Pexels

Alda athugasemda við veg um „einn fegursta stað á jarðríki“

Áform um að leggja hringveginn milli þorps og strandar við Vík í Mýrdal mun vega beint að hagsmunum samfélagsins sem ferðamannastaðar, að mati tveggja sérfræðinga í ferðamálum. Aðrir sem gera athugasemdir við áformin segja þau m.a. „gjörsamlega galin“ og „hrein skemmdarverk“ auk þess að vera algjörlega óþörf. „Í guðanna bænum ekki láta slík náttúruspjöll eiga sér stað.“

Ég tel að lagning þjóðvegar milli fjöru og þorps sé afar slæmur kostur og að hér sé um hreint skemmdarverk að ræða með tilheyrandi sjónmengun og náttúruspjöllum,“ skrifar Pétur J. Geirsson arkitekt.

„Nú er árið 2021, við ættum að vera búin að læra að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Við viljum öll góðar samgöngur. Bætum þær með náttúruna, dýrin og fólk í huga,“ skrifar Vigdís Eva Steinþórsdóttir.

„Gjörsamlega galin hugmynd þar sem verið er að skemma stórkostlega fjöru og umhverfi. Einhver mestu náttúruspjöll í sögu landsins ef það verður farið í þessar framkvæmdir,“ skrifar Ívar Björnsson.

„Það verður ekki skilið að hið opinber láti hafa sig í svona ósvinnu, gróf spjöll einstakrar náttúru og sögulegs umhverfis auk hrikalegrar sóunar á almannafé,“ skrifar Hjalti Þórisson.

Reynisdrangar og Víkurfjara  við Vík í Mýrdal Mynd: Pexels

„Ég vona svo innilega, af öllu hjarta, að breyting verði á þessum framkvæmdarplönum og ein helsta og fallegasta náttúruperla Íslands fái ennþá að lifa. Þetta er ekki afturkræft,“ skrifar Erna Guðný Aradóttir.

„Í guðanna bænum ekki láta slík náttúruspjöll eiga sér stað. Fjaran og allt nærumhverfi hennar er raunverulega einn fegursti staður á jarðríki,“ skrifar Helgi Hrafn Jónsson.

„Ég á margar minningar um að ganga með pabba mínum lítinn stíg meðfram hinu græna og tilkomumikla Reynisfjalli, framhjá gömlum kofum úr torfi niður á fjöruna. Þar var leikið sér í svörtum sandinum, horft á lundana og dáðst að hinum einstöku Reynisdröngum. Ég get varla lýst harminum í hjarta mínu yfir þessum áætlunum,“ skrifar Ólöf Helga Adolfsdóttir.

Um þrjú hundruð ábendingar og athugasemdir frá einstaklingum bárust Vegagerðinni við drög að tillögu að matsáætlun varðandi færslu hringvegarins um Mýrdal. Innan við tíu þeirra eru frá fólki sem styður þann valkost að færa veginn niður að sjónum og í gegnum göng í Reynisfjalli líkt og sveitarstjórn stefnir að samkvæmt aðalskipulagi. Þetta er einnig sú leið sem Vegagerðin hefur sett á oddinn þó fjallað sé um aðrar veglínur í drögunum, m.a. þá að betrumbæta núverandi veg, taka af honum helstu beygjur og bröttustu brekkur og breyta vegstæði að hluta.

Auglýsing

Í inngangi skýrsludraganna segir: „Áformað er að færa hringveg um Mýrdal. Í stað þess að vegurinn liggi um Gatnabrún og í gegnum þéttbýlið á Vík er stefnt að því að færa veginn þannig að hann liggi suður fyrir Geitafjall, meðfram Dyrhólaósi og í gegnum Reynisfjall í jarðgöngum sunnarlega í fjallinu. Vegurinn myndi svo liggja sunnan við Vík og tengjast núverandi vegi austan við byggðina.“

Drög að matsáætlun eru fyrsti fasi í umhverfismatsferli framkvæmdar. Brugðist verður við umsögnum og athugasemdum í næsta skrefi, tillögu að matsáætlun sem send verður til Skipulagsstofnunar til auglýsingar.

Í drögunum, sem lágu frammi til kynningar í desember og fram í byrjun febrúar, kemur fram að ráð sé gert fyrir kynningu á matsskýrslu, einu síðasta skrefi ferlisins, þegar í haust og að álit Skipulagsstofnunar á henni liggi fyrir í mars á næsta ári. Þá er reiknað með að framkvæmdir hefjist síðla það ár, þ.e. 2022.

Í umhverfismati framkvæmda er á nokkrum stigum gert ráð fyrir athugasemdum frá stofnunum, samtökum og almenningi. Oftsinnis hefur verið gagnrýnt að þær komi fram of seint í ferlinu, þegar búið er að verja miklum fjármunum til undirbúnings. Framkvæmdaleyfi í matsskyldum framkvæmdum er þó aldrei gefið út fyrr en að álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir.

Í drögum að matsáætlun Vegagerðarinnar er fjallað um nokkra valkosti við legu vegarins.
VSÓ ráðgjöf

Í þessu tilviki er staðan önnur. Hundruð manna auk stofnana og samtaka gera athugasemdir og koma með margvíslegar ábendingar til framkvæmdaaðilans. Fjöldann má að einhverju rekja til þess að Vegagerðin opnaði vefsjá um verkefnið þar sem hægt var að senda inn athugasemdir og nýttu margir sér þá leið.

Þetta telja margir sem senda inn ábendingar til mikilla bóta, þ.e. hversu auðvelt er að koma á framfæri skoðunum sínum á hinni áformuðu framkvæmd. Töluverður fjöldi útlendinga, ýmist fólk sem hingað hefur komið og jafnvel heimsótt þær slóðir sem yrðu innan framkvæmdasvæðisins, eða fólk sem hefur dálæti á Íslandi eða náttúrunni yfirleitt, sendi inn athugasemdir. Nokkrar þeirra eru samhljóma en aðrar ítarlegri og byggðar á persónulegum kynnum fólks af Mýrdal og næsta nágrenni.

Margir landeigendur á svæðinu setja fram gagnrýni á hugmyndina en sumir eru henni fylgjandi. Ferðaþjónustubændur, sumarhúsaeigendur og annað fólk sem á ættir að rekja til svæðisins beina fjölda ábendinga og athugasemda til Vegagerðarinnar. Ljóst er að margir hafa sterkar taugar til Mýrdalsins. „Að sitja í fjörunni með barnabörnum að leik, hlaupandi frjáls um ströndina og byggja sandkastala og hoppa fram af melgresinu og kútveltast niður í fjöru væri einfaldlega ekki í boði lengur,“ skrifar Steingrímur Jón Þórðarson. „Ef þarna ætti að koma þjóðvegur útúr Reynisfjalli þvert yfir þessa paradís væri verið að eyðileggja allt sem tengist þessari upplifun, hún væri einfaldlega ónýt að öllu leyti.“

Sumir benda á aðra kosti, aðra möguleika, hættu á skriðuföllum, bæði grjóthruni og snjóflóðum, og leggja jafnvel til að vegurinn verði lagður í stokk í gegnum Víkurþorp eða á hæstu hæðum núverandi vegar til að ná markmiðum um umferðaröryggi. Aðrir leggja áherslu á að hugað verði að hinu einstaka dýralífi sem þarna er að finna sem og háu verndargildi svæðisins. Minnt er á að sá áratugur sem við stöndum á er tileinkaður endurheimt vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum.

Gráti næst

Margir hafa lagt mikla vinnu í athugasemdirnar. Birta ljósmyndir og teikningar og vitna í heimildir. Rifja upp ævintýralega tíma úr bernsku eða horfa til framtíðar og komandi kynslóða. Kristján Helgi Olsen Ævarsson segir tilhugsunina um færslu vegarins svo hryllilega að hann sé gráti næst. „Fjölskylda mín hefur átt lítið hús í Vík í hátt í heila öld, eða síðan langafi minn byggði það. Húsið stendur rétt við hlíðar Reynisfjalls og er með nálægustu húsum við fjöruna. Mikið innilega vona ég að betri lausn verði fundin á málinu.“

Aðrir koma sér beint að kjarna málsins í styttri athugasemdum. „Að grafa göng undir Reynisfjall og færa veginn sunnar og í gegnum Víkurfjöru er nú meiri vitleysan hjá ykkur,“ skrifar Hákon J. Helgason. „Hættið þessu rugli,“ skrifar annar.

Horft út yfir Dyrhólaós. Nokkrir valkostir, auk skipulagslínu sveitarfélagsins, gera ráð fyrir veginum við eða í ósnum.

Ógæfuspor, umhverfisslys, glapræði, vanvirðing, ábyrgðarleysi. Þetta eru meðal þeirra orða sem eru notuð um fyrirætlanirnar. Hugmyndin er einnig sögð hættuleg, óskynsamleg og óþörf. Einn kallar hana „óskapnað“. Talað er um „aðförina að Mýrdalnum“ og bent á að núverandi vegur geti vart talist fjallvegur á íslenskan mælikvarða. Frekar ætti að huga að brýnni samgönguverkefnum. „Vegurinn norðan Geitafjalls er mest í um 60 metra hæð,“ benda þrír landeigendur í Mýrdal á í sinni athugasemd. „Það er svipað og hæð Öskjuhlíðar. Að sama skapi liggur Hringvegurinn um Skeifnadal milli Reynisfjalls og Höttu í 120 metra hæð, sem er sama hæð og Hörðukór í Kópavogi liggur í.“

Fólk hefur einnig áhyggjur af hljóðmengun, ljósmengun, hraða, sandfoki, hvassviðri, landbroti og sjónmengun. „Þetta mun hafa gríðarleg áhrif á ásýnd Víkur, og vinna gegn því sem laðar fólk að staðnum í dag,“ skrifa Guðrún Pétursdóttir, stjórnarformaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði og deildarforseti líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands. „Við viljum vekja athygli á því að áform um að leggja hringveginn milli þorps og strandar við Vík í Mýrdal mun vega beint að hagsmunum samfélagsins sem ferðamannastaðar.“

Auglýsing

Eigendur helmings hlutar í tveimur jörðum í Mýrdalnum eru í hópi þeirra sem vilja nýja veglínu því sú gamla sé „bara til þess að sprengja samfélagið – burtfluttir gegn heimamönnum“.

Helgi Eysteinsson er á annarri skoðun og telur hugmyndir um nýjan veg einmitt hafa valdið klofningi í samfélaginu.

Gamli vegurinn og hinn nýi kljúfa jarðir

Birna Pétursdóttir, fjárbóndi á Giljum, segir núverandi veg kljúfa bæði beitar- og ræktarland sitt og skapa stórhættu fyrir vegfarendur og bændur. Því styðji hún áform um færslu hans. Fjölskyldan eigi jörð sem nái fram í Dyrhólaós. Það myndi að hennar mati „ekki skemma neitt landið“ að fara með veginn yfir ósinn.

Annar bóndi, Jakobína Elsa Ragnarsdóttir á bænum Görðum, segir nýja veginn hins vegar munu skipta hennar jörð í tvennt. Hún hefur áhyggjur af sjónrænum áhrifum nýs vegar og telur að hann myndi eyðileggja náttúruparadís og hafa neikvæð áhrif á fuglalífið.

Gunnar Gunnarsson telur framkvæmdina þarfa og löngu tímabæra. En hann segist líka skilja að málið sé mörgum „viðkvæmt viðfangs vegna náttúrufars“ og að það sé ástæða þess að „alda athugasemda sem mæla framkvæmdinni í mót“ hafi risið. Hann leggur til að á þeim köflum vegarins sem kunna að reynast viðkvæmir fyrir fugla og mannlíf verði komið fyrir „sterkum hraðatakmörkunum“.

Dyrhólaósinn er áfangastaður tuga fuglategunda á ýmsum tímum árs.
Jóhann Óli Hilmarsson

„Ég hef búið í Vík í ellefu ár og ætla mér að búa þar til framtíðar,“ skrifar Kristina Hajnikova sem telur að færsla vegarins myndi hafa „gríðarlega“ neikvæð áhrif. „Sem manneskja af erlendum uppruna get ég ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu einstök náttúra Íslands er miðað við annars staðar í Evrópu.“

Þórir Kjartansson, annar íbúi í Vík, telur að umhverfisáhrifin af því að færa veginn yrðu „sáralítil“ og bendir á að hinar dýrmætu sjávarleirur sem fólki sé tíðrætt um séu mjög oft á kafi í vatni og á mörkunum að geta kallast sjávarleirur. Hann getur þess í athugasemd sinni að hann sé fuglaljósmyndari og hafi fylgst með fuglalífi í Mýrdal í marga áratugi. „Áhrif á votlendi eru nánast engin þar sem mest allt graslendi í vegstæðinu hefur verið grafið og þurrkað fyrir áratugum.“

Jóhann Óli Hilmarsson, þekktur fuglaljósmyndari og fuglafræðingur, er á öndverðum meiði. Í athugasemd sinni rifjar hann upp rannsókn sem hann gerði á fuglalífi í Dyrhólaósi árið 2013 og bendir á, líkt og fleiri, að „snyrtilega“ hafi verið „skautað framhjá“ henni í drögum Vegagerðarinnar að matsáætlun framkvæmdarinnar. Rannsókn hans bendir m.a. til að vegarstæði með bökkum óssins gæti haft varanleg og skaðleg áhrif á fuglalíf.

Álftir á Dyrhólaósi. Reynisdrangar í baksýn.
Jóhann Óli Hilmarsson

Guðmundur Ágúst Sæmundsson skrifar í sinni athugasemd að hann sé almennt á því að heimafólk eigi að hafa sem mest um mál síns svæðis að segja „en ef vaninn hefur blindað fólki sýn á sérstöðu þess sem í kringum það er þá verða utanaðkomandi að hafa ráð til að afstýra umhverfisslysum.“ Hann spyr einnig spurninga á borð við hvernig tryggja eigi umferðaröryggi þar sem fyrirhugað er að göngin opnist „í miðri náttúruparadís“ – á „miðju útivistarsvæði“ og segist vona að yfirvöldum beri gæfu til að „afstýra þeim náttúruspjöllum sem fyrirhuguð eru“.

Pétur J. Geirsson arkitekt segir hin fyrirhuguðu áform hafa valdið ugg hjá mörgum og ekki að ósekju. Fjaran og þorpið séu samstæð heild sem yrði rofin með lagningu þjóðvegar. Hann segist almennt hlynntur framkvæmdum en þó geti hann „engan veginn“ stutt þau áform að færa veginn að ströndinni. Það sé vanhugsað og yrði „hreint skemmdarverk“. Hann geti ekki „setið hljóður hjá“.

Mynd sem Pétur Geirsson arkitekt lætur fylgja athugasemd sinni og sýnir að hans sögn í grófum dráttum stærð og staðsetningu gangnamunnanna samkvæmt skiplagslínu og valkosti 1b, ásamt vegstæðum sem tengjast þessum jarðgöngum.
Pétur J. Geirsson

Steinþór Vigfússon og Margrét Harðardóttir skrifa að aðdragandi þess að veglína með sjónum og í jarðgöngum var sett á aðalskipulag hafi verið „herfilegt dæmi um misbeitingu“ skipulagsvalds. Þau rifja upp að flestir umsagnaraðilar, m.a. Umhverfisstofnun, hafi verið á móti þeirri veglínu. „Hópur fólks í Mýrdal einsetti sér að koma þessari umdeildu veglínu inn í aðalskipulag hvað sem það kostaði og sama hvað eða hver þyrfti undan að láta á þeirri leið.“

Vigdís Eva Steinþórsdóttir segir að taka þurfi tillit til fólks sem búi í hinum eiginlega Mýrdal, „ekki bara fólksins í Vík. Ég hvet Vegagerðina til að skoða þær leiðir sem raska minnst náttúru og friði í samfélaginu.“

Reynisfjara er eitt þeirra jarðvætta sem er innan Kötlu jarðvangs. Mynd: Pexels

Björn Georg Björnsson bendir líkt og fleiri á að Víkurfjara hafi á sínum tíma verið valin ein af fegurstu fjörum heims í tímaritinu National Geographic. „Ferðamenn koma til þess að sjá og hlusta á brimið – ekki bílagný,“ skrifar Elín Tómasdóttir.

Sigrún Sævarsdóttir Griffiths, sem á ættir að rekja til svæðisins og hefur dvalið þar árlega frá unga aldri, segist aldrei hafa tekið áformum um færslu vegarins alvarlega þar sem hún hélt „að hér hlyti að vera um grín að ræða“. Hún segist ekki trúa því að Vegagerðin ætli sér að fara í þessi „óafturkræfu umhverfisspjöll“ og að hún eigi mjög erfitt með að trúa að ekki séu til einfaldari, náttúruvænni og langtum kostnaðarminni möguleikar. „Mér þykir þessi tillaga alger firra!“

„Mér er tregt um tungu að hræra er ég legg fram mótmæli vegna fyrirhugaðra ganga gegnum Reynisfjall,“ skrifar Guðrún Björk Tómasdóttir. „Þetta geri ég í nafni forfeðra minna sem bjuggu í Reynishólum frá 1865 og í nafni afkomenda minna. Að gera hraðbraut á þessu sögulega svæði þar sem Sveinn Pálsson, náttúrufræðingur og læknir alls Suðurlands á sér hvílustað – að ekki sé talað um Baðstofuhelli þar sem Jón Steingrímsson bjó fyrst – er gróft skemmdarverk og særir marga.“ Hún bendir einnig á kostnaðinn og segir verkefnið „óráðsíu af allra verstu gerð“ Guðrún mótmælir áformunum og „yfirgangi gagnvart grandvöru fólki sem elskar þetta svæði sem ekki er bara þjóðargersemi heldur á heimsmælikvarða“.

Auglýsing

Teitur Hjaltason segir að nú gefist frábært tækifæri til þess að „eyðileggja ekki“ einhverja mögnuðustu náttúruperlu landsins.

Úlfur Alexander Einarsson telur víst að komandi kynslóðir myndu vilja koma í veg fyrir „þetta slys“ sem færsla vegarins yrði. „Framtíðin er að fylgjast með og mun ekki fyrirgefa svona lagað.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar