Mynd: SI Sigurður Hannesson
Mynd: SI

Stjórnvöld verða að hætta að velja sigurvegara

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að hundruð milljarða tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Sá fimmti sem rætt er við er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Það voru óveð­urs­ský yfir Íslandi áður en kór­ónu­veiran breiddi úr sér yfir alla heims­byggð­ina. Það voru blikur á lofti, hag­kerfið hafði kólnað og grund­vall­ar­spurn­ingu var ósvarað um hvað yrði drif­kraftur vaxtar á næstu árum og ára­tug­um,“ segir Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðn­að­ar­ins í sam­tali við Kjarn­ann. Grund­vall­ar­spurn­ing­unni segir hann að stjórn­völd eigi ennþá eftir að svara. 

„Það eru mjög stórar ákvarð­anir og stra­tegískar sem bíða þess að vera tekn­ar, um það á hverju við ætlum að byggja verð­mæta­sköp­un­ina,“ segir Sig­urð­ur, en í sam­tali við blaða­mann Kjarn­ans á dög­unum lýsti hann þeirri skoðun sinni að ferða­þjón­usta hafi á árunum eftir hrun fengið of mikla athygli stjórn­valda á sama tíma og önnur vaxt­ar­tæki­færi hafi farið for­görð­um. Það sama megi ekki ger­ast nú – stjórn­völd þurfi að hætta að velja sig­ur­veg­ara.

Sig­urður segir að það sé alveg ljóst að þrjár meg­in­stoð­irnar í hag­kerf­inu; sjáv­ar­út­veg­ur, orku­sæk­inn iðn­aður og ferða­þjón­usta, hafi verið komnar að þol­mörkum áður en COVID-kreppan kom upp og þar sé ekki svig­rúm til mik­ils vaxt­ar. Við veiðum ekki meiri fisk en sér­fræð­ingar Hafró segi að sjálf­bært sé hverju sinni og sam­keppn­is­hæfni orku­freks iðn­aðar hér­lendis eigi undir högg að sækja af ýmsum ástæð­um, svo ólík­legt sé að þar verði mik­ill vöxtur á næst­unni.

Auglýsing

Ferða­þjón­ust­an, segir Sig­urð­ur, mun taka við sér, hvort sem það taki mán­uði eða ár. Hann telur þó ólík­legt sé að hún muni vaxa mikið umfram það sem hún var orðin áður en veiran og við­brögðin við henni settu allt á annan end­ann.

„Vöxt­ur­inn verður að koma ann­ars­staðar frá. Þess vegna þarf að leggja grunn­inn og taka stórar ákvarð­anir og ég held því fram, og við hjá Sam­tökum iðn­að­ar­ins, að á næstu einum til tveimur árum verði teknar ákvarð­anir sem muni ráða því hvernig fram­tíðin til næstu tíu, tutt­ugu og jafn­vel þrjá­tíu ára verði í þessu sam­heng­i,“ segir Sig­urður og bætir við að Sam­tök iðn­að­ar­ins hafi árum saman kallað eftir því að stjórn­völd móti hér atvinnu­stefnu.

„Það hrökkva ýmsir í kút þegar þetta orð er nefnt, því það er ekki vel skil­greint hug­tak og hefur breyst í tím­ans rás. Ef við förum langt aftur í tím­ann, segjum 100 ár, þá byggði atvinnu­stefna – ekki bara hér á landi heldur víðar – á miklum rík­is­af­skiptum og eign­ar­haldi rík­is­ins á atvinnu­rekstri. Síðan kom tíma­bil þar sem stjórn­völd völdu sig­ur­veg­ara og þar á eftir kom tíma­bil einka­væð­ingar og kannski afskipta­leys­is,“ segir Sig­urð­ur. Atvinnu­stefna stjórn­valda í dag ætti hins vegar að snú­ast um að auka sam­keppn­is­hæfni með umbót­um.

Sig­urður segir þar horft til fjög­urra meg­in­stoða sam­keppn­is­hæfni; mennt­un­ar, inn­viða, nýsköp­unar og starfs­um­hverf­is. Stjórn­völd þurfi að tryggja að fyr­ir­tæki hafi aðgang að fólki með rétta menntun og færni, að inn­viðir hvers­konar séu traustir og áreið­an­legir og byggi undir verð­mæta­sköp­un, að umgjörð nýsköp­unar sé með því besta sem þekk­ist og réttir hvatar séu þar inn­byggðir og að starfs­um­hverfi fyr­ir­tækja þurfi að vera aðlað­andi, hvað varðar reglu­verk, skatta, hag­stjórn og fleira í þeim dúr. 

„Með umbótum á þessum sviðum batnar sam­keppn­is­hæfni svo verð­mæta­sköp­unin eykst sem styður við meiri lífs­gæði. Það er auð­vitað það sem við sækj­umst eftir sem sam­fé­lag, að auka við þau tak­mörk­uðu gæði sem við höf­um, að það verði meiri gæði til skipt­anna,“ segir Sig­urður og bætir við að heil­miklar umbætur hafi orðið á und­an­förnum árum, en tæki­færi hafi þó farið for­görð­um. Stjórn­völd séu ekki að grípa þau.

„Núna þegar rykið er að setjast held ég að það þurfi að hugsa þetta allt á svolítið nýjan hátt. Það þarf að fjárfesta með markvissari hætti í tækifærum framtíðar og sækja þau.“

Raunar segir Sig­urður að aðgerðir stjórn­valda í efna­hags­málum vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins sýni „svart á hvítu“ að stjórn­völd séu með atvinnu­stefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æski­lega.

„Sú atvinnu­stefna gengur út á það að velja sig­ur­veg­ara og þar er raunar einn sig­ur­veg­ari sem er á blaði og það er ferða­þjón­ust­an. Aðgerðir stjórn­valda miða fyrst og fremst við að bjarga ferða­þjón­ust­unni. Það er skilj­an­legt, með hlið­sjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjöl­mörg störf undir og greinin mun sann­ar­lega ná fyrri styrk, það er bara spurn­ing um tíma, en á sama tíma eru tæki­færi sem fara for­görðum vegna þess að athygli stjórn­valda bein­ist ekki að þeim,“ segir Sig­urð­ur. 

Þarf að horfa í auknum mæli til fram­tíðar

Hann telur við­brögð stjórn­valda um margt skyn­sam­leg, en ekki að öllu leyti, og segir Sam­tök iðn­að­ar­ins velta fyrir sér for­gangröð­un­inni sem birt­ist í því að greiða laun starfs­manna á upp­sagn­ar­fresti, sem hingað til hefur kostað rík­is­sjóð rúma 8 millj­arða króna. „Þar er horft til for­tíð­ar. Á sama tíma er fjár­fest­ing í nýsköpun aukin um tæpa 5 millj­arða, eða lægri tölu, þar er verið að tala um fjár­fest­ingu til fram­tíð­ar,“ segir Sig­urð­ur. 

Hann segir að staldra megi við eitt og annað í aðgerðum stjórn­valda, en líta verði til þess „að þarna var brugð­ist mjög hratt við, það gafst mjög lít­ill tími til að hugsa þessar aðgerð­ir, ráð­ast í þær og koma þeim í fram­kvæmd, þannig að heilt yfir held ég að það megi alveg hrósa stjórn­völdum fyrir þessar aðgerð­ir. En núna þegar rykið er að setj­ast held ég að það þurfi að hugsa þetta allt á svo­lítið nýjan hátt. Það þarf að fjár­festa með mark­viss­ari hætti í tæki­færum fram­tíðar og sækja þau.“

Sig­urður telur að tæki­færi hafi farið for­görðum á fyrri árum, þegar ferða­þjón­ustan var í gríð­ar­lega örum vexti. Dæmi um það varði gagna­vers­iðn­að, þar sem Ísland hafi fyrir um það bil fimm árum síðan haft nátt­úru­legt for­skot á önnur ríki, en svo misst af lest­inni.

„Raforkan [í gagna­verum] er að miklu leyti notuð til kæl­ing­ar, en hér er mjög hag­stætt veð­ur­far í því sam­hengi, sem skap­aði þetta nátt­úru­lega sam­keppn­is­for­skot. Þetta for­skot höfðum við sér í lagi gagn­vart okkar nágranna­löndum Norð­ur­lönd­un­um, en staðan núna fimm árum síðar er sú að Norð­ur­löndin hafa tekið algjöra for­ystu á þessum sviðum með skýrri stefnu­mörkun stjórn­valda sem hefur skilað sér í því að stór alþjóð­leg fyr­ir­tæki hafa sett upp starf­semi í þeim lönd­um, til dæmis í Nor­egi, í Sví­þjóð og í Dan­mörku,“ segir Sig­urð­ur.

Það sem vant­aði upp á hjá íslenskum stjórn­völdum í þessu dæmi var að hlúa að tryggum gagna­teng­ing­um. „Stór alþjóð­leg fyr­ir­tæki setja ekki upp starf­semi hér á landi, til dæmis vegna þess að gagna­teng­ingar eru ekki nægi­lega örugg­ar. Ef það væri þriðji stóri gagna­streng­ur­inn til Íslands, þá myndi það opna margar dyr,“ segir Sig­urð­ur, en rík­is­stjórnin sam­þykkti einmitt á fundi sínum síð­asta föstu­dag að tryggja fjár­mögnun á þriðja fjar­skipta­strengn­um, IRIS, sem á að liggja til Írlands og verða kom­inn í notkun árið 2022 eða 2023.

Sig­urður bendir á að tækni­fyr­ir­tækið Google hafi nýlega stað­fest að fyr­ir­tækið ætl­aði sér að ráð­ast í starf­semi í Dan­mörku sem myndi skila um 740 millj­ónum evra inn í danskt hag­kerfi á upp­bygg­ing­ar­tím­anum og 80 millj­ónum evra á ári eftir það. Ísland gæti að hans mati verið að sækja svona tæki­færi, ef inn­við­irnir væru sterk­ari.

„Það er fylli­lega raun­hæft ef vilji er fyrir hendi, en það krefst auð­vitað ákveð­inna umbóta, eins og ég nefndi með gagna­teng­ing­arn­ar, umgjörð raf­oku­mark­að­ar­ins og fleira. En, ég held að það sé fylli­lega raun­hæft. Þarna sjáum við skýra stefnu stjórn­valda og hvernig hún leiðir til verð­mæta­sköp­un­ar. Þetta er dæmi, en við vorum í þess­ari stöðu fyrir fimm árum, það var hik á stjórn­völdum og fyrir vikið misstum við af lest­inni. Á sama tíma er nægur tími til að velta fyrir sér og greina hvort ástæða sé til að breyta klukk­unni eða ekki. Það er nægur tími í það en ekki nægur tími til að ná í þessi stóru tæki­færi. Þetta er dæmi um for­gangs­röð­un­ina hjá stjórn­völd­um,“ ­segir Sig­urður og bætir við til þess að ná árangri í þessum efnum þurfi stjórn­völd að setja málin á dag­skrá, sýna skýran vilja og ráð­ast í umbæt­urn­ar.

„Að þessu sögðu vil ég hrósa stjórn­völdum fyrir umbætur til dæmis í mennta­mál­u­m,“ segir Sig­urður og nefnir að skýr áhersla hafi verið á tvo helstu veik­leik­ana í mennta­kerf­inu og snúa að iðn­aði og atvinnu­líf­inu, ann­ars vegar iðn­menntun og tækni­greinum á háskóla­stigi, en of fáir útskrif­ast úr slíkum greinum til þess að mæta þörfum atvinnu­lífs­ins.

Hlut­falls­lega færri útskrif­ast út tækni­greinum á háskóla­stigi hér á landi en víða erlend­is, segir Sig­urð­ur. „Á sama tíma stöndum við okkur mjög vel þegar kemur að fjölda rit­rýndra fræði­greina í sömu fög­um, sem segir okkur að við erum með sterkan grunn en að það séu bara of fá sem sækja nám í þessum grein­um. Þetta hefur verið áherslu­efni í mennta­málum og það er vel,“ segir hann.

Ára­tugur nýsköp­unar gæti verið framundan

Hann hrósar stjórn­völdum líka fyrir aðgerðir sínar í nýsköp­un­ar­mál­um, en segir að nú þurfi að stíga enn frekar á bens­ín­gjöf­ina. „Það er fullt til­efni til að ætla að þriðji ára­tugur þess­arar aldar geti verið ára­tugur nýsköp­un­ar,“ seg­ir  Sig­urður og nefnir að umbætur á borð við end­ur­greiðslu rann­sókn­ar- og þró­un­ar­kostn­að­ar, hvatar til að laða erlenda sér­fræð­inga til lands­ins, hvatar til fjár­fest­ingar í sprotum og efl­ing Tækni­þró­un­ar­sjóðs og fleiri sjóða séu af hinu góða.

„Það hefur verið ráð­ist í þetta og fjár­fest í þessu, fræjum hefur verið sáð og það er full ástæða til að ætla að við getum upp­skorið núna á þriðja ára­tugn­um, en þá þarf líka að halda áfram á sömu braut, sækja tæki­færin með mark­vissum hætti og ekki láta þetta ein­hvern­veg­inn sitja á hak­an­um, sem hefur svo­lítið verið raun­in. Það var svipuð umræða fyrir rúmum ára­tug síð­an, síð­ast þegar við lentum í áfalli, að reyna að byggja upp á nýjum grunni, við munum eftir McK­insey-­skýrsl­unni og umfjöllun um alþjóða­geirann, en það hefur ekki gengið eft­ir, eða gengið mjög hægt,“ segir Sig­urður og bætir við að þar hafi ævin­týra­legur upp­gangur í ferða­þjón­ustu spilað stórt hlut­verk.



„Það kom eitt­hvað annað sem fékk alla athygl­ina og að ein­hverju leyti bara gleymdum við okk­ur. Tæki­færin eru sann­ar­lega til stað­ar, en það er undir okkur komið að sjá til þess að við getum upp­skorið og að tíu árum liðnum getum við litið til baka, séð stór fyr­ir­tæki sem hafa orðið til með verð­mætum störfum sem skila verð­mætum inn í þjóð­ar­bú­ið. Þetta er allt saman hægt og það þarf vilja, sem ég tel sann­ar­lega til stað­ar, en það þarf eft­ir­fylgni, það þarf að setja þetta á dag­skrá og það þarf mark­vissa stefnu til þess að láta þetta verða að veru­leika,“ segir Sig­urð­ur.

Stjórn­völd verði að fram­lengja Allir vinna

Varð­andi COVID-að­gerðir stjórn­valda segir Sig­urður að honum langi að nefna átakið Allir vinna, sem hafi verið ein­stak­lega vel heppn­að, sem gengur út á það að end­ur­greiðsla virð­is­auka­skatts af vinnu iðn­að­ar­manna var hækkuð tíma­bundið upp í 100 pró­sent.

„Það dregur úr svartri atvinnu­starf­semi sem er mjög jákvætt og skapar hvata til umsvifa. Þetta hefur sann­ar­lega skilað góðum árangri, við finnum það á sam­tölum við okkar félags­menn að það er mjög mikið að gera – það er mjög mikið að gera til ára­móta, þegar úrræðið fellur úr gild­i,“ segir Sig­urður og segir þess vegna blasa við að það verði að fram­lengja úrræðið „að minnsta kosti út næsta ár ef vel á að ver­a.“ 

Hann seg­ist þó hafa skiln­ing á því að stjórn­völd hafi ákveðið að hafa úrræðið svona tíma­bundið til að byrja með, til að skapa rétta hvata til að ráð­ast í fram­kvæmd­ir.

Bára Huld Beck

„Þetta hefur gert það að verkum að störf eru var­in, það verða til störf sem ella hefðu ekki orðið til og það verða til umsvif líka hjá versl­un­inni. Það hefur verið mikið að gera í bygg­inga­vöru­versl­unum svo dæmi sé tek­ið. Það fer af stað ákveðin keðju­verk­un, sem er akkúrat það sem við þurfum á að halda við þessar aðstæð­ur­,“ ­segir Sig­urð­ur, sem segir líka gott að verk­efnið var látið ná til sveit­ar­fé­laga sem sjá nú hag sinn í að ráð­ast í stórar og smáar fram­kvæmd­ir.

„Það góða er að þetta eru verk­efni af öllum toga, lítil og stór og úti um allt land, þetta skapar mögu­leika fyrir mjög breiðan hóp til atvinn­u,“ segir Sig­urð­ur.

Stöðnun mögu­leg í upp­bygg­ingu íbúða

Spurður um það hvernig staðan sé í bygg­ing­ar­iðn­aði um þessar mundir segir Sig­urður að hún lit­ist af óviss­unni sem er í hag­kerf­inu, sem þýði almennt að fyr­ir­tæki haldi að sér hönd­um. „Þess vegna er svo mik­il­vægt að hið opin­bera stígi fram með mark­vissum hætti og auki fjár­fest­ingu. Það er jákvætt,“ segir Sig­urð­ur, en bætir við að það sé að verða ákveðin til­færsla á mark­aðnum yfir í vega­gerð og opin­berar bygg­ingar frá íbúða­mark­aðn­um.

Nýbygg­ing­arnar á Kirkju­sandi blöstu við út um glugg­ann á Húsi atvinnu­lífs­ins þar sem Kjarn­inn hitti á Sig­urð. „Við erum þá ekki að fara að fá mörg svona verk­efni á teikni­borðið á næst­unn­i?“ spyr blaða­mað­ur.



Bára Huld Beck

„Nei, nei. Þó við sjáum mikið af krönum víða, þá eru það að langstærstu leyti verk­efni sem fóru af stað fyrir löngu síð­an,“ segir Sig­urður og bendir síðan á að sam­dráttur í fjölda íbúða á fyrstu bygg­ing­ar­stigum hafi raunar verið haf­inn þegar kór­ónu­veiran barst til lands­ins.

„Sam­tök iðn­að­ar­ins eru með starfs­mann, Frið­rik Ólafs­son, sem keyrir um bæinn og telur íbúðir í bygg­ingu tvisvar á ári. Hann er að telja núna svo við fáum tölur í lok þessa mán­aðar um umsvif­in. En við sáum í síð­ustu taln­ingu, í lok febr­úar [...] þá var mjög mik­ill sam­dráttur í fjölda íbúða í bygg­ingu upp að fok­heldu, fjöldi íbúða á fyrstu bygg­ing­ar­stigum hafði lækkað um rúm­lega 40 pró­sent á 12 mán­uð­um. Það segir okkur að það voru miklu, miklu færri verk­efni sem fóru af stað á því tíma­bili heldur en áður og ég á von á því að sú þróun hafi haldið áfram núna síðan í febr­ú­ar. Óvissan nátt­úr­lega spilar þar inn í að miklu leyti. Þetta gæti verið mikið áhyggju­efni eftir 2-5 ár. Núna eru margar íbúðir í bygg­ingu og að koma inn á mark­að­inn um þessar mundir og á næsta ári, en það er hætt við því að það verði lítið fram­boð af nýjum íbúðum 2022 til 2025,“ segir Sig­urð­ur.

Þannig að við gætum verið að horfa fram á svip­aða stöðu á íbúð­ar­mark­aðnum og á árunum eftir hrun? 

„Ef ekk­ert verður að gert, þá ótt­umst við að það verði raun­in. Það er mjög alvar­legt fyrir sam­fé­lagið í heild sinni, því það þýðir hækkun fast­eigna­verðs, leigu­verðs og fleira og á síð­ustu árum höfum við séð hvernig sú staða meðal ann­ars leiddi til ólgu á vinnu­mark­aði. Því að þó að laun hafi hækkað mikið í samn­ing­unum 2015-16 og krón­unum í vesk­inu fjölg­aði þá fóru þær sömu krónur í hækkun á leigu­verði og meira til,“ segir Sig­urð­ur, en hann hefur trú á því að nýlega sam­þykkt frum­varp um hlut­deild­ar­lán gæti verkað á móti þessum áhrif­um, þar sem slík lán eigi að hafa jákvæð áhrif á fram­boðs­hlið­ina og mynda hvata til upp­bygg­ing­ar.

Auglýsing

„Á sama tíma og þetta er stuðn­ingur við fólk til að kom­ast inn á fast­eigna­mark­að­inn þá leiðir þetta til fram­boðs á nýju hús­næði, íbúðum sem voru ekki á mark­aði fyr­ir. Það er jákvætt og þetta er fyrsta úrræðið sem ég man eftir sem leiðir til auk­ins fram­boðs á íbúð­ar­hús­næði og þar af leið­andi hefur þetta kannski ekki þau áhrif á verð sem margir vilja vera að láta,“ segir Sig­urð­ur, en bætir við að stjórn­völd þurfi einnig að ráð­ast í umbætur á skipu­lags­ferl­inu í kringum bygg­ingu íbúð­ar­hús­næðis til þess að ein­falda það og draga úr kostn­aði.

„Það er sama eft­ir­lit í bygg­ing­ar­ferl­inu á mann­virki hvort sem um er að ræða flókna bygg­ingu eins og hátækni­sjúkra­hús eða Hörpu ann­ars vegar og ein­býl­is­hús hins veg­ar, sem eru í eðli sínu mjög ólík. Önnur ríki hafa skilið þarna á milli og hug­myndin er að gera það sama hérna,“ segir Sig­urður og segir þingið verða að ein­beita sér að því að hrinda þessum nauð­syn­legu umbótum í fram­kvæmd.



Sig­urður segir að iðn­að­ur­inn í land­inu hafi lagt mjög mikið til end­ur­reisn­ar­innar eftir hrun og geti gert það aftur núna, þegar við kröfsum okkur út úr kór­ónu­veiru­krepp­unn­i. 



„Eitt af hverjum fjórum nýjum störfum varð til í iðn­aði, sem eru fjöl­mörg störf, á árunum 2011 til 2019 og þriðj­ungur vaxtar varð í iðn­aði, sem er umfram hlut­fall iðn­aðar í lands­fram­leiðsl­unni. Iðn­að­ur­inn lagði meira til end­ur­reisn­ar­innar heldur en stærð hans gaf til kynna. Þetta getur gerst með mun kröft­ugri hætti núna ef rétt er á spil­unum hald­ið,“ segir Sig­urð­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal