Bára Huld Beck

Skoða þurfi í hverju og einu tilviki hvort einstaklingur geti talist „sjálfstæður framleiðandi“

Í nýju mati fjölmiðlanefndar er bent á að skilgreiningin á „sjálfstæðum framleiðendum“ í þjónustusamningnum við RÚV sé víðtækari en sú í fjölmiðlalögunum. Útvarpsstjóri telur að þetta þurfi „að sjálfsögðu að vera eins skýrt og kostur er“. Skoða þurfi það í hverju og einu tilviki hvort einstaklingur geti talist sjálfstæður framleiðandi gagnvart RÚV með hliðsjón af ýmsum þáttum. Inn í það mat þurfi að taka ýmis atriði.

Fjölmiðlanefnd metur árlega hvort Ríkisútvarpið (RÚV) hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt þeim gæðastöðlum sem fram koma í lögum um RÚV. Matið tekur einnig mið af kröfum og viðmiðum sem fram koma í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og RÚV, um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, en í daglegu tali er talað um þjónustusamning milli aðilanna tveggja sem gerður er til fjög­urra ára í senn.

Út er komið mat fjölmiðlanefndar fyrir árið 2018 en nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt á rekstrarárinu 2018. Nánar tiltekið hafi RÚV uppfyllt þá gæðastaðla sem fram koma í lögum um RÚV og haldið áfram að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi.

RÚV skuli vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð

Í lögum um Ríkisútvarpið segir að Ríkisútvarpið skuli vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, meðal annars með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum. Í þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðherra við Ríkisútvarpið er mælt fyrir um lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum.

Auglýsing

Í skýringum við lög um Ríkisútvarpið segir að samkvæmt þessu skuli Ríkisútvarpið vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð og styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Litið sé svo á að Ríkisútvarpið sé veigamikill aðili að kvikmyndun og kvikmyndagerð hér á landi og af því leiði að hlutverks þess sé getið í sameiginlegri stefnu ríkisins og þeirra sem fáist við kvikmyndir. Einnig sé ráðgert að Ríkisútvarpið flytji fréttir af og sýni frá íþróttaviðburðum bæði innanlands og erlendis. Í umfjöllun sé gert ráð fyrir að fjölbreytni sé höfð að leiðarljósi og jafnræðis gætt milli íþróttagreina eins og kostur sé.

Á meðal þess sem fjölmiðlanefnd skoðar í árlegu mati sínu er hvort tilskildum viðmiðum um kaup af sjálfstæðum framleiðendum, eins og þau eru skilgreind í þjónustusamningi, hafi verið náð.

Gera verður ríkari kröfur um sjálfstæði hinna sjálfstæðu framleiðenda 

Í mati fjölmiðlanefndar segir að Ríkisútvarpið hafi uppfyllt skilyrði um framleiðslu lista- og menningarefnis, með sérstakri áherslu á leikið efni sem og skilyrði um þátttöku í íslenskri kvikmyndagerð, meðal annars með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum, árið 2018.

Þá er það mat fjölmiðlanefndar að viðmið þjónustusamnings um að Ríkisútvarpið verji 10 prósent lágmarkshlutfalli af heildartekjum til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum árið 2018, teljist uppfyllt.

Aftur á móti bendir fjölmiðlanefnd á misvísandi skilgreiningu á hvað „sjálfstæður framleiðandi“ sé annars vegar í þjónustusamningnum og hins vegar í lögum um fjölmiðla. Einnig telur nefndin að gera verði ríkari kröfur um sjálfstæði og óhæði hinna sjálfstæðu framleiðenda sem greiðslur Ríkisútvarpsins renna til.

Umræddir starfsmenn ekki launþegar hjá RÚV og því ekki starfsmenn RÚV

Óskaði nefndin sérstaklega eftir skýringum á því af hverju verktakagreiðslur til tiltekinna einstaklinga, sem þá voru skráðir starfsmenn Ríkisútvarpsins á vefnum RÚV.is og starfa meðal annars sem myndatökumenn, væru taldar með í útreikningum Ríkisútvarpsins á greiðslum til sjálfstæðra framleiðenda. Í svörum skrifstofustjóra RÚV kom fram að umræddir starfsmenn væru ekki launþegar hjá RÚV og því ekki starfsmenn RÚV. Þá var ítrekað í svörum skrifstofustjórans að RÚV teldi myndatökumenn geta talist til sjálfstæðra framleiðenda, þar á meðal myndatökumenn sem jafnframt væru „pródúsentar“ eða framleiðendur dagskrárefnis og sem önnuðust meðal annars dagskrárgerð sem fæli í sér myndatöku, klippingu efnis, hljóðsetningu og fleira.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Bára Huld Beck

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segist í svari við fyrirspurn Kjarnans ekki gera athugasemdir við þetta atriði og mat nefndarinnar á því „enda ljóst að starfsfólk RÚV getur ekki flokkast á sama tíma sem sjálfstæður framleiðandi í skilningi fjölmiðlalaga, það er alveg skýrt og kemur einmitt fram í svörunum frá skrifstofustjóra RÚV“.

Skráðir starfsmenn RÚV á vef Ríkisútvarpsins geti trauðla talist óháðir fjölmiðlaveitunni

Að mati fjölmiðlanefndar getur skilgreining laga um fjölmiðla um að sjálfstæðir framleiðendur séu lögaðilar óháðir viðkomandi fjölmiðlaveitu vart talist uppfyllt ef um er að ræða verktaka sem hafa að aðalstarfi að sinna íþróttafréttum eða dagskrárgerð í sjónvarpsþáttum sem eru framleiddir af RÚV og eru hluti af daglegri eða vikulegri dagskrá RÚV. Þá geti einstaklingar sem 7. júlí 2020 voru skráðir starfsmenn RÚV á vef Ríkisútvarpsins, með eigið netfang á netþjóni RÚV, trauðla talist óháðir fjölmiðlaveitunni Ríkisútvarpinu í skilningi laga um fjölmiðla, þótt viðkomandi einstaklingar séu ekki á launaskrá Ríkisútvarpsins, heldur þiggi verktakagreiðslur.

Jafnframt sé ljóst að samkvæmt lögum um fjölmiðla teljist einstaklingar ekki til sjálfstæðra framleiðenda, einungis fyrirtæki sem jafnframt séu sjálfstæðir lögaðilar.

„Virðast þau sjónarmið sem túlkun Ríkisútvarpsins byggir á í raun geta leitt til þess að unnt væri að fella allar greiðslur til einstaklinga sem starfa við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu undir greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda, að því tilskildu að um verktakagreiðslur væri að ræða,“ segir í mati nefndarinnar. Að mati fjölmiðlanefndar verður ekki séð að löggjafinn hafi viljað fella fleiri tilvik þar undir en þau sem miða að því markmiði að Ríkisútvarpið skuli vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, meðal annars með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum.

Þarf að vera eins skýrt og kostur er

Útvarpsstjóri gerir í svari sínu til Kjarnans engar sérstakar athugasemdir við þetta mat nefndarinnar. „Ég held að það sé alveg rétt að það þarf að skoða það í hverju og einu tilviki hvort að einstaklingur geti talist sjálfstæður framleiðandi gagnvart RÚV með hliðsjón af ýmsum þáttum. Inn í það mat þarf að taka ýmis atriði. Til þessara atriða hefur einmitt verið horft hjá RÚV og viðeigandi breytingar gerðar á undanförnum árum á þessum atriðum hjá RÚV þegar þetta hefur verið skilgreint og metið í samræmi við ákvæði þjónustusamningsins.

Þetta þarf að sjálfsögðu að vera eins skýrt og kostur er, en að því sögðu er líka mikilvægt að hafa í huga að á gildistíma þjónustusamningsins síðastliðin fjögur ár hefur RÚV keypt efni af sjálfstæðum framleiðendum langt umfram þá skyldu sem skilgreind er í samningnum. Því eiga allar bollaleggingar um að eitthvað vanti þarna upp á ekki við,“ segir Stefán í svari sínu.

Auglýsing

884 milljónir til sjálfstæðra framleiðenda árið 2018

Samkvæmt þjónustusamningi Ríkisútvarpsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið átti Ríkisútvarpið að verja að lágmarki 10 prósent af heildartekjum á árinu 2018 til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum, það er til að kaupa eða vera meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndm eða öðru dagskrárefni í miðlum Ríkisútvarpsins.

Í greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2018 kemur fram að allt framlag Ríkisútvarpsins til leikins efnis árið 2018 hafi runnið til sjálfstæðra framleiðenda og framleiðslufyrirtækja, eins og á fyrra ári. Í greinargerðinni segir jafnframt að kaup Ríkisútvarpsins af sjálfstæðum framleiðendum árið 2018 hafi verið 884 milljónir króna eða 13,24 prósent af heildartekjum Ríkisútvarpsins það ár, sem er vel yfir því lágmarki sem miðað er við í þjónustusamningi fyrir árið 2018 sem var 10 prósent.

Samkvæmt listanum sem afhentur var Fréttablaðinu námu kaup af sjálfstæðum framleiðendum hins vegar 796.306.285 krónur eða 11,93 prósent af heildartekjum Ríkisútvarpsins 2018, sem einnig er vel yfir því lágmarki sem skilgreint er í þjónustusamningi fyrir það ár. Samkvæmt Ríkisútvarpinu skýrist það af því að listi Fréttablaðsins hafi takmarkast við sjónvarpsefni (þar með talið talsetningu og tækjaleigu) en talan sem birtist í greinargerð RÚV og ársskýrslu hafi tekið til allra miðla. Þá hafi listi Fréttablaðsins grundvallast á svari ráðherra vegna fyrirspurnar til Alþingis. Fram kemur í skýringum RÚV að í samráði við ráðuneytið hafi verið ákveðið að miða aðeins við sjónvarpsefni sem RÚV hafi keypt eða verið meðframleiðandi að í svörum við fyrirspurn Alþingis. Talan í greinargerð RÚV byggist á þjónustusamningnum.

Skilgreining á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi ekki að finna í lögum um RÚV eða í þjónustusamningi

Fram kemur í mati fjölmiðlanefndar að hvorki í lögum um Ríkisútvarpið né í samningi um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016 til 2019 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi. Hugtakið er skilgreint svo í lögum um fjölmiðla:

„Sjálfstæður framleiðandi hljóð- eða myndefnis er fyrirtæki sem jafnframt er sjálfstæður lögaðili, óháður viðkomandi fjölmiðlaveitu í þeim skilningi að hann er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum hennar, hvorki sér né sameiginlega með öðrum, og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu.“

Samkvæmt skilgreiningu hugtaksins „sjálfstæður framleiðandi“ í lögum um fjölmiðla geta því einungis fyrirtæki sem jafnframt eru sjálfstæðir lögaðilar talist sjálfstæðir framleiðendur. Þá felur hugtakið í sér að hinn sjálfstæði framleiðandi þurfi að vera óháður Ríkisútvarpinu í þeim skilningi að hann sé ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum þess.

Í matinu segir að svo virðist sem grein í þjónustusamningnum 2016 til 2019 sé þó ætlað að hafa víðtækari skírskotun en hugtakinu sjálfstæður framleiðandi samkvæmt lögum um fjölmiðla. Í viðauka við samninginn sé meðal annars fjallað um sérstök markmið á samningstímanum vegna kaupa af sjálfstæðum framleiðendum en þar segir: „Kaup af sjálfstæðum framleiðendum sem hlutfall af heildartekjum. Um er að ræða kaup á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum, meðframleiðslu, aðkeypta þjónustu, þ. á m. vegna talsetningar, leigu á búnaði og fleira.“

Breyta skilgreiningu í nýjum þjónustusamningi

Elfa Ýr GylfadóttirElfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir í samtali við Kjarnann að nefndin sé í matinu að benda á það að skilgreiningin á „sjálfstæðum framleiðendum“ í þjónustusamningnum við RÚV sé víðtækari en sú í fjölmiðlalögunum. „Við erum að skoða þetta út frá þessum ákvæðum um það hvort RÚV hafi uppfyllt þjónustusamninginn eða ekki – og lög um RÚV. Það sem við erum að benda á er að það er ekki samræmt orðalag og ástæðuna fyrir því.“

Hún segir enn fremur að nefndin hafi fengið þær upplýsingar að breyta eigi skilgreiningu til samræmingar í nýjum þjónustusamningi sem von er á innan tíðar. Í mati nefndarinnar kemur einmitt fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi upplýst hana um að framangreindu samningsákvæði verði breytt í drögum að nýjum þjónustusamningi, með þeim hætti að aðeins verði gerð krafa um kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Verði lágmarkshlutfalli og fjárhæðum breytt til samræmis við það.

Gamli samningurinn gildir áfram – önnur mál hafa fengið forgang

Kjarninn greindi frá því um miðjan desember á síðasta ári að Lilja Alfreðs­dóttir mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra hefði kynnt drög að nýjum þjón­ustu­samn­ingi við RÚV fyrir rík­is­stjórninni en sá samningur hefur enn ekki verið undirritaður.

Sam­kvæmt lögum ber mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra að gera þjón­ustu­samn­ing við RÚV um fjöl­miðlun í almanna­þágu til fjög­urra ára í senn, eins og áður segir. ­Þjón­ust­u­­samn­ing­ur­inn, sem skil­­greinir hlut­verk, skyldur og umfang RÚV, rann út í lok síðasta árs. Nýr samn­ingur átti að taka gildi í byrjun þessa árs.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
Bára Huld Beck

Í svari frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans segir að samningsaðilar séu sammála um að eldri samningur gildi áfram og hafi önnur mál fengið forgang. „Drögin sem liggja fyrir eru líklega endanleg en undirritun hefur ekki verið tímasett,“ segir í svarinu.

Ekki eingöngu um greiðslur til lögaðila að ræða

Samkvæmt lista yfir kaup Ríkisútvarpsins af sjálfstæðum framleiðendum, sem afhentur var Fréttablaðinu samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál vorið 2020, voru verktakagreiðslur til dagskrárgerðarfólks, pródúsenta og myndatökumanna hjá Ríkisútvarpinu á meðal þess sem talið var til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. Ekki var þar eingöngu um greiðslur til lögaðila að ræða, heldur einnig verktakagreiðslur til einstaklinga sem, samkvæmt upplýsingum sem sóttar voru 7. júlí 2020 af vefnum RÚV.is, voru starfsmenn Ríksútvarpsins, að því er fram kemur í mati fjölmiðlanefndar.

Þar á meðal voru greiðslur til einstaklinga sem störfuðu fyrir íþróttadeild, við sjónvarpsþættina Menninguna, Landann, Gettu betur, Silfrið og Vikuna. Einnig vakti athygli nefndarinnar að Viðskiptaráð væri á lista yfir sjálfstæða framleiðendur.

Fjölmiðlanefnd óskaði eftir skýringum á þessu með tölvupósti til útvarpsstjóra 28. maí síðastliðinn. Í matinu segir að af svörum skrifstofustjóra Ríkisútvarpsins 29. júní hafi mátt ráða að Ríkisútvarpið teldi samningsákvæði uppfyllt með vísan til framangreinds orðalags í viðauka samningsins og þess að í greininni sé gert ráð fyrir heimild til kaupa á „öðru dagskrárefni“ í miðlum Ríkisútvarpsins en ekki einvörðungu leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum og heimildarmyndum. Jafnframt kom fram að Ríkisútvarpið líti ekki svo á að eingöngu lögaðilar geti talist til sjálfstæðra framleiðenda:

„Varðandi „hvort Ríkisútvarpið telji einstaklinga, þ.m.t. verktaka sem starfa fyrir Ríkisútvarpið sem myndatökumenn eða við aðra dagskrárgerð, til sjálfstæðra framleiðenda“, þá voru myndatökumenn ekki flokkaðir sem slíkir fyrir árið 2018. Hitt er rétt að einstaklingar sem koma að dagskrárgerð geta talist til sjálfstæðra framleiðanda. Þá er um að ræða einstaklinga, sem eru ekki launþegar hjá RÚV, og sem hafa með höndum sjálfstæðan rekstur yfirleitt í gegnum lögpersónu, en stundum á eigin kennitölu. Þessir aðilar eru óháðir RÚV í þeim skilningi að þeir eru ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum RÚV, hvorki sér né sameiginlega með öðrum, og hafa frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu. Er þetta í samræmi við skilgreiningu fjölmiðlalaga og eðli máls og meginreglur fjármunaréttar. Sömu sjónarmið gætu átt við myndatökumenn ef því væri að skipta.

Það hefur þannig ekki verið skilningur RÚV, frekar en ráðuneytisins, að „einyrkjar“ séu undanskildir, enda eru þeir mikilvægur þáttur í flóru sjálfstæðra aðila á markaði rétt eins og lögaðilar á borð við stór framleiðslufyrirtæki,“ segir í tölvupósti frá skrifstofustjóra Ríkisútvarpsins 29. júní til fjölmiðlanefndar. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar