Bára Huld Beck

Tekur minna en mánuð að hefja flugrekstur PLAY

Forstjóri og eigandi PLAY segja að þeir séu ekki að stefna á heimsyfirráð en búast við því að félagið nái stærri markaðshlutdeild en WOW air náði á fyrstu árum sinnar starfsemi. Í ríkisábyrgð á þrautavaraláni til Icelandair Group felist hins vegar að PLAY verði refsað fyrir að hafa betur í samkeppni. Þeir telja „mjög eðlilegt“ að tvö flugfélög starfi á Íslandi.

Við erum til­búin til þess að koma inn á mark­að­inn og gerum það þegar annað hvort þörf er á eða mark­að­ur­inn byrjar að koma til bak­a,“ segir Arnar Már Magn­ús­son for­stjóri PLAY, nýs lággjalda­flug­fé­lags sem beðið hefur verið eftir í tæpt ár. 

Í við­tali við Kjarn­ann ræddu Arnar og Skúli Skúla­son eig­andi félags­ins um stöðu þess núna, fram­tíð­ar­horfur og þann rík­is­stuðn­ing sem Icelandair hefur fengið á und­an­förnum mán­uð­u­m.  

„Eina vit­ið“ að draga sig til hlés

Í nóv­em­ber á síð­asta ári var PLAY kynnt til sög­unnar á blaða­manna­fundi. Félagið var með stór­huga áform, en það stefndi að því að hefja miða­sölu nokkrum vikum seinna og vera með tíu flug­vélar í rekstri innan þriggja ára. 

Þessar áætl­anir hafa þó ekki gengið upp. Þremur vikum eftir blaða­manna­fund­inn til­kynnti flug­fé­lagið að miða­sölu þess yrði frestað þar sem félagið þyrfti að „ganga frá ýmsum hlut­u­m.“ Miða­salan hefur nú enn ekki hafist, tíu mán­uðum seinna.

Aðspurður hvers vegna starf­semi PLAY hefur ekki enn haf­ist bendir Arnar Már á að margir þættir hafi spilað þar inn, en þeirra á meðal voru ytri mark­aðs­að­stæð­ur: „Við sáum það nátt­úru­lega bara mjög fljótt að það var mjög áhættu­samt að fara í rekstur síðla vet­urs eða í vor. Þá var eina vitið að draga sig aðeins til hlés og fara að hugsa lengra fram í tím­ann.“ 

Auglýsing

Sam­kvæmt Arn­ari var þó stefnu­breyt­ing innan félags­ins aðal­á­stæða þess að þau ákváðu að draga sig til hlés. Þegar flug­fé­lagið var kynnt í fyrra var lagt upp með að það yrði byggt upp að hluta til á eigið fé og að hluta til á láns­fé, en nú sé það ein­göngu byggt upp á eigið fé. 

Eng­inn „COVID-draug­ur“ fylgir félag­inu

Arnar Már segir einnig að þau hafi verið mjög heppin með að fara ekki af stað. Útlitið væri mjög svart hjá flug­fé­lag­inu ef upp­haf­legu áform þess um að hefja starf­semi síð­asta vetur hefðu stað­ið, í ljósi þess erf­iða rekstr­ar­um­hverfis sem flug­fé­lög um allan heim búa við þessa stund­ina. 

Arnar Már Magnússon, forstjóri PLAY.
Mynd: Bára Huld Beck

Blaða­maður spyr Arnar hvort núver­andi aðstæður hafi verið flug­fé­lag­inu í hag og játar hann að svo sé: „Bæði með því að hafa ekki farið af stað og vera ekki búin að auka kostnað félags­ins til muna þá höfum við náð að halda okkur með mjög lágan kostnað í gegnum COVID-krís­una sem gefur okkur líka ákveðið for­skot þegar eft­ir­spurnin eykst, vegna þess að það fylgir okkur ekki neinn COVID-draugur inn í fram­tíð­ina.“ 

Tekur minna en mánuð að hefja flug­rekstur

Fyr­ir­tækið hyggst þó ekki liggja lengi í dvala, en sam­kvæmt Arn­ari bíður það eftir rétta tæki­fær­inu til að hefja flug­rekst­ur. Samn­ingar séu í höfn og leyfi langt kom­in, en flug­rekstr­ar­leyfið verði inn­kallað um leið og fram­leiðslu­núm­erið á fyrstu flug­vél­inni sem félagið mun leigja liggur fyrir og skrán­ingu lokið á íslenska flug­rekstr­ar­leyf­ið. Ábyrgð­ar­að­ilar á flug­rekstr­ar­sviði PLAY vinna náið með Sam­göngu­stofu að útgáfu leyf­is­ins

Arnar bætir einnig við að öll kerfi séu komin upp, þar á meðal tekju­stýr­ing, bók­un­ar­vél, heima­síða og flug­plans­kerfi. Þar að auki er mark­aðs­her­ferð á vegum félags­ins til­bú­in. 

Auglýsing

„Eins og við höfum sagt við stjórn­völd: Við erum til­búin til þess að koma inn á mark­að­inn og gerum það þegar annað hvort þörf er á eða mark­að­ur­inn byrjar að koma til bak­a,“ segir Arnar og bætir við að litið sé sér­stak­lega til tak­mark­ana á flug­völlum í ljósi ástands­ins. 

Aðspurður hvað það taki langan tíma fyrir flug­fé­lagið segir Skúli að það taki minna en mán­uð. 

Arnar Már bætir við að það sé svo sann­ar­lega í áformum flug­fé­lags­ins að vera komið á mark­að­inn í vet­ur, en býst þó við að umfang starf­sem­innar verði tak­markað þangað til að eft­ir­spurn eftir flug­ferðum eykst aftur þegar COVID-krís­unni lýk­ur. 

„Við erum að koma inn á það að vera sýni­leg í gegnum vet­ur­inn og fljúga eitt­hvað og þá helst til Evr­ópu og ein­hverra sól­ar­landa­staða, eða þar sem eft­ir­spurnin er, en svo er upp­bygg­ingin hafin fyrir flug­rekstur og flug sum­arið 2021,“ segir Arn­ar.

Geta alveg beðið lengur

Því gerir Arnar ráð fyrir því að eft­ir­spurnin taki við sér hratt eftir að bólu­efni við COVID-19 verði komið í dreif­ingu og von­ast hann til þess að það verði fyrir næsta sum­ar. Hins vegar segir hann það vera allt í lagi þótt dreif­ing bólu­efnis drag­ist á lang­inn, flug­fé­lagið geti alveg beðið í nokkra mán­uði í við­bót ef mark­aðs­að­stæður krefj­ast þess. 

Arnar Már og Skúli bæta einnig við að sá kostn­aður sem hlýst af rekstri félags­ins í núver­andi mynd sé ein­ungis fjár­fest­ing í stofn­kostn­aði, sem sé eitt­hvað sem öll fyr­ir­tæki þurfa að gera. „Eðli­lega eru allar tafir á að flug geti haf­ist í tekju­ber­andi rekstur nei­kvæð­ar, en ekki alveg „make or break“. Þetta getur alveg dreg­ist á lang­inn, þess vegna erum við búin að draga það á lang­inn að sækja okkur vél­ar,“ segir Skúli. 

Skúli Skúlason, eigandi PLAY, hefur mikla reynslu úr fluggeiranum.
Mynd: Bára Huld Beck

„Af því að við erum ekki búin að taka þetta risa­skref að hefja flug þá höfum við get­una í að halda okkur á þessum stað sem við erum á í mjög langan tíma. Við höfum þol­in­mæð­ina,“ bætir Arnar við. 

Eig­endur að langstærstum hluta íslenskir

Þessa stund­ina er FEA ehf., sem er félag í eigu Skúla og hóps fjár­festa, eig­andi alls hluta­fjár PLAY. Arnar Már segir FEA veita flug­fé­lag­inu mjög sterkt bak­land, en Skúli segir þó hóp­inn ekki verða eini eig­andi flug­fé­lags­ins þegar fram í sæk­ir.

„Við erum að vinna að því að það verði þrír sterkir hópar sem standa að félag­inu, plús aðrir fjár­fest­ar. Við erum komin langt með að loka við­ræðum við einn hóp og erum síðan í við­ræðum við nokkra aðra sem gætu verið hugs­an­legur þriðji aðili í þessum kjarna,“ segir Skúli.  

Hann bætir við að í þessum þremur hópum séu aðilar sem hafa mikla þekk­ingu á flug­rekstri, ferða­þjón­ustu og tengdum greinum og komi því með verð­mæta reynslu að borð­inu, en öðrum fjár­festum verði svo boðið að fylgja þessum hóp­um.  

Aðspurður hverjir þessir hópar séu segir Skúli að félagið verði að lang­mestu leyti í eigu Íslend­inga. Þá sé erlendur aðili þar á með­al, sem geti komi með mikil verð­mæti fyrir rekst­ur­inn og félag­ið. 

COVID leiðir til lægri leigu og betri samn­inga

Sam­kvæmt Arn­ari býður núver­andi lægð í flug­rekstri upp á gott tæki­færi fyrir PLAY til þess að koma inn á mark­að­inn. Um átta þús­und flug­vélar sitji tómar á jörðu niðri, sem þrýsti leigu­verði þeirra og allra ann­arra vara tengdum geir­anum nið­ur.

„Að koma inn á mark­að­inn núna og festa lága leigu á flug­vélum eða kaupum eða hvað sem það er þá ertu að njóta þess til lengri tíma,“ segir Arn­ar. Hann bendir einniga á að önnur flug­fé­lög séu ein­ungis að fá tíma­bundnar nið­ur­fell­ingar þessa stund­ina en fái svo aftur sömu kjör eftir COVID.

Skúli bætir einnig við að núver­andi ástand hafi leitt til þess að samn­ingar hafi náðst á milli PLAY og stærri flugleigu­sala sem ann­ars hefðu tekið lengri tíma. Venju­lega séu flug­fé­lögin „kannski að taka nokkrar leigur inn, kannski að koma sér fyrir á mark­aðnum og sýna fram á að rekst­ur­inn og annað sé í lagi, þá fara þessir stærri að sýna manni áhuga. Við erum að upp­lifa það að stærstu flugleigusal­arnir hafa áhuga á að vinna með okk­ur. Þar á meðal erum við nú þegar að vinna með ein­um, þeim stærsta.“

„Það er vegna þess að þeir sjá í gegnum hvað er að ger­ast. Það er engin for­tíð. Þeir eru sam­mála þeim þanka­gangi og eru bara klárir áfram með okkur og vita hvað þeir hafa í hendi þegar fram í sækir,“ bætir Skúli við. 

Mið-­Evr­ópu­kjör

Með því að stefna að lágri leigu á flug­vélum og hag­kvæmum samn­ingum stefnir PLAY að því að CASK-hlut­fall félags­ins, sem mælir kostnað á hvern flog­inn sætakíló­met­er, verði lægri en hjá öðrum flug­fé­lögum í Norð­ur­-­Evr­ópu.  

Til þess að ná slíku hlut­falli hefur flug­fé­lagið einnig samið um að halda launa­kostnað í lág­marki, en Kjarn­inn greindi frá því í fyrra að kjara­samn­ingar PLAY við ÍFF fælu í sér 27 til 37 pró­senta kostn­að­ar­lækkun launa flug­manna og flug­liða, ef miðað væri við WOW air. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ákvað að veita Icelandair Group ríkisábyrgð.
Mynd: Bára Huld Beck

Arnar og Skúli segj­ast líka vilja bera sig saman við flug­fé­lög ann­ars staðar í Evr­ópu í kjara­mál­um. „Við höfum alltaf haft það sem mark­mið að bera okkur saman við Evr­ópu. Flug­kjör og annað í flug­geir­anum er mjög hátt alls staðar í Evr­ópu, en á Íslandi hefur það verið svo­lítið í hærri kant­in­um. Við höfum meira verið að horfa í það og að vera sam­keppn­is­hæfir,“ segir Arn­ar. „Mið-­Evr­ópu­kjör,“ bætir Skúli við. 

Þó benda þeir á að flug­fé­lagið verði íslenskt, með íslenskan kjara­samn­ing og starfi á íslenskum vinnu­mark­að­i. 

„Al­gjör þvæla“ að það taki langan tíma að koma inn

Fram­tíð­ar­á­ætl­anir PLAY gera ráð fyrir að félagið muni stækka ört um leið og eft­ir­spurnin tekur við sér á ný eftir yfir­stand­andi lægð. 

Arnar segir að margir vilji meina að það taki mörg ár fyrir flug­fé­lag að koma á mark­að­inn, „sem er bara þvæla, ef við tölum beint út.“ Því til stuðn­ings minn­ist hann á WOW air, sem náði að auka mark­aðs­hlut­deild sína umtals­vert um leið og félagið ákvað að verða tengiflug­fé­lag árið 2016. 

Auglýsing

Raunar telur Arnar að PLAY geti komið inn á flug­mark­að­inn með enn bratt­ari hætti á næsta ári en WOW air gerði árið 2016: „Önnur flug­fé­lög í dag hafa skalað nið­ur, þannig að mark­aðs­hlut­deild PLAY yrði miklu stærri heldur en WOW air var á þessum tíma­punkti. “ 

Ekki eins og menn séu að gera þetta í fyrsta skiptið

Fyrsta vet­ur­inn er flug­fé­lagið þó að búast við að vera með eina til þrjár flug­vél­ar, en sam­kvæmt Arn­ari eru samn­ing­arnir við flugleigu­sala þess eðlis að auð­velt er að bæta við sig eða draga úr flug­vél­u­m. 

Hins vegar búast Skúli og Arnar við að stækk­unin verði mjög hröð á fyrstu árum flug­fé­lags­ins, þar sem virð­is­keðjan er öll til. Öll þjón­usta sem PLAY mun nota er nú þegar til og mun verða innt af hendi af fólki með reynslu. „Það er ekki eins og menn séu að gera hlut­ina í fyrsta skipt­ið,“ segir Skúli. 

Eru ekki að stefna að heims­yf­ir­ráðum

Aðspurður hvort PLAY stefni að því að vera jafn­stórt og WOW air segir Skúli að stærðin skipti ekki öllu máli: „Þú verður að vera með ákveðin umsvif til að ná hag­ræði í rekstr­in­um, en aðal­at­riðið er að vera arð­samt fyr­ir­tæki. Þetta er ekki spurn­ing um heims­yf­ir­ráð.“ 

Sam­kvæmt Skúla er aðal­at­riðið að skila lágum far­gjöldum á mark­að­inn, góðri afkomu fyrir eig­end­urna og öruggum rekstri sem stendur undir sér og þolir áföll. „Það er ekk­ert verra biss­ness­konsept heldur en önn­ur,“ bætir hann við.

Arnar tekur undir orð Skúla og segir það vera skýra reglu innan flug­fé­lags­ins að halda sig við upp­haf­legt plan, sem eru ódýr tengiflug á minni flug­vél­u­m. 

Alltaf pláss fyrir tvö flug­fé­lög

Gjald­þrot tveggja ann­arra íslenskra lággjalda­flug­fé­laga á síð­ustu tíu árum, Iceland Express og WOW air, vekja þó upp spurn­ingar hvort yfir­höfuð sé pláss fyrir tvö flug­fé­lög á Íslandi. Skúli og Arnar svara því ját­and­i,  sér í lagi vegna þess mik­il­væga hlut­verks sem félögin sinna í tengiflugum yfir Atl­ants­haf­ið.  

 „Þetta er ekki spurn­ing um bara Ísland. Ef það væri málið þá væri ekki einu sinni pláss fyrir eitt félag. En við búum við þau gæði á Íslandi að landið er bara gríð­ar­lega vel stað­sett. Eins og hefur komið fram und­an­farna daga þá lifir Icelandair ekki á Íslend­ingum að ferð­ast. Þetta er miklu stærra batt­erí, þetta er „hub oper­ation“ þetta eru via-flug­in. Helm­ingur far­þega stoppar bara í Kefla­vík til að fara upp í næstu flug­vél,“ segir Arn­ar.

PLAY kynnti sig til leiks seint á síðasta ári og opinberaði samhliða afar metnaðarfull vaxtaráform. Áætlanir félagsins hafa breyst umtalsvert síðan þá.
Mynd: Bára Huld Beck

Skúli bendir einnig á mögu­leika Kefla­vík­ur­flug­vallar á að verða að öfl­ugum tengiflug­velli í Evr­ópu: „Við erum að horfa á þétt­ingu byggðar í Evr­ópu og tak­mark­anir á opn­un­ar­tíma. Kefla­vík er flug­völlur sem er opinn allan sól­ar­hring­inn, alla daga. Og eins og var sér­stak­lega árið 2018 þegar allur þessi fjöldi flug­fé­laga var, þá ert þú kom­inn með nógu marga aðila inn á völl­inn til að fólk er farið að horfa á hann sem mögu­legan tengiflug­völl, svona eins og Amster­dam og Heat­hrow og fleiri, þótt þetta sé ekki af sama skala.“ 

Sam­kvæmt Skúla eru stjórn­völd  einnig að horfa á upp­bygg­ingu á Kefla­vík­ur­flug­velli þannig að þetta verði tengiflug­völl­ur: „Þá er alveg mjög eðli­legt að það séu eitt eða fleiri flug­fé­lög sem eru stað­sett á Ísland­i.“

Rík­is­á­byrgðin skekki sam­keppn­ina

Talið berst að Icelandair og nýlega ákvörðun rík­is­stjórn­ar­innar um að veita flug­fé­lag­inu rík­is­á­byrgð. Arnar Már gaf nýlega frá sér umsögn við frum­varp fjár­mála­ráð­herra um rík­is­á­byrgð­ina þar sem hann hvatti til þess að sett yrðu frek­ari skil­yrði fyrir veit­ingu henn­ar. PLAY  skil­aði einnig umsögn til fjár­laga­nefndar þar sem sam­keppn­is­hamlandi áhrif rík­is­á­byrgð­innar voru gagn­rýnd.

Arnar segir ábyrgð­ina koma niður á sam­keppn­is­stöðu PLAY með ýmsum hætti. Til að mynda séu tveir þættir í frum­varp­inu sem séu ums­hugs­un­ar­verð­ir, ann­ars vegar að ríkið taki þetta skref til að hjálpa félag­inu að kom­ast í gegnum kom­andi hluta­fjár­út­boð en einnig að lána­línan sé til staðar ef félagið nær ekki tekju­mark­miðum sínum vegan sam­keppni á mark­að­i.  Arnar telur athuga­vert að minni tekju­sköpun Icelandair vegna auk­innar sam­keppni á flug­mark­aði sé eitt af til­vik­unum sem Icelandair yrði leyft að ganga á lána­línu með rík­is­á­byrgð. Þannig yrði PLAY refsað fyrir að hafa betur í sam­keppni við Icelanda­ir, ver­andi félag með lægri rekstr­ar­kostn­að.

Auglýsing

Að mati Arn­ars er lík­legt að gengið verði á rík­is­á­byrgð­ina, þar sem hún getur verið virkjuð í til­felli of hás kostn­að­ar, harð­ari sam­keppni og eða lít­illar tekju­sköp­un­ar. Hann telur kostn­að­ar­á­ætl­anir Icelandair byggja meðal ann­ars á hæpnum for­sendum á olíu­verði, þar sem þeir gera ráð fyrir að tveggja ára spá fyrir olíu­verðs­hækkun muni hald­ast út næstu fjögur árin. Þar að auki finnst honum spár flug­fé­lags­ins um tekju­aukn­ingu vera nokkuð bjart­sýnar í ljósi þess að helstu grein­ing­ar­að­ilar í flug­geir­anum búast ekki við hækkun tekna á næstu árum, ljóst er hins­vegar að tekjur félags­ins verði að hækka til að áætl­anir félags­ins um arð­semi gangi eft­ir.

„Um­ræðan hefur alltaf verið að þetta sé til þrauta­vara, þessir 16 millj­arð­ar, en hún er byggð á spá Icelandair á lækk­andi kostn­aði, hækk­andi tekjum og engri sam­keppni frá íslensku flug­fé­lagi. Ef að eitt af þessu klikk­ar, sem verður að telj­ast lík­legt , þá þurfa þeir að draga á lín­una. Þannig að þessi þrauta­vara­lína, það verður dregið á henn­i,“ segir Arn­ar.

Stjórnendur PLAY sjá mikil tækifæri á Keflavíkurflugvelli í framtíðinni.
Mynd: Bára Huld Beck

Því segir Arnar rík­is­á­byrgð­ina vera til þess fall­inn að nið­ur­greiða sam­keppn­ina á flug­mark­aði eftir tvö ár: „Í sept­em­ber 2022, þegar lána­línan sem rík­is­bank­arnir tveir hafa veitt Icelandair er að renna sitt skeið, þá er félagið hugs­an­lega í ósjálf­bærum rekstri. Ríkið kemur þá inn með fé til þess að greiða niður miða­verð til Icelandair á móti sam­keppn­inni sem það verður fyrir vegna ann­arra flug­fé­laga.“

Hluti starfs­fólks á hluta­bóta­leið

Rík­is­stuðn­ingur til PLAY vakti þó einnig nokkra athygli fyrr í ár, en flug­fé­lagið var á lista yfir fyr­ir­tæki sem fóru á hluta­bóta­leið­ina í kjöl­far sam­komu­banns vegna heims­far­ald­urs­ins. Arnar segir þó að fyr­ir­tækið hafi verið á hluta­bóta­leið­inni frá miðjum apríl og hættu á henni í maí. Styrk­ur­inn náði ein­ungis til hluta starfs­fólks fyr­ir­tæk­is­ins og þeir hafi ekki nýtt sér nein önnur rík­issúr­ræði, eins og t.a.m. upp­sagn­ar­styrki. Þrátt fyrir að hafa ekki verið tekju­ber­andi taldi Vinnu­mála­stofnun að flug­fé­lagið upp­fyllti skil­yrðin til þess að fara á leið­ina, en stjórn PLAY hafi samt sem áður ákveðið að fara af henn­i. 

„Þessi hluta­bóta­leið snýr ekki að start-up fyr­ir­tækj­u­m,“ segir Skúli. „Start-up-in þurfa bara að taka þetta á kass­ann.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiViðtal