Mynd: Bára Huld Beck Bjarni Benediktsson

Bankasöluævintýri endurræst í miðjum heimsfaraldri

Ríkisstjórnin stefnir að því að selja hlut í öðrum ríkisbankanum, Íslandsbanka, fyrir lok maí 2021. Tillaga þess efnis var send frá Bankasýslu ríkisins til Bjarna Benediktssonar degi áður en Alþingi fór í jólafrí, og samþykkt af ráðherranum þremur dögum fyrir jól. Eigið fé Íslandsbanka er 182,5 milljarðar króna.

Í byrjun febrúar 2020 fór Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtal við Morgunblaðið. Þar sagði hann að bráðlega ætti að hefja söluferli á fjórðungshlut í Íslandsbanka og að það ætti að komast í almennilegan farveg á yfirstandandi kjörtímabili. Hluturinn væri tug milljarða króna virði og um þá eign ætti að losa. 

Hann bætti um betur í auka­blaði Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sem bar nafnið „Á réttri leið“ og var dreift í aldreif­ingu með Morg­un­blað­inu nokkrum dögum síðar. Þar sagði Bjarni að sala á 25 til 50 pró­sent hlut í Íslands­banka á næstu árum myndi opna á stór tæki­færi til fjár­fest­inga.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Kjarnann skömmu síðar að það væri skyn­sam­legt að ráð­ast í sölu á hlut í Íslands­banka ef það er tengt við það að nota ávinn­ing­inn í inn­viða­fjár­fest­ing­ar. Þannig væri hægt að losa um eignir rík­is­ins og nýta það í þörf verk­efni. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var svo síðastur á vagninn af formönnum ríkisstjórnarflokkanna þegar hann sagðist í samtali við Fréttablaðið að hann teldi skynsamlegt að setja Íslandsbanka í söluferli. Hann setti söluna í sama samhengi og hinir formennirnir, að það væri hægt að nota fjármunina sem bundnir væru í eigninni í innviðauppbyggingu. 

Málamiðlun náðist milli stjórnarflokka

Í lok febrúar 2020 var málið greinilega komið á rekspöl. Málamiðlun hafði náðst milli stjórnarflokkanna sem gerði það kleift að hefja söluferlið á Íslandsbanka í nánustu framtíð. Í henni fólst að gerð var grundvallarbreyti á eigendastefnu varðandi Landsbankann.

Auglýsing

Í eldri eigendastefnunni, sem var frá árinu 2017, sagði að stefnt yrði að því að ríkið ætti verulegan eignarhlut, 34 til 40 prósent, í bankanum til langframa. Að öðru leyti yrðu eignarhlutir ríkisins seldir „á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi“ samhliða því að hann yrði skráður á hlutabréfamarkað.

Í nýju eigendastefnunni var búið að taka út það stærðarmark sem æskilegt sé að ríkið ætti í Landsbankanum. Þess í stað segir að ríkið eigi að eiga „verulegan hlut“ í bankanum til langframa. 

Búið var að taka út áform um að selja eignarhlutinn strax og hagfelld og æskileg skilyrði yrðu fyrir hendi og áform um að skrá hann á hlutabréfamarkað. Þess í stað var búið að bæta því inn í eigendastefnuna að ákvörðun um sölu Landsbankans yrði ekki tekin fyrr en að söluferli Íslandsbanka sé lokið.

Markmiðið með eignarhaldi ríkisins á þessum stærsta banka landsins hafði líka breyst. Í gömlu eigendastefnunni sagði að ástæða þessa væri „til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu og tryggja nauðsynlega innviði þess.“ 

Engin breyting var hins vegar gerð á markmiðum ríkisins hvað varðar eignarhald á hinum bankanum sem ríkið á, Íslandsbanka. Enn er stefnt að því að selja bankann „þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.“

Banki ekki seldur í faraldri...eða hvað?

Kórónuveirufaraldurinn virtist ætla að leiða til þess að þessi áform yrðu fyrir bí. Það efnahagsástand sem skapaðist vegna hans gerði það að verkum að bankar áttu að verða gerðir að lykilbreytu í áformum stjórnvalda hérlendis til að takast á við aðstæðurnar og koma fjármunum til heimila og fyrirtækja. 

Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi.
Mynd: Íslandsbanki

Á skömmum tíma var bindiskylda lækkuð niður í núll og sveiflujöfnunarauki sem lagðist á eigið fé bankanna afnumin. Aflétt­ing kröfu um ­sveiflu­jöfn­un­ar­auka átti að auð­velda banka­kerf­inu að styðja við heim­il­i og fyr­ir­tæki með því að skapa svig­rúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 millj­örðum króna.

Þá voru samþykkt lög sem áttu að gera Seðlabanka Íslands kleift að veita ábyrgðir fyrir lánum til fyrirtækja upp á tugi milljarða króna.

Þá var, að minnsta kosti um tíma, fyrirliggjandi að stjórnvöld og Seðlabanki Íslands höfðu sent skýr skilaboð til viðskiptabanka sem hafa nú verulega aukið svigrúm til að ráðstafa eigin fé sínu að það svigrúm ætti ekki undir neinum kringumstæðum að notast til að greiða út arð eða kaupa upp eigin bréf banka. 

Þvert á móti átti nýta eiginfjárstuðninginn sem stafar af aðgerðum stjórnvalda til að fjár­magna fyr­ir­tæki og heim­ili, ekki í þágu hluthafa bankanna. 

Þegar allt þetta var samandregið, og að fyrirliggjandi er versta kreppa sem Ísland og líkast til heimurinn hefur staðið frammi fyrir blasti við átti að vera ljóst að banki yrði ekki seldur úr ríkiseigu á yfirstandandi kjörtímabili. 

Bankarnir lána ekki atvinnulífinu heldur fyllast af peningum

Svo fóru hlutirnir öðruvísi en til stóð. Bankarnir lánuðu vissulega út töluvert af fé, en aðallega í húsnæðislán til þeirra sem voru þegar vel settir og áttu eignir. Lán til atvinnufyrirtækja námu nettó alls 809 milljónum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Til samanburðar lánuðu bankarnir tæplega 209 milljarða króna til atvinnufyrirtækja, eða 258falt það sem þeir hafa lánað það sem af er ári. 

Auglýsing

Fyrir vikið eru viðskiptabankarnir allir troðfullir af peningum sem þeir segjast vera í erfiðleikum með að ávaxta. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði til að mynda í tilkynningu vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungs beint út að bankinn væri með of mikið eigið fé. 

Þann 17. desember birti svo Bankasýsla ríkisins minnisblað sem innihélt tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka.

Skyndilega, degi áður en að þingi var slitið, var einkavæðing ríkisbanka á yfirstandandi kjörtímabili komin aftur á dagskrá.

Tillaga um söluferli samþykkt á meðan að Alþingi er í fríi

Í minnisblaðinu segir að ekki sé talið rétt að ákveða á þessum tíma­punkti hversu stóran hlut í bank­anum eigi að bjóða til sölu í útboð­inu, „þar sem áætluð eft­ir­spurn fjár­festa eftir hlutum í Íslands­banka, bæði varð­andi fjölda hluta og verð á hlut, muni ein­ungis liggja fyrir eftir fjár­festa­kynn­ingar undir lok sölu­ferl­is.“ Nú fól til­lagan ekki lengur í sér að hluti eign­ar­hluta rík­is­ins verði seldur hæst­bjóð­anda í beinni sölu, heldur er ein­ungis lagt til af hálfu banka­sýsl­unar að stefna að skrán­ingu eign­ar­hluta á verð­bréfa­markað hér­lendis í kjöl­far almenns útboðs.

Auglýsing

Lagt var til að sölu­ferli bank­ans hefj­ist í jan­úar og gert er ráð fyrir því að því gæti lokið í maí.

Bjarni, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu, sendu bréf til baka á Bankasýsluna 21. desember þar sem tillaga hennar um að hefja sölumeðferð á Íslandsbanka var samþykkt. 

Bjarni sagði við Morgunblaðið fyrr í þessum mánuði að gera mætti ráð fyrir að virði eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka væri 130 til 140 milljarðar króna. 

Það þýðir að fjármála- og efnahagsráðherra reiknar með því að fá minna en eina krónu fyrir hverja krónu sem Íslandsbanki á í eigið fé. 

Eigið fé ríkisbankans 182,5 milljarðar

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 var hagnaður Íslandsbanka af áframhaldandi starfsemi 3,5 milljarðar króna. Hagnaður bankans hefur aukist þegar liðið hefur á árið, eftir að nauðsynlegar niðurfærslur vegna COVID-19 höfðu verið teknar inn í reikning hans, og var hagnaður Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi til að mynda 3,1 milljarður króna, eða einum milljarði króna meiri en hann var á sama tíma í fyrra. 

Íslandsbanki á mikið eigið fé. Í lok september var það 182,5 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið þá var 22,2 prósent, sem er vel yfir kröfum Seðlabanka Íslands um 17 prósent eigið fé. Umfram eigið féð hleypur því á tugum milljarða króna. Hluta þess væri hægt að greiða út til nýrra hluthafa þegar þeir taka við bankanum, og aðstæður til arðgreiðslna skapast að nýju. Það gæti orðið strax á árinu 2022.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar