Mynd. Skjáskot/BÍ Sigga dögg
Mynd. Skjáskot/BÍ

Samherji reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna

„Það þarf samt að fara mjög fínt í þetta því við viljum heldur ekki að það spyrjist út að Samherji eða ráðgjafar Samherja séu uggandi yfir stöðunni og séu að hjálpa til í smölun gegn fulltrúa RÚV.“ Þetta skrifaði starfsmaður Samherja fyrir um mánuði síðan í hópspjall nokkurra lykilmanna í áróðursstríði fyrirtækisins gegn tilgreindum fjölmiðlum, nafngreindum blaðamönnum og ýmsum öðrum sem hafa fjallað um Samherja með gagnrýnum hætti.

Í apríl 2021 fór fram for­manns­kjör í Blaða­manna­fé­lagi Íslands (BÍ), sem er stétt­ar- og fag­fé­lag blaða­manna á Íslandi. Þetta sætti nokkrum tíð­ind­um, enda hafði Hjálmar Jóns­son gegnt starfi bæði fram­kvæmda­stjóra og for­manns BÍ frá árinu 2010. Breyt­ingar voru í far­vatn­inu.

Heimir Már Pét­urs­son, frétta­maður á Stöð 2, til­kynnti fyrst, seint í mars­mán­uði, að hann vildi verða næsti for­mað­ur. Síð­asta dag­inn sem mátti til­kynna um fram­boð, 15. apr­íl, bætt­ist Sig­ríður Dögg Auð­uns­dótt­ir, frétta­maður á RÚV, við. Því gátu félags­menn valið á milli tveggja fram­bjóð­enda í for­manns­kjör­in­u. 

Þessi staða olli áhyggjum hjá þeim hópi sem skil­greinir sig sem „skæru­liða­deild Sam­herj­a“. Honum til­heyra meðal ann­ars Arna Bryn­dís McClure, yfir­lög­fræð­ingur fyr­ir­tæk­is­ins, Þor­björn Þórð­ar­son, sem starfar fyrir Sam­herja sem utan­að­kom­andi almanna­tengsla­ráð­gjafi, Páll Stein­gríms­son, skip­stjóri hjá Sam­herja, og Jón Óttar Ólafs­son, ráð­gjafi og fyrr­ver­andi rann­sókn­ar­lög­reglu­maður sem starfað hefur fyrir Sam­herja árum sam­an.

Auglýsing

Á meðal þess sem hóp­ur­inn hefur staðið fyrir er birt­ing fjölda aðsendra greina og ítrek­aðra ummæla á sam­fé­lags­miðl­um, sem flestar hafa birst undir nafni Páls en einnig ann­arra aðila. Um það var fjallað í Kjarn­anum í gær.

Þau skrif hafa beinst gegn þeim sem fyr­ir­tækið og stjórn­endur þess hafa skil­greint sem óvild­ar­fólk þess frá því að hið svo­kall­aða Namib­íu­mál – þar sem grunur er um umfangs­miklar mútu­greiðsl­ur, skatta­snið­göngu og pen­inga­þvætti í tengslum við starf­semi Sam­herja í Namibíu – kom upp í nóv­em­ber 2019. Í flestum til­fellum snú­ast aðgerð­irnar um að ráð­ast per­sónu­lega gegn ætl­uðu óvild­ar­fólki og reyna að draga úr trú­verð­ug­leika þeirra.

Til þess hóps sem er í skot­línu Sam­herja telj­ast margir blaða­menn, stjórn­mála­menn, lista­menn og aðrir sem skæru­liða­deildin telur að beiti sér með óbil­gjörnum hætti gegn hags­munum fyr­ir­tæk­is­ins. Þar eru efst á blaði RÚV og blaða­mað­ur­inn Helgi Selj­an, einn þeirra sem stóð að opin­ber­un­inni á Namib­íu­mál­inu.

Voru á meðal stærstu eigenda Árvakurs árum saman

Samherji var um tíma á meðal stærstu eigenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Eftir að fyrirtækið, og aðrir aðilar tengdir sjávarútvegi að uppistöðu, tóku yfir útgáfuna snemma árs 2009 var Óskar Magnússon gerður að útgefanda Morgunblaðsins.

Hann er stjórnarmaður í Samherja og náinn ráðgjafi Þorsteins Más Baldvinssonar. Óskar gegndi því starfi til loka árs 2014.

Samherji seldi hlut sinn í Árvakri til Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, árið 2017. Eyþór greiddi ekkert fyrir hlutinn heldur fékk seljendalán frá Samherja. Það lán, upp á rúmlega 380 milljónir króna, er gjaldfallið og hefur ekki verið greitt til baka.

Stærstu eigendur útgáfunnar eru enn aðilar tengdir útgerð og hún heldur úti umfangsmikilli útgáfustarfsemi um sjávarútveg bæði á vef og í prenti þar sem sjávarútvegsfyrirtæki kaupa mikið magn auglýsinga.

Í svari Arnars Þórs Stefánssonar, lögmanns á Lex, er þó tiltekið að rétt sé að fram komi að „starfsfólk Samherja hf. hefur fullar heimildir til að ráða ráðum sínum um sameiginleg málefni sín og félagsins og ekkert óeðlilegt við það, sér í lagi þegar þeir og félagið sæta slíkum árásum sem á þeim hafa dunið að undanförnu af hálfu fjölmiðla.“

Alls hafa eigendur Árvakurs greitt að minnsta kosti 2,5 milljarða króna vegna tapreksturs útgáfunnar frá því að þeir tóku við henni árið 2009. Útgáfufélagið tapaði 291 milljón króna árið 2019, en síðasti birti ársreikningur þess er fyrir það ár.

Á meðal þeirra sem eru í reglu­legu sam­bandi við hóp­inn, til að leggja línur um hvernig eigi að bregð­ast við fjöl­miðlaum­fjöll­un, eru helstu stjórn­endur Sam­herja. Þ.e. for­stjór­inn Þor­steinn Már Bald­vins­son, fyrr­ver­andi for­stjór­inn Björgólfur Jóhanns­son, Bald­vin Þor­steins­son, sem stýrir Evr­ópu­út­gerð Sam­herja, og í ein­hverjum til­vikum Krist­ján Vil­helms­son, útgerð­ar­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins, þótt aðkoma hans sé minni. Þetta sýna gögn, meðal ann­ars tölvu­póstar og sam­töl innan hóp­spjalla, sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um. Nýj­ustu gögnin eru um mán­að­ar­göm­ul. 

Töldu RÚV ætla að nota BÍ gegn Sam­herja

Nokkrum dögum eftir að fram­boðs­frestur í for­manns­kjör­inu í BÍ rann út, og viku áður en sjálft kjörið fór fram ræddu Arna og Þor­björn um það í sam­tali í hópi sem stofn­aður hafði verið sex dögum áður og fengið nafnið „PR Namibi­a“.

Auglýsing

Þor­björn skrif­aði þar: „Lít­ill fugl hvísl­aði því að mér að hall­ar­bylt­ing væri í bígerð í Blaða­manna­fé­lagi Íslands. Frétta­menn RÚV eru víst í unn­vörpum að skrá sig í félagið fyrir kom­andi kosn­ing­ar. Þeir ætla víst að ná stjórn á því[...]Hinir þurfa að þjappa sér saman á móti henn­i[...]Mér skilst að þetta bein­ist að hluta til að okk­ur. Þeir ætla að nota félag­ið.“

Arna bað hann síðan að hafa sam­band við reynslu­mik­inn blaða­mann til að und­ir­stinga við­kom­andi með frétt um þessa hall­ar­bylt­ingu. Þor­björn skrif­aði að hann væri í góðu sam­bandi við við­kom­andi blaða­mann. Til­gangur þessa átti að vera að „vekja starfs­fólk einka­reknu miðl­ana til lífs­ins um að fjöl­menna á aðal­fund­inn og kjósa Heim­i.“ 

Starfsmenn og launaðir ráðgjafar Samherja töldu að ríkisfjölmiðillinn RÚV væri að reyna að taka yfir stéttar- og fagfélag blaðamanna til að nota það gegn fyrirtækinu.
Mynd: RÚV

Þegar hóp­ur­inn talar um einka­reknu miðl­anna er átt við Vísi, mest lesna frétta­vef lands­ins, Morg­un­blaðið og Frétta­blað­ið. Innan hóps­ins var rætt um að starfs­menn þess­arra miðla þyrftu að „snúa bökum sam­an“ og að smala þyrfti á aðal­fund BÍ. Þor­björn, sem starf­aði í fjöl­miðlum í meira en ára­tug áður en hann réð sig í þjón­ustu Sam­herja og þekkir flest við­föng skæru­liða­deild­ar­innar per­sónu­lega, skrif­aði að menn ynnu ekki kosn­ingar nema taka upp sím­ann og smala. Ef til vill þyrfti einnig að smala nýjum félags­mönnum í BÍ. „Það þarf kannski að taka nokkur sím­töl í Hádeg­is­móa á morgun og upp á Torg.“ 

Höf­uð­stöðvar Árvak­urs, útgáfu­fé­lags Morg­un­blaðs­ins og tengdra miðla, eru í Hádeg­is­mó­um. Torg ehf. er útgáfu­fé­lag Frétta­blaðs­ins og tengdra miðla, meðal ann­ars DV.is og Hring­braut­ar.

Það ber að taka fram að blaða­mað­ur­inn reynslu­mikli skrif­aði ekki þá frétt sem Þor­björn var að von­ast til að hann skrif­aði um hall­ar­bylt­ing­una innan BÍ. 

Aðkoma Sam­herja mátti ekki spyrj­ast út

Hóp­ur­inn rök­studdi þörf­ina á þess­ari til­raun til að hafa áhrif á nið­ur­stöðu í for­manns­kjöri í stétt­ar- og fag­fé­lagi sem ekk­ert þeirra til­heyr­ir, þannig að Félag frétta­manna, sam­bæri­legt félag sem hluti starfs­manna RÚV er í, hafi verið „mis­kunn­ar­laust notað í grímu­lausri hags­muna­gæslu.“ Það ætti eng­inn að halda að sami leikur yrði ekki leik­inn gagn­vart öðr­um. Sam­herji væri bara fyrst­ur. „Bol­sé­vikar létu ekki staðar numið þó keis­ar­inn væri fall­inn og aðals­stétt­in. Þeir völdu bara næsta hóp og næsta,“ var skrifað inn á spjall hóps­ins.

Þorbjörn Þórðarson, ráðgjafi Samherja og fyrrverandi fréttamaður, er einn þeirra sem reyndi að beita sér fyrir því að Sigríður Dögg Auðunsdóttir myndi ekki vinna formannskjörið.
Mynd: Skjáskot/Kjarninn á Hringbraut

Arna og Þor­björn sögð­ust vera sam­mála um að þau þyrftu að taka sím­töl til að koma í veg fyrir að Sig­ríður Dögg myndi vinna. 

Í spjall hóps­ins var skrif­að: „Það þarf samt að fara mjög fínt í þetta því við viljum heldur ekki að það spyrj­ist út að Sam­herji eða ráð­gjafar Sam­herja séu ugg­andi yfir stöð­unni og séu að hjálpa til í smölun gegn full­trúa RÚV.[...]Best væri ef rit­stjórar einka­reknu miðl­anna tækju af skarið og ræddu við sitt fólk.[...]Þess vegna þarf að fara yfir þetta með þeim.“

Sér­stak­lega er til­tekið í spjall­inu að búist væri við því að blaða­menn Stund­ar­inn­ar, Kjarn­ans og Miðj­unn­ar, sem er vef­mið­ill rek­inn af ein­yrkj­anum Sig­ur­jóni Magn­úsi Egils­syni, myndu kjósa Sig­ríði Dögg. Starfs­menn á rit­stjórnum þess­arra þriggja miðla, sem hafa atkvæð­is­rétt í kjöri hjá BÍ, eru undir 20 sam­an­lagt. Alls voru 553 félags­menn í BÍ á kjör­skrá í for­manns­kosn­ing­un­um. Því er ljóst að þegar skæru­liða­deildin tal­aði um rit­stjóra einka­miðla sem þyrfti að fara yfir stöð­una með, og hvetja til að skipta sér að kjör­inu, þá var ekki átt við þessa þrjá einka­miðla: Stund­ina, Kjarn­ann eða Miðj­una. 

Auglýsing

Skæru­liða­deild­inni varð ekki að ósk sinni. Sig­ríður Dögg sigr­aði for­manns­kjörið og fékk 54,6 pró­sent atkvæða. Alls var kjör­sókn 56,6 pró­sent, sem þykir mjög góð þátt­taka í kosn­ingu innan stétt­ar­fé­lags. 

Í PR Namibi­a-hóp­inn var skrifað að þetta væru hörmu­legar frétt­ir. „Maður ótt­að­ist þetta þegar í ljós kom að Heimir rak enga bar­áttu. Bara fólk í kringum hann[...]­Stjórn­endur einka­reknu miðl­anna studdu hann en fólk kaus ekki.“

For­stjóri telur „læk“

Áhugi þess hóps sem sér um fram­kvæmd á varn­ar­við­brögðum Sam­herja vegna Namib­íu­máls­ins, og allrar ann­arrar gagn­rýnar umfjöll­unar sem birt er um fyr­ir­tæk­ið, á fjöl­miðla­fólki er umtals­verð­ur. Sá áhugi náði einnig til stjórn­enda Sam­herj­a. 

Björgólfur Jóhannsson var forstjóri Samherja um tíma, en tilkynnti um starfslok þar í febrúar. Hann er þó enn viðloðandi fyrirtækið.
Mynd: Samherji

Í gögn­unum sem Kjarn­inn hefur undir höndum er meðal ann­ars að finna Excel-skjal þar sem hluti starfs­manna RÚV, Stund­ar­innar og Kjarn­ans eru skráðir og ætluð tengsl þeirra á milli greind. Þá er mynd sem tekin er af  sam­fé­lags­miðli þar sem hópur fjöl­miðla­fólks sem starfar á mis­mun­andi miðlum situr saman á sum­ar­kvöldi að finna í gögn­unum ásamt grein­ingu á fólk­inu og hvernig megi tor­tryggja tengsl þess. Á mörgum stöðum í gögn­unum má sjá stjórn­endur og starfs­menn eða ráð­gjafa Sam­herja, sem hafa það hlut­verk að grafa undan nafn­greindum fjöl­miðla­mönn­um, efast um and­legt ástand þeirra, tala með niðr­andi hætti um þau. Þeir sem þarna ræða saman rýna ítrekað í orð, greinar og sam­fé­lags­miðla­hegðun blaða­manna í þeim til­gangi að finna á þeim högg­stað sem nýt­ast á til að draga úr trú­verð­ug­leika eða búa til efa um hæfi til að fjalla um Sam­herj­a. 

Stungið upp í Boga Ágústsson

„Þorbjörn var snöggur að semja þetta,“ sagði Páll Steingrímsson í spjallþræði við annan starfsmann Samherja 1. apríl 2021, en umræðuefnið þá var svar sem Páll skildi eftir sig við færslu frá Boga Ágústssyni inni í Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar. Þangað inn hafði Bogi deilt yfirlýsingu fréttastjóra RÚV vegna erindis sem Samherji sendi til stjórnar RÚV.

„Við Þorbjörn erum að velta því fyrir okkur að skrifa grein eins og gerðum við Svavar og athuga hvort Bogi Ágústsson muni svara mér fyrst hann gerir það ekki inn á fjölmiðlanördum,“ sagði Páll svo í spjalli degi síðar. Greinin um Boga Ágústsson birtist hins vegar aldrei.

Björgólfur Jóhanns­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Sam­herja, átti spjall við einn með­lim skæru­liða­deild­ar­inn­ar, Pál Stein­gríms­son, eitt síð­degi í des­em­ber í fyrra þar sem þeir báru saman fjölda „læka“ sem grein Björg­ólfs sem birt­ist á Vísi dag­inn áður við síð­ustu birtu frétt eftir Inga Frey Vil­hjálms­son á vef Stund­ar­inn­ar. Páll skrifar þar: „Síð­asta grein Inga Freys bara komin með 108 like pifff þú jarðar hann“. Björgólfur svar­ar: „ekki bera mig saman við Inga Frey“ og fær til baka: „Haha nei rétt það er meira spunnið í litla fingur á þér en hann all­ann.“ Sól­ar­hring síðar lætur Björgólfur vita að fjöldi „læka“ á grein­inni hans sé kom­inn upp í 595. Páll svar­ar: „Jebb og ert en með 3 eða 4 mest lesnu grein­unum eftir 2 daga það mjög gott og grein Jóns Ótt­ars var 7 mest lesna greinin á Vis­ir.is á þessu ári.“

„Við fylgj­umst nefni­lega líka með ykk­ur“

Í sam­tali við Bald­vin Þor­steins­son stærir Páll sig af því að ná miklum árangri með þeim aðsendu greinum sem birt­ast í hans nafni á Vísi. „Jæja ég náði athygli vis­ir.is dv.is og stund­in.is djöf­ull held ég að þeim hafi sviðið undan síð­ustu grein og illa þolað athygl­ina sem hún fékk.[...]Var bara þörf áminn­ing til fjöl­miðla­manna við fylgj­umst nefni­lega líka með ykkur og þeir þoldu ekki athygl­ina sem hún fékk en ég sný mér að Inga Frey á morgun á í fórum mínum email sam­skipti við Reynir Trausta­son þegar að þeir á dv.is lok­uðu á mig í commenta­kerf­unum hjá sér eftir að ég leið­rétti grein eftir hann þar sem hann skrif­aði um Sam­herja og Namebi­u.“

Alvarleg aðför sem ætlað var að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni

„Ég lít á þetta sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi sem er algjörlega ólíðandi. Aðgerðunum sem þarna er lýst er ætlað að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. Þetta eru aðgerðir sem beinast ekki einungis gegn mér heldur einnig mótframbjóðanda mínum [Heimi Má Péturssyni, fréttamanni á Stöð 2] því ég treysti mér að fullyrða að hann hafi ekki haft neina hugmynd um þessa atlögu að mér. Né heldur hefði hann verið henni samþykkur enda þekki ég hann að því einu að vera staðfastur og heiðarlegur prinsippmaður.“ Þetta segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.

„Það er grafalvarlegt og algjörlega ólíðandi að samfélagslega mikilvægt fyrirtæki á borð við Samherja geri tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri Blaðamannafélags Íslands. Ég tel engar líkur á því að þessi tilraun þeirra til að hafa áhrif á formannskjörið hafi skilað árangri því blaðamenn, sama á hvaða miðli þeir starfa, eru upp til hópa prinsippfastir og heiðarlegir. Á íslenskum fjölmiðlum starfar mikið hugsjónafólk sem hefur metnað fyrir starfinu sínu og faginu og myndi aldrei láta undan þrýstingi sem þessum. Það breytir því þó ekki að tilraunin sjálf er í eðli sínu mjög alvarleg og vekur upp spurningar um hvernig stéttin og samfélagið allt geti brugðist við í ljósi þess hvaða aðferðum hagsmunaöfl eru farin að beita til þess að stýra umræðunni í landinu.

Þetta vekur einnig upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við árásum á blaðamenn og fjölmiðla í ljósi þess að fjölmiðlar standa nú veikari fótum en áður til þess að veita nauðsynlega mótspyrnu. Það er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra hve rekstrargrundvöllurinn hefur veikst, heldur varðar það samfélagið allt því grundvöllur lýðræðisins eru frjálsir, óháðir fjölmiðlar sem geta veitt stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Ísland hefur færst neðar á lista Blaðamanna án landamæra (RSF) um fjölmiðlafrelsi og er staðan hér metin töluvert lakari en á hinum Norðurlöndunum. Sú þróun er sannarlega ekki í þágu samfélagsins en mögulega hagsmunaaflanna sem hafa hag af því að um þau sé ekki fjallað með gagnrýnum hætti.

Varðandi þær ávirðingar sem fram koma um ákvörðun mína að bjóða mig fram til formennsku í Blaðamannafélagi Íslands og kosningabaráttuna vil ég taka það fram að engar hópskráningar áttu sér stað í félagið í aðdraganda kosninganna, hvorki fyrir hvatningu mína né mótframbjóðanda míns. Það getur framkvæmdastjóri og stjórn vottað. Kosningabarátta okkar beggja var lágstemmd, heiðarleg og málefnaleg og ég lít á mig sem formann allra félaga í Blaðamannafélagi Íslands, sama á hvaða miðli þeir starfa, enda höfum við öll sömu hagsmuna að gæta, að vernda stéttina og tryggja að hér starfi sjálfstæðir, frjálsir fjölmiðlar í þágu lýðræðisins.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar