Bára Huld Beck

Mótun samfélagsins þarf að vera á forsendum fólksins sjálfs – en ekki fjármagnsins

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Næstur í röðinni er Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

Fólkið í landinu þarf að hafa meira um það að segja hvernig samfélagið á að mótast áfram. Það á að vera á forsendum þess hvernig við rekum þetta samfélag – en ekki fjármagnsins. Við þurfum að taka höndum saman í því að vinna áfram á þeim forsendum.“

Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), varðandi það hvernig hann sér fyrir sér að Íslendingar komist út úr þeim efnahagslegu erfiðleikum sem þeir standa frammi fyrir núna í kjölfar heilsuvárinnar.

Aðgerðir stjórnvalda hafa komið í nokkrum aðgerðapökkum og segir Kristján Þórður að honum hafi litist vel á margt sem ríkisstjórnin hafi gert til að stemma stigu við ástandinu. „Sérstaklega í tengslum við kjarasamninga sem voru gerðir fyrir ári síðan. Það er margt í þessu sem skiptir okkar fólk miklu máli – en auðvitað er það líka alltaf þannig að maður er ekki sáttur við allt sem er gert. En svona heilt yfir þá eru þarna atriði sem skipta verulegu máli.“

Hann tekur nokkur dæmi um það sem hann telur hafa verið vel gert en meðal þess er breyting á tekjuskattskerfinu. „Það var mjög mikilvægt skref fyrir okkar fólk, sem og lenging á fæðingarorlofi.“ Hann nefnir sérstaklega verkefnið „Allir vinna“ en hann segir að það hafi reynst félagsmönnum hans gríðarlega vel. Verkefnið gengur út á það að hækka endurgreiðsluhlutfallið á virðisaukaskatti á vinnu við viðhaldsverkefni íbúðarhúsnæðis og í bifreiðageiranum en það var framlengt út næsta ár.

Auglýsing

„Þetta verkefni skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkar félagsmenn. Þetta hefur ýtt undir fleiri verkefni í okkar greinum. Við höfum séð að fólk hefur verið mjög duglegt í nýta sér þetta og sinnt til dæmis viðhaldi á bílum. Fólk hefur einnig verið mjög duglegt að fara í framkvæmdir heima fyrir og fara í viðhaldsframkvæmdir á eigin húsnæði. Þetta klárlega ýtir undir það að verkefnastaðan sé nokkuð góð í dag,“ segir hann.

Mikilvægt að fólk geti tekið þátt í samfélaginu – þrátt fyrir tekjumissi

Eins og áður segir telur Kristján Þórður að heilt yfir hafi aðgerðir stjórnvalda reynst ágætlega. Þó áréttar hann að nauðsynlegt sé að taka á þáttum sem snúa að fólkinu sjálfu. Þar tekur hann sem dæmi atvinnuleysistryggingasjóð og atvinnuleysisbætur.

„Við höfum kallað eftir því að þarna verði gripið inn í: Að bætur verði hækkaðar, sem og tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Við teljum að það sé rétta leiðin til að takast á við svona ástand, eins og það sem við erum að upplifa núna, til þess að koma í veg fyrir enn meiri samdrátt í hagkerfinu. Þá skiptir það sköpum að þrátt fyrir atvinnumissi þá geti fólk samt sem áður tekið þátt í samfélaginu með nokkurn veginn eðlilegum hætti.

Því við vitum alveg að þegar þú missir atvinnuna þá í fyrsta lagi lækkar þú alltaf í tekjum niður í 70 prósent af því sem þú hafðir. Í öðru lagi er þakið á tekjutengdu atvinnuleysisbótunum það lágt að fólk, eins og innan okkar raða, er að meðaltali að falla um 40 til 50 prósent í tekjum. Það er auðvitað augljóst að ef þú verður fyrir slíku tekjutapi þá muntu þurfa að draga saman í öllu sem þú gerir.“

Gríðarlegar fjárhæðir farið til fyrirtækjanna

Það sem veldur Kristjáni Þórði aftur á móti áhyggjum varðandi framtíðina er hvernig ríkið hefur forgangsraðað þeim fjármunum sem það hefur veitt út í rekstur fyrirtækja. „Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir sem hafa farið út í fyrirtækin í formi stuðningsgreiðslna einhvers konar og hvernig þessu hefur verið útdeilt veit maður náttúrulega ekki nákvæmlega en það sem hefði þurft að vera mjög skýrt er með hvaða hætti þessum fjármunum er dreift.“

Hann segir að Íslendingar verði að horfast í augu við það að þeir fjármunir sem ríkið útdeilir muni hjálpa til við að tryggja störf áfram. „Það er auðvitað lykilþáttur í þessu að fjölga störfum við þessar aðstæður. Þess vegna hef ég skilning á því að þessar aðgerðir séu mjög góðar en við munum síðan þurfa að sækja fjármuni til þess að endurgreiða ríkinu. Þá horfi ég til þess að hvernig fyrirtæki muni geta staðið að því. Og auðvitað munu meiri umsvif hjálpa til.“

Stjórnvöld tóku þá ákvörðun núna í september að lækka tryggingagjaldið um 0,25 prósent. Kristján Þórður bendir á að gjaldið sé notað til þess að greiða annars vegar fæðingarorlof og hins vegar atvinnuleysisbætur. „Þetta er tímabundin ráðstöfun en í kjölfar þess verðum við að gera okkur grein fyrir því að það þarf að auka fjármuni inn í kerfið. Við getum ekki dregist saman á þessum tveimur liðum allavega. Þannig er ljóst að fyrirtækin munu þurfa að koma til baka með þessa fjármuni,“ segir hann.

Við höfum kallað eftir því að þarna verði gripið inn í: Að bætur verði hækkaðar, sem og tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
Kristján Þórður segir að
Bára Huld Beck

Ekki svo svartsýnn þrátt fyrir erfiðan vetur framundan

Kristján Þórður segist ekki vera svo svartsýnn varðandi ástandið þrátt fyrir að vissulega verði veturinn framundan erfiður. Hann segist jafnframt vera hræddur um að verið sé að mála mun dekkri mynd af stöðunni en þörf sé á. „Við sáum það að þegar fulltrúar atvinnurekenda reyndu að mála upp eins dökka mynd og mögulegt væri. Allt slíkt tal hefur síðan gríðarlega slæm áhrif í umhverfi sínu.“

Þrátt fyrir ákveðna bjartsýni hjá Kristjáni Þórði þá er hann meðvitaður um áhrif faraldursins, sérstaklega á ákveðnar greinar. „Við munum sjá það að í ferðaþjónustunni verður samdrátturinn gríðarlegur. Miðað við það hvernig veiran er að þróast núna þá eru ekki miklar líkur á því að þetta ástand gangi hratt niður. Það sem mun skipta miklu máli er hvenær okkur tekst að fá bóluefni við veirunni og þegar það gerist mun staðan breytast verulega.“

Hann bendir enn fremur á að margir félagsmenn þeirra í Rafiðnaðarsambandinu starfi í viðburðageiranum, þ.e. í sviðslistum. „Þar er staðan alveg skelfileg – það er sáralítið í gangi þar. Sumir hópar eru í mjög vondri stöðu en aðrir enn í mjög góðri.“

Hann segir þó að ef Íslendingum tekst að draga úr þessari bylgju núna þá ætti veturinn að geta orðið þolanlegur. „Ég veit að það er ekki sjálfgefið að þetta verði þægilegur eða auðveldur vetur en með því að grípa til þeirra aðgerða sem við höfum verið að tala um – eins og þetta með atvinnuleysisbætur og að ríkið styðji vel við fólkið – þá ætti okkur að geta tekist að komast sæmilega í gegnum þetta.“

Þarf að bæta sameiginlega sýn til framtíðar

Verkalýðsforystan hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum misserum og árum. Kristján Þórður segir að hóparnir innan hreyfingarinnar séu ólíkir og hagsmunirnir enn fremur. Hann segir að stundum hefði samstaðan mátt vera meiri milli fylkinga í þeirri baráttu sem hreyfingin hefur beitt sér fyrir. Samstaðan hafi þó verið þétt að undanförnu en betur má ef duga skal. Þannig þurfi að bæta sameiginlega sýn inn í framtíðina.

„Við þurfum að fara svolítið inn á við og ræða þessa hluti. Heilt yfir finnst mér samstaðan undanfarið hafa verið mikil innan hreyfingarinnar en auðvitað þurfum við að sætta mismunandi sjónarmið í því sem við erum að gera. Máttur hreyfingarinnar er samt gríðarlega mikill þegar við stöndum saman.“

Auglýsing

Samtök atvinnulífsins hafa stigið út fyrir öll velsæmismörk

Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur ekki verið ófeimin við að gagnrýna Samtök atvinnulífsins á undanförnum misserum og hafa þessar fylkingar tekist harkalega á að undanförnu. Þegar Kristján Þórður er spurður út í kjarabaráttu á Íslandi þá segir hann að hún sé að herðast gríðarlega.

„Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann – segjum áratug – þá var vissulega tekist á um málefni og var það ekki þannig að það hefði verið auðvelt að gera kjarasamninga eða semja um bætt kjör. En hins vegar var ákveðinn skilningur á því innan Samtaka atvinnulífsins að það þyrfti að eiga góð samskipti og eiga samtalið um þau málefni sem skipta máli. Það var ákveðinn skilningur á því hvernig hlutirnir þyrftu að ganga fyrir sig en það er í raun gjörbreytt í dag.

Samtök atvinnulífsins hafa stigið út fyrir öll velsæmismörk í samskiptum og það er auðvitað að hluta til að koma fram í þeirri stöðu sem hefur verið uppi núna að undanförnu þar sem þeir segja að ekkert samtal hafi orðið um þessi viðbrögð við kjarasamningum. Það er hins vegar ekki rétt hjá þeim. Það er þannig að ef þú vilt fara í samtalið þá verður þú að gera það á heildstæðum nótum. Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir samtali á þeirra forsendum og ef þú ferð inn í samtal eingöngu á forsendum annars aðilans þá skilar það aldrei neinni jákvæðri niðurstöðu fyrir heildina,“ segir hann.

Ávísun á slæm samskipti

Kristján Þórður tekur undir orð margra innan verkalýðshreyfingarinnar að harkan sé að aukast til muna. „Þegar við sjáum dæmi um að fyrirtæki brjóta á starfsfólki þá virðast þau oft og tíðum ganga eins langt og mögulegt er til þess að athuga hversu langt þau komast. Ég hef staðfestingu fyrir því hjá nokkrum fyrirtækjum að Samtök atvinnulífsins hafi ráðlagt fyrirtækjum að ganga lengra en kjarasamningar leyfa. „Sjáðu hversu langt þú kemst,“ er sagt.

Bara það að fulltrúi fyrirtækjanna sé að ráðleggja þeim að ganga í raun gegn kjarasamningum, sem þeir hafa sjálfir skrifað undir, er auðvitað ávísun á slæm samskipti. Það er þessi þáttur sem veldur því að í dag er ekkert traust á milli samtakanna eða sáralítið – og samskiptin verða því erfið við þessar aðstæður,“ segir hann.

Þá segist Kristján Þórður hafa miklar áhyggjur af því að framkoma Samtaka atvinnulífsins valdi því að það verði meiri harka í samskiptum og erfiðara að ná samkomulagi um atriði sem skipta máli. „Ef þú getur ekki treyst því að samningur sem þú gerir standi þá auðvitað gerir þú ekki samning.“

Bara það að fulltrúi fyrirtækjanna sé að ráðleggja þeim að ganga í raun gegn kjarasamningum, sem þeir hafa sjálfir skrifað undir, er auðvitað ávísun á slæm samskipti.
Kristján Þórður
Skjáskot/RÚV

Ef fyrirtæki brýtur gegn starfsmann þá á viðkomandi að fá það bætt

Eitt atriði sem verkalýðsforystan hefur lagt mikla áherslu á en ekki fengið í gegn við gerð lífskjarasamninganna er að fá breytingu á starfskjaralögum. Það er að félagsmenn geti sótt févíti þegar brjótið er á þeim. „Það var til þess að gera ákveðinn fælingarmátt; ef fyrirtæki brýtur gegn starfsmanni þá á viðkomandi einstaklingur að fá það bætt. Og ekki bara með því að fá greitt samkvæmt lágmarkskjörum heldur að fá viðurkenningu á því að brotið hafi verið á honum.“

Þá bendir hann á að ef fyrirtæki brýtur á fólki og málið fer fyrir dómstóla þá endi það með því að fyrirtækið verði einungis dæmt til að greiða það sem það átti að greiða. „Það er auðvitað alveg fáránleg aðferðafræði að geta farið þann veg og hvetur það til dómsmála frekar en hitt. Samtök atvinnulífsins hafa haldið þessu máli í gíslingu undanfarið ár og það er auðvitað mjög miður að þau vilji ekki breyta kerfinu þannig að það komist á einhver skynsamleg samskipti á vinnumarkaði.“

Þegar Kristján Þórður er spurður út hver lausnin sé á þessum vanda þá segir hann að ein leiðin sé sú að stjórnvöld stigi inn og breyti lögum – og setji á févíti. „Ég myndi telja að með því væri hægt að koma í veg fyrir fjölda dómsmála sem verið er að fara í í dag. Það myndi í raun og veru bæta öll vinnubrögð á vinnumarkaði.“ Hann bætir því við að auðvitað geti átt sér stað mistök við útreikninga og þá yrði það leiðrétt – en þegar verið sé að brjóta vísvitandi á fólki með klækjum þá verði að greiða fyrir það.

Nauðsynlegt að setja meiri pressu á samningsaðila

Kristján Þórður telur að róttækar kerfisbreytingar þurfi að eiga sér stað á mörgum sviðum í samfélaginu. Til að mynda þurfi að gera breytingar á vinnulöggjöfinni.

„Bara ef við horfum á gerð kjarasamninga til dæmis. Þetta ferli er gríðarlega langt og svifaseint. Ég myndi vilja sjá breytingar á kerfinu þannig að það yrði meiri agi í vinnubrögðum, þannig að samningaviðræður tækju skemmri tíma. Að mínu mati er eina leiðin til að gera það að búa til meiri pressu á samningsaðila til að setjast að samningaborðinu og klára samninga. Leiðin sem ég sé fyrir mér í því er að skerpa á heimildum verkalýðsfélaganna til að beita einhverjum aðgerðum til að auka þrýsting á atvinnurekendur og þá horfi ég fyrst og fremst til þess hvernig verið er að vinna málin á Norðurlöndunum. Þar er það þannig að þegar samningar renna úr gildi þá stýra því stjórnir og trúnaðarráð verkalýðsfélaganna hvenær verkfallsaðgerðir myndu hefjast ef ekki nást samningar,“ segir hann.

Hér á landi þurfi að fara í slíkt ferli; að það væri innbyggð seinkun í viðræðurnar. „Þannig að það að auka við heimildir til að grípa til aðgerða og reyna að koma meira skikki á markaðinn er gríðarlega mikilvægt. Ég veit hins vegar að atvinnurekendur eru alls ekki sammála því, þeir eru sáttari við þetta fyrirkomulag sem er núna í dag.“

Hann segir að atvinnurekendur hafi beinan hag af því að svara ekki eða vilja ekki funda. Kerfið sé þannig upp byggt að það er langdregið og svifaseint og býr til óþarfa stöðu sem ætti ekki að þurfa. „En það er augljóst að það þarf að koma meiri aga á þessi vinnubrögð,“ segir hann.

Auglýsing

Fólkið á að vera miðpunkturinn

Varðandi framtíðarsýn Kristjáns Þórðar og hvernig samfélag hann sér fyrir sér eftir COVID-faraldur þá segir hann að vænta megi mikilla breytinga. „Við erum auðvitað í þessum aðstæðum að fara inn á við og meta auðlindir sem við eigum sem samfélag. Ég myndi vilja sjá í kjölfar þessa ástands að fólkið verði miðpunkturinn í því hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina – ekki fjármagnseigendur eða slíkir aðilar. Ég myndi vilja sjá að samfélagskökunni, svo ég noti myndmál Samtaka atvinnulífsins, verði skipt með jafnari hætti svo fólkið njóti meiri ávinnings af þeim auðlindum sem við njótum í samfélaginu.“

Honum finnst mikilvægt að Íslendingar haldi í þann ávinning sem þeir hafi náð hvað varðar fasteignamarkaðinn. „Við höfum náð alveg gríðarlegum árangri í að lækka vaxtastig hér á landi undanfarið ár og ég veit að mínir félagsmenn horfa mjög mikið í það að viðhalda því vegna þess að þetta hefur gríðarleg áhrif á útgjöld heimilanna.“ Jafnframt sé samfélagið út í miðri á varðandi mörg verkefni til þess að bæta fasteignamarkaðinn.

„ASÍ og BSRB gripu til þess ráðs fyrir nokkrum árum að stofna Bjarg íbúðafélag og gengur mjög vel að byggja íbúðir og fjölga þeim. Þetta er auðvitað kostur fyrir fólk sem er tekjulágt og á leigumarkaði,“ segir hann.

Kristján Þórður nefndir jafnframt hlutdeildarlánin þar sem ríkið fer með fólki í fjármögnum fasteignakaupa og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaðnum. „Þessi verkefni hafa haft mjög jákvæð áhrif á leigumarkaðinn í heild sinni en hann hefur verið gríðarlega erfiður fyrir fólk og óvandaður á undanförnum áratugum. Ég held að við séum að ná að koma honum í betri farveg.“

„Við erum líka fljót að detta í sama far“

Stundum er talað um að gildismat breytist við ástand sem þetta. Kristján Þórður nefnir í þessu samhengi viðbrögð samfélagsins eftir hrunið 2008. Hann segir að margir hafi haft ákveðnar væntingar um að margt myndi breytast í kjölfarið.

„Það er auðvitað þannig að margt hefur breyst frá þeim tíma, sem betur fer. En auðvitað hefði maður viljað sjá meiri breytingar á ýmsum sviðum. Ég held að eftir þetta ástand núna sé fólk mikið að fara inn á við í lífinu. Við nýtum okkur til dæmis tæknilausnir í ríkari mæli og ég held að við munum halda því áfram að einhverju marki.

Við erum líka þannig að við erum fljót að detta í gamalt far. Þannig að já, við munum halda í eitthvað af því sem við erum að gera í dag en að einhverju leyti taka upp gamla siði,“ segir hann að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal