Fylgi Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu hefur hrunið frá síðustu kosningum

Fylgi Vinstri grænna, flokks forsætisráðherra, hefur ekki mælst lægra í könnunum MMR frá því í apríl 2013. Í síðustu kosningum var sterkasta vígi flokksins á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningur við flokkinn þar hefur dregist verulega saman á kjörtímabilinu.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra.
Auglýsing

Í síðustu könnun MMR fyrir kosningarnar 2017, og þeirri fyrstu eftir þær, mældist meðaltalsfylgi Vinstri grænna 14,9 prósent. Það var aðeins lægra en flokkurinn fékk í kosningunum sjálfum, sem var 16,9 prósent. Munurinn var þó innan skekkjumarka. 

Kannanir MMR sýndu að fylgi Vinstri grænna var mest á höfuðborgarsvæðinu, sem samanstendur af báðum Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum svokallaða, nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Þar búa tveir af hverjum þremur íbúum landsins. Meðaltal fylgis Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu í áðurnefndum tveimur könnnunum MMR var 16,3 prósent. 

Hvergi á landinu mældist það meira enda hafði árangurinn í Reykjavík verið mjög góður í kosningunum. Í Reykjavík norður, þar sem Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, leiddi listann, fengu Vinstri græn 21,5 prósent atkvæða. 

Það var mesta fylgi sem flokkurinn fékk í nokkru kjördæmi í síðustu kosningum.  

Oddvitar lista Vinstri grænna í þessum þremur kjördæmum voru þrjár konur: formaðurinn Katrín, Svandís Svavarsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Tvær fyrrnefndu konurnar settust í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að kosningum loknum sem leidd er af Katrínu. 

Sú síðastnefnda studdi ekki stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar og sagði sig úr Vinstri grænum fyrr á þessu ári. 

Fylgið ekki minna í sjö og hálft ár

Í síðustu tveimur könnunum MMR hefur fylgi Vinstri grænna mælst að meðaltali 7,9 prósent. Það er níu prósentustigum undir kjörfylgi. 

Því er ljóst að miðað við þá stöðu hefur flokkurinn tapað miklum stuðningi á kjörtímabilinu. 

Í könnuninni sem birt var í liðinni viku, og vigtar um helming af ofangreindu meðaltali, mældist fylgið 7,5 prósent. Það hefur ekki mælst lægra í könnunum MMR frá því í apríl 2013, nokkrum dögum fyrir þingkosningar þess árs, þegar fyrsta hreina tveggja flokka vinstristjórnin var að ljúka átakadrifinni valdasetu sinni sem feikilega óvinsæl minnihlutastjórn.Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon stóðu í stafni þeirrar ríkisstjórnar sem lauk störfum vorið 2013. Fylgi Vinstri grænna hefur ekki mælst minna frá því í aprílmánuði það ár.

Það er merkilegt í ljósi þess að Katrín Jakobsdóttir er sá ráðherra sem flestir landsmenn segjast treysta, samkvæmt könnun Zenter fyrir Fréttablaðið sem birt var í síðasta mánuði. Þar sögðust 18,1 prósent landsmanna bera mest traust til forsætisráðherrans. 

Það traust virðist hins vegar ekki skila sér í auknu fylgi Vinstri grænna. Þvert á móti.

Flótti kjósenda frá Vinstri grænum er fyrst og síðasta að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu, þar sem formaðurinn leiðir lista flokksins í einu þriggja kjördæma. Þar segjast 7,6 prósent kjósenda styðja flokkinn í dag, eða 8,7 prósentustigum færri en í könnunum MMR í kringum kosningarnar 2017. Ef reiknað er meðaltalsfylgi Vinstri grænna í kosningunum sjálfum í þeim þremur kjördæmum sem mynda höfuðborgarsvæðið þá var það um 17 prósent. Flokkurinn hefur því tapað næstum tíu prósentustigum á þessu fjölmennasta, og þéttbýlasta, svæði landsins á þeim rúmu þremur árum sem hann hefur leitt ríkisstjórn.

Fylgið dalar víða

Vinstri græn tapa fylgi á öllum landsvæðum, nema á Vesturlandi og Vestfjörðum, á þeim slóðum þar sem Lilja Rafney Magnúsdóttir er oddviti flokksins. Þar eykst fylgið lítillega. 

Flokkurinn hefur ætið átt sterkt vígi í Norðausturkjördæmi, þar sem stofnandinn og fyrrverandi formaðurinn Steingrímur J. Sigfússon hefur verið í forystu fyrir hann frá stofnun 1999. Steingrímur tilkynnti nýverið að hann ætlaði að hætta á þingi í aðdraganda næstu kosninga og því liggur fyrir að nýr oddviti mun leiða í kjördæminu. Óli Halldórsson hefur þegar tilkynnt framboð í það hlutverk.

Auglýsing
Í kosningunum 2017 fengu Vinstri græn 19,9 prósent atkvæða í Norðausturkjördæmi og voru næst stærsti flokkurinn. Þau fengu einungis 88 færri atkvæði en Sjálfstæðisflokkurinn þá. Í síðustu könnunum MMR mælist fylgi Vinstri grænna á Norðurlandi einungis 10,7 prósent og á Austurlandi 8,8 prósent.

 Vinstri græn fengu 11,8 prósent atkvæða í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum. um er að ræða víðfeðmasta kjördæmi landsins sem teygir sig frá Höfn í Hornafirði til Suðurnesja. Nú mælist stuðningur við flokkinn á Suðurlandi og á Suðurnesjum einungis 4,5 prósent. Það myndi ekki duga Vinstri grænum til að ná inn manni í kjördæminu. 

Staðan var sterk hjá konum

Í könnunum MMR í kringum síðustu kosningar kom skýrt fram að Vinstri græn voru flokkur sem höfðaði mun frekar til kvenna en karla. Alls mældist stuðningur við flokkinn 21 prósent meðal kvenna en 9,6 prósent meðal karla. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn, með 21,8 prósent kvennafylgi, var vinsælli hjá konum. 

Í dag er staðan önnur. Fylgi Vinstri grænna á meðal kvenna mælist 12,4 prósent og karlafylgið hefur helmingast. Nú segjast fleiri konur kjósa Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og Pírata en Vinstri græn. 

Þegar horft er á menntun og tekjur þá hefur stuðningur við Vinstri græn dregist saman í öllum flokkum. Samdrátturinn á stuðningi er meiri hjá tekjuhærri en tekjulægri en meiri hjá þeim sem eru með grunnskólapróf sem æðstu menntun en öðrum sem hafa lokið lengri skólagöngu.

Úttekt á bakgrunni stuðningsmanna flokka

Kjarn­inn hefur fengið aðgang að gögnum um bak­grunns­breytur þeirra sem svarað hafa könn­unum MMR um fylgi stjórn­mála­flokka. Þær breytur sem um ræðir eru kyn, ald­ur, búseta, menntun og heim­il­is­tekj­ur. Gögnin eru ann­ars vegar úr síð­ustu tveimur könn­unum MMR, sem gerðar voru 23-28. októ­ber og 6-11. nóv­em­ber 2020 (sam­tals 1.858 svar­end­ur), og hins vegar úr tveimur könn­unum sem gerðar voru öðru hvoru megin við síð­ustu þing­kosn­ingar árið 2017. Með því að skoða þær kann­an­ir, sem fram­kvæmdar voru 26-27. októ­ber og 14.-17. nóv­em­ber 2017 (sam­tals 1.924 svar­end­ur), er hægt að sjá þær breyt­ingar sem orðið hafa á bak­grunns­breytum stuðn­ings­manna flokk­anna frá þeim tíma. Næstu daga mun Kjarn­inn birta umfjöllun um alla þá átta flokka sem mældir eru í könn­unum MMR og í kjöl­farið ýmis konar aðra umfjöllun byggða þeim upp­lýs­ingum sem gagna­safnið geym­ir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar