Vilja breiðfylkingu gegn tilraunum Samherja til að grafa undan samfélagssáttmálanum

Íslandsdeild Transparency International segir að fyrirtæki og einstaklingar sem sanna vilja sakleysi sitt stundi ekki ofsóknir gagnvart þeim sem rannsaka og upplýsa um meintar misgjörðir. Það geri Samherji hins vegar.

Atli Þór Fanndal er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.
Atli Þór Fanndal er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.
Auglýsing

Íslandsdeild Transparency International, samtaka sem berjast gegn spillingu, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kallað er eftir því að að spornað verði við framgangi Samherja, undir framkvæmdastjórn Þorsteins Más Baldvinssonar, sem opinberast hafi almenningi enn frekar í umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar um hina svokölluðu „skæruliðadeild“ Samherja á undanförnum dögum. 

Samtökin, sem eru á meðal þeirra sem „skæruliðadeildin“ safnaði upplýsingum um og vildi beita sér gegn, kalla eftir „breiðfylkingu almennings, félagasamtaka, stéttarfélaga, samtaka uppljóstrara, fræðasamfélags, stjórnmálanna og allra þeirra sem vettlingi geta valdið gegn tilraunum fyrirtækisins og „skæruliða“ til að grafa undan samfélagssáttmálanum og gildum þeim er hann byggir á. Það er okkar allra að standa vörð um lýðræðið, samfélagið og tjáningarfrelsið, hvert á sínu sérsviði.“

Í yfirlýsingunni segir að Samherji hafi á engum tímapunkti sýnt vilja til umbóta eftir að Namibíumál fyrirtækisins, þar sem grunur er um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti, kom upp heldur þvert á móti varið fé og vinnustundum í að grafa undan eftirlitsstofnunum, blaðamönnum og þar með samfélaginu öllu. Skýrsla norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, sem Samherji lét vinna um málið og lofaði að birta, hefur enn ekki verið birt opinberlega rúmu ári eftir að hún var tilbúin og reglum um stjórnarhætti og regluvörslu sem fyrirtækið tilkynnti um mitt ár 2020 hefur ekki verið fylgt eftir.

Segja að Björgólfur verði að víkja

Íslandsdeildin segir að fyrirtæki og einstaklingar sem sanna vilja sakleysi sitt stundi ekki ofsóknir gagnvart þeim sem rannsaka og upplýsa um meintar misgjörðir. „Fyrirtæki sem hafa ekkert að fela stunda ekki árásir á fólk sem berst fyrir bættu samfélagi og almannaheill. Fyrirtæki sem eru meðvituð um almannahag þurfa ekki „skæruliðadeild“ sem lætur sig dreyma um að „stinga, snúa og strá svo salti í sárið““.

Auglýsing
Stjórnmálamenn og sérstaklega stjórnarliðar geti ekki lengur komið sér undan því að takast á við hið pólitíska og kerfislæga umhverfi sem umber svona framgöngu árum saman. Annað hvort eru þeir með almenningi í baráttunni gegn spillingu eða á móti með þögn, meðvirkni,  aðgerðarleysi og seinagangi við að koma upp nútímalegum spillingarvörnum milli stjórnsýslu og viðskiptalífs. „Stjórnmálin geta ekki lengur litið undan.“

Í febrúar síðastliðnum var greint frá því að Björgólfur Jóhannsson væri hættur sem annar forstjóri Samherja, en hann tók við því starfi í kjölfar þess að Namibíumálið var opinberað. Samhliða var Björgólfur kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja. Björgólfur átti að stjórna skráningu og formlegri innleiðingu slíkra reglna ásamt öðrum ráðgjafastörfum fyrir Samherja eftir því sem tilefni verður til.

Íslandsdeild Transparency International segir að Björgólfur sé ekki fær um formennsku í þeirri nefnd, en fyrir liggur að hann var í beinum samskiptum við hina svokölluðu „skæruliðadeild“ og hafði vitneskju um að minnsta kosti hluta þess sem hún gerði. Í yfirlýsingu deildarinnar segir að ef hlítingarnefndin eigi að hafa hlutverk umfram það að vera neðanmálslína í fréttatilkynningu liggur í augum uppi að nefndin verði kölluð saman til að undirbúa opinbera birtingu á umfangi og eðli aðgerða fyrirtækisins undanfarin ár í baráttunni gegn uppljóstrunum og rannsóknum á starfsemi Samherja er varða þau mál sem fjallað hefur verið um. „Augljóst er eftir uppljóstranir undanfarinna daga að Björgólfur er ekki fær um formennsku nefndarinnar eigi störf hennar á annað borð að vera trúverðug.“

Íslandsdeildin kallar einnig eftir því að öll stéttarfélög í landinu fordæmi tilraunir Samherja til að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands, sem Kjarninn opinberaði á laugardag.

Vildu safna upplýsingum um stjórn deildarinnar

Í umfjöllun Kjarnans sem birtist í gær var greint frá því að Íslandsdeild Transparency International hafi sent frá sér tilkynningu í síðasta mánuði vegna framgangs Samherja í tengslum við fréttaflutning og eftirlits með starfsemi fyrirtækisins. Þar stóð meðal annars: „Fyrirtækið hefur fjármagnað áróðursþætti til birtinga, fjármagnað bókaskrif í áróðurstilgangi og haldið úti fordæmalausu túlkunarstríði á sögunni. Jafnvel á nefndarfundum Alþingis hafa fulltrúar fyrirtækisins sýnt af sér hegðun sem engum er sæmandi. Í Namibíumálinu hefur fyrirtækið brugðist við með samskonar hætti og raunar gefið í. Fulltrúar fyrirtækisins hafa ógnað og njósnað um einstaklinga sem fjallað hafa um málið, kostað áróðursmyndbönd til almennings þar sem hreinum og klárum ósannindum er haldið fram og ítrekað hafa verið leiðrétt. Framganga fyrirtækisins getur ekki talist innan eðlilegra marka.“

Í umfjöllun Kjarnans kom fram að Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, hefði spurt félaga sína í samskiptamiðlahópnum „PR Namibia“, Þorbjörn Þórðarson, ráðgjafa Samherja í almannatengslum, og Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðing Samherjasamstæðunnar,  í kjölfar þess að tilkynningin birtist hverjir væru í forsvari fyrir Íslandsdeild samtakanna Transparency International. Honum var bent á að spyrja: „þmb [Þorstein Má Baldvinsson] út í þetta fólk. Hann veit allt um ansi mörg þeirra[...]og Jónas út í guðrunu [Johnsen, formann stjórnar Transparency International á Íslandi]. Hann þekkir eitthvað út í hennar forsögu“. Umræddur Jónas er Sigurgeirsson og rekur Almenna bókafélagið sem gaf meðal annars út bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?, þar sem fjallað var með afar neikvæðum hætti um rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja sem hófst árið 2012. Samherji keypti stórt upplag af bókinni og gaf starfsfólki sínu í jólagjöf. Jónas var upplýsingafulltrúi Kaupþings fyrir bankahrun og er giftur Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði og oddvita Sjálfstæðisflokksins þar. Guðrún Johnsen, sem er doktor í hagfræði, vann meðal annars að gerð skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skrifaði bók um íslenska bankahrunið, sat í stjórn Arion banka í átta ár, hefur starfað sem efnahagsráðgjafi VR og starfað í akademíu í rúm 20 ár.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent