Mynd: Nasdaq Iceland

Erlendu eigendur Arion banka selja sig niður en íslenskir lífeyrissjóðir kaupa sig upp

Á síðustu fjórum mánuðum hafa vogunarsjóðir sem myndað hafa nokkurs konar kjölfestu í eignarhaldi Arion banka flestir minnkað stöðu sína í bankanum umtalsvert. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa á sama tíma aukið eign sína um fjórðung. Frá byrjun árs í fyrra hafa lífeyrissjóðirnir stækkað stöðu sína í bankanum um 60 prósent.

Mikil breyting hefur átt sér stað á hluthafahópi Arion banka á skömmum tíma. Frá því í lok september í fyrra, fyrir fjórum mánuðum síðan, hafa tveir stærstu eigendur bankans á undanförnum árum selt samtals 13,92 prósent hlut í honum. Um er að ræða vogunarsjóðina Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management. Markaðsvirði þess hlutar sem þeir hafa selt, að mestu á allra síðustu vikum, er yfir 23 milljarðar króna.  

Sá síðarnefndi, sem var lengi vel næst stærsti eigandi Arion banka og átti 9,92 prósent hlut í haust,  hefur lækkað hlut sinn í Arion banka niður í 2,94 prósent. Taconic, sem undanfarin ár hefur verið langstærsti einstaki hluthafi Arion banka, seldi í síðustu viku 6,94 prósenta hlut á um 11,4 milljarða króna. Við það fór eignarhlutur sjóðsins úr 23,22 prósentum í 16,28 prósent. 

Fleiri erlendir fjárfestar, sem komu inn í hluthafahóp Arion banka vegna þess að þeir voru kröfuhafar í Kaupþingi, hafa verið að lækka stöður sínar hratt. Þannig átti Goldman Sachs International 2,97 prósent hlut í bankanum í lok september en er ekki lengur á meðal 20 stærstu hluthafa hans, sem þýðir að eignarhlutur sjóðsins er kominn fyrir neðan 1,09 prósent. 

Auglýsing

Sömu sögu er að segja af vogunarsjóðunum Eaton Vance og Landsdowne partners. Sá fyrrnefndi átti 2,6 prósent í Arion banka fyrir fjórum mánuðum síðan en á nú 1,37 prósent. Hlutur hans hefur því nánast helmingast á skömmum tíma. Landsdowne átti 2,39 prósent hlut í Arion banka í lok september en er ekki lengur á meðal 20 stærstu hluthafa bankans, og hefur því að minnsta kosti selt sig undir 1,09 prósent hlut. 

Samanlagt virðast erlendu eigendurnir í Arion banka því að hafa selt um fimmtung af eign sinni í bankanum á nokkrum mánuðum. Allir þessir eigendur voru ráðandi í þeim hópi fyrrverandi kröfuhafa Kaupþings sem eignaðist stóran hlut í Arion banka í aðdraganda skráningu hans á markað. Auk þeirra var breski sjóðurinn Attestor Capital, á meðal ráðandi hluthafa í Arion banka fyrir nokkrum árum, en hann seldi sig hratt niður í bankanum árið 2019. 

Lífeyrissjóðir bæta við sig

Í staðinn fyrir þessa eigendur hafa komið innlendir fagfjárfestar. Þeir eru að mestu íslenskir lífeyrissjóðir. Á síðustu fjórum mánuðum hafa þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) bætt við sig samanlagt 4,61 prósent hlut í Arion banka. Markaðsvirði þess hlutar í dag er um 7,7 milljarðar króna.

Fleiri lífeyrissjóðir: Stapi, Birta, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífsverk hafa allir líka bætt við sig í Arion banka á síðustu mánuðum. 

Auglýsing

Samanlagður eignarhluti þeirra lífeyrissjóða sem birtast á lista yfir 20 stærstu eigendur bankans var 22,42 prósent í byrjun síðasta árs. Í lok september 2020 hafði hann aukist í 29,17 prósent og síðustu fjóra mánuði hefur hann farið upp í 36,29 prósent. Á rúmu ári hefur hlutur sjóðanna því stækkað um rúmlega 60 prósent. Það þýðir að fjárfesting þeirra átta lífeyrissjóða sem eru á meðal 20 stærstu hluthafa í Arion banka er nú um 60 milljarða króna virði. 

Sjóðstýringarfyrirtæki og bankar stækka líka

Fyrir liggur þó að íslenskir lífeyrissjóðir hafa ekki keypt öll bréfin sem erlendu vogunarsjóðirnir hafa verið að selja að undanförnu, að minnsta kosti með beinum hætti. Þorri þess sem út af stendur hefur verið keypt af sjóð- og eignastýringarfyrirtækjum banka eða einfaldlega í nafni annarra banka.

Sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringarfyrirtæki Arion banka, hafa aukið verulega við hlut sinn í móðurbankanum. Þeir áttu 1,7 prósent hlut í honum í septemberlok en eiga nú 2,55 prósent. Sjóðir innan Kviku eignastýringar hafa einnig bætt vel við sig. Þeir áttu 0,72 prósent hlut fyrir fjórum mánuðum en fara nú með 2,55 prósent hlut. Vert er að taka fram að lífeyrissjóðir eru að jafnaði á meðal stærstu fjárfesta í þeim sjóðum sem sjóðstýringarfyrirtækin stýra. Þeir eiga því óbeint viðbótarhlut í gegnum hlutdeildarskírteini sín í þessum sjóðum. 

Þá hafa eignarhlutir sem skráðir eru í eigu hinna þriggja bankanna á íslenska markaðnum líka aukist. Þar er í flestum tilvikum líklegast um að ræða framvirka samninga sem þeir hafa gert við viðskiptavini sína, en ekki viðskipti fyrir eigin bók. 

Auglýsing

Kvika er nú skráður með 1,68 prósent hlut í Arion banka, Íslandsbanki með 1,44 prósent hlut og Landsbankinn með 1,09 prósent hlut. 

Vandséð að selja Íslandsbanka án aðkomu lífeyrissjóða

Samkvæmt ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, verður ráðist í sölu á 25 til 35 prósent hlut í Íslandsbanka í maí eða júní. Tillagan gengur út á að hver og einn kaupandi megi í mesta lagi kaupa 2,5 til 3,0 prósent hlut. Virði þess hlutar sem stefnt er að því að selja í þessu kasti er allt að 65 milljarðar króna miðað við eiginfjárstöðu Íslandsbanka, þótt enn eigi eftir að framkvæma verðmat á bankanum.

Samkeppniseftirlitið benti á í umsögn sinni um söluáformin að vandséð væri að selja hluti ríkisins í Íslandsbanka án aðkomu lífeyrissjóðanna nema að erlendir fjárfestir komi að borðinu. Áhugasamir slíkir eru hins vegar ekki sjáanlegir eins og er og stjórnvöld búast ekki við áhuga að utan. Aðrir innlendir fjárfestar eru einfaldlega með bolmagn til að kaupa svo stóran hlut í bankanum án þess að skuldsetja sig verulega.

Allskonar hagsmunaárekstrar

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um söluáformin var í fyrsta lagi bent á að sjóðirnir væru þegar stórir eigendur í bæði Arion banka og Kviku banka, þar sem lífeyrissjóðir á meðal 20 stærstu hluthafa eiga samtals tæplega 24 prósent hlut.

Í öðru lagi yrði að hafa í huga að líf­eyr­is­sjóð­irnir eigi í mörgum til­vikum hags­muna að gæta sem eig­endur helstu við­skipta­vina bank­anna, en leið­andi hlut­verk líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins, sem vaxið hefur að umfangi um mörg þús­und millj­arða króna á fáum árum, í end­ur­reisn íslensks hluta­bréfa­mark­aðar eftir banka­hrunið hefur gert það að verkum að þeir eiga allt að helm­ing, beint og óbeint, allra hluta­bréfa í skráðum félög­um. Þar er oft um að ræða félög í sam­keppni við hvort ann­að, til dæmis í fjar­skipt­um, trygg­inga­starf­semi og fast­eigna­rekstri. 

Í þriðja lagi lagi séu líf­eyr­is­sjóðir við­skipta­vinir bank­anna á ýmsum svið­um. Þeir taki því þátt í fjár­mögnun bank­anna, eru meðal ann­ars fjár­festar í verk­efnum banka og sjóða á þeirra vegum og þiggja marg­vís­lega ráð­gjöf frá bönk­un­um.

Síð­ast en ekki síst yrði að horfa til þess að líf­eyr­is­sjóð­irnir séu á sama tíma að nokkru leyti í sam­keppni við bank­ana á lána­mark­aði. „Líf­eyr­is­sjóð­irnir keppa við bank­ana á íbúða­lána­mark­aði en einnig veita þeir bönk­unum ákveðið aðhald á sviði fleiri teg­unda lána með því að fjár­festa í sjóðum sem stofn­aðir hafa verið til kaupa á skulda­bréfum fyr­ir­tækja. Eign­ar­hald líf­eyr­is­sjóð­anna á bönk­unum virð­ist þannig geta haft til­tekna hags­muna­á­rekstra í för með sér fyrir líf­eyr­is­sjóð­ina.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar