40 ár frá Engihjallaveðrinu 16. febrúar 1981
Fjörutíu ár eru liðin frá fárviðri sem olli því að „þakplötur fóru eins og skæðadrífa yfir Kópavoginn“ og „nokkur hús í Austurbænum voru yfirgefin þar sem þakið var að mestu horfið og rúður brotnar,“ eins og sagði í fréttum á þessum tíma. Engihjallaveðrið svokallaða olli einnig skemmdum á hundruðum bíla. Tjónið var gríðarlegt og víða sátu húseigendur eftir með sárt ennið og óbætt tjón.
Á þriðjudag, sprengidag, verða fjörutíu ár liðin frá hinu svokallaða Engihjallaveðri sem gekk yfir 16. febrúar 1981. Reyndar eru einnig liðin 30 ár frá öðru eftirminnilegu fárviðri af svipuðum toga sem varð 3. febrúar 1991. Bæði þessi illviðri ollu fáheyrðu tjóni á þéttbýlum svæðum suðvestanlands. Tryggingarfélögin bættu tjón vegna þess síðara fyrir nokkra milljarða á núvirði. Ótryggt tjón nam svipaðri upphæð.
Sjálfur var ég 16 ára þegar Engihjallaveðrið gekk yfir og er mér nokkuð minnisstætt. Miklir klakabunkar höfðu myndast á götum og gangstéttum dagana og vikurnar á undan í umhleypingatíð. 16. febrúar bar upp á venjulegan mánudag og viðvörun vegna veðursins var send út í útvarpi og sjónvarpi og almannavarnanefndir um allt land voru settar í viðbragðsstöðu. Ekki man ég eftir þeim og breytti því ekki að ég fór út um kvöldið, en fjölskylda mín bjó í Norðurbænum í Hafnarfirði. Um það bil sem veðrið var í hámarki fór ég einsamall heim frá vini mínum um 500 metra leið með storminn í bakið. Réttara sagt skautaði á klakanum á milli húsa og í lokin eltur af bárujárnsplötu sem skaust ofan höfði mér út í buskann.
Engihjallaveðrið dregur nafn sitt af sviptingum einmitt þar. Í frétt Vísis daginn eftir sagði: „Þakplötur fóru eins og skæðadrífa yfir Kópavoginn í nótt og nokkur hús í Austurbænum voru yfirgefin þar sem þakið var að mestu horfið og rúður brotnar. [...] Við Engihjalla var geysilegur vindstyrkur og bílar fuku saman á bílastæðunum og skemmdust mikið. Sjónarvottar herma að þeir hafi séð stóra bíla takast á loft og hreinlega svífa í loftinu yfir aðra bíla og lenda síðan með miklum látum.“
Um 2.000 sjálfboðaliðar, m.a. frá björgunarsveitunum, voru við störf um nóttina og í Reykjavík einni var sagt að útköll hefðu ekki verið færri en 500. Af mörgu má nefna að þakið á fæðingardeild Landspítalans tók flugið, eins og það var orðað í Tímanum, og hafnaði niður á Barónsstíg. Við bættist mikill vatnsagi og tjón af völdum hans. Rafmagnsflutningur frá Sogi og úr Búrfelli truflaðist og voru fjórar flutningslínur til höfuðborgarsvæðisins úti á sama tíma. Mannskaði varð og tveir menn fórust á Heimaey VE en báturinn strandaði við Eyjar.
Nánar um veðrið
Lægðin sem óveðrinu olli var mjög dæmigerð. Hún var bæði kröpp og djúp. Leið hennar til norðurs skammt fyrir vestan land olli því að öflugasti vindstrengurinn austan við lægðarmiðjuna gekk yfir landið suðvestanvert. Veðurkortið sýnir lægðarmiðjuna 943 hPa vestur af Snæfellsnesi kl. 23 um kvöldið, um það bil sem veðurhamurinn var verstur suðvestanlands. Kortið var sérstaklega gert fyrir þessa umfjöllun og unnið upp úr endurgreiningu Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF). Sú nýjasta kallast ERA5 og gefur kost á greiningu veðurs á klukkustundafresti, nú orðið aftur til 1959.
Staðsetning og dýpt lægðarinnar ber vel saman við samtímaveðurgreiningar þetta kvöld og lægsti loftþrýstingurinn mældist á miðnætti, 946,2 hPa á Galtarvita norðan Súgandafjarðar. Endurgreining óveðurslægðarinnar er því mjög trúverðug. Vindur er sýndur í 850 hPa hæð, sem með svo djúpri lægð reiknast í um 900-1.000 metra hæð. Það er einmitt vindur úr þeirri hæð sem slær sér niður undir yfirborð. Sjá má hring utan um rauðasta svæðið sem nær inn á Reykjanes með 48-56 m/s og annars suðvestanlands eru 42-48 m/s. Fátítt er að vindur í þessari hæð fari yfir 50 m/s almennt séð, en vindáttin og áhrif landslags og yfirborðs eru síðan ráðandi þættir fyrir raunvind í 10-50 m hæð yfir jörðu.
Á höfuðborgarsvæðinu voru aðeins tveir vindmælar og stutt á milli þeirra. Annar á Reykjavíkurflugvelli, en sá á Veðurstofunni sýndi mest 39,6 m/s meðalvind og mesta vindhviðan mældist 52,5 m/s. Þetta er mesti vindhraði á Veðurstofunni á Bústaðavegi frá 1973, en meiri vindur hefur mælst á Flugvellinum (reyndar í 17 m hæð, sem er hærra en staðalhæð mælis í 10 m). Engar fregnir hef ég hins vegar af mælinum á Reykjavíkurflugvelli þetta kvöld.
Bætur fyrir óveðurstjón
Tjónið 16. febrúar 1981 nam milljörðum gamalla króna og tugum milljóna nýkróna eins og það var orðað þarna skömmu efir myntbreytingu. Víða sátu húseigendur uppi með sárt ennið og óbætt tjón. Húseigendatrygging sem bætir foktjón var ekki orðin almenn á þessum árum. Engihjallaveðrið átti eflaust mikinn þátt í því að fólk vildi tryggja sig betur fyrir ófyrirséðu veðurtjóni eins og þessu.
Húseigendatryggingar eru að stofni til frá 1969 eftir því sem ég best veit, en sérstakar foktryggingar rekja sögu sína aftur til um 1960. Þá voru líka í boði glertryggingar. Í septemberóveðri árið 1973, sem kennt er við fellibylinn Ellen, var mikið foktjón suðvestanlands og reyndar víðar. Í Þjóðviljanum var slegið upp á forsíðu að Breiðholt 3 hafi verið eins og eftir loftárás. Þá var hverfið í byggingu. Fæstir fengu tjóni sitt bætt og tiltölulega fáir tryggðir umfram skyldugra brunatrygginga.
Árið áður voru samþykkt lög um nýjan Bjargráðasjóð. Tilurð hans var tilkomin vegna skakkafalla í landbúnaði á kal- og hafísárunum 1965-1971. En í Bjargráðasjóði var líka deild vegna annarra náttúruhamfara. Þarna voru menn líka að glíma við eftirköst Vestmannaeyjagossins og stofnað til Viðlagasjóðs til að halda utan um gríðarlegt tjón af völdum þess. Stjórn Bjargráðasjóðs ákvað sem sé þarna haustið 1973 að lána vaxtalaus lán til sveitarfélaga sem aftur lánuðu til einstaklinga sem orðið höfðu fyrir tjóni. Þessir fjármunir voru í raun ígildi tjónabóta á þessum verðbólguárum. Lítið fékkst því til baka.
Þegar Engihjallaveðrið skall á var Bjargráðasjóður tómur. Umræður voru utandagskrár á Alþingi og nokkrir þingmenn töldu óveðrið klárlega til náttúruhamfara og að viðlagatrygging ætti að bæta tjón. Lögin voru hins vegar skýr hvað þetta varðaði og ári síðar þegar Svavar Gestsson, þá félagsmálaráðherra, mælti fyrir breytingum á Viðlagatryggingu Íslands, tók hann sérstaklega fram að vilji væri fyrir því að almenni vátryggingamarkaðurinn annaðist áfram foktryggingar. Viðlagatrygging sem nú kallast Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir ekki fyrir tjón af völdum vinds, eingöngu það sem rekja má til sjógangs.
Eitt var einkennandi fyrir Engihjallaveðrið 1981 að bílar skemmdust í hundraðatali. Talsverð rekistefna varð dagana á eftir hvort kaskótrygging bætti tjón vegna áfoks, en skilmálar kváðu á um það bætur fengjust aðeins ef bíllinn sjálfur fyki. Samvinnutryggingar sálugu hjuggu á hnútinn og ákváðu að bæta þeim kaskótryggðu tjón vegna áfoks ef tryggingartaki hafði líka heimilis- og húseigendatryggingu. Fjúkandi brak í bíla eða nudd frá öðrum sem færðust til fékkst því bætt.
Tjónið í Engihjallaveðrinu var vissulega gríðarmikið og áhugavert væri að freista þess að uppreikna það til verðlags í dag. Flestir þurftu að bera tjónið sjálfir og umræða var nokkur í kjölfarið að eigendur húseigna ættu sjálfir að geta komið í veg fyrir foktjón með fyrirbyggjandi aðgerðum og eðlilegu viðhaldi. Á að sumu leyti við, en samt ósanngjarnt þar sem veðurhæð í verstu illviðrum veldur hæglega skemmdum á jafnvel bestu mannvirkjum.
Tíu árum síðar þegar fárviðrið 3. febrúar 1991 skall á, voru menn reynslunni ríkari og mun fleiri keyptu sér húseigendatryggingar. Í seinni grein verður fjallað aðeins um það veður og eins lagt mat á endurkomutíma fárveðurs suðvestanlands, en nú eru 30 ár frá því að síðast skall í skoltum. Mat verður líka lagt á hugsanlegt tjón af sambærilegu veðri nú þegar fjölgað hefur um 100 þúsúsund manns frá 1991 á suðvesturhorninu og fjölmörg ný hverfi risið.