Betri tíð

Nánast hvergi á byggðu bóli ríkir meiri jöfnuður en á Íslandi, hvort sem litið er til eigna eða tekna. Engu máli virðist skipta hvar borið er niður, skrifar framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Auglýsing

Horfur í þjóðarbúskapnum voru bjartar eftir mörg gjöful ár þegar bannsett veiran kom og sneri öllu á haus í lok febrúar. Þessi óboðni gestur hefur varpað dökkum skugga á þjóðlífið og leikið mörg grátt. Blessunarlega hafa innviðir samfélagsins reynst nægilega sterkir til að halda faraldrinum í skefjum, en það hefur kostað miklar fórnir.  

Slæmu fréttirnar

Grundvöllur ferðaþjónustu, sem öðrum atvinnugreinum fremur lyfti þjóðinni úr öldudal bankahrunsins á undraskömmum tíma, hvarf á einni nóttu án þess að nokkur fengi rönd við reist. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi með réttu eða röngu. Þeirra hlutverk er ekki öfundsvert því flest sem gert er orkar tvímælis og fordæmi til að styðjast við eru engin. Eins og hendi sé veifað horfum við á blómleg fyrirtæki án tekna og tugi þúsunda vinnufúsra handa án verkefna. Höggið bitnar beint og óbeint á öllum rekstri, þó að enn séu í landinu sterk fyrirtæki, sem betur fer.

Auglýsing

Landsframleiðsla dróst saman um meira en 10 prósent á þriðja fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Ferðaþjónustan, helsta uppspretta gjaldeyristekna, var ekki svipur hjá sjón. Samdrátturinn þar nam 77 af hundraði. Um er að ræða mesta samdrátt í einu hagkerfi í Evrópu. Dökkar tölur eru enn í spilunum.

Mótvægið

Viðbrögð við þrengingunum hafa að mörgu leyti heppnast vel. En mótvægisaðgerðirnar hafa í för með sér að ríkissjóður þenst út, miklu meira en gengur upp til lengdar. Ríkið hefur þurft að taka lán fyrir þessum útgjöldum. Áætlað er að samanlagður halli ríkissjóðs á þessu ári og því næsta verði meira en 500 milljarðar króna.

Gripið var til nauðsynlegra úrræða á borð við greiðslu launa á uppsagnarfresti, hlutabótaleið, lokunarstyrki og brúarlán til fyrirtækja. Tekjufallsstyrkjum verður útdeilt til einyrkja og smærri rekstraraðila.

Starfsemi stærsta fyrirtækis landsins, Icelandair, hefur meira og minna verið í skötulíki síðan ósköpin dundu yfir. Engum duldist á miðju ári að fyrirtækið reri lífróður. Ríkisábyrgð á lánalínum var afar mikilvæg fyrir hlutafjárútboðið, sem ráðist var í. Undirtektir fjárfesta voru þegar upp var staðið vonum framar. Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum og félagið komst fyrir vind.

Um miðjan nóvember kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðir sem hún kallar viðspyrnu fyrir Ísland. Þar má finna almennar og sértækar félagslegar aðgerðir og viðspyrnuaðgerðir fyrir fyrirtæki. Í þessum aðgerðum felst til dæmis að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekjufalli geta fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði.

Góðu fréttirnar

Góðu fréttirnar eru þær að bólusetning er þegar hafin. Þar njótum við smæðarinnar. Með samhentu átaki allra, sem við höfum svo oft náð í mótbyr, getum við bólusett stóran hluta þjóðarinnar á mettíma.

Heilbrigðiskerfið hefur sannað sig, svo ekki verður um villst, í þessu risaverkefni og framlag einkaaðila til þeirrar baráttu hefur skipt sköpum. Listir, menning og íþróttir blómstra svo eftir er tekið um lönd og álfur. Ísland er í fremstu röð í jafnréttismálum, þótt auðvitað þurfi að halda jafnréttisbaráttu áfram. Hér ríkir bæði málfrelsi og tjáningarfrelsi og öflugir fjölmiðlar eru starfræktir.

Auglýsing

Ekki má gleyma innflytjendunum, útlent fólk sem sest hefur að á Íslandi um lengri eða skemmri tíma setur mark sitt á þjóðlífið. Það er ekki síst aðfluttu fólki að þakka að hjól samfélagsins snúast á þessum erfiðu tímum. Lykilstofnanir eins og sjúkrahús og hjúkrunarheimili eru mönnuð vinnufúsu fólki frá öllum heimshornum. 

Nánast hvergi á byggðu bóli ríkir meiri jöfnuður en á Íslandi, hvort sem litið er til eigna eða tekna. Engu máli virðist skipta hvar borið er niður. Ísland er öruggt land - hér er gott  að vera barn og fullorðin og allar forsendur eru til að finna öllum vinnufúsum höndum verðug verkefni. Þannig komumst við í gegnum þetta, reynslunni ríkari.

Framtíðin

Verkefni dagsins er að þreyja þorrann, klára nauðsynlegar bólusetningar og þannig tryggja að við getum umgengist hvert annað eðlilega. Getum hitt vini og fjölskyldu á mannamótum, farið á tónleika, í bíó og leikhús. Mætt í vinnuna, ferðast og stundað líkamsrækt. 

Þá tekur allt við sér og við komumst fljótt og örugglega upp úr þessari óvæntu kreppu, öflugri en nokkru sinni. 

Bráðum kemur nefnilega betri tíð.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit