Um nánd, arkitektúr og skipulag

Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt segir að ýmislegt sem séu forréttindi ættu að vera mannréttindi.

Auglýsing

„Fór í kvöldgöngu og það er margt kósý í gangi í bænum. Kona á Bergstaðastræti var á brjóstahaldaranum að hengja upp jólaskraut, það var karaokepartý á Þórsgötu og fullur maður með flöskur í poka studdi sig við staur á Vitastíg.“ Þetta tíst frá Þórdísi Gísladóttur, rithöfundi, framkallaði sæluhroll í mér. Sjálf bjó ég í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi áður en ég flutti í miðborg Árósar og nálægð húsa og fólks skiptir mig máli. Fyrir mér er Þórdís að skrifa um nánd í umhverfinu. Hvernig við verðum vör við hvert annað - og þegar þörf er á, komum hvert öðru við. 

Þegar við fáum að vita að nálægð geti verið hættuleg okkur, að snerting sé nánast ekki leyfð, áttum við okkur á því hvað nándin er okkur mikilvæg. Að finna fyrir fólki, samfélagi – að tilheyra. Að sjá fólk, að brosa til fólks og sýna að við komum hvert öðru við. 

Skipulag húsa, vega, stíga, þjónustu og atvinnuhúsnæðis skiptir hér lykilmáli. Nálægð og þéttleiki eru lykilorð en líka umhverfið, tré, gróður og rýmið á milli húsanna. Að rýmið fyrir nándina sé áþreifanlegt. 

Þetta þarf ekki að vera flókið – arkitektúrinn sem þarf að birtast við götu getur verið á marga vegu og með góðri hönnun yrði þetta leikur einn. Ef um er að ræða íbúðir við umferðargötu þá eru svokallaðir forgarðar bestir, fjalldrapi, lyng, blóðberg gæti átt komandi áratug. Staður til að sitja á og kinka kolli, hin svokölluðu „kantzone“ – rými sem eru milli þess að vera prívat og opinber. Litlar verslanir þyrftu að fá stóra glugga og hverskyns þjónusta biði uppá betra hjólastólaaðgengi, hjólaaðgengi og gönguaðgengi en þekkist í dag. Rýmið fyrir framan húsin væri fyrir fólk frekar en farartæki. 

Auglýsing
Sjálf hef ég á þessu ári fundið ríka þörf fyrir að heilsa, bjóða góðan daginn – brosa jafnvel til ókunnugra. Á hjólaferð minni í vinnuna á hverjum degi (þá mánuði sem ég hef verið send heim hef ég „hjólað í vinnuna“ fram og til baka til að setja hausinn af stað) hef ég séð að ég er ekki sú eina sem þrái nánd. Ég sé mikið af  sama fólkinu á ferð, konuna með hundinn, eldri manninn með nettópokann og manninn á svölunum með sófapúðann undir olboganum og sígarettuna í hönd. Ég á í samskiptum við þetta fólk á hverjum degi, með brosi, augsambandi og við kinkum kolli. Á þessum fordæmalausu tímum finn ég að þetta gefur mér fyllingu, eitthvert óútskýrt frelsi í að tilheyra heild og stærra samhengi en bara innan veggja íbúðarinnar okkar. Mér finnst ég tilheyra samfélagi. 

Ég get valið um 2 hjólaleiðir í vinnuna* eina sem býður uppá náttúru og kyrrð, líffræðilegan fjölbreytileika og ríkt samband við náttúru og aðra sem er hörð umferðargata, vel bein og greið, 2 akreinar í sitthvora áttina, hjólastígar og göngustígar báðum megin. Upp að þessari götu er mikil byggð, bæði minni fjölbýlishús, einbýlishús og allskyns verslanir á afmörkuðum hluta. Á þessum fordæmalausu tímum hef ég alltaf valið götuna, umferðina, hávaðann og fólkið. Hér er samfélagið að reyna að halda sér við, halda haus og þá finn ég hvernig nálægð og nánd skiptir máli. Ekki misskilja mig – náttúran og nálægð hennar er mér hugleikin alla daga en í þessari hávísindalegu rannsókn minni á eigin hegðun hef ég samt greint hvernig ég laðast að ljósi, lífi og umferð meira en fuglasöng og kyrrð. Það sem hefur gerst er að núfylli ég á tankinn meðal fólks, áður fór ég út í náttúruna.

Lykilorðið á þessu ferðalagi mínu á hverjum degi er val – eða réttara sagt, frelsi til að velja. Frá miðbæ Hafnarfjarðar og til miðborgar Árósar varð helsta breytingin okkar sú að dagur fjölskyldunnar er ekki bundinn í bíl lengur. Við komumst allra ferða okkar óháð bíl. 

Þetta eru forréttindi en ættu að vera mannréttindi!

Í gegnum vinnu mína heima á Íslandi var ég óþrjótandi talsmaður Borgarlínunnar því í mínum huga er hún táknmynd alls sem hefur að gera með frelsi, efnahag og möguleika hverfa á að verða sjálfbær. Skipulag hverfa á höfuðborgarsvæðinu þarf að taka mið af fjölbreytileika og blöndun. En hún getur líka orðið táknmynd nándarinnar, hvernig við mætumst og hreyfum okkur í umhverfinu. 

Nýleg grein Berglindar Rósar Magnúsdóttur, Auðar Magndísar Auðardóttur og Kolbeins Stefánssonar um skólahverfi á höfuðborgarsvæðinu og þá augljósu stéttaskiptingu sem á sér stað á höfuðborgarsvæðinu ætti að gefa barnamálaráðherra tilefni til beinna afskipta af skipulagsmálum. 

Barnamálaráðherra gæti t.d. látið skoða kvaðir um blöndun hverfa, að 20 % íbúða yrðu bundnar ákveðnu almennu kerfi. Þetta gæti hjálpað við að koma í veg fyrir að heilu og hálfu fjölbýlishúsin yrðu reist til að „redda“. Þetta gæti líka hjálpað til við að fá sameiginlegt átak á höfuðborgarsvæðinu, í stað þess að sumum sveitarfélögum finnist eðlilegt að láta önnur sveitarfélög tækla félagslega blöndun sem gerir það að verkum að stéttaskiptingin á milli hverfa og sveitarfélaga hefur aukist til muna.

Sannanlega er hér um að ræða kjarna þess sem pólitík er, að „deila út fjármunum í innviði“ – en eins og skipulagsmálum er háttað á höfuðborgarsvæðinu þá virðast sum sveitarfélög geta ár eftir ár séð til þess að vandamálin, áskoranir og samfélagsblöndun höfuðborgarsvæðisins sé leyst annarsstaðar! 

Tíminn sem fer í það að leysa bílastæðamál einstakra reita er mun meiri en fer í það að leysa hvar börnin muni leika sér, hvar fólk mun mætast og hvar við getum komið hvert öðru við. 

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn en hvernig þorpið er samansett skiptir höfuðmáli. Að tryggð sé nánd, að tryggð sé blöndun, bæði félagsleg og efnahagsleg. Þannig græða allir. Of mikil einsleitni kostar samfélagið meira, nú og til lengri tíma litið.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs -  með von um að 2021 verði ár nándarinnar.

*Áður en við tökum umræðu um veðurfar, hjólabúnað, hjólafatnað eða flatlendi Danmerkur, þá vil ég nefna að þeir 7,4 km sem ég hjóla í vinnuna eftir að hafa mokað börnum í skóla eru um 100m upp í mót  auk þess sem hér er er mótvindur á leiðinni í vinnuna og aftur heim. Ég hef aldrei tíma til að skipta um föt og geri ráð fyrir því að þorna á hverjum degi. Hér hefur nefnilega rignt og verið þungbúið samfleytt í 3 mánuði! Ég átti það alveg til að hjóla á milli Hafnarfjarðar og Borgartúns og get fullyrt að þessi leið er sambærileg hvað varðar erfiðleika og hugarfar!

Höfundur er arkitekt.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar