsta kosti þremur spillingarmælingum til þess að komast inn á mælikvarða Transparency og nær hann nú til 180 ríkja. Það sem Transparency gerir er að draga saman ólíkar samanburðarmælingar, finna þar spurningar sem mæla spillingu á einhvern hátt og samræma inn í sinn eigin mælikvarða, sem er á skalanum 0-100. Það eru því mismunandi nálganir sem eru dregnar saman í vísitölu Transparency.

Ísland var í 17. sæti á spillingarlista Transparency fyrir árið 2020, sem kynntur var í síðustu viku. Ríkið fellur því um sex sæti á milli ára og er nú með 75 stig. Ísland er eftirbátur hinna Norðurlandanna á listanum, en Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur raða sér á meðal efstu ríkja, með 84-88 stig. 

Ísland hefur reyndar verið „spilltasta land Norðurlandanna“ heil tíu ár í röð samkvæmt þessum mælikvarða.

Skorið frá Bertelsmann Stiftung dregur meðaltal Íslands niður

Spillingarvísitala Íslands er fundin með því að notast við sjö mismunandi gagnauppsprettur, sem áður segir. Í sex úttektum er Ísland nokkurnveginn á pari við hin Norðurlöndin, stundum ofar en stundum neðar, en í einni úttekt fær Ísland mun miklu færri stig en önnur norræn ríki. Sú úttekt er frá þýsku hugveitunni Bertelsmann Stiftung, sem fær sérfræðinga í fjörutíu og einu landi til þess að meta stjórnkerfið í eigin heimalandi á samræmdan hátt.

Auglýsing

Tveir íslenskir háskólamenn, þeir Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri og Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, eru sérfræðingarnir sem veita fræðilegt mat sitt á stöðu mála Ísland fyrir Bertelsmann Stiftung. Það hafa þeir gert með reglulegri skýrslugjöf undanfarinn áratug. 

Auk þeirra tekur Detlef Jahn stjórnmálafræðiprófessor við Greifswald-háskóla í Þýskalandi þátt í vinnunni, en hann er samhæfingarfulltrúi fyrir hugveituna þýsku og einskonar ritstjóri, sem á að miðla málum milli íslensku sérfræðinganna tveggja ef þeir eru eitthvað ósammála og vinna lokaafurðina með þeim.

Í skýrslunni fyrir árið 2020 er tæpt á ýmsu varðandi íslenskt samfélag og stjórnkerfi á um það bil sextíu blaðsíðum. Þar er meðal annars gagnrýnt að ekki sé búið að innleiða stjórnarskrárbreytingar í takt við tillögur stjórnlagaráðs sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. „Hundsun Alþingis á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána vekur spurningar um eðli og gangverk lýðræðis á Íslandi,“ segir meðal annars í skýrslunni. Ísland kemur ekkert sérlega vel út í samanburði við helstu nágrannalönd hvað gæði lýðræðisins varðar, eins og má glöggva sig á hér.

Matið sem Transparency International lítur til hjá Bertelsmann varðandi spillingu byggir þó einungis á litlum hluta af mælikvarðanum Sustainable Governance Indicators, sem felur í sér tölulegar úttektir á stöðu mála í hverju og einu landi sem Bertelsmann tekur til athugunar. Hér má fræðast um aðferðafræðina sem notuð er við gerð mælikvarðans frá Bertelsmann í heild. Í kaflanum um spillingarvarnir á Íslandi er einkunnin 4 af 10 mögulegum niðurstaðan.

Ekki hægt að réttlæta hærri einkunn miðað við kvarðann sem er til grundvallar

Grétar Þór Eyþórsson segir við Kjarnann að spurningin um spillingarvarnir sé einungis ein af mörgum á löngum spurningalista sem sérfræðingar hvers lands fái frá Bertelsmann. Spurninginni, eins og öllum hinum, fylgi útskýringar fyrir hvað hvert og eitt tölulegt gildi eigi að standa fyrir. Hvað þessa spurningu um spillingarvarnir varðar hafi hann og Þorvaldur verið sammála um að gefa einkunnina 4 af 10, rétt eins og þeir gerðu í fyrri skýrslu.Prófessorinn segir að skor á bilinu 3-5 í þessum flokki eigi að merkja, samkvæmt leiðbeiningum Bertelsmann, að það séu einhverjar spillingarvarnir og heilinda-„mekanismar“ til staðar, en ekki sé þó hægt að fullyrða að þeir komi í veg fyrir alla spillingu. Þeim hafi því þótt rétt að gefa Íslandi 4 í einkunn þarna.

Þorvaldur Gylfason og Grétar Þór Eyþórsson eru sérfræðingar Bertelsmann Stiftung um Ísland.

Grétar Þór segir kerfin sem sett hafa verið upp til efla heilindi embættismanna og gagnsæi hér á landi virka að einhverju leyti, en um leið að þau komi ekki að fullu í veg fyrir að embættismenn geti að einhverju leyti misnotað aðstöðu sína. Því hafi það verið samróma mat hans og Þorvaldar að ekki væri rétt að gefa hærri einkunn í þessum flokki.

Ef farið væri hærra, segir Grétar, væru þeir að fallast á það að spillingarvarnir og heilinda- og gagnsæiskerfi hins opinbera á Íslandi virkuðu vel til þess að koma í veg fyrir spillingu.

„Við getum ekki tekið undir það að öllu leyti,“ segir Grétar og bætir við að þó að það séu ekki endilegar sannanir fyrir alvarlegri spillingu hafi hlutir á borð við vinagreiða og mikilvægi persónulegra tengsla alltaf verið viðurkenndir í aðra röndina í íslensku samfélagi.

Í rökstuðningi þeirra í skýrslukaflanum er annars minnst á ýmis atriði, til dæmis ítrekaðar aðfinnslur til stjórnvalda frá GRECO, samtökum ríkja gegn spillingu, lögbannið sem sett var á umfjöllun Stundarinnar um sjóði Glitnis og sömuleiðis þá miklu spillingu sem íslenskur almenningur upplifir hér á landi, en í könnun Félagsvísindastofnunar frá 2018 töldu 65 prósent landsmanna að flestir eða allir stjórnmálamenn væru spilltir. Slíkt hlutfall sést ekki í sambærilegum könnununum á Norðurlöndunum, bendir Grétar Þór á.

Ein spurning inn í vísitölu Transparency

Í því sem Transparency International styðst við varðandi spillingarvísitöluna er einungis horft til svara sérfræðinganna við spurningunni: „Að hve miklu leyti eru þeir sem sitja í opinberum embættum hindraðir í að misnota stöðu sína í þágu eiginhagsmuna?“ og tölulegra gilda á skalanum 1-10 sem þeir Grétar Þór og Þorvaldur leggja fram.

Samkvæmt því sem segir í gögnum um aðferðafræði frá Transparency International er spurningunni meðal annars ætlað að ná utan um hvernig ríkið og samfélagið kemur í veg fyrir að opinberir starfsmenn og stjórnmálamenn þiggi mútur, hvernig fylgst sé með ríkisfjármálum, hvernig stjórnmálaflokkar fjármagni sig, hvernig upplýsingaréttur almennings og fjölmiðla sé, hvernig reglur um ábyrgð stjórnmálamanna séu, hvort ráðningarkerfi hins opinbera séu gagnsæ og hvort fólk sé látið sæta ábyrgð fyrir spillingarbrot.

Ísland er í 17. sæti á spillingarlista Transparency International fyrir árið 2020.
Transparency International

Þetta er fremur víðfemt, en út úr þessu mati sem byggir á einkunnagjöf Grétars Þórs og Þorvaldar fær Ísland 44 stig af 100 mögulegum. Það er því skorið sem Ísland fær frá Bertelsmann. Í þessu mati stendur Ísland hinum Norðurlöndunum að baki og kemur verr út. Danmörk, sem er í toppsæti spillingarlistans ásamt Nýja-Sjálandi, skorar 97 stig hjá Bertelsmann og Finnland, Noregur og Svíþjóð fá hvert um sig 88 stig. 

Ísland fær í matinu frá Bertelsmann sömu tölulegu einkunn og Pólland, Tékkland, Slóvakía, Króatía, Búlgaría, Rúmenía og Mexíkó, ríki sem eru nokkuð neðar en Ísland á spillingarlistanum frá Transparency, þegar allt er saman tekið. Til þess að finna ríki sem er jafn lágt metið eða lægra af sérfræðingum Bertelsmann þarf að fara alla leið niður í 42. sætið á heildarspillingarlista Transparency, en sérfræðingar Bertelsmann á Kýpur gefa eyríkinu einungis 35 stig.

Meðaltal Íslands án Bertelsmann væri 80 stig – þó áfram neðst Norðurlanda

Ef Ísland væri af einhverjum ástæðum ekki metið af Bertelsmann-hugveitunni þýsku yrði meðaltalseinkunn landsins í spillingarvísitölunni 80 stig, en ekki 75 stig eins og raunin er. Sú lokaeinkunn myndi skjóta Íslandi upp í 9. sæti spillingarlistans ásamt Þýskalandi og Lúxemborg. 

Ísland yrði þó enn fjórum stigum frá næsta norræna ríki, en Noregur er með 84 stig í 7. sæti listans frá Transparency.

Ef til vill verður eitthvað í þessa áttina niðurstaðan í spillingarvísitölu ársins 2021, en Grétar Þór sagði blaðamanni frá því að Bertelsmann hefði ákveðið að ráðast ekki í vinnu við Sustainable Governance Indicators-verkefnið á síðasta ári. Í stað þess var ráðist í sérstakt matsverkefni vegna COVID-faraldursins. Það samanburðarverkefni náði ekki til Íslands.

Hvað með hina mælikvarðana?

Kjarninn ákvað að rýna í aðra mælikvarða sem Ísland er hluti af og stuðst er við í uppbyggingu spillingarvísitölunnar frá Transparency, skoða hvernig þeir eru uppbyggðir og hvaða hluta þeirra Transparency tekur út og tekur með inn í sitt mat. Og svo hvernig Ísland og Norðurlöndin standa í hverjum og einum.

Economist Intelligence Unit Country Risk Service 2020 - 72 stig

Rannsóknarfyrirtækið Economist Intelligence Unit (EIU) var stofnað árið 1946 sem innanhússrannsóknarmiðstöð tímaritsins The Economist. Í dag er þetta sjálfstætt greiningarfyrirtæki með yfir 650 starfsmenn á heimsvísu og fjallar um málefni yfir 200 landa.

Inn í spillingarvísitölu Transparency International rata samantekin svör sérfræðinga EIU við ýmsum spurningum sem lúta að spillingu. Sérfræðingar þar leggja meðal annars mat á hvort gagnsæi ríki varðandi úthlutun opinberra fjármuna, hvort sjóðir hins opinbera séu misnotaðir í pólitískum tilgangi, hvort stjórnsýslan sé almennt fagleg eða pólitískt skipuð, hvort mútur tíðkist og hvort dómsvaldið sé sjálfstætt og hafi vald til þess að sækja ráðherra eða embættismenn til saka fyrir afglöp í starfi.

Ísland er á pari við Finnland í þessu mati og fær 72 stig, en Danmörk, Svíþjóð og Noregur fá 90 stig hvert.

Global Insight Country Risk Ratings 2019 - 83 stig

IHS Global Insight er alþjóðlegt greiningarfyrirtæki með yfir 5.100 starfsmenn í yfir 30 löndum. Mælistikan sem Transparency lítur til hjá Global Insight er mat sérfræðinga fyrirtækisins, sem eru yfir 100 talsins, á því hversu mikil hætta sé á því að einstaklingar eða fyrirtæki muni þurfa að greiða mútur eða fremja önnur spillingarbrot til þess að stunda sín viðskipti í landinu sem um ræðir.

Ísland, rétt eins og hin norrænu ríkin, fær 83 stig út úr þessu mati frá Global Insight. Það er hæsta skorið sem veitt er á þessum kvarða.

IMD World Competitiveness Center World Competitiveness Yearbook Executive Opinion Survey 2020 - 82 stig

IMD er viðskiptaskóli á háskólastigi í Lausanne í Sviss. Á hverju ári setur skólinn saman mælikvarðann World Competitive Yearbook, sem mælir samkeppnishæfni ríkja. Einn hluti hans er skoðanakönnun sem gerð er á meðal þeirra sem starfa í viðskiptalífinu. Árið 2020 tóku yfir 6.000 svarendur þátt í könnuninni í þeim ríkjum sem metin voru.


Auglýsing

Spurningin sem laut að spillingu og Transparency grípur niður í var: „Mútur og spilling: Til staðar eða ekki til staðar?“ Svörin eru gefin á skalanum 1-6 sem Transparency International umreiknar síðan yfir í 0-10 kvarða þannig að þau passi inn í þeirra vísitölu.

Ísland skorar 82 stig þarna, Danmörk 97 stig, Finnland 91 stig, Svíþjóð 84 stig og Noregur 78 stig.

The PRS Group International Country Risk Guide 2020 - 77 stig

PRS Group er fyrirtæki í New York-ríki í Bandaríkjunum sem hefur frá því árið 1980 framkvæmt reglulegt áhættumat um stöðuna í ríkjum út frá stjórnmálum, efnahagslífi og fjármálaheimi, þáttum sem hafa áhrif fyrir alþjóðaviðskipti. Þessi afurð er síðan seld í áskrift til þeirra sem vilja fylgjast vel með breytingum í heiminum.

Starfsfólk fyrirtækisins safnar upplýsingum um stjórnmál og umbreytir þeim yfir í áhættustig á grundvelli samræmdar matsaðferðar, samkvæmt því sem segir í aðferðafræðigögnunum frá Transparency, sem lítur til mælingar frá PRS Group á spillingu innan stjórnkerfisins og tekur inn í spillingarvísitölu sína.

Mælingin er aðallega sögð snúast um raunverulega eða mögulega spillingu í formi umframfyrirgreiðslu, frændhygli, kíkuráðningum, greiðaskiptum, leynilegra framlaga til stjórnmálaflokka og grunsamlegra sterka tengsla á milli stjórnmála og viðskiptalífs.

Í þessu mati stendur Ísland hinum Norðurlöndunum að baki og fær 78 stig með sér inn í spillingarvísitölu Transparency. Danmörk fær þarna 98 stig, Svíþjóð og Finnland 93 stig og Noregur 85 stig.

World Economic Forum Executive Opinion Survey 2019 - 87 stig

World Economic Forum eru sjálfstæð óhagnaðardrifin samtök með höfuðstöðvar Genf í Sviss sem stofnuð voru árið 1971. Yfirlýst markmið þeirra er að bæta heiminn með því að leiða saman leiðtoga í viðskiptalífi, stjórnmálum og fræðum til þess að móta hugmyndir og stefnur.


Transparency sækir fanga víða og meðal annars í könnun sem World Economic Forum framkvæmir á meðal forkólfa í atvinnulífi um heim allan.
WEF

Samtökin framkvæma reglulega könnunina Executive Opinion Survey til þess að mæla samkeppnishæfni ríkja. Hún er framkvæmd með útdeilingu spurningalista til forkólfa í atvinnulífi í gegnum einhver samtök eða stofnanir í hverju landi sem hjálpa til við að deila könnuninni áfram. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið samstarfsaðili World Economic Forum hérlendis á undanförnum árum. Á heimsvísu fengust svör frá næstum 13 þúsund stjórnendum í viðskiptalífinu og var gögnunum sem horft er til safnað á milli janúar og apríl árið 2019.

Spilling er mæld í þessari könnun með spurningu sem hljóðar svo: „Hversu algengt er það í þínu landi að fyrirtæki þurfi að greiða umframgreiðslur eða mútur fyrir eftirfarandi:“ og svo eru þátttakendur spurðir hvort þeir kannist við eitthvað slíkt varðandi innflutning og útflutning, almannagæði, árlegar skattgreiðslur, verksamninga og leyfi frá hinu opinbera og hagstæðar niðurstöður dómstóla.

Ísland fær 87 stig á þessum mælikvarða á meðan að Danmörk fær 79 stig, Finnland 93 stig og Svíþjóð 77 stig. Noregur er ekki með í þessari mælingu af einhverjum ástæðum.

Varieties of Democracy (V-Dem v. 10) 2020 - 77 stig

Varieties of Democracy-verkefnið er snýst um að mæla lýðræði á margvíslega vegu. Verkefnið er samstarf Háskólans í Gautaborg í Svíþjóð og Kellogg-stofnunarinnar við Notre Dame-háskóla í Bandaríkjunum og samkvæmt umfjöllun Transparency International taka fleiri en 3.000 fræðimenn um heim allan þátt í vinnunni. 

Sjöfn Vilhelmsdóttir, sem verið hefur forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, er það sem kallað er samhæfingarstjóri Íslands (e. country coordinator) innan þessa verkefnis, samkvæmt vefsíðu Varieties of Democracy.

Spurningin sem Transparency International gerir sér mat úr úr umfangsmiklu gagnasafni Varieties of Democracy er: „Hversu útbreidd er pólitísk spilling?“. Matið nær til opinbera geirans, framkvæmdavaldsins, löggjafarvaldsins og dómsvaldsins. Allir þessir þættir eru sagðir vigta jafnt í matinu.

Ísland fær 77 stig í þessu mati og er á pari við hin Norðurlöndin. Danmörk og Noregur fá 78 stig en Finnland og Svíþjóð 77 stig, rétt eins og Ísland.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar