BSRB

Fólk á ekki að þurfa að reiða sig á hjálparstofnanir – Við hljótum að geta gert betur

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Síðust í röðinni er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Ég hafna því alfarið að við ættum að lifa eftir þeirri hug­mynda­fræði að hver sé sinnar gæfu smið­ur. Það virkar ekki svo­leið­is, það þarf að búa betur um fólk en svo og hjálpa til dæmis útlend­ingum að aðlag­ast sam­fé­lag­inu þannig að þeir fái sömu tæki­færi og mögu­leika.“

Þetta segir Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, for­maður BSRB, um fram­tíð­ar­sýn sína varð­andi íslenskt sam­fé­lag. Henni finnst vanta mark­vissa stefnu hér á landi um það hvernig Íslend­ingar ætli að jafna mögu­leika og tæki­færi fólks með raun­veru­legum hætt­i. 

Ástandið í sam­fé­lag­inu er flókið og erfitt fyrir marga og segir hún að núna þurfum við öll að læra að lifa með veirunni. „Ég hef trú á því að flest okkar muni standa saman í þessu verk­efni og vinna það þannig að við getum átt tíma­bil eins og sum­arið var þar sem við hlýddum fyr­ir­mælum og gátum þá verið frjáls­ari en við erum núna. Þó er gott að minna sig á að við hér á Íslandi erum nokkuð frjáls miðað við aðrar þjóð­ir. Börnin okkar mega fara út að leika og í skól­ann.“

Hún bendir á að allt þetta ástand hafi minnt okkur á að heil­brigði sé það allra mik­il­væg­asta. „Við þurfum líka að gæta að umhverf­inu okkar og lifa í sátt og sam­lyndi við það. Ég von­ast til þess að þetta ástand breyti gild­is­mat­inu okkar og að það skili sér líka í breyttum áherslum og hvernig við ætlum að búa okkur í hag­inn til fram­tíð­ar.“

Auglýsing

Ísland hefur ekki ávallt verið ríkt land og bendir Sonja Ýr á að þjóðin hafi farið á met­hraða í gegnum þroska­ferli ann­arra ríkja. „Ég held að við getum bara byggt á þessum góða grunni og lært af mis­tök­unum og ekki end­ur­tekið þau. Svo ég er mjög bjart­sýn á að við náum vel í gegnum þetta ástand. Allir sér­fræð­ingar spá því nú að við­spyrnan verði fljót þegar við náum tökum á veirunni – og þá getum við aftur farið upp á við hratt og vel.“

Verðum að finna nýjar leiðir til að ná utan um þessa hópa

Sonja Ýr segir að stærsta verk­efni vetr­ar­ins verði að tryggja afkomu­ör­ygg­ið. Öll þeirra orka í BSRB muni fara í það að hlustað verði á þau sjón­ar­mið. 

„Bank­arnir sýna ekki að það sé aukn­ing á van­skilum ein­stak­linga og við erum ekki enn að sjá aukn­ingu í greiðslu­erf­ið­leikum út frá þessum mæli­ein­ingum sem við vorum að skoða í hrun­inu. En svo sjáum við hjálp­ar­stofn­anir sem eru svo sann­ar­lega að vekja athygli á því að álagið hefur stór­auk­ist hjá þeim. Ég er þeirrar skoð­unar að við eigum ekki að sætta okkur við að búa í sam­fé­lagi þar sem ein­hverjir þurfa að reiða sig á hjálp­ar­stofn­an­ir. Við hljótum að geta gert betur en svo,“ segir hún. 

Ástæða sé til að vera á varð­bergi og reyna að finna nýjar leiðir til að ná utan um þá hópa sem lifa við knöpp­ustu kjörin og fæst tæki­fær­in. „Þeir eru fjöl­breytt­ari en áður og að ein­hverju leyti þarf að nálg­ast mæl­ingar með nýjum hætt­i.“

Ákvarð­anir teknar í algjörri þoku

Aðgerðir stjórn­valda í far­aldr­inum hafa verið umdeildar eins og gefur að skilja. Þegar Sonja Ýr er spurð út í skoðun hennar á þeim þá segir hún ástandið auð­vitað vera þannig að hlut­irnir breyt­ist mjög hratt og að búið sé að taka ákvarð­anir í algjörri þoku. Þrátt fyrir það finn­ist henni aðgerðir stjórn­valda hafa heppn­ast að mestu leyti mjög vel. 

Sonja Ýr bendir á að orðræðan hafi breyst síðan í vor. Við sjáum nú fram á að ástandið muni vara í mun lengri tíma en þegar faraldurinn kom upp síðasta vetur.
Bára Huld Beck

„Það sem við erum hins vegar að glíma við núna og átta okkur á er að orð­ræðan hefur breyst. Í vor vorum við að von­ast til að þetta yrði ein bylgja og svo yrði aftur farið í venju­legt ástand. En eins og staðan er núna held ég að það sé nokkuð ljóst að ástandið muni vara í 6, 12 eða jafn­vel 18 mán­uði og við verðum að fara að und­ir­búa okkur fyrir það,“ segir hún. 

Sonja Ýr nefnir enn fremur að skortur hafi verið á inn­viða­upp­bygg­ingu sem Íslend­ingar hafi ekki ein­ungis fundið fyrir í far­aldr­inum heldur líka þegar slæmt veður skall á síð­asta vet­ur.

Gagn­rýnir að ekki sé komið meira til móts við kon­urnar

Sonja Ýr segir að langstærsta áskor­unin sem Íslend­ingar standa frammi fyrir núna sé atvinnu­leys­ið. „Stjórn­völd auð­vitað hafa brugð­ist við með þeim verk­færum sem þau hafa í kist­unni hvað það varð­ar. Þau hafa aukið fjár­fest­ingu en störfin sem þau eru að skapa fara aftur á móti 85 pró­sent til karla – það er sem sagt verið að skapa karla­störf.

Það þarf að vera eitt­hvað jafn­vægi þarna á milli og atvinnu­leysi kvenna er hlut­falls­lega hærra en meðal karla. Svo er ungt fólk líka stór áhættu­hópur – og sömu­leiðis aðfluttir ein­stak­ling­ar.“ Hún bendir á að BSRB hafi varað við því frá upp­hafi að ekki væri nægi­legt að bregð­ast við með því að skapa störf sem karlar sækja helst í. 

„Þetta er ástand sem er komið til að vera í ein­hvern tíma þá er ekki nægi­legt að bíða eftir að verk­efni hefj­ist á ný. Það þarf líka að tryggja að fólk nái endum sam­an, þ.e. tryggja afkomu­ör­yggi þar sem við erum í hálf­gerðu bið­á­stand­i.“

Jafn­rétt­is­mál eru Sonju Ýr hug­leik­in. „Það er hætta á bakslagi í jafn­rétt­is­málum í far­aldr­in­um. Það eru sem betur fer allir með það á hreinu að við þurfum að passa upp á umhverfið okkar en það er eins og jafn­rétt­is­mál séu sett til hlið­ar.“

Hún telur að við megum ekki gleyma jafn­rétt­is­mál­un­um, þau séu gríð­ar­lega mik­il­væg. „Við verðum að byggja á þeirri þekk­ingu sem við höfum aflað okkur í þessum mál­um. Íslend­ingar hafa staðið sig mjög vel á þessu sviði en það þýðir ekki að verða væru­kær. Við verðum að halda áfram að vera fyr­ir­myndin sem er fram­sækin og sem er raun­veru­lega að grípa til aðgerða.“ Hún telur að vissu leyti að við séum stöðnuð í jafn­rétt­is­málum og að meira þurfi að gera í bar­átt­unn­i. 

Auglýsing

Nið­ur­skurður mikil mis­tök

Sonja Ýr seg­ir, eins og áður hefur komið fram, að stjórn­völd hafi staðið sig vel í erf­iðum aðstæð­um. „Þegar umræðan byrj­aði um það hvernig bregð­ast ætti við þá voru margir þeirrar skoð­unar í grunn­inn að það ætti að grípa til sömu aðgerða og gert var í banka­krepp­unni. Þá bentum við á í BSRB að nið­ur­skurður hefði verið mis­tök á sínum tíma. Margar skýrslur sýna það að þessi nið­ur­skurður hafi verið of harka­legur þannig að við vorum lengur að rétta okkur við. Síð­an, sem betur fer, kemur það í ljós að það eru flestir sam­mála um það og flestar alþjóða­stofn­anir sem við horfum til ráð­leggja þetta. OECD hefur til dæmis sagt að það mætti ekki end­ur­taka þessi mis­tök – svo allt ber þetta að sama brunn­i. 

Við erum sam­mála um að við ætlum að vaxa út úr þess­ari kreppu, sem er mjög mik­il­vægt fyrsta skref. Hins vegar finn ég að hug­mynda­fræðin tog­ast svo­lítið á. Það eru þeir sem halda í þessa gömlu stefnu og þeir sem núna eru að sjá ljósið í því að það sé almanna­þjón­usta, og þá aðal­lega starfs­fólk­ið, sem er að bjarga okkur út úr þessum vand­ræðum og að það þurfi að styrkja hana.“ 

Það sem þau í BSRB hafa helst harmað að ekki væri gert og liggur mest á núna, að þeirra mati, er að hækka atvinnu­leys­is­bætur og sömu­leiðis örorku­líf­eyri. „Því að þegar stærsta áskor­unin er fjölda­at­vinnu­leysi þá þarf að grípa þennan hóp sem nær ekki endum sam­an. Við þurfum að byrja for­gangs­röð­ina á því að hjálpa þeim sem eru í við­kvæm­ustu stöð­unni. Það mun líka skila sér í auk­inni einka­neyslu.“ Þar vanti upp á aðgerðir hjá stjórn­völd­um. 

„Maður finnur það að þeirra við­brögð eru á þá leið að það eigi að eyða orkunni í að skapa störf­in, og við erum svo sann­ar­lega sam­mála því, en það tekur tíma. Og af því að þetta er ákveðið bið­á­stand þá verðum við að grípa til ein­hverra úrræða á meðan þannig að vandi fólks verði ekki þannig að það nái hrein­lega ekki að vinna úr honum þegar við­spyrnan hefst aft­ur.“

Við þurfum að byrja forgangsröðina á því að hjálpa þeim sem eru í viðkvæmustu stöðunni.
Það fer eftir því hvernig okkur gengur að takast á við veiruna hvernig efnahagsmálin verða hér í vetur og á næsta ári, að mati Sonju Ýrar.
Birgir Þór Harðarson

Fjár­hags­á­hyggjur sjö­falda líkur á kulnun

Varð­andi það hvernig ástandið verður í vetur þá bendir Sonja Ýr á að það fari mikið eftir því hvernig útbreiðslan á veirunni verður og hvernig muni ganga að ná tökum á henni. „Efna­hags­lífið er í nákvæm­lega sama takti og útbreiðsla smita hvort sem er hér á landi eða í öðrum lönd­um. Þetta tvennt helst í hend­ur. Og þess vegna þarf að hjálpa fólki í gegnum þessi erf­iðu tíma­bil, eins og gert var að ein­hverju leyti í fyrstu bylgj­unn­i. 

Þær ákvarð­anir sem teknar eru í dag munu hafa áhrif á okkur til langs tíma. Kann­anir Gallup á líðan fólks í kjöl­far banka­hruns­ins sýna að fjár­hags­á­hyggjur sjö­falda lík­urnar á kuln­um. Við höfum verið að benda á tengslin milli þess að það var svo harka­legur nið­ur­skurður hjá hinu opin­bera í síð­ustu kreppu að það gekk mjög nærri vel­ferð­ar­þjón­ust­unni. Það varð svo mikil und­ir­mönnun og mikil van­fjár­mögn­un. Fólk átti í raun­inni að hlaupa hrað­ar. Þannig að þeir sem eru helst að leita til Virk eru búnir að missa starfs­get­una og þeir sem þurfa aðstoð er fólk innan vel­ferð­ar­kerf­is­ins – helst í umönnun og kennslu og fólk sem sinnir þessum óáþreif­an­legu verð­mæt­um. Verð­mætin í þessum störfum er ekki hægt að ein­falda niður í tölur í excel-skjali sem hægt er að raða snyrti­lega í bók­hald­ið.. Þau koma fram með öðrum hætti en áþreif­an­leg verð­mæt­i.“

Sonja Ýr bendir á að afleið­ingar hruns­ins 2008 hafi þar af leið­andi verið þær að fólk í þessum umönn­un­ar­störfum hafi hlaupið hraðar og ekki ein­ungis í vinn­unni heldur einnig heima við. „Af­leið­ing­arnar af því að fólk hafi hlaupið hraðar voru mikl­ar. Of margir bogn­uðu undan álag­inu og misstu starfs­getu tíma­bundið eða var­an­lega. Þau báru því byrð­arnar af því að hafa valið starf sem felst í því að þjón­usta aðra og nið­ur­staðan var veik­indi eða örorka.“

Sama hvert er litið er aukið álag

Hvernig er þá hægt að minnka höggið þannig að afleið­ing­arnar verði sem minnstar? Sonja Ýr segir vanda­málið hafa verið til staðar áður en far­ald­ur­inn kom til skjal­anna. „Áður vorum við að berj­ast við und­ir­mönnun en að ein­hverju leyti er erfitt að fá fólk í þessi störf vegna þess hvernig launin eru og svo fram­veg­is. Fólk velur einnig þessi störf af ákveð­inni hug­sjón og þá áttar það sig líka á því að starfs­um­hverfið er svo­lítið öðru­vísi heldur en víð­ast ann­ars stað­ar. Þú þarft að hlaupa hrað­ar. Núna erum við með mjög mikið atvinnu­leysi og und­ir­mönnun á þessum stöðum og aukið álag því þetta eru fleiri hand­tök og eru aukin verk­efni sem fylgja því að gæta að sótt­vörnum í þess­ari þjón­ust­u.“

Hún telur að í fyrsta lagi þurfi að leið­rétta mönn­un­ar­gatið og end­ur­skoða mönn­un­ina. „Það er fyrsta skref. Síðan þarf tíma­bundið að veita auk­inn stuðn­ing því það sama hvert er litið er aukið álag.“ Hún seg­ist til að mynda sjá þetta aukna álag í mennta­kerf­inu. Mikið auka álag sé á starfs­fólki skól­anna, hvort sem um er að ræða þá sem sinna ræst­ing­um, kenna eða sinna börn­unum okk­ar. Jafn­framt nefnir hún heil­brigð­is­þjón­ust­una, öldr­un­ar­heim­il­in, lög­gæsl­una og sjúkra­flutn­inga í þessu sam­hengi. „Þetta er svo ótrú­lega víð­tækt.“

Sonja Ýr seg­ist ekki kunna vel við það þegar fólk talar um svo­kallað „bákn“ en stundum er það notað um almanna­þjón­ust­una. „Ef ég ætti eina von þá myndi ég óska þess að fólk myndi átta sig á lít­ils­virð­ing­unni sem felst í því orði, að maður tali ekki þannig um almanna­þjón­ust­una sem við treystum öll á í hinu dag­lega líf­i.“

Auglýsing

Tog um hug­mynda­fræði

Sonja Ýr seg­ist upp­lifa ákveðið tog um hug­mynda­fræði, hvaða leið skuli fara út úr krepp­unni. „Fram­þró­unin eða breyt­ingin byrj­aði að ein­hverju leyti eftir banka­hrun­ið. For­gangs­röð­unin hjá fólki varð önn­ur. Það var ekki endi­lega lengur mik­il­væg­ast að leggja áherslu á pen­ing­ana heldur raun­veru­lega að njóta tíma með fjöl­skyld­unni. Þar finnst mér krist­all­ast þetta tog sem nú er í gangi og í fram­tíð­inni von­ast ég til þess að við verðum búin að ná raun­veru­legum jöfn­uði í stað þess að breikka bil­ið.“

Hún von­ast enn fremur til þess að Íslend­ingar verði búnir að vinna að því að útrýma fátækt en eins og staðan er núna séu ekki tekin mark­viss skref í þá átt. „Sömu­leiðis að það verði orðin almenn skoðun eða við­ur­kennt að opin­ber þjón­usta sé jafn mik­il­væg og aðrir geirar á vinnu­mark­aði. Þetta snýst um þetta jafn­vægi og virð­ingu fyrir því hvaða störfum er verið að sinna og með hvaða hætti. Og að virð­ingin sé ekki alltaf bein­tengd bara ein­hverju fjár­hags­legu heldur líka sam­fé­lags­legu virð­i.“ 

Jöfn­uð­ur­inn eða félags­legi stöð­ug­leik­inn er leið­ar­ljósið framund­an, að hennar mati, og heil­miklu máli skiptir hvernig staðið er að hlut­unum núna í þessu ástand­i. 

Almennir starfs­menn eru að „bjarga okkur út úr krís­unni“

Sumir hafa talað um að í og eftir far­ald­ur­inn verði von á breyttu gild­is­mati og eru ákveðnar vænt­ingar til þess að sam­fé­lagið breyt­ist til batn­aðar í kjöl­far þess. 

Telur Sonja Ýr þetta vera í aug­sýn? „Það er áhuga­vert að bera saman við­brögðin við fyrstu og þriðju bylgju far­ald­urs­ins. Í þeirri fyrstu var meira að segja lista­mað­ur­inn Banksy far­inn að teikna myndir af hjúkr­un­ar­fræð­ingum sem ofur­hetjum og það náð­ist að draga það svo skýrt fram hversu mik­il­væg þessi störf eru. Það eina sem ég sakn­aði var að fólk átt­aði sig á breidd­inni. Það er ekki bara heil­brigð­is­þjón­usta heldur í raun allar grunn­stoð­irnar okk­ar, hvort sem verið er að sinna öldruð­um, veikum eða börn­um. Þessir starfs­menn eru svo sann­ar­lega að bjarga okkur út úr þess­ari krís­u. 

Eins og staðan er núna finnur maður að það er meiri þreyta í fólki og skarp­ari skil milli þeirra sem líta á COVID sem hálf­gerða flensu, og þar með afneita því að þetta sé svona mik­il­vægt, og hinna sem taka veiruna alvar­lega.“

Tími til kom­inn að prófa eitt­hvað nýtt

Sonja Ýr minnir á að þrátt fyrir að Ísland sé eyja þá séu íbú­arnir ekki eyland. „Ég finn það svo sterkt að umræðan sé um þetta hér á landi og ann­ars stað­ar, að áherslan er á félags­lega rétt­læt­ið. Við verðum að fara að líta til þess­ara gilda sem fel­ast í sam­stöð­unni og mann­gæsk­unni. Hvort sem það eru nei­kvæðar raddir á móti þessu eður ei þá ætla ég alla­vega að trúa því að það hafi yfir­hönd­ina og við sköpum rétt­látt sam­fé­lag fyrir alla – því við erum búin að prófa hitt í tals­vert langan tíma. Það er komið að því að prófa eitt­hvað nýtt og aðlaga sig betur að stöðu þekk­ing­ar.“

Sonja Ýr telur mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að marka sér atvinnustefnu til framtíðar.
BSRB

Ef fólk er almennt sam­mála því hvernig íslensk sam­fé­lag ætti að vera, hver er þá besta leiðin þangað að mati Sonju Ýrar? Þarf að umbylta þeim kerfum sem nú þegar eru til staðar á Íslandi eða breyta þeim sem fyrir eru? 

Hún bendir í þessu sam­hengi á að nálg­anir BSRB hvað þetta varðar hafi verið mjög vinnu­mark­aðsmið­að­ar. „Það fyrsta sem mér dettur í hug er að við höfum kallað eftir því að við mótum okkur atvinnu­stefnu. Að við horfum til þess hvernig atvinnu­veg­irnir verða í fram­tíð­inni. Við erum með sjáv­ar­út­veg­inn og ál- og ferða­manna­iðn­að­inn en þetta eru allt geirar sem eru frekir á nátt­úr­una okk­ar. Þess vegna teljum við mik­il­vægt að fleiri atvinnu­geirar verði til hér á landi. Það er einnig hætt við því í svona ástandi þegar einn eða tveir geirar minnka eða það verður eitt­hvað högg að það hafi gríð­ar­leg áhrif á allt efna­hags­kerf­ið.“

Ekki að velta fyrir sér stjórn­mála­flokk­unum

Þá telur Sonja Ýr að Íslend­ingar verði að byggja á hug­vit­inu og á nýsköpun og þró­un. „Það verður að vera hluti af þessum grunn­stoðum okkar til fram­tíð­ar. Það kostar auð­vitað fjár­fest­ingu og tekur býsna langan tíma að byggja það upp.“

Enn fremur von­ast Sonja Ýr til að nýsköp­unin skili sér inn í þá starf­semi sem nú þegar er til stað­ar. 

„Að öðru leyti er þetta, eins og ég sagði áðan, tog um hug­mynda­fræði. Innan banda­lags­ins er fólk úr öllum flokkum og við erum bara með okkar póli­tík, sem er verka­lýð­spóli­tík, og við erum ekk­ert að velta fyrir okkur stjórn­mála­flokk­un­um. Við ein­fald­lega fögnum öllum góðum hug­myndum sem sam­ræm­ast okkar stefn­u,“ segir hún. 

Geta talað einni skýrri röddu

Mikil breyt­ing hefur orðið innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar und­an­farin ár. Hvernig upp­lifir Sonja Ýr sam­stöð­una og sam­taka­mátt hreyf­ing­ar­innar á þessum tím­um? Hún segir að innan BSRB hafi sam­staðan hald­ist vel í gegnum hrunið 2008 en það sem sam­eini þeirra fólk sé almanna­þjón­usta og bar­átta fyrir meiri vel­ferð og auk­inni sam­stöðu um að styrkja grunn­inn­við­ina. „Það hefur alltaf í gegnum árin verið gott sam­starf við önnur heild­ar­sam­tök launa­fólks en eins og staðan er núna finn ég það miklu sterkar en áður að við getum talað einni skýrri rödd­u.“

Nefnir hún sam­stöð­una varð­andi hækkun atvinnu­leys­is­bóta og örorku­líf­eyri. „Þegar við skoðum hvað sam­tökin hafa sent frá sér varð­andi aðgerðir stjórn­valda þá má segja að þetta séu í grunn­inn sömu áhersl­ur. Þetta er auð­vitað mis­ít­ar­legt en kjarn­inn er sá sami. Það er ríkt sam­starf okkar á milli.“

Hún seg­ist vera stolt af því að fá að vera hluti af BSRB. „Mér finnst styrkur banda­lags­ins liggja í sam­stöð­unni og það er ómet­an­legt að vera full­trúi þeirra og tala einni skýrri röddu og vita það að ég get alltaf staðið fast við það sem ég er að segja af því að það er búin að vera svo góð og í raun ára­löng umræða til þess að móta þessa stefnu okkar sem ég byggi á fyrir hönd banda­lags­ins.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal