Mynd: Bára Huld Beck

Útgjöld aukin, tekjur lækka og niðurstaðan er 533 milljarða króna halli á tveimur árum

Stjórnvöld ætla ekki að skera niður eða hækka skatta til að takast á við yfirstandandi kreppu vegna kórónuveirufaraldursins. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að tekjur og gjöld verði nánast þau sömu og áætlað er að þau verði í ár. Fyrir vikið mun skuldsetning ríkisins aukast gríðarlega á skömmum tíma enda áætlaður halli 2020 og 2021 sá mesti í Íslandssögunni.

Halli á rekstri ríkissjóðs í ár verður 269,2 milljarðar króna. Það er mesti halli sem nokkru sinni hefur verið á rekstri hans. Fjárlög fyrir árið 2020 gerðu ráð fyrir tíu milljarða króna halla þegar þau voru samþykkt í nóvember 2019. 

Á næsta ári verður staðan nánast sú sama. Áætlaður halli er 264,2 milljarðar króna. Á tveimur árum verða tekjur ríkissjóðs því 533,4 milljörðum krónum lægri á árunum 2020 og 2021 en útgjöld hans. Þessi munur verður fjármagnaður með lántökum. 

Til samanburðar má nefna að hallinn á rekstri ríkissjóðs árið 2008, þegar bankahrunið varð, nam 194 milljörðum króna. Mesti tekjuafgangur sögunnar varð árið 2016, þegar að tekjur voru 302 milljörðum króna meiri en útgjöld í kjölfar þess að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiddu stöðugleikaframlög í ríkissjóð. 

Ástæðan blasir við öllum: kórónuveirufaraldur sem er að valda mesta samdrætti í heila öld út um allan heim. 

Staða sem getur leitt af sér aukinn ójöfnuð

Hérlendis mun hann leiða til þess að 7,6 prósent samdráttur verður í ár, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birtist í morgun. Þar munar mestu um 30 prósent minni útflutningstekjur. Þorri þess samdráttar er vegna þess að ferðaþjónusta, sem var orðin sú stoð undir hagkerfinu sem skapaði mestar útflutningstekjur, hefur nær lamast vegna faraldursins, en samdráttar gætir líka í hinum tveimur útflutningsstoðunum, sjávarútvegi og áli sem er framleitt fyrir íslenska raforku. 

Auglýsing

Fyrir almenning í landinu framkallar þessi staða mikla erfiðleika fyrir hluta þjóðarinnar, sérstaklega þá sem missa vinnuna eða treysta á tekjur þeirra. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði komið upp í 10,2 prósent í lok þessa mánaðar og þá verða á þriðja tug þúsund manns án atvinnu. 

Eins snúið og það hljómar þá batnar hins vegar hagur margra annarra sem missa ekki vinnuna. Kaupmáttaraukning hefur mælst umtalsverð undanfarið rúmt ár, eða 4,8 prósent, og stýrivextir hafa lækkað niður í sögulegar lægðir, eða eitt prósent. Fyrir vikið hefur lánsfjármagn, til dæmis til húsnæðiskaupa, orðið ódýrara. Sú hætta er því til staðar að yfirstandandi kreppa muni auka ójöfnuð. Sérstaklega ef hún stendur yfir í lengri tíma. 

Tekjur og gjöld stöðug milli ára

Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í morgun, bera þess eðlilega merki að vera að öllu leyti sniðin að baráttunni gegn áhrifum kórónuveirufaraldursins. Fyrir liggur að það á ekki að hækka skatta til að takast á við stöðuna né heldur að ráðast í stórfelldan niðurskurð, heldur að taka lán til að fleyta hagkerfinu í gegnum það sem vonir standa til að verði skammvinn niðursveifla. Þær vonir birtast meðal annars í því að Hagstofan spáir 3,9 prósent hagvexti strax á næsta ári. Sú spá hlýtur þó að byggja á þeim forsendum að bóluefni við veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum verði tilbúið á næsta ári og að það takist að dreifa því víða hratt. 

Auglýsing

Tekjur ríkissjóðs í ár eru áætlaðar 769 milljarðar króna en útgjöld 1.038 milljarðar króna. Fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ráð fyrir að tekjurnar aukist um rúma þrjár milljarða króna milli ára en að gjöldin lækki um tæpa tvo milljarða króna.

Semsagt mjög svipuð staða sem endurspeglast í því að hallinn á rekstri ríkissjóðs er áætlaður nánast sá sami á báðum árunum. 

Útgjöld vegna atvinnuleysis 50 milljarðar

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að bein efnahagsleg áhrif faraldursins geri það að verkum að afkoma ríkissjóðs versni um 192 milljarða króna. Þar vegi samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa mestu, en hann er áætlaður 89 milljarðar króna. Til viðbótar við þann samdrátt bætast þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til vegna kórónuveirufaraldursins, og fela meðal annars í sér tímabundna lækkun á sköttum og endurgreiðslu á virðisaukaskatti.

Brotthvarf ferðamanna vegna kórónuveirufaraldursins er lykilbreyta í því að atvinnuleysi hérlendis stefnir í methæðir.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Útgjöld aukast líka. Þegar fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt fyrir tæpu ári var reiknað með að þau yrðu 919 milljarðar króna. Í ár stefnir hins vegar, líkt og áður sagði, í að þau verði 1.038 milljarðar króna, eða 119 milljarða króna frá því sem lagt var upp með. Stóru liðirnir þar eru útgjöld vegna mótvægisaðgerða vegna faraldursins, meðal annars greiðsla á beinum styrkjum, aukinn kostnaður vegna greiðslu atvinnuleysisbóta og flýting á framkvæmdaverkefnum hins opinbera.

Þessi útgjaldaaukning heldur áfram á næsta ári þar sem gert er ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki alls um 23 milljarða króna og verði 50 milljarðar króna. Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 milljarðar króna. en þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar. 

Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur ríkissjóðs lækki um 27 milljarða króna. Þær koma frá fyrirtækjum í eigu ríkisins, aðallega Landsbankanum, Íslandsbanka og Landsvirkjun.

Koma á böndum á skuldasöfnun á næstu árum

Samhliða framlagningu fjárlagafrumvarpsins var kynnt fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025. Í henni kemur fram að helsta áskorunin verði að snúa við miklum hallarekstri og koma böndum á skuldasöfnun. Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna þessa segir að við aðstæður sem þessar feli „hallareksturinn ekki í sér þjóðhagslegt tap. Fénu er varið til að styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja og til að koma í veg fyrir að verðmæti og störf tapist með varanlegum hætti. Markmiðið er að styðja við og örva hagkerfið svo að út úr lægðinni komi samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi.“

Auglýsing

Vegna þess mikla halla sem verður á rekstri ríkissjóðs á árunum 2020 og 2021 er búist við að skuldir hins opinbera fari úr því að vera 28 prósent af vergri landsframleiðslu í lok síðasta árs í 48 prósent í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að skuldasöfnunin stöðvist við 59 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2025 og taki svo að lækka á grunni hagvaxtargetu sem lögð er til grundvallar í fjármálaáætluninni. 

Ríkisstjórnin, sem á innan við ár eftir af stjórnarsetu sinni, telur mikilvægt að sett verði „skýrt og raunhæft stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar og rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar til að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar