Mynd: Birgir Þór Harðarson

Veiran í stjórnmálunum

Benedikt Jóhannesson, fyrsti formaður Viðreisnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, gerir upp árið sem nú er næstum liðið. Hann segir fjóra Framsóknarflokka í landinu, þrjá í stjórn og einn í stjórnarandstöðu. Þeir eigi það sameiginlegt að vilja halda í forréttindi ákveðinna hópa og vera neikvæðir í garð frekara alþjóðasamstarfs Íslands.

Við Íslend­ingar erum heppin þjóð. Í Banda­ríkj­unum ráfar rugl­aður maður um Hvíta hús­ið. Hann náðar fjöl­marga vini sína (og flestir vinir hans virð­ast þurfa á sak­ar­upp­gjöf að halda) og heldur enn að hann geti snúið við úrslitum kosn­inga með því einu að segj­ast hafa unnið þær. Pútín, vinur Banda­ríkja­for­seta í Rúss­landi, gengur skrefi lengra. Þar fá fyrr­ver­andi for­setar og fjöl­skyldur þeirra frið­helgi vegna allra glæpa sem þeir hafa framið eða kunna að fremja. Lög­reglan eða rann­sak­endur geta sam­kvæmt lög­unum ekki yfir­heyrt for­set­ana fyrr­ver­andi, hand­tekið þá eða leitað í hús­næði þeirra. Reyndar er lík­legt að Trump feti í fót­spor félaga sína og gangi alla leið, náði sig og fjöl­skyld­una alla, enda bráð­nauð­syn­legt. Sar­kozi, fyrr­ver­andi Frakk­lands­for­seti, sýndi ekki sömu for­sjálni og bíður dóms vegna spill­ing­ar.

Ekki að okkur finn­ist okkar ráða­menn alltaf vera hvít­þvegnir englar. Óþægi­lega oft eru þeir á röngum stað á röngum tíma. Grímu­lausir eða með jafn­vel með grímu sýna þeir minni aðgát en predikuð er yfir okkur hin­um. Samt er aðförin að sótt­varn­ar­reglum örugg­lega ekki úthugsuð eins og aðförin að lýð­ræð­inu austan hafs og vest­an. Íslenska rík­inu er núorðið sjaldan beitt til þess að  klekkja á póli­tískum and­stæð­ing­um. Áður var öldin önn­ur. Hriflu-Jónas rak hik­laust þá emb­ætt­is­menn sem voru honum ekki þókn­an­leg­ir. Helst áttu þeir auð­vitað að vera Fram­sókn­ar­menn, en það dugði ekki alltaf til. 

Auglýsing

Margt má um Jónas segja, en hann var senni­lega fyrstur Íslend­inga til þess að hugsa nútíma­legt flokka­kerfi fyrir rúmri öld. Hér átti að vera borg­ara­lega sinn­aður flokk­ur, annar sem hugs­aði um hag alþýð­unnar og sá þriðji sem gætti hags­muna bænda. Hann sá ekki fyrir klofn­ing­inn milli hæg­fara krata og komm­ún­ista og arf­taka þeirra, en ann­ars var flokka­kerfi Jónasar ríkj­andi mest­alla 20. öld­ina og fram á þá næstu.

Draumur Jónasar varð martröð þjóð­ar­innar

Ólík­legt er að Jónas hafi búist við því að hér yrðu margir Fram­sókn­ar­flokk­ar, sem kenndu sig við vinstri, hægri eða miðju. Þrír í stjórn og sá fjórði, sem er reyndar mesti Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, er utan stjórnar að sinni. Þegar Hriflu-Jónas var og hét var hann, flokk­ur­inn og Sam­bandið eitt. Mið­flokk­ur­inn hefur reyndar enga sam­vinnu­hug­sjón og er ekki í sam­bandi, en hann hverf­ist um for­ingja sinn eins og Fram­sókn forðum daga og Repúblikana­flokk­ur­inn í dag.

Fram­sókn­ar­flokk­arnir eiga það sam­eig­in­legt að þeir vilja halda í for­rétt­indi ákveð­inna hópa og eru nei­kvæðir í garð frekara alþjóða­sam­starfs Íslands. VG er reyndar sér á báti að því leyti að í orði vill flokk­ur­inn hvorki vera í Atl­ants­hafs­banda­lag­inu né EES, en for­maður flokks­ins mætir þó glaður á ráð­stefnur NATO án þess að frést hafi af ólátum af hennar hálfu.

Auglýsing

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var alltaf í fylk­ing­ar­brjósti þeirra sem vildu greiða fyrir frjálsum við­skiptum þjóða á milli og sam­ræmdum reglum á alþjóða­vett­vangi. Ísland var stofn­að­ili að AGS (Al­þjóða gjald­eyr­is­sjóðn­um), NATO (Norð­ur­-Atl­ants­hafs­banda­lag­in­u), OECD (Efna­hags- og fram­fara­stofnun Evr­ópu) og WTO (Al­þjóða­við­skipta­stofn­un­inn­i). Landið gekk í EFTA (Frí­versl­un­ar­sam­tök Evr­ópu) og EES (Evr­ópska efna­hags­svæð­ið) þegar flokk­ur­inn var í stjórn með Alþýðu­flokkn­um. Þátt­taka Íslend­inga í allri þess­ari stafa­súpu hefur orðið þjóð­inni til mik­illar gæfu. Við höfum notið þess að vera með í hópn­um, fengið leið­bein­ingar og stundum til­tal, við­skipta­hindr­unum hefur verið rutt úr vegi og íslensk fyr­ir­tæki og íslenskir neyt­endur notið góðs af.

Nú er öldin önn­ur. Undir for­ystu land­bún­að­ar­ráð­herra er stigið skref aftur á bak í útboðum á toll­kvótum á land­bún­að­ar­af­urðum og utan­rík­is­ráð­herra vill taka upp samn­ing um inn­flutn­ing á þessum vörum, samn­ing sem opn­aði smá­glufu í vernd­ar­múr­ana umhverfis Ísland. Enn og aftur fer flokk­ur­inn leið hafta og toll­verndar í stað þess að beina beinum styrkjum til bænda, styrkja þá og verja neyt­endur um leið. Ítrekað líta Sjálf­stæð­is­menn á íslenska neyt­endur sem afgangs­stærð, sem eigi að vera ann­ars flokks, hafa minna val en neyt­endur í nágranna­löndum og borga hærra verð.

Flokks­menn VG hafa svo sett fram frum­lega ástæðu fyrir því að íslenskir neyt­endur eigi að borga meira en aðrir fyrir erlendar land­bún­að­ar­vörur (og helst ekki fá að kaupa þær). Þær myndi svo stórt kolefn­is­spor. En aldrei heyr­ist hljóð úr ranni flokks­ins um að stöðva beri útflutn­ing á fiski (eða land­bún­að­ar­vörum) vegna kolefn­is­spors. Lík­lega stíga þessar vörur léttar til jarðar á leið­inni úr landi en þær inn­fluttu.

Kosn­ingar – en um hvað?

Þegar rík­is­stjórnin var mynduð var ein­ing um það milli stjórn­ar­flokk­anna að hún yrði stefnu­laus. Mark­miðið væri kyrr­staða. Hjá VG réði metn­aður um að fá að leiða rík­is­stjórn jafn­vel þótt það kost­aði flokk­inn tvo þing­menn. Þegar stjórnin var kom­inn af stað var kapps­málið að hún sæti til loka kjör­tíma­bils­ins. 

Benedikt segir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vera stefnulausa og hafa það markmið að viðhalda kyrrstöðu.
Mynd: Birgir Þór Harðason

En eins og þjóð­skáldið sagði er svo bágt að standa í stað. Af því rekaldið mátti ekki fara áfram var eina leiðin aftur á bak. Komum betur að því síð­ar.

Á líð­andi ári hefur lítil póli­tík verið á Íslandi. Allur kraftur hefur farið í bar­átt­una við kór­ónu­veiruna og flestir hafa lagst á árarnar um að halda henni skefj­um. Lengst af voru emb­ætt­is­menn látnir stjórna ferð­inni og þrí­eykið svo­nefnda naut vin­sælda og virð­ing­ar. Ráð­herrar horfðu á þetta öfund­ar­aug­um, vildu sjálfir njóta sviðs­ljóss og vel­vildar og hafa verið meira áber­andi í haust­bylgj­unni en áður. Sú ákvörðun gerir enn meiri kröfur til þeirra en ella um að vera öðrum góð fyr­ir­mynd. 

Öll stjórn­mál hverfa í skugga veirunn­ar. Hún er gott skjól því að það er nán­ast eins og land­ráð að gagn­rýna það sem miður fer. Svarið er alltaf: „Veistu ekki að það er heims­far­aldur í gang­i?“ En nú tala for­ingj­arnir eins og pré­dik­arar á trú­ar­sam­komu um ljósið við enda gang­anna. Bólu­efnið er komið til lands­ins og von­andi verður það nægi­legt til þess að útrýma þess­ari ömur­legu veiru sem allra fyrst. 

Fylgi­fiskar veirunnar eiga aftur á móti eftir að elta okkur lengi. Sam­kvæmt fjár­mála­á­ætlun til áranna 2021 til 2025 verða rík­is­fjár­málin nán­ast í rúst í lok tíma­bils­ins. Á hverju ein­asta ári er gert ráð fyrir halla sem alls nemur meira en þús­und millj­örðum á fimm ára tíma­bili hjá ríki og sveit­ar­fé­lögum að frá­töldum opin­berum fyr­ir­tækj­um. Í lok árs 2025 verður hrein eign orðin nei­kvæð sam­kvæmt áætl­un­inni.

Rík­is­stjórnin tók við svo góðu búi að hún taldi eðli­legt að stór­auka útgjöld og huns­aði við­var­anir um að aftur gæti komið kreppa. Hún taldi sig nefni­lega vera búna að minnka líkur á síð­ustu kreppu, sem öllum að óvörum kom ekki aft­ur. Það er fjarri mér að halda því fram að ég hafi séð Covid-krepp­una fyr­ir, en ég veit að eina fyr­ir­hyggj­an, sem hjálpar í öllum krepp­um, er að borga niður skuld­ir. Þegar ég var fjár­mála­ráð­herra lagði ég fram fjár­mála­á­ætlun þar sem útgjöld rík­is­ins dróg­ust saman um 3% af lands­fram­leiðslu. Því mark­miði var auð­vitað hent út í hafs­auga af núver­andi stjórn­ar­flokk­um.

Auglýsing

Í stað for­sjálni og ábyrgðar náði rík­is­stjórnin að reka rík­is­sjóð með millj­arða halla í hag­vexti síð­asta árs. Slíkt er líka létt­vægt í stjórn­málum sam­tím­ans, eng­inn krafð­ist afsagnar ráð­herra eða afsök­un­ar­beiðni. Fæstir vita að það var halli í góð­ær­inu.

En áætl­aður halli næstu fimm ár og skuld­irnar sem honum fylgja verða eitt meg­in­verk­efni stjórn­mál­anna næsta ára­tug. Í bili er vaxta­stig lágt, en þegar vextir hækka á ný, sem ein­hvern tíma ger­ist, hækkar vaxta­byrði hins opin­bera og þá verður minna til skipt­anna.

Stundum verða kreppur til þess að stjórn­mála­menn þora að gera hluti sem ann­ars er von­laust að ráð­ast í. Næsta rík­is­stjórn gæti snú­ist um að breyta þess­ari kreppu í tæki­færi, ná fit­unni af rík­is­rekstr­inum og hætta að gera kjána­lega hlut­i. 

Hvernig væri að hugsa um hag neyt­enda og hætta að vera með gjald­miðil sem hræðir útlend fyr­ir­tæki frá því að taka þátt í sam­keppni um við­skipti Íslend­inga? Eða að láta veiði­leyfi á Íslands­miðum fylgja mark­aðsvirði?

Við gætum hætt að skipta okkur af því hvort fólk vill borða mat sem er fram­leiddur í útlönd­um. Ein­hver þyrði kannski að velta því fyrir sér hvers vegna ríkið rekur und­ir­fata­verslun á Kefla­vík­ur­flug­velli? 

Við breytum trauðla því sem liðið er, en hvernig væri að varpa af sér hlekkjum hug­ar­fars­ins og nota krepp­una til þess að efla Ísland fyrir kom­andi kyn­slóðir í stað þess að láta þær sitja í skulda­súp­unni? Um það ættu kosn­ing­arnar að snú­ast.

Óheil­brigð stjórnun

Lík­lega hefur skað­semi rík­is­stjórn­ar­innar hvergi komið jafn­ber­lega fram og í heil­brigð­is­kerf­inu. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir horfa fyrst og fremst á efl­ingu rík­is­rekstr­ar, en ekki vanda fólks­ins sem vantar þjón­ustu. Þegar sjúk­lingar hafa beðið þess óhóf­lega lengi að kom­ast í aðgerðir á Land­spít­al­anum eru þeir sendir á einka­klíník í Sví­þjóð vegna þess að rík­is­stjórnin má ekki til þess hugsa að semja við sam­bæri­lega einka­rekna stofu í Ármúl­an­um. 

Rifjum upp við­tal Morg­un­blaðs­ins við Ágúst Kára­son bækl­un­ar­lækni, sem er einn virt­asti læknir lands­ins og nýtur álits langt út fyrir land­stein­ana. Hann sagði: „Það er eins og það sé heila­þvottur í gangi um það að það þurfi allt að vera rík­is­rekið inni á spít­öl­un­um, en mis­skiln­ing­ur­inn er sá að sér­fræði­kerf­ið, sem hefur alltaf verið með samn­ing við Sjúkra­trygg­ing­ar, er hluti af opin­bera kerf­inu. Ef það leggst niður mun það þýða það að þjón­ustan á spít­öl­unum verður verri og það mynd­ast alvöru tvö­falt kerf­i.“

Hluti af trú­ar­brögðum núver­andi rík­is­stjórnar er að láta heil­brigð­is­ráð­herra beita sér gegn nýliðun sér­fræði­lækna utan sjúkra­húsa og koma í veg fyrir að þeir geti opnað stof­ur. Samt hafa nær allir Íslend­ingar góða reynslu af einka­rekstri í heil­brigð­is­kerf­inu. Apó­tek eru einka­rek­in, sem og tann­lækna­stof­ur, sjúkra­þjálfun og elli­heim­ili, svo dæmi séu tek­in.

Ágúst bætir við: „Þetta er rík­i­s­væð­ing­ar­stefna dauð­ans, þessi aðstaða er öll til hjá sér­fræð­ingum utan spít­al­ans.“

„Hluti af trúarbrögðum núverandi ríkisstjórnar er að láta heilbrigðisráðherra beita sér gegn nýliðun sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og koma í veg fyrir að þeir geti opnað stofur. Samt hafa nær allir Íslendingar góða reynslu af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Apótek eru einkarekin, sem og tannlæknastofur, sjúkraþjálfun og elliheimili, svo dæmi séu tekin.“
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Með ofur­trú rík­is­stjórn­ar­innar á rík­is­rekstur mætti ætla að stærstu spít­alar lands­ins blómstr­uðu í skjóli vernd­ar­inn­ar. Nýlega kom út grein­ing á heil­brigð­is­kerf­inu frá McK­insey, einu virtasta ráð­gjafa­fyr­ir­tækis heims, og því eru heima­tökin hæg að kanna hvernig til hefur tek­ist. Í stuttu máli er skýrslan áfall fyrir stefnu rík­is­stjórn­ar­innar í heil­brigð­is­mál­um.

Skoðum nokkrar nið­ur­stöð­ur: Afköst á starfs­mann (fram­leiðni) hafa minnkað bæði á Land­spít­al­anum og Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri. Stöðu­gildum hefur fjölgað hratt og miklu hraðar en sjúk­lingum á legu­deild­um. Fram­leiðni á hvern lækni minnk­aði um 5,4% á Land­spít­ala og 7,3% á Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri á árunum 2015-2019. Sömu sögu er að segja um fram­leiðni hjúkr­un­ar­fræð­inga. Hún hefur líka lækkað og hjúkr­un­ar­stundum á hvern sjúk­ling hefur fjölgað um 2,1% á Land­spít­ala og 4,0% á Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri.

Fáum dettur í hug að þennan vanda megi rekja til starfs­mann­anna, því auð­vitað eru þeir jafn­hæfir núna og þeir voru árið 2015. Eftir höfð­inu dansa lim­irnir og vand­inn liggur í stefn­unni. Vitnum beint í skýrsl­una: „Það er sam­dóma álit bæði greið­enda og þjón­ustu­veit­enda að núver­andi fjár­mögn­un­ar­kerfi skorti gagn­sæi, hvata til fram­leiðni og að það veiti ekki skýra stefnu­mörk­un.“ Bætt er við: „Fyr­ir­komu­lagið hefur þvert á móti letj­andi áhrif á við­bót­ar­fram­leiðslu því henni fylgir ekki aukið fjár­magn.“

Þessi skýrsla er ekki skrifuð af póli­tískum and­stæð­ingum eða spældum læknum í einka­rekstri. Þvert á móti af fær­ustu sér­fræð­ingum sem ráðu­neytið sjálft fékk til þess að taka út heil­brigð­is­kerf­ið. 

Rík­is­stjórnin rekur sann­ar­lega rík­i­s­væð­ing­ar­stefnu dauð­ans. Eftir kosn­ingar þarf að koma á heil­brigð­is­þjón­ustu sem setur fólk í fyrsta sæti, ekki kerf­ið.

Mað­ur­inn – aldrei bolt­inn

Upp til hópa eru íslenskir stjórn­mála­menn geðugt fólk sem talar af yfir­vegun í per­sónu­legum sam­ræð­um. En um leið og kveikt er á hljóð­nema er eins og allt breyt­ist. Opin­ber­lega fer lítið fyrir mál­efna­legum umræð­um. Á Alþingi ger­ist það vissu­lega að mál séu rædd af skyn­semi og yfir­veg­un. Hitt vekur þó miklu meiri athygli þegar haldið er uppi inni­halds­lausu mál­þófi eða settar fram fyr­ir­spurnir sem eiga að gera lítið úr þeim sem spurður er. Sá sem fyrir svörum situr hverju sinni forð­ast að svara spurn­ing­unni, þæfir málið eða svarar ein­hverju allt öðru. Hvorki spurn­ingin né svarið auka hróður Alþing­is.

Auglýsing

Svo fágætt þykir að umræður varpi ljósi á ágrein­ing sem um er að ræða, að Jónas heit­inn Haralz hag­fræð­ingur færði það oftar en einu sinni í tal hve upp­lýsandi ræður hefðu verið haldnar um seðla­banka­frum­varpið á Alþingi árið 1928!

Þegar komið er að raun­veru­legum og stefnu­mark­andi málum sem fjallað er um í fjöl­miðl­um, annað hvort í fréttum eða greinum er svipað uppi á ten­ingn­um. Í stað þess að mál­efna­lega sé svarað er gripið til per­sónu­legs skæt­ings. Þegar kosn­ingar nálg­ast er ráð­ist per­sónu­lega að and­stæð­ing­um, stundum af leigupennum eða huldu­fólki. Fyrir síð­ustu kosn­ingar var haldið úti sér­stökum skrímsla­deildum stuðn­ings­manna að minnsta kosti tveggja stjórn­mála­flokka, kannski fleiri. For­ingjar flokk­anna þykj­ast ekki kann­ast við neitt þegar þeir eru spurðir um þessar nafn­lausu sveit­ir, sem hafa það hlut­verk að sverta and­stæð­ing­ana og afflytja þeirra mál­stað. Búast má við því að fleiri muni beita slíkum aðferðum í kosn­ingum á kom­andi ári. Það er veikur mál­staður sem þarf á því að halda að fara sífellt í mann­inn en aldrei í bolt­ann.

Stundum erum við heppin

Það var gæfa Íslend­inga að árið 1991 leiddu stjórn­málafor­ingjar þess tíma, þeir Davíð Odds­son og Jón Bald­vin Hanni­bals­son, okkur inn í Evr­ópu­sam­bandið með dyggri aðstoð Björns Bjarna­son­ar. Að vísu urðum við bara auka­að­ilar í gegnum EES-­samn­ing­inn og fáum ekki að sitja við borðið þar sem ákvarð­anir eru tekn­ar. Samt er óhætt að full­yrða að lífs­kjör þjóð­ar­innar séu miklu betri nú en þau hefðu ella verið vegna þess að þetta mik­il­væga skref var stigið á sínum tíma. Íslend­ingar eru hluti af stærsta við­skipta­banda­lagi heims­ins og það eigum við þessum mönnum að þakka.

Þess vegna eigum við ekki að grafa undan þeim mikla lífs­kjara­bata sem aðildin hefur fært okkur með því að tuða um hve banda­lagið sem við erum í sé slæmt eða að úrsögn Breta úr því geri Ísland að landi tæki­fær­anna. Við áttum frá­bært við­skipta­sam­band við Breta og von­andi verður það áfram gott, en popúlista­bull sjálf­hverfra íhalds­manna bætir það síst. 

Er Boris Johnson farinn að semja Evrópufréttirnar aftur?
Mynd: EPA

Fyrir jólin birt­ist frétt um að vöru­bíl­stjórar mættu ekki taka með sér sam­lokur með skinku og osti frá Bret­landi til Evr­ópu­sam­bands­ins eftir ára­mót. Það fyrsta sem ég hugs­aði var: „Nú er Boris John­son aftur far­inn að semja Evr­ópu­frétt­irn­ar.“ En stutt gúgl leiddi í ljós að þetta mun vera rétt. Að vísu eru Bretar hvorki þekktir af góðum ostum né skinku þannig að kannski er þetta hið besta mál fyrir vöru­bíl­stjóra. Skyldu leyn­ast tæki­færi fyrir Ísland í þessu?

Skjótt skip­ast veður í lofti

Þegar ég byrj­aði að skrifa þessa grein fyrir nokkrum dögum var ýmis­legt með öðrum brag.

Þá voru taldar miklar líkur á því að Bretar gengju úr Evr­ópu­sam­band­inu án samn­ings, sem var örugg­lega versta nið­ur­staðan fyrir alla. Svo fór að þeir hafa nú stað­fest­ingu á 1.246 blað­síðum á því að þeir megi gera það sem þeim sýn­ist. 

Skömmu fyrir jól spurðu margir í alvöru á sam­fé­lags­miðlum hvort heil­brigð­is­ráð­herra ætti að segja af sér vegna fyr­ir­sjá­an­legs skorts á bólu­efni. Ég bland­aði mér í þá umræðu: „Eins og allir vita er ég ekki sér­legur banda­maður heil­brigð­is­ráð­herr­ans eða VG, en nú skulum við ekki rasa um ráð fram. Öllum finnst þetta ganga hægar en það ætti að gera, en myndin skýrist á næstu vik­um. Ég hef reyndar fulla trú á því að við fáum fljót­lega jafn­mikið bólu­efni og aðrir og held þeirri trú þangað til annað kemur í ljós.“ Af ein­hverjum ástæðum hefur þessi umræða hjaðn­að.

Á aðfanga­dags­morgun var ég á leið til vinnu á skrif­stof­una eins og ég hef gert í ára­tugi. Í útvarp­inu var þægi­legt við­tal við fjár­mála­ráð­herra og konu hans um æsku­ást­ina og barna­upp­eldi. Mér fannst þetta koma vel út fyrir þau og eflaust margir að hlust­a. 

Rétt fyrir tíu var hringt í mig og ég spurður hvort ég hefði heyrt frétt­irnar úr dag­bók lög­regl­unn­ar. Klukku­tími er langur tími í póli­tík.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit