Mynd:Pexels

Hlutabréfaviðskipti hafa ekki verið fleiri á Íslandi frá hrunárinu 2008

Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands jókst um 312 milljarða króna í fyrra. Eftir sögulega dýfu í upphafi kórónuveirufaraldursins þá náði hlutabréfamarkaðurinn sér verulega á strik þegar leið á árið. Frá botninum, sem náð var í mars, og til áramóta hækkaði úrvalsvísitalan um meira en 60 prósent.

Frá 21. febrúar til 9. mars í fyrra lækkaði úrvalsvísitala íslensku Kaup­hall­ar­inn­ar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á mark­aði sem hafa mestan selj­an­leika, um 22,5 prósent. Síðarnefndi dagurinn var svartasti dagur í íslensku Kauphöllinni frá því að íslenskur hlutabréfamarkaður var endurreistur eftir bankahrun. Á honum einum saman lækkaði úrvalsvísitalan um 8,44 prósent. Á þessum rúmu tveimur vikum lækkaði virði þeirra félaga sem skráð eru á markað um rúmlega 281 milljarð króna.

Þetta var ástand sem var út um allan heim. Ástæðan var útbreiðsla COVID-19.

Staðan átti eftir að versna umtalsvert næstu daga. Þann 12. mars tilkynnti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, um ferðabann og í kjölfarið lokuðust landamæri víða um heim. Óvíssan var algjör og hrun á hlutabréfamörkuðum endurspeglaði það. Í ljósi þess óróa sem skapaðist beitti Nas­daq Iceland hf., sem rekur íslensku kaup­höll­ina, svokölluðum sveiflu­vörðum fyrir öll hluta­bréf, kaup­hall­ar­sjóð og skulda­bréf sem skráð eru. Slíkt er afar óvenjulegt og gert til að draga úr væntum sveiflum á hlutabréfaverði. 

Auglýsing

Þann 23. mars náði úrvalsvísitalan botni ársins. Hún hafði þá lækkað um 37,1 prósent á rúmum mánuði. Yfir þriðjungur af öllu markaðsvirði skráðra fyrirtækja hafði horfið.

En þá tók landið að rísa. 

Lægri vextir og efnahagsaðgerðir sköpuðu súrefni

Umfangsmiklar efnahagsgerðir þjóðríkja sneru stöðunni við. Vextir lækkuðu sem gerðu fjármagn ódýrara og peningum var bókstaflega dælt inn í hagkerfi heims til að halda þeim gangandi á meðan að heimsfaraldurinn gengur yfir. 

Afleiðingarnar voru skýrar hérlendis sem annarsstaðar, sérstaklega á hlutabréfamarkaðinum. Frá 23. mars og til loka árs hækkaði úrvalsvísitalan um 61,4 prósent. Af þeim 19 félögum sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallar Íslands hækkuðu 17 í virði á síðasta ári. 

Alls eru 19 félög skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands.
Mynd: Nasdaq Iceland

Úrvalsvísitalan, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á markaði sem hafa mestan seljanleika, hækkaði um 20,5 prósent á árinu 2020, sem er næst mesta hækkun innan árs í áraráðir. Frá 2012 hefur hún einungis hækkað meira á tveimur árum: árið 2015, þegar hún hækkaði um 43,4 prósent, og árið 2019 þegar hún hækkaði um 31,4 prósent. 

Til viðbótar við þessa hækkun öfluðu skráð félög sér 29 milljarða króna á markaði, en þar bar hlutafjárútboð Icelandair Group hæst, enda þriðja stærsta hlutafjárútboð í sögu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Samhliða varð tvöföldun á fjölda einstaklinga sem áttu bréf skráð á markaðnum, enda þátttaka almennings í hlutafjárútboði Icelandair Group mikil. 

Auglýsing

Fjöldi viðskipta jókst mikið á síðasta ári þegar þau voru 56.337, eða 226 á dag. Það eru 58 prósent fleiri viðskipti en voru á árinu 2019 og mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í tólf ár, eða frá hrunárinu 2008. Íslenskur hlutabréfamarkaður nær þurrkaðist út eftir bankahrunið í október það ár og því má segja að árið í fyrra sé metár hins endurreista hlutabréfamarkaðar þegar kemur að fjölda viðskipta. 

Icelandair Group í sérflokki

Einungis tvö félög hefja árið 2021 minna virði en þau voru í byrjun síðasta árs; áðurnefnt Icelandair Group en bréf í félaginu lækkuðu um 78,3 prósent á árinu 2020, og fasteignafélagið Reitir, sem lækkaði um 2,9 prósent.

Verð hlutabréfa í Kviku banka, sem skráður var á aðalmarkað vorið 2019, hækkuðu mest allra á síðasta ári, eða um 63,5 prósent. Í öðru sæti yfir þau bréf sem hækkuðu mest voru hlutabréf í tryggingafélaginu TM, sem hækkuðu um 53,6 prósent. Í lok nóvember var tilkynnt um að Kvika myndi sameinast TM og Lykli.


Auglýsing

Í þriðja sæti yfir mestu hækkanir voru bréf í Origo sem hækkuðu um 50,9 prósent á árinu 2020. Á First North markaðnum hækkuðu verð bréfa Hampiðjunnar um 75 prósent. 

Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 1.563 milljarðar samanborið við 1.251 milljarð í lok árs 2019 sem er 24 prósent hækkun milli ára. Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 4 á Nasdaq First North. Eitt félag, Heimavellir, var afskráð á árinu 2020. Nokkrir hluthafar í Skeljungi hafa sömuleiðis gert yfirtökutilboð í félagið og ætla að afskrá það gangi áform þeirra eftir. Það mun koma í ljós á næstu dögum hvort svo verði.

Stærstu eigendur skráðra hlutabréfa á Íslandi eru áfram sem áður íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir eiga um helming skráðra bréfa, annað hvort beint eða óbeint í gegnum hlutabréfasjóði sjóðsstýringafyrirtækja. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar