Bára Huld Beck

Ekki útópískur draumur að allt fólk verði metið að verðleikum

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Næst í röðinni er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Staðan er bara þessi: Við erum með fólk sem hefur sann­ar­lega svitnað fyrir hag­vöxt­inn, svitnað fyrir góð­ærið og á ekki nokkurn skap­aðan hlut. Á ekki þús­und krónur inni á banka­reikn­ingum sínum þegar atvinnu­leysið kem­ur. Þetta veldur mér gríð­ar­legu hug­ar­angri og ef stjórn­völd fara ekki að taka sig á og við­ur­kenna þessa bláköldu stað­reynd, að það getur eng­inn kom­ist af á svona lágum fjár­hæð­um, og bregð­ast við þá sé ég bara fyrir mér hræði­lega hlut­i.“

Þetta segir Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, for­maður Efl­ing­ar, þegar hún er spurð út í þá stöðu sem upp er komin í íslensku sam­fé­lag­i. 

Þá spyr hún hvort sam­fé­lagið sé til­búið til þess að sætta sig við það að byrð­arnar séu lagðar á fólkið sem hefur ekk­ert til saka unn­ið. „Ég held ekki. Ég held að við viljum ekki svo­leiðis sam­fé­lag,“ segir hún. 

Auglýsing

Þakkar bar­áttu þeirra sem á undan komu

Sól­veig Anna spyr enn fremur hvort nú ekki sé kjörið tæki­færi fyrir stjórn­völd að sýna póli­tíska og sið­ferði­lega getu og for­ystu til að leysa það vanda­mál sem liggur mest á að leysa; að tryggja það að fólk hafi nóg á milli hand­anna til þess að sjá fyrir sér og sín­um. Hún segir að fram­tíðin muni ráð­ast af því hvernig Íslend­ingar muni tækla það ástand sem nú er upp­i. 

„Á tímum sem þessum þakka ég mjög fyrir bar­áttu þeirra sem á undan okkur fóru í verka­lýðs­hreyf­ing­unni og verka­lýðs­bar­átt­unni. Ég horfi til baka á síð­ustu öld og þær stór­kost­legu fórnir sem fólk færði og þá ótrú­legu bar­áttu sem var háð,“ segir hún. 

Þá telur Sól­veig Anna það vera mik­il­vægt að búa í landi þar sem að þegar högg­bylgjan fer í gegnum hið kap­ít­al­íska kerfi og vinnu­aflið byrjar að hrist­ast af skrímsl­inu þá sé sann­ar­lega eitt­hvað sem taki á móti því. Að fólk lendi ekki marg­brotið á göt­unni.

Hún seg­ist jafn­framt vera þakk­lát fyrir það á stundum sem þessum að á Íslandi sé stór verka­lýðs­hreyf­ing sem í krafti stærðar sinnar – og þess gríð­ar­mikla fjölda sem innan hennar er – getur kraf­ist þess að hafa aðkomu að aðgerðum stjórn­valda. Þær aðgerðir sem gagn­ast hafa vinn­andi fólki núna í þess­ari COVID-kreppu séu aðgerðir sem hreyf­ingin hafi lagt áherslu á og með því að stíga fram sterk náð að keyra í gegn. 

Á tímum sem þessum þakka ég mjög fyrir baráttu þeirra sem á undan okkur fóru í verkalýðshreyfingunni og verkalýðsbaráttunni.
Sólveig Anna
Bára Huld Beck

Nú er tæki­færi til að sýna að erlent vinnu­afl sé „sann­ar­lega ekki bara eitt­hvað einnota drasl“

Sól­veig Anna rifjar upp að þús­undir karla og kvenna hafi verið hvattir til að flytj­ast hingað til lands á góð­ær­is­tím­anum til þess að starfa í ferða­manna­iðn­að­in­um. Nú sé staðan önnur og mun gríð­ar­legur fjöldi aðflutts fólks verða atvinnu­laus. Af þessu hafi hún miklar áhyggj­ur. „Við búum í hag­kerfi sem er knúið áfram með því að leyfa eig­endum fjár­magns­ins og atvinnu­tækj­anna að fara sínu fram með stuðn­ingi rík­is­sjóðs,“ segir hún og bætir því við að Íslend­ingar þurfi að við­ur­kenna að ýmis­legt mis­jafnt hafi gerst í ferða­manna­brans­an­um, sam­an­ber nýlega skýrslu um aðstæður erlends vinnu­afls í ferða­þjón­ust­unni.

Nú hafi stjórn­völd og þeir sem hagn­ast hafa á vinnu þessa fólks tæki­færi til að sýna að það sé mik­ils metið og „sann­ar­lega ekki bara eitt­hvað einnota drasl sem hægt er að kasta í ruslið um leið og það hentar íslensku hag­kerfi – heldur að það muni fá til baka það sem það á inni hjá rík­is­sjóði og þessu sam­fé­lagi í hækkun bóta, atvinnu­skap­andi verk­efnum og í því að hér verði brugð­ist við þessu ástandi með upp­byggi­legum og skyn­sömum hætti með þarfir vinn­andi fólks í fyr­ir­rúmi.“

Hún segir að ef vinn­andi fólk á Íslandi nái að setja fram kröfur sínar með nægi­lega skýrum og ein­beittum hætti í algjörri sam­stöðu þá hafi stjórn­völd ekki mikið um annað að ræða en að fall­ast á kröf­urn­ar. Það sé lyk­il­at­rið­ið.

Verka­lýðs­hreyf­ingin „hreyfi­afl fyrir breyt­ingar sem við þurfum að sjá“

Varð­andi sam­stöðu innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar þá segir Sól­veig Anna að hún viti hund­rað pró­sent hvert hlut­verk Efl­ingar sé og hvert hlut­verk hennar sjálfrar sé. „Ég veit það að við erum algjör­lega sam­einuð í því verk­efni, það er að berj­ast fyrir rétt­indum verka- og lág­launa­fólks í þessu landi og láta aldrei deigan síga í þeirri bar­áttu. Sökum stærðar félags­ins innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar þá nátt­úru­lega höfum við mjög mikið væg­i.“

Verka­lýðs­hreyf­ing­in, og þá sér­stak­lega Alþýðu­sam­band Íslands, var gagn­rýnd tölu­vert eftir hrun fyrir að vinna of náið með stjórn­völdum og atvinnu­líf­inu en mikil end­ur­nýjun hefur átt sér stað innan hreyf­ing­ar­innar á und­an­förnum miss­er­um. Aðspurð út í þessa end­ur­nýjun segir Sól­veig Anna að hún upp­lifi ekki með­virkni hjá for­seta ASÍ, Drífu Snædal, með stjórn­völd­um. 

„Ég upp­lifi miklu frekar ríku­legan vilja til þess að hlusta á fólkið inn í hreyf­ing­unni til þess að finna lausnir og miðla mál­um. En þó ekki ein­ungis til að vera aðhald á aðgerðir stjórn­valda heldur einnig hreyfi­afl fyrir breyt­ingar sem við þurfum að sjá,“ segir hún. 

„Fuck you! Ég er meira virði“

Þrátt fyrir að verka­lýðs­hreyf­ingin sé sterk um þessar mundir þá bendir Sól­veig Anna á að þau glími við það risa­vaxna verk­efni að hreyf­ingin sé að koma undan löngu tíma­bili þar sem her­ská stétta­bar­átta hafi ekki verið í boði. „Það eina sem í boði var fyrir hreyf­ing­una og fyrir fólk var að starfa eftir ein­hverjum mark­miðum um stöð­ug­leika og þjóð­ar­sátt. Þá var bara búið að reikna fyr­ir­fram út að skúr­ing­ar­kerl­ingin ætti bara alltaf að fá lang­minnst og að leik­skóla­kerl­ingin ætti alltaf líka að fá minnst, alveg sama hvað. Og þá skipti engu máli hvort það var góð­æri eða hvort það var kreppa; þessir útreikn­ingar breytt­ust aldrei,“ bendir hún á. 

Nú sé stórt og mikið verk­efni að kom­ast aftur á þann stað að fólk segi bara: „Fuck you! Ég er meira virði og ekki vegna þess að ég sé búin að fara í gegnum eitt­hvað sjálf­styrk­ing­ar­nám­skeið heldur vegna þess að ég er meira virði sem vinnu­afl í þessu kerfi og þess vegna ætla ég að fá meira.“ 

Augna­blik sem þessi geta verið hættu­leg – en einnig borið með sér von

Efna­hags­þreng­ing­arnar voru byrj­aðar fyrir far­ald­ur­inn en dýpk­uðu óvænt og með miklum látum fyrr á þessu ári í kjöl­far sótt­varna­að­gerða hér og ann­ars staðar í heim­in­um. „Allt í einu á sér stað þetta ótrú­lega augna­blik þegar hin kap­ít­al­íska mask­ína stöðvast – ekki vegna verk­falla vinnu­aflsins eða neins slíks heldur vegna eins­konar nátt­úru­ham­fara. Og af því að við búum í þessu stétt­skipta arð­ráns­sam­fé­lagi þá skýr­ast stétta­lín­urnar og stétta­skipt­ingin um leið. Afhjúp­unin hefur þar af leið­andi verið mjög mik­il, bæði á Íslandi og í öllum heim­in­um. 

Við höfum séð ákveðnar and­stæður skerp­ast. Þá sjáum við ann­ars vegar vinnu­aflið algjör­lega bjarg­ar­laust, með ekk­ert á milli hand­anna, og svo hins vegar auð­stétt­ina algjör­lega örvænt­ing­ar­fulla í því að reyna að finna ein­hverjar leiðir til að láta við­skiptin fara aftur af stað.“

Svona augna­blik geta verið mjög hættu­leg, að mati Sól­veigar Önnu. „En þau geta líka borið með sér mikla von um breyt­ing­ar, þannig að ég leyfi sjálfri mér þegar ég horfi yfir sviðið að vera líka bjart­sýn.“ 

Auglýsing

Ótrú­legt að fram­ganga SA orsaki ekki meira upp­nám

Eitt stærsta áhyggju­efni hennar varðar Sam­tök atvinnu­lífs­ins (SA) og veg­ferð þeirra í aðkomu að kjara­bar­áttu á Íslandi. „Allt fólk sem er sæmi­lega viti borið með sæmi­lega fún­ker­andi sið­ferð­is­átta­vita hlýtur að vera í áfalli yfir hvernig Sam­tök atvinnu­lífs­ins vinna. Við erum með þennan risa­stóra aðila á vinnu­mark­aði sem fer fram með svo sví­virði­legum hætti að mér finnst bara ótrú­legt að það orsaki ekki meira upp­nám í sam­fé­lag­in­u.“

Hún segir að aðilar innan sam­bands­ins brjóti mark­visst lög sem gilda á Íslandi, en þar á hún meðal ann­ars við vinnu­lög­gjöf­ina frá árinu 1938 og „þetta gera þau vegna þess að þau segja að þessi lög­gjöf sé úrelt. Þetta er mjög áhuga­vert og til marks um mjög van­þroskaða lýð­ræð­isum­ræðu að þetta skuli ekki vekja meiri athygli. Er það þá þannig núna að tals­maður atvinnu­rek­enda, Hall­dór Benja­mín, líti svo á að hann megi bók­staf­lega velja og hafna lögum sem hann lifir eft­ir? Þetta er ótrú­legur staður til að vera á,“ segir hún. 

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA, sagði í júlí síð­ast­liðnum að sam­tökin stæðu með Icelandair að ákvörðun um að slíta við­ræðum við Flug­freyju­fé­lag Íslands og leita annað en sam­tökin fóru með samn­ings­rétt fyrir hönd Icelanda­ir. Hann sagði að sú leið sem farin var væri lög­leg en að ef Flug­freyju­fé­lag Íslands sætti sig ekki við hana gæti það farið fyrir dóm­stóla með mál­ið. „Við getum sagt að íslensk vinnu­lög­gjöf er að mörgu leyti úr sér gengin og fyrir löngu kom­inn tími til að end­ur­skoða hana, ekki bara að hluta eða í heild. Það getur verið að þessi deila komi til álita þar,“ sagði hann við RÚV í júlí. 

Hann sagði enn fremur í við­tali við Kjarn­ann í byrjun sept­em­ber að hann neit­aði að horfa á vinnu­mark­að­inn sem stríðs­völl. Sól­veig Anna hefur margt um Hall­dór Benja­mín og Sam­tök atvinnu­lífs­ins að segja en hún bendir á að SA séu núna í hönd­unum á „mjög lít­illi klíku Sjálf­stæð­is­flokks­ins“ og sé þetta í raun sam­band ungra Sjálf­stæð­is­manna fyrir ein­hverjum ára­tug síð­an. „Og þetta er sama klíka og hefur hreiðrað um sig inn í Icelandair og tengslin þarna á milli eru nátt­úru­lega með ólík­ind­um. Hug­mynda­fræðin sem þetta fólk lifir eftir er þessi grimmi­lega nýfrjáls­hyggja mennta­skóla­ræðu­klúbbs­ins. Það er ekki hug­mynda­fræði sem maður sér sem góða til þess að byggja sam­fé­lags­lega nálgun á,“ áréttar hún. 

Til­búin að skoða það að fara í alls­herjar snið­göngu á Sam­tökum atvinnu­lífs­ins

Sam­tök atvinnu­lífs­ins njóta þess­arar stöðu sem þau hafa sem mik­il­vægur aðili á vinnu­mark­aði vegna þess að verka­lýðs­hreyf­ingin hefur ákveðið að við­ur­kenna að sam­tökin hafi lög­mæti, að sögn Sól­veigar Önnu. „Í lög­gjöf­inni er aftur á móti talað mjög almennt. Þar er talað um sam­tök atvinnu­rek­enda – með litlu s-i – en þar er ekki minnst á Sam­tök atvinnu­lífs­ins.“

Hún segir að fram­ganga Sam­taka atvinnu­lífs­ins í mál­efnum Icelandair sýni það með mjög skýrum hætti að þau líti svo á að íslensk lög­saga nái ekki yfir sam­tök­in. „Og þau ráð­leggja og standa með fyr­ir­tæki sem ákveður að brjóta lög. Þau líta svo á að lög­gjöfin sé úrelt og þá ákveða strák­arnir auð­vitað að það megi breyta lög­unum upp á sitt eins­dæmi.“

Sól­veig Anna segir að fyrst Sam­tök atvinnu­lífs­ins hagi sér með þessum hætti þá geti verka­lýðs­hreyf­ingin gert slíkt hið sama. „Ef þetta á að vera svona þá getum við bara sagst ætla að semja við ein­stök fyr­ir­tæki eða við ein­hver önnur sam­tök en Sam­tök atvinnu­lífs­ins. Við skulum líka átta okkur á því að það eru bara fáir atvinnu­rek­endur innan Sam­taka atvinnu­lífs­ins. Ég get líka sent frá mér – og stjórn Efl­ingar – ein­hliða yfir­lýs­ingu um hverjir kaup­taxt­arnir eigi að vera fyrir aðgang að vinnu­afli fólks.“

Hún telur að bar­áttu­vilji íslensks verka­fólks sé mik­ill á þessum tímum og að Efl­ing, undir hennar for­ystu, sé til­búin að skoða það að fara í alls­herjar snið­göngu á Sam­tökum atvinnu­lífs­ins. „Ef menn halda að þeir geti farið fram með þessum hætti og að því verði bara tekið þá er það ekki svo. Ég er mjög til­búin að fara í þá veg­ferð að sýna þeim fram á það,“ segir hún. 

Ef þetta á að vera svona þá getum við bara sagst ætla að semja við einstök fyrirtæki eða við einhver önnur samtök en Samtök atvinnulífsins.
Sólveig Anna
Bára Huld Beck

Hefur engan tíma til að taka þátt í þessu leik­riti

Þá bendir Sól­veig Anna enn fremur á að á sama tíma og fram­kvæmda­stjóri SA segir að vinnu­mark­að­ur­inn sé ekki víg­völlur þá standi hann fyrir þessum árásum á rétt­indi vinn­andi fólks en hún telur að aðgerðir Icelandair séu skýrt brot á vinnu­lög­gjöf­inni. „Þessi maður dirf­ist að halda því fram að hann neiti að sjá atvinnu­mark­að­inn og kjara­samn­ings­við­ræður sem víg­völl. Hann er í algjöru stétta­stríði. Hann er til­bú­inn til þess að brjóta lög og koma í veg fyrir að stjórn­völd geti upp­fyllt sín lof­orð og hann er til­bú­inn til þess að stíga inn í kjara­deilu sem hann á ekk­ert með að stíga inn í eins og í kjara­deil­unni okkar við borg­ina.“

Hún seg­ist ekki hafa neinn tíma til þess að taka þátt í þessu leik­riti, þar sem fólk segir eitt­hvað og gerir síðan eitt­hvað allt ann­að. „Ég nenni því ekki og hef ekki tíma fyrir þetta. Og ég full­yrði að verka- og lág­launa­fólk hefur enga þol­in­mæði fyrir þessu og hefur engan tíma fyrir þetta held­ur. Ég veit satt að segja ekki hvað ég get sagt meira um þessi orð, þetta er gjör­sam­lega frá­leitt.“

Í stétta­stríði gengur á ýmsu og segir Sól­veig Anna að þau sem standa í bar­átt­unni séu búin að vera í stans­lausri vinnu síð­ustu tvö ár, þar sem þau hafi staðið í hverjum slagnum á fætur öðrum – og almennt hafi þeim gengið ansi vel. „Ég og vara­for­maður og stjórn Efl­ingar stöndum mjög þétt sam­an. Ég verð for­maður þessa félags næstu tvö árin og ég tel mig hafa félags­menn okkar með mér. Við munum fara út í þetta stríð með okkar ein­beitta bar­áttu­vilja og okkar ein­beittu trú á það að ekki aðeins eigi verka- og lág­launa­fólk á Íslandi rétt á stærri sneið af kök­unni heldur eigi verka- og lág­launa­fólk algjöran rétt á því að engar ákvarð­anir séu teknar hér á landi án aðkomu þess – og án þess að þeirra hags­munir séu hafðir í fyr­ir­rúmi. Við munum ekki gef­ast upp.“

Auglýsing

Stríðið hófst í árdaga hins kap­ít­al­íska kerfis

Þessi veg­ferð verka- og lág­launa­fólks er hafin á Íslandi og það er eng­inn enda­punktur í sjón­máli – þau munu halda áfram, að hennar sögn. „Við erum í hatrömmum stétta­á­tökum og það erum ekki við sem hófum þetta stríð. Það hófst í árdaga hins kap­ít­al­íska kerf­is. Vinnu­aflið hefur alltaf þurft að berj­ast fyrir öllu og það er bara stað­an. Við búum í sam­fé­lagi sem vissu­lega nýtur góðs af bar­áttu þeirra sem á undan okkur komu en við búum líka í sam­fé­lagi þar sem Sam­tök atvinnu­lífs­ins, full­trúar auð­stétt­ar­inn­ar, telja að það eigi að taka burt frá okkur ákveðin rétt­indi – á sama tíma og við erum að takast á við atvinnu­leysi, sam­ræmda lág­launa­stefnu, lík­am­leg og and­leg veik­indi kvenna sem hafa þrælað sér út á þessum vinnu­mark­aði, fátækt hjá börnum og umönn­un­ar­kerfi sem er van­fjár­magn­að. 

Þetta er ástandið sem við erum að takast á við, þetta er sá veru­leiki sem við höfum lifað og starfað inn í. Þetta er okkar heimur og við vitum að við höfum verið beitt mis­rétti, við vitum að virði okkar í þessu sam­fé­lagi er óend­an­legt og við vitum að við höfum ekki einu sinni fengið brota­brot af því sem við rétti­lega eigum heimt­ingu á. Við vitum að vinna okkar hefur knúið áfram þessa gróðama­sk­ínu sem þessi ferða­bransi hefur verið og aft­ur: Við höfum ekki séð nema smott­erí af þessu – og við höfum þurft að vinna okkur til húðar í algjör­lega óboð­legum aðstæð­um. Við höfum þurft að þola launa­þjófn­að, mis­beit­ingu og svo fram­veg­is, og ef ein­hver heldur að við séum til­búin að slá af kröfum okkar til að sætta okkur við það að brauð­mylsnan sem er látin falla til okkar sé mygluð og vond þá þarf fólk aðeins að athuga hvort jarð­teng­ingin sé ekki orðin full léleg.“

„Líf einnar mann­eskju er meira virði en allur auður hins auð­ug­asta sam­an­lagð­ur“

Eftir hrunið 2008 hafði fólk ákveðnar vænt­ingar um breytt gild­is­mat og hefur sama orð­ræða látið á sér kræla í COVID-19 far­aldr­in­um. Er Sól­veig Anna bjart­sýn að hægt sé að breyta ákveðnum hugs­ana­gangi í og eftir svona ástand?

„Grunn­ur­inn í allri minni hug­mynda­fræði er trúin á rétt­læt­is­kennd hverrar mann­eskju og mann­helg­i,“ svarar hún og vitnar í Che Guevara, frægan bylt­ing­ar­sinna sem barð­ist fyrir rétt­indum fólks í Suð­ur­-Am­er­íku um miðja 20. öld­ina, en hann sagði að líf einnar mann­eskju væri meira virði en allur auður hins auð­ug­asta sam­an­lagð­ur. Hún seg­ist trúa þessum orðum á hverjum ein­asta deg­i. 

„Þetta hvetur mig ávallt áfram en auð­vitað er ég orðin lífs­reynd kona. Ég er 45 ára gömul og tók þátt í hinni svoköll­uðu bús­á­halda­bylt­ingu – og í miklum aktí­visma í kjöl­far henn­ar. Ég var ein af þeim sem trúði því að eitt­hvað raun­veru­lega myndi breyt­ast. Eða rétt­ara sagt að við gætum raun­veru­lega breytt ein­hverju því ég veit að ekk­ert breyt­ist nema það séu nógu margir sem séu sam­ein­aðir í að láta það ger­ast. Ég trúi ekki á sigur vilj­ans, ég trúi á sigur sam­stöð­unn­ar. En það fór eins og það fór,“ segir hún.

Erum öll fangar í þessu kerfi

Sól­veig Anna seg­ist vona að alþýða ver­aldar muni ekki taka því þegj­andi og hljóða­laust ef allar hörm­ung­arnar verði aftur settar á axlir henn­ar. 

„Ég bind miklar og raun­veru­legar vonir við það að rétt­læt­is­kennd fólks og vit­neskja hverrar mann­eskju um eigið mik­il­vægi geti haft mjög mikið að segja. En ég veit líka að ef kap­ít­alist­arnir halda áfram á sinni for­hertu og harðsvír­uðu leið og ef frjáls­lynt lýð­ræði áttar sig ekki á því að það hefur algjör­lega brugð­ist vinn­andi fólki, flótta­fólki og jað­ar­settu fólki og öllu fólki sem á ekki pen­ing og völd þá endum við aftur á þeim stað sem byggður er í þessu kerfi. Þá sitjum við áfram uppi með ein­hvers konar fas­is­ma, þessa járn­gjörð utan um grotn­andi tunnu kap­ít­al­ism­ans – og það er bara mjög raun­veru­legt að slíkt geti gerst.“

Hún segir að við munum aldrei losna við stétta­á­tök í þessu kerfi. „Við erum öll fangar í þessu kerfi og mann­eskjan sem ætlar að reyna að hrista sig lausa nátt­úru­lega fattar að hlekkirnir sem binda hana niðri eru ekki bara per­sónu­legir hlekkir sem hægt er að losa með því að verða svaka­lega „woke“. Hún áttar sig fljótt á því að ekki sé hægt að brjóta hina efn­is­legu hlekki með fram­taki ein­stak­lings­ins. Þú nærð aldrei að brjóta þá nema í fjölda­sam­stöðu með öðru fólki.“

Ekki flókið að leysa þessi verk­efni

Varð­andi fram­tíð­ar­sýn Sól­veigar Önnu þá segir hún að vilji sjá sam­fé­lag þar sem sam­skipti á milli fólks byggi raun­veru­lega á sann­girni og rétt­læti þar sem hver mann­eskja vaknar inn í dag­inn vit­andi það að hún fari út í sam­fé­lagið til þess að starfa hlið við hlið með félögum sínum á sínum vinnu­stað og sínu umhverfi til þess að ná fram ein­hverju sam­eig­in­legu mark­miði – og þar sem hver mann­eskja getur lagst til svefns á kvöldin vit­andi það að hún hafi ekki arð­rænt eða kúg­að. Hún viti að hún býr í sam­fé­lagið þar sem vinn­andi fólk vill standa sam­an. 

„Það er vissu­lega langur vegur að þessu mark­miði. En ég vil og trúi því samt að mann­eskjan sem vinnur til dæmis í umönn­un­ar­störfum verði loks­ins metin að verð­leik­um. Að starfs­fólkið á hjúkr­un­ar­heim­il­unum og leik­skól­unum fái loks­ins þá umbun frá sam­fé­lag­inu sem það á skil­ið. Ég vil sam­fé­lag þar sem við raun­veru­lega getum stytt vinnu­vik­una og þar sem ungt fjöl­skyldu­fólk getur notið sam­vista hvert við annað og afkvæmi sín. Þar sem mann­eskja sem hefur unnið erf­ið­is­vinnu sé ekki búin á því þegar hún kemur heim eftir vinnu­dag­inn og er ekki byrjuð að missa heils­una um fimm­tugt eins og stað­reyndin er nún­a.“

Hún segir að þetta séu ekki flókin verk­efni að leysa. „Svo þegar fólk stillir því þannig upp – þessi eitr­aða nýfrjáls­hyggju­hugsun um enda­lok sög­unn­ar, að við séum bara bundin inn í þetta kerfi – þá bendi ég fólki á að horfa stutt til baka. Við þurfum ekki að horfa mörg hund­ruð ár aftur í tím­ann, við skulum bara horfa aftur á síð­ustu öld þar sem fólk sem átti ekk­ert, bók­staf­lega átti ekki neitt, náði með bar­áttu­vilja sínum og sam­stöðu að fá verka­manna­bú­staði og að fá mennta­kerfi þar sem öll börn áttu rétt á því að kom­ast í skóla og læra að lesa og reikna. Þar sem fólk átti rétt á lækn­is­þjón­ustu og þar sem vinnu­vikan fór úr því að vera bara hvað sem vinnu­veit­and­anum datt til hugar hverju sinni í það að vera lög­bundin – þar sem búið var að við­ur­kenna að það mætti ekki nota manns­lík­amann eins og ein­hverja vél þangað til hann brotn­ar. Þar sem barna­þræl­dóm­ur, sem tíðk­að­ist, var upp­rætt­ur.“

Við erum öll fangar í þessu kerfi og manneskjan sem ætlar að reyna að hrista sig lausa náttúrulega fattar að hlekkirnir sem binda hana niðri eru ekki bara persónulegir hlekkir sem hægt er að losa með því að verða svakalega „woke“.
Sólveig Anna á samstöðufundi með hótelstarfsmönnum árið 2019.
Bára Huld Beck

Búin að sætta okkur við brenglaða sýn á sam­fé­lagið

Þessum stóru breyt­ingum náði verka­fólk fram á til­tölu­lega skömmum tíma. „Við erum með drauma sem eru ein­göngu útópískir vegna þess að við erum komin á svo klikk­aðan stað. Við erum búin að sætta okkur við svo ótrú­lega brenglaða sýn. En þessir draumar eru bara alls ekki útópísk­ir. Hvernig getur það verið útópískt að sjá fyrir sér sam­fé­lag þar sem allt fólk er metið að verð­leik­um? Þar sem fólk upp­sker það sem það þarf og leggur til eftir get­u?“ spyr Sól­veig Anna. 

Hún segir að fólk á Íslandi hafi nú tæki­færi til að sýna hvers það er megn­ugt. „Þetta sam­fé­lag er vell­auð­ugt með inn­viði sem þrátt fyrir árásir nýfrjáls­hyggj­unnar eru þó sterkir miðað við ann­ars staðar í ver­öld­inni. Við skulum ekki gera sjálfum okkur það og þeim sem á eftir okkur koma að þetta tíma­bil verði skammar­blettur í íslenskri sögu. Að horft verði til baka og hægt verði að sjá að fólk hafi verið yfir­gefið þegar það þurfti mest á stuðn­ingi að halda. Gerum það ekki.

Ef Ísland – þetta auð­uga sam­fé­lag – getur ekki leyst þessi vanda­mál eða sam­ein­ast um að hafna þessum ómann­úð­legu leik­reglum um arð­rán kerf­is­ins, hver getur það þá?“ spyr hún jafn­framt.

Konur hafa þurft að þola ógeðs­legt orð­bragð

Sól­veig Anna bendir að end­ingu á að ýmsir hópar í sam­fé­lag­inu hafi þurft að „þola mesta skít­inn“ und­an­farin ár. Þetta eigi við um til dæmis ljós­mæð­ur, hjúkr­un­ar­kon­ur, flug­freyjur og félags­menn Efl­ingar – og þá sér­stak­lega stóru kvenna­stétt­irn­ar. „Þessir hópar, þrátt fyrir að vera ólík­ir, eru með konur í for­svari fyrir sig í bar­átt­unni og hafa þær þurft að þola ógeðs­legt orð­bragð og hegðun af hálfu karla. Á sama tíma hefur þessi frjáls­lyndi femín­ismi sem hér hefur verið stund­aður ekki getað eða viljað taka þátt í þess­ari bar­áttu. Hann er algjör­lega á hlið­ar­lín­unni þarna.“ 

Henni finnst mik­il­vægt að velta þessum þáttum fyrir sér og þeim tví­skinn­ungi sem birt­ist í meg­in­straums femín­ism­an­um. Hún segir að sleggjan sé tekin upp um leið og vinn­andi konur láta í sér heyra og byrjað að berja. Þær séu kall­aðar geð­veikar og klikk­aðar en þær séu ein­ungis að berj­ast fyrir því að fá menntun sína metna að verð­leik­um, að taka ekki á sig launa­skerð­ingu eða að krefj­ast þess að fá sér­staka kjara­leið­rétt­ingu vegna þess að þær hafa þurft að þjást sem lægst laun­aða fólkið á vinnu­mark­að­in­um. „Svo eru þær kall­aðar óvinir Íslands og þær hæddar og smán­aðar í leið­urum stóru blað­anna – í leið­urum Frétta­blaðs­ins og Morg­un­blaðs­ins og í nafn­lausum óhróðri Við­skipta­blaðs­ins.“

Sól­veig Anna bendir á að verka- og lág­launa­fólk hafi þurft að ganga í gegnum mjög margt á síð­ustu árum og að það hafi reynt mikið á. „Margir færðu per­sónu­legar fórn­ir, bæði for­ystan og fólkið sem var í verk­föll­un­um. Það er ekki auð­velt að vera í 6 vikna verk­falli eins og við gerðum hjá borg­inni, og lesa um það í blöð­unum að þú sért fífl og hálf­viti – og geð­biluð tussa. En fólkið gefst ekki upp, það heldur áfram. Það nær ákveðnum áfanga­sigrum og það er ekk­ert betra en að hafa farið í gegnum stóran slag, þar sem mikið var lagt und­ir, og að geta gengið frá samn­inga­borð­inu í góðri og mik­illi sam­stöðu með félög­un­um. Þetta er allt eitt­hvað sem við búum að. Við hljótum að horfa á bar­átt­una okkar síð­asta vetur og sjá að þetta gátum við með ein­beittri sam­stöðu.

Þannig að Hall­dór Benja­mín getur haldið áfram að mæta og skipa fyrir en það eru bara allir hættir að hlust­a,“ segir hún að lok­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal