Mynd: Birgir Þór Harðarson

Tíu staðreyndir um sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka

Til stendur að selja allt að 35 prósent hlut í ríkisbanka í sumar. Upphaf þessa ferils má rekja til bankahrunsins. Hér er allt sem þú þarft að vita um ætlaða bankasölu, álitamál henni tengt og þá sögu sem leiddi til þeirrar stöðu sem nú er uppi.

1. Svona eignaðist ríkið stærstan hlut fjármálakerfisins

Íslenska ríkið setti á fót þrjá nýja banka eftir bankahrunið utan um, aðallega, innlendar eignir og skuldir. Arion banki Íslandsbanki urðu síðan að mestu eign kröfuhafa þeirra á meðan að Landsbankinn hélst í opinberri eigu, en við gerð stöðugleikasamninganna fór Íslandsbanki aftur til ríkisins. 

Heimild hefur verið fyrir því að selja hluti ríkisins í bönkum í fjárlögum frá árinu 2014. Fyrst var um að ræða þann litla hlut sem það átti í Arion banka og Íslandsbanka og allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum. Þessi heimild hefur svo tekið breytingum eftir því sem eignarhald ríkisins hefur þróast. Það á enda ekkert lengur í Arion banka, sú 13 prósent hlutur var seldur í febrúar 2018 fyrir 23,4 milljarða króna til helstu kröfuhafa Kaupþings.

2. Samið um að selja í stjórnarsáttmála

Sú ríkisstjórn sem mynduð var undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur í nóvemberlok 2017 hefur haft það markmið, staðfest í stjórnarsáttmála, að leita leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

Til að vinna að þessu markmið var skipaður hópur til að skrifa Hvítbók um fjármálakerfið. Hann skilaði skýrslu sinni í desember 2018. Tvær helstu niðurstöður hennar eru að fjármálakerfið sé sam­fé­lags­lega mik­il­vægt og að traust sé und­ir­staða þess að það virki sem skyldi. Það sé síðan hlut­verk rík­is­ins að tryggja umgjörð sem stuðli að verð­skuld­uðu trausti.

Auglýsing

Þar er líka sagt að heilbrigt eignarhald sé „mik­il­væg for­senda þess að banka­kerfi hald­ist traust um langa fram­tíð. Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­semi banka og fjár­hags­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­tíma­sjón­ar­mið að leið­ar­ljósi.“

Á grunni þessarar niðurstöðu hófu stjórnvöld nánast samstundis að reyna að selja eignarhluti í ríkisbönkunum tveimur.

3. Söluferli sett af stað

Rúmum mánuði eftir að Hvítbókin var birt sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að hann vildi að ríkið myndi selja 60-65 prósent hlut í Landsbankanum og allt hlutafé í Íslandsbanka. Heimild var fyrir báðum þeim sölum í fjárlögum á þessum tíma. 

Katrín var sjálf með aðeins aðra nálgun. Hún sagði það ekki sína sýn að halda Íslandsbanka en það sem skipti máli væri að ríkið yrði áfram leiðandi fjárfestir í Landsbankanum. 

Í september 2019 lagði Bankasýsla ríkisins til að fjórðungshlutur í Íslandsbanka yrði seldur. Málið var komið á rekspöl.

4. Málamiðlun í eigendastefnu

Bjarni sagði í viðtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar 2020 að söluferlið myndi hefjast innan nokkurra vikna. Nokkuð ljóst var á viðbrögðum hinna stjórnarleiðtoganna að einhverskonar samkomulag lá fyrir um málamiðlun í bankasöluáformum. 

Sú málamiðlun birtist í breyttri eigendastefnu nokkrum vikum síðar. Í stað þess að stefnt yrði að því að ríkið ætti 34-40 prósent í Landsbankanum átti það að eiga „verulegan hlut“ í bankanum til langframa og ákvörðun um að selja eitthvað í honum yrði ekki tekin fyrr en Íslandsbanki yrði að öllu leyti seldur. Allt var í farvegi til að hefja söluferli Íslandsbanka. Til stóð að selja hlutinn í svokölluðu samhliða söluferli, þar sem leitað yrði að erlendum eigenda að hlut í bankanum samhliða skráningu hans á markað á Íslandi og í erlendri kauphöll. 

Svo kom kórónuveirufaraldurinn.

5. Hætt við en skyndilega byrjað aftur

Um miðjan mars 2020 afturkallaði Bankasýsla ríkisins tillögu um að hefja söluferlið. Sala banka væri ekki raunhæf vegna efnahagslegra aðstæðna á Íslandi og alþjóðavettvangi. Málið var saltað. 

Þar til að það var skyndilega endurvakið 17. desember síðastliðinn, degi áður en að Alþingi fór í jólafrí. Það gerðist þannig að Bankasýsla ríkisins – stjórn hennar og forstjóri – sendu tillögu til Bjarna Benediktssonar um að selja hlut í Íslandsbanka í gegnum skráningu á íslenskan markað. Meginrökin sem voru sett fram fyrir þessu í minnisblaði sem fylgdi með voru þau að hutabréfamarkaðir hefðu hækkað í kórónuveirufaraldrinum og að Icelandair Group, sem stóð frammi fyrir gjaldþroti, hefði tekist að verða sér úti um 30 milljarða króna í nýtt hlutafé til að lifa áfram. Eignarhald íslenska ríkisins á fjármálafyrirtækjum væri líka hlutfallslega það hæsta í Evrópu.

Auglýsing

Afkoma Íslandsbanka hefði líka verið í lagi, en bankinn hefur ekki fært niður nema lítinn hluta þeirra lána til fyrirtækja sem eru í frystingu sem stendur. Í lok september síðastliðins voru það 20 prósent fyrirtækjalánabókar bankans til fyrirtækja, alls 120,3 milljarðar króna, og 17,5 milljarðar króna af lánum til einstaklinga. Samtals var því um að ræða tæplega 138 milljarða króna. 

Fjórum dögum síðar, þegar þingmenn voru komnir í jólafrí, sendi Bjarni, ásamt ráðuneytisstjóra sínum, bréf til Bankasýslunnar og samþykkti tillöguna. Samhliða var send greinargerð til Alþingis og nefndarmönnum í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd gefin mánuður til að skila inn umsögn um málið. Hún átti að berast 20. janúar, eða tveimur dögum eftir að fyrsti þingfundur eftir jólafrí fór fram. 

6. Hætt við að finna erlenda kaupendur

Greinargerðin opinberaði það að ekki átti lengur að freista þess að finna erlenda aðila til að kaupa í Íslandsbanka. Það þætti ekki líklegt til árangurs. Svokallað samhliða söluferli var því aflagt og ákveðið að skrá Íslandsbanka einungis á markað á Íslandi, ekki tvískrá líka erlendis eins og upp var lagt með til að byrja með. 

Til stendur að selja allt að 35 prósent hlut í Íslandsbanka.
Mynd: Íslandsbanki

Kaupendur af þessu kerfislega mikilvæga fyrirtæki, sem átti við síðasta uppgjör eigið fé upp á 182,6 milljarða króna, eiga því að vera íslenskir fjárfestar. Og hann verður skráður í íslenska kauphöll einvörðungu. 

7. Gegn hugmyndafræði um eignarhald á banka

Til viðbótar við þau nýju rök sem týnd voru til í minnisblaði Bankasýslunnar hafa talsmenn sölu dustað rykið af fyrri röksemdarfærslum. Að bankarekstur sé mikil áhætturekstur. Að ríkið þyrfti að verða sér úti um fjármuni til að standa undir kostnaði vegna COVID-19 aðgerða með sölu eigna. Að framundan væri svo mikil breyting á bankastarfsemi vegna þróunar í fjártækni að það þyrfti að flýta sér að selja nú svo að bankarnir yrðu ekki bara verðlausir. Og heiðarlegustu rökin: að það samræmist einfaldlega ekki hugmyndafræði áhugamanna um bankasölu innan ríkisstjórnarinnar að ríki eigi banka.

8. Samkeppniseftirlitið hefur áhyggjur af samkeppnislegum áhrifum

Ýmiskonar umsagnir hafa borist vegna fyrirhugaðrar sölu. Það kom fæstum á óvart að bæði Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð voru mjög fylgjandi sölu og því ferli sem hefur verið sett fram en að Alþýðusamband Íslands var mótfallið fyrirætluninni. Seðlabankinn skilaði líka umsögn þar sem fátt marktækt kom fram. 

Auglýsing

Sú umsögn sem vakti mesta athygli kom frá Samkeppniseftirlitinu. Það lagði til að ríkið hefði það að leið­ar­ljósi við sölu Íslands­banka að fá sem fjöl­breytt­ast eign­ar­hald aðila sem lík­legir eru til að hafa lang­tíma­hags­muni af traustum banka­rekstri. Þá vildi eft­ir­litið að kaup­endur að stórum hluta Íslands­banka ættu ekki jafn­framt hlut í keppi­nautum hans, að kaup­endur séu ekki mik­il­vægir keppi­nautar eða umsvifa­miklir við­skipta­vinir Íslands­banka. Sú gagnrýni beindist aðallega að lífeyrissjóðum landsins, sem eiga saman stóran hlut í tveimur öðrum skráðum bönkum, Arion banka og Kviku, og allt að helming allra skráðra hlutabréfa í Kauphöll, en þau félög eru stórir viðskiptavinir íslenskra banka. Þá eru lífeyrissjóðir samkeppnisaðilar viðskiptabanka á húsnæðislánamarkaði. 

Sam­keppn­is­eft­ir­litið varaði líka sér­stak­lega við því að selja eign­ar­hluti í bönkum til mikið skuld­settra eign­ar­halds­fé­laga í eigu einka­fjár­festa vegna þeirrar hættu sem slíkt eign­ar­hald getur skap­að. Þar vísar eft­ir­litið til reynsl­unnar af banka­hrun­inu 2008 en bank­arnir voru á þeim tíma að veru­legu leyti í eigu og undir stjórn skuld­settra eign­ar­halds­fé­laga í eigu einka­fjár­festa sem gjarnan voru jafn­framt meðal stærstu við­skipta­vina bank­anna, ýmist beint eða óbeint.

9. Meirihlutinn vill selja allt að 35 prósent hlut

Þær tvær nefndir Alþingis sem þurftu að skila umsögn um greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna bankasölunnar, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, gerðu það í síðustu viku. Meirihluti í báðum nefndum var skipaður einvörðungu stjórnarþingmönnum og þeir komust að samhljóma niðurstöðu. Selja ætti 25 til 35 prósent hlut í bankanum ef rétt verð fengist fyrir og hámarka ætti hlut hvers kaupanda við 2,5 til 3,0 prósent. Skoða ætti að greiða út arð úr Íslandsbanka áður en hlutur í bankanum yrði seldur en eigið fé hans umfram 17 prósent kröfu Fjármálaeftirlitsins var tæplega 58 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Ekki liggur alveg skýrt fyrir hversu mikið af því er útgreiðanlegt sem stendur og það þarf að meta. Stjórnarandstöðuflokkarnir voru ósammála nálgun ríkisstjórnarinnar og sá eini þeirra sem var skýrt á þeirri skoðun að selja ætti hlut í Íslandsbanka nú var Viðreisn, en fulltrúi flokksins í nefndunum vildi að einhverju leyti aðra aðferðarfræði við söluna. 

Í ljósi þessa mun nú hefjast hið formlega ferli. Bankinn verður verðmetinn og ef allt gengur sem skyldi mun hlutafjárútboð fara fram í maí eða júní þar sem hluti hans verður seldur.

10. Kannanir sýna skýra andstöðu almennings

Ein helsta niðurstaða Hvítbókar um framtíðarsýn fjármálakerfisins er að traust þurfi til svo það virki sem skyldi. Í könnun sem gerð var við gerð Hvítbókarinnar kom fram að 61,2 pró­sent lands­manna væri jákvæður gagn­vart því að íslenska ríkið sé eig­andi við­skipta­banka. Ein­ungis 13,5 pró­sent þeirra voru nei­kvæðir gagn­vart því og 25,2 pró­sent höfðu ekki sér­staka skoðun á því.

Landsmenn hafa áhyggjur af spillingu og græðgi í fjármálakerfinu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í nið­ur­stöðum hennar kom líka fram að þau þrjú orð sem flestum Íslend­ingum datt í hug til að lýsa banka­­kerf­inu á Íslandi voru háir vext­ir/­­dýrt/ok­­ur, glæp­a­­starf­­sem­i/­­spill­ing og græðgi. Þar á eftir komu orð eins og van­­traust, hrun og há laun/­­bón­us­­ar/eig­in­hags­muna­­semi. Í könnun sem Gallup birti í febrúar í fyrra kom í ljós að 23 prósent landsmanna treystu Alþingi, þeirri stofnun sem á að fara með sölu Íslandsbanka. Í könnun sem hópurinn Skiltakarlarnir létu MMR gera fyrir sig nýverið kom fram að tveir af hverjum þremur aðspurðum sögðust ekki treysa Bjarna Benediktssyni til að selja Íslandsbanka. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Alþýðusamband Íslands, og var birt á föstudag, kom fram að tæp 56 pró­sent lands­manna leggj­ast gegn því að ríkið selji hlut sinn í Íslands­banka á næstu mán­uð­um. Alls 23,5 pró­sent sögðust vera fylgj­andi sölu og 20,8 pró­sent sögðust ekki hafa skoðun á mál­inu, hvorki með né á móti.

Mjög mismunandi afstaða birtist hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna til áformanna. Hjá þeim sem ætla að kjósa Vinstri græn er andstaðan mikil (65 prósent eru á móti en 23 prósent er hlynnt, hinum er alveg sama). Í raun njóta áformin einungis afgerandi stuðnings hjá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokks (56 prósent þeirra eru fylgjandi sölu en einungis 21 prósent á móti, og 23 prósent hafa ekki skoðun á málinu). 

Tekið skal fram að í spurn­ing­unni sem Gallup lagði fyrir svar­endur var ekki til­greint hversu stóran hluta ríkið ætl­aði sér að selja.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar