Bára Huld Beck

Ekki útópískur draumur að allt fólk verði metið að verðleikum

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Næst í röðinni er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Staðan er bara þessi: Við erum með fólk sem hefur sannarlega svitnað fyrir hagvöxtinn, svitnað fyrir góðærið og á ekki nokkurn skapaðan hlut. Á ekki þúsund krónur inni á bankareikningum sínum þegar atvinnuleysið kemur. Þetta veldur mér gríðarlegu hugarangri og ef stjórnvöld fara ekki að taka sig á og viðurkenna þessa bláköldu staðreynd, að það getur enginn komist af á svona lágum fjárhæðum, og bregðast við þá sé ég bara fyrir mér hræðilega hluti.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar hún er spurð út í þá stöðu sem upp er komin í íslensku samfélagi. 

Þá spyr hún hvort samfélagið sé tilbúið til þess að sætta sig við það að byrðarnar séu lagðar á fólkið sem hefur ekkert til saka unnið. „Ég held ekki. Ég held að við viljum ekki svoleiðis samfélag,“ segir hún. 

Auglýsing

Þakkar baráttu þeirra sem á undan komu

Sólveig Anna spyr enn fremur hvort nú ekki sé kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að sýna pólitíska og siðferðilega getu og forystu til að leysa það vandamál sem liggur mest á að leysa; að tryggja það að fólk hafi nóg á milli handanna til þess að sjá fyrir sér og sínum. Hún segir að framtíðin muni ráðast af því hvernig Íslendingar muni tækla það ástand sem nú er uppi. 

„Á tímum sem þessum þakka ég mjög fyrir baráttu þeirra sem á undan okkur fóru í verkalýðshreyfingunni og verkalýðsbaráttunni. Ég horfi til baka á síðustu öld og þær stórkostlegu fórnir sem fólk færði og þá ótrúlegu baráttu sem var háð,“ segir hún. 

Þá telur Sólveig Anna það vera mikilvægt að búa í landi þar sem að þegar höggbylgjan fer í gegnum hið kapítalíska kerfi og vinnuaflið byrjar að hristast af skrímslinu þá sé sannarlega eitthvað sem taki á móti því. Að fólk lendi ekki margbrotið á götunni.

Hún segist jafnframt vera þakklát fyrir það á stundum sem þessum að á Íslandi sé stór verkalýðshreyfing sem í krafti stærðar sinnar – og þess gríðarmikla fjölda sem innan hennar er – getur krafist þess að hafa aðkomu að aðgerðum stjórnvalda. Þær aðgerðir sem gagnast hafa vinnandi fólki núna í þessari COVID-kreppu séu aðgerðir sem hreyfingin hafi lagt áherslu á og með því að stíga fram sterk náð að keyra í gegn. 

Á tímum sem þessum þakka ég mjög fyrir baráttu þeirra sem á undan okkur fóru í verkalýðshreyfingunni og verkalýðsbaráttunni.
Sólveig Anna
Bára Huld Beck

Nú er tækifæri til að sýna að erlent vinnuafl sé „sannarlega ekki bara eitthvað einnota drasl“

Sólveig Anna rifjar upp að þúsundir karla og kvenna hafi verið hvattir til að flytjast hingað til lands á góðæristímanum til þess að starfa í ferðamannaiðnaðinum. Nú sé staðan önnur og mun gríðarlegur fjöldi aðflutts fólks verða atvinnulaus. Af þessu hafi hún miklar áhyggjur. „Við búum í hagkerfi sem er knúið áfram með því að leyfa eigendum fjármagnsins og atvinnutækjanna að fara sínu fram með stuðningi ríkissjóðs,“ segir hún og bætir því við að Íslendingar þurfi að viðurkenna að ýmislegt misjafnt hafi gerst í ferðamannabransanum, samanber nýlega skýrslu um aðstæður erlends vinnuafls í ferðaþjónustunni.

Nú hafi stjórnvöld og þeir sem hagnast hafa á vinnu þessa fólks tækifæri til að sýna að það sé mikils metið og „sannarlega ekki bara eitthvað einnota drasl sem hægt er að kasta í ruslið um leið og það hentar íslensku hagkerfi – heldur að það muni fá til baka það sem það á inni hjá ríkissjóði og þessu samfélagi í hækkun bóta, atvinnuskapandi verkefnum og í því að hér verði brugðist við þessu ástandi með uppbyggilegum og skynsömum hætti með þarfir vinnandi fólks í fyrirrúmi.“

Hún segir að ef vinnandi fólk á Íslandi nái að setja fram kröfur sínar með nægilega skýrum og einbeittum hætti í algjörri samstöðu þá hafi stjórnvöld ekki mikið um annað að ræða en að fallast á kröfurnar. Það sé lykilatriðið.

Verkalýðshreyfingin „hreyfiafl fyrir breytingar sem við þurfum að sjá“

Varðandi samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar þá segir Sólveig Anna að hún viti hundrað prósent hvert hlutverk Eflingar sé og hvert hlutverk hennar sjálfrar sé. „Ég veit það að við erum algjörlega sameinuð í því verkefni, það er að berjast fyrir réttindum verka- og láglaunafólks í þessu landi og láta aldrei deigan síga í þeirri baráttu. Sökum stærðar félagsins innan verkalýðshreyfingarinnar þá náttúrulega höfum við mjög mikið vægi.“

Verkalýðshreyfingin, og þá sérstaklega Alþýðusamband Íslands, var gagnrýnd töluvert eftir hrun fyrir að vinna of náið með stjórnvöldum og atvinnulífinu en mikil endurnýjun hefur átt sér stað innan hreyfingarinnar á undanförnum misserum. Aðspurð út í þessa endurnýjun segir Sólveig Anna að hún upplifi ekki meðvirkni hjá forseta ASÍ, Drífu Snædal, með stjórnvöldum. 

„Ég upplifi miklu frekar ríkulegan vilja til þess að hlusta á fólkið inn í hreyfingunni til þess að finna lausnir og miðla málum. En þó ekki einungis til að vera aðhald á aðgerðir stjórnvalda heldur einnig hreyfiafl fyrir breytingar sem við þurfum að sjá,“ segir hún. 

„Fuck you! Ég er meira virði“

Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin sé sterk um þessar mundir þá bendir Sólveig Anna á að þau glími við það risavaxna verkefni að hreyfingin sé að koma undan löngu tímabili þar sem herská stéttabarátta hafi ekki verið í boði. „Það eina sem í boði var fyrir hreyfinguna og fyrir fólk var að starfa eftir einhverjum markmiðum um stöðugleika og þjóðarsátt. Þá var bara búið að reikna fyrirfram út að skúringarkerlingin ætti bara alltaf að fá langminnst og að leikskólakerlingin ætti alltaf líka að fá minnst, alveg sama hvað. Og þá skipti engu máli hvort það var góðæri eða hvort það var kreppa; þessir útreikningar breyttust aldrei,“ bendir hún á. 

Nú sé stórt og mikið verkefni að komast aftur á þann stað að fólk segi bara: „Fuck you! Ég er meira virði og ekki vegna þess að ég sé búin að fara í gegnum eitthvað sjálfstyrkingarnámskeið heldur vegna þess að ég er meira virði sem vinnuafl í þessu kerfi og þess vegna ætla ég að fá meira.“ 

Augnablik sem þessi geta verið hættuleg – en einnig borið með sér von

Efnahagsþrengingarnar voru byrjaðar fyrir faraldurinn en dýpkuðu óvænt og með miklum látum fyrr á þessu ári í kjölfar sóttvarnaaðgerða hér og annars staðar í heiminum. „Allt í einu á sér stað þetta ótrúlega augnablik þegar hin kapítalíska maskína stöðvast – ekki vegna verkfalla vinnuaflsins eða neins slíks heldur vegna einskonar náttúruhamfara. Og af því að við búum í þessu stéttskipta arðránssamfélagi þá skýrast stéttalínurnar og stéttaskiptingin um leið. Afhjúpunin hefur þar af leiðandi verið mjög mikil, bæði á Íslandi og í öllum heiminum. 

Við höfum séð ákveðnar andstæður skerpast. Þá sjáum við annars vegar vinnuaflið algjörlega bjargarlaust, með ekkert á milli handanna, og svo hins vegar auðstéttina algjörlega örvæntingarfulla í því að reyna að finna einhverjar leiðir til að láta viðskiptin fara aftur af stað.“

Svona augnablik geta verið mjög hættuleg, að mati Sólveigar Önnu. „En þau geta líka borið með sér mikla von um breytingar, þannig að ég leyfi sjálfri mér þegar ég horfi yfir sviðið að vera líka bjartsýn.“ 

Auglýsing

Ótrúlegt að framganga SA orsaki ekki meira uppnám

Eitt stærsta áhyggjuefni hennar varðar Samtök atvinnulífsins (SA) og vegferð þeirra í aðkomu að kjarabaráttu á Íslandi. „Allt fólk sem er sæmilega viti borið með sæmilega fúnkerandi siðferðisáttavita hlýtur að vera í áfalli yfir hvernig Samtök atvinnulífsins vinna. Við erum með þennan risastóra aðila á vinnumarkaði sem fer fram með svo svívirðilegum hætti að mér finnst bara ótrúlegt að það orsaki ekki meira uppnám í samfélaginu.“

Hún segir að aðilar innan sambandsins brjóti markvisst lög sem gilda á Íslandi, en þar á hún meðal annars við vinnulöggjöfina frá árinu 1938 og „þetta gera þau vegna þess að þau segja að þessi löggjöf sé úrelt. Þetta er mjög áhugavert og til marks um mjög vanþroskaða lýðræðisumræðu að þetta skuli ekki vekja meiri athygli. Er það þá þannig núna að talsmaður atvinnurekenda, Halldór Benjamín, líti svo á að hann megi bókstaflega velja og hafna lögum sem hann lifir eftir? Þetta er ótrúlegur staður til að vera á,“ segir hún. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í júlí síðastliðnum að samtökin stæðu með Icelandair að ákvörðun um að slíta viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og leita annað en samtökin fóru með samningsrétt fyrir hönd Icelandair. Hann sagði að sú leið sem farin var væri lögleg en að ef Flugfreyjufélag Íslands sætti sig ekki við hana gæti það farið fyrir dómstóla með málið. „Við getum sagt að íslensk vinnulöggjöf er að mörgu leyti úr sér gengin og fyrir löngu kominn tími til að endurskoða hana, ekki bara að hluta eða í heild. Það getur verið að þessi deila komi til álita þar,“ sagði hann við RÚV í júlí. 

Hann sagði enn fremur í viðtali við Kjarnann í byrjun september að hann neitaði að horfa á vinnumarkaðinn sem stríðsvöll. Sólveig Anna hefur margt um Halldór Benjamín og Samtök atvinnulífsins að segja en hún bendir á að SA séu núna í höndunum á „mjög lítilli klíku Sjálfstæðisflokksins“ og sé þetta í raun samband ungra Sjálfstæðismanna fyrir einhverjum áratug síðan. „Og þetta er sama klíka og hefur hreiðrað um sig inn í Icelandair og tengslin þarna á milli eru náttúrulega með ólíkindum. Hugmyndafræðin sem þetta fólk lifir eftir er þessi grimmilega nýfrjálshyggja menntaskólaræðuklúbbsins. Það er ekki hugmyndafræði sem maður sér sem góða til þess að byggja samfélagslega nálgun á,“ áréttar hún. 

Tilbúin að skoða það að fara í allsherjar sniðgöngu á Samtökum atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins njóta þessarar stöðu sem þau hafa sem mikilvægur aðili á vinnumarkaði vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur ákveðið að viðurkenna að samtökin hafi lögmæti, að sögn Sólveigar Önnu. „Í löggjöfinni er aftur á móti talað mjög almennt. Þar er talað um samtök atvinnurekenda – með litlu s-i – en þar er ekki minnst á Samtök atvinnulífsins.“

Hún segir að framganga Samtaka atvinnulífsins í málefnum Icelandair sýni það með mjög skýrum hætti að þau líti svo á að íslensk lögsaga nái ekki yfir samtökin. „Og þau ráðleggja og standa með fyrirtæki sem ákveður að brjóta lög. Þau líta svo á að löggjöfin sé úrelt og þá ákveða strákarnir auðvitað að það megi breyta lögunum upp á sitt einsdæmi.“

Sólveig Anna segir að fyrst Samtök atvinnulífsins hagi sér með þessum hætti þá geti verkalýðshreyfingin gert slíkt hið sama. „Ef þetta á að vera svona þá getum við bara sagst ætla að semja við einstök fyrirtæki eða við einhver önnur samtök en Samtök atvinnulífsins. Við skulum líka átta okkur á því að það eru bara fáir atvinnurekendur innan Samtaka atvinnulífsins. Ég get líka sent frá mér – og stjórn Eflingar – einhliða yfirlýsingu um hverjir kauptaxtarnir eigi að vera fyrir aðgang að vinnuafli fólks.“

Hún telur að baráttuvilji íslensks verkafólks sé mikill á þessum tímum og að Efling, undir hennar forystu, sé tilbúin að skoða það að fara í allsherjar sniðgöngu á Samtökum atvinnulífsins. „Ef menn halda að þeir geti farið fram með þessum hætti og að því verði bara tekið þá er það ekki svo. Ég er mjög tilbúin að fara í þá vegferð að sýna þeim fram á það,“ segir hún. 

Ef þetta á að vera svona þá getum við bara sagst ætla að semja við einstök fyrirtæki eða við einhver önnur samtök en Samtök atvinnulífsins.
Sólveig Anna
Bára Huld Beck

Hefur engan tíma til að taka þátt í þessu leikriti

Þá bendir Sólveig Anna enn fremur á að á sama tíma og framkvæmdastjóri SA segir að vinnumarkaðurinn sé ekki vígvöllur þá standi hann fyrir þessum árásum á réttindi vinnandi fólks en hún telur að aðgerðir Icelandair séu skýrt brot á vinnulöggjöfinni. „Þessi maður dirfist að halda því fram að hann neiti að sjá atvinnumarkaðinn og kjarasamningsviðræður sem vígvöll. Hann er í algjöru stéttastríði. Hann er tilbúinn til þess að brjóta lög og koma í veg fyrir að stjórnvöld geti uppfyllt sín loforð og hann er tilbúinn til þess að stíga inn í kjaradeilu sem hann á ekkert með að stíga inn í eins og í kjaradeilunni okkar við borgina.“

Hún segist ekki hafa neinn tíma til þess að taka þátt í þessu leikriti, þar sem fólk segir eitthvað og gerir síðan eitthvað allt annað. „Ég nenni því ekki og hef ekki tíma fyrir þetta. Og ég fullyrði að verka- og láglaunafólk hefur enga þolinmæði fyrir þessu og hefur engan tíma fyrir þetta heldur. Ég veit satt að segja ekki hvað ég get sagt meira um þessi orð, þetta er gjörsamlega fráleitt.“

Í stéttastríði gengur á ýmsu og segir Sólveig Anna að þau sem standa í baráttunni séu búin að vera í stanslausri vinnu síðustu tvö ár, þar sem þau hafi staðið í hverjum slagnum á fætur öðrum – og almennt hafi þeim gengið ansi vel. „Ég og varaformaður og stjórn Eflingar stöndum mjög þétt saman. Ég verð formaður þessa félags næstu tvö árin og ég tel mig hafa félagsmenn okkar með mér. Við munum fara út í þetta stríð með okkar einbeitta baráttuvilja og okkar einbeittu trú á það að ekki aðeins eigi verka- og láglaunafólk á Íslandi rétt á stærri sneið af kökunni heldur eigi verka- og láglaunafólk algjöran rétt á því að engar ákvarðanir séu teknar hér á landi án aðkomu þess – og án þess að þeirra hagsmunir séu hafðir í fyrirrúmi. Við munum ekki gefast upp.“

Auglýsing

Stríðið hófst í árdaga hins kapítalíska kerfis

Þessi vegferð verka- og láglaunafólks er hafin á Íslandi og það er enginn endapunktur í sjónmáli – þau munu halda áfram, að hennar sögn. „Við erum í hatrömmum stéttaátökum og það erum ekki við sem hófum þetta stríð. Það hófst í árdaga hins kapítalíska kerfis. Vinnuaflið hefur alltaf þurft að berjast fyrir öllu og það er bara staðan. Við búum í samfélagi sem vissulega nýtur góðs af baráttu þeirra sem á undan okkur komu en við búum líka í samfélagi þar sem Samtök atvinnulífsins, fulltrúar auðstéttarinnar, telja að það eigi að taka burt frá okkur ákveðin réttindi – á sama tíma og við erum að takast á við atvinnuleysi, samræmda láglaunastefnu, líkamleg og andleg veikindi kvenna sem hafa þrælað sér út á þessum vinnumarkaði, fátækt hjá börnum og umönnunarkerfi sem er vanfjármagnað. 

Þetta er ástandið sem við erum að takast á við, þetta er sá veruleiki sem við höfum lifað og starfað inn í. Þetta er okkar heimur og við vitum að við höfum verið beitt misrétti, við vitum að virði okkar í þessu samfélagi er óendanlegt og við vitum að við höfum ekki einu sinni fengið brotabrot af því sem við réttilega eigum heimtingu á. Við vitum að vinna okkar hefur knúið áfram þessa gróðamaskínu sem þessi ferðabransi hefur verið og aftur: Við höfum ekki séð nema smotterí af þessu – og við höfum þurft að vinna okkur til húðar í algjörlega óboðlegum aðstæðum. Við höfum þurft að þola launaþjófnað, misbeitingu og svo framvegis, og ef einhver heldur að við séum tilbúin að slá af kröfum okkar til að sætta okkur við það að brauðmylsnan sem er látin falla til okkar sé mygluð og vond þá þarf fólk aðeins að athuga hvort jarðtengingin sé ekki orðin full léleg.“

„Líf einnar manneskju er meira virði en allur auður hins auðugasta samanlagður“

Eftir hrunið 2008 hafði fólk ákveðnar væntingar um breytt gildismat og hefur sama orðræða látið á sér kræla í COVID-19 faraldrinum. Er Sólveig Anna bjartsýn að hægt sé að breyta ákveðnum hugsanagangi í og eftir svona ástand?

„Grunnurinn í allri minni hugmyndafræði er trúin á réttlætiskennd hverrar manneskju og mannhelgi,“ svarar hún og vitnar í Che Guevara, frægan byltingarsinna sem barðist fyrir réttindum fólks í Suður-Ameríku um miðja 20. öldina, en hann sagði að líf einnar manneskju væri meira virði en allur auður hins auðugasta samanlagður. Hún segist trúa þessum orðum á hverjum einasta degi. 

„Þetta hvetur mig ávallt áfram en auðvitað er ég orðin lífsreynd kona. Ég er 45 ára gömul og tók þátt í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu – og í miklum aktívisma í kjölfar hennar. Ég var ein af þeim sem trúði því að eitthvað raunverulega myndi breytast. Eða réttara sagt að við gætum raunverulega breytt einhverju því ég veit að ekkert breytist nema það séu nógu margir sem séu sameinaðir í að láta það gerast. Ég trúi ekki á sigur viljans, ég trúi á sigur samstöðunnar. En það fór eins og það fór,“ segir hún.

Erum öll fangar í þessu kerfi

Sólveig Anna segist vona að alþýða veraldar muni ekki taka því þegjandi og hljóðalaust ef allar hörmungarnar verði aftur settar á axlir hennar. 

„Ég bind miklar og raunverulegar vonir við það að réttlætiskennd fólks og vitneskja hverrar manneskju um eigið mikilvægi geti haft mjög mikið að segja. En ég veit líka að ef kapítalistarnir halda áfram á sinni forhertu og harðsvíruðu leið og ef frjálslynt lýðræði áttar sig ekki á því að það hefur algjörlega brugðist vinnandi fólki, flóttafólki og jaðarsettu fólki og öllu fólki sem á ekki pening og völd þá endum við aftur á þeim stað sem byggður er í þessu kerfi. Þá sitjum við áfram uppi með einhvers konar fasisma, þessa járngjörð utan um grotnandi tunnu kapítalismans – og það er bara mjög raunverulegt að slíkt geti gerst.“

Hún segir að við munum aldrei losna við stéttaátök í þessu kerfi. „Við erum öll fangar í þessu kerfi og manneskjan sem ætlar að reyna að hrista sig lausa náttúrulega fattar að hlekkirnir sem binda hana niðri eru ekki bara persónulegir hlekkir sem hægt er að losa með því að verða svakalega „woke“. Hún áttar sig fljótt á því að ekki sé hægt að brjóta hina efnislegu hlekki með framtaki einstaklingsins. Þú nærð aldrei að brjóta þá nema í fjöldasamstöðu með öðru fólki.“

Ekki flókið að leysa þessi verkefni

Varðandi framtíðarsýn Sólveigar Önnu þá segir hún að vilji sjá samfélag þar sem samskipti á milli fólks byggi raunverulega á sanngirni og réttlæti þar sem hver manneskja vaknar inn í daginn vitandi það að hún fari út í samfélagið til þess að starfa hlið við hlið með félögum sínum á sínum vinnustað og sínu umhverfi til þess að ná fram einhverju sameiginlegu markmiði – og þar sem hver manneskja getur lagst til svefns á kvöldin vitandi það að hún hafi ekki arðrænt eða kúgað. Hún viti að hún býr í samfélagið þar sem vinnandi fólk vill standa saman. 

„Það er vissulega langur vegur að þessu markmiði. En ég vil og trúi því samt að manneskjan sem vinnur til dæmis í umönnunarstörfum verði loksins metin að verðleikum. Að starfsfólkið á hjúkrunarheimilunum og leikskólunum fái loksins þá umbun frá samfélaginu sem það á skilið. Ég vil samfélag þar sem við raunverulega getum stytt vinnuvikuna og þar sem ungt fjölskyldufólk getur notið samvista hvert við annað og afkvæmi sín. Þar sem manneskja sem hefur unnið erfiðisvinnu sé ekki búin á því þegar hún kemur heim eftir vinnudaginn og er ekki byrjuð að missa heilsuna um fimmtugt eins og staðreyndin er núna.“

Hún segir að þetta séu ekki flókin verkefni að leysa. „Svo þegar fólk stillir því þannig upp – þessi eitraða nýfrjálshyggjuhugsun um endalok sögunnar, að við séum bara bundin inn í þetta kerfi – þá bendi ég fólki á að horfa stutt til baka. Við þurfum ekki að horfa mörg hundruð ár aftur í tímann, við skulum bara horfa aftur á síðustu öld þar sem fólk sem átti ekkert, bókstaflega átti ekki neitt, náði með baráttuvilja sínum og samstöðu að fá verkamannabústaði og að fá menntakerfi þar sem öll börn áttu rétt á því að komast í skóla og læra að lesa og reikna. Þar sem fólk átti rétt á læknisþjónustu og þar sem vinnuvikan fór úr því að vera bara hvað sem vinnuveitandanum datt til hugar hverju sinni í það að vera lögbundin – þar sem búið var að viðurkenna að það mætti ekki nota mannslíkamann eins og einhverja vél þangað til hann brotnar. Þar sem barnaþrældómur, sem tíðkaðist, var upprættur.“

Við erum öll fangar í þessu kerfi og manneskjan sem ætlar að reyna að hrista sig lausa náttúrulega fattar að hlekkirnir sem binda hana niðri eru ekki bara persónulegir hlekkir sem hægt er að losa með því að verða svakalega „woke“.
Sólveig Anna á samstöðufundi með hótelstarfsmönnum árið 2019.
Bára Huld Beck

Búin að sætta okkur við brenglaða sýn á samfélagið

Þessum stóru breytingum náði verkafólk fram á tiltölulega skömmum tíma. „Við erum með drauma sem eru eingöngu útópískir vegna þess að við erum komin á svo klikkaðan stað. Við erum búin að sætta okkur við svo ótrúlega brenglaða sýn. En þessir draumar eru bara alls ekki útópískir. Hvernig getur það verið útópískt að sjá fyrir sér samfélag þar sem allt fólk er metið að verðleikum? Þar sem fólk uppsker það sem það þarf og leggur til eftir getu?“ spyr Sólveig Anna. 

Hún segir að fólk á Íslandi hafi nú tækifæri til að sýna hvers það er megnugt. „Þetta samfélag er vellauðugt með innviði sem þrátt fyrir árásir nýfrjálshyggjunnar eru þó sterkir miðað við annars staðar í veröldinni. Við skulum ekki gera sjálfum okkur það og þeim sem á eftir okkur koma að þetta tímabil verði skammarblettur í íslenskri sögu. Að horft verði til baka og hægt verði að sjá að fólk hafi verið yfirgefið þegar það þurfti mest á stuðningi að halda. Gerum það ekki.

Ef Ísland – þetta auðuga samfélag – getur ekki leyst þessi vandamál eða sameinast um að hafna þessum ómannúðlegu leikreglum um arðrán kerfisins, hver getur það þá?“ spyr hún jafnframt.

Konur hafa þurft að þola ógeðslegt orðbragð

Sólveig Anna bendir að endingu á að ýmsir hópar í samfélaginu hafi þurft að „þola mesta skítinn“ undanfarin ár. Þetta eigi við um til dæmis ljósmæður, hjúkrunarkonur, flugfreyjur og félagsmenn Eflingar – og þá sérstaklega stóru kvennastéttirnar. „Þessir hópar, þrátt fyrir að vera ólíkir, eru með konur í forsvari fyrir sig í baráttunni og hafa þær þurft að þola ógeðslegt orðbragð og hegðun af hálfu karla. Á sama tíma hefur þessi frjálslyndi femínismi sem hér hefur verið stundaður ekki getað eða viljað taka þátt í þessari baráttu. Hann er algjörlega á hliðarlínunni þarna.“ 

Henni finnst mikilvægt að velta þessum þáttum fyrir sér og þeim tvískinnungi sem birtist í meginstraums femínismanum. Hún segir að sleggjan sé tekin upp um leið og vinnandi konur láta í sér heyra og byrjað að berja. Þær séu kallaðar geðveikar og klikkaðar en þær séu einungis að berjast fyrir því að fá menntun sína metna að verðleikum, að taka ekki á sig launaskerðingu eða að krefjast þess að fá sérstaka kjaraleiðréttingu vegna þess að þær hafa þurft að þjást sem lægst launaða fólkið á vinnumarkaðinum. „Svo eru þær kallaðar óvinir Íslands og þær hæddar og smánaðar í leiðurum stóru blaðanna – í leiðurum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins og í nafnlausum óhróðri Viðskiptablaðsins.“

Sólveig Anna bendir á að verka- og láglaunafólk hafi þurft að ganga í gegnum mjög margt á síðustu árum og að það hafi reynt mikið á. „Margir færðu persónulegar fórnir, bæði forystan og fólkið sem var í verkföllunum. Það er ekki auðvelt að vera í 6 vikna verkfalli eins og við gerðum hjá borginni, og lesa um það í blöðunum að þú sért fífl og hálfviti – og geðbiluð tussa. En fólkið gefst ekki upp, það heldur áfram. Það nær ákveðnum áfangasigrum og það er ekkert betra en að hafa farið í gegnum stóran slag, þar sem mikið var lagt undir, og að geta gengið frá samningaborðinu í góðri og mikilli samstöðu með félögunum. Þetta er allt eitthvað sem við búum að. Við hljótum að horfa á baráttuna okkar síðasta vetur og sjá að þetta gátum við með einbeittri samstöðu.

Þannig að Halldór Benjamín getur haldið áfram að mæta og skipa fyrir en það eru bara allir hættir að hlusta,“ segir hún að lokum. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal