Kannt þú að beygja kýr?

Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, fer yfir árið sem var að líða en hún segir að ef íslenskan eigi að halda velli þá verði hún að vera tungumál okkar allra hér á landi – og að hleypa þurfi öllum að og leyfa þeim að tala með sínu nefi.

Auglýsing

Þegar litið er yfir árið 2020 virðist ekkert annað komast að nema COVID. Skiljanlega. Tíminn milli jóla og nýárs, „milli áranna“ eins og það heitir á móðurmáli mínu, er þessi tími til að skoða og endurskoða, velta fyrir sér hvort eitthvað nýtt, kannski eitthvað betra gæti komið með nýja árinu. Hvort við höfum ekki lært eitthvað og nú sé kominn tími til að láta reyna á.

Þegar COVID skall á sat þjóðin límd við skjáinn klukkan 14 á hverjum degi. Þríeykið naut (for)dæmalauss trausts, það var ekkert sem við treystum þeim ekki fyrir og við vorum ekki svo hrædd, við vorum í öruggum höndum hjá þessum sérfræðingum sem leiddu okkur í gegnum þetta. Þjóðin? Nei, kannski ekki alveg. Ekki ef við skilgreinum þjóðina með þeim sem hér búa. Því þau sem töluðu ekki íslensku eða ekki nægilega mikið til að geta fylgst með sóttvarnaráðstöfunum, þau voru ekki með. Ótrúlegt en satt, þá var fyrst reynt að nota Google translate sem var ónothæft. Þegar alvöru þýðingar fóru af stað í mörgum tungumálum var það vel gert en kannski aðeins of seint. Innflytjendur höfðu misst af þessum glugga þar sem við hin vorum að byggja upp þetta traust með daglegu áhorfinu á blaðamannafundinn. Aðaláherslan á að vernda gamla fólkið var kannski ekki í forgrunni hjá fólki sem á ekki eldri ættingja hér. Innflytjendur hér eru flestir ungir og eiga börn í grunnskólum. Og þar fengu þeir upplýsingar um að skólunum hefði verið lokað heima en ekki hér. Ætti sem sagt ekki  að vernda börnin þeirra? Hvað var í gangi? Foreldrar af erlendum uppruna kusu þá í miklu meiri mæli að senda börnin sín ekki í skóla í vor. Áhyggjur voru þá kannski mest vegna þessa hóps þar sem ekkert foreldri talar íslensku og var þar af leiðandi í erfiðara stöðu við að styðja barnið sitt heima í náminu.

Hvernig stendur á þessu, hvað greinir að?

Vendipunkturinn minn í ár er þessi: Hver er framtíð íslensks samfélags ef það skiptist í tvennt milli fólks sem talar íslensku og fólks sem talar ekki íslensku, hvaða áhrif hefur það á samfélagsþróun, lífsgæði, tækifærin í lífinu?

Mikið og oft er rætt um ógn við íslenska tungu, fólk hefur áhyggjur af því að íslenskan hrapi í mikilvægi eða tapist jafnvel. Á tveimur vígstöðum er baráttan brött – á níunda áratugnum var frjálsu markaðsöflunum leyft að spara með því að sleppa að íslenska tölvutæknina og tölvuleikina. Þessi ógn hefur ekkert með innflytjendur að gera – enda hef ég ekki heyrt unglinga á mínu heimili sletta mikið á pólsku. Þetta olli því hins vegar að börn á Íslandi eru í dag, á máltökuskeiði og fram á unglingsaldur, ekki nægilega mikið í íslenskumælandi umhverfi, því þau eru að leika sér á ensku. 

En svo er annar vígvöllur þar sem við erum við það að tapa, við stöndum frammi fyrir þeirri ógn að hafa hér ekki lengur eitt samfélag sem getur talað saman á sama tungumáli. Og þessi ógn stafar af því að innflytjendum er í raun haldið frá íslenskumælandi samfélagi.

Auglýsing

Og hvar er vandinn? Einfaldast er kannski að byrja á því hvar vandinn er ekki. Það vantar ekki endilega áhuga hjá innflytjendum, en ég þori að fullyrða að fáir flytji hingað staðráðnir frá byrjun að læra aldrei íslensku. Eins og fram kom i Fréttablaðinu þann 28. október sl. hefur verið slegið nýtt met í aðsókn innflytjenda í íslenskukennslu hjá Retor fræðslu. Því miður endurspeglast það ekki í auknum framlögum frá ríkinu, hækkun milli ára í úthlutun til íslenskukennslu var nákvæmlega 0 krónur og hafði þar áður nokkurn veginn staðið í stað í 10 ár, hefur hvorki fylgt fjölgun innflytjenda né vísitölu neysluverðs. 

Önnur einföld skýring er að benda á námsframboð. Samkvæmt rannsókn Háskólans á Akureyri frá 2019 er meirihluti innflytjenda ósáttur við framboð á íslenskunámi, en Markus Meckl, prófessor við félagsvísindadeild HA, bendir þar sérstaklega á að hér vanti gæðaviðmið og menntun kennara í íslensku sem annað mál.

Góðsögnin um íslensku

Fyrir sumt fólk er vissulega mjög erfitt að læra íslensku, kannski vegna móðurmálsins sem er mjög frábrugðið, vinnuálags eða menntunarstigs. En þetta skýrir samt ekki allt. Nú fer ég kannski yfir strikið ef ég þori að andmæla goðsögninni að íslenska sé erfiðasta tungumál í heimi. Margir halda því fram með ákveðnu stolti eins og það sé ákveðin upphefð fólgin í því að þeim tókst að læra það og enginn annar gæti það. Þegar maður segir: Nei, eiginlega ekki, mér fannst miklu erfiðara að læra t.d. rússnesku virðist fólkið stundum næstum því móðgað. Íslenskan er að vissu leyti erfið fyrir fólk með ensku sem móðurmál vegna flækjustigs í beygingarkerfinu, en það er á svipuðu flækjustigi og t.d. mörg slavnesk mál. Íslenskan er ekki endilega erfiðust, en hún er kannski ekki eins aðgengileg og mörg önnur tungumál. Hún birtist manni hvergi nema  hér á landi, það talar hana nánast enginn utan landsteinanna. Ekki allt efni, ekki síst í stafræna heiminum er til á íslensku, sama gildir um námsefni í framhalds- og háskólum. 

Mörg fyrirtæki leggja sig mikið fram að kenna starfsfólki sínu íslensku sem er frábær fjarfesting í þágu allra, viðskiptavina, starfsfólksins og fyrirtækisins. En við sjáum líka mikinn launaþjófnað. Gæti verið að einhverjir sjái kannski ekki hagsmuni sína í því að starfsfólk þeirra læri íslensku og gæti þar með haft betri aðgang að upplýsingum um réttindi sín eða myndað tengsl við Íslendinga sem gætu sýnt þeim stuðning? Verðum við ekki að spyrja okkur hverjir græða á því að halda innflytjendum utan samfélagsins, utan þeirra lífsgæða sem Ísland hefur að bjóða? Viljum við kannski hafa þetta svona, þarna er fólk á lágum launum, sem er einangrað frá hinum, gerir engar kröfur, hefur hingað til verið að stærstum hluta á vinnumarkaðnum, á besta aldri og bara að vinna og kostar samfélagið ekki mikið, hvorki heilbrigðiskerfið né almannatryggingar og kvartar ekki einu sinni?

Ég veit um mörg sem hafa búið hér árum saman án þess að tala íslensku, en hafa á þeim tíma sem þau hafa búið hér lært bjagaða ensku. Sum þeirra telja jafnvel að það sem mundi bæta lífsgæði sín væri að bæta enskukunnáttuna. Og það er kannski rétt! Þegar maður lærir aðeins betri ensku getur maður strax fengið aðeins betra starf. En þegar fólk leggur á sig jafnvel þriggja ára háskólanám í íslensku en fær samt ekki virkilega gott starf, til hvers þá?

Raunveruleikinn fyrir suma innflytjendur er einfaldlega sá að þau þurfa ekki á íslensku að halda. Og ef hvatinn er enginn þá lærir fólk ekki. 

Tvískipting samfélagsins

Þannig að samfélagið er orðið tvískipt. Ekki samt einfaldlega Íslendingar og útlendingar. Í þeim hópi sem nýtur þeirra gæða sem íslenskt samfélag hefur fram að færa eru nefnilega margir innflytjendur sem hafa lært tungumálið, fengið góð störf og viðurkenningu á menntun sinni.

Svo er hinn hópurinn ekki heldur einsleitur, þarna er til að mynda vel menntað fólk sem mætti kalla heimshornarflakkara eða expats, fólk sem dvelur hér og talar góða ensku í samræmi við lífsmáta sinn, þau eiga vini sem tala ensku við þau og eru í störfum þar sem enskan dugar. Þau njóta lífsins og komast af án þess að læra tungumálið og lái þeim hver sem vill. Það getur verið skemmtilegt og gefandi að eyða nokkrum árum í útlöndum, njóta lífsins og gefa af sér í gegnum skapandi störf og samtöl. Getum kannski hugsað til Íslendinga sem vinna í nokkur ár í Dúbaí í slíku umhverfi, þeir læra að vísu aldrei arabísku, en annars getur þetta verið gefandi tímabíl í lífi þeirra. 

Ég hef velt þessu fyrir mér lengi. Hver er ég til að dæma þetta fólk í einhvers konar íslensku-forræðishyggju? En niðurstaðan var samt, jú, það má hafa áhyggjur af þessari þróun. Til að mynda ef þeir sem hafa alla burði til þess að læra íslensku, menntun, tíma, tækifæri og getu, gera það ekki, nota sína forréttindastöðu ekki til þess að byggja brýr og hjálpa samfélaginu að sjá innflytjendur sem „lífrænan“ hluta af samfélaginu, hvernig getum við þá krafist þess af þeim sem hafa ekki slíkar möguleika? Því eitt er víst: Ef útlenskur sérfræðingur með ensku að móðurmáli býr hér í 20 ár án þess að tala íslensku þá truflar það svo sem engan. En þegar ég vann í túlkaþjónustu hafði ég varla tölu á því hversu oft var spurt hvort einhver sjúklingur sem hafði búið hér í 10 ár, kannski eldri, ólæs kona af asískum uppruna, hefði ennþá rétt að fá túlk í læknisheimsókn. Hún fær nefnilega ekki sama umburðarlyndi.

Ég efast um að margir taki þessa ákvörðun að læra ekki íslensku. Langoftast gerist það bara. Það er í lagi í byrjun og ef allt virkar sæmilega, þá venst það. Íslendingar eru yfirleitt umburðarlyndir og vilja vera svo miklir heimsborgarar. Nánir vinir eða makar reyna að hlífa þessu fólki frá því að þurfa að gangast í gegnum þetta erfiða, stundum niðurlægandi tímabil, þegar maður stígur sín fyrstu skref í nýju tungumáli. Það getur nefnilega verið óþægilegt fyrir fullorðna manneskju þegar hún upplifir að fólk talar niður til hennar, að geta ekki tjáð þær flóknu hugsanir sem hún hefur. En til langs tíma þá gerum við þessu fólki ekki greiða! Þvert á móti: Við höldum því fast á hliðarlínunni, sem skapar útilokun til langs tíma. Því það kemur alltaf að því að einhver talar ekki ensku við þau. Þegar liður á kvöldið og fólk byrjar að gleyma sér í boðinu. Eða þegar börnin koma heim með vini úr skólanum, getur útlenska foreldrið þá gert kröfu að þau tali ensku saman? Og ef ekki, hvernig liður öllum með þetta? Jafnvel þótt við viljum sjá börn af erlendum uppruna ná betri árangri í íslenskunni en raunin er, þá eru þau samt yfirleitt fljótari að ná tökum á nýju tungumáli. Og eins og ég þekki vel frá tyrkneskum vinum mínum í Þýskalandi þá getur það verið yfirþyrmandi ábyrgð á herðum barna að þurfa að vera þetta millistykki milli foreldra sinna og samfélagsins. Alltaf í vörn, alltaf að reyna að miðla, að sætta aðila sem tala ekki saman.

En ábyrgðin er líka hjá okkur öllum. Við gerum illt verra með því að skipta alltaf yfir á ensku þrátt fyrir að einhver reyni að tala íslensku. Með þessu erum við að fæla fólk frá því að læra íslensku því það það fær ekki tækifæri að æfa sig. En alvarlegra er kannski hvaða skilaboð við sendum með þessu: Þú verður hvort sem er aldrei nógu góður, þú átt ekki heima hér, þú tilheyrir ekki mínum hópi. Ekki einu sinni að reyna það. 

Svo mætum við eiginlega alltaf bara fólki sem virðist að tala íslensku fullkomlega, kannski höldum við að annað megi ekki. En ef íslenskan á að halda velli, þá verður hún að vera tungumál okkar allra hér, þá þarf að hleypa öllum að og leyfa þeim að tala með sínu nefi. Það þarf að styðja miklu betur við frekari íslenskukennslu innflytjenda, ekki senda þá bara á byrjendanámskeið og segja svo „good for you“.

Og hvernig var aftur með að kunna að beygja kýr? 

Minnsta mál segi ég: „Belja, um belju, frá belju, til belju“.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit