Mynd. Skjáskot/BÍ Sigga dögg

Samherji reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna

„Það þarf samt að fara mjög fínt í þetta því við viljum heldur ekki að það spyrjist út að Samherji eða ráðgjafar Samherja séu uggandi yfir stöðunni og séu að hjálpa til í smölun gegn fulltrúa RÚV.“ Þetta skrifaði starfsmaður Samherja fyrir um mánuði síðan í hópspjall nokkurra lykilmanna í áróðursstríði fyrirtækisins gegn tilgreindum fjölmiðlum, nafngreindum blaðamönnum og ýmsum öðrum sem hafa fjallað um Samherja með gagnrýnum hætti.

Í apríl 2021 fór fram formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands (BÍ), sem er stéttar- og fagfélag blaðamanna á Íslandi. Þetta sætti nokkrum tíðindum, enda hafði Hjálmar Jónsson gegnt starfi bæði framkvæmdastjóra og formanns BÍ frá árinu 2010. Breytingar voru í farvatninu.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, tilkynnti fyrst, seint í marsmánuði, að hann vildi verða næsti formaður. Síðasta daginn sem mátti tilkynna um framboð, 15. apríl, bættist Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, við. Því gátu félagsmenn valið á milli tveggja frambjóðenda í formannskjörinu. 

Þessi staða olli áhyggjum hjá þeim hópi sem skilgreinir sig sem „skæruliðadeild Samherja“. Honum tilheyra meðal annars Arna Bryndís McClure, yfirlögfræðingur fyrirtækisins, Þorbjörn Þórðarson, sem starfar fyrir Samherja sem utanaðkomandi almannatengslaráðgjafi, Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, og Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman.

Auglýsing

Á meðal þess sem hópurinn hefur staðið fyrir er birting fjölda aðsendra greina og ítrekaðra ummæla á samfélagsmiðlum, sem flestar hafa birst undir nafni Páls en einnig annarra aðila. Um það var fjallað í Kjarnanum í gær.

Þau skrif hafa beinst gegn þeim sem fyrirtækið og stjórnendur þess hafa skilgreint sem óvildarfólk þess frá því að hið svokallaða Namibíumál – þar sem grunur er um umfangsmiklar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti í tengslum við starfsemi Samherja í Namibíu – kom upp í nóvember 2019. Í flestum tilfellum snúast aðgerðirnar um að ráðast persónulega gegn ætluðu óvildarfólki og reyna að draga úr trúverðugleika þeirra.

Til þess hóps sem er í skotlínu Samherja teljast margir blaðamenn, stjórnmálamenn, listamenn og aðrir sem skæruliðadeildin telur að beiti sér með óbilgjörnum hætti gegn hagsmunum fyrirtækisins. Þar eru efst á blaði RÚV og blaðamaðurinn Helgi Seljan, einn þeirra sem stóð að opinberuninni á Namibíumálinu.

Voru á meðal stærstu eigenda Árvakurs árum saman

Samherji var um tíma á meðal stærstu eigenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Eftir að fyrirtækið, og aðrir aðilar tengdir sjávarútvegi að uppistöðu, tóku yfir útgáfuna snemma árs 2009 var Óskar Magnússon gerður að útgefanda Morgunblaðsins.

Hann er stjórnarmaður í Samherja og náinn ráðgjafi Þorsteins Más Baldvinssonar. Óskar gegndi því starfi til loka árs 2014.

Samherji seldi hlut sinn í Árvakri til Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, árið 2017. Eyþór greiddi ekkert fyrir hlutinn heldur fékk seljendalán frá Samherja. Það lán, upp á rúmlega 380 milljónir króna, er gjaldfallið og hefur ekki verið greitt til baka.

Stærstu eigendur útgáfunnar eru enn aðilar tengdir útgerð og hún heldur úti umfangsmikilli útgáfustarfsemi um sjávarútveg bæði á vef og í prenti þar sem sjávarútvegsfyrirtæki kaupa mikið magn auglýsinga.

Í svari Arnars Þórs Stefánssonar, lögmanns á Lex, er þó tiltekið að rétt sé að fram komi að „starfsfólk Samherja hf. hefur fullar heimildir til að ráða ráðum sínum um sameiginleg málefni sín og félagsins og ekkert óeðlilegt við það, sér í lagi þegar þeir og félagið sæta slíkum árásum sem á þeim hafa dunið að undanförnu af hálfu fjölmiðla.“

Alls hafa eigendur Árvakurs greitt að minnsta kosti 2,5 milljarða króna vegna tapreksturs útgáfunnar frá því að þeir tóku við henni árið 2009. Útgáfufélagið tapaði 291 milljón króna árið 2019, en síðasti birti ársreikningur þess er fyrir það ár.

