Bára Huld Beck

Pólitíkin lituð af sérhagsmunagæslu – og ekki í neinu sambandi við almenning

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Næstur í röðinni er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Það er nýtt fólk í brúnni með hug­myndir sem mér finnst í sjálfu sér vera ógn við þá sam­fé­lags­mynd sem ég sé fyrir mér og vil sjá. Þar kemur ein­hvern tónn og ein­hver stemn­ing eða hug­ar­far sem mér finnst ég ekki hafa séð áður og það hræðir mig mjög.“

Þetta segir Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­maður VR, í sam­tali við Kjarn­ann en miklar vær­ingar hafa verið í stétta­bar­áttu á Íslandi síð­ustu ár. Með þessum orðum á hann við það sem hann kallar nýja kyn­slóð stjórn­enda fyr­ir­tækja og for­ystu­fólks í Sam­tökum atvinnu­lífs­ins.

Þetta lýsir sér í ákveð­inni hörku gagn­vart samn­ings­rétti fólks, að mati Ragn­ars Þórs, og í því að fara yfir ákveðnar línur og leik­reglur sem verka­lýðs­hreyf­ingin og atvinnu­lífið hafi sett sér síð­ustu ár og ára­tugi með því að ráð­ast gegn kjörum fólks en ekki gegn kröfu­höf­um. Þarna tekur hann Icelandair sem dæmi og ákvörðun þeirra að fara harka­lega gegn kjörum félags­manna VR og segja upp öllum flug­freyjum á einu bretti í miðri kjara­bar­áttu og hóta að semja við annað stétt­ar­fé­lag.

Varð­andi aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar vegna COVID-19 far­ald­urs­ins þá segir hann að þær séu mikið lit­aðar af sér­hags­mun­um. Sem dæmi nefnir hann að þrýst­ing­ur­inn hafi verið gríð­ar­lega mik­ill í byrjun sum­ars að opna landið og sömu­leiðis þegar því var aftur lok­að. Þannig sé lobbí­ismi fyrir ákveðnum aðgerðum mjög mik­ill á bak við tjöldin en einnig í sjálfri orð­ræð­unn­i. 

Auglýsing

Segir stjórn­ar­flokk­ana standa fyrir sér­hags­muna­gæslu

Ragnar Þór segir að þeir flokkar sem nú eru við völd – og þá sér­stak­lega Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn – standi fyrir sér­hags­muna­gæslu. Póli­tíkin virki þannig. „Hún er mjög lituð af sér­hags­muna­gæslu, sama hvar hún drepur nið­ur. Við í verka­lýðs­hreyf­ing­unni erum ekk­ert und­an­skilin þessu í sjálfu sér. Við erum að lobbía allan dag­inn fyrir aðgerðum og aðgerða­pökkum og málum sem snerta hags­muni okkar félags­manna. Þannig að við erum hinum megin við borð­ið. Til dæmis erum við núna að þrýsta á um hærri atvinnu­leys­is­bætur – við erum að taka slag­inn við fólk sem hefur ofboðs­lega ógn­væn­lega sýn á það hvernig sam­fé­lagið ætti að vera byggt upp.“

Ragnar Þór telur að verka­lýðs­hreyf­ingin sé þannig að takast á við nýja kyn­slóð af stjórn­endum og nýja kyn­slóð af for­ystu­fólki í Sam­tökum atvinnu­lífs­ins og öllum þeim félögum sem þar eru innan borðs. 

„Sam­tök atvinnu­lífs­ins fara í raun gegn því að hækka atvinnu­leys­is­bætur í þessu ástandi vegna þess að þau telja hækk­un­ina letja fólk til vinnu þegar enga eða litla vinnu er að fá – sem er gríð­ar­lega alvar­legt fyrir íslenskt sam­fé­lag. Það er svo sjúkt hug­ar­far að vilja þrengja sultar­ól­ina til þess að halda fólki í ein­hvers konar kúg­un­ar­sam­bandi við atvinnu­lífið og við sam­fé­lag­ið,“ segir hann og bætir því við að þetta sé litlu skárra í póli­tík­inni.

En er það ekki gömul saga og ný að stjórn­málin og atvinnu­lífið eigi sam­leið með þessum hætti sem Ragnar Þór lýs­ir? Hann seg­ist í því sam­hengi áður fyrr hafa upp­lifað hægrið sem eilítið mann­legt. „En núna upp­lifi ég hægrið á hátt sem ég ótt­ast mjög. Ég ótt­ast það mjög því mér finnst það vera orðið sjúk­lega litað sér­hags­munum og það vinnur svo kerf­is­bundið gegn mik­il­vægum sam­fé­lags­legum góðum breyt­ingum að þetta er orðið í mínum augum alvar­legt mein í íslensku sam­fé­lag­i.“  

Það er svo sjúkt hugarfar að vilja þrengja sultarólina til þess að halda fólki í einhvers konar kúgunarsambandi við atvinnulífið og við samfélagið.
Ragnar Þór telur að verkalýðshreyfingin sé að takast á við nýja kynslóð af stjórnendum og nýja kynslóð af forystufólki í Samtökum atvinnulífsins.
Bára Huld Beck

Ragnar Þór seg­ist aðspurður gera lít­inn grein­ar­mun á milli stjórn­ar­flokk­anna þriggja, Sjálf­stæð­is­flokks­ins, Fram­sókn­ar­flokks­ins eða Vinstri grænna. Hann seg­ist sjálfur hafa verið alinn upp við það að standa við orð sín – en ekki finn­ast það vera hinn eðli­leg­asti hlutur að svíkja fólk eða gefin lof­orð. Það telur hann hefð­bundna stjórn­mála­flokka gera.

Hann segir þessa menn­ingu innan stjórn­mál­anna vera sjúka og að hún brjóti niður traust. „Það er ekki að ástæðu­lausu að traust til stjórn­mála­manna og traust almenn­ings til stjórn­mál­anna sem afl sem virkar og vinnur fyrir fólkið sé ekki til stað­ar. Það traust hefur ekki verið til staðar í langan tíma. Ég held að póli­tíkin lifi í ein­hverri „búbblu“ – hún heyrir ekki hvað fólkið er að kalla eft­ir. Hún er ekki í neinu sam­bandi við fólk­ið.“

ASÍ skrap­aði botn­inn hvað traust varðar

Ekki eru það þó ein­ungis stjórn­málin sem hafa þurft að end­ur­vekja traust almenn­ings en Ragnar Þór bendir á að svipað hafi gerst hjá Alþýðu­sam­bandi Íslands (ASÍ) á sínum tíma þegar for­ystan þar „skrap­aði botn­inn hvað traust varðar í íslensku sam­fé­lagi. Mig minnir að á ein­hverju tíma­bili hafi ASÍ – fjölda­hreyf­ing launa­fólks – náð neðar en fjár­mála­kerfið og Alþingi á ein­hverjum tíma­punkti. Og þá er nú mikið sag­t,“ segir hann. 

Ragnar Þór bendir á að verka­lýðs­hreyf­ingin hafi þó náð að snúa þess­ari þróun við. Núna mælist Alþýðu­sam­bandið og verka­lýðs­hreyf­ingin í hæstu hæðum hvað traust varðar í íslensku sam­fé­lagi. Mikið hafi breyst innan hreyf­ing­ar­innar og hafi for­ystan meðal ann­ars hætt að umkringja sig fólki sem gagn­rýnir aldrei gjörðir henn­ar. 

Hann telur að ástæðan fyrir því að traust til stjórn­mál­anna mælist eins lítið og raun ber vitni sé vegna þess að fólki finn­ist stjórn­mála­menn­irnir ekki vera málsvarar þess – og það sama mætti segja um verka­lýðs­hreyf­ing­una hér áður fyrr. 

Ragnar Þór segir að var­ast beri að fara í sama farið á ný og að hægt sé að koma í veg fyrir það. Það sé meðal ann­ars hægt með því að vera í meira sam­bandi við fólk og almenn­ing. Nauð­syn­legt sé að kanna vilja fólks­ins en það sé hægt með marg­vís­legum hætt­i.   

„Við hjá VR gerum reglu­lega kann­anir þar sem fólk getur sagt sínar skoð­anir á því hvort það sé ánægt með stefnu félags­ins og for­ystu. Hvað vill það að verði betur gert? Og þú tekur vilja fólks­ins og ferð eftir honum í einu og öllu – þrátt fyrir að það sé nátt­úru­lega ekki hægt að gera öllum til geðs – í stað­inn fyrir að vera með ein­hverja hug­mynda­fræði sem þú telur vera góða og treður henni ofan í kokið á fólk­in­u.“ Boð­leiðin verði þannig öfug. 

„Stemn­ing fyrir því“ að bæta kjör þeirra lægst settu

Stétt­ar­fé­lög verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar eru eins ólík og fólkið innan hennar og oft þarf að miðla mál­um. „Þarna ertu með ólíka ein­stak­linga; tekju­hátt fólk og lág­launa­fólk og allt þar á milli. Þarna er ómennt­aða lág­launa­konan með tvö börn sem býr ein. Svo eru þarna einnig milli­stjórn­endur með mun hærri laun,“ segir Ragnar Þór. 

Hvernig gengur þá að sam­rýma sjón­ar­mið og hags­muni þess­ara hópa? „Það er mjög krefj­andi en ég held að við gerum það rétt. Það sem er ennþá meira krefj­andi er að vinna á vett­vangi Alþýðu­sam­bands­ins með ólík félög og ólík sam­sett félög þar sem kröf­urnar og áhersl­urnar eru mjög mis­mun­andi. Það er kannski ein­fald­ara að vera með félag með einni starfs­grein og meiri fókus en það sem við hjá VR þurfum að gera og reynum að smita út er bæði að finna eitt­hvað fyrir alla og síðan lesa stemn­ing­una í þjóð­fé­lag­inu. Það var til dæmis stemn­ing fyrir því í lífs­kjara­samn­ing­unum að bæta kjör þeirra lægst settu. Þeir sem voru tekju­hærri voru sam­mála því að fara krónu­tölu­leið­ina; þ.e. að þeir tekju­lægri fengju hlut­falls­lega meira en allir samt jafn­t.“

Auglýsing

Ekki klofn­ingur í hreyf­ing­unni

Talið berst því næst að ákvörðun Ragn­ars Þórs að segja sig úr mið­stjórn ASÍ í apríl síð­ast­liðn­um. „Ég sagði mig ekki úr henni vegna þess að ég var í slæmum sam­skiptum við þau. Ég er til dæmis í góðum sam­skiptum við Drífu og ég er í góðum sam­skiptum við Sól­veigu Önn­u.“ 

Þarna á hann við for­seta ASÍ og for­mann Efl­ing­ar. „Fólk kannski skynjar að það sé ein­hver klofn­ingur í hreyf­ing­unni en það er alls ekki þannig. Ég held að Drífa sé sam­mála mér í því að við þurfum að end­ur­skoða Alþýðu­sam­band­ið  – hvernig við vinnum og erum. Eigum við að vera með Alþýðu­sam­band sem virkar eins og stjórn­málin þannig að við komum okkur saman um lægsta sam­nefnar­ann svo allir séu sáttir eða eigum við að virkja okkur og vera öfl­ugri sem tals­menn okkar félaga og vera beitt­ari út á við?“ spyr hann. 

Hann segir að hann sé ekki með full­mót­aðar hug­myndir hvernig leysa eigi þetta mál en hann vill til dæmis í dag sjá ákveðna form­gerð­ar­breyt­ingu á Alþýðu­sam­band­inu. Hann telur að það muni gera ASÍ að öfl­ugri heild­ar­sam­tökum en „samt ekki detta í þá gryfju að geta aldrei verið sam­mála um neitt nema vera búin að þynna það út“. 

„Við þurfum einnig að sýna styrk­leika okkar og þessar sterku raddir – því það er svo mikið hjarta í þess­ari nýju verka­lýðs­hreyf­ingu. Við end­ur­heimtum þennan neista sem hvarf og ég er samt svo hræddur um að þessi neisti og þessi kraftur nái ekki að koma almenni­lega fram nema fólk fái að blómstra – alveg sama hvar það er,“ segir hann. 

Hann nefnir Icelanda­ir-­málið sem dæmi um það hvernig verka­lýðs­hreyf­ingin geti staðið vel sam­an. „Hreyf­ingin er auð­vitað mjög öflug og mun verða enn öfl­ugri. Það er mót­lætið sem hvetur okkur svo oft áfram og þjappar okkur sam­an. Þannig virkar hreyf­ing­in.“ Hann segir að þó sé mik­il­vægt að fólk geti tjáð til­finn­ingar sínar og skoð­an­ir. „Þá færðu líka meiri teng­ing­u.“

SA hefur „rúllað upp lobbí­isma á Íslandi“

Ragnar Þór segir að hann sé enn að vinna að því að gera breyt­ingar innan frá í hreyf­ing­unni en staður hans sé þó ekki innan mið­stjórnar ASÍ. „Mér finnst það vera vett­vangur sem hentar mér per­sónu­lega ekki. Mér finnst hann draga úr mér orku. Hitt er annað mál að ég held að við þurfum að end­ur­skipu­leggja okk­ur.“

End­ur­skoðun er hér lyk­il­hug­tak í huga Ragn­ars Þórs. „Við búum ekki til kerfi sem eru eilíf, þau eru alltaf í end­ur­skoðun og ættu að vera það. Þótt eitt­hvað virki í dag þá er ekki víst að það geri það eftir fimm ár.“

Þá telur hann að Sam­tök atvinnu­lífs­ins hafi „rúllað upp lobbí­isma á Ísland­i“. Hags­muna­öflin og hags­muna­gæsla pen­inga­afl­anna og auð­valds­ins hafi þannig valtað yfir almenn­ing. Hann segir jafn­framt að stjórn­málin á Íslandi séu van­máttug til að takast á við spill­ingu. „Maður skynjar ákveðna upp­gjöf og ómögu­leika gagn­vart því að það sé hægt að breyta ein­hverju þarna inni. Ég upp­lifi þetta sem svo að maður sé búinn að missa trúna á að nokkuð muni breyt­ast – póli­tíska kerfi, þingið og strúkt­úr­inn í kringum flokk­ana og stjórn­mál­in. Það kemur upp­gjafa­til­finn­ing.“

Þó komi tímar þar sem hann sé bjart­sýnni og öðlist trú á að breyt­ingar séu mögu­leg­ar. „Eftir að okkur tókst að rífa þessa hreyf­ingu upp þá held ég að allt sé nú hægt. En ég sé ekki breyt­ing­una fyrir mér í dag – ég sé ekki þennan neista koma þarna inn í stjórn­mál­in. Hvorki í for­ystu flokk­anna né í fram­boði sem virð­ast ætla að verða nægi­lega sterk til þess að þrýsta á ein­hverjar breyt­ing­ar.“ Hann tekur þó sér­stak­lega fram að þarna eigi hann ekki við gras­rót­ar­flokka á borð við Flokk fólks­ins og Sós­í­alista­flokk­inn. 

Hreyfingin er auðvitað mjög öflug og mun verða enn öflugri. Það er mótlætið sem hvetur okkur svo oft áfram og þjappar okkur saman.
Ragnar Þór vill gera breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar en telur þó sinn stað ekki vera í miðstjórn ASÍ.
Bára Huld Beck

Verka­lýðs­hreyf­ingin pen­inga­legt stór­veldi

Varð­andi fram­tíð­ar­sýn Ragn­ars Þórs þá sér hann fyrir sér að verka­lýðs­hreyf­ingin þurfi að end­ur­skipu­leggja sig, eins og áður seg­ir. „Hún þarf að gera það mjög ræki­lega vegna þess að við höfum hingað til verið að tapa bar­átt­unni fyrir sér­hags­muna­öfl­un­um, til dæmis í auð­linda­mál­un­um.“ Allar ákvarð­anir séu gerðar á for­sendum atvinnu­lífs­ins.

„Verka­lýðs­hreyf­ingin getur haft svo mikil áhrif – mikið meiri en hún nú hef­ur. Hér á landi eru sterk sér­hags­muna­öfl eins og Sam­tök atvinnu­lífs­ins, Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, Sam­tök fyr­ir­tækja í ferða­þjón­ustu, Sam­tök iðn­að­ar­ins, Við­skipta­ráð og svo fram­veg­is. Þetta er massíft fyr­ir­bæri sem er þaul­skipu­lagt og hefur gríð­ar­leg ítök. Fyr­ir­tæki og pen­inga­öfl hafa ítök í stjórn­mál­unum og síðan er búið að smita þetta út í allt emb­ætt­is­manna­kerf­ið. Það verður erfitt að breyta þessu en ég held að það sé hægt,“ segir hann. 

Þá segir hann að fjöl­miðlaum­hverfið sé einnig í vanda. „Stærstu fjöl­miðl­arnir eru reknir af ein­hverjum svona auð­valdsklík­um. Þessi klíka er með þennan miðil og önnur með ann­an,“ segir hann og spyr í fram­hald­inu hvað verka­lýðs­hreyf­ingin sé að gera í þessum mál­um. Af hverju sé verka­lýðs­hreyf­ingin ekki með öfl­uga miðla á sínum snærum? 

„Við ættum að vera miklu skipu­lagð­ari í því að vera meira máls­met­andi í orð­ræð­unni og umræð­unni. Vegna þess að hreyf­ingin er allt öðru­vísi en hún var. Í dag er hún pen­inga­legt stór­veldi. Stétt­ar­fé­lögin eru rík og liggja á gríð­ar­legum sjóð­um, millj­örð­um. Og við höfum alla burði til að gera bet­ur. Ég er alls ekki að segja að við séum hand­ó­nýt en við getum gert svo miklu miklu bet­ur. Og við eigum að sýna hvað í okkur býr því við erum með svo mikið á bak við okk­ur. Við eigum að vera það gild­andi í orð­ræð­unni að við eigum ekki að biðja um hlut­ina, við eigum að segja hvernig þeir eru gerð­ir.“

Þannig eigi hreyf­ingin að byggja sig upp en „ekki lifa í búbblu eða enda eins og allt annað í íslensku sam­fé­lag­i“. 

„El­ítan fór á lím­ing­un­um“

Af þessum ástæðum hefur Ragnar Þór velt því fyrir sér hvort ástæða sé til að verka­lýðs­hreyf­ingin eigi að bjóða fram til Alþing­is. Hann veltir því enn fremur fyrir sér hvort breyta eigi líf­eyr­is­sjóðs­kerf­inu en mis­jafnar skoð­anir eru um það innan hreyf­ing­ar­inn­ar. Hann segir að sumum finn­ist kerfið virka vel vegna þess að svona hafi hlut­irnir alltaf verið gerð­ir. „Sumir kunna að fara með mön­tr­urn­ar: „Þetta er besta kerfi í heimi. Við erum öfunduð af þessu kerfi og svo fram­veg­is“.“

Ragnar Þór segir að þessar mön­trur stand­ist enga skoð­un. „Svo kem ég fram og tala um að breyta sjóð­unum með ein­hverjum hætti eða að taka ekki þátt að fjár­festa í félögum sem brjóta illa gegn vinnu­lög­gjöf­inni og fara yfir línur og leik­reglur sem ekki hefur verið farið yfir áður eða í langan tíma – og allt fer á hlið­ina. Elítan fór á lím­ing­un­um,“ segir hann og bætir því við að maður viti að maður sé kom­inn að kjarna sól­ar­innar þegar við­brögðin verða þessi. 

Hann segir jafn­framt að þarna hafi hann fundið fyrir því að hann væri á hár­réttri leið vegna þess að við­brögðin urðu svona ofsa­feng­in. „Þarna liggur kjarni máls­ins – og þá þurfum við að halda áfram á þess­ari braut. Ef við höfum fólkið með okkur þá erum við með slag­kraft sem ekki er hægt að vinna. Þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir okk­ur, ef við ætlum að ná fram ein­hverjum breyt­ingum í sam­fé­lag­inu til fram­tíð­ar, að byggja okkur upp inn á við. þ.e. skipu­leggja okkur upp á nýtt og forð­ast það eins og heitan eld­inn að lenda í sam­nefn­ara­búbblu.“ 

Blá­kaldur veru­leiki sem Íslend­ingar standa frammi fyrir núna

Ragnar Þór bendir á að miklar tækni­breyt­ingar séu framund­an, sem og sjálf­virkni­væð­ing, og því þurfi að end­ur­skoða öll grunn­kerfi sam­fé­lags­ins. Hann telur því það vera gríð­ar­lega mik­il­vægt að sam­fé­lagið fari í mikla nafla­skoð­un. „Vegna þess að kerfin sem við erum með í dag eru byggð utan um allt annað lands­lag og allt annað sam­fé­lag.“ Mik­il­vægt sé að skatt­leggja tækn­ina svo fólk hafi fram­færslu fyrir það fyrsta. 

„Ef það verða ekki til ný störf í stað­inn þá verður að tryggja fólki fram­færslu. Við getum ekki bara verið með ein­hverjar vélar í gangi sem moka auð undir örfá rass­göt og síðan er fólkið heima hjá sér á ein­hverjum bótum sem duga annað hvort fyrir mat eða hús­næði – en ekki hvoru tveggja. Og það er óásætt­an­legt ástand og við eigum að byrja að ræða þetta af miklu meiri alvöru.“

Hann ítrekar að hann vilji sjá breyt­ingar í stjórn­mál­un­um, breyt­ingar innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og breyt­ingar á hug­ar­fari á Alþingi. „Af hverju erum við með kerfi þar sem örfáir ráða en allir kraft­arnir nýt­ast ekki á með­an. Við verðum að fá sem mest út úr flest­um. Þannig þarf póli­tíkin og þingið að virka. Síðan þurfum við að ráð­ast á þessi grunn­kerfi. Við þurfum algjör­lega að end­ur­skoða líf­eyr­is- og almanna­trygg­inga­kerfið og koma í veg fyrir þessa inn­byggðu mis­munun í kerf­un­um. Og í þess­ari end­ur­skoðun verðum við tryggja fólki fram­færslu á meðan okkur er ekki að takast að skapa ný störf fyrir þau sem tap­ast. Þetta er blá­kaldur veru­leiki sem við stöndum frammi fyrir núna. Þetta er að ger­ast núna – ekki eftir tíu eða tutt­ugu ár. Þarna þarf fólk að vera með opinn hug.“

Þá skipti máli að fá rétta fólkið í þessar breyt­ing­ar. Ekki sé hægt að stóla á þá sem unnið hafa innan kerf­is­ins í langan tíma heldur þurfi fólk sem er með aðra sýn. Það þurfi að hugsa þetta alveg frá grunn­i. 

Auglýsing

Erum fyr­ir­mynd spill­ingar – ástandið oft yfir­þyrm­andi

Ragnar Þór segir að það sé auð­velt fyrir Ísland að vera góð fyr­ir­mynd í hinum ýmsu mál­um, til að mynda í lofts­lags­mál­um. „En við getum líka verið ann­ars konar fyr­ir­mynd – ekki spenn­andi fyr­ir­mynd. Við erum fyr­ir­mynd spill­ing­ar, við erum fyr­ir­mynd mis­skipt­ingar og við erum fyr­ir­mynd fyrir veg­ferð sem aðrir ættu ekki að fara.“

Hann segir að almennt sé hann von­góður um að hægt sé að ná fram þessum breyt­ingum sem hann talar um. „Ann­ars gæti ég ekki verið í þessu starfi. Ég er í þessu starfi vegna þess að ég hef trú á því að eitt­hvað muni breyt­ast en auð­vitað hef ég til­finn­ingar eins og allir – og auð­vitað verður ástandið oft yfir­þyrm­andi af því að þetta er svo miklu verra en ég hélt. Ég taldi mig vera mjög vel und­ir­bú­inn fyrir þetta starf og til að fara í þessa bar­áttu. Að reyna að fylgja þessum hug­sjónum en þetta er allt erfitt. Það er erfitt að gera mála­miðl­anir og það er erfitt og yfir­þym­andi að finna hversu ógn­væn­leg þessi ákveðna þróun er og hversu ógn­væn­leg þessi öfl eru. Að sjá hversu sterk þau eru í raun og veru en líka hvað þau eru veik. Þú þarft ein­ungis bara fólkið með þér en það er líka heil­mik­ið. Þetta er bara líka risa­stórt. Svo er maður bara mis­mó­tí­ver­aður í þetta. Stundum er maður „high on life“ og stundum ekki. Sama gildir um bar­átt­una, stundum er maður í góðum gír en trúin er alltaf til stað­ar. En þegar trúin er farin þá er ég farin líka, það er bara þannig. Þegar ég hætti að trúa því að við getum breytt þessu verður það síð­asti dag­ur­inn minn í þess­ari vinn­u,“ segir hann að lok­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal