Úr frummatsskýrslu

„Litla verksmiðjan sem reyndist hið mesta skrímsli“

„Ég vil ekki anda að mér eiturlofti,“ skrifar einn. „Það var grátlegt að geta ekki sett barn út í vagn,“ skrifar annar. „Eftir síðustu tilraunir með þessa verksmiðju þurfti ég að leita læknis,“ skrifar sá þriðji. Um 350 athugasemdir frá einstaklingum bárust við frummatsskýrslu Stakksbergs um áformaða endurræsingu á kísilverinu í Helguvík.

Um 350 athugasemdir frá einstaklingum bárust Skipulagsstofnun vegna frummatsskýrslu Stakksbergs um fyrirhugaðar endurbætur, endurræsingu og margfalda stækkun kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Skipulagsstofnun hefur ekki yfirfarið umsagnirnar en við yfirferð þeirra má sjá að undir langflestar þeirra ritar fólk úr Reykjanesbæ nafn sitt.


Allar eru athugasemdirnar frá fólki sem leggst gegn því að kísilverið verði endurræst. Margir lýsa persónulegri reynslu af óþægindum og veikindum sem þeir fundu fyrir á meðan verksmiðjan starfaði á sínum tíma. Íbúarnir óttast um heilsu barna sinna og barnabarna og finnst ekki forsvaranlegt að hefja starfsemi að nýju sem vitað er að veldur óþægindum en ekki hvers vegna. Þeir vilja ekki taka þátt í slíkri lýðheilsutilraun. „Það er ekki ásættanlegt að vera með mengandi verksmiðju í túnfæti Reykjanesbæjar og í næsta nágrenni við leikskóla og grunnskóla,“ skrifar einn íbúi.


Þá segjast þeir enga ástæðu hafa til að treysta því að nú verði allt í himnalagi – því hafi margoft verið lofað áður. Því sé reyndar ekki lofað að heilsufarsleg áhrif verði engin heldur að þau verði „óveruleg“.

Auglýsing

Endurræsing verksmiðjunnar er „hræðileg tilhugsun,“ skrifar einn og „slík starfsemi á ekki heima í heilsueflandi samfélagi og ætti ekki að samrýmast „grænni“ umhverfisstefnu eiganda Stakksbergs, þ.e. Arion banka.“


Að mati þeirra sem skiluðu inn athugasemdum er því eini kosturinn fyrir Stakksberg sá að fara burt með kísilverksmiðjuna – að hún verði „jöfnuð við jörðu hið fyrsta“.


Margar athugasemdanna eru ítarlegar og í sumum er farið ítarlega yfir efni frummatsskýrslunnar. Aðrir hafa svo tekið sig saman og senda athugasemd sem hljóðar svona: „Ég mótmæli því að iðnaðaruppbygging á borð við kísilver Stakksbergs fari aftur í gang í bakgarði mínum og tek undir athugasemdir sem umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur skilað og þeirra aðila sem styðja ekki áform Stakksbergs.“


Í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar sem vísað er til segir að ráðið telji að neikvæð umhverfisáhrif fylgi áætluðum breytingum á kísilverksmiðjunni og að þeim geti fylgt óþægindi, ónæði og mögulega neikvæð áhrif á heilsu íbúa. „Í ljósi forsögunnar er umhverfis- og skipulagsráð ekki sannfært um að áætlaðar mótvægisaðgerðir, sem eiga að auka rekstraröryggi verksmiðjunnar og minnka óþægindi íbúa vegna hennar, reynist fullnægjandi.“ Ráðið segist því ekki sammála niðurstöðum frummatsskýrslunnar og telur „mjög ólíklegt“ að efnahagsleg áhrif yrðu það mikil að þau vegi upp á móti þeim neikvæðu áhrifum sem gætu orðið á loftgæði, samfélag og heilsu.


Hér að neðan eru brot úr nokkrum athugasemdum ásamt þeim nöfnum sem undir þær eru skrifuð.


Bara „óveruleg áhrif“


„Að ósk Skipulagsstofnunar er íbúum Reykjanesbæjar nú boðið á björtustu dögum sumarsins að koma með athugasemdir sínar við tæplega 150 blaðsíðna frummatsskýrslu Stakksbergs. Til þess er ætlast að á skömmum tíma setji íbúar sig inn í flókna eðlis- og efnafræði, arkitektúr og reikningskúnstir. Allt þetta ferli hefði mátt einfalda í ljósi fyrri rekstrarreynslu og með hliðsjón af rekstri kísilversins á Bakka. Einfaldast hefði verið að spyrja spurningarinnar: Vilt þú kísilver í bakgarðinn hjá þér?


[...]


 Nú er það viðurkennd staðreynd að langvarandi og alvarlegir sjúkdómar koma ekki alltaf strax fram. Krabbamein vegna reykinga kemur ekki fram við fyrstu sígarettu sem reykt er, steinlungu vegna vinnu við asbest koma fram löngu eftir að viðkomandi hefur komist í snertingu við asbestið. Ekki treysta skýrsluhöfundar, sóttvarnalæknir né aðrir sem þekkja til eiturefna frá kísilframleiðslunni, sér til að fullyrða að heilsufarsleg áhrif á bæjarbúa verði engin. Skýrsluhöfundar sem lítið vit hafa á málinu segja bara „óveruleg áhrif“.


[...]


Þrátt fyrir mikla leit að eigin sögn hafa skýrsluhöfundar engar heimildir um rannsóknir á heilsufari íbúa í námunda við kísilver. Er það forsvaranlegt að heimila starfsemi þar sem vitað er að óþægindin eru til staðar en áhrifin eru ekki vituð? Við frábiðjum okkur slíka lýðheilsutilraun, þar sem heilsa íbúa Reykjanesbæjar verður lögð að veði. Lögmál eiturefnanna breytast ekki þótt nýir eigendur komi að kísilverinu.


 [...]


Þau munu hlæja dátt að stjórnkerfinu og ykkur samviskusama starfsfólki þess og skála í kampavíni við fagnaðarlæti takist þeim að koma þessum ósóma af stað á ný. Yfirgangur þeirra og lævís vinnubrögð eru ekki traustvekjandi og í raun óásættanleg fyrir okkur íbúa Reykjanesbæjar.“ – Sigurður T. Garðarsson og Hannes Friðriksson


Þurfti að leita læknis

„Eftir síðustu tilraunir með þessa verksmiðju þurfti ég að leita læknis og það er skráð í skýrslu læknis að eftir rannsóknir þá telji hann miklar líkur á því að erting í öndunarfærum mínum stafi af þessari verksmiðju.“ – Ragnhildur L. Guðmundsdóttir


Fann fyrir áhrifum

„Sem íbúi í Reykjanesbæ sem fann vel fyrir áhrifum af starfsemi kísilvers í Helguvík áður en því var lokað MÓTMÆLI ég þeirri iðnaðaruppbyggingu sem Stakksberg stendur fyrir við bæjarræturnar.“ – Jón Fannar Karlsson Taylor


Átti erfitt með að anda

„Ég fann fyrir miklum líkamlegum einkennum þegar kísilverið var starfrækt á sínum tíma. Erfiðleikar við öndun og óþægindi og sviðatilfinning í augum skertu mín lífsgæði og hömluðu mér frá því að vera úti í mínu eigin bæjarfélagi. Við hjónin eigum tvær dætur og sú yngri er með mjög viðkvæmt ónæmiskerfi og vil ég gera allt sem ég get til þess að hún þurfi ekki að upplifa þessi óþægindi sem fylgja þessari kísilverksmiðju.“ – Guðrún Lísa Einarsdóttir


Hélt börnunum inni

„Ég fann á eigin skinni óþægindi af völdum þessarar verksmiðju þegar hún fékk að ganga og ausa yfir bæjarbúa súrri, mengandi reykjarlykt. Á meðan þetta ástand varði hélt maður börnum inni og forðaðist það sjálfur að vera utandyra.“ – Guðmundur Árni Þórðarson


Auglýsing

Skelfilegt tímabil

„Þegar United Silicon ræsti sína verksmiðju á sínum tíma hófst skelfilegt tímabil hjá mér og minni fjölskyldu. Þó sérstaklega mér. [...]Mig sveið alltaf í hálsinn. Vaknaði á nóttunni hóstandi o.s.frv. Ég var farinn að laumast í gamalt astmapúst sem dóttir mín hafði fengið. Þetta vandamál var ekki til staðar fyrr en verksmiðjan fór í gang. [...]Eins með öndunarfærin þá var ég alltaf hálf rauðeygður. Augndropar urðu minn besti vinur á þessum tíma. [...] Lyktin fór ofboðslega illa í mig. Maður fann ekki einu sinni almennilega lyktina af matnum sem maður var að grilla. [...] Hvernig má réttlæta það að ég og mín fjölskylda þurfum allt í einu – og á Íslandi þar að auki – að berjast fyrir þeim grundvallarmannréttindum að anda að okkur hreinu lofti?“ – Atli Gylfason


Óttast um heilsu fjölskyldunnar

„Mótmæli mín byggja á fyrri reynslu og ótta um að heilsu fjölskyldu minnar muni hraka aftur ef kísilverið er gangsett á ný.“ – Karvel Granz


Gat ekki sett barnið út í vagn

„Ég bjó nálægt þynningarsvæðinu þegar kísilverksmiðjan var í gangi og var með barn hjá dagmömmu og á leikskólanum Vesturbergi. Það var grátlegt að geta ekki sett barn út í vagn, að þurfa að loka öllum gluggum til að reyna að loka eiturgufurnar úti og svo samviskubitið að setja barn þarna í leikskólann í þessari brælu. Það er fáránlegt að tekin sé þessi áhætta með heilsu og líf bæjarbúa.“ – Sigrún Birta Sigurðardóttir


Lenti í einu mengunarslysinu

„Ég lenti heldur betur í einu af mengunarslysunum þegar ég vaknaði um morgun og fannst ég hafa reykt haug af viðarkolum með pípu. Þá hafði einn ofninn bilað um nóttina og ég andað að mér reyknum sem streymdi inn um svefnherbergisgluggann. Ef ég þarf að fara að sofa með gasgrímu til að lifa nóttina af þá neyðist maður til að flytja úr landi.“ – Marteinn Einarsson


Fann veruleg óþægindi

„Ég varð fyrir verulegum óþægindum heilsufarslega af rekstri verksmiðjunnar vegna loftmengunar. [...] Ég hef búið í Keflavík alla mína tíð og þykir hart að vera hrakin á brott úr bænum með þessum hætti.“ – Guðrún Sigurveig Lúðvíksdóttir


Risaskorsteinn bætir lítið

 „Persónulega varð ég fyrir verulegri mengun vegna verksmiðjunnar meðan hún var starfrækt og sé ekki að ástandið verði betra þó að risaskorsteinn verði reistur.“ – Jóhannes Jensson


Kísilverið á Bakka hefur verið í erfiðleikum frá upphafi. Fyrr í sumar var tilkynnt um yfirvofandi en tímabundna lokun þess.
Sunna Ósk Logadóttir

Neyddust til að yfirgefa heimilið

„Áður en verksmiðjan var reist kynnti ég mér allt um hana mjög vel. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum átti þetta að vera besta og fullkomnasta kísilver sem reist hefur verið í heiminum. Mengun væri svo lítil að íbúar myndu ekki verða varir við hana. Eftir að hafa skoðað og kynnt mér umhverfismatið og fleira, þá hafði ég enga ástæðu til að mótmæla henni. Enda fannst mér hið besta mál að fá mengunarlausan iðnað í bæjarfélagið.


En fljótlega fór annað að koma í ljós, litla verksmiðjan (eins og hún var kynnt) reyndist vera hið mesta skrímsli sem gnæfir langt yfir það sem okkur var sýnt á myndum og teikningum. Og ekki skánaði það þegar verksmiðjan tók til starfa og byrjaði að dreifa yfir okkur bæjarbúa mengun – bæði í formi lyktar og einhverra efna sem urðu til þess að fjöldi fólks veiktist og þar á meðal heimilisfólk mitt.


Þrátt fyrir augljósa mengun héldu forsvarsmenn kísilversins því fram að engin mengun kæmi frá þeim og þetta væri fullkomnasta verksmiðja í heimi og var gefið í skyn að ég og aðrir sem urðu fyrir ónæði vegna mengunar værum ímyndunarveikir einstaklingar


[...]


Ég bý í 1.800 metra fjarlægð frá verksmiðjunni og fljótlega eftir að hún hóf starfsemi byrjuðu veikindi að herja á okkur fjölskylduna. Verst varð kona mín fyrir barðinu á þessum veikindum og á nokkrum vikum þurfti hún að leita í þrígang á [heilsugæslustöðina] vegna raddleysis og almenns slappleika. Við tengdum veikindi okkar ekki í fyrstu við kísilverið. Það var ekki fyrr en við áttuðum okkur á því að heilsa okkar lagaðist í hvert sinn sem kísilverið brann eða lenti í löngu stoppi. Í tvígang neyddumst við til að yfirgefa heimilið vegna þess að það var ekki líft í húsinu vegna ólyktar frá kísilverinu.


[...]


Þegar ég les yfir þessa nýju frummatsskýrslu Stakksbergs og Verkís þá finnst mér eins og að ég sé að lesa gömlu matsskýrslurnar frá Magnúsi Garðarssyni og United Silicon. Skýrslan er sett upp eins og að verksmiðjan sé lítið fjölskyldufyrirtæki sem enginn þurfi að hafa áhyggjur af.


[...]


Það skondna er að í skýrslunni virðist eins og Stakksberg telji sig mega menga andrúmsloftið vegna þess að í nágrenninu séu önnur fyrirtæki sem mengi líka. [...] Samkvæmt skýrslunni þá virðist Stakksberg lítið sem ekkert gera til að stöðva mengunina, þeirra töfraformúla er að dreifa henni betur. Það er að segja, þeir sem búa næst verksmiðjunni fá aðeins minni mengun en þeir sem búa fjær henni fá aðeins meiri mengun.


[...]


Ég tel mig eiga skýlausan rétt á að búa í heilsusamlegu umhverfi og tel mig eiga fullkominn rétt til heilsusamlegs lífs og að réttur minn sé tekinn fram yfir rétt Arion banka og Stakksbergs til að starfrækja þessa mengunarverksmiðju, þó hún sé komin með nýja kennitölu og Arion banki þurfi að græða aðeins meira. Að lokum vil ég koma með spurningu sem ég spurði Umhverfisstofnun að þegar mengunin frá kísilverinu var sem mest: Þegar ekki er líft í húsinu mínu fyrir mengun – hvað á ég að gera? Á ég að opna gluggana eða loka þeim eða á ég að yfirgefa húsið mitt á meðan mengunin er sem mest?“ – Guðmundur Guðbergsson


Kísilverksmiðjan í Helguvík er í nágrenni við íbúabyggð í Reykjanesbæ.
Af vef Verkís

Vill ekki anda inn eiturlofti

„Ég undirrituð vona innilega og ætlast til að þeir sem sjá um stjórnsýslu hér í Reykjanesbæ sjái eitthvað annað en mengandi stóriðju. Ég vil ekki anda að mér eiturlofti og vona að þið viljið það ekki heldur.“ – Helga P. Hrafnan Karlsdóttir


Frekar að rækta

„Mætti ég heldur biðja um grænan reit þar sem ræktun matvæla og lækningajurta á sér stað. Kyrrstaðan sem skapaðist í kjölfar COVID-19 sýndi það og sannaði að mengun jarðar er af mannavöldum og tími kominn til að snúa þessari þróun við.“ Magnea Ólafsdóttir


Ekki tilbúin að fórna heilsu dýra og manna

 „Það er engin trygging fyrir því að þetta verði betra og ég er ekki tilbúin að fórna heilsu minni, fjölskyldu minnar og hrossanna minna til að vera tilraunadýr fyrir stóriðju í bakgarðinum hjá mér. Held að sú tilraunastarfsemi hafi toppað sig með öllum mistökunum, lygunum, slysunum og lífsskerðingunni sem dundu yfir okkur íbúa síðastliðin ár. [...] Gerið okkur íbúum Reykjanesbæjar greiða með því að fjarlægja þessa verksmiðju úr bænum okkar, það verður aldrei sátt meðal íbúanna um þennan rekstur.“ – Hrönn Auður Gestsdóttir


Láta ekki blekkjast

„Íbúar í Reykjanesbæ láta ekki fagurgalann í þessari matsskýrslu blekkja sig og ég sem íbúi er alfarið á móti kísilveri Stakksbergs. [...] Ég vil ómengaðan Reykjanesbæ með góðum loftgæðum svo íbúar geti stundað heilsusamlega hreyfingu úti við án þess að heilsu þeirra sé stefnt í hættu. Þar af leiðandi tel ég að eini kosturinn fyrir Stakksberg sé að velja núllkostinn.“ – Margrét S. Þórólfsdóttir


Börnin þurfi ekki að alast upp við þetta

 „Þessi skýrsla er algjörlega óviðunandi eins og allar hinar skýrslurnar og allt sem við kemur þessu kísilveri. Það er á engan hátt ásættanlegt að bjóða íbúum þessa svæðis upp á þessa hörmung lengur. Ég bý í einungis kílómetra fjarlægð frá þessum viðbjóði. Ég á fjögur börn og ég vil ekki að þau þurfi að upplifa stórhættulega mengun, bæði lyktar- og efnismengun, frá þessari verksmiðju auk þess sem bæði leik- og grunnskóli barna minna er í þessu hverfi.“ – Guðný Húnbogadóttir og Gunnhildur Þórðardóttir


Hvað olli heilsubresti? 

„Ég tek undir ábendingu landlæknis um að vinna þurfi lýðheilsumat í tengslum við fyrirhugaðar endurbætur á kísilverksmiðjunni og fá álit sérfræðinga þar um. Ég tel einnig alveg ótækt að fara í framkvæmdir meðan ekki er ljóst hvað það var sem olli íbúum heilsubresti hjá fyrri rekstraraðilum.“ – Hrafnhildur Brynjólfsdóttir


Flytja ef ræst verður á ný

„Ég á langveikt barn sem er að kljást við lungnavandamál. Ég sé fram á heilsubrest hjá barninu mínu ef að áform um opnun og framtíðar stækkun þessa iðnaðar ná fram að ganga. Ég og fjölskylda mín sjáum okkur ekki annan kost en að flytja úr Keflavík ef svo fer að verksmiðjan verður endurræst.“ – Viggó Helgi Viggósson


Óskiljanleg þvermóðska

 „Nálægð verksmiðjunnar við íbúahverfi gerir mengunina enn verri og ég hugsa til þess með hryllingi að verða neyddur til að hafa alla glugga lokaða langtímum saman í NA-áttinni. Mér er óskiljanleg þessi þvermóðska Stakksbergs/Arion banka að vilja þröngva þessum viðbjóð upp á okkur bæjarbúa.“ – Gunnar Már Yngvason


Auglýsing

Skelfileg tímaskekkja

„Ég veit satt að segja ekki hvort maður á að hlæja eða gráta eftir lestur frummatsskýrslu Stakksbergs um endurbætur á kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík. Það er ekki nóg að setja fallegar tölur á blað, ekki nóg að færa þetta í fallegan búning. Þessi skýrsla minnir um margt á söguna um nýju fötin keisarans: Fallegar umbúðir, fögur fyrirheit – ekkert innihald. Bæjarbúar hafa áður fengið að heyra um „bestu fáanlegu tækni, enga loftmengun, að áhrif á aðra umhverfisþætti verði óveruleg“ og fleira í þeim dúr. Raunin varð allt önnur þegar verksmiðjan var reist og í ljósi þess geta bæjarbúar í Reykjanesbæ engan veginn treyst því að hörmungarsaga verksmiðjunnar í Helguvík muni ekki endurtaka sig, verði hún ræst að nýju.


[...]


Ég á við öndunarvandamál að stríða og þurfti oft að loka mig inni á meðan verksmiðjan var í gangi. Á góðviðrisdögum mátti ég hírast inni í steikjandi hita, loka öllum gluggum til að fá ekki óloftið inn til mín. [...] Ég þarf ekki að láta aðra segja mér hvernig mér líður, hvorki einhverja skýrsluhöfunda né heldur verksmiðjueigendur, sem hugsa bara um veskin sín en ekki heilsu bæjarbúa.


[...]


Verksmiðjan í Helguvík er einungis í 2 km fjarlægð frá byggð! Er það virkilega svo að 5 manna stjórn í fjármálafyrirtæki geti lögformlega hafið eiturefnaherferð á u.þ.b. 20 þúsund manna íbúabyggð í þeim eina tilgangi að græða peninga á því? [...] Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að rekstur kísilmálmverksmiðju, eins og þeirrar í Helguvík, er tímaskekkja. Skelfileg tímaskekkja.“ – Ástríður Helga Sigurðardóttir


Bæjarbúa vilja ekki verið

„Mikið lifandi skelfingar ósköp ætlar það að reynast Arionbanka/Stakksbergi erfitt að meðtaka þá staðreynd að bæjarbúar vilja ekki þessa verksmiðju yfir sig aftur. Þrátt fyrir nýja og stagbætta matsskýrslu og fögur fyrirheit um að allt verði betra en síðast hafa bæjarbúar engan áhuga á að taka sénsinn á að svo verði, skaðbrenndir eftir þær hörmungar sem þetta verksmiðjubrölt leiddi yfir þá síðast.[...] Dettur mönnum það virkilega í hug að bæjarbúar séu til í að fórna loftgæðum og þar með lífsgæðum sínum fyrir 70-80 störf? Jafnvel þótt atvinnuleysi sé 20% núna kemur þetta auðvitað ekki til greina. Þó það væri 40%! [...] Heilsu og lífsgæði 20 þúsund íbúa verður að taka fram yfir hagsmuni eins fjármálafyrirtækis.“ – Ellert Grétarsson, Georg H. Georgsson o.fl.


Hvað mynduð þið vilja?

 „Setjið ykkur í okkar spor og svarið heiðarlega spurningunni um hvort þið mynduð vilja hafa eiturspúandi verksmiðju við bæjardyrnar hjá ykkur.“ – Sumarrós Sigurðardóttir


Nei takk

„ Nei takk.“ – Guðrún Reynisdóttir


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent