„Það er ekki þannig að heimurinn verði alveg eins“
Þegar ég hef fengið bólusetningu, get ég þá lagst í ferðalög um heiminn? Hætt að bera grímu, farið að knúsa og kyssa fólk – jafnvel á Tene? Kjarninn ræddi við líftölfræðinginn Jóhönnu Jakobsdóttur um áleitnar spurningar sem vaknað hafa með tilkomu bóluefna og samhliða voninni um „eðlilegt líf“ á ný.
Bóluefnið er komið! Tæplega 10 þúsund íbúar á Íslandi eru nú þegar fullbólusettir. Þessi tala er sú eina á upplýsingavefnum covid.is sem við hlökkum til að sjá hækka. Og hún mun gera það. Fyrir lok júní verður mögulega búið að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar, samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda sem kynnt var í gær.
Við erum þegar farin að láta okkur dreyma. Vonin um að „eðlilegt líf“ sé í sjónmáli hefur kviknað á ný. Hvítar sandstrendur og litríkir svaladrykkir undir pálmatrjám. Búðaráp og bjórþamb í evrópskri borg. Hjólaferð um hæðótta eyju – með hlýjan vindinn í hárið. Bros á vör. Sól í sinni.
Lífið eins og það var fyrir bólusetningu gegn COVID-19. Lífið eins og það verður eftir hana. Þannig hugsa líklega margir nú um stundir. En þá gleymum við kannski ákveðnum millibilskafla – fullum óvissu.
En hvenær get ég ferðast á ný eftir að hafa verið bólusett? Hvaða þáttum þarf ég að huga að? Með öðrum orðum: Hvað þarf að gerast svo að draumur minn um ferðalag verði ekki einmitt bara draumur – heldur geti orðið að veruleika?
Svarið er: Flókið.
Að mörgu er að huga líkt og líftölfræðingurinn Jóhanna Jakobsdóttir, sem Kjarninn leitaði til, útskýrir.
„Ef þú hugsar bara um sjálfa þig og gengur út frá því að bóluefnið veiti þér fullkomna vörn þá ættir þú fræðilega séð að geta ferðast áhyggjulaus um leið og bólusetning hefur náð fullri virkni,“ segir hún. „En ef þú hugsar um fleiri en sjálfa þig, sem ég vænti að flestir geri, þá veistu ekki hvort þú getur borið smit og smitað aðra. Þá hugsar þú kannski: Ég ætla þá ekki að ferðast til landa þar sem smit er útbreitt. Ég ætla hvorki að taka sjensinn á því að bera mögulega smit manna á milli í því landi og ekki heldur á því að bera það hingað heim þar sem enn á eftir að bólusetja hópa fólks.
Ef þú ákveður að fara til landa þar sem smit er útbreitt, sem á við mörg lönd heimsins í dag, þá gætir þú einnig hugsað: Ég ætla áfram að vera með grímu, halda fjarlægð og gæta að öllum persónubundnum sóttvörnum. Ég ætla að gista í Airbnb, borða alltaf heima en ekki á veitingahúsum og svo framvegis.
En hvað sem þú gerir, hvert sem þú ferð, þarftu að hafa bak við eyrað að það er ekki enn búið að sýna fram á að öll bóluefni gagnist vel gegn nýjum afbrigðum veirunnar. Það er ekki heldur komið í ljós hversu lengi vörnin endist sem bóluefnið gefur þér.“
Ofan á allt saman eru strangar ferðatakmarkanir í gildi í mörgum löndum. Bólusetningavottorð eru rétt nýfarin að líta dagsins ljós en þau eru ekki samræmd milli landa enn sem komið er og vel getur verið að á leið þinni til áfangastaðar lendir þú í einhverjum erfiðleikum.
„Eins og staðan er núna myndi ég sjálf ekki taka þá áhættu að fara erlendis í ferðalag,“ segir Jóhanna. „Mér finnst þekkingin á bóluefnunum í augnablikinu ekki komin það langt. Við vitum að þau vernda gegn alvarlegum veikindum. En ég gæti svarað þessari spurningu á allt annan hátt í sumar, þegar við verðum vonandi komin með frekari upplýsingar um virkni bóluefnanna, hvort að þau virkilega dragi úr líkum á því að ég beri smit, hvort að þau verji mig fyrir nýjum afbrigðum veirunnar og hversu lengi mögulega vörnin dugar.“
Ekki kveðja draumana
Þó að ómurinn af fótataki þínu á steinlögðum stéttum evrópskra borga hafi mögulega hljóðnað við þennan lestur og liturinn á svaladrykknum við túrkísblátt haf dofnað er auðvitað óþarfi að hætta að láta sig dreyma. Og gott að rifja upp að það var aðeins fyrir ári sem kórónuveirufaraldurinn hóf að breiðast út á ógnarhraða. Síðan þá höfum við farið um langan veg, bóluefni komin á markað og fleiri á leiðinni. En það mun taka tíma að ná hjarðónæmi, hér og annars staðar, og þangað til að við sjáum glitta í þann áfanga eru ferðatöskurnar líklega best geymdar í geymslunni.
„Það á eftir að koma í ljós, sem er þó líklegt, hvort að einhverjar hömlur verði settar á ferðalög með tilliti til hvort að þú sért bólusettur eða ekki,“ bendir Jóhanna ennfremur á. Slíkar hömlur er ekki óþekkt fyrirbæri. Í dag er krafist vottorða um bólusetningu gegn ákveðnum sjúkdómum þegar ferðast er til fjarlægra landa. Þú þarft til dæmis bólusetningu gegn taugaveiki og gulusótt áður en þú ferð til Afríku og lifrarbólgu ef stefnan er tekin á Asíu. Þetta eru sjúkdómar sem eru landlægir á ákveðnum stöðum í heiminum þó að nöfn þeirra hljómi framandi í okkar íslensku eyrum. „Þessi krafa er ekki aðeins gerð til að vernda þig heldur einnig til að vernda heilbrigðiskerfi viðkomandi landa sem þyrftu að sinna alvarlegum veikindum þínum“ segir Jóhanna. Þannig gætu takmarkanir á ferðalögum vegna COVID-19 einnig orðið í nánustu framtíð.
En hvað sem þú gerir, hvert sem þú ferð, þarftu að hafa bak við eyrað að það er ekki enn búið að sýna fram á að öll bóluefni gagnist vel gegn nýjum afbrigðum veirunnar. Það er ekki heldur komið í ljós hversu lengi vörnin endist sem bóluefnið gefur þér.
Það er góð ástæða til að hlusta á varnaðarorð sérfræðingsins Jóhönnu. Til hennar menntunar og starfsreynslu hafa íslensk yfirvöld horft í faraldrinum hingað til. Hún er stærðfræðingur frá Háskóla Íslands í grunninn og tók svo framhaldsnám í líftölfræði í Bandaríkjunum, fyrst við Háskólann í Pittsburgh og svo í Chicago. Að námi loknu flutti hún heim og hóf störf hjá Hjartavernd við erfðarannsóknir og faraldsfræði. Hún skipti um starfsvettvang að loknu fæðingarorlofi og réði sig til starfa á miðstöð í lýðheilsuvísindum þar sem vinna við stóra og áhugaverða rannsókn, Áfallasögu kvenna, var að hefjast. Um svipað leyti hóf hún að kenna líftölfræði við læknadeild Háskóla Íslands og fékk nokkru síðar lektorsstöðu sem hún gegnir í dag.
Sú sem spyr leiðinlegu spurninganna
Fljótlega eftir að faraldurinn braust út hóf hópur vísindamanna við HÍ að rýna í hann og spá fyrir um mögulega þróun hans og var Jóhanna kölluð inn í það sérfræðingateymi sem Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, leiðir.
„Mitt hlutverk í teyminu hefur svolítið falist í því að vera leiðinlega manneskjan,“ segir Jóhanna og kímir. „Að spyrja stöðugt hvaða áhrif hinn og þessi þátturinn gæti haft á þróunina.“ Því það er ekki þannig að faraldur sjúkdóms í samfélagi geti aðeins breiðst út á einn eða tvo vegu. Svo sannarlega ekki. Mannleg hegðun er t.d. stór breyta og hún er margþætt, flókin og ekki alltaf fyrirsjáanleg.
Teymið hefur ekki gefið út spá frá því um miðjan desember. „Núna er staðan einfaldlega þannig að það er tilgangslaust,“ bendir Jóhanna á. „Og við viljum auðvitað halda því þannig, að það sé algjörlega órökrétt að spá, því það þýðir að það séu bara örfá smit í samfélaginu.“
Hér að ofan var nefnt að áður en hjarðónæmi náist þurfi að fara sérstaklega varlega þegar ferðalög eru fyrirhuguð. En hvað þýðir almennt að ná hjarðónæmi?
„Hjarðónæmi er hugtak sem segir í raun til um hversu hátt hlutfall af þýði er ónæmt fyrir ákveðnum sjúkdómi,“ byrjar Jóhanna á að útskýra. „Ef við ætlum að vera mjög nákvæm þá tölum við um hjarðónæmisþröskuld. Það er línan sem við komumst yfir þegar það er orðið það mikið ónæmi í þýðinu að jafnvel þótt það komi smit inn í það nær ekki að brjótast út faraldur. Þegar við erum komin yfir þennan þröskuld þá er hægt að segja að búið sé að ná hjarðónæmi í þýðinu. Þá getur áfram komið upp smit en það deyr út af náttúrulegum ástæðum án þess að þýðið breyti hegðun sinni.“
Áður en lengra er haldið skal útskýra hvað þýði er. Þýði er hugtak sem tölfræðingum er tamt að nota um ákveðinn hóp einstaklinga. Þýði getur þannig átt við samfélag af mismunandi stærð, svo sem íslensku þjóðina eða alla heimsbyggðina.
En aftur að hjarðónæminu. Það er þá ekki einhver fasti, föstu prósenta, heldur háð sýklinum sem um ræðir í hverju tilviki?
„Já, en það fer líka eftir hegðun innan samfélags,“ svarar Jóhanna og kynnir smitstuðulinn fræga, R-töluna, til leiks. „Við getum reiknað út meðaltalsstuðul um hversu marga hver og einn getur smitað en stuðullinn er svo aftur háður hegðun fólks og þjóðfélagsgerðinni að einhverju leyti. Það er ekki fasti. Ekki fasti yfir tíma og ekki fasti yfir lönd eða heimsálfur.“
Og þar sem hegðun er misjöfn, bæði innan samfélaga og á milli þeirra, hafa tölfræðingar verið að reyna að meta meðaltal smitstuðulsins í tilviki COVID-19 og komist að því að hver og ein manneskja sem smitast smitar að meðaltali 2,5 til 3 aðra.
Þessi smitstuðull er ákaflega misjafn milli sjúkdóma. Hvað mislinga varðar, svo dæmi sé tekið, er hann um 15. „Í þeim samanburði hljómar 2,5-3 ekki hátt en er það þó engu að síður,“ segir Jóhanna og bendir á að smitstuðull inflúensu sé í 1,5 eða lægri.
Miðað við meðaltal smitstuðuls COVID-19 er oft talað um að 60-70 prósent fólks í samfélagi þurfi að vera ónæmt svo hjarðónæmisþröskuldi sé náð.
En hvað gerist í samfélagi þegar þeim áfanga er náð?
„Veiran hverfur ekki. Hún þarf ekki að hverfa frá Íslandi og hún þarf ekki að hverfa úr heiminum,“ segir Jóhanna. Veiran er líkleg til að fylgja mannkyninu til einhverrar framtíðar. Þegar 60-70 prósent íslensku þjóðarinnar hefur fengið bólusetningu og eru því ónæm, eru enn 30-40 prósent það ekki. Það sem hins vegar gerist er að ef sýking brýst út verður hún „vonandi það lítil að við náum að hlaupa fram fyrir hana,“ segir Jóhanna. Auðveldara verður að beita verkfærunum okkar; smitrakningu, sóttkví og einangrun, til að ráða niðurlögum hópsýkinga. Á einum bar, svo dæmi sé tekið, myndu ekki 70 manns smitast á einu kvöldi heldur kannski þrjátíu. „Það eitt og sér, að meira en helminga fjöldann í slíkum hópsýkingum, mun gera alla verkferla og allt okkar kerfi einfaldara í framkvæmd.“
Að sama skapi yrði þá búið að bólusetja þá sem í mestri áhættu eru að fá alvarlega sýkingu og þar með minnka líkur á sjúkrahúsinnlögnum verulega. „Fólk sem er yngra en þrítugt og jafnvel yngra en tvítugt getur orðið alvarlega veikt af COVID þó að það sé ólíklegra til þess en eldra fólk. Þetta er ekki mesti áhættuhópurinn en af því að svo gríðarlega margir eru að smitast á stuttum tíma þá fjölgar líka þeim einstaklingum sem veikjast alvarlega úr þessum hópi. Sem dæmi má nefna að flestir þeirra sem eru á öndunarvélum vegna COVID-19 í Bretlandi eru á aldrinum 50-60 ára. Við getum því alls ekki alveg slakað á þegar við erum búin að bólusetja sextíu ára og eldri. Útbreitt smit í yngri aldurshópum getur haft alvarlegar afleiðingar.“
Íslensk yfirvöld líkt og víðast hvar í heiminum hafa farið þá leið að bólusetja viðkvæmu hópana og framlínustarfsmenn fyrst. Bóluefnin verða svo gefin sífellt yngra fólki þegar skammtarnir berast. En ekkert bóluefni sem komið er á markað hefur verið samþykkt fyrir fólk yngra en sextán ára. „Þannig að samkvæmt skilgreiningu munum við ekki ná hjarðónæmi í þýðinu – íslensku samfélagi í þessu tilviki – því börn verða áfram næm fyrir sjúkdómnum.“
Sjaldgæfir atburðir geta gerst
Jóhanna segist hafa vissar áhyggjur af því. Börn virðast ólíklegri en fullorðnir til að smitast af veirunni og bera smit. Þau eru ólíklegri til að veikjast og mun ólíklegri til að veikjast alvarlega. En ef börn á aldrinum 0-16 ára, sem er stór hópur, verða ekki bólusett, er sá möguleiki fyrir hendi að faraldur brjótist út á meðal þeirra. Jóhanna útskýrir þetta frekar:
„Það er margt áhugavert við hjarðónæmi. Segjum sem svo að við förum yfir þröskuldinn, bólusetjum yfir sextíu prósent þjóðarinnar – að meirihlutinn landsmanna sé orðinn ónæmur fyrir sýkingu af völdum veirunnar og samfélagið fari aftur af stað án takmarkana. R-stuðullinn fer niður fyrir 1 en hann er bara meðaltal og getur verið hærri innan ákveðinna hópa, t.d. barna. Faraldurinn getur því viðhaldið sér áfram í þeim hópum sem enn eru næmir. Fái hann að fara um þá óáreittur fara sjaldgæfir atburðir að gerast. Sjaldgæfir alvarlegir atburðir sem við viljum ekki sjá.“
Rannsóknir eru þegar hafnar á virkni og öryggi bóluefnis AstraZeneca fyrir börn og segir Jóhanna það mikið fagnaðarefni.
Hvaða máli mun það skipta að ná hjarðónæmi íslensku þjóðarinnar á meðan slíkur áfangi er aðeins fjarlægur draumur annars staðar í heiminum?
„Það er ekki þannig að heimurinn verði alveg eins,“ segir Jóhanna. „Þó að við náum að bólusetja hátt hlutfall þjóðarinnar þá er þetta ekki alveg búið, skulum við segja.
Auðvitað skiptir það máli fyrir okkur að stór faraldur brjótist ekki út innanlands með alvarlegum heilsubresti fyrir einstaklinga og tilheyrandi afleiðingum á heilbrigðiskerfið. Okkar hjarðónæmi gæti þýtt að landamærin yrðu opnuð og hingað færu að streyma ferðamenn að utan í þúsundavís á mánuði sem er eftirsóknarvert fyrir efnahagslífið.
En þá megum við ekki gleyma að þessir ferðamenn verða kannski ekki bólusettir nema við krefjumst þess sérstaklega. Þeir geta borið með sér veiruna þótt það yrði ekki til þess að stór faraldur myndi brjótast út meðal íbúa hér. En þeir geta líka sýkst sjálfir og veikst alvarlega. Þá munu þeir þurfa að nota íslenska heilbrigðiskerfið. Þannig að það er áhættuþáttur sem við þurfum að taka tillit til ef við viljum opna landamærin meira en nú er.“
Annar óvissuþáttur sem huga þarf að er hversu lengi ónæmi bólusetningar varir. Hvenær og hvort bólusettir verða aftur orðnir næmir fyrir smiti og hættan á faraldri eykst innanlands af þeim sökum. „Þess vegna tel ég að við þurfum að halda áfram tvöfaldri skimun á landamærunum í einhvern tíma. Á einhverjum tímapunkti gætum við tekið skrefið, slakað örlítið á og leyft ferðamönnum að vera í smitgát í stað sóttkvíar fyrstu dagana. Ég giska á að þannig gætum við farið að hafa það í sumar. Við getum þá boðið ferðamenn velkomna en að þeir þurfi áfram að fara í sýnatöku, þeir sem ekki hafa fengið COVID-19 eða verið bólusettir í sínu heimalandi, og í smitgát. Þannig getum við verið aðeins rólegri.“ Ekki sé þó hægt að fara þessa leið, að hennar mati, fyrr en búið verður að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar, að minnsta kosti sem flesta fjörutíu ára og eldri.
Jóhanna fagnar því að búið sé að taka upp breytt fyrirkomulag á landamærunum og framvísa þurfi neikvæðu og nýlegu PCR-prófi sem og að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli. Sóttvarnalæknir hefur talað um að í maí verði mögulega hægt, ef reynslan af hinum hertu aðgerðum nú sýni fram á það, að hafa aðeins eina sýnatöku fyrir ferðamenn sem framvísa neikvæðu prófi og að afnema eða stytta þar með sóttkví þeirra.
Dregið verulega úr áhættu með aðgerðum á landamærum
Það góða við að hafa tvö próf, bendir Jóhanna á, er að ef þú greinist ekki í því fyrra en greinist svo í því seinna þá eru aðeins fimm dagar á milli. Og það auðveldar smitrakningarteyminu vinnuna. Við vitum að það er minni hætta á smiti milli erlendra ferðamanna og heimamanna en á milli heimamanna almennt séð. Það breytir því ekki að það þarf aðeins eitt smit til að koma af stað faraldri innanlands. „Ef Íslendingar eru orðnir nokkuð vel bólusettir, þótt hjarðónæmi verði ekki náð, getur enn brotist út faraldur, þó minni en ella.“
Samhliða hertari aðgerðum á landamærum hafa yfirvöld nú einnig ríkari heimildir til að skylda fólk til að fara í sóttkví eða einangrun í farsóttarhúsi. Þessu er Jóhanna einnig hlynnt og segir að í ljósi þess að samfélagið er komið á töluvert skrið væri án harðra landamæraaðgerða aðeins tímaspursmál hvenær næsti „landamæraleki“ ylli usla innanlands.
„Aðgerðir okkar á landamærunum hafa virkað ótrúlega vel. Í þau skipti sem smit hafa lekið í gegn frá því að við tókum upp tvöfalda skimun hefur það aðallega verið bundið við fjölskyldur ferðamanna og hægt að bregðast hratt við.“
Um áttatíu prósent farþega sem greinast með veiruna gera það í fyrri skimun. En í ljósi þess að faraldurinn fór á tímabili í byrjun árs aftur á mikið flug í Evrópu og dæmi voru um að 10 prósent farþega hafi reynst smitaðir í einni og sömu flugvélinni, jókst hættan á því að fólk kæmist í tæri við veiruna á ferðalaginu sjálfu. „Þá er viðkomandi ekki að fara að greinast í fyrstu skimun og auk þess eru ákveðnar líkur á því að þú greinist ekki heldur í seinni skimun fimm dögum seinna,“ bendir Jóhanna á. Skiptir þá heldur engu hvort að hann framvísi vottorði um neikvætt PCR-próf sem tekið er allt að þremur dögum áður en hann kemur til landsins. „Ég myndi gjarnan vilja að ef fólk er útsett fyrir smiti á ferðalaginu sjálfu þá fari það í sóttkví eins og þeir sem orðið hafa útsettir innanlands,“ segir Jóhanna.
Hún telur „aðeins of mikla áhættu“ felast í því að fólk fari heim til sín beint eftir ferðalag og bíði þar eftir niðurstöðum úr fyrri sýnatöku. Þar er það í sóttkví, ekki einangrun, og því mögulegt að aðrir á heimilinu smitist. Það getur gerst á fyrsta degi og það getur gerst á fimmta degi. Til að koma í veg fyrir þetta þyrfti fólk að vera í sóttkví utan heimilis, í farsóttarhúsi eða sumarhúsi til dæmis og er ný reglugerð heilbrigðisráðherra einmitt skref í þá átt.
Er þetta sérstaklega mikilvægt núna þegar meira smitandi afbrigði eru komin á flug?
„Við sáum hvað gerðist í Danmörku. Breska afbrigðið kemur inn og harðar aðgerðir sem voru í gildi eru hertar enn frekar. Það sem gerist svo er að faraldur af völdum annarra afbrigða fer niður en faraldur af því breska fer áfram upp. Þessi reynsla bendir til þess að við þurfum að vera mjög varkár.“
Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga að meira smitandi afbrigði hækka smitstuðulinn og þar með þann þröskuld sem þarf að ná fyrir hjarðónæmi.
Er hætta á fjórðu bylgju faraldursins?
„Miðað við aðgerðir á landamærunum þá höfum við dregið mjög mikið úr hættunni,“ segir Jóhanna. „En hlutir gerast í líffræði sem eru ótrúlegir. Og þó að við séum enn með takmarkanir í samfélaginu þá eru aðstæður þannig að hópsýkingar geta orðið ef við erum óheppin. Við þurfum ekki öll að vera í hópknúsi til að slíkt gerist. Við getum þó ekki spáð fyrir um hvenær þetta gerist eða hvort þetta gerist yfir höfuð. Það eina sem við getum sagt er að það er möguleiki á því.“
Hvað þá með takmarkanir innanlands eins og tveggja metra regluna?
„Við ættum ekki að hætta með tveggja metra regluna fyrr en við erum komin að minnsta kosti mjög nálægt hjarðónæmisþröskuldi,“ segir Jóhanna og minnir á að smitstuðullinn stjórnist annars vegar af hegðun okkar og hins vegar af eiginleikum veirunnar. „Þar sem samfélagssmit hafa ekki greinst í töluverðan tíma þá er smitstuðullinn í rauninni metinn núll en ef smit læki yfir landamærin þá myndum við mögulega sjá að smitstuðullinn væri rúmlega 1 núna miðað við þær takmarkanir sem við búum við. Ef þeim yrði aflétt myndi hann hækka.“
Þess vegna er áfram mjög mikilvægt, þó að meira verði slakað á innanlands, að gæta að persónubundnum sóttvörnum, halda fjarlægð og nota grímur við ákveðnar aðstæður.
Jóhanna segir það hafa verið fyrirséð að veiran myndi stökkbreytast og helstu sérfræðingar á sviði erfðafræðinnar höfðu séð það fyrir að afbrigði eins og nú hafa skotið upp kollinum kæmu mögulega fram. Engu að síður hefur þessi þróun komið mörgum leikmanninum á óvart og stjórnmálamenn víða glennt upp augun í forundran.
„Hjarðónæmi með bóluefni á sama tíma og ný afbrigði eru að koma fram er samt ekki draumsýn,“ segir hún. „Við munum geta náð hjarðónæmi með þessum hætti þannig að hætta á stórkostlegum vandamálum verður úr sögunni. En það munu koma upp smit, alveg eins og gerist með mislinga. Ég er sannfærð um að þegar við erum búin að bólusetja um það bil 80 prósent þjóðarinnar munum við vel ráða við þau smit sem upp kunna að koma. Forsendan fyrir þessu er þó að bólusetning komi í veg fyrir að bólusettir beri smit, þ.e. annað hvort að bólusettir sýkist síður af veirunni eða ef þeir sýkjast þá smiti þeir síður aðra. Við náum ekki hjarðónæmi nema að þetta haldi. Óvissuþættirnir eru hversu lengi vörn bóluefnis varir og hvort að veirunni takist að stökkbreytast það mikið að endurnýja þurfi bóluefnin reglulega.“
COVID-sprauta reglulega?
Við hinni árlegu inflúensu er brugðist með bólusetningu. Veiran sem henni veldur breytir sér frá ári til árs en með því að breyta bóluefninu er komið í veg fyrir útbreidda faraldra. Ekki er þó ráðist í risastórar klínískar rannsóknir með þúsundum þátttakenda ár hvert af þessu tilefni. Bóluefninu er breytt inni á rannsóknarstofum og ferlið tekur aðeins fáa mánuði.
Um þetta ræða vísindamenn núna í tengslum við COVID-19. „Við þurfum að komast á þennan sama stað fyrir COVID, að vera með bóluefni sem við getum breytt og að það þurfi ekki í hvert sinn að fara í gegnum tímafrekar rannsóknir.“
Gæti þetta orðið framtíðin, að gefin yrði COVID-sprauta reglulega?
„Það gæti vel gerst að við þyrftum að uppfæra bóluefnin reglulega og gefa fólki „búst“ eins og gert er með inflúensuna. Það er ekkert nýtt og ekkert bundið við inflúensu. Fleiri bóluefni hafa verið þróuð áfram og þeim breytt eftir að þau koma fyrst fram.“
Í desember og janúar fór af stað mikil umræða í samfélaginu um mögulega þátttöku Íslendinga í bóluefnarannsókn lyfjafyrirtækisins Pfizer. Bóluefni þess, sem þróað var í samstarfi við þýska líftæknifyrirtækið BioNtech, var það fyrsta sem fékk markaðsleyfi í Evrópu og á Íslandi. Eftir fund sóttvarnalæknis og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar með forsvarsmönnum Pfizer í febrúar var hins vegar ljóst að af henni yrði líklega ekki. Skýringin: Hér eru of fá smit til að slík rannsókn myndi skila þeim árangri sem stefnt var að, eins og Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, orðaði það.
Pfizer er að gera sambærilega rannsókn í Ísrael samhliða fjöldabólusetningu en þar hófst hún í mestu bylgju faraldursins frá upphafi. „Ég tel að rannsókn hér hefði getað bætt við þekkingu einmitt af því að við erum nánast veirufrí,“ segir Jóhanna.
„Þegar mikið smit er í gangi skekkir það mat okkar á raunverulegri virkni bóluefnis. Fólk getur til dæmis smitast áður en efnið er farið að virka. En á Íslandi hefðum við mögulega getað sýnt fram á það að þegar nánast ekkert smit er í gangi er virknin meiri en á fyrri stigum klínískra rannsókna. Við hefðum getað bólusett alla á skömmum tíma, í þessu góða ástandi, og svo hefði fólk farið að ferðast hingað og við héðan. Hvað hefði þá gerst? Þetta er áhugaverð rannsóknarspurning. Fyrir mér eru það vonbrigði að rannsóknin verði líklega ekki gerð hér. Ég held að hún hefði haft mikið gildi fyrir heimsbyggðina.“
Talandi um heimsbyggðina.
Hjarðónæmi hér á Íslandi og hjarðónæmi heimsbyggðar eru tveir hlutir. Hver er hættan sem skapast í þessu ójafnvægi?
„Það felst áhætta í því að faraldur sé ekki undir stjórn í heiminum sem heild. Þá eykst hættan á því að það verði til stökkbreytingar og gerist það einhvers staðar annars staðar þá munu þær engu að síður berast hingað á endanum. Þannig er heimurinn í dag. Við vitum svo ekki hvort að bóluefnin komi til með að virka gegn nýjum afbrigðum eða hvort að ónæmið dvíni verulega gagnvart þeim. Þetta er áhættan. Við verðum ekki örugg fyrr en faraldurinn verður undir nokkuð góðri stjórn á sem flestum stöðum í heiminum. Það er alveg klárt mál.“
Veiran er óútreiknanleg. Um það vitna ótal dæmi alls staðar að. „Það gerast alltaf ólíklegir hlutir þegar margir atburðir fá að gerast samtímis,“ segir Jóhanna. Einmitt þess vegna þarf stöðugt að vera að afla gagna. Rýna í þau frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum. Finna samnefnara heimshorna á milli. Reyna að beita vísindunum til að ná forskoti á ólíkindatólið SARS-CoV-2, veiruna sem hefur herjað á okkur í rúmlega ár.
„Við höfum aflað ótrúlega góðra gagna hér á Íslandi,“ bendir Jóhanna á. „Þegar þessi faraldur verður búinn verður haldið áfram að lesa í þau og læra. Og undirbúa sig fyrir þann næsta.“