Mynd: Northstack

Það skiptir því ekki máli í fjarvinnu hvort þú sért í fjögurra eða 4.000 kílómetra fjarlægð

Kevin Laws, framkvæmdastjóri AngelList, flutti ásamt fjölskyldu sinni til Íslands liðið sumar til að dvelja hér um þriggja mánaða skeið. Kjarninn, í samstarfi við Northstack, ræðir við fólk á sviði tækni og hugvitsdrifinna atvinnugreina.

Kevin Laws, framkvæmdastjóri AngelList, var Covid-19 flóttamaður á Íslandi. Hann flutti hingað ásamt konu sinni og tveimur börnum þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst.

AngelList er fyrirtæki sem á rætur að rekja til Kísildalsins og heldur utan um og einfaldar fjárfestingar í sprotafyrirtækjum fyrir englafjárfesta og sjóði. Vinnudagur Kevin, sem vinnur á Vesturstrandartíma, hefst um það leyti þegar við hin byrjum að leiða hugann að því að hvað eigi að vera í kvöldmatinn. Þau komu til Íslands um miðjan júlí og ætluðu að dvelja hér í sex mánuði en fóru af landi brott í október, bæði því þau gátu ekki fengið vegabréfsáritunina sína framlengda og vegna þess að börnin þurftu að fara aftur í skólann. Nokkrum vikum eftir spjallið okkar, tilkynnti ríkisstjórnin um aðgerðir til að gera erlendum sérfræðingum kleift að koma til Íslands og vinna héðan fjarvinnu í allt að sex mánuði.

Það að flytjast tímabundið búferlum til Íslands var að sögn Kevin nokkuð rysjótt ferli. „Við rákum okkur sérstaklega á þrennt. Það fyrsta var bara að komast hingað vegna ferðatakmarkana. Bala Kamallakharan bauð mér að koma. Ég spurði hvort ég mætti taka fjölskylduna mína með. Hann talaði við stjórnvöld og þau sögðu já. Það tók nokkrar vikur en á endanum fengum við öll vegabréfsáritun. Það var fyrsta hindrunin sem við rákumst á. Við gátum ekki bara ákveðið að koma. Næsta var ferðalagið. Planið var að keyra til Seattle og fljúga þaðan en flugið var fellt niður vegna ferðatakmarkana. Ég þurfti að fara um Boston til að komast til Íslands. Og þú þarft að fara mjög varlega í ferðalögum á tímum Covid.” Það þriðja var að fá kennitölu. „Þú þarft ekki kennitölu ef þú kemur hingað til þess eins að skoða einhverja fossa. En þegar ég ætlaði að skrá strákinn í fótbolta var kennitala það fyrsta sem ég var beðinn um. Það er ekki ólöglegt að gera þetta án kennitölu, en það flækir hlutina að vera án hennar. Allir eru með kennitölu því hún er auðveld leið til auðkenningar. Ég get ekki opnað bankareikning, ég gat ekki tekið bíl á rekstrarleigu – það að leigja bíl er stórkostlega dýrt en rekstrarleiga er ótrúlega ódýr. Ég þurfti að finna út úr þessu öllu, sem gerði allt miklu flóknara,“ segir Kevin.

Úr 195 löndum niður í eitt

En þú ákvaðst samt að koma.

„Já! Hin hliðin er að Íslendingar hafa upp til hópa verið mjög gestrisnir og hjálpsamir við að finna lausnir á kennitöluvanda mínum. Íþróttafélagið sagði stráknum mínum bara að byrja að mæta á æfingar og að minnsta kosti fjórir hafa boðist til að leigja mér bílinn sinn ef ég lofa að klessukeyra hann ekki. Það hefur þannig verið virkilega auðvelt að aðlagast og finna lausnir á áskorununum. Það hefur verið gott að vera hérna.

Hvers vegna varð Ísland fyrir valinu?

Auglýsing

„Það fyrsta sem ég gerði þegar faraldurinn skall á var að leggja mitt af mörkum í nærsamfélaginu, en það var enginn opinber aðili að samræma það sem við vorum að gera. AngelList er ekki að framkvæma Covid próf eða búa til öpp til smitrakningar. Svo eftir að hafa verið leiður í viku byrjaði ég að skoða hvaða staðir myndu koma vel út ef maður tekur fjarlægðir út úr jöfnunni því allir eru hvort sem er á Zoom. Áður skipti máli hvar fólk var. Við erum á þessu kaffihúsi og hér gætir þú rekist á einhvern og eitthvað gæti komið úr því. Ef við erum hvort eð er að tengjast á Zoom þá skiptir fjarlægðin ekki máli. Ég fór þess vegna að skoða staði sem eru fjarlægir, en samt með hátt menntunarstig og nýsköpunarsinnaðir. Svo skoðaði ég hvernig þeir staðir voru að takast á við Covid, því ef faraldurinn geisaði þar líka væru þeir í reynd lokaðir. Það leiddi til þess að ég skoðaði Nýja Sjáland, Taívan og Ísland. Af þessum þremur voru tvö þeirra búin að loka landinu, svo Ísland var í raun eina landið sem var að leysa vandamálið á þann hátt að það hentaði mér, því deCode var að prófa fólk, hér er gott heilbrigðiskerfi og það voru prófanir við landamærin. Það fækkaði möguleikunum um hvert við færum úr 195 í einn. Það var málið með Ísland. Þá fór ég að tala við fólk um hvað ég gæti gert hérna, og þar sem AngelList vinnur með sprotum vildi ég vinna með sprotafyrirtækjum. Þannig komst ég í samband við Bala.“

Heldurðu að þetta gæti orðið og yrði raunhæfur kostur fyrir fólk - að einfaldlega standa upp og fara?

„Já. Ekki spurning. Þetta er eitthvað sem fólk, sérstaklega fólk í San Francisco, skilur ekki. Það er frekar alvarlegt Covid-ástand þar, um það bil tífalt verra en hér. Fólk í tæknigeiranum er því hvort eð er að vinna að heiman. Þú færð allt sent heim. Það eina er að þú mátt ekki fara út úr húsi. Þannig skiptir því ekki máli ef þú ætlar að vinna í fjarvinnu hvort þú sért í fjögurra eða 4.000 kílómetra fjarlægð. Svo spilar inn í að ég elska að fara til nýrra landa og dvelja þar svo mánuðum eða árum skiptir. Ég get það eiginlega ekki eins mikið núna því börnin mín eru á unglingastigi í skóla. Þau myndu finna mig í fjöru ef ég kippti þeim úr skóla í heilt ár. En núna eru þau í fjarnámi hvort eð er - þau eru í skólanum akkúrat núna - þannig að það skiptir ekki máli fyrir þau að vera í 4.000 kílómetra fjarlægð frá skólanum. Ég geri ráð fyrir að margt fólk geri þetta. Ég hef meira að segja hitt fólk hérna sem hefur farið í gegnum Y-Combinator og fullt af fólki sem vinnur fyrir Google og Apple. Þetta er fólk sem er að finna út úr þessu upp á eigin spýtur, að finna út hvernig þau geta komist hingað.“

Ekki hægt að fjarstýra fyrirtæki frá Íslandi

Þannig að það er hálfgert huldusamfélag erlendra sérfræðinga hérna?

„Ég myndi ekki segja að það væri neitt sérstaklega hulið. Það birtist bara nýlega. Þegar ég kom hingað fór fólk í Bandaríkjunum að benda mér á fullt af samlöndum mínum sem fluttu hingað og kynna mig fyrir þeim, sem kynntu mig svo fyrir enn fleira fólki, bæði Íslendingum og fólki annars staðar að úr heiminum. Þannig hitti ég fullt af fólki.“

„Þú þarft ekki kennitölu ef þú kemur hingað til þess eins að skoða einhverja fossa. En þegar ég ætlaði að skrá strákinn í fótbolta var kennitala það fyrsta sem ég var beðinn um.“
Mynd: Aðsend

Heldurðu að þetta haldist svona þegar við náum tökum á faraldrinum, eða allt fari aftur í fyrra form?

„Það veltur á ýmsu. Það er hluti sem mun breytast til baka. Ég gæti ekki gert þetta og flutt hingað ef það væri aftur líf á skrifstofunni. Ég get ekki stýrt fyrirtækinu í fjarvinnu ef allir aðrir eru á skrifstofunni og börnin þurfa að fara aftur í skóla. Þannig ég mun fara til baka eftir faraldurinn. En það sem mun haldast er það að ég er búinn að kynnast 40 manns í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi á einum mánuði, sem eru núna tengingar. Ég hef áhuga á því sem þau eru að gera, ég mun tengja þau á svæðinu í kringum San Francisco. Það tengslanet mun klárlega haldast og styrkjast. Ég geri ekki ráð fyrir að missa sambandið þó þau séu langt í burtu. Þá verður fjarlægðin bara í hina áttina.”

Teiknum upp sviðsmynd þar sem heimurinn kemst aftur í samt horf. Myndirðu íhuga að leyfa fólkinu sem vinnur fyrir þig að vinna fjarvinnu eða að heiman nokkra daga, nokkrar vikur eða jafnvel nokkra mánuði í einu og vinna jafnvel hvaðan sem er í heiminum?

„Ekki spurning. Í fyrsta lagi hefur slatti af fyrirtækjum - þar með talið okkar - gert þetta nú þegar. Jafnvel þó þau viti ekki hvenær heimsfaraldrinum líkur og hvenær bóluefni kemur höfum við gefið út að vera í fjarvinnu að minnsta kosti fram á sumarið 2021. Ástæðan fyrir því er að fólk þarf að finna út úr því hvar þau ætla að vera út skólaárið. Svo þó að fólk geti komið aftur fyrr, þurfa þau ekki að koma aftur fyrr en júlí eða ágúst. Mörg fyrirtæki á svæðinu í kringum San Francisco eru að gera þetta. Hitt er að nokkur fyrirtæki sem ég þekki, þar á meðal eitt í eignasafninu okkar, Product Hund, hafa ákveðið að hætta alveg með skrifstofu.“

Það er kostnaður sem er alveg hægt að losa sig við.

„Nákvæmlega. Helmingurinn af starfsfólkinu þeirra var þegar að vinna fjarvinnu, svo þeim fannst bara betra að losa sig við skrifstofuna og vera fyrst og fremst fjarvinnufyrirtæki. Product Hunt er með frábært fólk í Frakklandi, Búlgaríu, Indlandi - úti um allt. Ég veit ekki hvort þetta muni henta fyrir öll fyrirtæki. Það fer eftir á hvaða stigi þau eru og hvernig þau útfæra það, en fyrir mörg fyrirtæki mun þetta vera raunhæfur valmöguleiki.“

Auglýsing

Það eru engar tilviljanir á Zoom

Hver er helsti ókosturinn við að vera ekki saman á skrifstofunni?

„Þetta er erfitt ástand fyrir tiltekna tegund verkefna. Þetta hefur eitthvað með ákefð að gera sem gerist bara í persónu. Þú getur til dæmis séð að ég er spenntur fyrir þessu samtali. Ég væri ekki svona spenntur ef við værum að tala saman á Zoom. Það er bara eitthvað við þessi samskipti sem eiga sér stað í persónu og tenginguna sem er svo dýrmætt fyrir verkefni þegar þau eru á frumstigi eða að komast á legg. Þetta hefur meira að segja verið rannsakað. Þessar tilviljanakenndu tengingar eru líka svo mikilvægar. Þessar handahófskenndu tengingar verða ekki á Zoom. Þær verða þegar ég hitti þig og við hittum hinn og þennan sem ég hitti svo aftur á morgun. Það krefst þess að maður sé á staðnum. Þess vegna held ég að það séu tveir hópar af fólki sem hafa áhuga á að flytja hingað. Annar þeirra eru sprotafyrirtæki sem eru á þeim stað að verða að geta hist til að vinna saman. Hinn eru til dæmis verkfræðingar sem eru hvort eð er í fjarvinnu. Ég er í seinni hópnum, jafnvel þótt ég starfi ekki sem verkfræðingur lengur. Ég get í rauninni verið hvar sem ég vil.“

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú komst hingað?

„Tvennt, aðallega. Ég kom hingað einu sinni sem ferðamaður og það að flytja hingað er allt annar leikur. Undanfarin tíu ár hafa Íslendingar lagt algjöra áherslu á komur ferðamanna. Það er ekkert mál að koma hingað sem ferðamaður. En um leið og ég reyndi að skjóta rótum var fólkið mjög hjálplegt en kerfið gerir ekki ráð fyrir að maður skjóti rótum. Það kom mér á óvart, í ljósi þess hvað það er auðvelt að koma hingað sem ferðamaður. Ég gat ekki bara gúgglað vandamálin mín og fundið lausnir við þeim á svipstundu. Ég var mjög feginn að finna hvað Íslendingar eru opnir og hjálpsamir. Ekkert var ómögulegt, það tók bara stundum dálítinn tíma,“ segir Kevin og brosir hlýlega.

Auglýsing

„Hitt var að sjá hvað það var sem sprotafyrirtæki hér á landi þörfnuðust hvað mest. Ég hef talað um mikilvægi þess að hafa gott tengslanet. Það er vegna þess að ég hef fundið það á sprotafyrirtækjunum hérna. Mér datt ekki til hugar að það gæti verið vandamál. Þú tengist mjög auðveldlega inn í íslenskt sprotaumhverfi vegna þess að margt fólk á sameiginlegar tengingar að utan. En ég rak mig á að það var það helsta sem íslensk sprotafyrirtæki lentu í vandræðum með. Öll sprotafyrirtæki eiga erfitt með að afla peninga og finna gott fólk. Það eru eðlileg sprotavandamál. En að eiga í vandræðum með að finna rétta fólkið til að tala við er óeðlilegt sprotavandamál, sérstaklega fyrir einhvern sem kemur úr Kísildalnum. Á Íslandi geturðu haft samband við alla á Íslandi gegnum einn eða tvo milliliði. Það sama á við í Kísildalnum. En það á ekki við milli Íslands og Kísildalsins og öfugt. Þessi skortur á tengingum kom mér á óvart.“

Sprotaheimurinn ekki núllsummuleikur

Undir lok samtals okkar ræddum við hvernig Kevin ætlaði að verja síðustu vikum sínum á Íslandi. 

„Ég vil nýta þær til að búa til eitthvað sem endist fyrir sprotaumhverfið hérna. Ég veit ekki ennþá hvað það verður. Kannski verður það að vinna að því að erlendir sérfræðingar geti unnið hérna í fjarvinnu þannig að það sé stöðugra flæði af fólki hingað. Kannski vinn ég að því að hjálpa hópum í umhverfi sprotafyrirtækja að tengjast. Ég er að leita að einhverju í þessa veru. Ég vil finna eitthvað hæfilega stórt verkefni sem ég get unnið að þann tíma sem ég verð hér. Þetta vekur áhuga minn. 

AngelList er fyrirtæki sem er knúið af hugsjónum. Við höfum sett peninga á fyrstu stigum í helminginn af öllum tæknisprotum á þeim mörkuðum sem við störfum á. Þannig að þetta tengist fyrirtækinu mínu, en það þarf ekki að vera bein tenging. Ef við getum hjálpað við að hvata sprotaumhverfið hérna, þá er ég sáttur. Þetta er ekki allt gert af óeigingjörnum hvötum - þetta er í okkar hag líka - en við viljum huga að því að hér séu fleiri sprotafyrirtæki og að þeim vegni enn betur.“

Auglýsing

Það er einn þeirra hluta, sem mér sem er með bakgrunn í öðru en sprotaheiminum finnst mjög heillandi. Nýsköpunarumhverfið er ekki núllsummuleikur. Þegar fyrirtækin verða betri og sterkari og vistkerfið er betra, græða allir.

„Ég gæti talað um það í marga klukkutíma. Það er uppáhaldið mitt við sprotageirann. Ég hef hjálpað sumum fyrirtækjum mjög mikið, og hefur líka verið umbunað vel fyrir það. En það sem er áhugavert er að það er ekki endilega línuleg tenging þar á milli. Ég gæti til dæmis verið að vinna með einu sprotafyrirtæki. Einn úr því fyrirtæki færi svo seinna að vinna í öðru fyrirtæki og þyrfti á klukkutíma frá mér að halda til að fá tengingu við annan aðila. En þannig fengi ég ráðgjafahluti í félagi sem síðar gæti náð góðum árangri. Þetta er það sem ég elska. Það er ekki hægt að sitja og pæla í hvernig er hægt að græða sem mest á þessum bransa, við bara hjálpum hvert öðru. Og það virkar þegar fyrirtækjunum vegnar vel. Það er það sem ég elska við þennan bransa. Ef þitt eðli er að vera hjálpsamur þá er þetta einn af fáu geirunum sem þér mun ekki líða eins og það sé verið að nota þig. Það gengur upp til lengri tíma litið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGunnar Dofri Ólafsson
Meira úr sama flokkiViðtal