Á meðal þeirra sem eru í reglulegu sambandi við hópinn, til að leggja línur um hvernig eigi að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun, eru helstu stjórnendur Samherja. Þ.e. forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjórinn Björgólfur Jóhannsson, Baldvin Þorsteinsson, sem stýrir Evrópuútgerð Samherja, og í einhverjum tilvikum Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri fyrirtækisins, þótt aðkoma hans sé minni. Þetta sýna gögn, meðal annars tölvupóstar og samtöl innan hópspjalla, sem Kjarninn hefur undir höndum. Nýjustu gögnin eru um mánaðargömul. 

Töldu RÚV ætla að nota BÍ gegn Samherja

Nokkrum dögum eftir að framboðsfrestur í formannskjörinu í BÍ rann út, og viku áður en sjálft kjörið fór fram ræddu Arna og Þorbjörn um það í samtali í hópi sem stofnaður hafði verið sex dögum áður og fengið nafnið „PR Namibia“.

Auglýsing

Þorbjörn skrifaði þar: „Lítill fugl hvíslaði því að mér að hallarbylting væri í bígerð í Blaðamannafélagi Íslands. Fréttamenn RÚV eru víst í unnvörpum að skrá sig í félagið fyrir komandi kosningar. Þeir ætla víst að ná stjórn á því[...]Hinir þurfa að þjappa sér saman á móti henni[...]Mér skilst að þetta beinist að hluta til að okkur. Þeir ætla að nota félagið.“

Arna bað hann síðan að hafa samband við reynslumikinn blaðamann til að undirstinga viðkomandi með frétt um þessa hallarbyltingu. Þorbjörn skrifaði að hann væri í góðu sambandi við viðkomandi blaðamann. Tilgangur þessa átti að vera að „vekja starfsfólk einkareknu miðlana til lífsins um að fjölmenna á aðalfundinn og kjósa Heimi.“ 

Starfsmenn og launaðir ráðgjafar Samherja töldu að ríkisfjölmiðillinn RÚV væri að reyna að taka yfir stéttar- og fagfélag blaðamanna til að nota það gegn fyrirtækinu.
Mynd: RÚV

Þegar hópurinn talar um einkareknu miðlanna er átt við Vísi, mest lesna fréttavef landsins, Morgunblaðið og Fréttablaðið. Innan hópsins var rætt um að starfsmenn þessarra miðla þyrftu að „snúa bökum saman“ og að smala þyrfti á aðalfund BÍ. Þorbjörn, sem starfaði í fjölmiðlum í meira en áratug áður en hann réð sig í þjónustu Samherja og þekkir flest viðföng skæruliðadeildarinnar persónulega, skrifaði að menn ynnu ekki kosningar nema taka upp símann og smala. Ef til vill þyrfti einnig að smala nýjum félagsmönnum í BÍ. „Það þarf kannski að taka nokkur símtöl í Hádegismóa á morgun og upp á Torg.“ 

Höfuðstöðvar Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og tengdra miðla, eru í Hádegismóum. Torg ehf. er útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, meðal annars DV.is og Hringbrautar.

Það ber að taka fram að blaðamaðurinn reynslumikli skrifaði ekki þá frétt sem Þorbjörn var að vonast til að hann skrifaði um hallarbyltinguna innan BÍ. 

Aðkoma Samherja mátti ekki spyrjast út

Hópurinn rökstuddi þörfina á þessari tilraun til að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttar- og fagfélagi sem ekkert þeirra tilheyrir, þannig að Félag fréttamanna, sambærilegt félag sem hluti starfsmanna RÚV er í, hafi verið „miskunnarlaust notað í grímulausri hagsmunagæslu.“ Það ætti enginn að halda að sami leikur yrði ekki leikinn gagnvart öðrum. Samherji væri bara fyrstur. „Bolsévikar létu ekki staðar numið þó keisarinn væri fallinn og aðalsstéttin. Þeir völdu bara næsta hóp og næsta,“ var skrifað inn á spjall hópsins.

Þorbjörn Þórðarson, ráðgjafi Samherja og fyrrverandi fréttamaður, er einn þeirra sem reyndi að beita sér fyrir því að Sigríður Dögg Auðunsdóttir myndi ekki vinna formannskjörið.
Mynd: Skjáskot/Kjarninn á Hringbraut

Arna og Þorbjörn sögðust vera sammála um að þau þyrftu að taka símtöl til að koma í veg fyrir að Sigríður Dögg myndi vinna. 

Í spjall hópsins var skrifað: „Það þarf samt að fara mjög fínt í þetta því við viljum heldur ekki að það spyrjist út að Samherji eða ráðgjafar Samherja séu uggandi yfir stöðunni og séu að hjálpa til í smölun gegn fulltrúa RÚV.[...]Best væri ef ritstjórar einkareknu miðlanna tækju af skarið og ræddu við sitt fólk.[...]Þess vegna þarf að fara yfir þetta með þeim.“

Sérstaklega er tiltekið í spjallinu að búist væri við því að blaðamenn Stundarinnar, Kjarnans og Miðjunnar, sem er vefmiðill rekinn af einyrkjanum Sigurjóni Magnúsi Egilssyni, myndu kjósa Sigríði Dögg. Starfsmenn á ritstjórnum þessarra þriggja miðla, sem hafa atkvæðisrétt í kjöri hjá BÍ, eru undir 20 samanlagt. Alls voru 553 félagsmenn í BÍ á kjörskrá í formannskosningunum. Því er ljóst að þegar skæruliðadeildin talaði um ritstjóra einkamiðla sem þyrfti að fara yfir stöðuna með, og hvetja til að skipta sér að kjörinu, þá var ekki átt við þessa þrjá einkamiðla: Stundina, Kjarnann eða Miðjuna. 

Auglýsing

Skæruliðadeildinni varð ekki að ósk sinni. Sigríður Dögg sigraði formannskjörið og fékk 54,6 prósent atkvæða. Alls var kjörsókn 56,6 prósent, sem þykir mjög góð þátttaka í kosningu innan stéttarfélags. 

Í PR Namibia-hópinn var skrifað að þetta væru hörmulegar fréttir. „Maður óttaðist þetta þegar í ljós kom að Heimir rak enga baráttu. Bara fólk í kringum hann[...]Stjórnendur einkareknu miðlanna studdu hann en fólk kaus ekki.“

Forstjóri telur „læk“

Áhugi þess hóps sem sér um framkvæmd á varnarviðbrögðum Samherja vegna Namibíumálsins, og allrar annarrar gagnrýnar umfjöllunar sem birt er um fyrirtækið, á fjölmiðlafólki er umtalsverður. Sá áhugi náði einnig til stjórnenda Samherja. 

Björgólfur Jóhannsson var forstjóri Samherja um tíma, en tilkynnti um starfslok þar í febrúar. Hann er þó enn viðloðandi fyrirtækið.
Mynd: Samherji

Í gögnunum sem Kjarninn hefur undir höndum er meðal annars að finna Excel-skjal þar sem hluti starfsmanna RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru skráðir og ætluð tengsl þeirra á milli greind. Þá er mynd sem tekin er af  samfélagsmiðli þar sem hópur fjölmiðlafólks sem starfar á mismunandi miðlum situr saman á sumarkvöldi að finna í gögnunum ásamt greiningu á fólkinu og hvernig megi tortryggja tengsl þess. Á mörgum stöðum í gögnunum má sjá stjórnendur og starfsmenn eða ráðgjafa Samherja, sem hafa það hlutverk að grafa undan nafngreindum fjölmiðlamönnum, efast um andlegt ástand þeirra, tala með niðrandi hætti um þau. Þeir sem þarna ræða saman rýna ítrekað í orð, greinar og samfélagsmiðlahegðun blaðamanna í þeim tilgangi að finna á þeim höggstað sem nýtast á til að draga úr trúverðugleika eða búa til efa um hæfi til að fjalla um Samherja. 

Stungið upp í Boga Ágústsson

„Þorbjörn var snöggur að semja þetta,“ sagði Páll Steingrímsson í spjallþræði við annan starfsmann Samherja 1. apríl 2021, en umræðuefnið þá var svar sem Páll skildi eftir sig við færslu frá Boga Ágústssyni inni í Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar. Þangað inn hafði Bogi deilt yfirlýsingu fréttastjóra RÚV vegna erindis sem Samherji sendi til stjórnar RÚV.

„Við Þorbjörn erum að velta því fyrir okkur að skrifa grein eins og gerðum við Svavar og athuga hvort Bogi Ágústsson muni svara mér fyrst hann gerir það ekki inn á fjölmiðlanördum,“ sagði Páll svo í spjalli degi síðar. Greinin um Boga Ágústsson birtist hins vegar aldrei.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, átti spjall við einn meðlim skæruliðadeildarinnar, Pál Steingrímsson, eitt síðdegi í desember í fyrra þar sem þeir báru saman fjölda „læka“ sem grein Björgólfs sem birtist á Vísi daginn áður við síðustu birtu frétt eftir Inga Frey Vilhjálmsson á vef Stundarinnar. Páll skrifar þar: „Síðasta grein Inga Freys bara komin með 108 like pifff þú jarðar hann“. Björgólfur svarar: „ekki bera mig saman við Inga Frey“ og fær til baka: „Haha nei rétt það er meira spunnið í litla fingur á þér en hann allann.“ Sólarhring síðar lætur Björgólfur vita að fjöldi „læka“ á greininni hans sé kominn upp í 595. Páll svarar: „Jebb og ert en með 3 eða 4 mest lesnu greinunum eftir 2 daga það mjög gott og grein Jóns Óttars var 7 mest lesna greinin á Visir.is á þessu ári.“

„Við fylgjumst nefnilega líka með ykkur“

Í samtali við Baldvin Þorsteinsson stærir Páll sig af því að ná miklum árangri með þeim aðsendu greinum sem birtast í hans nafni á Vísi. „Jæja ég náði athygli visir.is dv.is og stundin.is djöfull held ég að þeim hafi sviðið undan síðustu grein og illa þolað athyglina sem hún fékk.[...]Var bara þörf áminning til fjölmiðlamanna við fylgjumst nefnilega líka með ykkur og þeir þoldu ekki athyglina sem hún fékk en ég sný mér að Inga Frey á morgun á í fórum mínum email samskipti við Reynir Traustason þegar að þeir á dv.is lokuðu á mig í commentakerfunum hjá sér eftir að ég leiðrétti grein eftir hann þar sem hann skrifaði um Samherja og Namebiu.“

Alvarleg aðför sem ætlað var að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni

„Ég lít á þetta sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi sem er algjörlega ólíðandi. Aðgerðunum sem þarna er lýst er ætlað að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. Þetta eru aðgerðir sem beinast ekki einungis gegn mér heldur einnig mótframbjóðanda mínum [Heimi Má Péturssyni, fréttamanni á Stöð 2] því ég treysti mér að fullyrða að hann hafi ekki haft neina hugmynd um þessa atlögu að mér. Né heldur hefði hann verið henni samþykkur enda þekki ég hann að því einu að vera staðfastur og heiðarlegur prinsippmaður.“ Þetta segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.

„Það er grafalvarlegt og algjörlega ólíðandi að samfélagslega mikilvægt fyrirtæki á borð við Samherja geri tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri Blaðamannafélags Íslands. Ég tel engar líkur á því að þessi tilraun þeirra til að hafa áhrif á formannskjörið hafi skilað árangri því blaðamenn, sama á hvaða miðli þeir starfa, eru upp til hópa prinsippfastir og heiðarlegir. Á íslenskum fjölmiðlum starfar mikið hugsjónafólk sem hefur metnað fyrir starfinu sínu og faginu og myndi aldrei láta undan þrýstingi sem þessum. Það breytir því þó ekki að tilraunin sjálf er í eðli sínu mjög alvarleg og vekur upp spurningar um hvernig stéttin og samfélagið allt geti brugðist við í ljósi þess hvaða aðferðum hagsmunaöfl eru farin að beita til þess að stýra umræðunni í landinu.

Þetta vekur einnig upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við árásum á blaðamenn og fjölmiðla í ljósi þess að fjölmiðlar standa nú veikari fótum en áður til þess að veita nauðsynlega mótspyrnu. Það er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra hve rekstrargrundvöllurinn hefur veikst, heldur varðar það samfélagið allt því grundvöllur lýðræðisins eru frjálsir, óháðir fjölmiðlar sem geta veitt stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Ísland hefur færst neðar á lista Blaðamanna án landamæra (RSF) um fjölmiðlafrelsi og er staðan hér metin töluvert lakari en á hinum Norðurlöndunum. Sú þróun er sannarlega ekki í þágu samfélagsins en mögulega hagsmunaaflanna sem hafa hag af því að um þau sé ekki fjallað með gagnrýnum hætti.

Varðandi þær ávirðingar sem fram koma um ákvörðun mína að bjóða mig fram til formennsku í Blaðamannafélagi Íslands og kosningabaráttuna vil ég taka það fram að engar hópskráningar áttu sér stað í félagið í aðdraganda kosninganna, hvorki fyrir hvatningu mína né mótframbjóðanda míns. Það getur framkvæmdastjóri og stjórn vottað. Kosningabarátta okkar beggja var lágstemmd, heiðarleg og málefnaleg og ég lít á mig sem formann allra félaga í Blaðamannafélagi Íslands, sama á hvaða miðli þeir starfa, enda höfum við öll sömu hagsmuna að gæta, að vernda stéttina og tryggja að hér starfi sjálfstæðir, frjálsir fjölmiðlar í þágu lýðræðisins.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar