Aðsendar myndir

Vilja ekki kísilverið

Flestir fulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar eru mótfallnir því að kísilverið í Helguvík verði endurræst eins og eigandi þess, Stakksbergs, hyggst gera. Aðrir vilja stíga varlega til jarðar og að gerðar verði ítrustu kröfur hafi eigandinn hug á að hefja starfsemi aftur.

Nýtt deiliskipulag er forsenda þess að enduruppbygging kísilverksmiðjunnar í Helguvík geti átt sér stað og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur vald til að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi. Ákvörðun um hvort kísilverið hefur starfsemi á ný er því pólitísk og ræðst í atkvæðagreiðslu kjörinna fulltrúa.


Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um afstöðu bæjaryfirvalda til endurræsingar kísilversins í Helguvík.


Miðað við þau svör sem Kjarninn fékk frá bæjarfulltrúum um afstöðu þeirra til málsins er ljóst að meirihluti núverandi bæjarstjórnar, sem á tæp tvö ár eftir af sínu kjörtímabili, mun ekki gefa grænt ljós á það að kísilverksmiðjan í Helguvík verði endurbætt, ræst að nýju og stækkuð líkt og Stakksberg, sem er í meirihluta eigu Arion banka, fyrirhugar.


 „Ég er á móti því að kísilverið verði endurræst,“ segir Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs. Guðbrandur Einarsson, fulltrúi Beinnar leiðar og forseti bæjarstjórnar, segist gera sér grein fyrir þeim miklu fjármunum sem búið sé að leggja í verkefnið „en ég tel ekki rétt að eyða milljörðum í þessa verksmiðju til þess að koma henni í gang aftur. Þetta er jú sama dótið sem þarna er og það verður aldrei sátt við íbúa um þessa verksmiðju eftir það sem á undan er gengið. Er ekki rétt að nota peninginn í eitthvað annað?“


Jóhann Friðrik Friðriksson, fulltrúi Framsóknar, telur mun vænlegra að leita annara leiða til atvinnuuppbyggingar en að ræsa kísilverið að nýju.


Fulltrúar minnihlutans er ýmist alfarið á móti starfsemi kísilversins eða vilja gera ítrustu kröfur til nýrra eigenda. Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi Frjáls afls, sem er í minnihluta ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, telur reyndar enga þörf á því að taka afstöðu til endurræsingar kísilverksmiðjunnar í Helguvík, „því það mun ekki gerast“.


Þórður Magnússon, framkvæmdastjóri Stakksbergs, segir hins vegar við Kjarnann að stefnt sé að því að ljúka umhverfismati vegna endurbóta á verksmiðjunni „með það að markmiði að hefja framleiðslu á kísli á ný“.

Auglýsing

Frummatsskýrsla Stakksbergs ehf., sem er alfarið í eigu Arion banka, um endurbætur og stækkun kísilversins í Helguvík var auglýst í byrjun maí. Í 1. áfanga er m.a. ráðgert að reisa einn 52 metra háan skorstein og nýta einn ljósbogaofn, líkt og United Silicon gerði, til framleiðslunnar. Að loknum 4. áfanga yrði verksmiðjan fullbyggð með fjórum ljósbogaofnum og tveimur 52 metra háum skorsteinum.


Umhverfisstofnun sagði í umsögn sinni um frummatsskýrsluna að áhrifin af starfseminni yrðu á heildina litið talsvert neikvæð. Áhrif á loftgæði yrðu sömuleiðis talsvert neikvæð og mögulega verulega neikvæð. Einnig yrðu áhrif á lyktarmengun, á vatnafar og ásýnd talsvert neikvæð.


Tugir íbúa Reykjanesbæjar skiluðu athugasemdum við skýrsluna. Í þeim var farið yfir þau neikvæðu heilsufarslegu áhrif sem verksmiðjan hafði á starfstíma sínum og allir leggjast þeir gegn því að verksmiðjan verði endurræst.

Unnið úr umsögnum og athugasemdum


Arion banki hefur lýst því yfir að hann vilji selja verksmiðjuna sem hann fékk í fangið við gjaldþrot United Silicon. Tekið er fram í frummatsskýrslunni að gert sé ráð fyrir að mati á umhverfisáhrifum verði lokið um mitt ár og að í framhaldi af því verði sótt um byggingarleyfi fyrir ný mannvirki og endurskoðun á starfsleyfi auglýst. Í nýlegu hálfs árs uppgjöri bankans segir að markmiðið sé enn að selja Stakksberg á grundvelli þessarar undirbúningsvinnu. 


Ljóst er að sá tímarammi sem settur var fram í frummatsskýrslunni í vor mun ekki standast. Enn er unnið að úrvinnslu umsagna stofnana og athugasemda almennings og segir Þórður að Stakksberg leggi áherslu á að vanda þá vinnu. Hann segir ekki liggja fyrir hvenær úrvinnslunni ljúki og að hægt verði að senda matsskýrslu til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Í kjölfarið verður að sögn Þórðar sótt um byggingaleyfi til Reykjanesbæjar. Hvenær það verður ráðist af því hvenær Skipulagsstofnun ljúki sinni vinnu.

Mun taka lengri tíma


Eftir að matsskýrsla berst stofnuninni hefur hún lögum samkvæmt fjórar vikur til að gefa endanlegt álit sitt. „En í svo umfangsmiklum málum mun það fyrirsjáanlega krefjast lengri tíma,“ segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, og bendir á heimild í lögum til að víkja frá frestum í tilteknum tilvikum. Hún segir að auk umfangsins hafi verkefnaálag það í för með sér að umhverfismatsmál taka lengri tíma í afgreiðslu en sem nemur frestum sem tilgreindir eru í lögunum.


Áfallasaga kísilverksmiðjunnar í Helguvík er flestum landsmönnum vel kunn. Hún hóf starfsemi í lok árs 2016 en var stöðvuð með ákvörðun Umhverfisstofnunar um tíu mánuðum síðar í kjölfar ítrekaðra rekstrarerfiðleika og athugasemda frá íbúum. Í maí árið 2018 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um verkefnið í heild sinni og gerði fjölmargar athugasemdir við aðkomu og eftirlit stjórnvalda í tengslum við útgáfu leyfa og eftirlit með rekstrinum. „Þegar horft er til kísilverksmiðju Sameinaðs Sílikons er ljóst að framkvæmdin var hvorki í samræmi við mat á umhverfisáhrifum né samþykkt skipulag svæðisins. Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta gagnrýnisvert,“ sagði m.a. í skýrslunni.


Félagið Tomahawk Development, félag aðila sem síðar stofnuðu Sameinað sílikon, vann á árunum 2007-2012 að opnun kísilvers í Helguvík. Skipulagsstofnun gaf álit sitt á umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar árið 2013 og fengu aðstandendur verkefnisins starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun um ári síðar. Þá hafði þegar verið samið við Landsvirkjun um kaup á raforku og skrifað undir fjárfestingarsamning við ríkisstjórn Íslands. Fyrsta skóflustungan að verksmiðjunni var tekin í lok ágúst árið 2014 og í desember það ár gaf Reykjanesbær út byggingarleyfi.


Í ljós kom að verksmiðjuhúsin voru ekki í samræmi við deiliskipulag og gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við afgreiðslu bæjarins á byggingarleyfi um hálfu ári eftir að ljósbogaofn United Silicon var kyntur í fyrsta sinn. Leyfið var hvorki í samræmi við deiliskipulag né matsskýrslu. Byggingarfulltrúanum, sem afgreitt hafði leyfin, var í kjölfarið sagt upp störfum.


Eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018 var samþykkt á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar að gerð yrði úttekt á þeim verkferlum sem viðhafðir höfðu verið í samskiptum bæjarfélagsins við United Silicon hf. Lúðvík Arnar Steinarsson lögmaður var ráðinn til verksins og var úttektin lögð fram á bæjarstjórnarfundi í júní síðastliðnum. Megin niðurstaða skýrslunnar er að annmarkar hafi verið á útgáfu byggingarleyfa og byggingar því ekki í samræmi við deiliskipulag og umhverfismat. Svo virðist sem mikill pressa hafi verið sett á embættismenn um að afgreiða erindi framkvæmdaaðila með hraði sem hafi leitt til verulegra mistaka. 

Sömdu um stuttan afgreiðslufrest


Þrennt er tiltekið sem aflaga fór. Í fyrsta lagi hafi Reykjanesbær skuldbundið sig með samningi til að afgreiða umsóknir um byggingarleyfi innan sex virkra daga „og má því ljóst vera að mikil pressa var á að afgreiða umsóknirnar eins fljótt og auðið er. Engin heimild er fyrir stjórnvöld til að semja fyrirfram um slíka málsmeðferð. Við útgáfu byggingarleyfis ber sveitarfélagi að fara eftir lögum og er þeim óheimilt að gefa út byggingarleyfi ef skilyrði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar eru ekki uppfyllt. Það að semja fyrirfram um skamman afgreiðslufrest á slíkum beiðnum grefur undan eftirlitshlutverki sveitarfélags, eykur líkur á að umsókn sé samþykkt sem uppfyllir ekki þær kröfur sem gera ber“.


Í öðru lagi voru umsóknirnar afgreiddar án þess að með þeim fylgdu mæli- og hæðablöð líkt og áskilið er í byggingarreglugerð. Í þriðja lagi bar Reykjanesbæ að tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfa vegna framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum. Hefði það verið gert hefði Skipulagsstofnun átt að sjá að útgefin leyfi voru ekki í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. „Niðurstaðan er því sú að afgreiðsla umsókna United Silicon hf. um byggingarleyfi var ekki í samræmi við lög“ og „að áliti skýrsluhöfunda var því verulegur misbrestur á afgreiðslu umsóknanna“.

Útgáfa byggingarleyfa ekki í samræmi við lög


Niðurstaða stjórnsýsluúttektarinnar er einnig sú að ekkert bendi til þess að annarleg sjónarmið hafi ráðið för í samskiptum stjórnenda sveitarfélagsins við fyrirtækið. Þó er áréttað að samningur um málsmeðferð útgáfu byggingarleyfa var ekki í samræmi við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti.


„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur að bæjarfélagið hafi verið illa í stakk búið til þess að ráða við svo viðamikið verkefni,“ sagði í bókun sem bæjarfulltrúar samþykktu í sumar er úttektin lá fyrir. „Mikilvægt er að lærdómur sé dreginn af þeim hrakförum sem áttu sér stað við uppbyggingu kísilvers United Silicon í Helguvík.“

Starfsemi kísilversins á Bakka var stöðvuð í sumar.
Sunna Ósk Logdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn var við völd í Reykjanesbæ í tólf ár frá stofnun sveitarfélagsins árið 1994. Hann var því við völd er hugmyndir um kísilverið voru fyrst viðraðar. Í kosningunum árið 2014, þegar áform um verksmiðjuna voru vel á veg komnar, tók nýr meirihluti Beinnar leiðar, Frjáls afls og Samfylkingar og óháðra við stjórnartaumunum. Oddvitar þessara þriggja flokka eru enn í bæjarstjórn.


Í dag er meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar skipaður sex fulltrúum þriggja flokka: Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar. Í minnihluta eru þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, einn fulltrúi Miðflokksins og einn fulltrúi Frjáls afls. Allir fulltrúar meirihlutans eru mótfallnir því að verksmiðjan hefji starfsemi á ný, fulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja halda því opnu með ströngum skilyrðum en fulltrúi Miðflokksins vill kísilverið burt. Fulltrúi Frjáls afls telur ljóst að verksmiðjan verði aldrei endurræst.

Vilja aðra uppbyggingu í Helguvík


Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar var meðal umsagnaraðila við frummatskýrslu Stakksberg í sumar. Umsögn þess var harðorð og afdráttarlaus. „Í ljósi forsögunnar er umhverfis- og skipulagsráð ekki sannfært um að áætlaðar mótvægisaðgerðir, sem eiga að auka rekstraröryggi verksmiðjunnar og minnka óþægindi íbúa vegna hennar, reynist fullnægjandi.“


Einnig kom fram að ráðið væri „ekki sammála niðurstöðum frummatsskýrslunnar varðandi loftgæði, samfélag, atvinnulíf og heilsu og telur mjög ólíklegt að efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar séu það mikil að þau vegi upp á móti neikvæðum áhrifum hennar á þann veg að þau nái að gera heildaráhrif verksmiðjunnar á samfélagið jákvæð“.


Nokkrum dögum síðar kom bæjarstjórn saman og tók undir umsögn umhverfis- og skipulagsráðs og hvatti eigendur kísilversins til að „vinna frekar að annarri uppbyggingu á svæðinu í sátt við íbúa bæjarfélagsins“.


Auglýsing

Friðjón Einarsson, Samfylkingu


„Mín afstaða hefur verið ansi skýr lengi,“ segir Friðjón Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn og formaður bæjarráðs. „Ég er á móti því að kísilverið verði endurræst.“ Hann bendir á að umhverfismat verksmiðjunnar sé hluti af tillögu að nýju deiliskipulagi svæðisins sem sé í vinnslu og að bæjarstjórn hafi vald til að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi.


Guðbrandur Einarsson, Beinni leið


Guðbrandur Einarsson, fulltrúi Beinnar leiðar og forseti bæjarstjórnar, segist ekki vera hlynntur mengandi stóriðju í Helguvík. Verksmiðjan sé of nálægt byggð og hann þekki fjölmarga sem urðu veikir á meðan hún starfaði. „Þær skýrslur sem unnar hafa verið bæði af ríkinu en einnig af Reykjanesbæ sýna svart á hvítu að þessi framkvæmd var í skötulíki og eftirlitsaðilar brugðust algerlega.“ Greinilega sé erfitt að byggja og reka kísilverksmiðju svo vel sé og tekur verksmiðjuna á Bakka sem dæmi. Rekstur hennar hafi ekki gengið vel „þrátt fyrir fögur fyrirheit“.


Hann er einnig þeirrar skoðunar að verkefnið sé af þeirri stærðargráðu að ekki sé hægt að reikna með að lítil sveitarfélög ráði við það. Að hans mati þarf einnig að skerpa á lagaumgjörðinni í kringum svona starfsemi, s.s. fjárfestingarsamninga og eftirlit. „Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir þeim fjármunum sem búið er að eyða í þetta en ég tel ekki rétt að eyða milljörðum í þessa verksmiðju til þess að koma henni í gang aftur. Þetta er jú sama dótið sem þarna er og það verður aldrei sátt meðal íbúa um þessa verksmiðju eftir það sem á undan er gengið. Er ekki rétt að nota peninginn í eitthvað annað?“


Díana Hilmarsdóttir, Framsókn


Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar, segir að afstaða sín til kísilvers í Helguvík hafi verið skýr frá upphafi. „Ég er alfarið á móti mengandi stóriðju í Helguvík og þar af leiðandi endurræsingu kísilversins. Helsta ástæða þess er að mengandi stóriðja á ekki heima í Helguvík sem er staðsett í útjaðri íbúabyggðar Reykjanesbæjar. Mengandi stóriðja hefur margvísleg umhverfisáhrif á nærumhverfið og getur mælst í fleiri kílómetra fjarlægð. Þá eru áhrif sem mengunin getur haft á heilsufar og lífsgæði íbúa talin veruleg eins og bersýnilega kom í ljós þegar verksmiðja United Silicon var í gangi.“


Hún segist líta svo á að sá fjöldi undirskrifta og athugasemda sem kom frá íbúum svæðisins séu skýr skilaboð til hennar sem kjörins fulltrúa um „að íbúar vilji ekki mengandi starfsemi í bakgarðinum hjá sér. Slík starfsemi fer ekki saman með áherslum Reykjanesbæjar sem heilsueflandi samfélag“.


Efnahagsleg áhrif séu ekki meira virði en þau neikvæðu umhverfis- og heilsufarslegu áhrif sem verksmiðjan myndi hafa á íbúa. „Mín framtíðarsýn fyrir iðnaðarsvæðið í Helguvík er breytt skipulag þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni mengandi stóriðju. Með því er svæðið gert meira aðlaðandi fyrir fyrirtæki í umhverfisvænum rekstri. Svæðið býður uppá marga spennandi kosti með öflugt dreifinet fyrir raforku, möguleika á öflugum flutningsleiðum um Helguvíkurhöfn og athafnasvæði hafnarinnar í næsta nágrenni. Með því að hafna mengandi stóriðju á svæðinu gerir það svæðið að aðlaðandi kosti fyrir fyrirtæki í umhverfisvænni starfsemi. Vil ég nota tækifærið og hvetja fyrirtæki sem falla þar undir til að setja sig í samband við bæjaryfirvöld.“


Verksmiðijuhús kísilversins í Helguvík.
United Silicon

Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsókn


Jóhann Friðrik Friðriksson, sem einnig er bæjarfulltrúi Framsóknar, tekur undir með Díönu og telur mun vænlegra að leita annarra leiða í atvinnuuppbyggingu í Helguvík en að endurræsa kísilver. „Andstaða mín við þær fyrirætlanir hafa ekkert breyst,“ segir hann og vísar til ræðu sem hann hélt á Alþingi haustið 2018 um málið. „Ég tel að sorgarsaga málsins hafi leitt af sér gríðarlega andstöðu íbúa við starfsemina, mengun sem olli heilsufarslegum áhrifum hafði mjög neikvæð áhrif og sú uppbygging sem til stóð hafði í för með sér gríðarlegt fjárhagslegt tap að auki, bæði fyrir bæjarfélagið, fjárfesta og fleiri.“


Guðný Birna Guðmundsdóttir, Samfylkingu


Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir sína afstöðu einnig ætíð hafa verið skýra: „Ég styð ekki að Stakksberg opni kísilver í Helguvík.“ Helstu ástæðurnar séu vanefndir United Silicon við Reykjanesbæ, gríðarleg lyktarmengun sem hlaust af starfseminni en þó aðallega sú staðreynd að meirihluti íbúa Reykjanesbæjar sé á móti endurræsingu kísilversins. „Það má alveg segja að Stakksberg sé ekki það sama og United Silicon en Arion banki hefur þó verið með í þessu verkefni frá byrjun,“ segir Guðný Birna. „Við áttum okkur á gríðarlegu tapi kísilversins en hér verða íbúar okkar að vera í fyrsta sæti.“


Auglýsing

Styrmir Gauti Fjeldsted, Samfylkingu


Styrmir Gauti Fjeldsted, sem einnig er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segist enn sömu skoðunar og þegar hann samþykkti bókun meirihlutans í bæjarstjórn í byrjun síðasta árs þar sem Arion banki sem og aðstandendur fyrirhugaðs kísilvers Thorsils í Helguvík voru hvattir til að falla frá áformum sínum. „Nýtt deiliskipulag er forsenda þess að starfsemin geti hafist aftur og við í bæjarstjórn höfum vald til að hafna eða samþykkja þetta nýja deiliskipulag ef það berst á borð okkar.“


Bæjarfultrúar Sjálfstæðisflokksins


Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þau Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, svöruðu fyrirspurn Kjarnans sameiginlega og sögðu reynsluna af starfsemi kísilversins í Helguvík hafa valdið sveitarfélaginu og samfélaginu ómældum skaða. „Viljum við stíga mjög varlega til jarðar í framhaldinu.“


Þremenningarnir benda á að ótal tækifæri felist í hafnaraðstöðunni í Helguvík sem hafi goldið fyrir neikvæða umræðu um kísilverið. „Almennt séð viljum við ekki gera upp á milli fyrirtækja sem hafa áhuga á að starfa á okkar atvinnusvæði svo fremi sem þau uppfylla öll almenn skilyrði sem gerð eru til þeirra. Kísilverið í Helguvík brást gagnvart öllum hagsmunaaðilum, hvort sem það voru verktakar, fjárfestar, starfsmenn eða samfélagið. Af þeim sökum gerum við enn meiri kröfur til nýrra eigenda ef þeir hafa hug á að hefja starfsemi aftur.“


Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki


Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Miðflokksins, segir það hafa verið eitt helsta kosningamál flokksins fyrir síðustu kosningar að berjast gegn því að kísilverið verði endurræst. Arion banki eigi að horfa til samfélagslegrar ábyrgðar og selja verksmiðjuna úr landi enda sé hún í andstöðu við vilja íbúa. „Við héldum á lofti þeim hugmyndum að farið yrði í íbúakosningu um málið til að fá fram raunverulegan vilja bæjarbúa. Við því var ekki orðið þrátt fyrir að íbúar hefðu safnað lögbundnu lágmarki um íbúakosningu. Meirihlutinn vísaði því frá á tæknilegum grunni. Á þeim tíma var enginn vilji hjá meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.“Margrét bendir einnig á að í stjórnsýsluúttektinni sem kynnt var bæjaryfirvöldum í sumar komi fram að sá samningur sem Reykjanesbær gerði við United Silicon, um hraða afgreiðslu umsókna fyrirtækisins um byggingarleyfi, hafi verið ólöglegur. „Hafa ber í huga þessi ólögmæti samningur skrifast fyrst og fremsta á meirihluta bæjarstjórnar á þeim tíma. Embættismenn á vegum sveitarfélagsins koma ekki að slíkri samningagerð, ef svo ólíklega vildi til, væri það aldrei gert nema að fyrirmælum meirihluta bæjarstjórnar.“


Á daginn hafi komið að mörg afdrifarík mistök hafi átt sér stað af hálfu starfsmanna og stofnana sveitarfélagsins. „Niðurstaða skýrslunnar er sláandi og áfellisdómur yfir stjórnsýslu bæjarins. Afleiðingarnar voru afdrifaríkar og öllum bæjarbúum kunnar. Ábyrgðin er fyrst og fremst pólitísk, það má glöggt sjá í áðurnefndum ólögmætum sex daga samningi. Brottrekstur þáverandi byggingafulltrúa var fyrst og fremst táknrænn. Ábyrgðin er hjá þáverandi meirihluta sem sá um daglegan rekstur bæjarfélagsins og var æðsti yfirmaður starfsliðs.“


Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli


Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi Frjáls afls, sem setið hefur í bæjarstjórn frá árinu 2010, segir núverandi eiganda kísilverksmiðjunnar, Arion banka, hafa tilkynnt að hann ætli ekki að starfrækja hana sjálfur heldur reyna að selja hana í pörtum, væntanlega til erlendra aðila. Bankinn hafi svo greinilega engin kauptilboð fengið. „Ljóst er að nú blasir við mikið atvinnuleysi á svæðinu og því hefði verið kærkomið að rekstur hefði haldið áfram,“ segir Gunnar. „Verksmiðjan hefði þá þurft að uppfylla allar þær kröfur sem skipulags- og umhverfisstofnanir gera eða eiga að gera til slíkrar verksmiðju, sem hún gerði ekki. Þar af leiðandi er engin ástæða til að taka afstöðu til endurræsingar kísilvers Stakksbergs í Helguvík, því það mun ekki gerast.“


Auglýsing

Stefna Stakksbergs er þó enn sú að ljúka umhverfismati, sækja um byggingarleyfi og hefja framleiðslu kísils á ný. Tímabundin lokun hins kísilversins sem starfrækt var á Íslandi, PCC Bakka á Húsavík, breytir engu þar um. „Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur valdið gríðarlega erfiðum aðstæðum á nánast öllum mörkuðum og markaður fyrir kísilafurðir er þar ekki undanskilinn,“ segir Þórður en að Stakksberg telji þetta ástand hins vegar tímabundið og að áfram séu langtímahorfur fyrir kísil mjög góðar. „Við gerum ráð fyrir að verð á kísli verði komið í jafnvægi þegar verksmiðjan tekur aftur til starfa og því hefur núverandi ástand ekki áhrif á okkar vinnu.“


Í frummatsskýrslunni kemur fram að markmiðið sé að hefja starfsemi kísilversins á ný í sátt við íbúa Reykjanesbæjar. Í fleiri tugum athugasemda þeirra er þess krafist að verksmiðjunni verði lokað fyrir fullt og allt.


„Stakksberg tekur umsagnir og áhyggjur íbúa í Reykjanesbæ alvarlega,“ segir Þórður og að þær séu mikilvægur þáttur í umhverfismatsferlinu. Alvarlegustu áhyggjurnar snúi að mögulegri lyktarmengun og annarri loftmengun. Útblástursbúnaður verksmiðjunnar hafi verið endurhannaður til að lágmarka lyktarmengun og draga úr styrk mengandi efna. Hann segir niðurstöður loftdreifiútreikninga staðfesta að „mjög verulega“ muni draga úr lyktarmengun og styrkur mengandi efna minnka margfalt og verða vel undir skilgreindum heilsufarsmörkum. „Stakksberg hefur því stigið stór skref og mun leggja í miklar fjárfestingar til að tryggja að verksmiðjan megi starfa í sátt við íbúa Reykjanesbæjar.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar