Åkesson dansar kónga: Útlit fyrir umpólun í Svíþjóð
Þegar búið er að telja 95 prósent atkvæða er útlit fyrir að hægt verði að mynda ríkisstjórn til hægri í Svíþjóð. Svíþjóðardemókratar ætla að sækjast eftir ráðherraembætti og beinni þátttöku í ríkisstjórn, í krafti þess að vera stærsti flokkurinn á hægri vængnum. Það er þó ólíkleg niðurstaða.
Eftir að Jimmie Åkesson leiðtogi Svíþjóðardemókrata flutti sigurreifur ræðu á kosningavöku flokksins á sunnudagskvöld birti sænska ríkissjónvarpið, SVT, myndir af taumlausri gleði stuðningsmanna flokksins, sem gripu formanninn er hann steig af sviði og hófu að dansa kónga í halarófu á eftir Åkesson.
Gleðin var mikil á kosningavöku Svíþjóðardemókrata. Mögulega ögn of mikil, en Rebecka Fallenkvist, sem sinnir kynningarstarfi fyrir flokkinn og var í framboði til héraðsþings í Stokkhólmi, fór í viðtal seint í gærkvöldi og virtist þar næstum því missa út úr sér nasistakveðjuna hell seger - sænska þýðingu af hinum þýska frasa sieg heil sem náði nokkurri útbreiðslu á fjórða áratug síðustu aldar.
Hel…g seger sagði Fallenkvist og notaði svo orðið segerhelg í næstu setningu, eins og til að leiðrétta sig, en orðið segerhelg þýðir sigurhelgi. Sigurhelgi var þetta vissulega, fyrir Svíþjóðardemókrata.
Ætla að gera ólíklega kröfu um ráðherrastóla
Á þessu hafa sænskir fjölmiðlar margir hverjir kjamsað nokkuð í dag, en hvað sem því líður er ljóst að Svíþjóðardemókratar, þjóðernisflokkur með rætur í nýnasisma sem enginn hefur fram til þessa viljað vinna með í sænska þinginu, náði stórgóðum árangri í kosningunum.
Flokkurinn bætir við sig rúmum þremur prósentustigum frá kosningunum árið 2018 miðað við stöðu mála og á nú í fyrsta sinn möguleika á að hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarf, með því að styðja minnihlutastjórn undir forsæti Hægriflokksins (Moderatarna) eða þá með beinni aðkomu að ríkisstjórn hægra megin við miðju.
Ritari flokksins sagði við SVT að það væri öruggt að flokkurinn myndi efna til samtals um ráðherrastóla. Frjálslyndi flokkurinn (Liberalarna) hefur þó útilokað þátttöku í stjórn þar sem Svíþjóðardemókratar eiga sæti við ríkisstjórnarborðið.
Leiðtogarnir Jimmie Åkesson frá Svíþjóðardemókrötum, Johan Pehrson frá Frjálslynda flokknum og Ebba Busch frá Kristilegum demókrötum hafa öll mætt á fundi með Ulf Kristersson formanni Hægriflokksins í dag og virðist ljóst að óformlegar þreifingar um ríkisstjórn til hægri eru hafnar.
Aðspurður um möguleikann á beinni þátttöku Svíþjóðardemókrata í stjórnarsamstarfi sagði Gunnar Strömmer, ritari Hægriflokksins, að flokkurinn hefði boðið fram undir því yfirskyni að ef umboð fengist frá kjósendum yrði látið reyna á myndun ríkisstjórnar með hinum borgaralegu flokkunum.
Dagens Nyheter hafði það eftir sínum heimildarmönnum í dag að Hægriflokkurinn vildi helst mynda ríkisstjórn með einungis Kristilegum demókrötum, en slík stjórn hefðu um 25 prósenta stuðning á þingi. Hægriflokkurinn sendi frá sér yfirlýsingu þar sem þessum tíðindum var hafnað.
Minnsti mögulegi munur
Þrátt fyrir að lokatölur liggi ekki fyrir á þessari stundu, og verði ekki endanlega ljósar fyrr en á miðvikudag, er líklegra en ekki að borgaralega hægriblokkin, auk Svíþjóðardemókratanna, verði með tæpan þingmeirihluta, 175 þingmenn gegn 174 þingmönnum flokkanna sem liggja frá miðjunni og til vinstri. Um 47 þúsund atkvæðum munar á blokkunum tveimur eins og sakir standa.
Þetta þýðir að líklega er valdatíð Sósíaldemókrata í Svíþjóð á enda, en flokkurinn hefur verið við stjórn, ásamt fleirum eða einn, undanfarin tvö kjörtímabil. Magdalena Andersson forsætisráðherra og flokksformaður játaði ekki ósigur í ræðu sinni á sunnudagskvöld en sagði að hvernig sem færi væri ljóst að flokkur hennar hefði fengið frábæra kosningu, en þegar búið var að telja 95 prósent akvæða voru Sósíaldemókratar með 30,5 prósent þeirra og myndu þar með bæta við sig átta þingmönnum frá fyrra kjörtímabili.
Hún hélt í vonina – sagði að telja þyrfti hvert einasta atkvæði áður en næstu skref yrðu ákveðin. Sem áður segir mun það ekki koma í ljós fyrr en á miðvikudag hvernig nákvæmlega úrslitin liggja, en ennþá á eftir að fara yfir þau atkvæði sem bárust frá sænskum kjósendum sem búsettir eru í öðrum ríkjum.
Þau atkvæði hafa þó í undangengnum kosningum dreifst til flokka hægra megin miðju fremur en atkvæðin sem greidd eru á kjördag og eru fyrirfram álitin ólíkleg til þess að snúa myndinni rauðgrænu blokkinni í vil.