Sjálfstæðisflokkur styrkir stöðu sína sem fyrsti valkostur elstu og tekjuhæstu kjósendanna

Stærsti stjórnmálaflokkur landsins siglir nokkuð lygnan sjó samkvæmt könnunum og hefur ekki tapað á ríkisstjórnarsamstarfinu. Fylgi flokksins á Austurlandi hefur hríðlækkað og hann virðist aðallega vera að slást við Miðflokkinn um atkvæði.

Forystusveit Sjálfstæðisflokksins sem var kosin á landsfundi 2018.
Forystusveit Sjálfstæðisflokksins sem var kosin á landsfundi 2018.
Auglýsing

Sjálfstæðisflokkurinn skilgreinir sig sem flokk stöðugleika. Þótt hugmyndin á bakvið það sé fyrst og síðast sú að breyta kerfum hægt eða ekki og sýna íhaldssemi í ríkisrekstri þá virðist hún einnig eiga við fylgisþróun flokksins. 

Þótt þeir dagar þar sem hann var að jafnaði með 35-40 prósent fylgi séu löngu liðnir þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn nær ætið stærsti stjórnmálaflokkur landsins í gjörbreyttu landslagi síðustu ára og fylgi flokksins nú er nánast nákvæmlega það sama og það mældist fyrir rúmum þremur árum. 

Stöðugleikinn birtist líka í því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nú setið á þingi í 17 ár og verið formaður hans í næstum tólf. Ekkert bendir til annars en að Bjarni ætli að leiða flokkinn í gegnum næstu kosningar en landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem átti að fara fram um liðna helgi, var frestað í september vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hann mun fara fram á fyrri hluta næsta árs, í síðasta lagi í aprílmánuði. 

Bjarni sagði í Kastljósviðtali 23. febrúar síðastliðinn að sér liði þannig að hann væri ekki búinn og að hann hefði stuðning. „Mig langar til að halda áfram, hvað getur verið meira ­spenn­andi í líf­inu en að fást við það að móta fram­tíð lands og þjóðar og ver­a að leggja á borðið til­lög­ur? Ég get ekki séð neitt annað sem gæti ver­ið ­merki­legra og skemmti­legra að ger­a.“

Síðan þá hefur reyndar skollið á heimsfaraldur kórónuveiru og verkefni stjórnmálanna breyst verulega. Í stað þess að takast á við mjúka lendingu í efnahagsmálum er Bjarni, sem fjármála- og efnahagsráðherra, að takast á við fjárlagahalla sem er áætlaður 533 milljarðar króna samanlagt á árunum 2020 og 2021.

Eldri kjósendur hryggjarstykkið í flokknum

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með aðeins minna fylgi en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þá settu 25,3 prósent kjósenda X við D en í síðustu tveimur könnunum MMR hefur fylgið mælst 23,5 prósent. Líkt og svo oft áður þá reyndist Sjálfstæðisflokkurinn fá meira upp úr kjörkössunum en kannanir bentu til, en í tveimur könnunum í kringum kosningarnar 2017 – sem framkvæmdar voru annars vegar rétt fyrir og hins vegar rétt eftir þær – var meðaltalsfylgi flokksins 22,8 prósent. 

Auglýsing
Munurinn á því fylgi og fylgi flokksins í dag er vel innan skekkjumarka. Því má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haldið sínu það sem af er kjörtímabili og sé á mjög svipuðu róli og flokkurinn var haustið 2017.

Þegar fylgi Sjálfstæðisflokks er skoðað eftir landsvæðum kemur í ljós að það er nokkuð stöðugt á þeim flestum, þegar miðað er við meðaltal kannanna frá 2017. Flokkurinn er með aðeins sterkari stöðu nú en þá á Norðurlandi og Suðurlandi – þar sem fylgið mælist 24 prósent – og er á svipuðu róli á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sjálfstæðisflokkur mælist allra flokka stærstur með 24,3 prósent fylgi.

Fylgið hefur lækkað aðeins á Vesturlandi og Vestfjörðum en mesta breytingin hefur orðið á Austurlandi, þar sem stuðningur við Sjálfstæðisflokk hefur farið úr 24,1 prósent í kringum kosningarnar 2017 í 11,7 prósent að meðaltali í síðustu tveimur könnunum MMR. 

Áfram sem áður er aldur ráðandi breyta í stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn. Því eldri sem viðkomandi er, því líklegri er hann til að kjósa flokkinn. Fylgið er minnst hjá aldurshópnum 18-29 ára, þar sem 18,3 prósent aðspurðra segjast styðja flokkinn. Það er aðeins minna en haustið 2017. Fylgið hefur líka dregist saman hjá kjósendum á fertugs- og fimmtugsaldri en aukist umtalsvert hjá þeim sem eru á aldrinum 50-67 ára, úr 22,5 í 27,6 prósent. Mestur er stuðningurinn hjá 68 ára og eldri þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í algjörum sérflokki með 31,5 prósent fylgi. 

Sú  breyting hefur orðið frá 2017 að nú nýtur Sjálfstæðisflokkurinn mestra vinsælda hjá þeim sem lokið hafa háskólaprófi en fyrir rúmum þremur árum var flokkurinn stærstur hjá þeim hópi kjósenda sem hafði framhaldsskólapróf sem æðstu menntun.

Langmest fylgi hjá tekjuhæsta hópnum

Árið 2017 sýndu kannanir að því hærri sem tekjur kjósenda voru, því líklegri voru þeir til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Sú staða hefur orðið enn ýktari á yfirstandandi kjörtímabili. 

Fyrir rúmum þremur árum var staðan þannig að 14,7 prósent kjósenda sem voru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur studdu flokkinn. Stuðningurinn jókst síðan eftir því sem tekjurnar hækkuðu og náði hámarki hjá efsta tekjuhópnum – þeim sem er með meira en 1,2 milljónir króna í heimilistekjur – þar sem Sjálfstæðisflokkurinn naut stuðnings 29,7 prósent kjósenda.

Í dag hefur stuðningurinn hjá lægsta tekjuhópnum dregist saman og er einungis 11,9 prósent. Bæði Píratar og Samfylking mælast með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn hjá þeim tekjuhóp og Miðflokkurinn er ekki langt undan. Fylgi flokksins dregst líka saman hjá þeim sem eru með 400-799 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur en eykst hjá öðrum tekjuhópum, og nær hámarki hjá tekjuhæsta hópnum. Þar mælist fylgi Sjálfstæðisflokks 34,2 prósent. Enginn annar flokkur kemst nálægt því að vera svo sterkur hjá efnaðasta kjósendahópnum. Raunar eru bara tveir aðrir flokkar, Samfylking (18,6 prósent) og Viðreisn (12,5 prósent), sem mælast með meira fylgi hjá tekjuhópnum sem er með meira en 1,2 milljón krónur á mánuði en heildarfylgi. 

Þegar Miðflokkurinn lækkar, þá hækkar Sjálfstæðisflokkur

Í síðustu viku, þegar MMR greindi frá niðurstöðu nýjustu könnunar sinnar á fylgi stjórnmálaflokka, vakti fyrirtækið sérstaka athygli á því í tilkynningu að stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sveiflist í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins. 

Umtalsverð fylgni hefði verið þar á milli frá því að Miðflokkurinn var stofnaður árið 2017 og fyrirtækið hóf að mæla stuðning við hann. 

Í könnun sem MMR birti niðurstöðuna úr 22. nóvember 2019, fyrir tæpu ári síðan, mældist Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda með minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni mælst með í könnunum fyrirtækisins, 18,1 prósent. Í sömu könnun mældist Miðflokkurinn með mesta fylgi sem hann hefur nokkru sinni mælst með, eða 16,8 prósent. Sameiginlegt fylgi flokkanna var 34,9 prósent í þeirri könnun.

Í síðustu tveimur könnunum MMR mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5 prósent fylgi, og hafði þar með bætt við sig 5,4 prósentustigum frá lágpunktinum fyrir ári síðan, og Miðflokkurinn með 10,3 prósent, og hafði tapað 6,5 prósentustigum. Samanlagt fylgi flokkanna nú er 33,8 prósent. 

Úttekt á bakgrunni stuðningsmanna flokka

Kjarn­inn hefur fengið aðgang að gögnum um bak­grunns­breytur þeirra sem svarað hafa könn­unum MMR um fylgi stjórn­mála­flokka. Þær breytur sem um ræðir eru kyn, ald­ur, búseta, menntun og heim­il­is­tekj­ur. Gögnin eru ann­ars vegar úr síð­ustu tveimur könn­unum MMR, sem gerðar voru 23-28. októ­ber og 6-11. nóv­em­ber 2020 (sam­tals 1.858 svar­end­ur), og hins vegar úr tveimur könn­unum sem gerðar voru öðru hvoru megin við síð­ustu þing­kosn­ingar árið 2017. Með því að skoða þær kann­an­ir, sem fram­kvæmdar voru 26-27. októ­ber og 14.-17. nóv­em­ber 2017 (sam­tals 1.924 svar­end­ur), er hægt að sjá þær breyt­ingar sem orðið hafa á bak­grunns­breytum stuðn­ings­manna flokk­anna frá þeim tíma. Næstu daga mun Kjarn­inn birta umfjöllun um alla þá átta flokka sem mældir eru í könn­unum MMR og í kjöl­farið ýmis konar aðra umfjöllun byggða þeim upp­lýs­ingum sem gagna­safnið geym­ir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar