Tugmilljörðum varið í að gera Champs-Élysées að betri stað
Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar staðfesti í viðtali sem birtist á sunnudag að hún ætlaði að standa við loforð og gera breiðstrætið Champs-Élysées grænna og mannvænlegra. Áformin eru verðmetin á tæpa 40 milljarða íslenskra króna.
Borgaryfirvöld í París hafa boðað að á þessum áratug verði ráðist í mikla umbreytingu á hinni sögufrægu breiðgötu, Champs-Élysées, sem flestir kenna eflaust við Sigurbogann, hið mikla mannvirki og túristasegul sem stendur á ógnarstóru hringtorgi við enda breiðstrætisins. Á hinum endanum er Concorde-torg, annað þekkt kennileiti borgarinnar.
Nefnd skipuð kaupmönnum og fasteignaeigendum við breiðgötuna og nágrenni hennar hefur á undanförnum árum barist fyrir því að eitthvað verði gert til þess að fegra götuna, sem hefur ekki fengið andlitslyftingu að ráði síðustu þrjá áratugi.
Að frumkvæði þessa hóps sem starfar og býr í grennd við götuna var arkiktektastofan PCA-Stream fengin til þess, árið 2018, að hefja vinnu við að teikna upp nútímalegri, grænni og mannlegri götumynd, sem gæti gefið Champs-Élysées og nágrenni nýtt líf.
Gangstéttirnar eru farnar að láta á sjá og gatan er alltaf full af mengandi bílum með tilheyrandi slæmum loftgæðum og hljóðmengun sem hraðri umferð þeirra fylgja. Um 3.000 bílar, sem fæstir stoppa í grenndinni heldur bruna eitthvert annað, aka um breiðar göturnar á hverri klukkustund að meðaltali yfir daginn.
Arkitektinn Philippe Chiambaretta, eigandi PCA-Stream, ræddi við breska blaðið Guardian um áformin árið 2019. Þá sagði hann að staða breiðgötunnar endurspeglaði í raun öll helstu vandamál borga um allan heim: „Mengun, staða bílsins, túrismi og neysluaukningarstefna.“
Parísarbúar hættir að koma
Í rannsóknum á vegum arkitektastofunnar hefur komið fram að Parísarbúar séu meira og minna hættir að heimsækja götuna. Samkvæmt vettvangskönnun sem gerð var frá morgni dags og fram að miðnætti voru 68 prósent þeirra sem voru á götunni ferðamenn, að mestu leyti útlendingar, eflaust mættir að taka sjálfsmyndir fyrir framan Sigurbogann.
Fáir Parísarbúar koma núorðið í þetta sögufræga stræti til þess að njóta borgarinnar sinnar, versla eða setjast inn á kaffihús. Þeir fara annað. Þessu langar fólki til þess að breyta.
Borgarstjóri tekur breiðstrætið upp á sína arma
Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar boðaði fyrir kosningar á síðasta ári, þar sem hún sóttist eftir endurkjöri, að hún myndi koma tillögunum frá PCA-Stream í farveg og breyta ásýnd Champs-Élysées. Hidalgo hefur nú staðfest að það sé ætlan sín að ráðast í verkið, en það gerði hún í viðtali í ritinu Journal du Dimanche á sunnudag.
Hún sagði að það yrði þó ekki farið af stað með umbreytinguna fyrr en eftir árið 2024, en þá mun Parísarborg hýsa Ólympíuleikana. Illt væri að hafa allt sundurgrafið og óklárað þegar sá stórviðburður fer fram í borginni.
Samkvæmt frétt Guardian verður þó byrjað á því að klára umbreytingu Concorde-torgs fyrir Ólympíuleikana. Síðan er gert ráð fyrir að taka breiðstrætið í gegn og ljúka umbreytingu Champs-Élysées fyrir árið 2030.
Framkvæmdirnar sem PCA-Stream sér fyrir sér eru verðmetnar á um það bil 250 milljónir evra, jafnvirði hátt í 40 milljarða íslenskra króna.
Umbreyting Parísar undir stjórn Hidalgo
Anne Hidalgo hefur verið borgarstjóri í París allt frá árinu 2014, eftir að hafa verið varaborgarstjóri fyrir Sósíalista allt frá árinu 2001. Á tíma sínum í embætti hefur hún beitt sér fyrir því að bílum verði úthýst af ýmsum götum í París og auka veg hjólreiða.
Hidalgo hefur minnkað plássið sem bílar fá á götunum og lækkað hámarkshraða víða. Eitt af kosningaloforðum hennar var að breyta 60 þúsund bílastæðum meðfram götum í hjólastíga.
Þessar hræringar í borginni, aðförin að einkabílnum og allt raskið sem það hefur haft í för með sér fyrir bílstjóra og marga aðra hefur ekki heillað alla.
En árangurinn er löngu byrjaður að sýna sig og víðfemt net öruggra hjólastíga hefur orðið til þess að fleiri stíga á fákinn.
Kjósendur treystu Hidalgo fyrir því að leiða borgina áfram næstu sex árin, á þessari braut. Eftir sigur í kosningunum í fyrra þakkaði hún Parísarbúum fyrir að velja „París sem andar“.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný