Sveinn M. Árnason/Héraðsskjalasafn Kópavogs Engihjallaveðrið Mynd: Sveinn M. Árnason
Sveinn M. Árnason/Héraðsskjalasafn Kópavogs

40 ár frá Engihjallaveðrinu 16. febrúar 1981

Fjörutíu ár eru liðin frá fárviðri sem olli því að „þakplötur fóru eins og skæðadrífa yfir Kópavoginn“ og „nokkur hús í Austurbænum voru yfirgefin þar sem þakið var að mestu horfið og rúður brotnar,“ eins og sagði í fréttum á þessum tíma. Engihjallaveðrið svokallaða olli einnig skemmdum á hundruðum bíla. Tjónið var gríðarlegt og víða sátu húseigendur eftir með sárt ennið og óbætt tjón.

Á þriðju­dag, sprengi­dag, verða fjöru­tíu ár liðin frá hinu svo­kall­aða Engi­hjalla­veðri sem gekk yfir 16. febr­úar 1981. Reyndar eru einnig liðin 30 ár frá öðru eft­ir­minni­legu fár­viðri af svip­uðum toga sem varð 3. febr­úar 1991. Bæði þessi ill­viðri ollu fáheyrðu tjóni á þétt­býlum svæðum suð­vest­an­lands. Trygg­ing­ar­fé­lögin bættu tjón vegna þess síð­ara fyrir nokkra millj­arða á núvirði. Ótryggt tjón nam svip­aðri upp­hæð.

Sjálfur var ég 16 ára þegar Engi­hjalla­veðrið gekk yfir og er mér nokkuð minn­is­stætt. Miklir klaka­bunkar höfðu mynd­ast á götum og gang­stéttum dag­ana og vik­urnar á undan í umhleyp­inga­tíð. 16. febr­úar bar upp á venju­legan mánu­dag og við­vörun vegna veð­urs­ins var send út í útvarpi og sjón­varpi og almanna­varna­nefndir um allt land voru settar í við­bragðs­stöðu. Ekki man ég eftir þeim og breytti því ekki að ég fór út um kvöld­ið, en fjöl­skylda mín bjó í Norð­ur­bænum í Hafn­ar­firði. Um það bil sem veðrið var í hámarki fór ég ein­sam­all heim frá vini mínum um 500 metra leið með storm­inn í bak­ið. Rétt­ara sagt skaut­aði á klak­anum á milli húsa og í lokin eltur af báru­járns­plötu sem skaust ofan höfði mér út í busk­ann.

Auglýsing

Engi­hjalla­veðrið dregur nafn sitt af svipt­ingum einmitt þar. Í frétt Vísis dag­inn eftir sagði: „Þak­plötur fóru eins og skæða­drífa yfir Kópa­vog­inn í nótt og nokkur hús í Aust­ur­bænum voru yfir­gefin þar sem þakið var að mestu horfið og rúður brotn­ar. [...] Við Engi­hjalla var geysi­legur vind­styrkur og bílar fuku saman á bíla­stæð­unum og skemmd­ust mik­ið. Sjón­ar­vottar herma að þeir hafi séð stóra bíla takast á loft og hrein­lega svífa í loft­inu yfir aðra bíla og lenda síðan með miklum lát­u­m.“

Um 2.000 sjálf­boða­lið­ar, m.a. frá björg­un­ar­sveit­un­um, voru við störf um nótt­ina og í Reykja­vík einni var sagt að útköll hefðu ekki verið færri en 500. Af mörgu má nefna að þakið á fæð­ing­ar­deild Land­spít­al­ans tók flug­ið, eins og það var orðað í Tím­an­um, og hafn­aði niður á Bar­óns­stíg. Við bætt­ist mik­ill vatns­agi og tjón af völdum hans. Raf­magns­flutn­ingur frá Sogi og úr Búr­felli trufl­að­ist og voru fjórar flutn­ings­línur til höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins úti á sama tíma. Mann­skaði varð og tveir menn fór­ust á Heimaey VE en bát­ur­inn strand­aði við Eyj­ar.



Baksíða Dagblaðsins daginn eftir óveðrið, 17. febrúar 1981.

Nánar um veðrið

Lægðin sem óveðr­inu olli var mjög dæmi­gerð. Hún var bæði kröpp og djúp. Leið hennar til norð­urs skammt fyrir vestan land olli því að öfl­ug­asti vind­streng­ur­inn austan við lægð­ar­miðj­una gekk yfir landið suð­vest­an­vert. Veð­ur­kortið sýnir lægð­ar­miðj­una 943 hPa vestur af Snæ­fells­nesi kl. 23 um kvöld­ið, um það bil sem veð­ur­ham­urinn var verstur suð­vest­an­lands. Kortið var sér­stak­lega gert fyrir þessa umfjöllun og unnið upp úr end­ur­grein­ingu Evr­ópsku reikni­m­ið­stöðv­ar­innar (ECMWF). Sú nýjasta kall­ast ERA5 og gefur kost á grein­ingu veð­urs á klukku­stunda­fresti, nú orðið aftur til 1959.

Kortið var sérstaklega gert fyrir þessa umfjöllun og unnið upp úr endurgreiningu Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF).

Stað­setn­ing og dýpt lægð­ar­innar ber vel saman við sam­tíma­veð­ur­grein­ingar þetta kvöld og lægsti loft­þrýst­ing­ur­inn mæld­ist á mið­nætti, 946,2 hPa á Galt­ar­vita norðan Súg­anda­fjarð­ar. End­ur­grein­ing óveð­urslægð­ar­innar er því mjög trú­verð­ug. Vindur er sýndur í 850 hPa hæð, sem með svo djúpri lægð reikn­ast í um 900-1.000 metra hæð. Það er einmitt vindur úr þeirri hæð sem slær sér niður undir yfir­borð. Sjá má hring utan um rauð­asta svæðið sem nær inn á Reykja­nes með 48-56 m/s og ann­ars suð­vest­an­lands eru 42-48 m/s. Fátítt er að vindur í þess­ari hæð fari yfir 50 m/s almennt séð, en vind­áttin og áhrif lands­lags og yfir­borðs eru síðan ráð­andi þættir fyrir raun­vind í 10-50 m hæð yfir jörðu.

Á höf­uð­borg­ar­svæð­inu voru aðeins tveir vind­mælar og stutt á milli þeirra. Annar á Reykja­vík­ur­flug­velli, en sá á Veð­ur­stof­unni sýndi mest 39,6 m/s með­al­vind og mesta vind­hviðan mæld­ist 52,5 m/s. Þetta er mesti vind­hraði á Veð­ur­stof­unni á Bústaða­vegi frá 1973, en meiri vindur hefur mælst á Flug­vell­inum (reyndar í 17 m hæð, sem er hærra en stað­al­hæð mælis í 10 m). Engar fregnir hef ég hins vegar af mæl­inum á Reykja­vík­ur­flug­velli þetta kvöld.

Hundruð bíla skemmdust í veðurofsanum. Hér má sjá hvernig veðrið lék bíla á bílastæði við Engihjallann.
Sveinn M. Árnason

Bætur fyrir óveð­urstjón

Tjónið 16. febr­úar 1981 nam millj­örðum gam­alla króna og tugum millj­óna nýkróna eins og það var orðað þarna skömmu efir mynt­breyt­ingu. Víða sátu hús­eig­endur uppi með sárt ennið og óbætt tjón. Hús­eig­enda­trygg­ing sem bætir foktjón var ekki orðin almenn á þessum árum. Engi­hjalla­veðrið átti eflaust mik­inn þátt í því að fólk vildi tryggja sig betur fyrir ófyr­ir­séðu veð­ur­tjóni eins og þessu.

Hús­eig­enda­trygg­ingar eru að stofni til frá 1969 eftir því sem ég best veit, en sér­stakar fok­trygg­ingar rekja sögu sína aftur til um 1960. Þá voru líka í boði gler­trygg­ing­ar. Í sept­em­beró­veðri árið 1973, sem kennt er við felli­byl­inn Ellen, var mikið foktjón suð­vest­an­lands og reyndar víð­ar. Í Þjóð­vilj­anum var slegið upp á for­síðu að Breið­holt 3 hafi verið eins og eftir loft­árás. Þá var hverfið í bygg­ingu. Fæstir fengu tjóni sitt bætt og til­tölu­lega fáir tryggðir umfram skyldugra bruna­trygg­inga.

Árið áður voru sam­þykkt lög um nýjan Bjarg­ráða­sjóð. Til­urð hans var til­komin vegna skakka­falla í land­bún­aði á kal- og haf­ísár­unum 1965-1971. En í Bjarg­ráða­sjóði var líka deild vegna ann­arra nátt­úru­ham­fara. Þarna voru menn líka að glíma við eft­ir­köst Vest­manna­eyja­goss­ins og stofnað til Við­laga­sjóðs til að halda utan um gríð­ar­legt tjón af völdum þess. Stjórn Bjarg­ráða­sjóðs ákvað sem sé þarna haustið 1973 að lána vaxta­laus lán til sveit­ar­fé­laga sem aftur lán­uðu til ein­stak­linga sem orðið höfðu fyrir tjóni. Þessir fjár­munir voru í raun ígildi tjóna­bóta á þessum verð­bólgu­ár­um. Lítið fékkst því til baka.



Auglýsing

Þegar Engi­hjalla­veðrið skall á var Bjarg­ráða­sjóður tóm­ur. Umræður voru utan­dag­skrár á Alþingi og nokkrir þing­menn töldu óveðrið klár­lega til nátt­úru­ham­fara og að við­laga­trygg­ing ætti að bæta tjón. Lögin voru hins vegar skýr hvað þetta varð­aði og ári síðar þegar Svavar Gests­son, þá félags­mála­ráð­herra, mælti fyrir breyt­ingum á Við­laga­trygg­ingu Íslands, tók hann sér­stak­lega fram að vilji væri fyrir því að almenni vátrygg­inga­mark­að­ur­inn ann­að­ist áfram fok­trygg­ing­ar. Við­laga­trygg­ing sem nú kall­ast Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing Íslands bætir ekki fyrir tjón af völdum vinds, ein­göngu það sem rekja má til sjó­gangs.

Eitt var ein­kenn­andi fyrir Engi­hjalla­veðrið 1981 að bílar skemmd­ust í hund­raða­tali. Tals­verð reki­stefna varð dag­ana á eftir hvort kaskó­trygg­ing bætti tjón vegna áfoks, en skil­málar kváðu á um það bætur fengjust aðeins ef bíll­inn sjálfur fyki. Sam­vinnu­trygg­ingar sál­ugu hjuggu á hnút­inn og ákváðu að bæta þeim kaskó­tryggðu tjón vegna áfoks ef trygg­ing­ar­taki hafði líka heim­il­is- og hús­eig­enda­trygg­ingu. Fjúk­andi brak í bíla eða nudd frá öðrum sem færð­ust til fékkst því bætt.



Hluti þaks af fæðingardeild Landsspítalns fauk í fárviðrinu. Tíminn 18. febrúar 1981.

Tjónið í Engi­hjalla­veðr­inu var vissu­lega gríð­ar­mikið og áhuga­vert væri að freista þess að upp­reikna það til verð­lags í dag. Flestir þurftu að bera tjónið sjálfir og umræða var nokkur í kjöl­farið að eig­endur hús­eigna ættu sjálfir að geta komið í veg fyrir foktjón með fyr­ir­byggj­andi aðgerðum og eðli­legu við­haldi. Á að sumu leyti við, en samt ósann­gjarnt þar sem veð­ur­hæð í verstu ill­viðrum veldur hæg­lega skemmdum á jafn­vel bestu mann­virkj­um.

Tíu árum síðar þegar fár­viðrið 3. febr­úar 1991 skall á, voru menn reynsl­unni rík­ari og mun fleiri keyptu sér hús­eig­enda­trygg­ing­ar. Í seinni grein verður fjallað aðeins um það veður og eins lagt mat á end­ur­komu­tíma fár­veð­urs suð­vest­an­lands, en nú eru 30 ár frá því að síð­ast skall í skolt­um. Mat verður líka lagt á hugs­an­legt tjón af sam­bæri­legu veðri nú þegar fjölgað hefur um 100 þúsús­und manns frá 1991 á suð­vest­ur­horn­inu og fjöl­mörg ný hverfi ris­ið.  



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit