Ár veiru, almannagæða og almannaskaða

Þórólfur Matthíasson gerir upp árið 2020 og varar við fölskum söng þegar horft er til framtíðar.

Auglýsing

Í framtíðinni verður efalítið talað um árið 2020 sem veiruárið. Veirufárið hefur að sjálfsögðu sett mark sitt á allt sem lýtur að sóttvörnum, almannavörnum, lyfjarannsóknum, faraldursfræði og læknisfræði. Veiran hefur sett mark sitt á öll mannleg samskipti og mannlegt félag síðastliðna 10 mánuði eða svo. Hagfræðin er engin undantekning í því efni. Hagfræðingar þurftu þó ekki að finna upp ný hugtök eða nýjar aðferðir til að greina afleiðingar fársins og gefa ráð um möguleg viðbrögð. En veiran varð til þess að hugtök sem áður voru umfjöllunarefni á mis-syfjulegum fyrirlestrum urðu allt í einu að almenningseign. Hugtök á borð við almannagæði (e. public goods) og ytri áhrif (e. externalities) setja nú frekar en áður mark sitt á orðræðu stjórnmálamanna, stjórnmálaskýrenda og annarra sem fjalla um álitaefni á opinberum vettvangi. En hvert er inntak þessara hugtaka og hvaða leiðbeiningu má fá um úrlausnarefni veiruársins með þau að vopni?

Almannagæði

Hreint og ómengað andrúmsloft eru almannagæði. Sama á við um „veirufrítt“ samfélag. Forfeður og formæður okkar bjuggu ekki við þau almannagæði. Mislingar, barnaveiki, hlaupabóla, kólera og aðrar sóttir gengu með jöfnu millibili rétt eins og inflúensa gerir nú.  Þessar farsóttir áttu sinn þátt í stuttri meðalævi. Sumar sóttir lögðust þungt á yngstu aldurshópana, aðrar á þá eldri, enn aðrar á þá sem voru á miðjum aldri. Helstu tækin til að hefta útbreiðslu farsótta á fyrri tíð voru sóttkví og einangrun. Þessi tæki virkuðu misvel, mest vegna þess að þeir sem þeim beittu skildu, eða misskildu, eðli smitefnis og smitleiðir. Þannig voru holdsveikir settir í ævilanga sóttkví og einangrun.

Nú hafa Vesturlandabúar fengið að kynnast því um hríð hvernig lífið er þegar almannagæðin „veirufrítt“ samfélag eru af skornum skammti. Tilkoma veirunnar minnkaði hagkerfi heimsins um 3-10% í einu vettvangi. Við getum svo reynt að velta fyrir okkur áhrifum viðvarandi drepsóttarhættu á hagvaxtarmöguleika. Netflix tæki við af kvikmyndahúsum, streymi tæki við af tónleikum og leiksýningum, fjarkennsla tæki við af skólasókn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir bæði framboð á og eftirspurn eftir þessum þáttum öllum. Líklega myndu hagkerfi þróast til aukins sjálfsþurftarbúskapar þar sem ekki er hægt að koma stafrænum lausnum við. Ávinningur af verslun myndi minnka. Ávinningur af persónulegri þjónustu myndi sjálfsagt að mestu leyti hverfa. Þær fjölskyldur yrðu vel settar sem byggju að flinkum sjálfmenntuðum hársnyrtum og sjúkraþjálfurum. Að maður tali ekki um sjálfmenntaða tannúrdráttar-tækna.

Ytri áhrif og almannaskaði

Þau ytri áhrif sem fylgja drepsóttum eru býsna mögnuð. Hagfræðingar segja gjarnan söguna um býfluguna og blómin þegar þeir útskýra hugtakið: Býflugurnar sækja hunang í blómin, og auðga þannig býflugnabóndann. En í leiðinni eykst uppskera þess sem að ræktun stendur. Þannig eykur starfsemi býflugnaræktandans ávinning eplabóndans þó svo blýflugnabóndanum sé „slétt sama“ um afkomu eplabóndans. Þarna eru dæmi um jákvæð ytri áhrif sem fyrst og fremst eru milli tveggja aðila, býflugnabóndans og eplabóndans. En ytri áhrif geta líka verið neikvæð og jafnvel haft á sér yfirbragð almannaslæmsku (public bad): Sá sem leggur af stað að heiman í sínum einkabíl klukkan 8 mínútur í 8 á hefðbundnum morgni í Reykjavík kemst vissulega á endanum á áfangastað. En í leiðinni tefur hann fyrir öllum hinum sem lögðu af stað um svipað leyti.  Í leiðinni rótar hann upp svifryki sem veldur öðrum angri og vanlíðan. Allt eru þetta dæmi um neikvæð ytri áhrif þar sem aðgerðir eins hafa neikvæð áhrif á marga.

Auglýsing
Þó neikvæð ytri áhrif hafi yfirbragð almannaslæmsku er umfangi þeirra oftast nær ákveðin takmörk sett. Í morgunumferðinni kennir reynslan sumum að flýting eða seinkun brottferðar sparar tíma. Ferðamenn forðast sömuleiðis staði þar sem loftmengun er mikil, sumir heimamanna flytja burt og kjósa minni mengun. Hin neikvæðu áhrif tempra sinn eigin vaxtarferil. Það sama er ekki hægt að segja um smitandi drepsótt. Smitandi drepsótt temprar sig sjálfa með því að drepa hýsla smitefnisins eða með því að hýslar sem hafa sýkst mynda ónæmi gagnvart endurtekinni sýkingu. Í spænsku veikinni féllu 50-100 milljónir manna á sínum tíma. Þetta er mikilvægt vegna þess að það þýðir að aðgerðarleysi gagnvart smitandi drepsótt er ekki valkostur þó svo aðgerðarleysi gagnvart öðrum neikvæðum ytri áhrifum kunni að vera skásta lausnin í bráð. Smitsótt sækir fram samkvæmt lögmálum veldisvaxtar: einn sýkir fjóra, fjórir sýkja sextán, sextán sýkja sextíu og fjóra, sextíu og fjórir sýkja 1024, ........ Þetta hefur þó farið framhjá sumum þeirra sem fjalla um stjórnmál reglulega. Stöku álitsgjafar, gjarnan tengdir umsvifamiklum atvinnurekendum, hafa hamrað á að ekki megi draga of mikið úr efnahagsumsvifum. Þessir álitsgjafar hafa skyndilega miklar áhyggjur af að streita og einmanaleiki, atvinnuleysi og aðgerðarleysi muni höggva skörð í mannhjörðina. Þessi afstaða afhjúpar bæði rörsýn og takmarkaða virðingu fyrir staðreyndum. Rörsýn vegna þess að buddunni er gefinn algjör forgangur. Skammtíma atvinnuleysi skapar vissulega vandamál, sérstaklega ef það verður að langtímaatvinnuleysi. Skaðleg áhrif Covid-19 koma fram á 2-8 vikum. Þessar staðreyndir skammta forgang: Baráttan við veiruna verður að hafa forgang fram yfir baráttuna við efnahagsleg áhrif hennar; til skamms tíma litið. Það er ekki einfalt viðfangsefni. Í lok árs dregur tímaritið Economist saman helstu tölur, sem ekki eru mjög upplífgandi: Yfir 70 milljónir manna hafa sýkst og aukningin er nú 4,3 milljónir á viku; 7 milljónir glíma við langvinn áhrif sýkingarinnar og vitað er um 1,6 milljónir dauðsfalla vegna Covid-19. Þeim fjölgar um 75 þúsund á viku og enn er langt í að þessi vonska sé að drepa sjálfa sig (með myndun hjarðónæmis). Það hleypur veldisvöxtur í þessar tölur í hvert sinn sem slakað er á.

Bjartara ljós við enda ganganna

Læknisfræðileg viðbrögð við Covid-19 hafa styrkst eftir því sem liðið hefur á árið. Þróun bóluefnis, sem í upphafi árs var talin taka áratug, er lokið. Nú er unnið að tæknilegum úrlausnarefnum; að auka framleiðslu úr hundruðum skammta í milljarða skammta; að framleiða lyfjaglös; að framleiða þurrís til að flytja efnið; að kenna heilbrigðisstarfsfólki að gefa bóluefnið. Lækningarúrræði fyrir þá sem fá Covid hafa batnað, en framþróunin á þeim vettvangi er mun hægari en þróun bóluefnis. Þessar „læknisfræðilegu“ staðreyndir hafa breytt möguleikum stjórnvalda til að grípa inn í atburðarásina. Í stað þess að leggja áherslu á að hemja veldisvöxt (jafnvel líta á línulegan vöxt sem sigur) næstu 5-10 árin varð raunhæft upp úr miðju ári (eða fyrr) að miða aðgerðir við „fullnaðarsigur“ gagnvart farsóttinni innan 2ja ára. Í stað þess að gera áætlanir um að lifa með veirunni í áratug gátu stjórnvöld undirbúið aðgerðaráætlun byggða á næstum veirulausri framtíð eftir 2 ár. Þó það kunni að hljóma þversagnarkennt gefur tilvist bóluefnisins tilefni til að herða sóttvarnaraðgerðir, takmarka ferðir og ferðalög, takmarka framboð á persónulegri þjónustu. Það er því ekki hægt að fagna góðum tíðindum með hefðbundnum hætti

Fálmkennd viðbrögð eða fumlaus

Viðbrögð stjórnvalda við ógn drepsóttarinnar hafa spannað allan skalann, frá afneitun (Trump, Bolsenaro) til algjörs útgöngubanns (Kína). Kínverjar bættu sér upp seinagang og afneitun á upphafsvikum farsóttarinnar með þvingunum sem einvörðungu eru mögulegar í fáræðisríkjum. Með lokun landamæra og tímabundnum lokunum einstakra landsvæða tókst bæði Áströlum og Ný-Sjálendingum að takmarka útbreiðslu veirunnar og nánast kæfa hana. Fjöldi þeirra sem hafa smitast er um 1100 á milljón í Ástralíu, ríflega 400 á milljón á Nýja Sjálandi, á móti 15.000 á milljón á Íslandi og 55.000 á milljón í Bandaríkjunum. Nýgengi í Ástralíu og Nýja Sjálandi mælist um það bil 1 á milljón á dag nú samanborið við um 20 á milljón á dag hér á landi.

Nýja Sjáland og Ástralía eru eyjar þó stærri séu en Ísland. Aðeins íbúar landanna hafa fengið að koma inn í landið og geta þurft að sæta hálfs mánaðar einangrun áður en þeim er heimilt að fara út meðal samborgaranna. Blossi farsóttin upp eins og gerðist í Melbourne fyrr í haust er gripið til harðra útgöngutakmarkana. Í Bandaríkjunum og Brasilíu geisar farsóttin stjórnlítið eða stjórnlaust með tilsvarandi mannfórnum (yfir 300 þúsund Bandaríkjamenn eru nú fallnir í valinn). Ísland er, ásamt hinum Norðurlöndunum og löndum Norður-Evrópu, einhvers staðar á „skárri“ enda skalans ef svo má segja. Farsóttin geisar ekki stjórnlaust, en langt er í frá að sami árangur hafi náðst eins og í löndunum tveimur í Eyjaálfu. Ástæðuna má rekja til þess að stjórnvöld hér á landi jafnt og í nágrannalöndunum hafa ekki náð að virða almannaslæmsku-einkenni farsóttarinnar með sama hætti og stjórnvöld Ástralíu og Nýja Sjálands. Hér á landi og víðar í Evrópu hafa stjórnvöld látið undan efnahagslegum hagsmunum strax og tekst að koma böndum á nýgengi. Á miðju sumri var búið að ná þeim árangri að Ísland var nánast veirulaust, rétt eins og Nýja Sjáland. Þá voru landamæri opnuð og óskimuðum ferðalöngum veitt frjáls för um landið. Afleiðingarnar komu fram nokkrum vikum síðar, sjá mynd 1. Mynd 1: Samanburður Ísland (blár ferill), Nýja Sjáland og Ástralía (dökkir ferlar), heimild covid.hi.is.

Seinni toppurinn á bláa ferlinum er augljós afleiðing opnunarinnar. Á meðan Ný Sjálendingar stefna 40.000 manns á rugby-leik loka Íslendingar skólum og takmarka mjög aðgang fólks að verslunum og veitingahúsum. Samanburður á reynslu þessara eyþjóða þriggja sýnir svo ekki verður um villst að opin landamæri og veirufrítt land fara ekki saman. Lokuð landamæri, eða skilyrðislaus krafa um einangrun við komu til landsins, eru ekki trygging fyrir veirulausu landi, en eru nauðsynleg forsenda.

Hagvaxtartölur benda ekki til að harðar sóttvarnaraðgerðir í Ástralíu og Nýja Sjálandi hafi haft teljandi neikvæð áhrif á hagvöxt eða hagþróun samanborið við t.d. Bandaríkin þar sem sóttvarnir hafa verið í skötulíki. Tafla 1 sýnir ársfjórðungslegan vöxt landsframleiðslu í þessum löndum þremur auk Íslands. Ársfjórðungsvöxtur Nýja Sjálands á 3ja ársfjórðungi 2020 er með því allra mesta sem mælst hefur þar í landi.Tafla 1: Vöxtur landsframleiðslu frá síðasta ársfjórðungi, prósent, heimild OECD.

Úrvinnsla efnahagslegra afleiðinga

Veiruvarnir koma afar misjafnt niður á ólíkum atvinnuvegum, ólíkum starfshópum, ólíkum aldurshópum. Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda koma illa niður á hag sumra en bæta hag annarra umfram það sem hefði orðið. Samfélagssátt og réttlæti kallar á að stjórnvöld grípi til efnahagsaðgerða sem milda höggið gagnvart þeirri starfsemi og þeim starfsmönnum sem er beinlínis bannað að starfa. Hlutabótaleið og lenging gildistíma tekjutengdra atvinnuleysisbóta uppfylla þetta skilyrði að hluta. En margir hópar uppfylla ekki skilyrði fyrir bótum af þessu tagi og þar hafa íslensk stjórnvöld verið svifasein samanborið við stjórnvöld víða annars staðar.

Samanlagður halli hins opinbera á árunum 2020 til 2022 verður um 30% af landsframleiðslu. Þessi mikli hallarekstur er mögulegur af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var skuldastaða hins opinbera (ríkisins sérstaklega) góð við upphaf faraldursins. Í öðru lagi er innlendur sparnaður óvenjumikill. Þannig koma opinber útgjöld að hluta til í stað einkaútgjalda án þess að setja þrýsting á gengi og skuldakjör erlendis. Allt er þetta í stíl við forspár John Maynard Keynes frá því á 4. áratug 20. aldar. Aukinn sparnaður einkageirans getur kallað fram efnahagssamdrátt eða efnahagskreppu. Við þær aðstæður getur hið opinbera gripið inn í og dregið úr samdrætti eða komið í veg fyrir samdrátt. Með aðgerðum sínum örvar hið opinbera tekjusköpunina, eykur þjóðartekjur. Ísland hf. verður ríkara en ella vegna hallareksturs ríkissjóðs! Það er mikilvægt að sá árangur verði ekki að engu gerður með óhóflegum aðhaldsaðgerðum og niðurskurði þegar landið fer að rísa á ný. Slíkar raddir eru vissulega teknar að heyrast þó ekki sé byggt á úttektum eða hagfræðilegri þekkingu. Sá söngur er falskur. 

Höf­undur er pró­­­fessor í hag­fræði við Háskóla Íslands. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit