Bára Huld Beck

Starfsmannaleigur á Íslandi: Frá Kárahnjúkum að Bræðraborgarstíg

Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð voru í fyrsta sinn hundruð starfsmanna hér á landi á vegum starfsmannaleigna. Ljótar sögur að austan urðu kveikjan að sérstakri löggjöf um þetta form ráðninga. Í uppganginum sem varð á Íslandi á síðari hluta áratugarins margfaldaðist fjöldi starfsmannaleigna og starfsmanna á þeirra vegum.

Eftir brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg í júní var tölu­vert rætt um starfs­manna­leigur í tengslum við aðbúnað erlends verka­fólks á hús­næð­is­mark­aði. Aðstæð­urnar sem starfs­menn á vegum sumra starfs­manna­l­eigna búa við hér á landi hafa í mörgum til­fellum þótt ófull­nægj­andi með öllu.

Þrátt fyrir að saga starfs­manna­l­eigna á Íslandi sé ekki löng hafa á síð­ustu árum alloft komið upp mál þar sem aðbún­aður og kjör erlendra starfs­manna þeirra hafa verið í brennid­epli.

Hús HD verks ehf. við Bræðra­borg­ar­stíg 1 hafði, rétt eins og fjögur önnur hús í eigu sömu aðila, hýst starfs­menn sem voru á Íslandi á vegum starfs­manna­l­eigna. Eng­inn starfs­maður á vegum starfs­manna­leigu var þó búsettur í hús­inu þann 25. júní, en ein­hverjir höfðu flutt út nokkru áður.

„Við­skipta­mód­elið þeirra hefur í áraraðir verið að leigja út hús­næði til starfs­manna starfs­manna­l­eigna og mörg þess­ara húsa eru ekki hæf til íbúð­ar,“ segir Benja­min Juli­an, starfs­maður stétt­ar­fé­lags­ins Efl­ing­ar, í sam­tali við Kjarn­ann. 

En hvað eru þessar starfs­manna­leig­ur, sem svo oft hefur verið fjallað um á und­an­förnum árum? Hver er saga þeirra hér á landi?

Inn­reið starfs­manna­l­eigna hófst fyrir alvöru að Kára­hnjúkum

Hug­takið starfs­manna­leiga var fyrst skil­greint í íslenskum lögum árið 2005, þegar sér­stök lög voru í fyrsta sinn sett um starf­semi þeirra. Þá, á miklum upp­gangs­tímum í íslensku efna­hags­lífi, hafði færst í vöxt að fyr­ir­tæki sem störf­uðu hér á landi nýttu sér þjón­ustu erlendra starf­manna­l­eigna til þess að fá fólk til starfa um skemmri eða lengri tíma.

Verið var að byggja Kára­hnjúka­virkj­un, stærstu vatns­afls­virkjun Evr­ópu. Uppi á hálendi Mið-Aust­ur­lands var fjöldi starfs­manna á vegum erlendra starfs­manna­l­eigna, eða að jafn­aði um það bil 500 erlendir verka­menn þegar mest var snemma á fram­kvæmda­tím­an­um. Ófagrar sögur komu upp á yfir­borðið um bág­bor­inn aðbúnað þeirra manna sem tóku þátt í því að byggja virkj­un­ina miklu sem nú knýr áfram álver Alcoa Fjarða­áls í Reyð­ar­firði.

Frá framkvæmdum við Kárahnjúka árið 2006. Fyrr á framkvæmdatímanum voru allt að 500 starfsmenn á vegum starfsmannaleigna á svæðinu á sama tíma.
Wikimedia Commons/Asgegg

Það voru þessar sög­ur, af slæmri með­ferð og svikum í garð útlend­inga sem hingað komu og unnu hættu­lega og krefj­andi vinnu við stíflu­gerð­ina eystra, sem urðu til þess að stjórn­mála­menn fóru að velta því fyrir sér að sníða sér­stakan lag­ara­mma utan um starfs­manna­leig­ur.

Stjórn­ar­and­staðan á þingi tók undir kröfur verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar um að grípa þyrfti í taumana og í upp­hafi árs 2004 kom fram þings­á­lykt­un­ar­til­laga frá þing­flokki Sam­fylk­ingar um að sér­stök lög yrðu sett um erlendar starfs­manna­leigur vegna mála sem komið höfðu upp á Kára­hnjúk­um. Aðal­lega voru þessi mál í tengslum við portú­gölsku starfs­manna­leig­una Sel­ect, sem þjón­u­staði ítalska aðal­verk­tak­ann Impreg­ilo um starfs­menn.

Í grein­ar­gerð með þings­á­lykt­un­ar­til­lög­unni var vísað til minnis­p­unkta full­trúa Starfs­greina­sam­bands Íslandi (SGS) um aðstæður verka­manna við Kára­hnjúka. Full­trúar SGS heim­sóttu svæðið og sögð­ust hafa greint mikla óánægju hjá starfs­mönnum með alla aðstöðu á vinnu­svæð­inu. „Því var margoft haldið fram af starfs­mönnum í við­ræðum við þá að raun­veru­leik­inn við Kára­hnjúka færi mjög í bága við gefin lof­orð við ráðn­ing­u,“ sagði meðal ann­ars í minnis­p­unkt­un­um.

Verk­taka­fyr­ir­tækið Impreg­ilo gerði miklar athuga­semdir við efni þings­á­lykt­un­ar­til­lög­unnar og sagði í umsögn þess til Alþingis að þar kæmu fram marg­hátt­að­ar, alvar­legar og rangar ásak­anir í garð fyr­ir­tæk­is­ins. Össur Skarp­héð­ins­son þáver­andi for­maður Sam­fylk­ingar brást við með því að segja við Morg­un­blaðið að umsögn Impreg­ilo væri fáheyrð, frá fyr­ir­tæki sem „sann­ar­lega hefur orðið sér til skammar hér á Íslandi með því að nota ósvífnar starfs­manna­leigur sem bein­línis hafa not­fært sér neyð fátæks verka­fólks.“

Auglýsing

Raf­iðn­að­ar­sam­band Íslands birti haustið 2005 færslu með punktum upp úr fund­ar­gerðum trún­að­ar­manns starfs­manna á Kára­hnjúka­svæð­inu á vef sín­um. Þau brot eru ljót lesn­ing.

Þar sagði meðal ann­ars frá því að for­stjóri íslensku starfs­manna­leig­unnar 2b ehf. hefði lagt til við verk­stjóra hjá einum und­ir­verk­taka á svæð­inu, að ef pólskir starfs­menn sem starfs­manna­leigan var að skaffa verk­taka­fyr­ir­tæk­inu væru með eitt­hvað múð­ur, skyldi hann bara lemja þá, þar sem því væru þeir van­ir. 

Þessi sama starfs­manna­leiga var árið 2006 dæmd til þess að greiða tólf Pól­verjum sem höfðu verið við störf á Kára­hnjúkum hátt á fjórðu milljón króna vegna van­gold­inna launa og and­virði flug­far­seðla til Pól­lands. 

For­stjóri 2b sagði sög­una af því að hann hefði mælt með því að starfs­menn sínir yrðu lamdir vera ein­hvers­konar mis­skiln­ing. „Ég sagði að tungu­mála­örð­ug­leikar yrðu framundan og að það þyrfti að sýna þeim góða verk­stjórn og góðan aga,“ sagði hann í við­tali við Vísi í októ­ber 2005.

Frá framkvæmdum við Kárahnjúka.
Wikimedia Commons/Christian Bickel

Formið sem þekk­ist nú á dögum varð til um 1950

Í aðdrag­anda þess að sér­stök lög voru sett um starf­semi starfs­manna­l­eigna vann Rann­sókna­setur vinnu­réttar og jafn­rétt­is­mála á Bif­röst grein­ar­gerð um starfs­manna­leigur fyrir félags­mála­ráðu­neyt­ið.

Þar segir að sögu starfs­manna­l­eigna megi rekja allt aftur til 17. ald­ar, en að það form sem þekkt­ist nú á dögum hefði orðið til um árið 1950 og mætti einkum rekja til Frakk­lands, Bret­lands, Hollands og Banda­ríkj­anna. Síðan þá hefði starf­semi starfs­manna­l­eigna öðl­ast æ meiri við­ur­kenn­ingu, eftir að hafa áður verið bönnuð víða um Evr­ópu lengi vel. Mik­ill vöxtur varð í fjölda starfa hjá starfs­manna­leigum á tíunda ára­tugn­um, en frá 1992-2002 fjölg­aði störfum á þeirra vegum um að minnsta kosti helm­ing í öllum ríkjum ESB. 

Í þeim ríkjum þar sem hlut­fall starfa á vegum starfs­manna­l­eigna var orðið hæst í Evr­ópu þarna skömmu eftir alda­mót var það komið yfir 2 pró­sent af öllum störfum á vinnu­mark­aði, sem á Íslandi myndi sam­svara hátt í 4 þús­und störf­um. Sam­kvæmt tölum frá Eurostat voru um 2,1 pró­sent af öllum störfum á evr­ópskum vinnu­mark­aði á vegum starfs­manna­l­eigna árið 2019.

Auglýsing

En þessi þróun hafði ekki nema að mjög tak­mörk­uðu leyti náð til Íslands, áður en fram­kvæmdir við bygg­ingu Kára­hnjúka­virkj­unar hófust. Árið 2005 var reyndar ekki að finna neinar opin­berar upp­lýs­ingar um það hvaða inn­lendu fyr­ir­tæki stund­uðu útleigu­starf­semi á vinnu­afli, en í grein­ar­gerð­inni sem unnin var fyrir félags­mála­ráðu­neytið sagði að svo virt­ist sem að um „sárafá fyr­ir­tæki“ væri að ræða.

Aðilar vinnu­mark­að­ar­ins voru ósam­mála um starfs­manna­leigur þegar verið var að und­ir­búa laga­setn­ing­una. Afstaða Alþýðu­sam­bands Íslands var sú að hefð­bundin ráðn­ing­ar­sam­bönd ættu að vera meg­in­reglan á vinnu­mark­aði, en nauð­syn­legt væri að hafa eft­ir­lit með starfs­manna­leig­um, gera þær leyf­is­skyldar og setja sér­stakar reglur um rétt­indi leigu­starfs­manna. Verka­lýðs­hreyf­ingin nálg­að­ist þetta nýja ráðn­ing­ar­form sem var óum­flýj­an­lega að verða til af nokk­urri var­kárni, eins og sam­tök launa­fólks í Evr­ópu höfðu gert lengi.

Atvinnu­rek­endur voru aftur á móti almennt fylgj­andi starf­semi starfs­manna­l­eigna, töldu hana nauð­syn­legan hluta sveigj­an­legs vinnu­mark­aðar og jákvæða leið til efl­ingar atvinnu. Sam­tök atvinnu­lífs­ins töldu að ekki bæri að tak­marka starf­semi starfs­manna­l­eigna eða setja sér­stakar reglur um útleigu­starf­semi.

Lög um starfsmannaleigur voru samþykkt á Alþingi í lok árs 2005.
Birgir Þór Harðarson

Lögin um starfs­manna­leigur voru sam­þykkt í árs­lok 2005 og með þeim voru settar lág­marks­reglur um starf­semi þeirra, sem fela meðal ann­ars í sér að bannað er að greiða starfs­manni starfs­manna­leigu lægri laun en ef hann væri ráð­inn beint til not­enda­fyr­ir­tæk­is­ins og sömu­leiðis bannað að láta starfs­fólk greiða fyrir vinnu sína með nokkrum hætti. Starfs­manna­leigum var einnig gert að skrá starf­semi sína og Vinnu­mála­stofnun ætlað að hafa eft­ir­lit með fram­kvæmd lag­anna.

Ekki allir fara eftir lög­unum

Miðað við þau mál sem upp hafa komið á und­an­förnum árum og kast­ljós fjöl­miðla beinst að með reglu­legu milli­bili virð­ist eft­ir­litið því miður ekki gera mikið til þess að fæla þá stjórn­endur starfs­manna­l­eigna, sem eru ákveðnir í að hafa með ein­hverjum hætti rangt við gagn­vart starfs­mönnum sín­um, frá því að gera nákvæm­lega það. Það virð­ist alltaf ein­hver hluti ekki spila eftir regl­unum sem eru til stað­ar.

„Það er svona til­finn­ing okkar að það sé minnsta kosti einn þriðji af þeim starfs­manna­leigum sem við erum að þjón­usta, eða glíma við skulum við orða það, eru ekki að greiða laun í sam­ræmi við kjara­samn­inga,“ sagði Gissur Pét­urs­son þáver­andi for­stjóri Vinnu­mála­stofn­unar við Stöð 2 árið 2017, þegar fjöldi skráðra starfs­manna­l­eigna var búinn að vaxa hratt á örfáum árum.

For­svars­maður einnar starfs­manna­leigu, Íslenskrar verk­miðl­un­ar, ræddi málið í ítar­legri úttekt á vax­andi starf­semi starfs­manna­l­eigna í Spegl­inum á RÚV árið 2017. Hann sagði að fyr­ir­tæki með ein­beittan brota­vilja gætu auð­veld­lega blekkt eft­ir­lits­stofn­anir og boðið starfs­mönnum sínum upp á lægri laun en þeir ættu að vera með lögum sam­kvæmt. Sem nátt­úr­lega skekkir sam­keppn­ina fyrir þá sem vilja starfa lögum sam­kvæmt í þessum geira.

Þónokkur mál varð­andi vafa­sama starfs­hætti ákveð­inna starfs­manna­l­eigna hafa komið fram í fjöl­miðlum á und­an­förnum árum. Mörg mál­anna tengj­ast fyrr­ver­andi eig­endum Verk­leig­unn­ar, sem þau Ingi­mar Skúli Sæv­ars­son og Halla Rut Bjarna­dóttir stofn­uðu saman árið 2016. Sam­starfi þeirra lauk í illu ári síðar og Verk­leigan fór í þrot 2018. 

Bára Huld Beck

Ingi­mar Skúli var nýlega dæmdur í tveggja ára skil­orðs­bund­ið fang­elsi fyrir meðal ann­ars meiri­háttar brot gegn skatta­lögum í starf­semi Verk­leig­unn­ar. Starfs­manna­leigan Mann­gildi, sem Ingi­mar Skúli stofn­aði eftir Verk­leigan fór í þrot, var einnig úrskurðuð gjald­þrota í fyrra. 

Mál henni tengt var um tíma á borði lög­reglu, sem hafði grun um að níu starfs­menn starfs­manna­leig­unnar væru hér á fölsuðum skíl­ríkjum og réðst í umfangs­mikla aðgerð þar sem Ingi­mar var hand­tek­inn. Hann hafn­aði því að hafa haft nokkra minnstu vit­neskju um að skíl­ríkin væru ekki í lagi.

Halla Rut hætti hjá Verk­leig­unni og stofn­aði í kjöl­farið sína eigin starfs­manna­leigu, Menn í vinnu. Sú starfs­manna­leiga var á meðal þess sem var fjallað um í þætti Kveiks um skugga­hliðar íslensks vinnu­mark­aðar árið 2018. 

Þar var meðal ann­ars talað við Sand­ri­us, þrí­tugan Lit­háa, sem lýsti því í þætt­inum að hann hefði haft búsetu bæði við Bræðra­borg­ar­stíg 1 og 3, ásamt um 30 sam­löndum sín­um. Það var á þeim tíma sem hann starf­aði fyrir Verk­leig­una og síðar Menn í vinnu.

Reynir á nýtt ákvæði um keðju­á­byrgð í fyrsta sinn

Menn í vinnu komust svo aftur í fréttir í upp­hafi árs 2019, þegar hópur Rúm­ena lýsti slæmri með­ferð í sinn garð. Eftir að það mál kom upp fór í fyrsta sinn af stað mál þar sem reynir á nýtt laga­á­kvæði um keðju­á­byrgð varð­andi starf­semi starfs­manna­l­eigna.

Ákvæðið felur í sér að not­enda­fyr­ir­tæk­ið, sem kaupir þjón­ustu af starfs­manna­leig­unni, er gert laga­lega ábyrgt fyrir því að kjör og aðstæður starfs­mann­anna sem það leigir séu sóma­sam­leg.

Hús HD verks við Bræðraborgarstíg hafði hýst starfsmenn Verkleigunnar, Manna í vinnu og Seiglu.
Golli

Stétt­ar­fé­lagið Efl­ing gekk á eftir því að fyr­ir­tæki sem hefðu fengið þessa starfs­menn til sín ábyrgð­ust kaup og kjör þeirra, fyrst að Menn í vinnu hefðu ekki gert það. Öll urðu þau við því nema fyr­ir­tækið Eldum rétt, sem Efl­ing stefndi svo ásamt starfs­manna­leig­unni, sem var úrskurðuð gjald­þrota í lok árs 2019.

Eldum rétt brást við stefnu Efl­ingar á hendur sér með því að benda á eft­ir­lits­að­il­ann Vinnu­mála­stofnun og halda því fram að það væri stofn­un­ar­innar að tryggja að það væri allt í sóm­anum í starf­semi starfs­manna­leig­unn­ar.

„Heil­brigð­is­vott­orð er ekki gefið út hér,“ sagði Unnur Sverr­is­dóttir for­stjóri Vinnu­mála­stofn­unar spurð út í þessi ummæli í sam­tali við mbl.is. „Fyr­ir­tæki geta sjálf kallað eft­ir launa­­seðlum og ættu sjálf að geta séð á reikn­ing­un­um frá starfs­­manna­­leig­unni hvort að þau telji vís­bend­ing­ar um að þetta séu laun sem eru í lagi. Eða þau geta spurt starfs­­menn­ina sjálfa. Það eru ákveðnar skyld­ur á þeim lík­a,“ sagði Unn­ur.

Auglýsing

Mál Efl­ingar gegn Eldum rétt og for­svars­mönnum Manna í vinnu er enn óút­kljáð fyrir dóm­stól­um. Stétt­ar­fé­lagið hefur vakið athygli á því að Seigla, ný starfs­manna­leiga með tengt eign­ar­hald, sé nú starf­andi. Starfs­menn á vegum þess félags hafa haft búsetu í húsum á vegum HD verks, meðal ann­ars að Bræðra­borg­ar­stíg 1.

Sveifl­ast eftir takti efna­hags­lífs­ins

Umsvif í starfs­manna­leigu­brans­anum á Íslandi hafa þró­ast í takti við stöðu efna­hags­mála, þegar hjól atvinnu­lífs­ins snú­ast af krafti eykst þörfin fyrir skamm­tíma­vinnu­afl hjá íslenskum fyr­ir­tækj­um.

Aukn­ing varð á fjölda starfs­manna á vegum starfs­manna­l­eigna á árunum fyrir efna­hags­hrunið 2008, en svo hrundi fjöld­inn í nokkur ár, þegar íslenskt efna­hags­líf var í hægag­and­i. 

Aukn­ingin fyrir hrun var þó ekk­ert í sam­an­burði við þá spreng­ingu í fjölda starfs­manna sem kom til lands­ins til vinnu á vegum starfs­manna­l­eigna í ferðu­mennsku­góð­ær­inu á síð­ari hluta ára­tug­ar­ins sem er að líða. Núna er nið­ur­sveifla hafin og starfs­mönnum starfs­manna­l­eigna hér á landi hefur fækk­að, en þeir eru þó enn margir í sögu­legu sam­hengi.

Í októ­ber voru 22 starfs­manna­leigur skráðar starf­andi hér­lendis sam­kvæmt nýj­ustu mán­að­ar­skýrslu Vinnu­mála­stofn­unar og starfs­menn­irnir 458 tals­ins. Flestir komu þeir frá Pól­landi eða rúm 40 pró­sent, 27 pró­sent frá Litáen og 18 pró­sent frá Lett­landi.

Tölur á vef Vinnu­mála­stofn­unar sýna hvernig umsvif starfs­manna­l­eigna á Íslandi marg­föld­uð­ust í upp­sveifl­unni sem varð hér á síð­ari hluta þessa ára­tug­ar. 

Allt árið 2014 störf­uðu sam­tals 22 starfs­menn á vegum fjög­urra starfs­manna­l­eigna sem voru skráðar hjá stofn­un­inni, en árið 2018 voru þeir 3.582 á vegum fjöru­tíu og eins fyr­ir­tæk­is.

Mik­ill vöxtur varð þannig í þessum geira sam­hliða örum vexti í ferða­þjón­ustu og bygg­ing­ar­starf­semi, ekki síst á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Allt setti þetta auk­inn þrýst­ing á hús­næð­is­mark­að­inn í borg­inni og ýtti upp verð­um, á sama tíma og hús­næði vant­aði fyrir þús­undir erlendra rík­is­borg­ara sem komu til Íslands til þess að knýja áfram íslenska góð­ærið, í störfum fyrir starfs­manna­leigur og aðra.

Því miður hafa margir þeirra sem hingað koma til þess að vinna til skemmri eða lengri tíma orðið að sætta sig við að búa í hús­næði sem stenst ekki þær kröfur sem auð­uga sam­fé­lagið okkar hefur sniðið sér um manna­bú­staði. Bræðra­borg­ar­stígur 1 var eitt þeirra húsa.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar