Alþingi utlendingamal120920.jpeg

„Hvað myndir þú gera, ef þú værir dómsmálaráðherra?“

Útlendingamál eru nú í brennidepli, vegna máls egypskrar fjölskyldu með fjögur börn sem á að vísa á brott á miðvikudag, eftir að hafa verið hér á landi í rúm tvö ár. Málið hefur vakið upp spurningar um hvort rýna þurfi reglurnar sem við höfum sett okkur um málefni útlendinga. Kjarninn bað þrjá stjórnarandstöðuþingmenn um að setja sig í spor dómsmálaráðherra. Hvað myndu þau gera, ef þau væru í hennar stöðu?

Mistökin í lagasmíðinni eru að í henni er ekki gert ráð fyrir því að fólk myndi tengsl eftir að málinu er lokið á stjórnsýslustigi. Augljóslega er það fjarstæða, sér í lagi þegar kemur að börnum. Fólk, og sérstaklega börn, myndar augljóslega tengsl þótt málið sé klárað á stjórnsýslustigi. Börn hætta ekki að læra tungumálið eða umgangast vini sína,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.

Kjarninn spurði hann og einnig þær Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur þingmann Viðreisnar og Helgu Völu Helgadóttur þingmann Samfylkingar, að því hvað þau myndu gera ef að þau væru dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Íslands í dag. 

Ástæða spurningarinnar er sú að enn einu sinni er mál fjölskyldu með börn sem senda á úr landi til umræðu í samfélaginu og margir spyrja sig að því hvort lögin og reglurnar sem settar hafa verið í útlendingamálum séu í takt við það sem samfélagið vill.

Skorað er á dómsmálaráðherra og aðra ráðherra í ríkisstjórninni um að koma í veg fyrir það að sex manna egypsk fjölskylda, sem hefur tengst samfélaginu hér í rúm tvö ár, verði send aftur til Egyptalands næsta miðvikudag, 16. september.

Þingmennirnir þrír sem Kjarninn hafði samband við hafa allir verið gagnrýnir á þetta einstaka mál og útlendingapólitík ríkisstjórnarinnar almennt og telja breytinga þörf. En hvaða breytingar ætti að gera í lögum og reglum um útlendinga, að þeirra mati?

Í lögum um útlendinga, sem samþykkt voru árið 2016, er kveðið á um að heimilt sé að veita útlendingi sem hér hafi sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um vernd, dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Í febrúar á þessu ári ákvað ríkisstjórnin að fresta brottvísunum barnafjölskyldna ef að málsmeðferðartími þeirra hefði farið yfir 16 mánuði. Sú ákvörðun kom til góða fjölskyldu sem átti að senda úr landi á þeim tíma. En svarið sem dómsmálaráðherra gaf varðandi mál egypsku fjölskyldunnar fyrr í vikunni var að það sé ekki hægt að breyta reglugerðum „til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla“.

Helga Vala segir að tilmæli ráðherra um rýmri túlkun myndu duga

Síðan er einnig lögum samkvæmt heimilt að veita mannúðarleyfi þrátt fyrir að skilyrði alþjóðlegrar verndar hafi ekki talist uppfyllt við efnismeðferð, ef umsækjandinn getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd. Þetta bendir Helga Vala á.

Hún segist í grunninn sammála því að ekki eigi að breyta reglum eftir á, en segir einnig að þess þurfi í raun ekki í tilfelli egypsku fjölskyldunnar, þar sem áðurnefnd heimild sé í lögum þess að veita mannúðarleyfi á grundvelli ríkrar þarfar.

Auglýsing

Dómsmálaráðherra myndi því ekki þurfa að breyta neinni reglugerð, heldur einfaldlega mælast til þess við þau stjórnvöld sem hún ber ábyrgð á að túlka ákvæði útlendingalaga um mannúðarleyfi ekki jafn þröngt og raun ber vitni.

„Það er ákvörðun stjórnvalda að beita ekki þessu ákvæði,“ segir Helga Vala og segir að túlkunin á því hafi verið hert á undanförnum árum. Það sé reynsla lögfræðinga sem starfi við þennan málaflokk. Ráðherra þurfi því í raun bara að beina þeim tilmælum til Útlendingastofnunar að hætta að beita „svo þröngri lögskýringu að það komist enginn inn í það þrönga nálarauga,“ eins og raunin hafi verið.

„Nú er það auðvitað ekki þannig að við getum bjargað öllum heiminum, en þessi börn eru búin að vera hérna í tvö ár,“ segir Helga Vala um mál egypsku fjölskyldunnar og bætir við að það hafi ekki verið þeirra val að festa hér rætur, heldur hafi mál þeirra tekið svo langan tíma í meðförum stjórnvalda.

Hún segir Samfylkinguna tilbúna með frumvarp sem verði lagt fram á haustþingi sem endurvekji í rauninni ákvæði um mannúðarleyfin eins og þau voru í eldri útlendingalögum, þeim sem giltu hér fyrir árið 2016.

„Nú er það auðvitað ekki þannig að við getum bjargað öllum heiminum, en þessi börn eru búin að vera hérna í tvö ár.“

Það myndi gefa Útlendingastofnun enn meira svigrúm til að beita ákvæði um mannúðarleyfi, segir Helga Vala en bætir við að „þetta ákvæði eins og það er í lögunum núna getur þó alveg komið í veg fyrir brottvísun egypsku fjölskyldunnar ef stjórnvöld hefðu yfirleitt einhvern áhuga á því að vernda þessi börn.“

Börn mynda tengsl óháð því hvað stjórnsýslunni finnst 

Helgi Hrafn þingmaður Pírata segir vandann við lögin eins og þau eru í dag að það geti liðið langur tími frá endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi og þar til endanlegur brottflutningur á sér stað. Hann telur að breyta ætti lögum á þá vegu að 18 mánuðirnir miði við þann tíma sem umsækjendur hafi verið á landinu, algjörlega óháð því hvers vegna þeir séu hérna.

„Ef yfirvöld vilja endilega losna við fólk fyrir þann tíma, þá verða yfirvöld bara að gjöra svo vel að klára málin nógu hratt frá A til Ö. Alveg sama hvaða afsakanir yfirvöld hafa fyrir seinaganginum, og alveg sama hvað stjórnsýslunni finnst, þá munu börn bara samt halda áfram að mynda tengsl hérna eftir 18 mánuðina, og öll rök fyrir því að hafa 18 mánaða mörkin yfirhöfuð gilda nákvæmlega jafn mikið eftir að málinu lýkur á stjórnsýslustigi,“ segir Helgi Hrafn í svari sínu.

„Það eru veggirnir og verðirnir á honum sem valda kostnaðinum, ekki stimpillinn í vegabréfið.“

Hann segir að á þetta hafi verið bent í nefnd um útlendingamál í þinginu og að hann voni að sú umræða muni leiða af sér breytingu á þessu atriði. Hann biður blaðamann um að hafa í hug að þetta segi hann að því gefnu að ekki sé vilji til þess að koma á fót víðtækari flóru af dvalarleyfum hérlendis, en hans vilji stendur til þess.

„Við erum að sóa ótrúlegum upphæðum og tækifærum með því að vera svo logandi hrædd við að einfaldlega leyfa fleira fólki að vera hérna. Það þarf hvorki að leggja niður landamæri né eyða meiri peningum til þess,“ segir Helgi og útskýrir að það þurfi ekki að verja meira fjármagni til þess að hleypa fleira fólki inn. Það kosti að halda fólki úti.

„Til þess að afgreiða mál hraðar við núverandi kerfi, hinsvegar, verður að setja meira fjármagn í kerfið. Það hefur hinsvegar frekar verið vilji til að draga úr tækifærum umsækjenda til að njóta réttinda sinna til fullnustu í reynd, frekar en að horfast í augu við þessa staðreynd. Ef fólk vill í alvörunni spara peninga við rekstur þessa kerfis, þá er augljósasta lausnin að auka heimildir fyrir fólk til að vera hérna. Það eru veggirnir og verðirnir á honum sem valda kostnaðinum, ekki stimpillinn í vegabréfið,“ segir Helgi Hrafn.

Tilefni til að spyrja hvort þetta séu reglur sem samfélagið vilji

„Rauði krossinn hefur nefnt að það skipti börn máli hversu lengi þau hafa verið hér. Þau hafa talað um að líta megi til þess ekki síður en málshraða. Ég tek undir það og myndi vilja sjá að litið væri til þess,“ segir Þorbjörg Sigríður þingmaður Viðreisnar í svari til blaðamanns. 

Hún telur tilefni til að rýna reglurnar vegna þessa máls sem nú er til umfjöllunar, það myndi koma þessari fjölskyldu til góða og öðrum sem væru í sambærilegri stöðu.

„Viðmiðin verða að vera almenn, þau verða að vera skýr en þegar niðurstaðan verður þessi hlýtur að þurfa að skoða hvernig það getur gerst og hvort að baki séu reglur sem við sem samfélag viljum,“ segir Þorbjörg Sigríður, sem skrifaði grein á Kjarnann um málið í gær þar sem hún velti vöngum yfir afstöðu Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra til þess.

Hann tók nær enga afstöðu til málsins í samtali við Vísi í gær og sagði það alfarið á borði dómsmálaráðherra, sem hann sagðist treysta fullkomlega fyrir því að gæta að Barnasáttmálanum.

Þorbjörg segir að það þyrfti að líta bæði til verutíma á landinu og málsmeðferðartíma, þar sem reglur sem líti bara til annars af tvennu gætu haft gloppur. Hún segir að það yrði hægt að girða fyrir mögulega misnotkun á reglum með því að skoða fyrst hversu lengi afgreiðsla mála hefði tekið og svo hvort umsækjendur hefðu sjálfir verið að tefja afgreiðslu, eins og sé gert til dæmis í sakamálum.

Varðandi stefnu Viðreisnar í málefnum flóttamanna og hælisleitenda almennt segir Þorbjörg Sigríður að hún myndi vilja sjá stjórnvöld hætta að senda fólk til ríkja á borð við Grikklands og Ungverjalands á meðan aðbúnaður fólks þar er eins og hann er. Hún segir að þetta verði gert í auknum mæli verði nýtt útlendingafrumvarp að lögum.

„Útlendingapólitík sem gengur bara út á að segja nei og segja nei hratt er ekki pólitík sem ég get skrifað undir.“

„Ástæðan er að frumvarpið boðar þann skilning að flóttafólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd, sama hvar hún er, sama við hvaða ömurlegu aðstæður það nú er, telst þá ekki í hópi þess fólks sem sé í raunverulegri þörf. Þetta er flóttafólk og þetta er fólk sem stendur frammi fyrir endursendingum til þessara landa og þetta mun aukast. Þessu höfnum við,“ segir Þorbjörg Sigríður.

Hún segir að auðvitað geti ekki allir komið hingað til lands, en Ísland þurfi að taka einhverja ábyrgð. Við forgangsröðun geti skilvirk og hröð málsmeðferð þó ekki verið eina svarið.

Auglýsing

„Útlendingapólitík sem gengur bara út á að segja nei og segja nei hratt er ekki pólitík sem ég get skrifað undir. Styttri málsmeðferðartími er ekki stóri sannleikurinn þegar niðurstaðan verður vond og jafnvel ómannúðleg. Það er ekki það sem kallað hefur verið eftir. Við höfum séð sorglegar sögur fólks, fullorðinna og barna, sem sækja skjól á Íslandi og það er fólk sem raunverulega þarf á þessari vernd að halda. Við hljótum að stefna að því að lögin séu skýr, framkvæmdin skilvirk en ekki þannig að mannúðin hverfi. Jafnvel þótt reglur séu skýrar og almennar koma alltaf upp álitamál. Lögfræðin er ekki raunvísindagrein. Það er svigrúm fyrir mat. Og stjórnvöld verða að hafa kjark til að rýna reglurnar ef við sjáum vísbendingar um að niðurstaðan verður allt að því ómannúðleg,“ segir Þorbjörg Sigríður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent