Mynd: Birgir Þór Harðarson

Tíu staðreyndir um sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka

Til stendur að selja allt að 35 prósent hlut í ríkisbanka í sumar. Upphaf þessa ferils má rekja til bankahrunsins. Hér er allt sem þú þarft að vita um ætlaða bankasölu, álitamál henni tengt og þá sögu sem leiddi til þeirrar stöðu sem nú er uppi.

1. Svona eign­að­ist ríkið stærstan hlut fjár­mála­kerf­is­ins

Íslenska ríkið setti á fót þrjá nýja banka eftir banka­hrunið utan um, aðal­lega, inn­lendar eignir og skuld­ir. Arion banki Íslands­banki urðu síðan að mestu eign kröfu­hafa þeirra á meðan að Lands­bank­inn hélst í opin­berri eigu, en við gerð stöð­ug­leika­samn­ing­anna fór Íslands­banki aftur til rík­is­ins. 

Heim­ild hefur verið fyrir því að selja hluti rík­is­ins í bönkum í fjár­lögum frá árinu 2014. Fyrst var um að ræða þann litla hlut sem það átti í Arion banka og Íslands­banka og allt að 30 pró­sent hlut í Lands­bank­an­um. Þessi heim­ild hefur svo tekið breyt­ingum eftir því sem eign­ar­hald rík­is­ins hefur þró­ast. Það á enda ekk­ert lengur í Arion banka, sú 13 pró­sent hlutur var seldur í febr­úar 2018 fyrir 23,4 millj­arða króna til helstu kröfu­hafa Kaup­þings.

2. Samið um að selja í stjórn­ar­sátt­mála

Sú rík­is­stjórn sem mynduð var undir for­sæti Katrínar Jak­obs­dóttur í nóv­em­ber­lok 2017 hefur haft það mark­mið, stað­fest í stjórn­ar­sátt­mála, að leita leiða til að draga úr eign­ar­haldi rík­is­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækj­um.

Til að vinna að þessu mark­mið var skip­aður hópur til að skrifa Hvít­bók um fjár­mála­kerf­ið. Hann skil­aði skýrslu sinni í des­em­ber 2018. Tvær helstu nið­ur­stöður hennar eru að fjár­mála­kerfið sé sam­­fé­lags­­lega mik­il­vægt og að traust sé und­ir­­staða þess að það virki sem skyldi. Það sé síðan hlut­verk rík­­is­ins að tryggja umgjörð sem stuðli að verð­skuld­uðu trausti.

Auglýsing

Þar er líka sagt að heil­brigt eign­ar­hald sé „mik­il­væg for­­senda þess að banka­­kerfi hald­ist traust um langa fram­­tíð. Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­­semi banka og fjár­­hags­­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­­tíma­­sjón­­ar­mið að leið­­ar­­ljósi.“

Á grunni þess­arar nið­ur­stöðu hófu stjórn­völd nán­ast sam­stundis að reyna að selja eign­ar­hluti í rík­is­bönk­unum tveim­ur.

3. Sölu­ferli sett af stað

Rúmum mán­uði eftir að Hvít­bókin var birt sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, að hann vildi að ríkið myndi selja 60-65 pró­sent hlut í Lands­bank­anum og allt hlutafé í Íslands­banka. Heim­ild var fyrir báðum þeim sölum í fjár­lögum á þessum tíma. 

Katrín var sjálf með aðeins aðra nálg­un. Hún sagði það ekki sína sýn að halda Íslands­banka en það sem skipti máli væri að ríkið yrði áfram leið­andi fjár­festir í Lands­bank­an­um. 

Í sept­em­ber 2019 lagði Banka­sýsla rík­is­ins til að fjórð­ungs­hlutur í Íslands­banka yrði seld­ur. Málið var komið á rek­spöl.

4. Mála­miðlun í eig­enda­stefnu

Bjarni sagði í við­tali við Morg­un­blaðið í byrjun febr­úar 2020 að sölu­ferlið myndi hefj­ast innan nokk­urra vikna. Nokkuð ljóst var á við­brögðum hinna stjórn­ar­leið­tog­anna að ein­hvers­konar sam­komu­lag lá fyrir um mála­miðlun í banka­sölu­á­form­um. 

Sú mála­miðlun birt­ist í breyttri eig­enda­stefnu nokkrum vikum síð­ar. Í stað þess að stefnt yrði að því að ríkið ætti 34-40 pró­sent í Lands­bank­anum átti það að eiga „veru­legan hlut“ í bank­anum til lang­frama og ákvörðun um að selja eitt­hvað í honum yrði ekki tekin fyrr en Íslands­banki yrði að öllu leyti seld­ur. Allt var í far­vegi til að hefja sölu­ferli Íslands­banka. Til stóð að selja hlut­inn í svoköll­uðu sam­hliða sölu­ferli, þar sem leitað yrði að erlendum eig­enda að hlut í bank­anum sam­hliða skrán­ingu hans á markað á Íslandi og í erlendri kaup­höll. 

Svo kom kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn.

5. Hætt við en skyndi­lega byrjað aftur

Um miðjan mars 2020 aft­ur­kall­aði Banka­sýsla rík­is­ins til­lögu um að hefja sölu­ferl­ið. Sala banka væri ekki raun­hæf vegna efna­hags­legra aðstæðna á Íslandi og alþjóða­vett­vangi. Málið var salt­að. 

Þar til að það var skyndi­lega end­ur­vakið 17. des­em­ber síð­ast­lið­inn, degi áður en að Alþingi fór í jóla­frí. Það gerð­ist þannig að Banka­sýsla rík­is­ins – stjórn hennar og for­stjóri – sendu til­lögu til Bjarna Bene­dikts­sonar um að selja hlut í Íslands­banka í gegnum skrán­ingu á íslenskan mark­að. Meg­in­rökin sem voru sett fram fyrir þessu í minn­is­blaði sem fylgdi með voru þau að huta­bréfa­mark­aðir hefðu hækkað í kór­ónu­veiru­far­aldr­inum og að Icelandair Group, sem stóð frammi fyrir gjald­þroti, hefði tek­ist að verða sér úti um 30 millj­arða króna í nýtt hlutafé til að lifa áfram. Eign­ar­hald íslenska rík­is­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækjum væri líka hlut­falls­lega það hæsta í Evr­ópu.

Auglýsing

Afkoma Íslands­banka hefði líka verið í lagi, en bank­inn hefur ekki fært niður nema lít­inn hluta þeirra lána til fyr­ir­tækja sem eru í fryst­ingu sem stend­ur. Í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins voru það 20 pró­sent fyr­ir­tækja­lána­bókar bank­ans til fyr­ir­tækja, alls 120,3 millj­arðar króna, og 17,5 millj­arðar króna af lánum til ein­stak­linga. Sam­tals var því um að ræða tæp­lega 138 millj­arða króna. 

Fjórum dögum síð­ar, þegar þing­menn voru komnir í jóla­frí, sendi Bjarni, ásamt ráðu­neyt­is­stjóra sín­um, bréf til Banka­sýsl­unnar og sam­þykkti til­lög­una. Sam­hliða var send grein­ar­gerð til Alþingis og nefnd­ar­mönnum í fjár­laga­nefnd og efna­hags- og við­skipta­nefnd gefin mán­uður til að skila inn umsögn um mál­ið. Hún átti að ber­ast 20. jan­ú­ar, eða tveimur dögum eftir að fyrsti þing­fundur eftir jóla­frí fór fram. 

6. Hætt við að finna erlenda kaup­endur

Grein­ar­gerðin opin­ber­aði það að ekki átti lengur að freista þess að finna erlenda aðila til að kaupa í Íslands­banka. Það þætti ekki lík­legt til árang­urs. Svo­kallað sam­hliða sölu­ferli var því aflagt og ákveðið að skrá Íslands­banka ein­ungis á markað á Íslandi, ekki tví­skrá líka erlendis eins og upp var lagt með til að byrja með. 

Til stendur að selja allt að 35 prósent hlut í Íslandsbanka.
Mynd: Íslandsbanki

Kaup­endur af þessu kerf­is­lega mik­il­væga fyr­ir­tæki, sem átti við síð­asta upp­gjör eigið fé upp á 182,6 millj­arða króna, eiga því að vera íslenskir fjár­fest­ar. Og hann verður skráður í íslenska kaup­höll ein­vörð­ung­u. 

7. Gegn hug­mynda­fræði um eign­ar­hald á banka

Til við­bótar við þau nýju rök sem týnd voru til í minn­is­blaði Banka­sýsl­unnar hafa tals­menn sölu dustað rykið af fyrri rök­semd­ar­færsl­um. Að banka­rekstur sé mikil áhættu­rekst­ur. Að ríkið þyrfti að verða sér úti um fjár­muni til að standa undir kostn­aði vegna COVID-19 aðgerða með sölu eigna. Að framundan væri svo mikil breyt­ing á banka­starf­semi vegna þró­unar í fjár­tækni að það þyrfti að flýta sér að selja nú svo að bank­arnir yrðu ekki bara verð­laus­ir. Og heið­ar­leg­ustu rök­in: að það sam­ræm­ist ein­fald­lega ekki hug­mynda­fræði áhuga­manna um banka­sölu innan rík­is­stjórn­ar­innar að ríki eigi banka.

8. Sam­keppn­is­eft­ir­litið hefur áhyggjur af sam­keppn­is­legum áhrifum

Ýmis­konar umsagnir hafa borist vegna fyr­ir­hug­aðrar sölu. Það kom fæstum á óvart að bæði Sam­tök atvinnu­lífs­ins og Við­skipta­ráð voru mjög fylgj­andi sölu og því ferli sem hefur verið sett fram en að Alþýðu­sam­band Íslands var mót­fallið fyr­ir­ætl­un­inni. Seðla­bank­inn skil­aði líka umsögn þar sem fátt mark­tækt kom fram. 

Auglýsing

Sú umsögn sem vakti mesta athygli kom frá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu. Það lagði til að ríkið hefði það að leið­­ar­­ljósi við sölu Íslands­­­banka að fá sem fjöl­breytt­­ast eign­­ar­hald aðila sem lík­­­legir eru til að hafa lang­­tíma­hags­muni af traustum banka­­rekstri. Þá vildi eft­ir­litið að kaup­endur að stórum hluta Íslands­­­banka ættu ekki jafn­­framt hlut í keppi­­nautum hans, að kaup­endur séu ekki mik­il­vægir keppi­­nautar eða umsvifa­­miklir við­­skipta­vinir Íslands­­­banka. Sú gagn­rýni beind­ist aðal­lega að líf­eyr­is­sjóðum lands­ins, sem eiga saman stóran hlut í tveimur öðrum skráðum bönk­um, Arion banka og Kviku, og allt að helm­ing allra skráðra hluta­bréfa í Kaup­höll, en þau félög eru stórir við­skipta­vinir íslenskra banka. Þá eru líf­eyr­is­sjóðir sam­keppn­is­að­ilar við­skipta­banka á hús­næð­is­lána­mark­að­i. 

Sam­keppn­is­eft­ir­litið var­aði líka sér­­stak­­lega við því að selja eign­­ar­hluti í bönkum til mikið skuld­­settra eign­­ar­halds­­­fé­laga í eigu einka­fjár­­­festa vegna þeirrar hættu sem slíkt eign­­ar­hald getur skap­að. Þar vísar eft­ir­litið til reynsl­unnar af banka­hrun­inu 2008 en bank­­arnir voru á þeim tíma að veru­­legu leyti í eigu og undir stjórn skuld­­settra eign­­ar­halds­­­fé­laga í eigu einka­fjár­­­festa sem gjarnan voru jafn­­framt meðal stærstu við­­skipta­vina bank­anna, ýmist beint eða óbeint.

9. Meiri­hlut­inn vill selja allt að 35 pró­sent hlut

Þær tvær nefndir Alþingis sem þurftu að skila umsögn um grein­ar­gerð fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra vegna banka­söl­unn­ar, fjár­laga­nefnd og efna­hags- og við­skipta­nefnd, gerðu það í síð­ustu viku. Meiri­hluti í báðum nefndum var skip­aður ein­vörð­ungu stjórn­ar­þing­mönnum og þeir komust að sam­hljóma nið­ur­stöðu. Selja ætti 25 til 35 pró­sent hlut í bank­anum ef rétt verð feng­ist fyrir og hámarka ætti hlut hvers kaup­anda við 2,5 til 3,0 pró­sent. Skoða ætti að greiða út arð úr Íslands­banka áður en hlutur í bank­anum yrði seldur en eigið fé hans umfram 17 pró­sent kröfu Fjár­mála­eft­ir­lits­ins var tæp­lega 58 millj­arðar króna í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Ekki liggur alveg skýrt fyrir hversu mikið af því er útgreið­an­legt sem stendur og það þarf að meta. Stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir voru ósam­mála nálgun rík­is­stjórn­ar­innar og sá eini þeirra sem var skýrt á þeirri skoðun að selja ætti hlut í Íslands­banka nú var Við­reisn, en full­trúi flokks­ins í nefnd­unum vildi að ein­hverju leyti aðra aðferð­ar­fræði við söl­una. 

Í ljósi þessa mun nú hefj­ast hið form­lega ferli. Bank­inn verður verð­met­inn og ef allt gengur sem skyldi mun hluta­fjár­út­boð fara fram í maí eða júní þar sem hluti hans verður seld­ur.

10. Kann­anir sýna skýra and­stöðu almenn­ings

Ein helsta nið­ur­staða Hvít­bókar um fram­tíð­ar­sýn fjár­mála­kerf­is­ins er að traust þurfi til svo það virki sem skyldi. Í könnun sem gerð var við gerð Hvít­bók­ar­innar kom fram að 61,2 pró­­sent lands­­manna væri jákvæður gagn­vart því að íslenska ríkið sé eig­andi við­­skipta­­banka. Ein­ungis 13,5 pró­­sent þeirra voru nei­­kvæðir gagn­vart því og 25,2 pró­­sent höfðu ekki sér­­staka skoðun á því.

Landsmenn hafa áhyggjur af spillingu og græðgi í fjármálakerfinu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í nið­­ur­­stöðum hennar kom líka fram að þau þrjú orð sem flestum Íslend­ingum datt í hug til að lýsa banka­­­kerf­inu á Íslandi voru háir vext­ir/­­­dýrt/ok­­­ur, glæp­a­­­starf­­­sem­i/­­­spill­ing og græðgi. Þar á eftir komu orð eins og van­­­traust, hrun og há laun/­­­bón­us­­­ar/eig­in­hags­muna­­­semi. Í könnun sem Gallup birti í febr­úar í fyrra kom í ljós að 23 pró­sent lands­manna treystu Alþingi, þeirri stofnun sem á að fara með sölu Íslands­banka. Í könnun sem hóp­ur­inn Skilta­karl­arnir létu MMR gera fyrir sig nýverið kom fram að tveir af hverjum þremur aðspurðum sögð­ust ekki treysa Bjarna Bene­dikts­syni til að selja Íslands­banka. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Alþýðu­sam­band Íslands, og var birt á föstu­dag, kom fram að tæp 56 pró­­sent lands­­manna leggj­­ast gegn því að ríkið selji hlut sinn í Íslands­­­banka á næstu mán­uð­­um. Alls 23,5 pró­­sent sögð­ust vera fylgj­andi sölu og 20,8 pró­­sent sögð­ust ekki hafa skoðun á mál­inu, hvorki með né á móti.

Mjög mis­mun­andi afstaða birt­ist hjá stuðn­ings­mönnum rík­is­stjórn­ar­flokk­anna til áfor­manna. Hjá þeim sem ætla að kjósa Vinstri græn er and­staðan mikil (65 pró­sent eru á móti en 23 pró­sent er hlynnt, hinum er alveg sama). Í raun njóta áformin ein­ungis afger­andi stuðn­ings hjá stuðn­ings­mönnum Sjálf­stæð­is­flokks (56 pró­sent þeirra eru fylgj­andi sölu en ein­ungis 21 pró­sent á móti, og 23 pró­sent hafa ekki skoðun á mál­in­u). 

Tekið skal fram að í spurn­ing­unni sem Gallup lagði fyrir svar­endur var ekki til­­­greint hversu stóran hluta ríkið ætl­­aði sér að selja.



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar