Mynd:Pexels

Hlutabréfaviðskipti hafa ekki verið fleiri á Íslandi frá hrunárinu 2008

Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands jókst um 312 milljarða króna í fyrra. Eftir sögulega dýfu í upphafi kórónuveirufaraldursins þá náði hlutabréfamarkaðurinn sér verulega á strik þegar leið á árið. Frá botninum, sem náð var í mars, og til áramóta hækkaði úrvalsvísitalan um meira en 60 prósent.

Frá 21. febr­úar til 9. mars í fyrra lækk­aði úrvals­vísi­tala íslensku Kaup­hall­­ar­inn­­ar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á mark­aði sem hafa mestan selj­an­­leika, um 22,5 pró­sent. Síð­ar­nefndi dag­ur­inn var svart­asti dagur í íslensku Kaup­höll­inni frá því að íslenskur hluta­bréfa­mark­aður var end­ur­reistur eftir banka­hrun. Á honum einum saman lækk­aði úrvals­vísi­talan um 8,44 pró­sent. Á þessum rúmu tveimur vikum lækk­aði virði þeirra félaga sem skráð eru á markað um rúm­lega 281 millj­arð króna.

Þetta var ástand sem var út um allan heim. Ástæðan var útbreiðsla COVID-19.

Staðan átti eftir að versna umtals­vert næstu daga. Þann 12. mars til­kynnti Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, um ferða­bann og í kjöl­farið lok­uð­ust landa­mæri víða um heim. Óvíssan var algjör og hrun á hluta­bréfa­mörk­uðum end­ur­spegl­aði það. Í ljósi þess óróa sem skap­að­ist beitti Nas­daq Iceland hf., sem rekur íslensku kaup­höll­ina, svoköll­uðum sveiflu­vörðum fyrir öll hluta­bréf, kaup­hall­­ar­­sjóð og skulda­bréf sem skráð eru. Slíkt er afar óvenju­legt og gert til að draga úr væntum sveiflum á hluta­bréfa­verð­i. 

Auglýsing

Þann 23. mars náði úrvals­vísi­talan botni árs­ins. Hún hafði þá lækkað um 37,1 pró­sent á rúmum mán­uði. Yfir þriðj­ungur af öllu mark­aðsvirði skráðra fyr­ir­tækja hafði horf­ið.

En þá tók landið að rísa. 

Lægri vextir og efna­hags­að­gerðir sköp­uðu súr­efni

Umfangs­miklar efna­hags­gerðir þjóð­ríkja sneru stöð­unni við. Vextir lækk­uðu sem gerðu fjár­magn ódýr­ara og pen­ingum var bók­staf­lega dælt inn í hag­kerfi heims til að halda þeim gang­andi á meðan að heims­far­ald­ur­inn gengur yfir. 

Afleið­ing­arnar voru skýrar hér­lendis sem ann­ars­stað­ar, sér­stak­lega á hluta­bréfa­mark­að­in­um. Frá 23. mars og til loka árs hækk­aði úrvals­vísi­talan um 61,4 pró­sent. Af þeim 19 félögum sem skráð eru á Aðal­markað Kaup­hallar Íslands hækk­uðu 17 í virði á síð­asta ári. 

Alls eru 19 félög skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands.
Mynd: Nasdaq Iceland

Úrvals­vísi­talan, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á mark­aði sem hafa mestan selj­an­leika, hækk­aði um 20,5 pró­sent á árinu 2020, sem er næst mesta hækkun innan árs í ára­ráð­ir. Frá 2012 hefur hún ein­ungis hækkað meira á tveimur árum: árið 2015, þegar hún hækk­aði um 43,4 pró­sent, og árið 2019 þegar hún hækk­aði um 31,4 pró­sent. 

Til við­bótar við þessa hækkun öfl­uðu skráð félög sér 29 millj­arða króna á mark­aði, en þar bar hluta­fjár­út­boð Icelandair Group hæst, enda þriðja stærsta hluta­fjár­út­boð í sögu íslenska hluta­bréfa­mark­að­ar­ins. Sam­hliða varð tvö­földun á fjölda ein­stak­linga sem áttu bréf skráð á mark­aðn­um, enda þátt­taka almenn­ings í hluta­fjár­út­boði Icelandair Group mik­il. 

Auglýsing

Fjöldi við­skipta jókst mikið á síð­asta ári þegar þau voru 56.337, eða 226 á dag. Það eru 58 pró­sent fleiri við­skipti en voru á árinu 2019 og mesti fjöldi við­skipta á hluta­bréfa­mark­aði í tólf ár, eða frá hru­nár­inu 2008. Íslenskur hluta­bréfa­mark­aður nær þurrk­að­ist út eftir banka­hrunið í októ­ber það ár og því má segja að árið í fyrra sé metár hins end­ur­reista hluta­bréfa­mark­aðar þegar kemur að fjölda við­skipta. 

Icelandair Group í sér­flokki

Ein­ungis tvö félög hefja árið 2021 minna virði en þau voru í byrjun síð­asta árs; áður­nefnt Icelandair Group en bréf í félag­inu lækk­uðu um 78,3 pró­sent á árinu 2020, og fast­eigna­fé­lagið Reit­ir, sem lækk­aði um 2,9 pró­sent.

Verð hluta­bréfa í Kviku banka, sem skráður var á aðal­markað vorið 2019, hækk­uðu mest allra á síð­asta ári, eða um 63,5 pró­sent. Í öðru sæti yfir þau bréf sem hækk­uðu mest voru hluta­bréf í trygg­inga­fé­lag­inu TM, sem hækk­uðu um 53,6 pró­sent. Í lok nóv­em­ber var til­kynnt um að Kvika myndi sam­ein­ast TM og Lykli.Auglýsing

Í þriðja sæti yfir mestu hækk­anir voru bréf í Origo sem hækk­uðu um 50,9 pró­sent á árinu 2020. Á First North mark­aðnum hækk­uðu verð bréfa Hamp­iðj­unnar um 75 pró­sent. 

Mark­aðsvirði skráðra hluta­bréfa var í árs­lok 1.563 millj­arðar sam­an­borið við 1.251 millj­arð í lok árs 2019 sem er 24 pró­sent hækkun milli ára. Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 4 á Nas­daq First North. Eitt félag, Heima­vell­ir, var afskráð á árinu 2020. Nokkrir hlut­hafar í Skelj­ungi hafa sömu­leiðis gert yfir­tökutil­boð í félagið og ætla að afskrá það gangi áform þeirra eft­ir. Það mun koma í ljós á næstu dögum hvort svo verði.

Stærstu eig­endur skráðra hluta­bréfa á Íslandi eru áfram sem áður íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir. Þeir eiga um helm­ing skráðra bréfa, annað hvort beint eða óbeint í gegnum hluta­bréfa­sjóði sjóðs­stýr­inga­fyr­ir­tækja. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar