Mynd: Bára Huld Beck

Prentmiðlar: Færri blöð, færri útgáfudagar og lesturinn aldrei verið minni

Lestur prentmiðla hefur aldrei mælst minni og hann hefur minnkað hratt, sérstaklega hjá fólki undir fimmtugu, síðustu ár. Í mælingum Gallup eru nú einungis fjögur blöð: eitt fríblað, eitt áskriftardagblað og tvo vikublöð.

Lestur stærstu prentmiðla landsins hefur dregist verulega saman á örfáum árum. Lestur Fréttablaðsins hjá fólki undir fimmtugu hefur til að mynda farið úr 64 í 25 prósent á áratug og Morgunblaðið er nú með undir tólf prósent lestur í þeim aldurshópi. 

Mannlíf virðist vera hætt að koma út, lestur DV hefur helmingast á nokkrum mánuðum og Viðskiptablaðið er lesið af 4,1 prósent landsmanna. 

Öll prentuð blöð sem koma út á Íslandi mælast nú með minnsta lestur sem þau hafa nokkru sinni mælst með, samkvæmt mælingum Gallup. Og lestur hefur minnkað hratt síðustu ár.

Breytt lög um póstþjónustu, sem samþykkt voru í fyrra, gera fríblöðum erfiðara fyrir en áður að ná augum fólks. Í þeim er réttur neytenda til að afþakka fríblöð tryggður. 

Auglýsing

Á grunni þeirra laga réðst Reykjavíkurborg í útgáfu á svokölluðum afþökkunarlímmiðum fyrir Reykvíkinga, sem sendir voru á öll heimili á þessu stærsta dreifingarsvæði fríblaða á Íslandi fyrir nokkrum vikum síðan. 

Lestur hjá yngri hluta þjóðarinnar kominn undir 12 prósent

Sem stendur koma út fjögur dagblöð á Íslandi. Auk þeirra er Stundin enn send til áskrifenda í pappírsformi og nokkur minni héraðsblöð koma enn út í því formi. Ekkert þeirra er þó í mælingum hjá Gallup. Bændablaðið er enn prentað og samkvæmt upplýsingum frá yfirmanni rekstrar- og markaðsmála hjá því kaupir blaðið mælingar hjá Gallup í október, nóvember og desember á hverju ári. Í lok síðasta árs sögðust 29,2 prósent landsmanna sjá Bændablaðið og hefur lestur þess haldist stöðugur undanfarin ár.

Eitt dagblaðanna sem enn er mælt, Morgunblaðið, er áskriftarblað sem kemur út sex sinnum í viku. Síðastliðið ár hefur blaðið verið í frídreifingu á fimmtudögum, sem þýðir að fjöldi fólks sem eru ekki áskrifendur, og báðu ekki um að fá blaðið, fá það þá daga nema að það leggi sig fram við að hafna því.

Lestur Morgunblaðsins hefur breyst mikið undanfarin ár. Áratugum saman var það frekar undantekning en regla að heimili í landinu væri ekki með áskrift að blaðinu. Sumarið 2008 fór lesturinn í fyrsta sinn undir 40 prósent hjá öllum lesendahópum. Fyrir sex árum fór hann undir 30 prósent, fyrir tveimur árum undir 25 prósent og í síðustu mælingu Gallup, sem sýnir lesturinn í ágúst 2020, mældist hann 21,9 prósent. Lestur Morgunblaðsins hefur aldrei mælst minni.

Auglýsing

Lesturinn hefur skroppið mest saman hjá yngri landsmönnum. Hjá fólki undir fimmtugu var lesturinn um 23 prósent fyrir rúmum sex árum síðan. Hann er nú 11,9 prósent og hefur næstum helmingast síðan þá. 

Fríblað sem er lesið af fjórðungi fólks undir fimmtugu

Fréttablaðið, fríblað sem dreift er ókeypis í 80 þúsund eintökum á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, kemur nú út fimm sinnum í viku. Útgáfudögum þess var fækkað um einn í apríl síðastliðnum, þegar ákveðið var að blaðið myndi ekki lengur koma út á mánudögum. Síðasta breyting á útgáfutíðni fyrir það hafði verið í janúar 2009, skömmu eftir bankahrunið, þegar Fréttablaðið hætti að koma út á sunnudögum. 

Blaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.

Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent. Nú mælist lestur Fréttablaðsins 35,1 prósent. 

Líkt og hjá Morgunblaðinu þá hefur lesturinn að mestu dregist saman hjá yngri lesendum. Vorið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna í aldurshópnum 18 til 49 ára blaðið. Nú lesa 25 prósent landsmanna undir fimmtugu það.

Hratt minnkandi lestur vikublaða

Um tíma komu út þrjú vikublöð í dagblaðaformi. Mannlíf, sem var fríblað, tilkynnti í sumar að það myndi fara í útgáfuhlé í júlímánuði og koma aftur út 7. ágúst. Nú, rúmum mánuði síðar, hefur blaðið enn ekki komið úr því fríi og samkvæmt upplýsingum Kjarnans er frekari útgáfa ekki í farvatninu. Í júní lásu 16,6 prósent landsmanna Mannlíf. 

DV á sér langa sögu og var lengi vel í mun tíðari útgáfu. Uppsafnaður lestur mældist til að mynda um 40 prósent árið 2005 hjá öllum aldurshópum. Síðan þá hefur blaðið gengið í gegnum mikið hnignunarskeið og undanfarin ár hefur það komið út einu sinni í viku og verið rekið í botnlausu tapi. Vorið 2011 var lesturinn rúmlega 14 prósent, í fyrravor var hann rúmlega níu prósent og nú mælist hann 4,6 prósent. Lesturinn hefur því helmingast á rúmu ári og hefur aldrei verið minni. Hjá aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn nú þrjú prósent. 

Auglýsing

Viðskiptablaðið kom um tíma út nokkrum sinnum í viku fyrir bankahrunið. Það skipti um kennitölu í kjölfar þess og hefur síðan þá verið vikublað. Lesturinn náði hápunkti síðla árs 2015 þegar hann mældist 13,4 prósent en síðan hefur hann minnkað hratt. Í ágúst 2020 mældist lesturinn 4,1 prósent sem er um helmingur af því sem hann var í desember 2019. Hjá fólki undir fimmtugu er hann enn minni, eða 3,2 prósent. 

Margir geta hugsað sér að afþakka

Sumarið 2019 samþykkti Alþingi lög um póstþjónustu þar sem réttur neytenda til að afþakka fríblöð var tryggður. Ekki er hægt að afþakka þetta miðlægt heldur þarf hver og einn að gera það með eigin merkingum. Í þessu ljósi ákvað Reykjavíkurborg að ráðast í útgáfu á svokölluðum afþökkunarlímmiðum fyrir Reykvíkinga. Um er að ræða miða, sem dreift var í sumar inn á heimili íbúa borgarinnar sem gera þeim kleift að afþakka ómerktan fjölpóst og fríblöð. 

Í tilkynningu sem borgin birti vegna þessa sagði að með notkun á miðunum gætu þeir sem ekki lesa miðla á prenti „á einfaldan hátt afþakkað að fá slíkan póst inn um lúguna hjá sér. Þannig getur fólk stuðlað að minni notkun auðlinda, vegna pappírs, prentunar og dreifingar og vegna söfnunar og endurvinnslu á pappírnum.“

Í viðhorfskönnun sem Reykjavíkurborg og SORPU bs. létu gera um flokkun og endurvinnslu, í aðdraganda þess að gripið var til þess ráðast að dreifa miðunum, kom í ljós að um 70 prósent af svarendum afþökkuðu ekki fjölpóst en gátu mögulega eða mjög vel hugsað sér að gera það.

Verði notkun á miðunum í samræmi við niðurstöðu viðhorfskönnunarinnar er líklegt að lestur á fríblöðum eins og Fréttablaðinu og fimmtudagsútgáfu Morgunblaðsins muni dala enn frekar í nánustu framtíð. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar