Pexels

Alda athugasemda við veg um „einn fegursta stað á jarðríki“

Áform um að leggja hringveginn milli þorps og strandar við Vík í Mýrdal mun vega beint að hagsmunum samfélagsins sem ferðamannastaðar, að mati tveggja sérfræðinga í ferðamálum. Aðrir sem gera athugasemdir við áformin segja þau m.a. „gjörsamlega galin“ og „hrein skemmdarverk“ auk þess að vera algjörlega óþörf. „Í guðanna bænum ekki láta slík náttúruspjöll eiga sér stað.“

Ég tel að lagn­ing þjóð­vegar milli fjöru og þorps sé afar slæmur kostur og að hér sé um hreint skemmd­ar­verk að ræða með til­heyr­andi sjón­mengun og nátt­úru­spjöll­u­m,“ skrifar Pétur J. Geirs­son arki­tekt.

„Nú er árið 2021, við ættum að vera búin að læra að lifa í sátt og sam­lyndi við nátt­úr­una. Við viljum öll góðar sam­göng­ur. Bætum þær með nátt­úr­una, dýrin og fólk í huga,“ skrifar Vig­dís Eva Stein­þórs­dótt­ir.

„Gjör­sam­lega galin hug­mynd þar sem verið er að skemma stór­kost­lega fjöru og umhverfi. Ein­hver mestu nátt­úru­spjöll í sögu lands­ins ef það verður farið í þessar fram­kvæmd­ir,“ skrifar Ívar Björns­son.

„Það verður ekki skilið að hið opin­ber láti hafa sig í svona ósvinnu, gróf spjöll ein­stakrar nátt­úru og sögu­legs umhverfis auk hrika­legrar sóunar á almanna­fé,“ skrifar Hjalti Þór­is­son.

Reynisdrangar og Víkurfjara  við Vík í Mýrdal Mynd: Pexels

„Ég vona svo inni­lega, af öllu hjarta, að breyt­ing verði á þessum fram­kvæmd­arplönum og ein helsta og fal­leg­asta nátt­úruperla Íslands fái ennþá að lifa. Þetta er ekki aft­ur­kræft,“ skrifar Erna Guðný Ara­dótt­ir.

„Í guð­anna bænum ekki láta slík nátt­úru­spjöll eiga sér stað. Fjaran og allt nærum­hverfi hennar er raun­veru­lega einn feg­ursti staður á jarð­rík­i,“ skrifar Helgi Hrafn Jóns­son.

„Ég á margar minn­ingar um að ganga með pabba mínum lít­inn stíg með­fram hinu græna og til­komu­mikla Reyn­is­fjalli, fram­hjá gömlum kofum úr torfi niður á fjör­una. Þar var leikið sér í svörtum sand­in­um, horft á lundana og dáðst að hinum ein­stöku Reyn­is­dröng­um. Ég get varla lýst harm­inum í hjarta mínu yfir þessum áætl­un­um,“ skrifar Ólöf Helga Adolfs­dótt­ir.

Um þrjú hund­ruð ábend­ingar og athuga­semdir frá ein­stak­lingum bár­ust Vega­gerð­inni við drög að til­lögu að mats­á­ætlun varð­andi færslu hring­veg­ar­ins um Mýr­dal. Innan við tíu þeirra eru frá fólki sem styður þann val­kost að færa veg­inn niður að sjónum og í gegnum göng í Reyn­is­fjalli líkt og sveit­ar­stjórn stefnir að sam­kvæmt aðal­skipu­lagi. Þetta er einnig sú leið sem Vega­gerðin hefur sett á odd­inn þó fjallað sé um aðrar veg­línur í drög­un­um, m.a. þá að betrumbæta núver­andi veg, taka af honum helstu beygjur og brött­ustu brekkur og breyta vegstæði að hluta.

Auglýsing

Í inn­gangi skýrslu­drag­anna seg­ir: „Áformað er að færa hring­veg um Mýr­dal. Í stað þess að veg­ur­inn liggi um Gatna­brún og í gegnum þétt­býlið á Vík er stefnt að því að færa veg­inn þannig að hann liggi suður fyrir Geita­fjall, með­fram Dyr­hóla­ósi og í gegnum Reyn­is­fjall í jarð­göngum sunn­ar­lega í fjall­inu. Veg­ur­inn myndi svo liggja sunnan við Vík og tengj­ast núver­andi vegi austan við byggð­ina.“

Drög að mats­á­ætlun eru fyrsti fasi í umhverf­is­mats­ferli fram­kvæmd­ar. Brugð­ist verður við umsögnum og athuga­semdum í næsta skrefi, til­lögu að mats­á­ætlun sem send verður til Skipu­lags­stofn­unar til aug­lýs­ing­ar.

Í drög­un­um, sem lágu frammi til kynn­ingar í des­em­ber og fram í byrjun febr­ú­ar, kemur fram að ráð sé gert fyrir kynn­ingu á mats­skýrslu, einu síð­asta skrefi ferl­is­ins, þegar í haust og að álit Skipu­lags­stofn­unar á henni liggi fyrir í mars á næsta ári. Þá er reiknað með að fram­kvæmdir hefj­ist síðla það ár, þ.e. 2022.

Í umhverf­is­mati fram­kvæmda er á nokkrum stigum gert ráð fyrir athuga­semdum frá stofn­un­um, sam­tökum og almenn­ingi. Oft­sinnis hefur verið gagn­rýnt að þær komi fram of seint í ferl­inu, þegar búið er að verja miklum fjár­munum til und­ir­bún­ings. Fram­kvæmda­leyfi í mats­skyldum fram­kvæmdum er þó aldrei gefið út fyrr en að álit Skipu­lags­stofn­unar liggur fyr­ir.

Í drögum að matsáætlun Vegagerðarinnar er fjallað um nokkra valkosti við legu vegarins.
VSÓ ráðgjöf

Í þessu til­viki er staðan önn­ur. Hund­ruð manna auk stofn­ana og sam­taka gera athuga­semdir og koma með marg­vís­legar ábend­ingar til fram­kvæmda­að­il­ans. Fjöld­ann má að ein­hverju rekja til þess að Vega­gerðin opn­aði vefsjá um verk­efnið þar sem hægt var að senda inn athuga­semdir og nýttu margir sér þá leið.

Þetta telja margir sem senda inn ábend­ingar til mik­illa bóta, þ.e. hversu auð­velt er að koma á fram­færi skoð­unum sínum á hinni áform­uðu fram­kvæmd. Tölu­verður fjöldi útlend­inga, ýmist fólk sem hingað hefur komið og jafn­vel heim­sótt þær slóðir sem yrðu innan fram­kvæmda­svæð­is­ins, eða fólk sem hefur dálæti á Íslandi eða nátt­úr­unni yfir­leitt, sendi inn athuga­semd­ir. Nokkrar þeirra eru sam­hljóma en aðrar ítar­legri og byggðar á per­sónu­legum kynnum fólks af Mýr­dal og næsta nágrenni.

Margir land­eig­endur á svæð­inu setja fram gagn­rýni á hug­mynd­ina en sumir eru henni fylgj­andi. Ferða­þjón­ustu­bænd­ur, sum­ar­húsa­eig­endur og annað fólk sem á ættir að rekja til svæð­is­ins beina fjölda ábend­inga og athuga­semda til Vega­gerð­ar­inn­ar. Ljóst er að margir hafa sterkar taugar til Mýr­dals­ins. „Að sitja í fjör­unni með barna­börnum að leik, hlaup­andi frjáls um strönd­ina og byggja sand­kast­ala og hoppa fram af mel­gres­inu og kút­velt­ast niður í fjöru væri ein­fald­lega ekki í boði leng­ur,“ skrifar Stein­grímur Jón Þórð­ar­son. „Ef þarna ætti að koma þjóð­vegur útúr Reyn­is­fjalli þvert yfir þessa para­dís væri verið að eyði­leggja allt sem teng­ist þess­ari upp­lifun, hún væri ein­fald­lega ónýt að öllu leyt­i.“

Sumir benda á aðra kosti, aðra mögu­leika, hættu á skriðu­föll­um, bæði grjót­hruni og snjó­flóð­um, og leggja jafn­vel til að veg­ur­inn verði lagður í stokk í gegnum Vík­ur­þorp eða á hæstu hæðum núver­andi vegar til að ná mark­miðum um umferð­ar­ör­yggi. Aðrir leggja áherslu á að hugað verði að hinu ein­staka dýra­lífi sem þarna er að finna sem og háu vernd­ar­gildi svæð­is­ins. Minnt er á að sá ára­tugur sem við stöndum á er til­eink­aður end­ur­heimt vist­kerfa hjá Sam­ein­uðu þjóð­un­um.

Gráti næst

Margir hafa lagt mikla vinnu í athuga­semd­irn­ar. Birta ljós­myndir og teikn­ingar og vitna í heim­ild­ir. Rifja upp ævin­týra­lega tíma úr bernsku eða horfa til fram­tíðar og kom­andi kyn­slóða. Krist­ján Helgi Olsen Ævars­son segir til­hugs­un­ina um færslu veg­ar­ins svo hrylli­lega að hann sé gráti næst. „Fjöl­skylda mín hefur átt lítið hús í Vík í hátt í heila öld, eða síðan langafi minn byggði það. Húsið stendur rétt við hlíðar Reyn­is­fjalls og er með nálæg­ustu húsum við fjör­una. Mikið inni­lega vona ég að betri lausn verði fundin á mál­in­u.“

Aðrir koma sér beint að kjarna máls­ins í styttri athuga­semd­um. „Að grafa göng undir Reyn­is­fjall og færa veg­inn sunnar og í gegnum Vík­ur­fjöru er nú meiri vit­leysan hjá ykk­ur,“ skrifar Hákon J. Helga­son. „Hættið þessu rugli,“ skrifar ann­ar.

Horft út yfir Dyrhólaós. Nokkrir valkostir, auk skipulagslínu sveitarfélagsins, gera ráð fyrir veginum við eða í ósnum.

Ógæfu­spor, umhverf­isslys, glapræði, van­virð­ing, ábyrgð­ar­leysi. Þetta eru meðal þeirra orða sem eru notuð um fyr­ir­ætl­an­irn­ar. Hug­myndin er einnig sögð hættu­leg, óskyn­sam­leg og óþörf. Einn kallar hana „óskapn­að“. Talað er um „að­för­ina að Mýr­daln­um“ og bent á að núver­andi vegur geti vart talist fjall­vegur á íslenskan mæli­kvarða. Frekar ætti að huga að brýnni sam­göngu­verk­efn­um. „Veg­ur­inn norðan Geita­fjalls er mest í um 60 metra hæð,“ benda þrír land­eig­endur í Mýr­dal á í sinni athuga­semd. „Það er svipað og hæð Öskju­hlíð­ar. Að sama skapi liggur Hring­veg­ur­inn um Skeifna­dal milli Reyn­is­fjalls og Höttu í 120 metra hæð, sem er sama hæð og Hörðukór í Kópa­vogi liggur í.“

Fólk hefur einnig áhyggjur af hljóð­meng­un, ljós­meng­un, hraða, sand­foki, hvass­viðri, land­broti og sjón­meng­un. „Þetta mun hafa gríð­ar­leg áhrif á ásýnd Vík­ur, og vinna gegn því sem laðar fólk að staðnum í dag,“ skrifa Guð­rún Pét­urs­dótt­ir, stjórn­ar­for­maður Rann­sókn­ar­mið­stöðvar ferða­mála og Anna Dóra Sæþórs­dótt­ir, pró­fessor í ferða­mála­fræði og deild­ar­for­seti líf- og umhverf­is­vís­inda­deildar Háskóla Íslands. „Við viljum vekja athygli á því að áform um að leggja hring­veg­inn milli þorps og strandar við Vík í Mýr­dal mun vega beint að hags­munum sam­fé­lags­ins sem ferða­manna­stað­ar.“

Auglýsing

Eig­endur helm­ings hlutar í tveimur jörðum í Mýr­dalnum eru í hópi þeirra sem vilja nýja veg­línu því sú gamla sé „bara til þess að sprengja sam­fé­lagið – burt­fluttir gegn heima­mönn­um“.

Helgi Eysteins­son er á annarri skoðun og telur hug­myndir um nýjan veg einmitt hafa valdið klofn­ingi í sam­fé­lag­inu.

Gamli veg­ur­inn og hinn nýi kljúfa jarðir

Birna Pét­urs­dótt­ir, fjár­bóndi á Gilj­um, segir núver­andi veg kljúfa bæði beit­ar- og rækt­ar­land sitt og skapa stór­hættu fyrir veg­far­endur og bænd­ur. Því styðji hún áform um færslu hans. Fjöl­skyldan eigi jörð sem nái fram í Dyr­hóla­ós. Það myndi að hennar mati „ekki skemma neitt land­ið“ að fara með veg­inn yfir ósinn.

Annar bóndi, Jak­obína Elsa Ragn­ars­dóttir á bænum Görð­um, segir nýja veg­inn hins vegar munu skipta hennar jörð í tvennt. Hún hefur áhyggjur af sjón­rænum áhrifum nýs vegar og telur að hann myndi eyði­leggja nátt­úrupara­dís og hafa nei­kvæð áhrif á fugla­líf­ið.

Gunnar Gunn­ars­son telur fram­kvæmd­ina þarfa og löngu tíma­bæra. En hann seg­ist líka skilja að málið sé mörgum „við­kvæmt við­fangs vegna nátt­úru­fars“ og að það sé ástæða þess að „alda athuga­semda sem mæla fram­kvæmd­inni í mót“ hafi ris­ið. Hann leggur til að á þeim köflum veg­ar­ins sem kunna að reyn­ast við­kvæmir fyrir fugla og mann­líf verði komið fyrir „sterkum hraða­tak­mörk­un­um“.

Dyrhólaósinn er áfangastaður tuga fuglategunda á ýmsum tímum árs.
Jóhann Óli Hilmarsson

„Ég hef búið í Vík í ell­efu ár og ætla mér að búa þar til fram­tíð­ar,“ skrifar Krist­ina Hajnikova sem telur að færsla veg­ar­ins myndi hafa „gríð­ar­lega“ nei­kvæð áhrif. „Sem mann­eskja af erlendum upp­runa get ég ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu ein­stök nátt­úra Íslands er miðað við ann­ars staðar í Evr­ópu.“

Þórir Kjart­ans­son, annar íbúi í Vík, telur að umhverf­is­á­hrifin af því að færa veg­inn yrðu „sára­lít­il“ og bendir á að hinar dýr­mætu sjáv­ar­leirur sem fólki sé tíð­rætt um séu mjög oft á kafi í vatni og á mörk­unum að geta kall­ast sjáv­ar­leir­ur. Hann getur þess í athuga­semd sinni að hann sé fugla­ljós­mynd­ari og hafi fylgst með fugla­lífi í Mýr­dal í marga ára­tugi. „Áhrif á vot­lendi eru nán­ast engin þar sem mest allt gras­lendi í vegstæð­inu hefur verið grafið og þurrkað fyrir ára­tug­um.“

Jóhann Óli Hilm­ars­son, þekktur fugla­ljós­mynd­ari og fugla­fræð­ing­ur, er á önd­verðum meiði. Í athuga­semd sinni rifjar hann upp rann­sókn sem hann gerði á fugla­lífi í Dyr­hóla­ósi árið 2013 og bendir á, líkt og fleiri, að „snyrti­lega“ hafi verið „skautað fram­hjá“ henni í drögum Vega­gerð­ar­innar að mats­á­ætlun fram­kvæmd­ar­inn­ar. Rann­sókn hans bendir m.a. til að veg­ar­stæði með bökkum óss­ins gæti haft var­an­leg og skað­leg áhrif á fugla­líf.

Álftir á Dyrhólaósi. Reynisdrangar í baksýn.
Jóhann Óli Hilmarsson

Guð­mundur Ágúst Sæmunds­son skrifar í sinni athuga­semd að hann sé almennt á því að heima­fólk eigi að hafa sem mest um mál síns svæðis að segja „en ef van­inn hefur blindað fólki sýn á sér­stöðu þess sem í kringum það er þá verða utan­að­kom­andi að hafa ráð til að afstýra umhverf­isslys­um.“ Hann spyr einnig spurn­inga á borð við hvernig tryggja eigi umferð­ar­ör­yggi þar sem fyr­ir­hugað er að göngin opn­ist „í miðri nátt­úruparadís“ – á „miðju úti­vist­ar­svæði“ og seg­ist vona að yfir­völdum beri gæfu til að „af­stýra þeim nátt­úru­spjöllum sem fyr­ir­huguð eru“.

Pétur J. Geirs­son arki­tekt segir hin fyr­ir­hug­uðu áform hafa valdið ugg hjá mörgum og ekki að ósekju. Fjaran og þorpið séu sam­stæð heild sem yrði rofin með lagn­ingu þjóð­veg­ar. Hann seg­ist almennt hlynntur fram­kvæmdum en þó geti hann „engan veg­inn“ stutt þau áform að færa veg­inn að strönd­inni. Það sé van­hugsað og yrði „hreint skemmd­ar­verk“. Hann geti ekki „setið hljóður hjá“.

Mynd sem Pétur Geirsson arkitekt lætur fylgja athugasemd sinni og sýnir að hans sögn í grófum dráttum stærð og staðsetningu gangnamunnanna samkvæmt skiplagslínu og valkosti 1b, ásamt vegstæðum sem tengjast þessum jarðgöngum.
Pétur J. Geirsson

Stein­þór Vig­fús­son og Mar­grét Harð­ar­dóttir skrifa að aðdrag­andi þess að veg­lína með sjónum og í jarð­göngum var sett á aðal­skipu­lag hafi verið „herfi­legt dæmi um mis­beit­ingu“ skipu­lags­valds. Þau rifja upp að flestir umsagn­ar­að­il­ar, m.a. Umhverf­is­stofn­un, hafi verið á móti þeirri veg­línu. „Hópur fólks í Mýr­dal ein­setti sér að koma þess­ari umdeildu veg­línu inn í aðal­skipu­lag hvað sem það kost­aði og sama hvað eða hver þyrfti undan að láta á þeirri leið.“

Vig­dís Eva Stein­þórs­dóttir segir að taka þurfi til­lit til fólks sem búi í hinum eig­in­lega Mýr­dal, „ekki bara fólks­ins í Vík. Ég hvet Vega­gerð­ina til að skoða þær leiðir sem raska minnst nátt­úru og friði í sam­fé­lag­in­u.“

Reynisfjara er eitt þeirra jarðvætta sem er innan Kötlu jarðvangs. Mynd: Pexels

Björn Georg Björns­son bendir líkt og fleiri á að Vík­ur­fjara hafi á sínum tíma verið valin ein af feg­urstu fjörum heims í tíma­rit­inu National Geograp­hic. „Ferða­menn koma til þess að sjá og hlusta á brimið – ekki bílagný,“ skrifar Elín Tóm­as­dótt­ir.

Sig­rún Sæv­ars­dóttir Griffiths, sem á ættir að rekja til svæð­is­ins og hefur dvalið þar árlega frá unga aldri, seg­ist aldrei hafa tekið áformum um færslu veg­ar­ins alvar­lega þar sem hún hélt „að hér hlyti að vera um grín að ræða“. Hún seg­ist ekki trúa því að Vega­gerðin ætli sér að fara í þessi „óaft­ur­kræfu umhverf­is­spjöll“ og að hún eigi mjög erfitt með að trúa að ekki séu til ein­fald­ari, nátt­úru­vænni og langtum kostn­að­ar­minni mögu­leik­ar. „Mér þykir þessi til­laga alger firra!“

„Mér er tregt um tungu að hræra er ég legg fram mót­mæli vegna fyr­ir­hug­aðra ganga gegnum Reyn­is­fjall,“ skrifar Guð­rún Björk Tóm­as­dótt­ir. „Þetta geri ég í nafni for­feðra minna sem bjuggu í Reyn­is­hólum frá 1865 og í nafni afkom­enda minna. Að gera hrað­braut á þessu sögu­lega svæði þar sem Sveinn Páls­son, nátt­úru­fræð­ingur og læknir alls Suð­ur­lands á sér hvílu­stað – að ekki sé talað um Bað­stofu­helli þar sem Jón Stein­gríms­son bjó fyrst – er gróft skemmd­ar­verk og særir marga.“ Hún bendir einnig á kostn­að­inn og segir verk­efnið „óráðsíu af allra verstu gerð“ Guð­rún mót­mælir áformunum og „yf­ir­gangi gagn­vart grand­vöru fólki sem elskar þetta svæði sem ekki er bara þjóð­ar­ger­semi heldur á heims­mæli­kvarða“.

Auglýsing

Teitur Hjalta­son segir að nú gef­ist frá­bært tæki­færi til þess að „eyði­leggja ekki“ ein­hverja mögn­uð­ustu nátt­úruperlu lands­ins.

Úlfur Alex­ander Ein­ars­son telur víst að kom­andi kyn­slóðir myndu vilja koma í veg fyrir „þetta slys“ sem færsla veg­ar­ins yrði. „Fram­tíðin er að fylgj­ast með og mun ekki fyr­ir­gefa svona lag­að.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar