Bára Huld Beck Áslaug Arna

„Við gerum ekki reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla“

Nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að stjórnvöld stöðvi brottvísun fjögurra barna og fjölskyldu þeirra. Ummæli dómsmálaráðherra vegna málsins hafa verið harðlega gagnrýnd.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur ekki ástæðu til að beita sér sérstaklega í máli sex manna fjölskyldu frá Egyptalandi sem dvalið hefur hér á landi í yfir tvö ár en til stendur að vísa fjölskyldunni úr landi í næstu viku. 

Ummæli Áslaugar Örnu í kvöldfréttum RÚV í vikunni hafa vakið mikla athygli en þar sagði hún þegar hún var spurð út í það hvort ekki kæmi til greina að gera reglugerðarbreytingu til að bjarga þessari tilteknu fjölskyldu: „Við gerum ekki reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“ 

Þessi ummæli hafa verið sett í samhengi við breytingar á málsmeðferðartíma sem dómsmálaráðuneytið kynnti þann 2. febrúar síðastliðinn. Þá var ákveðið að fresta brott­vísun barna í þeim málum þar sem máls­með­ferð hefur farið yfir 16 mán­uði. Í lok janúar og byrjun febrúar komst mál Muhammeds Zohair Faisal og fjölskyldu hans í hámæli í fjölmiðlum en þá höfðu átján þúsund manns skorað á íslensk stjórnvöld að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hætta við brottvísun Muhammeds Zohair Faisal en hann hafði dvalið hér­lendis í meira en tvö ár.  

Auglýsing

Hafa lært íslensku, eignast vini og fundið sér áhugamál

Málið sem nú hefur ratað í fjölmiðla snýst um fjögur börn, þau Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa, sem komu til Íslands þann 7. ágúst árið 2018 ásamt foreldrum sínum Doaa og Ibrahim. Nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að stjórnvöld stöðvi brottvísun þessara ungu barna „sem eru hluti af samfélaginu okkar og drepið ekki drauma þeirra og framtíð. Ykkur ber lagaleg og siðferðisleg skylda til þess að veita þessum börnum skjól og vernd og þið getið gert það án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því,“ segir í áskoruninni. 

Þar kemur fram að á þessum rúmum tveimur árum sem þau hafa verið hér hafi börnin gengið í skóla og leikskóla, lært íslensku, eignast vini, fundið sér áhugamál og velt því fyrir sér hvað þau vilji verða þegar þau verða stór. Þau hafi fest hér rætur og yngstu strákarnir þekki ekki mikið annað en að vera á Íslandi. Þau hafi upplifað öryggi, frelsi, frið og skjól með þeim hætti að þau sjái raunverulega fyrir sér framtíð – eitthvað sem sé ekki mjög algengt á meðal flóttabarna.

Börnin fjögur sem dvalið hafa hér á landi í yfir tvö ár og aðlagast íslensku samfélagi.
Solaris

Í áskoruninni segir að lögreglan hafi mætt heim til þeirra fyrir stuttu og tilkynnti þeim að þau fengju ekki að vera á Íslandi lengur og að hér sé ekki pláss fyrir þau. „Að íslensk yfirvöld vilji nú losna við þau sem fyrst – nánar tiltekið þann 16. september næstkomandi. Þá verða þau sótt af lögreglunni heim til sín, neydd upp í flugvél og flogið til Egyptalands – þaðan sem þau þurftu að flýja vegna ofsókna og ofbeldis af hálfu stjórnvalda þar í landi. Þar geta þau ekki verið og því mun þessi brottvísun frá Íslandi þýða að þau munu aftur þurfa að leggja á flótta.“

Enn fremur segir að algjörlega óháð óskiljanlegri niðurstöðu yfirvalda um að veita fjölskyldunni ekki vernd á sínum tíma þá sé ekki með nokkru móti hægt að reyna að réttlæta það að senda flóttabörn úr landi sem hafa verið á Íslandi í meira en tvö ár og að öllu leyti orðin hluti af samfélaginu. Það sé ekkert annað en ofbeldi af hálfu íslenska ríkisins að ætla sér að framkvæma slíka brottvísun og íslensk yfirvöld geti gleymt því að slík mannvonska og grimmd verði liðin. 

„Enn og aftur opinbera íslensk stjórnvöld grimmilega og ómannúðlega stefnu sína í málefnum fólks á flótta sem felur fyrst og fremst í sér það markmið að veita sem fæstum vernd og koma fólki sem fyrst úr landi. Þegar íslensk yfirvöld eru ekki að reyna að endursenda flóttabörn í skelfilegar aðstæður á Grikklandi reyna þau að losa sig við börn sem hafa verið hér á landi í meira en tvö ár.

Við viljum ekki þessa stefnu ykkar sem byggist á illsku, skilningsleysi, fordómum, mannréttindabrotum, algjörum skorti á samkennd og kerfisbundnu ofbeldi á fólki á flótta.

Við krefjumst þess að þið stöðvið brottvísun þessara ungu barna sem eru hluti af samfélaginu okkar og drepið ekki drauma þeirra og framtíð. Ykkur ber lagaleg og siðferðisleg skylda til þess að veita þessum börnum skjól og vernd og þið getið gert það án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því,“ segir í áskoruninni. 

Auglýsing

Útlendingastofnun synjaði fjölskyldunni um vernd í lok júlí í fyrra og var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála rúmum fimmtán mánuðum síðar. Reglugerð dómsmálaráðherra um að veita skuli dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef málsmeðferð hefur varað lengur en í sextán mánuði á því ekki við um fjölskylduna.

Til stendur að vísa þeim út landi á miðvikudaginn næstkomandi en eins og áður segir hyggst dómsmálaráðherra ekki beita sér sérstaklega í málinu. 

„Við höfum stytt málsmeðferðartíma og sérstaklega í málum barna svo að það taki ekki lengur en sextán mánuði í tilviki þeirra að afgreiða mál og ef það tekur lengri tíma en það þá fær fólk hér mannúðarleyfi,“ sagði Áslaug Arna á RÚV

Furða sig á kaldlyndi og ónærgætni í ummælum ráðherra

Eftir orð dómsmálaráðherra á RÚV sendi stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi frá sér ályktun þar sem hún harmar ummælin. 

„Stjórn Solaris furðar sig á kaldlyndi og ónærgætni í ummælum ráðherra um fólk í neyð sem lýsa algjöru skilningsleysi á því óöryggi, ótta, örvæntingu og óvissu sem flóttafólk býr við.

Þá hafnar stjórn Solaris tilraun ráðherra til þess að frýja sig ábyrgð í málaflokki sem hann ber ábyrgð á og hvetur ráðherra til þess beita sér fyrir því strax að öll börn sem hafa verið hér í svo langan tíma eins og tvö ár eru fyrir börn fái hér skjól og vernd. Það á við um Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa eins og önnur börn í svipaðri stöðu sem hafa fest hér rætur og upplifa sig sem hluta af samfélaginu. Það er með öllu óásættanlegt að komið sé fram við börn í viðkvæmri stöðu með þeim ómannúðlega og óskiljanlega hætti sem brottvísun á slíkum tímapunkti er. Við hljótum öll að vera sammála um það.

Að lokum vill stjórn Solaris koma því á framfæri við ráðherra að það væri óskandi að stjórnvöld settu sér stefnu í málefnum fólks á flótta sem byggir á mannúð, samkennd og mannréttindum. Það yrði ef til vill til þess að fólk neyddist ekki til þess að fara með sín viðkvæmu málefni í fjölmiðla, sem er staða sem enginn finnur sig í án þess að vera neyddur til þess af örvæntingu,“ segir í ályktuninni. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar