Bára Huld Beck

Starfsmannaleigur á Íslandi: Frá Kárahnjúkum að Bræðraborgarstíg

Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð voru í fyrsta sinn hundruð starfsmanna hér á landi á vegum starfsmannaleigna. Ljótar sögur að austan urðu kveikjan að sérstakri löggjöf um þetta form ráðninga. Í uppganginum sem varð á Íslandi á síðari hluta áratugarins margfaldaðist fjöldi starfsmannaleigna og starfsmanna á þeirra vegum.

Eftir brunann á Bræðraborgarstíg í júní var töluvert rætt um starfsmannaleigur í tengslum við aðbúnað erlends verkafólks á húsnæðismarkaði. Aðstæðurnar sem starfsmenn á vegum sumra starfsmannaleigna búa við hér á landi hafa í mörgum tilfellum þótt ófullnægjandi með öllu.

Þrátt fyrir að saga starfsmannaleigna á Íslandi sé ekki löng hafa á síðustu árum alloft komið upp mál þar sem aðbúnaður og kjör erlendra starfsmanna þeirra hafa verið í brennidepli.

Hús HD verks ehf. við Bræðraborgarstíg 1 hafði, rétt eins og fjögur önnur hús í eigu sömu aðila, hýst starfsmenn sem voru á Íslandi á vegum starfsmannaleigna. Enginn starfsmaður á vegum starfsmannaleigu var þó búsettur í húsinu þann 25. júní, en einhverjir höfðu flutt út nokkru áður.

„Viðskiptamódelið þeirra hefur í áraraðir verið að leigja út húsnæði til starfsmanna starfsmannaleigna og mörg þessara húsa eru ekki hæf til íbúðar,“ segir Benjamin Julian, starfsmaður stéttarfélagsins Eflingar, í samtali við Kjarnann. 

En hvað eru þessar starfsmannaleigur, sem svo oft hefur verið fjallað um á undanförnum árum? Hver er saga þeirra hér á landi?

Innreið starfsmannaleigna hófst fyrir alvöru að Kárahnjúkum

Hugtakið starfsmannaleiga var fyrst skilgreint í íslenskum lögum árið 2005, þegar sérstök lög voru í fyrsta sinn sett um starfsemi þeirra. Þá, á miklum uppgangstímum í íslensku efnahagslífi, hafði færst í vöxt að fyrirtæki sem störfuðu hér á landi nýttu sér þjónustu erlendra starfmannaleigna til þess að fá fólk til starfa um skemmri eða lengri tíma.

Verið var að byggja Kárahnjúkavirkjun, stærstu vatnsaflsvirkjun Evrópu. Uppi á hálendi Mið-Austurlands var fjöldi starfsmanna á vegum erlendra starfsmannaleigna, eða að jafnaði um það bil 500 erlendir verkamenn þegar mest var snemma á framkvæmdatímanum. Ófagrar sögur komu upp á yfirborðið um bágborinn aðbúnað þeirra manna sem tóku þátt í því að byggja virkjunina miklu sem nú knýr áfram álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Frá framkvæmdum við Kárahnjúka árið 2006. Fyrr á framkvæmdatímanum voru allt að 500 starfsmenn á vegum starfsmannaleigna á svæðinu á sama tíma.
Wikimedia Commons/Asgegg

Það voru þessar sögur, af slæmri meðferð og svikum í garð útlendinga sem hingað komu og unnu hættulega og krefjandi vinnu við stíflugerðina eystra, sem urðu til þess að stjórnmálamenn fóru að velta því fyrir sér að sníða sérstakan lagaramma utan um starfsmannaleigur.

Stjórnarandstaðan á þingi tók undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að grípa þyrfti í taumana og í upphafi árs 2004 kom fram þingsályktunartillaga frá þingflokki Samfylkingar um að sérstök lög yrðu sett um erlendar starfsmannaleigur vegna mála sem komið höfðu upp á Kárahnjúkum. Aðallega voru þessi mál í tengslum við portúgölsku starfsmannaleiguna Select, sem þjónustaði ítalska aðalverktakann Impregilo um starfsmenn.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni var vísað til minnispunkta fulltrúa Starfsgreinasambands Íslandi (SGS) um aðstæður verkamanna við Kárahnjúka. Fulltrúar SGS heimsóttu svæðið og sögðust hafa greint mikla óánægju hjá starfsmönnum með alla aðstöðu á vinnusvæðinu. „Því var margoft haldið fram af starfsmönnum í viðræðum við þá að raunveruleikinn við Kárahnjúka færi mjög í bága við gefin loforð við ráðningu,“ sagði meðal annars í minnispunktunum.

Verktakafyrirtækið Impregilo gerði miklar athugasemdir við efni þingsályktunartillögunnar og sagði í umsögn þess til Alþingis að þar kæmu fram margháttaðar, alvarlegar og rangar ásakanir í garð fyrirtækisins. Össur Skarphéðinsson þáverandi formaður Samfylkingar brást við með því að segja við Morgunblaðið að umsögn Impregilo væri fáheyrð, frá fyrirtæki sem „sannarlega hefur orðið sér til skammar hér á Íslandi með því að nota ósvífnar starfsmannaleigur sem beinlínis hafa notfært sér neyð fátæks verkafólks.“

Auglýsing

Rafiðnaðarsamband Íslands birti haustið 2005 færslu með punktum upp úr fundargerðum trúnaðarmanns starfsmanna á Kárahnjúkasvæðinu á vef sínum. Þau brot eru ljót lesning.

Þar sagði meðal annars frá því að forstjóri íslensku starfsmannaleigunnar 2b ehf. hefði lagt til við verkstjóra hjá einum undirverktaka á svæðinu, að ef pólskir starfsmenn sem starfsmannaleigan var að skaffa verktakafyrirtækinu væru með eitthvað múður, skyldi hann bara lemja þá, þar sem því væru þeir vanir. 

Þessi sama starfsmannaleiga var árið 2006 dæmd til þess að greiða tólf Pólverjum sem höfðu verið við störf á Kárahnjúkum hátt á fjórðu milljón króna vegna vangoldinna launa og andvirði flugfarseðla til Póllands. 

Forstjóri 2b sagði söguna af því að hann hefði mælt með því að starfsmenn sínir yrðu lamdir vera einhverskonar misskilning. „Ég sagði að tungumálaörðugleikar yrðu framundan og að það þyrfti að sýna þeim góða verkstjórn og góðan aga,“ sagði hann í viðtali við Vísi í október 2005.

Frá framkvæmdum við Kárahnjúka.
Wikimedia Commons/Christian Bickel

Formið sem þekkist nú á dögum varð til um 1950

Í aðdraganda þess að sérstök lög voru sett um starfsemi starfsmannaleigna vann Rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála á Bifröst greinargerð um starfsmannaleigur fyrir félagsmálaráðuneytið.

Þar segir að sögu starfsmannaleigna megi rekja allt aftur til 17. aldar, en að það form sem þekktist nú á dögum hefði orðið til um árið 1950 og mætti einkum rekja til Frakklands, Bretlands, Hollands og Bandaríkjanna. Síðan þá hefði starfsemi starfsmannaleigna öðlast æ meiri viðurkenningu, eftir að hafa áður verið bönnuð víða um Evrópu lengi vel. Mikill vöxtur varð í fjölda starfa hjá starfsmannaleigum á tíunda áratugnum, en frá 1992-2002 fjölgaði störfum á þeirra vegum um að minnsta kosti helming í öllum ríkjum ESB. 

Í þeim ríkjum þar sem hlutfall starfa á vegum starfsmannaleigna var orðið hæst í Evrópu þarna skömmu eftir aldamót var það komið yfir 2 prósent af öllum störfum á vinnumarkaði, sem á Íslandi myndi samsvara hátt í 4 þúsund störfum. Samkvæmt tölum frá Eurostat voru um 2,1 prósent af öllum störfum á evrópskum vinnumarkaði á vegum starfsmannaleigna árið 2019.

Auglýsing

En þessi þróun hafði ekki nema að mjög takmörkuðu leyti náð til Íslands, áður en framkvæmdir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar hófust. Árið 2005 var reyndar ekki að finna neinar opinberar upplýsingar um það hvaða innlendu fyrirtæki stunduðu útleigustarfsemi á vinnuafli, en í greinargerðinni sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið sagði að svo virtist sem að um „sárafá fyrirtæki“ væri að ræða.

Aðilar vinnumarkaðarins voru ósammála um starfsmannaleigur þegar verið var að undirbúa lagasetninguna. Afstaða Alþýðusambands Íslands var sú að hefðbundin ráðningarsambönd ættu að vera meginreglan á vinnumarkaði, en nauðsynlegt væri að hafa eftirlit með starfsmannaleigum, gera þær leyfisskyldar og setja sérstakar reglur um réttindi leigustarfsmanna. Verkalýðshreyfingin nálgaðist þetta nýja ráðningarform sem var óumflýjanlega að verða til af nokkurri varkárni, eins og samtök launafólks í Evrópu höfðu gert lengi.

Atvinnurekendur voru aftur á móti almennt fylgjandi starfsemi starfsmannaleigna, töldu hana nauðsynlegan hluta sveigjanlegs vinnumarkaðar og jákvæða leið til eflingar atvinnu. Samtök atvinnulífsins töldu að ekki bæri að takmarka starfsemi starfsmannaleigna eða setja sérstakar reglur um útleigustarfsemi.

Lög um starfsmannaleigur voru samþykkt á Alþingi í lok árs 2005.
Birgir Þór Harðarson

Lögin um starfsmannaleigur voru samþykkt í árslok 2005 og með þeim voru settar lágmarksreglur um starfsemi þeirra, sem fela meðal annars í sér að bannað er að greiða starfsmanni starfsmannaleigu lægri laun en ef hann væri ráðinn beint til notendafyrirtækisins og sömuleiðis bannað að láta starfsfólk greiða fyrir vinnu sína með nokkrum hætti. Starfsmannaleigum var einnig gert að skrá starfsemi sína og Vinnumálastofnun ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Ekki allir fara eftir lögunum

Miðað við þau mál sem upp hafa komið á undanförnum árum og kastljós fjölmiðla beinst að með reglulegu millibili virðist eftirlitið því miður ekki gera mikið til þess að fæla þá stjórnendur starfsmannaleigna, sem eru ákveðnir í að hafa með einhverjum hætti rangt við gagnvart starfsmönnum sínum, frá því að gera nákvæmlega það. Það virðist alltaf einhver hluti ekki spila eftir reglunum sem eru til staðar.

„Það er svona tilfinning okkar að það sé minnsta kosti einn þriðji af þeim starfsmannaleigum sem við erum að þjónusta, eða glíma við skulum við orða það, eru ekki að greiða laun í samræmi við kjarasamninga,“ sagði Gissur Pétursson þáverandi forstjóri Vinnumálastofnunar við Stöð 2 árið 2017, þegar fjöldi skráðra starfsmannaleigna var búinn að vaxa hratt á örfáum árum.

Forsvarsmaður einnar starfsmannaleigu, Íslenskrar verkmiðlunar, ræddi málið í ítarlegri úttekt á vaxandi starfsemi starfsmannaleigna í Speglinum á RÚV árið 2017. Hann sagði að fyrirtæki með einbeittan brotavilja gætu auðveldlega blekkt eftirlitsstofnanir og boðið starfsmönnum sínum upp á lægri laun en þeir ættu að vera með lögum samkvæmt. Sem náttúrlega skekkir samkeppnina fyrir þá sem vilja starfa lögum samkvæmt í þessum geira.

Þónokkur mál varðandi vafasama starfshætti ákveðinna starfsmannaleigna hafa komið fram í fjölmiðlum á undanförnum árum. Mörg málanna tengjast fyrrverandi eigendum Verkleigunnar, sem þau Ingimar Skúli Sævarsson og Halla Rut Bjarnadóttir stofnuðu saman árið 2016. Samstarfi þeirra lauk í illu ári síðar og Verkleigan fór í þrot 2018. 

Bára Huld Beck

Ingimar Skúli var nýlega dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir meðal annars meiriháttar brot gegn skattalögum í starfsemi Verkleigunnar. Starfsmannaleigan Manngildi, sem Ingimar Skúli stofnaði eftir Verkleigan fór í þrot, var einnig úrskurðuð gjaldþrota í fyrra. 

Mál henni tengt var um tíma á borði lögreglu, sem hafði grun um að níu starfsmenn starfsmannaleigunnar væru hér á fölsuðum skílríkjum og réðst í umfangsmikla aðgerð þar sem Ingimar var handtekinn. Hann hafnaði því að hafa haft nokkra minnstu vitneskju um að skílríkin væru ekki í lagi.

Halla Rut hætti hjá Verkleigunni og stofnaði í kjölfarið sína eigin starfsmannaleigu, Menn í vinnu. Sú starfsmannaleiga var á meðal þess sem var fjallað um í þætti Kveiks um skuggahliðar íslensks vinnumarkaðar árið 2018. 

Þar var meðal annars talað við Sandrius, þrítugan Litháa, sem lýsti því í þættinum að hann hefði haft búsetu bæði við Bræðraborgarstíg 1 og 3, ásamt um 30 samlöndum sínum. Það var á þeim tíma sem hann starfaði fyrir Verkleiguna og síðar Menn í vinnu.

Reynir á nýtt ákvæði um keðjuábyrgð í fyrsta sinn

Menn í vinnu komust svo aftur í fréttir í upphafi árs 2019, þegar hópur Rúmena lýsti slæmri meðferð í sinn garð. Eftir að það mál kom upp fór í fyrsta sinn af stað mál þar sem reynir á nýtt lagaákvæði um keðjuábyrgð varðandi starfsemi starfsmannaleigna.

Ákvæðið felur í sér að notendafyrirtækið, sem kaupir þjónustu af starfsmannaleigunni, er gert lagalega ábyrgt fyrir því að kjör og aðstæður starfsmannanna sem það leigir séu sómasamleg.

Hús HD verks við Bræðraborgarstíg hafði hýst starfsmenn Verkleigunnar, Manna í vinnu og Seiglu.
Golli

Stéttarfélagið Efling gekk á eftir því að fyrirtæki sem hefðu fengið þessa starfsmenn til sín ábyrgðust kaup og kjör þeirra, fyrst að Menn í vinnu hefðu ekki gert það. Öll urðu þau við því nema fyrirtækið Eldum rétt, sem Efling stefndi svo ásamt starfsmannaleigunni, sem var úrskurðuð gjaldþrota í lok árs 2019.

Eldum rétt brást við stefnu Eflingar á hendur sér með því að benda á eftirlitsaðilann Vinnumálastofnun og halda því fram að það væri stofnunarinnar að tryggja að það væri allt í sómanum í starfsemi starfsmannaleigunnar.

„Heil­brigðis­vott­orð er ekki gefið út hér,“ sagði Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar spurð út í þessi ummæli í samtali við mbl.is. „Fyr­ir­tæki geta sjálf kallað eft­ir launa­seðlum og ættu sjálf að geta séð á reikn­ing­un­um frá starfs­manna­leig­unni hvort að þau telji vís­bend­ing­ar um að þetta séu laun sem eru í lagi. Eða þau geta spurt starfs­menn­ina sjálfa. Það eru ákveðnar skyld­ur á þeim líka,“ sagði Unnur.

Auglýsing

Mál Eflingar gegn Eldum rétt og forsvarsmönnum Manna í vinnu er enn óútkljáð fyrir dómstólum. Stéttarfélagið hefur vakið athygli á því að Seigla, ný starfsmannaleiga með tengt eignarhald, sé nú starfandi. Starfsmenn á vegum þess félags hafa haft búsetu í húsum á vegum HD verks, meðal annars að Bræðraborgarstíg 1.

Sveiflast eftir takti efnahagslífsins

Umsvif í starfsmannaleigubransanum á Íslandi hafa þróast í takti við stöðu efnahagsmála, þegar hjól atvinnulífsins snúast af krafti eykst þörfin fyrir skammtímavinnuafl hjá íslenskum fyrirtækjum.

Aukning varð á fjölda starfsmanna á vegum starfsmannaleigna á árunum fyrir efnahagshrunið 2008, en svo hrundi fjöldinn í nokkur ár, þegar íslenskt efnahagslíf var í hægagandi. 

Aukningin fyrir hrun var þó ekkert í samanburði við þá sprengingu í fjölda starfsmanna sem kom til landsins til vinnu á vegum starfsmannaleigna í ferðumennskugóðærinu á síðari hluta áratugarins sem er að líða. Núna er niðursveifla hafin og starfsmönnum starfsmannaleigna hér á landi hefur fækkað, en þeir eru þó enn margir í sögulegu samhengi.

Í október voru 22 starfsmannaleigur skráðar starfandi hérlendis samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar og starfsmennirnir 458 talsins. Flestir komu þeir frá Póllandi eða rúm 40 prósent, 27 prósent frá Litáen og 18 prósent frá Lettlandi.

Tölur á vef Vinnumálastofnunar sýna hvernig umsvif starfsmannaleigna á Íslandi margfölduðust í uppsveiflunni sem varð hér á síðari hluta þessa áratugar. 

Allt árið 2014 störfuðu samtals 22 starfsmenn á vegum fjögurra starfsmannaleigna sem voru skráðar hjá stofnuninni, en árið 2018 voru þeir 3.582 á vegum fjörutíu og eins fyrirtækis.

Mikill vöxtur varð þannig í þessum geira samhliða örum vexti í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Allt setti þetta aukinn þrýsting á húsnæðismarkaðinn í borginni og ýtti upp verðum, á sama tíma og húsnæði vantaði fyrir þúsundir erlendra ríkisborgara sem komu til Íslands til þess að knýja áfram íslenska góðærið, í störfum fyrir starfsmannaleigur og aðra.

Því miður hafa margir þeirra sem hingað koma til þess að vinna til skemmri eða lengri tíma orðið að sætta sig við að búa í húsnæði sem stenst ekki þær kröfur sem auðuga samfélagið okkar hefur sniðið sér um mannabústaði. Bræðraborgarstígur 1 var eitt þeirra húsa.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar