Mynd: Icelandair

Icelandair bjargaði sér fyrir horn og fékk sjö þúsund nýja eigendur

Það fyrirtæki á Íslandi sem orðið hefur fyrir mestu efnahagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum er Icelandair Group. Það fékk líka mestu hjálp allra fyrirtækja frá skattgreiðendum. Í september réðst Icelandair svo í hlutafjárútboð þar sem almenningur keypti bréf í meira mæli en hann hefur gert í rúman áratug. Árið 2020 var róstursamt hjá flugfélagi allra landsmanna.

Icelandair Group átti í miklum rekstr­­ar­­vanda á árinu 2020. Alls nam tap sam­­stæð­unnar um 45 millj­­örðum króna á fyrri hluta þess. Stærstan hluta þess taps, sem nam um 245 millj­­ónum króna á dag, mátti rekja beint til kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­s­ins. Fyrir lá að félagið átti ekki nægt laust fé til að lifa mikið lengur við óbreyttar aðstæð­ur.

Í sumar, og fram á haust, réri Icelandair Group því líf­róður og und­ir­­bjó það að sækja sér nýtt hlutafé til að standa af sér yfir­­stand­andi storm. Hluta­fjár­út­boð­inu var nokkrum sinnum frestað á meðan að stjórn­end­ur Icelandair hnýttu aðra lausa enda til að gera þátt­töku í því eft­ir­sókn­ar­verð­ari. Útboðið fór loks fram í september. Og lukkaðist. Icelandair var fyrir vind. Að minnsta kosti um sinn.

Efnahagsaðgerðum beint að Icelandair

Flestar þeirra efna­hags­að­gerða sem íslenska ríkið hefur gripið til vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins hafa verið sniðnar að Icelanda­ir. Félagið var það ein­staka fyr­ir­tæki sem nýtti mest allra hluta­bóta­leið stjórn­valda. 

Auglýsing

Auk þess fóru rúm­lega 3,4 millj­arðar króna af hinum svoköll­uðu upp­sagn­ar­styrkj­un­um, sem sam­tals námu átta millj­örðum króna, til Icelandair Group eða tengdra aðila, eða um 43 pró­sent heild­ar­upp­hæð­ar­inn­ar. 

Þann 1. sept­em­ber var greint frá því að Icelandair hefði náð sam­komu­lagi við rík­is­bank­ana tvo, Íslands­banka og Lands­bank­ann, um að þeir sölu­tryggðu sam­tals sex millj­arða króna í hluta­fjár­út­boðinu sem þá var framundan. Hvor um sig sölu­tryggði þrjá millj­arða króna. Það þýddi á manna­máli að Icelandair þurfti í raun ekki að selja nema 14 millj­arða króna af útgáf­unni vegna þess að rík­is­bank­arnir tveir höfðu þegar skuld­bundið sig til að kaupa fyrir sex ef 14 millj­arða króna markið næst. 

Íslands­banki hefur lengi verið helsti við­skipta­banki Icelandair og lánað honum háar fjár­hæð­ir. Bank­inn er með veð í fast­eignum og flug­hermum félags­ins. Í mars í fyrra lán­aði Lands­bank­inn Icelandair 80 millj­ónir dala, þá um tíu millj­arða króna en nú mun hærri fjár­hæð, gegn veði í tíu Boeing 757 flug­vélum félags­ins, sem eru gamlar og lík­ast til verð­lausar miðað við þá stöðu sem er uppi í heim­inum í dag, sam­kvæmt við­mæl­endum Kjarn­ans. 

Lánalínur og ríkisábyrgð

Til við­bótar við allt ofan­greint þá hétu rík­is­bank­arnir tveir því að leggja fram rekstr­ar­línu upp á sam­tals sjö millj­arða króna sem Icelandair mun geta dregið á. Íslands­banki leggur til fjóra af þeim millj­örðum króna en Lands­bank­inn þrjá. 

Auglýsing

Icelandair mun auk þess fá þrauta­vara­lána­línu upp á 16,5 millj­arða króna, sem félagið getur dregið á ef allur annar pen­ingur er búinn. Íslands­banki og Lands­bank­inn munu skipta því láni á milli sín, og lána 8,25 millj­arða króna hvor ef á lín­una reyn­ir.  

Alþingi sam­þykkti fyrr á þessu ári að ábyrgj­ast 90 pró­sent lána­lín­unn­ar, eða tæp­lega 15 millj­arða króna. 

Veruleg umframeftirspurn

Icelandair Group ætl­aði sér að safna að minnsta kosti 20 millj­örðum króna í hlutafjárútboð­inu í september. Hægt yrði að hækka þá fjár­hæð í 23 millj­arða króna ef umfram­eft­ir­spurn yrð­i. 

Alls bár­ust yfir níu þús­und áskriftir upp á alls 37,3 millj­arða króna. Umfram­eft­ir­spurn var því 85 pró­sent, bæði frá fag­fjár­festum og almennum fjár­fest­um. Nýjum hlutum fylgdi 25 pró­sent áskrift­ar­rétt­indi, eða sem nemur 5,75 millj­örðum hluta. Það þýðir að hver og einn sem keypti gat bætt við sig 25 pró­sent af því sem við­kom­andi skráði sig fyrir í við­bót á sama gengi og var í hluta­fjár­út­boð­inu, en það var ein króna á hlut. 

Stjórn Icelandair Group ákvað að sam­þykkja ekki allar áskrift­ir, heldur ein­ungis fyrir 30,3 millj­arða króna. Það þýddi að áskriftum fyrir sjö millj­arða króna var hafnað af stjórn­inn­i. 

Enn er óvissa um hvenær ferðamenn snúa aftur til Íslands í þannig magni að það telji fyrir fyrirtæki eins og Icelandair.
Mynd: Bára Huld Beck

Þeir sem áttu hlutabréf í Icelandair fyrir þynn­tust strax niður um 80,9 pró­sent. Sú þynn­ing mun aukast þegar nýir hlut­hafar nýta áskrift­ar­rétt­indi sín. 

Það á þó ein­ungis við þá hlut­hafa sem ákváðu að taka ekki þátt í útboð­inu nú. Þeir úr hópi þeirra sem vörðu eignastöðu sína voru hlut­falls­lega á svip­uðu róli og þeir voru áður, en borguðu vitanlega nýja pen­inga inn í Icelandair Group.

Hluthöfum fjölgaði í yfir ellefu þúsund

Mikil eft­ir­spurn var hjá almennum fjár­festum í útboð­inu. Eign­ar­hlutur þeirra var um 50 pró­sent eftir það og fjöldi hlut­hafa í félag­inu verður yfir ell­efu þús­und. Hlut­höfum Icelandair Group fjölgaði því um sjö þús­und. 

Líf­eyr­is­sjóðir lands­ins voru áður stærstu eig­endur félags­ins með sam­tals 53,3 pró­sent eign­ar­hlut.

Á meðal þeirra sem þynn­tist mest niður var banda­ríski fjár­­­­­­­­­fest­ing­­­­­ar­­­­­sjóð­­­­­ur­inn PAR Capital Management. Sá sjóður sér­hæfir sig í fjár­fest­ingum í flug­fé­lögum og er því í vanda víðar en á Íslandi. Hann kom inn í eig­enda­hóp Icelandair í hluta­fjár­aukn­ingu í apríl í fyrra þegar hann keypti 11,5 pró­sent á 5,6 millj­arðar króna. Síðar bætti sjóð­ur­inn við sig hlutum og átti þegar mest var 13,5 pró­sent. Síð­ustu mán­uði hefur PAR verið að selja sig niður í Icelandair Group á hrakvirði og fyrir lá fyrir nokkrum síðan að þar væru ekki til pen­ingar til að styðja frekar við íslenska flug­fé­lag­ið.

Hluti lífeyrissjóða tók þátt

Mikil spenna var um hvaða líf­eyr­is­sjóðir sem áttu þegar í Icelandair Group myndu taka þátt í útboð­inu, en þátt­taka þeirra var talin lyk­il­at­riði í því að það tæk­ist að ná mark­miðum þess. Á end­anum varð nið­ur­staðan sú að sumir tóku þátt, en aðrir ekki. 

Auglýsing

Af fjórum stærstu sjóðum lands­ins, sem allir voru á meðal stærstu eig­endur Icelandair Group fyrir útboð­ið, tóku tveir (Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins og Gildi líf­eyr­is­sjóð­ur) þátt en tveir (Líf­eyr­is­sjóður verzlunarmanna og Birta líf­eyr­is­sjóð­ur) sögðu pass. Auk þess vakti athygli að bæði Frjálsi líf­eyris­sjóð­ur­inn og Festa líf­eyr­is­sjóður ákváðu að taka ekki þátt. Síðan þá hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins selt hluta þeirra bréfa sem hann keypti með prýðilegum hagnaði.

Fjöldi sjóða í stýr­ingu hjá fjár­mála­fyr­ir­tækjum tók þátt. Þar voru sjóðir í stýr­ingu Stefn­is, sjóðstýringafyrirtækis Arion banka, umsvifa­mest­ir. 

Gætu þurft að draga á lánalínuna næsta sumar

Í aðdraganda útboðsins gaf Icelandair Group það út félagið búist við því að ná fyrri umsvifum sínum árið 2024. Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, sagði í Kast­ljósi skömmu fyrir hlutafjárútboðið að það það myndi þurfa að draga á lána­lín­una sem rík­is­á­byrgðin hvílir á ef staðan myndi ekki batna næsta sum­ar. Það myndi þá fleyta Icelandair áfram inn á vorið 2022. 

Ríkisstjórnin ákvað að veita ríkisábyrgð á stærstum hluta af mögulegu risaláni til Icelandair.
Mynd: Bára Huld Beck

Mikil óvissa ríkir um ferðamannasumarið á Íslandi á næsta ári. Jákvæð tíðindi af bóluefni gegn COVID-19, og það að bólusetning er þegar hafin í heiminum, veitir von um að viðspyrnan hefjist af alvöru á næsta ári. 

Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu í byrjun desembermánaðar þar sem sagði að vonast yrði eftir að hjarðónæmi myndi nást á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þann 17. desember sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ekki mætti búast við að því yrði náð fyrr en á síðara hlut ársins 2021. Samningar sem stjórnvöld hafa gert við framleiðendur um afhendingu á bóluefni benda til þess að Þórólfur fari með rétt mál.

Þá byggir Seðlabanki Íslands greiningar sínar á því að hingað komi 750 þúsund ferðamenn á árinu 2021, en þeir voru tvær milljónir 2019. Það hvernig helstu viðskiptalöndum Íslands mun ganga að bólusetja mun loks skipta meginmáli í því að fá ferðamenn til að koma á ný til landsins.

Hlutabréfin hafa hækkað í virði

Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað umtalsvert frá því að hlutafjárútboð Icelandair fór fram. Það er nú um 1,6 krónur á hlut, eða 60 prósent yfir genginu í hlutafjárútboðinu, sem var ein króna á hlut. Það þýðir að sá sem keypti fyrir eina milljón króna á nú bréf sem metin eru á 1,6 milljónir króna. Þá jákvæðni má rekja að mestu annars vegar til aukinna væntinga um eðlilega starfsemi vegna bóluefna og hins vegar vegna þess að 737-Max vélar félagsins, sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra, hafa fengið leyfi víða um að fara aftur í loftið og búist er við því að Icelandair geti notað þær næsta vor. 

Gengið er þó langt frá því sem það var þegar Icelandair var á mestu flugi. Í apríl 2016 fór gengi bréfa í félaginu í 38,5 krónur á hlut.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar