Mynd: Birgir Þór Harðarson

Veiran í stjórnmálunum

Benedikt Jóhannesson, fyrsti formaður Viðreisnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, gerir upp árið sem nú er næstum liðið. Hann segir fjóra Framsóknarflokka í landinu, þrjá í stjórn og einn í stjórnarandstöðu. Þeir eigi það sameiginlegt að vilja halda í forréttindi ákveðinna hópa og vera neikvæðir í garð frekara alþjóðasamstarfs Íslands.

Við Íslend­ingar erum heppin þjóð. Í Banda­ríkj­unum ráfar rugl­aður maður um Hvíta hús­ið. Hann náðar fjöl­marga vini sína (og flestir vinir hans virð­ast þurfa á sak­ar­upp­gjöf að halda) og heldur enn að hann geti snúið við úrslitum kosn­inga með því einu að segj­ast hafa unnið þær. Pútín, vinur Banda­ríkja­for­seta í Rúss­landi, gengur skrefi lengra. Þar fá fyrr­ver­andi for­setar og fjöl­skyldur þeirra frið­helgi vegna allra glæpa sem þeir hafa framið eða kunna að fremja. Lög­reglan eða rann­sak­endur geta sam­kvæmt lög­unum ekki yfir­heyrt for­set­ana fyrr­ver­andi, hand­tekið þá eða leitað í hús­næði þeirra. Reyndar er lík­legt að Trump feti í fót­spor félaga sína og gangi alla leið, náði sig og fjöl­skyld­una alla, enda bráð­nauð­syn­legt. Sar­kozi, fyrr­ver­andi Frakk­lands­for­seti, sýndi ekki sömu for­sjálni og bíður dóms vegna spill­ing­ar.

Ekki að okkur finn­ist okkar ráða­menn alltaf vera hvít­þvegnir englar. Óþægi­lega oft eru þeir á röngum stað á röngum tíma. Grímu­lausir eða með jafn­vel með grímu sýna þeir minni aðgát en predikuð er yfir okkur hin­um. Samt er aðförin að sótt­varn­ar­reglum örugg­lega ekki úthugsuð eins og aðförin að lýð­ræð­inu austan hafs og vest­an. Íslenska rík­inu er núorðið sjaldan beitt til þess að  klekkja á póli­tískum and­stæð­ing­um. Áður var öldin önn­ur. Hriflu-Jónas rak hik­laust þá emb­ætt­is­menn sem voru honum ekki þókn­an­leg­ir. Helst áttu þeir auð­vitað að vera Fram­sókn­ar­menn, en það dugði ekki alltaf til. 

Auglýsing

Margt má um Jónas segja, en hann var senni­lega fyrstur Íslend­inga til þess að hugsa nútíma­legt flokka­kerfi fyrir rúmri öld. Hér átti að vera borg­ara­lega sinn­aður flokk­ur, annar sem hugs­aði um hag alþýð­unnar og sá þriðji sem gætti hags­muna bænda. Hann sá ekki fyrir klofn­ing­inn milli hæg­fara krata og komm­ún­ista og arf­taka þeirra, en ann­ars var flokka­kerfi Jónasar ríkj­andi mest­alla 20. öld­ina og fram á þá næstu.

Draumur Jónasar varð martröð þjóð­ar­innar

Ólík­legt er að Jónas hafi búist við því að hér yrðu margir Fram­sókn­ar­flokk­ar, sem kenndu sig við vinstri, hægri eða miðju. Þrír í stjórn og sá fjórði, sem er reyndar mesti Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, er utan stjórnar að sinni. Þegar Hriflu-Jónas var og hét var hann, flokk­ur­inn og Sam­bandið eitt. Mið­flokk­ur­inn hefur reyndar enga sam­vinnu­hug­sjón og er ekki í sam­bandi, en hann hverf­ist um for­ingja sinn eins og Fram­sókn forðum daga og Repúblikana­flokk­ur­inn í dag.

Fram­sókn­ar­flokk­arnir eiga það sam­eig­in­legt að þeir vilja halda í for­rétt­indi ákveð­inna hópa og eru nei­kvæðir í garð frekara alþjóða­sam­starfs Íslands. VG er reyndar sér á báti að því leyti að í orði vill flokk­ur­inn hvorki vera í Atl­ants­hafs­banda­lag­inu né EES, en for­maður flokks­ins mætir þó glaður á ráð­stefnur NATO án þess að frést hafi af ólátum af hennar hálfu.

Auglýsing

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var alltaf í fylk­ing­ar­brjósti þeirra sem vildu greiða fyrir frjálsum við­skiptum þjóða á milli og sam­ræmdum reglum á alþjóða­vett­vangi. Ísland var stofn­að­ili að AGS (Al­þjóða gjald­eyr­is­sjóðn­um), NATO (Norð­ur­-Atl­ants­hafs­banda­lag­in­u), OECD (Efna­hags- og fram­fara­stofnun Evr­ópu) og WTO (Al­þjóða­við­skipta­stofn­un­inn­i). Landið gekk í EFTA (Frí­versl­un­ar­sam­tök Evr­ópu) og EES (Evr­ópska efna­hags­svæð­ið) þegar flokk­ur­inn var í stjórn með Alþýðu­flokkn­um. Þátt­taka Íslend­inga í allri þess­ari stafa­súpu hefur orðið þjóð­inni til mik­illar gæfu. Við höfum notið þess að vera með í hópn­um, fengið leið­bein­ingar og stundum til­tal, við­skipta­hindr­unum hefur verið rutt úr vegi og íslensk fyr­ir­tæki og íslenskir neyt­endur notið góðs af.

Nú er öldin önn­ur. Undir for­ystu land­bún­að­ar­ráð­herra er stigið skref aftur á bak í útboðum á toll­kvótum á land­bún­að­ar­af­urðum og utan­rík­is­ráð­herra vill taka upp samn­ing um inn­flutn­ing á þessum vörum, samn­ing sem opn­aði smá­glufu í vernd­ar­múr­ana umhverfis Ísland. Enn og aftur fer flokk­ur­inn leið hafta og toll­verndar í stað þess að beina beinum styrkjum til bænda, styrkja þá og verja neyt­endur um leið. Ítrekað líta Sjálf­stæð­is­menn á íslenska neyt­endur sem afgangs­stærð, sem eigi að vera ann­ars flokks, hafa minna val en neyt­endur í nágranna­löndum og borga hærra verð.

Flokks­menn VG hafa svo sett fram frum­lega ástæðu fyrir því að íslenskir neyt­endur eigi að borga meira en aðrir fyrir erlendar land­bún­að­ar­vörur (og helst ekki fá að kaupa þær). Þær myndi svo stórt kolefn­is­spor. En aldrei heyr­ist hljóð úr ranni flokks­ins um að stöðva beri útflutn­ing á fiski (eða land­bún­að­ar­vörum) vegna kolefn­is­spors. Lík­lega stíga þessar vörur léttar til jarðar á leið­inni úr landi en þær inn­fluttu.

Kosn­ingar – en um hvað?

Þegar rík­is­stjórnin var mynduð var ein­ing um það milli stjórn­ar­flokk­anna að hún yrði stefnu­laus. Mark­miðið væri kyrr­staða. Hjá VG réði metn­aður um að fá að leiða rík­is­stjórn jafn­vel þótt það kost­aði flokk­inn tvo þing­menn. Þegar stjórnin var kom­inn af stað var kapps­málið að hún sæti til loka kjör­tíma­bils­ins. 

Benedikt segir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vera stefnulausa og hafa það markmið að viðhalda kyrrstöðu.
Mynd: Birgir Þór Harðason

En eins og þjóð­skáldið sagði er svo bágt að standa í stað. Af því rekaldið mátti ekki fara áfram var eina leiðin aftur á bak. Komum betur að því síð­ar.

Á líð­andi ári hefur lítil póli­tík verið á Íslandi. Allur kraftur hefur farið í bar­átt­una við kór­ónu­veiruna og flestir hafa lagst á árarnar um að halda henni skefj­um. Lengst af voru emb­ætt­is­menn látnir stjórna ferð­inni og þrí­eykið svo­nefnda naut vin­sælda og virð­ing­ar. Ráð­herrar horfðu á þetta öfund­ar­aug­um, vildu sjálfir njóta sviðs­ljóss og vel­vildar og hafa verið meira áber­andi í haust­bylgj­unni en áður. Sú ákvörðun gerir enn meiri kröfur til þeirra en ella um að vera öðrum góð fyr­ir­mynd. 

Öll stjórn­mál hverfa í skugga veirunn­ar. Hún er gott skjól því að það er nán­ast eins og land­ráð að gagn­rýna það sem miður fer. Svarið er alltaf: „Veistu ekki að það er heims­far­aldur í gang­i?“ En nú tala for­ingj­arnir eins og pré­dik­arar á trú­ar­sam­komu um ljósið við enda gang­anna. Bólu­efnið er komið til lands­ins og von­andi verður það nægi­legt til þess að útrýma þess­ari ömur­legu veiru sem allra fyrst. 

Fylgi­fiskar veirunnar eiga aftur á móti eftir að elta okkur lengi. Sam­kvæmt fjár­mála­á­ætlun til áranna 2021 til 2025 verða rík­is­fjár­málin nán­ast í rúst í lok tíma­bils­ins. Á hverju ein­asta ári er gert ráð fyrir halla sem alls nemur meira en þús­und millj­örðum á fimm ára tíma­bili hjá ríki og sveit­ar­fé­lögum að frá­töldum opin­berum fyr­ir­tækj­um. Í lok árs 2025 verður hrein eign orðin nei­kvæð sam­kvæmt áætl­un­inni.

Rík­is­stjórnin tók við svo góðu búi að hún taldi eðli­legt að stór­auka útgjöld og huns­aði við­var­anir um að aftur gæti komið kreppa. Hún taldi sig nefni­lega vera búna að minnka líkur á síð­ustu kreppu, sem öllum að óvörum kom ekki aft­ur. Það er fjarri mér að halda því fram að ég hafi séð Covid-krepp­una fyr­ir, en ég veit að eina fyr­ir­hyggj­an, sem hjálpar í öllum krepp­um, er að borga niður skuld­ir. Þegar ég var fjár­mála­ráð­herra lagði ég fram fjár­mála­á­ætlun þar sem útgjöld rík­is­ins dróg­ust saman um 3% af lands­fram­leiðslu. Því mark­miði var auð­vitað hent út í hafs­auga af núver­andi stjórn­ar­flokk­um.

Auglýsing

Í stað for­sjálni og ábyrgðar náði rík­is­stjórnin að reka rík­is­sjóð með millj­arða halla í hag­vexti síð­asta árs. Slíkt er líka létt­vægt í stjórn­málum sam­tím­ans, eng­inn krafð­ist afsagnar ráð­herra eða afsök­un­ar­beiðni. Fæstir vita að það var halli í góð­ær­inu.

En áætl­aður halli næstu fimm ár og skuld­irnar sem honum fylgja verða eitt meg­in­verk­efni stjórn­mál­anna næsta ára­tug. Í bili er vaxta­stig lágt, en þegar vextir hækka á ný, sem ein­hvern tíma ger­ist, hækkar vaxta­byrði hins opin­bera og þá verður minna til skipt­anna.

Stundum verða kreppur til þess að stjórn­mála­menn þora að gera hluti sem ann­ars er von­laust að ráð­ast í. Næsta rík­is­stjórn gæti snú­ist um að breyta þess­ari kreppu í tæki­færi, ná fit­unni af rík­is­rekstr­inum og hætta að gera kjána­lega hlut­i. 

Hvernig væri að hugsa um hag neyt­enda og hætta að vera með gjald­miðil sem hræðir útlend fyr­ir­tæki frá því að taka þátt í sam­keppni um við­skipti Íslend­inga? Eða að láta veiði­leyfi á Íslands­miðum fylgja mark­aðsvirði?

Við gætum hætt að skipta okkur af því hvort fólk vill borða mat sem er fram­leiddur í útlönd­um. Ein­hver þyrði kannski að velta því fyrir sér hvers vegna ríkið rekur und­ir­fata­verslun á Kefla­vík­ur­flug­velli? 

Við breytum trauðla því sem liðið er, en hvernig væri að varpa af sér hlekkjum hug­ar­fars­ins og nota krepp­una til þess að efla Ísland fyrir kom­andi kyn­slóðir í stað þess að láta þær sitja í skulda­súp­unni? Um það ættu kosn­ing­arnar að snú­ast.

Óheil­brigð stjórnun

Lík­lega hefur skað­semi rík­is­stjórn­ar­innar hvergi komið jafn­ber­lega fram og í heil­brigð­is­kerf­inu. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir horfa fyrst og fremst á efl­ingu rík­is­rekstr­ar, en ekki vanda fólks­ins sem vantar þjón­ustu. Þegar sjúk­lingar hafa beðið þess óhóf­lega lengi að kom­ast í aðgerðir á Land­spít­al­anum eru þeir sendir á einka­klíník í Sví­þjóð vegna þess að rík­is­stjórnin má ekki til þess hugsa að semja við sam­bæri­lega einka­rekna stofu í Ármúl­an­um. 

Rifjum upp við­tal Morg­un­blaðs­ins við Ágúst Kára­son bækl­un­ar­lækni, sem er einn virt­asti læknir lands­ins og nýtur álits langt út fyrir land­stein­ana. Hann sagði: „Það er eins og það sé heila­þvottur í gangi um það að það þurfi allt að vera rík­is­rekið inni á spít­öl­un­um, en mis­skiln­ing­ur­inn er sá að sér­fræði­kerf­ið, sem hefur alltaf verið með samn­ing við Sjúkra­trygg­ing­ar, er hluti af opin­bera kerf­inu. Ef það leggst niður mun það þýða það að þjón­ustan á spít­öl­unum verður verri og það mynd­ast alvöru tvö­falt kerf­i.“

Hluti af trú­ar­brögðum núver­andi rík­is­stjórnar er að láta heil­brigð­is­ráð­herra beita sér gegn nýliðun sér­fræði­lækna utan sjúkra­húsa og koma í veg fyrir að þeir geti opnað stof­ur. Samt hafa nær allir Íslend­ingar góða reynslu af einka­rekstri í heil­brigð­is­kerf­inu. Apó­tek eru einka­rek­in, sem og tann­lækna­stof­ur, sjúkra­þjálfun og elli­heim­ili, svo dæmi séu tek­in.

Ágúst bætir við: „Þetta er rík­i­s­væð­ing­ar­stefna dauð­ans, þessi aðstaða er öll til hjá sér­fræð­ingum utan spít­al­ans.“

„Hluti af trúarbrögðum núverandi ríkisstjórnar er að láta heilbrigðisráðherra beita sér gegn nýliðun sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og koma í veg fyrir að þeir geti opnað stofur. Samt hafa nær allir Íslendingar góða reynslu af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Apótek eru einkarekin, sem og tannlæknastofur, sjúkraþjálfun og elliheimili, svo dæmi séu tekin.“
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Með ofur­trú rík­is­stjórn­ar­innar á rík­is­rekstur mætti ætla að stærstu spít­alar lands­ins blómstr­uðu í skjóli vernd­ar­inn­ar. Nýlega kom út grein­ing á heil­brigð­is­kerf­inu frá McK­insey, einu virtasta ráð­gjafa­fyr­ir­tækis heims, og því eru heima­tökin hæg að kanna hvernig til hefur tek­ist. Í stuttu máli er skýrslan áfall fyrir stefnu rík­is­stjórn­ar­innar í heil­brigð­is­mál­um.

Skoðum nokkrar nið­ur­stöð­ur: Afköst á starfs­mann (fram­leiðni) hafa minnkað bæði á Land­spít­al­anum og Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri. Stöðu­gildum hefur fjölgað hratt og miklu hraðar en sjúk­lingum á legu­deild­um. Fram­leiðni á hvern lækni minnk­aði um 5,4% á Land­spít­ala og 7,3% á Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri á árunum 2015-2019. Sömu sögu er að segja um fram­leiðni hjúkr­un­ar­fræð­inga. Hún hefur líka lækkað og hjúkr­un­ar­stundum á hvern sjúk­ling hefur fjölgað um 2,1% á Land­spít­ala og 4,0% á Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri.

Fáum dettur í hug að þennan vanda megi rekja til starfs­mann­anna, því auð­vitað eru þeir jafn­hæfir núna og þeir voru árið 2015. Eftir höfð­inu dansa lim­irnir og vand­inn liggur í stefn­unni. Vitnum beint í skýrsl­una: „Það er sam­dóma álit bæði greið­enda og þjón­ustu­veit­enda að núver­andi fjár­mögn­un­ar­kerfi skorti gagn­sæi, hvata til fram­leiðni og að það veiti ekki skýra stefnu­mörk­un.“ Bætt er við: „Fyr­ir­komu­lagið hefur þvert á móti letj­andi áhrif á við­bót­ar­fram­leiðslu því henni fylgir ekki aukið fjár­magn.“

Þessi skýrsla er ekki skrifuð af póli­tískum and­stæð­ingum eða spældum læknum í einka­rekstri. Þvert á móti af fær­ustu sér­fræð­ingum sem ráðu­neytið sjálft fékk til þess að taka út heil­brigð­is­kerf­ið. 

Rík­is­stjórnin rekur sann­ar­lega rík­i­s­væð­ing­ar­stefnu dauð­ans. Eftir kosn­ingar þarf að koma á heil­brigð­is­þjón­ustu sem setur fólk í fyrsta sæti, ekki kerf­ið.

Mað­ur­inn – aldrei bolt­inn

Upp til hópa eru íslenskir stjórn­mála­menn geðugt fólk sem talar af yfir­vegun í per­sónu­legum sam­ræð­um. En um leið og kveikt er á hljóð­nema er eins og allt breyt­ist. Opin­ber­lega fer lítið fyrir mál­efna­legum umræð­um. Á Alþingi ger­ist það vissu­lega að mál séu rædd af skyn­semi og yfir­veg­un. Hitt vekur þó miklu meiri athygli þegar haldið er uppi inni­halds­lausu mál­þófi eða settar fram fyr­ir­spurnir sem eiga að gera lítið úr þeim sem spurður er. Sá sem fyrir svörum situr hverju sinni forð­ast að svara spurn­ing­unni, þæfir málið eða svarar ein­hverju allt öðru. Hvorki spurn­ingin né svarið auka hróður Alþing­is.

Auglýsing

Svo fágætt þykir að umræður varpi ljósi á ágrein­ing sem um er að ræða, að Jónas heit­inn Haralz hag­fræð­ingur færði það oftar en einu sinni í tal hve upp­lýsandi ræður hefðu verið haldnar um seðla­banka­frum­varpið á Alþingi árið 1928!

Þegar komið er að raun­veru­legum og stefnu­mark­andi málum sem fjallað er um í fjöl­miðl­um, annað hvort í fréttum eða greinum er svipað uppi á ten­ingn­um. Í stað þess að mál­efna­lega sé svarað er gripið til per­sónu­legs skæt­ings. Þegar kosn­ingar nálg­ast er ráð­ist per­sónu­lega að and­stæð­ing­um, stundum af leigupennum eða huldu­fólki. Fyrir síð­ustu kosn­ingar var haldið úti sér­stökum skrímsla­deildum stuðn­ings­manna að minnsta kosti tveggja stjórn­mála­flokka, kannski fleiri. For­ingjar flokk­anna þykj­ast ekki kann­ast við neitt þegar þeir eru spurðir um þessar nafn­lausu sveit­ir, sem hafa það hlut­verk að sverta and­stæð­ing­ana og afflytja þeirra mál­stað. Búast má við því að fleiri muni beita slíkum aðferðum í kosn­ingum á kom­andi ári. Það er veikur mál­staður sem þarf á því að halda að fara sífellt í mann­inn en aldrei í bolt­ann.

Stundum erum við heppin

Það var gæfa Íslend­inga að árið 1991 leiddu stjórn­málafor­ingjar þess tíma, þeir Davíð Odds­son og Jón Bald­vin Hanni­bals­son, okkur inn í Evr­ópu­sam­bandið með dyggri aðstoð Björns Bjarna­son­ar. Að vísu urðum við bara auka­að­ilar í gegnum EES-­samn­ing­inn og fáum ekki að sitja við borðið þar sem ákvarð­anir eru tekn­ar. Samt er óhætt að full­yrða að lífs­kjör þjóð­ar­innar séu miklu betri nú en þau hefðu ella verið vegna þess að þetta mik­il­væga skref var stigið á sínum tíma. Íslend­ingar eru hluti af stærsta við­skipta­banda­lagi heims­ins og það eigum við þessum mönnum að þakka.

Þess vegna eigum við ekki að grafa undan þeim mikla lífs­kjara­bata sem aðildin hefur fært okkur með því að tuða um hve banda­lagið sem við erum í sé slæmt eða að úrsögn Breta úr því geri Ísland að landi tæki­fær­anna. Við áttum frá­bært við­skipta­sam­band við Breta og von­andi verður það áfram gott, en popúlista­bull sjálf­hverfra íhalds­manna bætir það síst. 

Er Boris Johnson farinn að semja Evrópufréttirnar aftur?
Mynd: EPA

Fyrir jólin birt­ist frétt um að vöru­bíl­stjórar mættu ekki taka með sér sam­lokur með skinku og osti frá Bret­landi til Evr­ópu­sam­bands­ins eftir ára­mót. Það fyrsta sem ég hugs­aði var: „Nú er Boris John­son aftur far­inn að semja Evr­ópu­frétt­irn­ar.“ En stutt gúgl leiddi í ljós að þetta mun vera rétt. Að vísu eru Bretar hvorki þekktir af góðum ostum né skinku þannig að kannski er þetta hið besta mál fyrir vöru­bíl­stjóra. Skyldu leyn­ast tæki­færi fyrir Ísland í þessu?

Skjótt skip­ast veður í lofti

Þegar ég byrj­aði að skrifa þessa grein fyrir nokkrum dögum var ýmis­legt með öðrum brag.

Þá voru taldar miklar líkur á því að Bretar gengju úr Evr­ópu­sam­band­inu án samn­ings, sem var örugg­lega versta nið­ur­staðan fyrir alla. Svo fór að þeir hafa nú stað­fest­ingu á 1.246 blað­síðum á því að þeir megi gera það sem þeim sýn­ist. 

Skömmu fyrir jól spurðu margir í alvöru á sam­fé­lags­miðlum hvort heil­brigð­is­ráð­herra ætti að segja af sér vegna fyr­ir­sjá­an­legs skorts á bólu­efni. Ég bland­aði mér í þá umræðu: „Eins og allir vita er ég ekki sér­legur banda­maður heil­brigð­is­ráð­herr­ans eða VG, en nú skulum við ekki rasa um ráð fram. Öllum finnst þetta ganga hægar en það ætti að gera, en myndin skýrist á næstu vik­um. Ég hef reyndar fulla trú á því að við fáum fljót­lega jafn­mikið bólu­efni og aðrir og held þeirri trú þangað til annað kemur í ljós.“ Af ein­hverjum ástæðum hefur þessi umræða hjaðn­að.

Á aðfanga­dags­morgun var ég á leið til vinnu á skrif­stof­una eins og ég hef gert í ára­tugi. Í útvarp­inu var þægi­legt við­tal við fjár­mála­ráð­herra og konu hans um æsku­ást­ina og barna­upp­eldi. Mér fannst þetta koma vel út fyrir þau og eflaust margir að hlust­a. 

Rétt fyrir tíu var hringt í mig og ég spurður hvort ég hefði heyrt frétt­irnar úr dag­bók lög­regl­unn­ar. Klukku­tími er langur tími í póli­tík.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit